Sigurður Hreiðar rifjar upp minningar

medanegman

Meðan ég man er heiti á nýrri bók eftir Sigurð Hreiðar. Eins og nafnið bendir til rifjar hann þar upp ýmsar minningar frá langri ævi.
Um tilurð bókarinnar segir hann að oft hafi verið imprað á því við hann að skrifa ævisögu sína. „Ef ég gerði það er viðbúið að einhverjum þætti þar að sér vegið,” segir hann. En hann hefur í gegnum tíðina birt ýmsar glefsur frá liðinni ævi, bæði í tímaritum og á Facebook. „Þegar svo nýprentað kver sem mér þótti fallegt barst mér í hendur skömmu eftir áttræðisafmælið í vor fór ég að hugsa: Svona bók gæti ég hugsað mér að búa til. Ætli ég kunni enn að beita umbrotsforritinu sem ég notaði löngum meðan ég taldist enn vinnandi maður? – Ég fór að smala saman þessum glefsum, vinsa úr þeim og tengja með nýjum þannig að úr yrði sæmilega samheilt safn einnar mannsævi án þess að vera beint ævisaga. Ég ákvað að gefa bókina út sjálfur í takmörkuðu upplagi og selja hana bara sjálfur, einkum gegnum Fésbók.“

Sigurður er innfæddur Mosfellingur og hefur átt heima í Mosfellsbæ megnið af ævinni. Bókin er 216 blaðsíður og kostar 2.500 krónur.