Mosfellingar fá hraðhleðslu

Frá opnun hlöðunnar í Háholti. Valgerður Fjóla Einarsdóttir, Guðný Rósa, Hafrún, Guðjón og Kristinn.

Frá opnun hlöðunnar í Háholti. Valgerður Fjóla Einarsdóttir, Guðný Rósa, Hafrún, Guðjón og Kristinn.

Orka náttúrunnar hefur í samstarfi við N1 tekið í notkun hraðhleðslu fyrir rafbíla í Mosfellsbæ. Það var rafbílaeigandinn og Mosfellingurinn Valgerður Fjóla Einarsdóttir sem hlóð fyrstu hleðsluna föstudaginn 14. desember.
„Það er gríðarlegur munur að fá hraðhleðslu hingað í heimahagana og þurfa ekki að leita langt yfir skammt þegar hleðslu er þörf,“ sagði Valgerður Fjóla við þessi tímamót.
Viðstödd voru auk Valgerðar Fjólu Guðjón Hugberg Björnsson og Hafrún Þorvaldsdóttir frá ON, Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri hjá N1 og Kristinn Guðmundsson verslunarstjóri Háholti í Mosfellsbæ.

Ánægjulegt samstarf ON og N1
Fyrir tæpum tveimur árum gerðu ON og N1 með sér samkomulag um uppsetningu á hlöðum á þjónustustöðvum N1, sem býr yfir einu stærsta neti þjónustustöðva við vegi landsins. N1 korthafar fá 10% afslátt af mínútugjaldinu í hraðhleðslum ON á 10 þjónustustöðvum N1 víðsvegar um landið.
„Það hefur lengi verið á dagskrá að bæta við hleðslu í Mosfellsbæ og við höfum fengið margar fyrirspurnir. Það skiptir okkur hjá N1 miklu máli að svara þörfum allra okkar viðskiptavina, ekki síst þeirra sem kjósa að aka með umhverfisvænum hætti“, sagði Guðný Rósa.
Hlaðan í Háholtinu er með tveimur hraðhleðslutengjum auk Type 2 hleðslutengis.