Bestu hrútarnir í sveitinni

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Hrútar frá Kiðafelli, Miðdal, Mora­stöðum og Reykjum. Nánar um úrslit á www.mosfellingur.is

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Guðbrandur  Sigurbergsson með Sprengisand frá Kiðafelli, Hafþór Finnbogason með Tralla frá Miðdal, Orri Snorrason með Öl frá Morastöðum og Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir með hrútinn Skeggja frá Reykjum.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram mánudaginn 15. október. Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum og fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Hrúturinn Ölur bar sigur úr býtum en hann er í eigu Orra og Maríu á Morastöðum sem hlutu því hinn eftirsótta hreppaskjöld. Í umsögn dómara er Ölur sagður jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann. Að sögn Maríu er galdurinn að rækta hrútana vel og setja einungis þá bestu undir, þá endar með því að maður uppsker. „Það skiptir mjög miklu máli að eiga góða hrúta, enda eiga þeir flestu afkvæmin,“ segir María.

Úrslit hrútasýningarinnar:

lamb

Kollóttir lambhrútar í efstu sætunum allir frá Kiðafelli.

Kollóttir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 18 frá Kiðafelli. 87,5 stig. Gríðargóður og vænn, 67 kg með 32 mm bakvöðva.
2. sæti – Lamb nr. 3 frá Kiðafelli. 85 stig. Vænn hrútur.
3. sæti – Lamb nr. 14 frá Kiðafelli. 87 stig. Vænn hrútur.

Mislitir lambhrútar
1. sæti – Svartur hrútur frá Morastöðum. 85 stig. Lítill en vel gerður og með bestu læraholdin.
2. sæti – Mórauður hrútur frá Þórunni á Hraðastöðum. 85,5 stig. Fallegur hrútur með góðan bakvöðva.
3. sæti – Svartflekkóttur hrútur frá Reyni Hólm í Víði. 84,5 stig. Vænn hrútur.

Hyrndir hvítir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 885 frá Morastöðum. 86,5 stig. Holdaköggull og pakkaður af kjöti.
2. sæti – Lamb nr. 328 frá Kiðafelli. 86,5 stig. Jafngóður hrútur fyrir alla þætti.
3. sæti – Lamb nr. 9 frá Kiðafelli. 86 stig. Vænn 64 kg hrútur, langur með góða ull.
4. sæti – Lamb nr. 442 frá Miðdal. 85,5 stig.

Veturgamlir hrútar
1. sæti – Ölur frá Morastöðum. Hvítur, hyrndur. 85 stig. Jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann.
2. sæti – Tralli frá Miðdal. Hvítur, kollóttur. 86 stig. Þéttur hrútur með góð læri og malir.
3. sæti – Skeggi frá Reykjum. Grár, hyrndur. 85 stig. Jafnöflugur hrútur með góðar malir og læri.
4. sæti – Sprengisandur frá Kiðafelli. Svartur, hyrndur. 85,5 stig.

Gaman er að segja frá því að sigurvegarinn í Veturgamla flokknum, Ölur frá Morastöðum, er faðir lambs nr 885 frá Morastöðum sem stóð efstur í flokki hyrndra hvítra lambhrúta.

Jákvætt fólk

Heilsumolar_Gaua_18okt

Ég var umkringdur jákvæðu fólki um helgina. Fólki sem á það sameiginlegt að hafa áhuga á heilsuhreysti, hreyfingu, mis­alvarlegum keppnum og hressandi útiveru. Þegar svona hópur er saman myndast sterk og jákvæð orka. Orka sem maður hleður inn á kerfið og endist manni lengi. Við þurfum öll að passa upp á að fá svona orkuinnspýtingu reglulega, það gefur manni svo mikið.

Ég náði að vera í núinu nánast alla helgina, vissi lítið hvað var að gerast í heiminum. Var ekkert að skoða eða fylgjast með fréttum. Og það var líka orkugefandi. Fréttir eru í langflestum tilfellum neikvæðar og soga frekar frá manni orku en að bæta á tankinn. Örstutt rennsli yfir stærstu íslensku fréttamiðlana þegar þessi moli er skrifaður staðfestir það. Helst í fréttum er fjársvikamál, dreifing heróíns, 330 milljóna umframkostnaður, afsögn framvæmdastjóra, Hrunið og gíslataka á lestarstöð. Jákvæða frétt dagsins er að Megan og Harry eiga von á barni. Til hamingju með það, kæru hjón.

Helgin góða og sú jákvæða orka sem þar myndaðist fékk mig til að hugsa hvernig ég gæti búið til fleiri svona stundir og fækkað þeim dögum sem ég leyfi orkukrefjandi áreiti að ná til mín. Ég er með ýmsar hugmyndir í kollinum og stefni á að koma þeim í framkvæmd, fyrr en síðar. Lífið er of stutt fyrir neikvæðni og áhyggjur. Lykilatriði í svona ferli er að hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Upplifa tilgang. Að það sem maður gerir skipti einhverju máli, fyrir sjálfan mann og aðra. Þá hefur maður ekki tíma í að lúslesa vefsíður og samfélagsmiðla og velta sér upp úr vandamálum sem maður hefur ekkert með að gera. Að lokum vil ég mæla með skriðsundsnámskeiði Dodda – þið finnið það á Facebook – ég nánast óskriðsyndur fyrir námskeiðið synti án erfiðleika mörg hundruð skriðsundmetra um helgina og blés varla úr nös.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. október 2018

Sigurður Hreiðar rifjar upp minningar

medanegman

Meðan ég man er heiti á nýrri bók eftir Sigurð Hreiðar. Eins og nafnið bendir til rifjar hann þar upp ýmsar minningar frá langri ævi.
Um tilurð bókarinnar segir hann að oft hafi verið imprað á því við hann að skrifa ævisögu sína. „Ef ég gerði það er viðbúið að einhverjum þætti þar að sér vegið,” segir hann. En hann hefur í gegnum tíðina birt ýmsar glefsur frá liðinni ævi, bæði í tímaritum og á Facebook. „Þegar svo nýprentað kver sem mér þótti fallegt barst mér í hendur skömmu eftir áttræðisafmælið í vor fór ég að hugsa: Svona bók gæti ég hugsað mér að búa til. Ætli ég kunni enn að beita umbrotsforritinu sem ég notaði löngum meðan ég taldist enn vinnandi maður? – Ég fór að smala saman þessum glefsum, vinsa úr þeim og tengja með nýjum þannig að úr yrði sæmilega samheilt safn einnar mannsævi án þess að vera beint ævisaga. Ég ákvað að gefa bókina út sjálfur í takmörkuðu upplagi og selja hana bara sjálfur, einkum gegnum Fésbók.“

Sigurður er innfæddur Mosfellingur og hefur átt heima í Mosfellsbæ megnið af ævinni. Bókin er 216 blaðsíður og kostar 2.500 krónur.

Bábiljur og bögur í baðstofunni

Kristín og nemendur hennar,  Dagný, Ída María og Steinunn

Kristín og nemendur hennar, Dagný, Ída María og Steinunn.

Kristín Lárusdóttir, sellókennari við Listaskóla Mosfellsbæjar, stendur fyrir skemmtilegum viðburði í safnaðarheimili Lágafellssóknar sunnudaginn 7. október kl. 17.
„Viðburðinn kalla ég Bábiljur og bögur í baðstofunni og er tilgangurinn að eiga notalega samverustund,“ segir Kristín.
Kristín hefur í gegnum tíðina otað rímnakveðskap að nemendum sínum. Rímur eru mjög merkilegt fyrirbæri og dýrmætur arfur sem við Íslendingar eigum. „Krökkunum finnst þetta hin besta skemmtun og eftir því sem vísurnar verða flóknari og fjölbreyttari í orðaforða, því skemmtilegra finnst þeim. Enda læra þau heilan helling af þessu, verða tunguliprari, fá dýpri skilning á tungumálið sitt og rætur.“

Kveðskapur, ljóð og tónlist
Á viðburðinum þann 7. október verður fjölbreytt dagskrá. Bára Grímsdóttir mun mæta og kveða úr vel völdum rímum. Agnes Wild verður með æsispennandi sögustund. Atli Freyr Hjaltason, ungur Mosfellingur, mun syngja og spila á langspil. Krakkar úr Listaskólanum í Mosfellsbæ munu kveða úr rímum og fara með annan kveðskap, t.d. um Kóngulóna sem á gula skó! Hver vill missa af því?
Hlynur Sævarsson, ungur Mosfellingur, mun lesa ljóð. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir mun flytja örfyrirlestur um kvöldvökurnar á Íslandi. Boðið verður upp á molakaffi og kleinur, frítt inn og allir Mosfellingar hvattir til þess að mæta.

Mikilvægar samgöngubætur fyrir Mosfellinga komnar á samgönguáætlun

sssasd fasd fa sdf

Vesturlandsvegur liggur í gegnum Mosfellsbæ. 

Nú liggur fyrir að tvær mikilvægar samgöngubætur eru komnar á áætlun samkvæmt drögum að samgönguáætlun sem nú liggja fyrir Alþingi.
Samhliða þeirri vinnu rituðu framkvæmdastjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra undir viljayfirlýsingu þann 21. september um að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfðuborgarsvæðinu.
Þær framkvæmdir sem um er að ræða eru annars vegar að ljúka við tvöföldun Vesturlandsvegar þar sem hann liggur í gegnum Mosfellsbæ. Með þeirri framkvæmd mun draga verulega úr þeim umferðateppum sem íbúar Mosfellsbæjar hafa gjarnan orðið fyrir á álagstímum á einum umferðamesta þjóðvegi landsins.
Hins vegar er um að ræða endurbyggingu Þingavallavegar með það að markmiði að auka öryggi vegarins m.a. með gerð tveggja hringtorga auk undirganga. Báðar þessar framkvæmdir eru áætlaðar á fyrsta hluta tímabilsins eða 2019-2023.

Hefja framkvæmdir við borgarlínu 2020
„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Mosfellinga að þessar samgöngubætur séu núna komnar á áætlun enda höfum við unnið jafnt og þétt að því á síðustu árum að tryggja þá niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er líka ánægjulegt að sjá hversu framarlega á áætlunartímabilinu þessar framkvæmdir eru, sem sýnir vel hversu brýnar þær eru.
Þá skiptir ekki síður máli að sameiginleg vinna innan höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu samgangna til næstu 10 ára er nú komin í formlegan farveg.“
Markmið viðræðna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að ná samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingu er talað um að hefja framkvæmdir við það sem heitir hágæða almenningssamgöngur og stundum er nefnt borgarlína árið 2020.

Eyða flöskuhálsum og bæta flæði
Unnið verður að því að eyða flöskuhálsum í umferðinni með því að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi og eru ráðherra og sveitarstjórnarmenn sammála um að bæta almenningssamgöngur. Í yfirlýsingunni segir: „Jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.“
Að loknum viðræðum um ofangreind viðfangsefni er starfshópnum falið að leiða til lykta málefni Sundabrautar undir forystu Hreins Haraldssonar.

Hótel Laxnes 10 ára

Björn Bjarnarson frá kyndli tekur við  höfðinglegri gjöf frá alberti rútssyni

Björn Bjarnarson frá Björgunarsveitinni Kyndli tekur við höfðinglegri gjöf frá Alberti Rútssyni eiganda hótelsins. 

Hótel Laxnes var formlega opn­að í september 2008 að viðstöddu fjölmenni.
Á hótelinu eru 26 herbergi við allra hæfi, þrjár svítur, herbergi með sérinngangi og eldun­araðstöðu auk tveggja stúdíóíbúða fyrir fatlaða á fyrstu hæð.
„Fyrsta skóflustungan var tekin árið 2004 og tók fjögur ár að byggja hótelið, einn nagla í einu,“ segir Albert Rútsson hóteleigandi.
„Þegar ég keypti Áslák á sínum tíma sá ég mikil tækifæri í lóðinni hér í kring. Fólk hélt auðvitað að ég væri brjálaður.
Fyrst leigði ég skólakrökkum og öðrum stúdíóíbúðinar á neðri hæðinni en svo kom sprengingin í ferðamannaiðnaðnum. Frá þeim tíma höfum við vaxið ört frá ári til árs. Tíminn hefur verið fljótur að líða og hótelið fengið góða dóma. Markaðssetningin fer mikið fram á netinu og hefur gengið vel. Við erum með átta manns í vinnu og svo er Áslákur alltaf opinn til miðnættis.

Hótelið stækki í náinni framtíð
Búið er að teikna stækkun við hótelið og þá myndi herbergjum fjölga um 40. „Ég á von á því að það gerist í náinni framtíð. Um áramótin tekur við nýr hótelstjóri og fjölskyldan mín mun meira koma inn í reksturinn. Ég er auðvitað farinn að eldast en mun þó alltaf fylgist með á hliðarlínunni.
Aðspurður um hvort hótelið væri ekki til sölu svarar Alli að salan á sínum tíma hafi sem betur fer klikkað. Framtíðin sé björt og aldrei hafi fleiri gestir sótt hótelið.
„Við höfum auglýst bæjarfélagið mjög mikið og allt sem það hefur upp á að bjóða. Það er stutt að fara til og frá Reykjavík og margir okkar gesta vilja vera aðeins fyrir utan miðbæinn.
Við fáum t.d. mikið af gestum frá Þýskalandi, Englandi, Ameríku og nú eru Japanir að flykkjast hingað.“

Vegleg gjöf til björgunarsveitarinnar
Í tilefni af 10 ára afmælis hótelsins ákvað Alli að gefa björgunarsveitinni Kyndli 100.000 kr. og 300 eintök af ævisögu sinni sem kom út fyrir skömmu. Það má því segja að gjöfin til Kyndils geti orðið að andvirði einnar milljónar.

Eitt af lottóum lífs míns að flytja í Mosfellssveit

beggómosfellingur

Ingibjörg Bergrós eða Beggó eins og hún er ávallt kölluð tók á móti mér á fallegu heimili sínu í Klapparhlíðinni. Sólin lék um okkur er við fengum okkur sæti út á svölum og ekki var útsýnið til að skemma fyrir. Það er gaman að vera í návist Beggó, hún er brosmild, kvik í hreyfingum og hlær dillandi hlátri.
Íþróttir eru hennar ástríða, hún var formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar í átta ár, sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár og er í dag formaður Kvennahlaups ÍSÍ.

Ingibjörg Bergrós er fædd í Vestmannaeyjum 6. desember 1953. Foreldrar hennar eru þau Jóhanna Þorsteinsdóttir húsmóðir og Jóhannes Pétur Sigmarsson múrari og vélstjóri. Þau eru bæði látin. Hún á tvö systkini, þau Helgu og Sigmar.

Bjuggum átján manns í sama húsi
„Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Gæti ekki hugsað mér betri stað til þess að alast upp á, þarna er frelsið mikið og frábær náttúra.
Fyrsta minning mín úr æsku er þegar ég sat í tröppunum heima og frænka mín kom til mín og spurði mig hvað væri að. Ég svaraði því til að ég væri sko að bíða eftir að barnið kæmi en á þessum tíma átti ég von á bróður.
Þegar ég var að alast upp þá bjuggum við 18 manns í sama húsi. Móðir mín var elst 16 systkina og bjuggum við fjölskyldan ásamt afa og ömmu og 11 af systkinum mömmu saman. Mér finnst algjör forréttindi að hafa alist upp í svona stórum hópi og það var ávallt mikið líf í tuskunum.“

Skellti mér í að eignast barn
„Ég gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og fór síðan í Gagnfræðaskólann. Mér þótti alltaf gaman í skóla og stærðfræði og handavinna voru mín uppáhaldsfög. Með skólanum starfaði ég við fiskvinnslu og í sjoppu.
Eftir útskrift úr gaggó skellti ég mér í það að eignast barn með Jóni Ólafi Jóhannessyni. Við eignuðumst son í ágúst 1970 sem var skírður Jóhannes. Það kom ekkert annað til greina en að skíra barnið Jóhannes þar sem báðir afarnir hétu því nafni og ömmurnar hétu Jóhanna, allir glaðir,“ segir Beggó og brosir sínu fallega brosi.
„Ég tók þessu nýja hlutverki mjög alvarlega og fór ekki á böll eða neitt, í mesta lagi tók ég hann með mér á handboltaæfingar.
Við Jón slitum samvistum þegar Jóhannes var fimm ára.“

Barfluga á Ásláki
„Við fluttum upp á land 1975 í höfuðborgina og þar bjuggum við í tíu ár. Ég fékk vinnu við verslunarstörf og svo starfaði ég líka í þrjár vertíðar í mötuneytinu í Hval­stöðinni í Hvalfirði. Á Læknavaktinni vann ég í 5 ár og ég var barfluga í 8 ár á Ásláki sem var fyrsta sveitaskráin í Mosfellsbæ. Í dag starfa ég í hlutastarfi hjá endurskoðanda og við heimilishjálp.
Ég kynntist núverandi manninum mínum, Sigurði Óskari Waage, árið 1983 á Skálafelli á Hótel Esju. Hann er húsasmíðameistari og vann við það í áratugi en starfar í dag sem deildarstjóri hjá Bauhaus.“

Sæmd heiðurskrossi ÍSÍ
Áhugamál Beggó hafa löngum verið íþróttir, handavinna og garðrækt. Hún var formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar í átta ár, hefur verið formaður Kvennahlaupsins á annan áratug og sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár og var sæmd heiðurskrossi ÍSÍ fyrir vel unnin störf.
„Ég hef haft mikla ánægju af störfum mínum sem viðkoma íþróttum og hef kynnst mikið af góðu fólki sem ég er enn í góðum samskiptum við. Eitt af því sem staðið hefur upp úr í þessu íþróttabrölti mínu eru ferðalög til fjarlægra landa. Toppurinn á tilverunni voru Ólympíuleikarnir í London árið 2012.
Ég hef líka verið þeirrar gæfu aðnjótandi að horfa á barnabörnin mín keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og það er ekkert eins skemmtilegt og að garga úr sér lungum á leikjum hjá þeim.“

Búum öll á sama frímerkinu
„Eitt af lottóum lífs míns var þegar við fluttum í Mosfellssveit að Sólbakka en það var árið 1985. Sólbakki var draumastaður okkar fjölskyldunnar enda bjuggum við þar í tæp 30 ár. Þegar kom að því að hugsa sér til hreyfings þá kom aldrei til greina að flytja frá þessu fallega bæjarfélagi sem Mosfellsbær er. Við ákváðum að selja ekki fyrr en við fengjum íbúð í Klapparhlíð fyrir 50+ og það gekk eftir.
Sonur minn og tengdadóttir hafa líka búið hér í bænum allan sinn búskap og svo eru barnabörnin mín, Benedikt Geir, Sædís Rán, Ingibjörg Bergrós og Anton Örn öll búin að koma sér vel fyrir í Helgafellslandinu. Það er bara dásemdin ein að búa öll svona á sama frímerkinu ef má orða það svo, það gefur mér mikið.“

Draumastaður fjölskyldunnar
„Við byggðum okkur sumarbústað í Svínadal og þar eigum við okkar gæðastundir. Siggi dundar sér þar við smíðar á meðan ég hugsa um garðyrkjuna og grænmetisræktunina.
Það er ekkert eins yndislegt eins og að skella sér upp í bústað eftir vinnu á föstudögum og vera svo út í náttúrunni, kyrrðin er alveg hreint ómetanleg,” segir Beggó er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 27. september 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Afltak hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar

kristín ýr og jónas Bjarni  eigendur afltaks

Kristín Ýr og Jónas Bjarni eigendur Afltaks taka við viðurkenningunni. 

Verktakafyrirtækið Afltak í Mosfellsbæ er handhafi jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar.
Afltak hefur ráðið konur til starfa sem hefðbundið hefur verið litið á sem karlmannsstörf auk þess að hvetja kvenkyns starfsmenn til iðnnáms. Í dag starfa fjórar konur hjá Afltaki og þrjár þeirra eru faglærðir húsasmiðir. Þá leggur Afltak mikla áherslu á að veita konum og körlum jöfn tækifæri og sömu laun fyrir sömu störf.
Með viðurkenningunni vill fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja fyrirtæki í Mosfellsbæ til að fylgja góðu fordæmi Afltaks og byggja undir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.
Eigendur Afltaks eru hjónin Kristín Ýr Pálmarsdóttir og Jónas Bjarni Árnason og er fyrirtækið staðsett að Völuteigi 1.
Viðurkenningin var veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar þann 21. september. Landsfundur sveitarfélaga um jafnréttismál fór einnig fram á sama tíma í Hlégarði og Kletti.

Heilsueflandi göngustígar

Heilsumolar_Gaua_27

Göngustígurinn meðfram Varmánni er í miklu uppáhaldi hjá mér. Sérstaklega hlutinn í mínu hverfi, fyrir ofan Dælustöðina. Ég geng þann stíg daglega, suma daga oftar. Ég velti því fyrir mér hver á stíginn eða ber ábyrgð á honum vegna þess að honum hefur ekki verið sinnt mjög lengi. Í raun er hann að hverfa. Á köflum er hann svo mjór að feitur köttur gæti ekki gengið eftir honum. Mölin er nánast öll farin af stígnum, í staðinn marka rótarkerfi og steinar þessa mögnuð gönguleið. Þetta er svo sem ekkert vandamál fyrir mig persónulega. Ég er sprækur og hef gaman bæði af áskorunum og því að hreyfa mig. Og maður fær sannarlega fjölbreytta hreyfingu þegar maður labbar þessa leið í dag.

Ég hef meiri áhyggjur af fólki sem er minna hreyfanlegt. Fólki sem gjarna myndi vilja ganga meðfram Varmánni, hlusta á spriklandi vatnið, finna lyktina af gróðrinum og horfa á trén, en er ekki líkamlega í stakk búið til að klöngrast yfir rætur og steina eða feta einstigin sem feiti kötturinn leggur ekki í.

Að mínu mati er fátt eins heilsueflandi og göngutúrar í náttúrunni og sem flestir ættu að eiga möguleika á að nýta sér þá göngustíga sem lagðir hafa verið í Mosfellsbæ. Ég veit að nokkrir af nágrönnum mínum eru hættir að ganga þessa leið af ofangreindum ástæðum og það er ekki gott. Ef sá sem ber ábyrgð á stígnum les þessar línur hvet ég þann sama til að rjúka í að koma honum í lag fyrir veturinn og legga um leið sitt af mörkum til þess að heilsuefla bæinn okkar.

Um leið langar mig að hvetja þá alla sem lesa þennan mola að setja sér daglegt hreyfimarkmið til þess að koma nauðsynlegri og upplyftandi hreyfingu inn í lífið. Ganga, æfingar, garðvinna, leikir, viðhald – öll hreyfing telur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. september 2018

Mikil uppbygging fram undan

xxx

Birna Kristín Jónsdóttir fræðslufulltrúi í Seðlabanka Íslands er nýr formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar.

Ungmennafélagið Afturelding var stofnað 11. apríl 1909. Afturelding hefur heilsu allra aldurshópa að leiðarljósi með því að hvetja til og standa fyrir heilbrigðri afþreyingu í formi íþrótta og hreyfingar en innan félagsins starfa ellefu deildir.
Á aðalfundi Aftureldingar sem fram fór í maí sl. var kosinn nýr formaður, Birna Kristín Jónsdóttir. Hún sér fram á mikla uppbyggingu hjá félaginu á næstunni í samstarfi við Mosfellsbæ og mun verða unnið að því að móta raunhæf framtíðar­áform.

Birna Kristín er fædd á Eskifirði 9. ágúst 1971. Foreldrar hennar eru Olga A. Björnsdóttir húsmóðir og Jón Ingi Einarsson fyrrum skólastjóri. Systkini Birnu eru þau Aðalheiður Björk, Dagný og Einar Guðberg.

Bæði í frjálsum og fótbolta
Birna var aðeins eins árs þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Eskifirði til Víkur í Mýrdal. Þar bjuggu þau í 10 ár þangað til þau fluttu aftur austur. „Mér fannst mjög gaman að búa á báðum þessum stöðum þótt ég líti nú alltaf á mig sem Eskfirðing. Ég var í íþróttum, bæði í frjálsum og fótbolta, fyrst með Drangi í Vík og síðan Austra.“

Skilin eftir á Skeiðarársandi
„Ég hafði yfirleitt gaman af öllum hlutum en hef heyrt það frá foreldrum mínum að ég hafi verið ansi baldin sem krakki. Alltaf vöknuð um leið og sólin kom upp og þau þurftu alveg að hafa fyrir mér. Sem dæmi má nefna að eitt skipti var ég skilin eftir á Skeiðarársandi því ég hlýddi ekki. Ég var beðin um að sitja í aftursætinu á bílnum en það vildi ég ekki, ég vildi standa á milli sætanna.
Ég var sett á leikskóla en það hentaði mér ekkert sérlega vel, ég náði að strjúka þaðan og það lýsir mér kannski vel því ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir.“

Skutlaði öllum út af laglínunni
„Þegar ég var 13 ára var stofnaður kór á Eskifirði. Tónlistarkennarinn tók alla í prufur og þetta var mjög gaman. Einn daginn sagði mamma við mig við kvöldverðarboðið: „Birna mín, er ekki alveg nóg fyrir þig að vera bara í boltanum og frjálsum, svo er skólinn og blaðburðurinn og svona?“ Ég jánkaði því nú en þá hafði tónlistarkennarinn gefið mömmu „hint“ um það að ég hefði þann eiginleika að skutla öllum út af laglínunni með mínu einstaka lagi,“ segir Birna og brosir
„Ég gekk í Víkurskóla en kláraði svo skylduna í grunnskóla Eskifjarðar. Mér þótti skemmtilegast í íþróttum og stærðfræði. Uppáhaldskennarinn minn var líklega Helga Unnarsdóttir sem kenndi mér leikfimi en hún brann fyrir frjálsum íþróttum og smitaði okkur sannarlega með sér. Eftir grunnskóla flutti ég til Reykjavíkur í íbúð sem foreldrar mínir áttu og bjó þar með systur minni.“

Lentu í ýmsum ævintýrum
Ég fór í Verslunarskóla Íslands, kláraði verslunarprófið og tók svo frí í eina önn og vann í síldinni heima. Það var alveg hrikalega skemmtilegt tímbil.
Í janúar 1990 byrjaði ég í MH og kláraði stúdentinn þaðan. Þar kynntist ég einni af mínum bestu vinkonum, henni Huldu Þóreyju. Við fórum saman í Interrail eftir útskrift og lentum í ýmsum ævintýrum. Okkur fannst við mjög fullorðnar en við vorum í raun eins og tvær úr Tungunum, hún frá Kópaskeri og búin að fara einu sinni til útlanda og ég frá Eskifirði og var að fara í fyrsta skipti.
Eftir þessa dýru og frábæru ferð fékk ég vinnu í Seðlabankanum og þar starfa ég enn en hef líka tekið ýmis konar nám samhliða vinnunni. Þetta er frábær vinnustaður og ég hef alltaf verið mjög lánsöm með samstarfsfólk og yfirmenn.“

Leikurinn endaði með jafntefli
Birna Kristín kynntist eiginmanni sínum Herði Hafberg Gunnlaugssyni húsasmíðameistara árið 2005 en þau giftu sig tveimur árum síðar. „Það var sko þvílík lukka að kynnast Herði. Okkar fyrsta deit var að horfa saman á fótboltaleik Manchester United – Liverpool sem endaði með jafntefli sem lýsir okkar hjónabandi ansi vel,“ segir Birna og brosir.
Við eigum sameiginlega þrjár dætur, Hrafnhildur Olga dóttir mín er fædd 1994 og Ásta Jóhanna hans Harðar er fædd 1998 en Ingibjörg Ólína er fædd 2009.
Við fjölskyldan komum úr Grafarholtinu og þegar kom að því að stækka við okkur þá rákumst við á eign í Mosfellsbæ. Við skoðuðum hana og vorum fljót að sjá að þetta væri sú eina rétta. Við fluttum í maí 2014 og okkur hefur verið einstaklega vel tekið hérna og höfum eignast marga góða vini.“

Afturelding er einstakt félag
„Áhugamál mín eru held ég bara allar íþróttir, skíði og útivist. Ég hef æft margar íþróttir en knattspyrnan er þó alltaf í uppáhaldi.
Þegar ég var búin að starfa í þrjú ár sem gjaldkeri Aftureldingar tók ég við sem formaður. Frá þeim tíma sem ég tók við hefur starfið verið mjög fróðlegt, krefjandi og skemmtilegt. Formaður er ekkert nema hafa gott fólk með sér, aðalstjórnin er sérstaklega vel mönnuð og ekki skemmir fyrir allt það yndislega starfsfólk íþróttahússins sem við reiðum okkur á.
Afturelding er einstakt félag og framtíð iðkenda er björt. Fram undan er mikil uppbygging á aðstöðumálum, við erum að fara að skipta út gólfi í sölum og svo fer að rísa knattspyrnuhús hjá okkur. Meistaraflokkur karla er efstur í 2. deildinni í dag og ef þeir fara upp um deild eru meiri kröfur af hálfu KSÍ um vallaraðstæður og umgjörð en við mætum í dag. Það verður spennandi verkefni að fara í ef af verður.“

Mótum raunhæf framtíðaráform
„Við vinnum í góðu samstarfi við Mosfellsbæ en bærinn á og rekur öll þau mannvirki sem við notum. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að ekki er hægt að gera allt í einu en saman vinnum við að því að móta raunhæf framtíðaráform. Það verður gaman að sjá hvert við verðum komin á 110 ára afmæli félagsins á næsta ári.
Maður finnur glöggt þegar vel gengur í íþróttunum hvað það sameinar Mosfellinga og því gríðarlega mikilvægt að við stöndum okkur vel. Það er á okkar ábyrgð að veita deildunum okkar toppaðstöðu.
Ég held að það sé alveg óhætt að segja að Aftureldingarhjartað slær í öllum Mosfellingum,” segir Birna brosandi að lokum.

Mosfellingurinn 6. september 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Systur gefa saman út barnabók

asdf

Ásrún og Sigríður Magnúsdætur með einni sögupersónunni úr bókinni. 

Systurnar Ásrún Magnúsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir eru fæddar og uppaldar í Borgarnesi en búa nú báðar í Mosfellsbæ. Þær segjast vera mjög samrýmdar þó svo að önnur búi í rauða hverfinu en hin í því bláa.
Þær systur eru um þessar mundir að gefa út barnabókina Korkusögur en þetta er þeirra fyrsta bók og fjallar hún um stúlku sem heitir Korka. „Sigríður er mjög fær listakona en ég lunknari við textasmíðar. Okkur fannst því upplagt að leiða saman listræna hæfileika okkar og úr var bókin Korkusögur sem skrifuð er og skreytt af okkur systum,“ segir Ásrún.

Korka er lífsglöð stúlka
Báðar eru þær með BA-gráðu í ensku og stefna báðar á að klára MA-nám í enskukennslu á framhaldsskólastigi í febrúar á næsta ári. Einnig eru áhugamál þeirra áþekk og má þar til dæmis nefna hestamennsku og bókmenntir en þó eru hæfileikar þeirra mismunandi.
„Bókin fjallar um unga stúlku sem heitir Korka. Korka er mjög lífsglöð og á oft erfitt með að hemja fjörið innra með sér og lendir hún því í ýmsum ævintýrum þegar það tekur völdin. Eflaust eru einhverjir foreldrar sem kannast við slíkt en sögurnar í bókinni eru að miklu leyti byggðar á dóttur minni og skoplegum uppátækjum hennar,“ segir Sigríður.

Útgáfuhóf á laugardaginn
Bókin er gefin út af Bókabeitunni og tilheyrir seríu bóka sem kallast Ljósaserían. Í Ljósaseríunni eru bækur sem eru sniðnar að þörfum nýrra lesenda og kjörnar fyrir þá sem eru að æfa sig í lestri. Bækurnar eru misþungar en hafa allar þægilegt letur, rúmt línubil og eru fallega myndskreyttar. Börn á öllum aldri hafa gaman af þessum sögum. Bókin er nýkomin út og til að fagna því verður haldið útgáfuboð í Pennanum Eymundsson, Smáralind kl. 14:00 þann 8. september. Vona þær systur til að sjá sem flesta Mosfellinga til að fagna með þeim.

Skrifaði sína fyrstu sjónvarps­þáttaseríu í Lágafellslaug

steindi_listamaður

Á sérstakri hátíðardagskrá á bæjarhátíðinni Í túninu heima var Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.
Steindi Jr. er alinn upp og búsettur í Mosfellsbæ. Hann er skapandi listamaður og hefur náð árangri á fleiri en einu sviði lista. Hann hefur gert sjónvarpsþætti, leikið og skrifað handrit og sannað sig bæði í leiklist og tónlist.

Vann Edduna fyrir leik í Undir trénu
Steindi hefur gert garðinn frægan í gamanhlutverkum og í seinni tíð einnig verkum í alvarlegri kantinum en hann vann Edduna 2018 fyrir hlutverk sitt í myndinni Undir trénu. Hann er skapandi og frjór í sinni listsköpun og höfðar til breiðs hóps.
Þá hefur hann með áberandi hætti verið tengdur við Mosfellsbæ í mörgu af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Í því tilliti hefur hann lagt sig fram um að vekja athygli á uppruna sínum í Mosfellsbæ og tekið þátt í mörgum verkefnum innan bæjarins.

Vill miðla reynslu sinni áfram
„Sem grjótharður Mosfellingur er þetta mesti heiður sem mér hefur hlotnast,“ segir Steindi. „Þetta er mér mikil hvatning og mun ég áfram reyna að tengja bæinn minn við það sem ég er að bralla.
Mig langar að nota tækifærið og nýta mér þessa nafnbót til að miðla reynslu minni áfram til krakka og unglinga í Mosfellsbæ og kynna þau fyrir skapandi listum. Vonandi mun það gerast einn daginn í góðu samstarfi við skólana og félagsmiðstöðina.
Ég hlakka til að hitta krakkana og reyna að smita þau af bakteríunni. Það væri gaman að sjá vini hittast og skapa saman eitthvað skemmtilegt í stað þess að hanga hver í sínu horni í símanum eins og svo algengt er.“

Nýtti hádegishléin vel
„Ég hóf t.d. ferilinn minn hér í Mosó við að gera stuttmyndir og skrifa í bæjarblöðin. Þá stofnaði ég útvarpsstöð í samstarfi við félagsmiðstöðina Ból.“
Steindi skrifaði sína fyrstu sjónvarpsþáttaseríu að hluta til þegar hann vann í Lágafellslaug. „Já, ég nýtti hádegishléin vel og faldi mig stundum með fartölvu inni í klefa. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá,“ segir Steindi að lokum.

„Öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar tengd fyrir áramót“

baldur hauksson verkefna- stjóri ljósleiðarakerfis

Baldur Hauksson verkefnastjóri ljósleiðarakerfis Gagnavetiru Reykjavíkur.

Eins og Mosfellingar hafa orðið varir við vinnur Gagnaveita Reykjavíkur að framkvæmdum í Mosfellsbæ þar sem verið er að tengja ljósleiðarakerfi.
„Ég fékk það skemmtilega verkefni að ljósleiðaravæða minn heimabæ,“ segir Mosfellingurinn Baldur Hauksson sem starfar sem verkefnastjóri hjá Gagnaveitu Reykjavíkur.

Framkvæmdir langt komnar og klárast fyrir árslok
„Verkefni þessa árs er að klára að tengja öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar fyrir árslok 2018, framkvæmdir eru langt komnar og klárast fyrir árslok. Hverfin sem verða tengd á þessu ári eru Höfðar, Tangar, Teigar og Reykjahverfi. Það styttist í að íbúar í Höfðum og Töngum geti pantað sér þjónustu á meðan Tanga- og Reykjahverfi tengist í desember. En áður hefur Gagnaveitan lokið við að tengja önnur hverfi í þéttbýli Mosfellsbæjar á síðustu árum.“

Hágæðatenging inn í framtíðina
Ljósleiðarinn er hágæðasamband fyrir heimili sem uppfyllir kröfur nútímaheimilis og býður upp á nettengingar sem eru bæði hraðari og áreiðanlegri. „Eins og samfélagið er í dag þá eru gagnaflutningar alltaf að aukast, internetið, sjónvarpið og heimasíminn.
Með tilkomu ljósleiðarans eykst hraðinn um 10-20 falt. Flestir eru með tengingu sem flytur 50-100 megabita á sekúndu en ljósleiðarinn býður upp á 1000 megabita tengingu sem hentar nútímaheimilum með margar tölvur, síma og sjónvörp,“ segir Baldur.

Fólki að kostnaðarlausu
Þessar framkvæmdir eru að frumkvæði Gagnaveitunar og eru Mosfellsbæ og íbúum að kostnaðarlausu. „Þegar framkvæmdum við lagningu ljósleiðarans er lokið sendum við póst til íbúanna. Þá þurfa þeir að panta hjá sínum þjónustuveitanda og biðja um færslu yfir á ljósleiðarann.
Ef þú pantar þessa þjónustu hjá okkur þá kemur til þín maður sem tengir og leggur lagnir fyrir þráðlausan beini, heimasíma og sjónvarp. Þessi þjónusta er fólki að kostnaðarlausu, það eina sem fólk borgar er sama mánaðargjald og það hefur greitt ef það er með síma eða internet,“ segir Baldur að lokum.

Allir á völlinn!

Heilsumolar_Gaua_6sept

Á laugardaginn kemur Þróttur frá Vogum í heimsókn í Mosfellsbæinn til að spila við strákana okkar í 2. deildinni. Við erum efstir í deildinni, höfum skorað flest mörk allra liða – reyndar allra liða í fjórum efstu deildum karla á Íslandsmótinu í sumar. Eina liðið hingað til sem hefur náð að rjúfa 50 marka múrinn. En Þróttararnir eru sýnd veiði en langt frá því gefin. Þeir eru eitt af bestu útiliðum deildarinnar, gengur mun betur á útivöllum en heima í Vogum. Það stefnir því allt í hörkuleik að Varmá.

Fjölmargir Mosfellingar fóru með liðinu á Seltjarnarnes í síðasta leik og komu kátir heim eftir baráttu­sigur gegn spræku liði Gróttu. Þar áður mættu margir Mosfellingar á heimaleikinn gegn Hugin frá Seyðisfirði og urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum. Strákarnir, þjálfararnir og teymið í kringum þá hafa lagt hart að sér frá því að undirbúningstímabilið hófst síðasta haust. Það eru þrír leikir eftir í 2. deildinni. Deildinni sem við ætlum að kveðja í ár.

Til þess að það megi gerast er stuðningur okkar Mosfellinga lykilatriði. Við getum gefið þeim sem eru inn á vellinum aukaorku með því að mæta á völlinn og sýna þeim að félagið okkar skiptir okkur máli.

Íþróttir eru að mínu mati besta forvörnin sem við sem samfélag eigum og félagið okkar allra, Afturelding, er stútfullt af fólki sem gerir sitt besta til þess að skapa góða og jákvæða umgjörð fyrir krakka og unglinga sem vilja og þurfa að hreyfa sig. Því meiri árangri sem meistaraflokksliðin okkar ná, því meiri pressa – jákvæð – er á bæjaryfirvöld að efla umgjörð félagsins. Bæði íþróttalega og félagslega. Það er svigrúm til bætingar á báðum sviðum. Stuðningur við strákana okkar á laugardaginn hjálpar til við að mjaka málum áfram. Efla samstarf Mosfellsbæjar og Aftureldingar, okkur öllum til góða. Sjáumst á vellinum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. september 2018

Aukin tannlækna­þjónusta í Mosfellsbæ

ragnar og birgir  í háholtinu

Ragnar Kr. Árnason og Birgir Björnsson í Háholtinu.

Nýverið lauk framkvæmdun við stækkun og breytingar hjá Tannlæknastofu Ragnars Kr. Árnasonar að Háholti 14.
Nú er boðið upp á þjónustu tveggja tannlækna á stofunni auk möguleika á lengri opnunartímum svo eitthvað sé nefnt. Mosfellingur leit við og hitti tannlækna.
Mosfellingurinn Ragnar Kr. Árnason opnaði glæsilega tannlæknastofu sína í febrúar 2010 eftir að hafa rekið stofuna í Kópavogi í 20 ár. Eftir farsæl ár í Mosfellsbænum hefur Ragnari nú borist liðsauki.

Metnaðarfullur með víðtæka reynslu
Birgir Björnsson tekur nú til starfa við við hlið Ragnars en Birgir er 38 ára gamall og hefur starfað sem tannlæknir undanfarin 10 ár. Birgir er fjölskyldumaður með tvö börn, alinn upp í Árbænum, en nýlega flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ.
Fyrr á árum tók Birgir þátt í íþróttastarfi með Fylki í Árbænum og fimleikum með Ármanni og er fyrrum landsliðsmaður og svo síðar landsliðsþjálfari í fimleikum.
Birgir starfaði í sjö ár sem tannlæknir hjá Tannlæknastofum Akureyrar en söðlaði svo um og flutti til Danmerkur. Birgir tók þátt í að stýra uppbyggingu á nýrri stofu í Kaupmannahöfn.
Stofan fór upp í sex stóla á innan við tveimur árum, sem þykir nokkuð gott í Kaupmannahöfn. Birgir var yfirtannlæknir og bar ábyrgð á öllum aðgerðum framkvæmdum á stofunni.

Sveigjanlegri opnunartími
„Eitt af því sem við stefnum á að gera er að bjóða viðskiptavinum okkar upp á rýmri og sveigjanlegri opnunartíma, þ.e. hafa opið lengur 2-3 daga í viku eftir þörfum og eftirspurn,“ segir Birgir. „Þetta opnar fyrir þann möguleika að fólk geti komið til okkar eftir vinnu og þar með sparað sér oft á tíðum slítandi ferðir til og frá vinnu á miðjum vinnudegi.
Það er frábært að starfa hér á stofunni með Ragnari og að vera fluttur hingað í þetta fallega og góða bæjarfélag. Aðstaðan hér er öll alveg fyrsta flokks og hér er gott að vera“.