Helgafellsskóli tekinn í notkun í janúar

helgafellsskolides

Stefnt er að því að skólahald í nýjum Helgafellsskóla í Helgafellshverfi hefjist í janúar 2019. Bygging skólans er stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins um þessar mundir en skóflustunga var tekin í desember 2016. Í vor var ákveðið að flýta framkvæmdum en byggt er í fjórum áföngum og verður sá fyrsti tekinn í notkun í janúar.

Flytja úr Brúarlandi í Helgafellsskóla
Þeir nemendur sem hefja skólagöngu í Helgafellsskóla eru í dag í Brúarlandi, útibúi frá Varmárskóla. „Nemendur og kennarar úr Brúarlandi munu allir fara yfir í Helgafellsskóla en í dag eru 92 nemendur í Brúarlandi í 1. – 5. bekk. Á svipuðum tíma verður opnuð ein deild í leikskólanum fyrir elstu nemendurna,“ segir Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri Helgafellsskóla.
Spár gera ráð fyrir að þegar skólinn verði fullsetinn stundi þar nám um 600 grunnskólanemendur og 110 leikskólanemendur á aldrinum 1–16 ára.

Húsnæði skólans „hálfopið”
„Í skólanum er stórt kennslurými og þrjú minni á hverju kennslusvæði auk þess sem hver tvö svæði hafa sameiginlega lítinn sal til kennslu. Næsta haust verður leikskólahluti hússins tilbúinn og svo innan fárra ára fleiri kennslusvæði, þar með talið fyrir list- og verkgreinar.
Kennsluaðferðir í skólanum verða fjölbreyttar þar sem nám og vellíðan nemenda verður í fyrirrúmi. Kennarar vinna í teymum með hvern árgang, honum verður ekki skipt upp í bekki heldur verður skipt í minni hópa út frá því verkefnum.“

Áhersla lögð á lýðræði
„Áhersla verður lögð á lýðræði þar sem allir í skólanum hafi rödd og verða nemendur virkjaðir í að hafa skoðanir meðal annars á skólastarfinu, rökstyðja þær og koma þeim í framkvæmd.
Helgafellsskóli stendur á fallegum stað og verður útinám ein af grunnstoðum skólans. Jafnframt verður heilbrigði og hollusta útgangspunktar í skólastarfinu þar sem horft verður til aukinnar hreyfingar og heilsusamlegs matar í skólanum.
Lagt verður upp með samþættingu námsgreina og að frístunda- og tónlistarstarf fléttist inn í skólastarfið. Tómstundafræðingar vinna að hópefli og aukinni félagsfærni nemenda í samstarfi við kennara skólans,“ segir Rósa.