Óskar Vídalín Mosfellingur ársins 2018

mosfellingurarsins2019_stærri

Mosfellingur ársins 2018 er Óskar Vídalín en hann hefur ásamt öflugum hópi stofnað Minningarsjóð Einars Darra og hrint að stað þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf.
Óskar missti 18 ára gamlan son sinn Einar Darra í maí sl. eftir neyslu lyfseðilsskyldara lyfja. „Ég er ótrúlega þakklátur og tek á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd okkar allra sem standa að Minningarsjóðnum. Við höfum fengið mikla hjálp og frábærar móttökur alls staðar, Mosfellingar hafa sýnt okkur mikinn stuðning og styrk og fyrir það erum við gríðarlega þakklát,“ segir Óskar.

Markmiðið að opna á umræðuna
Það eru foreldrar og systur Einars Darra, þau Óskar Vídalín, Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr og Aníta Rún sem eru forsvarsmenn Minningarsjóðsins.
„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt vandamál meðal ungmenna að stofna minningarsjóð í hans nafni. Við vildum nálgast þetta verkefni í kærleika því það er alveg í anda Einars Darra. Markmiðið er að opna umræðuna og vekja athygli á vandamálinu því við uppgötvuðum hvað við vissum lítið og hvað þetta kom okkur mikið á óvart.“

mosfellingurarsinslistiForvarnafræðsla og þjóðfundur
„Við byrjuðum á að vekja athygli á málstaðnum með bleikum armböndum, hettupeysum, húfum og fleiru. Við vorum áberandi á útihátíðum og öðrum viðburðum í sumar. Við völdum bleika litinn af því að það var uppáhalds liturinn hans Einars Darra.
Við stofnuðum sjóðinn fyrst og fremst til að fara af stað með forvarnafræðslu. Við höfum fengið gríðarlega mikla aðstoð og góða styrki og hefjum fræðslu í grunnskólum í febrúar. Hún er gjaldfrjáls og verður beint að börnum, foreldrum og kennurum,“ segir Óskar.
Þau sem standa að Minningarsjóðnum eru greinilega bara rétt að byrja en fyrirhugað er að halda þjóðfund unga fólksins í apríl. „Við erum að skipuleggja ásamt góðu fólki fund þar sem hugsunin er að fá ungt fólk alls staðar að af landinu til að taka þátt í umræðum og lausnum á þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir eins og kvíða, vanlíðan og fleira.“

Héldu óhefðbundin jól
„Við ákváðum að halda aðfangadag á óhefðbundinn hátt. Við byrjuðum á að fara á Vog og á fíknigeðdeild Landspítalans með um 100 jólagjafir. Við borðuðum saman á heimili Báru og fjölskyldu á Akranesi og opnuðum pakkana snemma. Svo vorum við öll saman klukkan 18:00 í kirkjugarðinum við leiði Einars Darra.
Við höfum fengið sterk viðbrögð við þessari leið sem við völdum til að vinna úr sorginni. Við gáfum meðal annars út myndband þar sem birtar eru myndir af látnum einstaklingum og vekja athygli á því að bak við hvern einstakling situr eftir stór hópur, fjölskylda og vinir. Viðbrögðin við því hafa verið mjög sterk og við vonum að þetta skili sér og hjálpi öðrum.
Þegar maður verður fyrir svona áfalli þarf maður að taka ákvörðun og ég segi fyrir mig að starfið í kringum Minningarsjóðinn hjálpar mér að takast á við sorgina,“ segir Óskar að lokum.