Blackbox opnar í Háholti í vor

Mættir í Mosó: Jói Ásbjörns, Karl Viggó og Jón Gunnar.

Mættir í Mosó: Jói Ásbjörns, Karl Viggó og Jón Gunnar.

Í vor opnar Blackbox Pizzeria í hjarta Mosfellsbæjar þar sem veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn hefur verið í mörg ár.
„Þetta er fullkomin staðsetning fyrir næsta Blackbox-stað í fjölskylduvænum bæ sem telur rúmlega ellefu þúsund íbúa og mikil vöntun á skemmtilegum veitingastöðum,“ segir Jón Gunnar Geirdal einn eigenda staðarins.
„Þessi nýi staður verður umkringdur frábærum nágrönnum en hér sækja sækja Mosfellingar sína helstu þjónustu. Hér höfum við Krónuna, Mosfellsbakarí, apó­tek, fiskbúð og ísbúð og einnig örstutt í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar. Það er líka spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem er í gangi hérna í miðbænum. Við sjáum mikla möguleika og hlökkum til að kynnast Mosfellingum.
Við munum bjóða upp á boltagláp og góðar pizzur. Sama módel og við erum með í Borgartúninu, ódýr bjór og léttvín og stærstu viðburðir á skjánum.“

Eldbakaðar pizzur á tveimur mínútum
Blackbox opnaði sinn fyrsta stað í janúar í fyrra í Borgartúni 26 og hefur notið mikilla vinsælda en Blackbox afgreiðir eldsnöggar, eldbakaðar, súrdeigsbotnspítsur með hágæða hráefnum, byltingarkenndur snúningsofninn nær gífurlegum hita og eldbakar pítsuna á aðeins tveimur mínútum.
Eigendur Blackbox eru stofnendur staðarins, Karl Viggó Vigfússon og Jón Gunnar Geirdal, ásamt Jóhannesi Stefánssyni og fjölskyldu í Múlakaffi og Jóhannesi Ásbjörnssyni en saman eiga þeir tveir síðastnefndu Gleðip­inn­a, rekstr­araðila Keilu­hall­ar­inn­ar og Ham­borg­arafa­brikk­unn­ar.
Athafnamennirnir fengu afhenta lykla af staðnum í vikunni og stefna á þónokkrar framkvæmdir og breytingar áður en dyrnar verða opnaðar á nýjum og fjölskylduvænum stað í Mosfellsbæ. „Við stefnum á að opna í mars ef allt gengur upp,“ segir Jón Gunnar lokum.