Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Miðflokksins.
Nafn:
Sveinn Óskar Sigurðsson.
Aldur:
49 ára.
Gælunafn:
Óskar.
Starf:
Ráðgjafi og sjálfstætt starfandi.
Fjölskylduhagir:
Giftur Danith Chan, lögfræðingi. Við eigum tvær dætur, Sylvíu Gló Chan, sem stundar nám við Menntaskólann í Reyjavík og Ingridi Lín Chan, sem stundar grunnskólanám við Varmárskóla í Mosfellsbæ.
Hvar býrðu?
Ég bý að Barrholti í Mosfellsbæ.
Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Frá 2003 eða í 15 ár.
Hvað áttu marga vini á Facebook?
Síðast var talan 1.793.
Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Um velferð, börnin, barnafólk, aldraða og öryrkja, um hreyfingu og gjaldfrjálsar máltíðir fyrir grunnskólabörn, svo að öll börn setið við sama borð, óháð fjárhag foreldra. Kosningarnar snúast um að skipta um meirihluta í Mosfellsbæ enda hefur sá sem nú ríkir komið fjármálum bæjarins í svo mikið óefni að grunnstoðum stafar ógn af.
Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness en sá sem á lífi er og að öðrum ólöstuðum, söng- og listakonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópran.
Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Það eru 8 konur og 10 karlar en í 8 efstu sætunum eru 5 konur en aðeins 3 karlar. Því er þetta eiginlega kvennalisti með smávegis af körlum í bland aftast í þessum glæsilega hestvagni. Jakob Máni er yngstur, tvítugur og Magnús Jósepsson er elstur, 73 ára. Hann skipar heiðurssætið.
Hefur þú komist í kast við lögin?
Nei, en get samt sungið með herkjum.
Er pólitík skemmtileg?
Já, annars væri maður ekki að gefa sig í þetta síðustu 35 árin.
Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Opnun á nýrri sýningu í Listasalnum.
Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
1-4 en aðeins meira fyrir kosningar og fer í kaffipásur stundum í nokkra mánuði. Drekk þá austurlenskt te af bestu sort.
Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það er Leirvogurinn. Hann er afar fallegur og fuglarnir gefa lífinu lit. Að ganga með sjónum er yndislegt og að sjá norðurljósin að hausti sem og um vetur, fuglana að vori sem á sumri.
Besti matur í Mosó?
Hann er ótvírætt að finna á grænmetismörkuðunum í Mosfellsbæ. Þar má nefna markaðinn að Mosskógum og að Reykjum. Án þessara markaða væri Mosfellsbær allt annar og ekki samur. Við verðum standa vörð um landbúnað hér í bænum og víðar um land.
Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Ég hef verið konsúll frá því árið 2003 en ég tók þá við ræðismannsstöðu fyrir Afríkuríkið Namibíu. Þar dvel ég oft og er það yndislegt land. Að hafa kynnst konunni í Pekingháskóla, hún ættuð frá Kambódíu, og vera ræðismaður Namibíu er dálítið spes. En þetta er allt líf mitt og yndi.
Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna auðvitað!
Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Nýjan meirihluta.
Síðasta SMS sem þú fékkst?
,,Vííí takk :)“ frá Þórunni Magneu Jónsdóttur, sem skipar 4. sæti á lista Miðflokksins eftir að ég hrósaði henni fyrir frábæra frammistöðu.
Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Ég tel raunhæft að ná 5 ef allir mæta á kjörstað.
Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Það er ekki gefið upp að svo stöddu enda ekki klókt að úttala sig um það. En það byggir á því að við náum að láta lausnir okkar fyrir Mosfellbæ ná fram að ganga.
Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Þarf ekki að vera. Sveitastjórnarmál lúta öðrum lögmálum en landsmálin og hafa gert lengi.
Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Við erum lausnamiðaður flokkur. Flokksmenn Miðflokksins eru þekktir fyrir að leysa mál en ekki flækja þau fyrir kjósendum. Það þekkjum við öll frá lánaleiðréttingunum sem komu mörgum vel og aðgerðum til losunar fjármagnshafta. Íslendingar urðu betur staddir sökum aðgerða flokksmanna Miðflokksins og við stöndum við gefin fyrirheit. Við höfum kjark til að ganga hreint til verks.
—–
Kynning á framboðslista Miðflokksins – Ætla að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins
Miðflokkurinn Mosfellsbæ á Facebook