Í túninu heima 2018 – DAGSKRÁ

ithdagskrá

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 24.-26. ágúst. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í strætó allan laugardaginn fyrir Mosfellinga og gesti þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar 2018 (pdf)

 

ÞRIÐJUDAGUR 21. ÁGÚST

16:00 – 20:00 PERLAÐ MEÐ KRAFTI
Kraftur leggur leið sína í Mosfellsbæ og perlar armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum öllum. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

 

MIÐVIKUDAGUR 22. ÁGÚST

18:00 BRENNIBOLTI FYRIR FULLORÐNA
Brenniboltakeppni fyrir fullorðna verður haldin í fyrsta sinn Í túninu heima. Keppt verður á gamla gervigrasvellinum að Varmá. Fimm saman í liði og eintóm gleði og gaman. Farið eftir brenniboltareglum UMFÍ. Skráning: hannabjork@afturelding.is.

20:00 – 22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga.
Fram koma: Dj Egill Spegill og rapparinn Huginn. Aðgangseyrir: 800 kr.

 

FIMMTUDAGUR 23. ÁGÚST

BÆJARBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

18:00 SÖNGLEIKURINN 1001 NÓTT Í BÆJARLEIKHÚSINU 
13-17 ára krakkar úr Leikgleði sýna ævintýrasöngleikinn 1001 nótt í Bæjarleikhúsinu. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna, byggð á ævintýrinu um Aladdín og töfralampann. Miðaverð er 1.500 krónur og miðasala fer fram í síma 566-7788.

19:00 SKÁLDAGANGA MEÐFRAM VARMÁ 
Safnast verður saman við Hlégarð, gengið niður með Varmá og að Leiruvogi. Bjarki Bjarnason rithöfundur og forseti bæjarstjórnar leiðir gönguna. Kvennakórinn Stöllur verður með í för og syngur lög á leiðinni og fer með bókmenntatexta á völdum stöðum.

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI
Hjólakeppni um stíga innan Mosfellsbæjar. Keppnin hefst við íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir í boði, 16 km og 30 km. Sjá nánar á netskraning.is/fellahringurinn.

18:00 – 20:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Leikhópurinn Lotta kíkir í heimsókn með sína vinsælu söngvasyrpu. Blöðrulistamenn sýna listir sínar og gera skemmtileg blöðrudýr. Wipe-Out brautin snýr aftur og frír ís í boði. Frítt inn fyrir alla fjölskylduna.

20:00 Á LJÚFUM LITAGLÖÐUM NÓTUM
Tónleikar í Lágafellskirkju. Svavar Knútur flytur blöndu af sínum lögum.
Allir hjartanlega velkomnir. Aðgangur ókeypis.

20:15 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER VIÐ KJARNA
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman á bílaplaninu við Kjarna. Keyrður verður rúntur um Mosfellsbæ og svo stilla allir sér upp á planinu. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna verður á svæðinu ef veður leyfir.

21:00 SÓLI HÓLM MEÐ UPPISTAND Í HLÉGARÐI
Sóli Hólm hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Hann hefur farið sigurför um landið með splunkunýtt uppistand. Miðasala á www.midi.is.

 

FÖSTUDAGUR 24. ÁGÚST

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll.

10:00 og 11:00 BÓKASAFN MOSFELLSBÆJAR
Leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn og flytur Söngvasyrpu og skemmtir 5 ára börnum í bænum. Sýningarnar verða tvær, kl. 10 og kl. 11. Öll börn fædd 2013 eru hjartanlega velkomin. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

18:00 – 21:00 VELTIBÍLL Á MIÐBÆJARTORGINU
Veltibíllinn kemur í heimsókn á torgið þar sem Mosfellingum gefst kostur á því að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti.

19:00 TÍMATAKA Í PUMPUNNI
LexGames stendur fyrir æfingum og tímatöku í Pumpunni, hjólabrautinni á Miðbæjartorginu. Allir krakkar hvattir til að mæta á hlaupahjólum, hjólabrettum, línuskautum eða hjólum. Munið eftir hjálmi á höfuðið.

19:30-23:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar alvöru kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Boðið upp á úrval kaffidrykkja, heitt kakó og vöfflur. Poppvélin í gangi yfir brekkusöngnum.

19:30 – 22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:00 BMX BROS Á MIÐBÆJARTORGINU
Snillingarnir í BMX bros hita upp á Miðbæjartorginu áður en skrúðgöngurnar leggja af stað. Þeir munu sýna listir sínar og bjóða upp á kennslu.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR – Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ Í ÁLAFOSSKVOS
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum.
Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar ræsa einn lit af stað í einu.

21:00 – 22:30 ULLARPARTÍ Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina.
Ronja Ræningjadóttir tekur nokkur lög og Hilmar og Gústi stýra brekkusöng.
Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum. Rauði krossinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

22:00 Álafossvegur 20 (Þrúðvangur) – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hljómsveitin Lucy in Blue leikur gömul og góð rokklög í bílskúrnum í Álafosskvos. Rokkbandið hefur leik strax að loknum brekkusöng í Kvosinni og leikur fram að miðnætti. Gestgjafar eru þau Jón Júlíus Elíasson og Ásta Björk Sveinsdóttir.

22:30 HÁTÍÐARBINGÓ OG LIFANDI TÓNLIST
Hátíðarbingó á Hvíta Riddaranum í Háholti að loknum brekkusöng. Glæsilegir vinningar og mikil stemning. Eftir bingó tekur við lifandi tónlist og fjör fram eftir nóttu.

 

LAUGARDAGUR 25. ÁGÚST

• Frítt í Strætó allan daginn • Frítt í Varmárlaug og Lágafellslaug í dag • Frítt á Gljúfrastein

8:00 – 14:00 HLÍÐAVÖLLUR – OPNA FJ MÓTIÐ
„Í túninu heima“ mótið fer fram á Hlíðavelli. Skráning og rástímar á www.golf.is.

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll.

9:00 – 17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu í Mosfellsdal. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Frítt inn á safnið og munu starfsmenn glaðir skeggræða við gesti og gangandi.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

9:00 – 16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km)
og 1 tindur (12 km). www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

9:30 KETTLEBELLS ICELAND – ENGJAVEGUR 12
Opin Ketilbjölluæfing fyrir hrausta Mosfellinga. Gengið með ketilbjöllur upp á Reykjafell þar sem æfing verður tekin á toppnum. Lagt af stað frá Engjavegi. Allir velkomnir.

9:30-10:15 QI GONG ÆFINGAR VIÐ HLÉGARÐ
Heilsueflandi samfélag býður upp á QI GONG æfingar með Guðmundi G. Þórarinssyni. Aldagömul kínversk leið til að höndla og efla lífskraftinn. Aðferðin er sambland af hugleiðingu og léttum líkamsæfingum ásamt öflugri öndun. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

10:00 WORLD CLASS – MOSFELLSBÆ
Opinn tími, LITAGLEÐI, í World Class fyrir alla Mosfellinga. Skemmtileg blanda af styrktaræfingum og góðum teygjum. Kennari: Þorbjörg. Tökum á því í hverfalitunum!

10:30 – 11:30 OPIN ÆFING KARATEDEILDAR AFTURELDINGAR
Boðið verður upp á opna æfingu fyrir alla áhugasama til að koma og prófa.
Íþróttin hentar öllum frá 5 ára aldri og upp úr. Mætið í þægilegum íþróttafötum og með vatnsbrúsa. Erum í bardagasalnum uppi á 3. hæð að Varmá.

10:00 – 16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Kammerkór Mosfellsbæjar tekur nokkur lög kl. 14:30.
Úrslit í sultukeppni kl. 15:00. Skila þarf inn sultum í keppnina fyrir kl. 12.

12:00 Hamratangi 14 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stofutónleikar á æskuheimili Sigrúnar Harðardóttur, fiðluleikara. Tónleikarnir eru um 30 mínútur. Leikin verða verk eftir frönsku impressionistana Ravel, Debussy og Franck. Ásamt Sigrúnu koma fram Jane Ade píanóleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir, sellóleikari. Grænmetissúpa í boði fyrir tónleikagesti.

12:00 – 16:00 SKIPTIFATAMARKAÐUR RAUÐA KROSSINS
Skiptifatamarkaður í Þverholti 7. Barnaföt frá 0-12 ára, komdu með heillegar flíkur og skiptu út fyrir aðrar heillegar eða gerðu reifarakaup.

12:00-17:00 FJÖLSKYLDURATLEIKUR OG KLIFURVEGGUR Í KVOSINNI 
Skátafélagið Mosverjar setur upp klifurvegg við Skálann í Álafosskvos. Öllum boðið að sigra vegginn og komast á toppinn. Mosverjar standa fyrir fjölskylduratleik með þrautum og skemmtilegheitum. Útdráttarverðlaun fyrir þá sem klára allar þrautirnar.

12:00 – 17:00 WINGS AND WHEELS – Tungubakkaflugvöllur
Fornvélasýning: Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla.
Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00 – 14:00 KOMDU OG VERTU MEÐ AFTURELDINGU
Allar deildir Aftureldingar koma saman í íþróttahúsinu að Varmá í sal 3.
Allir velkomnir að prófa þær íþróttir sem þeir vilja.
Fulltrúar frá deildum verða á staðnum og kynna vetrardagskrána.

12:00 – 17:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur.
12:00 Blaðrarinn mætir með sín vinsælu blöðrudýr
12:30 Mosfellskórinn
13:00 Krakkar úr Krikaskóla syngja
13:30 Kammerkór Mosfellsbæjar
14:00 Karlakórinn Stefnir
14:30 Krakkar kveða rímur
15:00 Leikgleði flytur lög úr ævintýrasöngleiknum 1001 nótt
15:30 Skósveinar (Minions) á röltinu um svæðið
16:00 Ukulele-ævintýri undir stjórn Berglindar Björgúlfs

12:00-18:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar alvöru kaffihús í Skálanum í Álafosskvos.
Boðið upp á úrval kaffidrykkja, heitt kakó og vöfflur.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

13:00 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Stöllurnar og María Guðmundsdóttir bjóða til árlegrar garðveislu.

13:00-16:00 ÚGANDA-FESTIVAL HJÁ RAUÐA KROSSINUM
Úganda-festival í húsi Rauða krossins. Í boði verða réttir frá Úganda, lifandi tónlist, atriði og tækifæri til þess að kynnast nýjum íbúum Mosfellsbæjar.

13:00 – 18:00 OPIÐ HÚS Á REYKJAVEGI 84
Keramik, kaffi, konfekt og snafsar frá vínframleiðandanum Eimverk verða í boði á opnu húsi á Leirvinnustofunni Reykjavegi 84, hjá Helgu Jóhannesdóttur. Allir hjartanlega velkomnir.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐRA
Mosfellingar, FaMos-félagar og aðrir gestir velkomnir í heimsókn í þjónustumiðstöðina á Eirhömrum.
Fjölbreytt vetrardagskrá kynnt. Kaffi á könnunni og Vorboðarnir taka lagið um kl. 13:00.

13:00-13:30 BARNADAGSKRÁ Á TÚNINU VIÐ HLÉGARÐ
Barnaleikritið Karíus og Baktus verður sýnt við Hlégarð. Fjallar um tvo skrýtna náunga sem una sér best við sæl­gætisát og holugerð í tönnunum hans Jens. Aðgangur frír.

13:00 – 16:00 SKOTTMARKAÐUR VIÐ KJARNA
Mosfellingum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr skápum og bílskúrum og bjóða gestum og gangandi til sölu. Einnig er handverksfólk velkomið. Nánari upplýsingar á Facebook. Skráning hjá Elísabetu í s. 898 4412.

14:00 UKULELE-ÆVINTÝRI
Ukulele-ævintýri í stigagangi stóra hússins að Álafossvegi 23. Berglind Björg leiðir hóp nemenda.

14:00 – 24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

14:00 – 16:00 REEBOK FITNESS LEIKARNIR
Líf og fjör á Miðbæjartorginu. Zumba undir stjórn Röggu. CrossFit Katla með sýnikennslu. Unglingar fæddir 2003 fá gjafakort frá Reebok Fitness. Lean Body kynning. Kynning á starfsemi Reebok Fitness. LexGames stendur fyrir æfingum og tímatöku í Pumpunni (hjólabrautinni). Street-soccer mót á litla battavellinum. Skráning á staðnum, einn á móti einum. Heilsueflandi samfélag stendur fyrir leikjum á torginu, snú-snú, teygjó, parís o.fl.

14:00 – 16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, sumarbiathlon, harmonikkuleikur, tónlist, uppistand og fleira.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

15:00 Listasalur Mosfellsbæjar
Jóní og Lína bjóða uppá leiðsögn um sýningu sína Frá móður til dóttur – frá dóttur til móður. Íbúar hvattir til að mæta og kynna sér betur þessa flottu sýningu sem hefur verið lýst sem „púlsandi af tilfinningum“.

15:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Davíð Ólafsson óperusöngvari býður til útitónleika í garðinum heima. Frábærir söngvarar til mæta leiks. Kristín Sveinsdóttir sem söng við La Scala óperuna á Ítalíu og bróðir hennar Guðfinnur Sveinsson bariton koma í heimsókn. Þá syngur Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Anna Guðný mun leika á píanóið. Gestgjafinn tekur einnig lagið og býður fólk velkomið.

15:00 OPIN ÆFING STEFNIS Í FMOS 
Karlakórinn Stefnir heldur opna kóræfingu í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
Allir velkomnir og verðum gestum boðið að syngja með ef þeir þora.

15:00 – 16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum á Stekkjarflötinni í boði Hestamenntar.

14:00 VARMÁRVÖLLUR – AFTURELDING – HUGINN
Knattspyrnulið Aftureldingar tekur á móti Hugin frá Seyðisfirði.
Leikur í Íslandsmótinu í knattpyrnu – 2. deild karla.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

16:30 Laxatunga 5 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Heklurnar verður með tónleika í bakgarðinum að Laxatungu 5. Gestgjafi er Kristín Ingvarsdóttir.

17:00 Túnfótur – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og ­félagar verða með stofu- eða palltónleika í Túnfæti í Mosfellsdal. Tónleikarnir standa yfir í klukkustund og mun staðsetning ráðast eftir veðri.

17:00 Bollatangi 2 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Garðtónleikar Sprite Zero Klan ásamt góðum gestum. Mikið stuð og mikil læti. Sigrún Þuríður Ermarsundsfari sér ­
um að baka fyrir gesti og gangandi.

18:00 Álafossvegur 20 (Þrúðvangur) – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennabandið spilar á bílaplaninu við Þrúðvang. Bandið er skipað sjö konum sem koma úr öllum áttum tónlistarlífsins. Gestgjafar eru þau Jón Júlíus Elíasson
og Ásta Björk Sveinsdóttir.

17:00 – 21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins.
Tríóið Kókos fer á milli staða og heimsækir heppna íbúa.
Látið vita ef þið viljið eiga kost á því að fá lifandi tónlist á Facebook-síðu Kókos.

21:00 – 23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður öllum upp á tónleika á Miðbæjartorginu.
Fram koma: Sprite Zero Klan, Karma Brigade, Stjórnin, Páll Óskar, Albatross, Sverrir Bergmann, Jóhanna Guðrún og Ragga Gísla. Kynnir verður Sigmar Vilhjálmsson.
Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

23:00 BJÖRGUNARSVEITIN MEÐ FLUGELDASÝNINGU

23:30 – 04:00 STÓRDANSLEIKUR MEÐ PÁLI ÓSKARI
Hinn eini sanni Páll Óskar mætir í íþróttahúsið að Varmá. Miðverð aðeins 2.000 kr. í forsölu sem fer fram á Hvíta Riddaranum og 3.000 kr. við hurð.

 

SUNNUDAGUR 26. ÁGÚST

8:00 – 20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Æfingaboltar á staðnum.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í MOSFELLSKIRKJU
Guðsþjónusta með „Í túninu heima“ hátíðarblæ.
Við guðsþjónustuna syngur kirkjukór Lágafellssóknar ásamt Einari Clausen. Prestur: sr. Arndís Linn.

12:30 og 15:30 ÞORRI OG ÞURA Í MELTÚNSREIT
Álfabörnin Þorri og Þura fagna 10 ára starfsafmæli sínu í ár og bjóða Mosfellingum á ókeypis leiksýningu undir berum himni. Áhorfendur taka virkan þátt í sýningunni sem er full af grípandi tónlist og miklu fjöri. Meltúnsreitur er nýtt útivistarsvæði á bak við Björgunarsveitarhúsið í Völuteig.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr í Mosfellsdal. Aðgangur 800 kr.

14:00 – 17:00 OPIÐ HÚS Á SLÖKKVISTÖÐINNI
Ný og glæsileg slökkvistöð við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Þá gefst almenningi tækifæri til að ganga um slökkvistöðina og skoða tæki og búnað. Allir velkomnir.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
Umhverfisnefnd veitir umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2018.
Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2018.
Skemmtileg tónlistaratriði og hátíðleg stund.
Kynnir Davíð Ólafsson formaður menningarmálanefndar.
Heitt á könnunni og allir velkomnir.

16:00 GLJÚFRASTEINN- STOFUTÓNLEIKAR
Sjálfur tónlistarstjóri Íslensku óperunnar og nýráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Bjarni Frímann Bjarnason, mun blaða í nótnasafni Halldórs Laxness og flytja úrval verkanna á flygil skáldsins.
Miðar eru seldir í safnbúðinni samdægurs og kosta 2.500 kr.

17:00 LEIKHÓPURINN LOTTA – GOSI
Leikhópurinn Lotta sýnir hið klassíska ævintýri um spýtustrákinn Gosa á túninu við Hlégarð. Sagan um gosa gerist inni í Ævintýraskóginum en eins og Lottu er von og vísa blandast fleiri þekkt ævintýri inn í verkið. Miðaverð: 2.300 kr.

20:00 LOKATÓNAR Í TÚNINU HEIMA
Hlégarður kynnir síðasta atriði bæjarhátíðarinnar á svið.
Sjálfur Bubbi Morthens mætir með gítarinn og verður boðið upp á notalega stund í Hlégarði. Nánar á Miði.is

Jeep aðalstyrktaraðili Tindahlaupsins

Guðni forseti á hlaupum um Mosfellsbæ árið 2017.

Guðni Th. Jóhannesson forseti tók þátt í Tindahlaupi Mosfellsbæjar árið 2017.

Tindahlaupið 2018 verður haldið í tíunda sinn þann 25. ágúst.  Líkt og í fyrra er Íslensk-Bandaríska í Mosfellsbæ, umboðsaðili Jeep á Íslandi aðalstyrktaraðili hlaupsins.  Hlaupið hefst við íþróttasvæðið að Varmá og verður ræst í tveimur ráshópum.  Klukkan 9 verða ræstir hlauparar sem hlaupa 5 og 7 tinda og kl. 11 þeir sem ætla sér að hlaupa 1 og 3 tinda.

Jeep hefur verið í fararbroddi og leiðandi framleiðandi á fjórhjóladrifsbílum í hart nær 80 á, rutt þeim braut og ljáð þeim nafn, en fyrsti jeppinn mætti til leiks árið 1941.  Jeep hefur allar götur síðan notið mikilla og verðskuldaðra vinsælda en frá 2016 hefur Ís-Band verið öflugur umboðsaðili Jeep á Íslandi.   Jeppalína Jeep er mjög fjölbreytt og er minnsti jeppinn Jeep Renegade sem undanfarin ár hefur verið valinn besti jeppinn í sínum stærðarflokki víðs vegar um Evrópu.  Jeep Compass er nýr jeppi í millistærðarflokki sem frumsýndur var á bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ á síðasta ári.  Jeep Cherokee er í miðjunni í jeppalínu Jeep, velútbúinn og öflugur jeppi með frábæra aksturseiginleika.   Jeep Grand Cherokee má segja að sé í sérflokki, því hann er sá jeppi sem flestum verðlaunum hefur hampað á heimsvísu. Síðast en ekki síst er það hinn goðsagnakenndi Jeep Wrangler, en Ís-Band mun kynna nýjan Wrangler í byrjun október mánaðar.

Að  sögn forsvarsmanna Ís-Band er góð tenging á milli Jeep og þess kaupendahóps sem stundar útvist, þar með talið fjallahlaup.  Með góðum og öflugum jeppa er hægt að komast að fallegum og spennandi stöðum í náttúrunni og með því að styrkja hlaup eins og Tindahlaupið, þá skapast kjörinn vettvangur til að kynna Jeep fyrir áhugasömum kaupendum.

Þátttaka í Tindahlaupinu hefur aukist ár frá ári og koma m.a. erlendir hlauparar sérstaklega til landsins til að taka þátt í hlaupinu.  Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, sem er eins alþjóð veit mikill hlaupagarpur tók þátt í Tindahlaupinu í fyrra.

Jeep jeppar munu vera áberandi við rás- og endamark og á nokkrum stöðum við hlaupaleiðna og áhugasamir geta eftir hlaup kíkt við í sýningarsal Ís-Band á laugardaginn, en salurinn verður opinn á milli kl. 12 og 16.  Boðið verður upp á reynsluakstur, þá má finna tilboð á völdum Jeep jeppum og boðið upp á léttar veitingar.

Hægt er að skrá sig í Tindahlaupið á hlaup.is og afhending hlaupagagna verður í sýningarsal Ís-Band daginn fyrir hlaup eða föstudaginn 24. ágúst á milli kl. 17 og 19.

Eitt í einu

heilsukarfa

Ég er að prófa á sjálfum mér áhrif þess að bæta mig markvisst á einu sviði heilsu og sjá hvaða áhrif það hefur á önnur svið. Síðan 1. ágúst er ég búinn að hreyfa mig markvisst í alla vega 3 klukkutíma á dag og skrái hjá mér hvert skipti. Hreyfingin er mjög vítt skilgreind – dekkar í raun og veru alla hreyfingu. Garðvinna, göngutúrar, æfingar, smíðavinna svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt sem kemur manni upp af stólnum og sófanum. Fótboltáhorf er hreyfing ef maður sest ekki niður og hreyfir sig á meðan maður fylgist með leiknum.

Þrír klukkutímar á dag í hreyfingu er auðvitað ekki neitt fyrir þá sem eru í vinnu sem krefst þess að þeir séu á hreyfingu yfir daginn. En fyrir þá sem eru í skrifstofuvinnu getur þetta verið áskorun sem krefst þess að maður sé útsjónarsamur og agaður í að finna leiðir til hreyfingar. En þetta skilar sér. Ég er strax farinn að finna það. Rammarnir halda mér við efnið, minna mig á að ég þarf að nota líkamann, ekki bara hausinn. Þeir hjálpa mér að búa mér til góðar venjur og halda þeim við.

Morgungöngur eru eitt dæmi um slíkt. Hugsanlega besta leiðin til þess að byrja hvern dag. En svo geri ég líka meira gagn heima. Vinn meira í garðinum. Er duglegri að mjaka áfram endurbótum á risinu. Ég leik mér líka enn meira. Fæ guttana mína oftar út í körfubolta eða fótbolta. Er duglegri að fara í göngutúra með frúnni.

Áhrifin á aðra þætti heilsu eru þegar farin að skila sér. Meiri hreyfing skilar sér í betri svefni. Maður er þægilega þreyttur í lok dags og á enn auðveldara með að sofna. Mataræðið verður líka betra, nánast sjálfkrafa. Hreyfingarleysi kallar á sætindi, gerviorku. Hreyfing kallar á hollan mat. Fylgist með á instagram.com/gudjon_svansson

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. ágúst 2018

Úr sófanum á 7 tinda

Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram laugardaginn 25. ágúst • Óskar Þór hefur hlotið nafnbótina Tindahöfðingi

Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram laugardaginn 25. ágúst. Óskar Þór hefur hlotið nafnbótina Tindahöfðingi.

„Ef einhver hefði sagt mér vorið 2013 að eftir fjögur ár myndi ég hlaupa alla 7 tindana í Tindahlaupi Mosfellsbæjar og verða Tindahöfðingi þá hefði ég hlegið upp í opið geðið á viðkomandi. Maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Óskar Þór Þráinsson starfsmaður á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar.

Það erfiðasta sem ég hef gert
Hann byrjaði að skokka 17. júní árið 2013 og gat varla hlaupið að milli ljósastaura, eins og hann orðar það sjálfur.
„Tveimur mánuðum seinna fór ég mitt fyrsta 10 km hlaup í Reykjavíkurmara­þoninu. Með viljann að vopni fór ég ári síðar í hálfmaraþon og var það það erfiðasta sem ég hef gert.
Á þessum tíma var ég óviss um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur næst. Þetta sumar hafði ég tekið þátt í mínu fyrsta utanvegahlaupi, hálfu Barðsneshlaupi (13 km) á Austfjörðum, sem ég hafði varla ráðið við.

Er þetta eitthvað fyrir mig?
Konan mín sá þá auglýsingu fyrir Tindahlaupið í Mosó og spurði mig hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir mig. Ég var alls ekki viss. Ég vissi vel af þessu hlaupi en hafði miklað fyrir mér að vera að hlaupa upp á fjall, sérstaklega eftir hrakfarirnar fyrir austan.“
Að áeggjan konunnar ákvað Óskar þó að láta slag standa og prófa að taka þátt. „Ég las meðal annars um Tindahöfðingjanafnbótina og gat ekki ímyndað mér hvernig nokkur maður gæti hlaupið 37 km yfir 7 tinda í einu lagi.“

Hlaupabakterían tekur sér bólfestu
„Ég fór minn fyrsta tind 30. ágúst 2014 í 10° hita og léttri þoku á Úlfarsfellinu. Ég hljóp yfir forarmýrarnar í átt að Hafravatni og kom í mark drullugur upp yfir haus fullur af óstjórnlegri gleði yfir magnaðri upplifun. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var upplifunin alveg mögnuð.
Það var þetta haust sem hlaupabakterían tók sér varanlega bólfestu í mér. Ég tók þátt í fleiri hlaupaviðburðum á götum og utanvega og hljóp síðan mitt fyrsta heila maraþon í RM 2015. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert. Ég gat því eðlilega ekki stillt mig um að skrá mig í þrjá tinda í Tindahlaupinu í kjölfarið.“

Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon
„Tindarnir þrír 2015 voru bókstaflega æði. Það var snilldar utanvega-fjallgönguhlaup í brjálaðri sumarblíðu. Útsýnið var æðislegt, ég átti mun auðveldara með að komast upp á Úlfarsfellið og það var hæfilega krefjandi að koma sér upp á síðari tindana tvo.
Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon á bakinu ákvað ég strax að setja markið hátt og stefna á 5 tinda að ári. Ég vissi að það myndi krefjast enn meiri þjálfunar. Ég fór því að fara reglulega í gönguferðir á fellin í Mosó og önnur fjöll. Sumarið 2016 fór ég í tvöfalda Vesturgötu, 46 km fjallahlaup á Vestfjörðum, sem reyndist mér næstum ofviða. Ég kom mér á strik aftur um sumarið, hljóp yfir Fimmvörðuháls með Náttúruhlaupum og kom mér í stand.“

Stóra áskorunin
„Tindana fimm hljóp ég 27. ágúst 2016 í skýjuðu en annars ágætu veðri. Ég var svo heppinn að hafa frábæran hlaupafélaga meginþorra leiðarinnar, hana Höllu Karen, driffjöður Mosóskokks. Ég verð að viðurkenna að brekkan upp á fyrsta hluta Grímannsfells reyndist mög líkamlega og andlega krefjandi. Ég rúllaði í mark fyrir rest í sigurvímu.
Á þessum tímapunkti sá ég fyrir mér að ekkert annað í stöðunni en að leggja enn meira á mig og fara alla helv… 7 tindana að ári. Ég fór því inn í haustið og veturinn af enn meiri krafti bæði í hlaupum og fjallgöngum. Vorið 2016 kom félagi með þá hugmynd að reyna við Landvættina.
Vorið og sumarið helgaðist því af mörgum fjölbreyttum æfingum og miklum áskorunum. Ég fór í Scaffell Pike fjallamaraþon í Englandi, 44 km maraþon með 1.800 m hækkun og komst það við illan leik á hugarfarinu einu saman. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert til þessa. Síðan synti ég Urriðavatnssundið og fór í Jökulsárhlaupið í ágúst sem voru hluti af Landvættinum. Tveimur vikur seinna var komið að stóru áskoruninni, heilum 7 tindum í Mosó.“

Hvað er ég að spá?
„Að morgni dags 26. ágúst 2017 leit þetta ekki vel út. Veðrið var með allra versta móti. Hífandi rok og rigning. Það kom hins vegar aldrei til greina að hætta við. Ég var vel undirbúinn líkamlega og í góðum vind- og vatnsþéttum búnaði en það er ekki hægt að undirbúa sig undir svona slagviðri.
Á sama tíma og veislutjöld og sölubásar voru að fjúka til á bæjarhátíðinni í Mosó var ég búinn að vera að í þrjá klukkutíma með 20 km að baki að berjast upp að tindi Grímannsfells í svo miklu slagviðri >20m/s að ég gat varla haldið augunum opnum. Ég var hættur að finna fyrir fingrunum af kulda og bleytu. Ég spurði mig hvað ég væri eiginlega að spá.
Það er á svona stundum sem maður kemst að því hvers maður er megnugur. Fyrst setti ég mér markmið að komast upp á topp. Það tókst og á niðurleiðinni frá Grímannsfelli fór mér að líða betur þrátt fyrir að villast örlítið. Ég barðist áfram á þrjóskunni einni saman og komst að lokum í mark um fimm og hálfum tíma seinna.“

Fallegasti verðlaunagripurinn
„Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að klára ekki bara eitt erfiðasta hlaup í einum erfiðustu aðstæðum sem ég hef tekið þátt í heldur að klára fjögurra ára vegferð. Að vera orðinn Tindahöfðingi. Ólýsanlegt. Ég verð líka að segja að verðlaunagripurinn er fallegasti gripur sem ég hef fengið fyrir hlaupaafrek mín.
Ég lít á áskorunina um að prófa utanvegahlaup sem einn af þeim hornsteinum sem hafa breytt lífi mínu. Utanvegahlaup eru mitt helsta og besta áhugamál. Með því sameina ég útivistar- og gönguástríðuna við hlaupabakteríuna. Ég stunda nú bæði hlaup reglulega og reyni að fara svo gott sem vikulega í stuttar göngur upp á bæjarfellin í Mosó. Síðasta vetur kláraði ég síðan að vinna mér inn nafnbótina Landvættur og set nú stefnuna á að hlaupa Laugaveginn næsta sumar.“

Aldrei að segja aldrei
„Ég hef lært það á þessum tíma að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef maður setur sér raunhæf markmið, með nægan tíma til undirbúnings, er bókstaflega allt hægt. Ég er ekkert ofurmenni. Ég fór ég frá því að vera sófakartafla yfir í að gera hluti sem mér fundust áður ofurmannlegir.
Hlaup og sérstaklega utanvegahlaup snúast ekki bara um æfingar og undirbúning heldur um hugarfar. Vilji til þess að skora á sjálfan sig og trú á sjálfum sér. Maður á aldrei að segja aldrei.“

——

Tindahlaup Mosfellsbæjar er krefjandi og skemmtilegt utanvegahlaup sem haldið er í Mosfellsbæ síðustu helgina í ágúst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir: 1 tindur (12 km), 3 tindar (19km), 5 tindar (35km) og 7 tindar (37 km).

Ungu stelpurnar stíga upp og fá tækifæri

Úr síðasta heimaleik. Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Meistaraflokkur kvenna leikur í Inkasso-deildinni í knattspyrnu eftir sigur í 2. deildinni í fyrra. Aftureldingu/Fram er spáð 8. sæti í sumar. Við tókum Júlíus Ármann Júlíusson þjálfara liðsins tali.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað?
„Við byrjuðum á því að standa í Fylkiskonum sem er spáð titlinum en töpuðum 0-1. Þá tóku við þrír jafnteflisleikir. Síðan unnum við Fjölni og töpuðum síðasta leik 2-1 á móti Þrótti.
Það skemmtilega við tímabilið er að við erum með mikla endurnýjun á liðinu. Það eru í raun einungis þrjár úr byrjunarliðinu í fyrra sem spila með okkur núna. Það fóru sjö leikmenn í barneignaleyfi sem er örugglega einsdæmi. Það er mikil frjósemi Mosfellsbænum.“

Hvernig er hópurinn?
„Þetta eru mest stelpurnar okkar úr Aftureldingu. Við eigum orðið fjóra landsliðsmenn í U16 og U17 ára. Það hefur flýtt ferlinu hjá þeim að vera kallaðar ungar inn í meistaraflokk og fengið tækifæri.“

Hver eru markmið sumarsins?
„Ég held að við séum að koma gríðarlega á óvart með góðri frammistöðu það sem af er sumri. Ungu stelpurnar hafa verið að stíga upp og andinn er góður. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að enda ofar en okkur er spáð en liðinu er spáð 8. sæti í sumar.“

Draumur að komast aftur í Pepsi-deild?
„Já, nú er hugsunin sú að reyna að búa til góðan stöðugleika í Inkasso. Á næstu 2-3 árum má alveg gæla við að komast í efstu deild. Á meðan erum við að byggja upp ungt og efnilegt lið.“

Hvernig hefur umgjörðin og stemningin verið?
„Bjartur, formaður meistaraflokksráðs, stendur sig vel en við þurfum að fá fleira fólk í ráðið.“

Uppbygging hafin á kaup­félagsreitnum

kaupfelags50

kaupfelags_mosfellingurFramkvæmdir eru nú hafnar við Bjarkarholt 8-20 sem kallað hefur verið kaupfélagsreiturinn.
Vinna við niðurrif sjoppu og gamla kaupfélagsins er hafin og skipulagsnefnd og bæjarstjórn hafa samþykkt byggingaráformin og byggingarleyfisumsókn er nú í yfirferð hjá embætti byggingarfulltrúa.
Miðað er við að á reitnum rísi fjögur fjölbýlishús á þrem til fimm hæðum. Gert er ráð fyrir allt að 65 íbúðum fyrir 50 ára og eldri og verslunarrými á götuhæð einnar byggingarinnar
Arkitektar húsanna eru ASK arkitektar og Landhönnun og við hönnun er stuðlað að grænni ásýnd umhverfisins. Þannig verða flest bílastæði í bílageymslu og gert er ráð fyrir að hægt verði að hlaða rafmagni á bíla á svæðinu. Þá er gert ráð fyrir að lágmarki tveimur stæðum fyrir reiðhjól á hverja íbúð.

Myndavélin hennar mömmu hafði áhrif

olina

Ólína Kristín Margeirsdóttir ljósmyndari opnaði ljósmyndastofu í Mosfellsbæ árið 2009. Ólína byrjaði ung að árum að taka myndir og hafa áhugamál hennar í gegnum tíðina ávallt verið tengd ljósmyndun. Það kom því fáum á óvart er hún fór að læra að verða ljósmyndari og í framhaldi opnaði hún sína eigin ljósmyndastofu, Myndo.is
Ólína segir að í starfi sínu reyni mikið á þolinmæði og tíma því allt felist í biðinni eftir að fanga rétta augnablikið.

Ólína Kristín er fædd í Grindavík 21. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Guðlaug R. Jónsdóttir húsmóðir og Margeir Á. Jónsson vörubílstjóri. Ólína á tvo bræður, Jón Gunnar f. 1968 og Árna Valberg f. 1982.

Fór með afa í sunnudagaskólann
„Ég er alin upp í Grindavík og það var gott að alast upp þar. Það var mikið af krökkum í hverfinu og við lékum okkur öll saman úti í leikjum á kvöldin.
Ég man enn þær stundir þegar ég labbaði yfir til ömmu og afa sem bjuggu ekki langt frá og fékk að fara með afa í sunnudagaskólann. Afi var sóknarprestur í Grindarvíkurkirkju í hartnær 40 ár og ég fékk að aðstoða í kirkjunni, það þótti mér spennandi.“

Sótti rollurnar með pabba
„Ég fékk oft að fara með pabba í bíltúr á vörubílnum og það var sérstaklega gaman á haustin því þá fékk maður að fara með honum að sækja rollurnar sem voru á leið í sláturhúsið. Þá notaði maður tækifærið og fékk að klappa þeim í leiðinni.
Ég sótti ekki mikið á bryggjuna en mamma var oft út í bílskúr að skera utan af netum og setja net á pípur og maður hjálpaði til við það þótt maður hafi ekki verið hár í loftinu.
Ég byrjaði ung að vinna, ætli ég hafi ekki verið 9 ára þegar ég byrjaði með lítinn strák í vist. Svo var það bæjarvinnan, maður var að sópa og tína rusl í bænum og í fjörunni. Þegar ég varð aðeins eldri fékk ég að fara að reyta arfa og slá grasið í kirkjugarðinum, svaka uppgrip,“ segir Ólína og brosir.

Vindáshlíð hápunkturinn
„Á sumrin fór ég á ýmis námskeið eins og leikja- og fótboltanámskeið en strax eftir fermingu fór ég til Frakklands í mánuð að passa hjá frænda mínum. Þegar heim var komið tók humarvinnan við og svo lá leiðin beint í frystihúsið.
Sumarið fyrir 10. bekk fékk ég að fara til Englands í enskuskóla í mánuð. Eftir það starfaði ég á Sjómannastofunni Vör bæði í eldhúsinu og við afgreiðslu.
Á hverju sumri fór ég í Vindáshlíð í viku eða frá 9 -14 ára aldurs og eitt árið fékk ég að vera þar í tvær vikur. Þetta fannst mér vera hápunkturinn á sumrinu.“

Lærði að standa á eigin fótum
„Eftir útskrift úr Grunnskóla Grindavíkur lá leið mín í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og ég leigði hjá frú Bjarnfríði sem átti heima rétt hjá skólanum. Þetta voru góð og skemmtileg ár og þarna lærði ég að standa á eigin fótum.“
Ólína kynntist eiginmanni sínum, Haraldi V. Haraldssyni, vélfræðingi og rennismið, sumarið 1989. Þau giftu sig 27. júní 1992 og eiga saman þrjú börn. Margeir Alex f. 1993 rennismið og sjómann, Jón Árna f. 1996 bakara sem býr í Sviss og Elísabetu Tinnu f. 2003 nema og dansara.
„Þegar við Halli vorum að kynnast þá var ég á leið í Iðnskólann í Reykjavík að læra tækniteiknun. Eftir útskrift fór ég að vinna á flugvellinum í Keflavík og hjá Hans Petersen í Kringlunni við framköllun.
Við bjuggum í Hafnarfirði á þessum tíma en fluttum svo í Hamraborgina í Kópavogi rétt áður en við eignuðumst okkar fyrsta barn.“

Lá best við að kaupa hér
„Eftir þrjú ár í Kópavoginum ákváðum við að flytja í Mosfellsbæinn. Þetta var árið 1996, en þá vorum við hjónin búin að kaupa húsnæði í Flugumýri undir fyrirtæki okkar, Vélsmiðjuna Svein, sem við stofnuðum 1993, svo það lá best við að kaupa hér.
Við keyptum í Dvergholti en byggðum svo í Hrafnshöfðanum. Á meðan við vorum að byggja þá bjuggum við í smá tíma á skrifstofu í Hlíðartúninu og í fellihýsinu okkar í þrjár vikur á tjaldsvæði Mosfellsbæjar. Við fluttum svo inn í apríl 2001.“

Fékk myndavél hjá mömmu
„Áhugamál mín hafa alltaf verið tengd ljósmyndun og byrjaði sá áhugi sjálfsagt með því að ég fékk að taka myndavélina hennar mömmu með í Vindáshlíð þegar ég var níu ára.
Ég var alltaf í ljósmyndaklúbbi í grunnskóla og fór í starfskynningu í 9. bekk á ljósmyndastofu í Reykjavík. Eins vann ég hjá Hans Petersen í nokkur ár og þá jókst áhuginn á ljósmyndun þótt ég hafi ekki byrjað nám fyrir en árið 2005.
Ég fór síðar að starfa við framköllun hjá fyrirtækinu Jákvæð mynd sem var staðsett í bókabúðinni þar sem Bókasafn Mosfellsbæjar er nú til húsa. Með þeirri vinnu starfaði ég einnig í heimakynningum hjá Clean Trend og eins var ég að kynna fatnað frá Clamal.“

Lauk ljósmyndanámi árið 2007
„Ég lauk námi í grafískri miðlun haustið 2006 og vorið 2007 lauk ég svo ljósmyndanámi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði námssamning á Ljósmyndastofunni Ásmynd en flutti mig svo yfir á Barna- og fjölskylduljósmyndir.
Ég lauk sveinsprófi árið 2008 og ári seinna opnaði ég mína eigin ljósmyndastofu hér heima í Hrafnshöfðanum, Myndo.is. Ég tek að mér ýmis konar myndatökur. Síðan ég opnaði hef ég bætt við mig instaprent.is, poster.is og filmverk.is.
Reynir ekki oft á þolinmæðina í ljósmyndastarfinu? „Jú, það þarf mikið af þolimæði og góðan tíma til að fanga rétta augnablikið, svo mikið er víst. En svo er það „fullvissa augnabliksins“ þegar maður smellir af og veit um leið að rétta augnablikinu var náð, það er dásamleg tilfinning.“

Dansinum fylgir mikil vinna
„Samkvæmisdansar er í miklu uppáhaldi hjá mér og dóttir okkar Elísabet Tinna hefur stundað dans frá árinu 2009. Við foreldrarnir höfum fylgt henni og stutt hana í dansinum síðan þá.
Þessu fylgir mikil vinna, við keyrslu og keppnisferðir bæði hér heima og erlendis en er sannarlega þessi virði,“ segir Ólína brosandi að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 28. júní 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Hafa mikinn metnað fyrir hönd félagsins

Byrjunarlið Aftureldingar gegn Gróttu í síðasta heimaleik. Leikurinn endaði með jafntefli eftir dramatískar lokamínútur.  Efri röð: Andri Þór,  Jose Dominguez, Róbert Orri, Sigurður, Jason Daði og Loïc M’bang Ondo. Neðri röð: Wentzel Steinarr, Andri Már, Hafliði, Steinar og Andri Freyr.

Byrjunarlið Aftureldingar gegn Gróttu í síðasta heimaleik. Leikurinn endaði með jafntefli eftir dramatískar lokamínútur. Efri röð: Andri Þór, Jose Dominguez, Róbert Orri, Sigurður, Jason Daði og Loïc M’bang Ondo. Neðri röð: Wentzel Steinarr, Andri Már, Hafliði, Steinar og Andri Freyr.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hefur byrjað tímabilið af miklum krafti. Liðið er taplaust á toppi 2. deildarinnar þegar átta leikjum er lokið.
Við tókum Arnar Hallsson þjálfara tali.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað?
„Við erum nálægt þeim markmiðum sem við settum okkur, erum efstir og höfum unnið marga leiki. Það hefur kannski komið á óvart að við höfum ekki náð að slíta okkur frá hinum liðunum þrátt fyrir að vera taplausir.“

Er hópurinn að smella saman?
„Ef við horfum fram hjá síðasta leik þá erum við í fínum gír. Menn eru orðnir vanari að spila saman og liðsheildin sterkari. Þetta hefur þróast mjög vel. Við höfum lent undir í 6 leikjum af 8 en alltaf náð að vinna eða jafna. Þetta þurfum við auðvitað að laga en þetta er mikil breyting frá því í fyrra.“

Hvernig er liðið skipað?
„Við erum með 3-4 reynda spilara, restin eru strákar sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Yfirleitt eru 5-6 í byrjunarliðinu uppaldir Mosfellingar.“

Hvernig er framhaldið?
„Við höfum verið að spila góðan sóknarleik og skorað mikið af mörkum. Strákarnir eiga eftir að eflast og styrkjast og seinni helmingurinn af mótinu verður mjög skemmtilegur. Markmiðið er alveg klárt, að fara upp um deild. Liðið hefur sýnt það að það hefur getuna til þess.“

Hvernig hefur umgjörðin og stemningin verið?
„Þetta fór mjög vel af stað en hefur dalað aðeins í kringum HM. Sumarið er tíminn og ég vil hvetja fólk til að taka þátt í gleðinni með okkur, mæta á völlinn og styðja strákana. Þeir eru búnir að leggja hart að sér í marga mánuði og hafa virkilega mikinn metnað fyrir hönd félagsins.“

Gera tröppur upp Úlfarsfell

Guðmundur og Ævar að störfum en í lok sumars má gera ráð fyrir því að þrepin verði orðin hátt í 250.

Guðmundur og Ævar að störfum en í lok sumars má gera ráð fyrir því að þrepin verði orðin hátt í 250 talsins. 

Unnið er því þessa dagana að gera tröppur upp norðanvert Úlfarsfellið. Gönguleiðina kalla skátarnir Skarhólamýri en gott samstarf hefur verið á milli Mosfellsbæjar og skátafélagsins Mosverja um bætt aðgengi að útivistarsvæðum í kringum bæinn.
Stikaðar hafa verið um 90 km af gönguleiðum auk þess sem útbúin hafa verið bílastæði, girðingastigar, göngubrýr og nú tröppur.

Tröppur nánast alla leið
„Það var orðið hættulegt að labba hérna í drullunni,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri fyrir hönd Mosverja. „Fyrir tveimur árum var ákveðið að hefjast handa hér við Skarhólabraut. Leiðin er það brött upp að þetta eru eiginlega bara tröppur alla leið. Við gerðum 110 þrep í fyrra og þau munu verða eitthvað fleiri í ár. Þetta verða því hátt í 250 þrep eftir sumarið.
Þetta er vinsæl gönguleið og hæg heimatökin fyrir Mosfellinga að ganga hér upp og njóta náttúrunnar.“

Falið leyndarmál Mosfellinga
Guðmundur Friðjónsson „skátapabbi“ kemur einnig að verkefninu og segir þetta breyta miklu og færa umferðina á stíginn. „Gróðurinn í kring nær þá vonandi að jafna sig. Þetta er ákveðið tilraunaverkefni með motturnar sem við notum en þær eru úr endurunnu plasti og hafa haldið mjög vel.“
Guðmundur segir að færri viti af þessari leið upp á fellið og hún sé í raun falið leyndarmál. „Það er góð þjálfun að koma hér í alvöru pallaleikfimi úti í náttúrunni.“

Á sama afmælisdag og Krikaskóli

Patrik Logi útskrifast úr krikaskóla 10 árum síðar

Patrik Logi útskrifast úr krikaskóla 10 árum síðar.

Þann 16. júní fagnaði Krikaskóli 10 ára afmæli. Nemendur og starfsfólk skólans héldu upp á daginn með dagskrá sem undirbúin var af krökkunum sjálfum.
„Börnin voru sammála um að þau vildu halda dagskrána utandyra með fjölbreyttum stöðvum sem endurspeglar áherslur skólans,“ segir Þrúður Hjelm skólastjóri.
„Það var þann 16. júní 2008 sem fyrstu börnin komu í aðlögun í Krikaskóla sem þá var staðsettur í Helgafellslandi meðan á byggingu skólans stóð í Sunnukrika. Flutt var í varanlegt húsnæði í Krikahverfinu vorið 2010.
Krikaskóli er samþættur leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum tveggja til níu ára.“

Á fæðingardeildinni þegar eldri bróðirinn byrjaði
Skólaslit og útskriftir elstu barna skólans fór fram þann 25. júní. Patrekur Logi Vignisson var einn þeirra sem útskrifaðist þann dag en hann er einmitt fæddur 16. júní 2008 og er því jafngamall skólanum.
„Eldri sonur minn Hörður Óli byrjaði fyrsta daginn sinn í skólanum þennan dag. Amma hans þurfti að fylgja honum því ég var á fæðingardeildinni. Patti byrjaði svo í Krikaskóla þegar hann hafði aldur til. Við erum með tárin í augunum að kveðja skólann eftir allan þennan tíma.
Við fullyrðum að þetta sé besti skólinn,“ segir María Fjóla Harðardóttir móðir Patta.

Ráð við rigningu…

gauiregn

Sól slær silfri á voga, sjáðu jökulinn loga. Allt er bjart fyrir okkur tveim því ég er kominn heim. Það er fátt betra en að syngja um sólina sem slær silfri á voga með þúsundum Íslendinga nokkrum mínútum fyrir risastóran fótboltaleik. Fæ gæsahúð við tilhugsunina.

Sólin var í Rússlandi en hefur minna verið hér heima í sumar eins og einhverjir hafa tekið eftir. Mikil rigning á sumrin er ekki góð fyrir þjóðarsálina, en við getum ekki stýrt veðrinu og verðum því að finna aðrar leiðir til þess að halda okkur jákvæðum. Eitt það besta sem við getum gert er að byrja daginn vel. Koma okkur upp góðri morgunrútínu sem kemur okkur í gott hugarástand.

Ég mæli með blöndu af hreyfingu, útiveru og gefandi lærdómi. Þessi blanda hefur virkað vel fyrir mig undanfarna mánuði. Morgunrútínan er ekki alltaf eins, en ramminn er svipaður. Ég vakna á bilinu 5.45 – 6.15. Fer út í stutta morgungöngu í Reykjalundarskógi. Veðrið skiptir engu máli. Ég, eins og allir Íslendingar, á föt fyrir allt veður. Það er frábært að byrja daginn á því að labba úti í náttúrinni. Hlusta á fuglana, finna lyktina af gróðrinum, anda að sér ferska loftinu. Síðan tek ég liðleika- og líkamsæfingar. Eftir æfingarnar tek ég rispu í DuoLingo tungumálaforritinu. Fyrir Rússland lagði ég áherslu á rússnesku, nú er spænskan í aðalhlutverki. Útiveran, spriklið og tungumálastúdían tekur samtals 30 – 60 mínútur. Lengdin fer eftir því hvort ég er að þjálfa morgunsnillingana sem mæta til okkar á æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum. Sá hópur gefur manni alltaf risa orkuskot inn í daginn. Málið er einfalt, ef maður velur að byrja daginn á hlutum sem gefa manni orku, þá er maður klár í hvað sem er, jafnvel haglél í júní.

Við byggjum saman bæ í sveit, sem brosir móti sól.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. júní 2018

Hefðbundinn starfsvettvangur ekki framtíðin

sodlasmidur

Guðrún Helga Skowronski ákvað að læra söðlasmíði svo hún gæti sameinað áhuga sinn á handverki og hestamennsku. Helga eins og hún er ávallt kölluð, lagði oft leið sína á sínum yngri árum í gegnum Mosfellsdalinn á leið í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Hún hugsaði oft um hvernig væri að eiga heima í dalnum en óraði ekki fyrir að einn daginn myndi hún setjast þar að en sú varð raunin.
Hún hóf störf á minkabúinu Dalsbúi árið 1999, giftist ábúandanum árið 2001 og ásamt því að sinna börnum og búi sinnir hún starfi sínu sem söðlasmiður og er með aðstöðu heima við.

Guðrún Helga Skowronski er fædd í Reykjavík 12. ágúst 1975. Foreldrar hennar eru þau Þorbjörg Skjaldberg skurðhjúkrunarfræðingur og Henry Val Skowronski tækniteiknari. Helga á fjögur systkini, Pálma f. 1978, Halldóru Maríu f. 1985, Margréti Þorgerði f. 1996 og Ásgeir f. 1997.

Bundu hestana fyrir utan heima
„Við fjölskyldan áttum heima í Ásgarði í Reykjavík rétt hjá Neðri-Fáki. Stundum komu karlar með sixpensara ríðandi og bundu hestana fyrir utan heima. Ég varð alveg sjúk því mig langaði svo á hestbak.
Af einhverri ástæðu beit ég það í mig að allir karlar með sixpensara væru hestamenn þannig að ég gerði í því að setjast við hliðina á þannig mönnum í strætó í von um að þeir myndu bjóða mér á bak en sú varð því miður ekki raunin,“ segir Helga og hlær.

Flutti til Svíþjóðar
„Ég flutti til Svíþjóðar þegar ég var sjö ára og bjó þar í átta ár. Ég kom alltaf til Íslands á sumrin og um helgar var farið upp í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Ég man þegar við keyrðum í gegnum Mosfellsdalinn, þá hugsaði ég oft hvernig væri að búa þarna.
Ég gekk í Hvassaleitisskóla, Uddaredsskolan, Hästhagenskolan, Alléskolan í Svíþjóð og fór svo í Menntaskólinn í Hamrahlíð.
Ég var langt komin með námið í MH þegar ég gerði mér grein fyrir því að að hefðbundinn starfsvettvangur væri ekki framtíðin fyrir mig. Ég ákvað að læra söðlasmíði þar sem ég gæti sameinað áhuga minn á handverki og hestamennsku.“

Stjörf af skelfingu með kort í höndunum
Helga fann skóla í London sem henni leist vel á og haustið sem hún varð 19 ára lagði hún land undir fót og flutti til London.
„Þegar ég hugsa til baka þá var þetta hin mesta firra. Þegar ég lenti var ég klyfjuð af farangri og ekki komin með stað til að búa á. Ég man ennþá eftir því að það fyrsta sem blasti við mér þegar ég steig út af lestarstöðinni var útprentað blað með mynd af ungum manni og undir myndinni var texti sem skrifaður var af móður hans þar sem hún auglýsti eftir vitnum að því hver hefði myrt son hennar. Ég man að ég gekk af stað stjörf af skelfingu með kort af London í höndunum og skimaði í kringum mig í leit að leiðinni í skólann.
Ég fékk síðan húsnæði í göngufjarlægð frá skólanum og hóf nám viku seinna.“

Kynntist öðruvísi vinnubrögðum
„Ég blómstraði í London enda var námið hnitmiðað og skemmtilegt. Þarna lærði ég ekki bara handbragðið sjálft heldur líka hvernig hönnunin og uppbyggingin öll væri á bæði aktygjum, beislisbúnaði og mismunandi hnökkum. Auk þess fengum við grunnþekkingu á svokölluðu „saddle fitting“ en það er listin að smíða og stilla hnakk svo að hann smellpassi á ákveðið hross.
Þegar fyrsta árið var liðið þá sendi ég bréf til nokkurra söðlasmiða á Íslandi og sótti um sumarvinnu. Valdimar Tryggvason, eigandi að Söðlasmiðnum í Nethyl réði mig í vinnu það sumarið og kynntist ég þar allt öðruvísi vinnubrögðum en kennd voru í skólanum.“

Búfræðingur og tamningamaður
„Ég útskrifaðist úr Cordwainers College með HND í söðlasmíði og tók svo sveinspróf eftir að ég flutti aftur heim. Ég fór að vinna tímabundið við viðgerðir í versluninni Reiðsporti.
Árið 1998 sótti ég um á tamningabraut á Hólum í Hjaltadal og komst inn. Þar átti ég eitt það skemmtilegasta ár sem ég hef upplifað.
Sumrinu eyddi ég við verknám að Hofi á Höfðaströnd og útskrifaðist svo um haustið sem búfræðingur með frumtamninga próf frá FT.“

Átti ekki von á umsókn frá Íslendingi
„Eftir útskrift fann ég aðstöðu fyrir hrossin mín í hesthúsahverfinu í Mosó og vann hlutastarf við þjálfun hrossa í Varmadal. Ég sá auglýsta stöðu á minkabúinu Dalsbúi í Mosfellsdal og sótti um með semingi. Ásgeir sem þar bjó átti alls ekki von á því að fá umsókn frá Íslendingi, hvað þá einhverri stelpu,“ segir Helga og brosir.
„Ég hóf störf árið 1999 og hef ekkert farið aftur. Við, Þorlákur Ásgeir Pétursson, eða Ásgeir í minkabúinu eins og hann er ávallt kallaður, giftum okkur í Mosfellskirkju 24. maí 2001. Við tóku ár af barneignum og uppeldi. Kristofer Henry f. 1996 átti ég fyrir en svo eigum við saman Pétur Þór f. 2001, Þorbjörgu Gígju f. 2007 og Þorgrím Helga f. 2010. Fyrir átti Ásgeir tvö börn, Sigríði Herdísi og Ólaf Pétur.“

Söðlasmiðurinn í Mosfellsdal
„Þegar við vorum búin að búa í Dalsbúi í einhvern tíma hafði kunningjakona mín samband við mig. Hún var farin að flytja inn hnakka frá Noregi og vantaði söðlasmið til að stoppa í. Þarna hafði ég ekki tekið upp verkfærin mín í langan tíma en ég tók að mér þetta verkefni. Þarna enduruppgötvaði ég gleðina við handverkið og var þetta fyrsta skrefið að því að ég opnaði Söðlasmiðinn í Mosfellsdal.
Fyrirtækið hefur stækkað og þróast smám saman í takt við eftirspurn. Fyrstu árin gerði ég alla vinnu í höndunum en keypti mér svo saumavél fyrir ágóða af hrossasölu.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá það sem ég er að gera þá má fylgjast með mér á Facebook.“

Rækta bæði grænmeti og ávexti
„Ásýnd Dalsbúsins hefur breyst mikið og hér eru komin falleg íbúðarhús. Minkabúið og fóðurstöðin hafa verið endurnýjuð og stækkuð, aðstaða er fyrir kindur og hross og Söðlasmiðjan er komin með aðstöðu.
Við erum búin að koma okkur upp gróðurhúsi og erum líka með ræktarlegan garð þar sem við getum ræktað bæði grænmeti og ávexti. Við erum bæði mjög áhugasöm um að geta boðið upp á hreinan og heilbrigðan mat og reynum því að rækta sem mest sjálf.
Við höfum áhyggjur af því hvernig nútíminn fer með jörðina og þá sem á henni búa. Við viljum að sumu leyti leita aftur til fortíðar og að hvert og eitt land sé sjálfu sér nægt með mat fyrir sig og sína í jafnvægi við náttúruna.“

Mosfellingurinn 7. júní 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Creedence tónlistin trekkir vel

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir.

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir eru væntanlegir í Bæjarleikhúsið laugardaginn 9. júní. 

Birgir Haraldsson og félagar hafa með reglulegu millibili þeyst um landið og spilað Creedence og John F. Fogerty lög.
Þeir hafa ferðast víða og fengið frábærar undirtektir. „Það er algerlega magnað hvað tónlist þessa manns er vel þekkt,“ segir Birgir. „Hún hefur síast inn í landann með móðurmjólkinni þannig að menn þekkja hvert einasta lag. Við höfum verið að reyna að breyta til og spila lög sem við höldum að séu minna þekkt en það breytir engu. Það er sungið með hverju einasta lagi,“ segir Birgir.
Valinn maður í hverju rúmi
Með Birgi er valinn maður í hverju rúmi. Á gítarnum er Sigurgeir Sigmundsson félagi Birgis til áratuga úr Gildrunni en bassann plokkar Ingimundur Óskarssson úr Dúndurfréttum og húðir lemur Birgir Nielsen sem starfað hefur með hljómsveitum á borð við Vini vors og blóma og Skonrokk.
Hægt er að nálgast miða í 566-7788. „Ljóst að það er að styttast í að það verði uppselt,“ segir rokkarinn geðþekki úr Mosfellsbænum að lokum.

Vala og Gaui hlutu Gulrótina 2018

Ketilbjölluhjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson ásamt Snorra syni þeirra taka við viðurkenningunni.

Ketilbjölluhjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson ásamt Snorra syni þeirra taka við viðurkenningunni.

Lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, Gulrótin, var afhent þriðjudaginn 29. maí. Afhendingin fór fram í Listasalnum á árlegum Heilsudegi Mosfellsbæjar.
Viðurkenningunni er ætlað að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa bæjarins.

Óhefðbundin æfingastöð á Engjavegi
Hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk eigendur Kettlebells Iceland hljóta viðurkenninguna í ár en þau reka óhefðbundna æfingastöð á Engjavegi. Í starfi sínu leggja þau áherslu á að fólk byggi upp alhliða styrk, úthald og liðleika á þann hátt að það nýtist vel í daglegu lífi.
Þau þykja hvetjandi, áhugasöm og fagleg og eru flottar fyrirmyndir þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl. Þau stuðla að heilbrigði, bæði líkamlegu og andlegu og segja góða heilsu skipta öllu máli.

Heilsa og hollusta fyrir alla
Heilsudagurinn var tekinn snemma þar sem farið var í morgungöngu með Ferðafélagi Íslands. Um kvöldið fór svo fram málþing undir yfirskriftinni Heilsa og hollusta fyrir alla. Lífskúnstnerarnir Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson fóru þar á kostum auk þess sem fulltrúar frá skólum bæjarins héldu erindi. Síðast en ekki síst var Gulrótin afhent. Hér að neðan má sjá Albert og Bergþór ásamt Ólöfu Sívertsen.

Áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna

undirskrift

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar undirrita samninginn við Hlégarð.

Mál­efna­samn­ing­ur Sjálf­stæðis­flokks og Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs var formlega undirritaður við Hlégarð þriðjudaginn 5. júní. D- og V-listi fengu fimm af níu bæjarfulltrúa kjörna í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og halda meirihlutasamstarfi sínu áfram sem hófst fyrst árið 2006.

Skólar í fremstu röð
D- og V- listar vilja að skólar bæjarins verði í fremstu röð og státi af öflugri kennslu, bæði í verklegum og bóklegum greinum. Lögð verður áhersla á að hlúa að góðri skólamenningu og félagslífi nemenda þar sem gildi bæjarins, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja verði höfð að leiðarljósi.
Leikskólagjöld verða lækkuð um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana og miðað við að öll börn 12 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaþjónustu. Áfram verður unnið að átaki á sviði upplýsingatæknimála allra skóla í bænum.

Fjölnota knatthús á Varmársvæðinu
Á næsta ári verður fjölnota knatthús á Varm­ársvæðinu tekið í notkun og áfram unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja bæjarins í samvinnu við Ungmennafélagið Aftureldingu. D- og V-listi munu kappkosta að styðja myndarlega við allt íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla aldurhópa.
Á sviði velferðar og jafnréttis er lögð áhersla á að allir eigi rétt á lífsins gæðum. Flokkarnir vilja þrýsta á ríkisvaldið að stækka hjúkrunarheimilið Hamra og fjölga félagslegum íbúðum í samræmi við þarfir. Loks verði haldið áfram að hækka afslætti á fasteignagjöld til tekjulægri eldri borgara.

Umhverfisstefnan taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Í umhverfismálum er m.a. lögð sú áhersla að uppbygging nýrra hverfa geri ráð fyrir umhverfisvænum lífsstíl með aðstöðu til sorpflokkunar og hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Þá verði vinnu lokið við gerð umhverfis­stefnu Mosfellsbæjar sem taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á sviði skipulags- og samgöngumála verður m.a. unnið að þéttingu byggðar um leið og hvatt verði til þess að aukið fjármagn verði sett í samgöngur í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að Mosfellsbær verði áfram fyrsti valkosturinn til búsetu á höfuðborgarsvæðinu.

Hlégarður sem hús Mosfellinga
D- og V-listi vilja hvetja til nýsköpunar og frekari uppbyggingar atvinnulífs. Það verði m.a. gert með því að halda áfram að byggja upp miðbæinn með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi. Það er einnig gert með því að hefja uppbyggingu öflugs atvinnusvæðis syðst á Blikastaðalandi.
Á sviði menningarmála er lögð sú áhersla að styðja dyggilega við skapandi starf, í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið. Mörkuð verði stefna fyrir Hlégarð með það að markmiði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.

Snjallar lausnir
Á sviði fjármála, stjórnsýslu og lýðræðis er traustur fjárhagur sveitarfélagsins forsenda fyrir framkvæmdum og framförum. D- og V-listi hyggjast styrkja stoðirnar enn frekar svo vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustustigið.
Tryggja þarf bæjarbúum aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku, til dæmis með opnum fundum, skoðanakönnunum og íbúakosningum eins og Okkar Mosó. Þá verði rafræn þjónusta og íbúagátt efld með snjöllum lausnum og íbúum þannig spöruð sporin.

Allir vegir færir
„Ég er afar ánægður með niðurstöðuna og samstarfið við VG,“ segir Haraldur Sverris­son bæjarstjóri. „Með okkar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – jákvæðni – framsækni og umhyggju eru okkur allir vegir færir.
D- og V- listi hafa verið við stjórnvölinn undanfarin 12 ár og á þeim tíma hefur samfélagið eflst og þjónustan tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ.“

Lístvel á framhaldið
Bjarki Bjarnason oddviti Vinstri grænna tekur í sama streng:
„Okkur líst afar vel á starfið fram undan og málefnasamninginn sem var undirritaður við félagsheimilið Hlégarð í blíðskaparveðri.
Í samningnum er talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti. Mosfellingum fjölgar ört um þessar mundir og við erum reiðubúin að takast á við verkefnin sem stækka með hverju árinu.“