Björgunarsveitin Kyndill með öflugt starf í hálfa öld

kyndill50

Um þessar mundir heldur Björgunarsveitin Kyndill í Mosfellsbæ upp á 50 ára afmæli sitt.
Sveitin var stofnuð seint á árinu 1968 í kjallaranum á Brúarlandi af félögunum Guðjóni Haraldssyni, Erlingi Ólafssyni, Andrési Ólafssyni, Grétari frá Blikastöðum og Steina T. ásamt fleirum. Fékk sveitin nafnið Kyndill.
Segja má að Kyndill hafið verið á miklum faraldsfæti fyrstu árin. Starfsemi sveitarinnar hófst í kjallaranum á Brúarlandi. Þaðan flutti hún í bílskúrinn í Markholti 17. Loks fékk sveitin aðstöðu í gamla leikskólanum á Rykvöllum. Árið 1978 var byggð við leikskólann stór skemma og voru Rykvellir heimili Kyndils næstu 20 árin.

Verkefnin sífellt stærri og flóknari
Fyrstu ár Kyndils voru verkefnin helst að sækja rjúpnaskyttur upp á heiði, losa fasta bíla, flytja fólk og börn heim þegar ófært var sem og starfsfólk og lækna á Reykjalundi.
Síðan þá hefur margt breyst. Verkefni björgunarsveita verða sífellt stærri og flóknari. Mikil krafa er gerð til björgunarsveitarfólks varðandi þjálfun og endumenntun en hún leikur lykilhlutverk í að okkar fólk sé tilbúið að takast á við flest.
Tæki og búnaður sveitarinnar þarf alltaf að vera í góðu standi og getur viðhald á tækjum oft verið mikið eftir erfið verkefni þar sem oft getur verið erfitt að komast á vettvang í hvaða aðstæðum sem er.

Helstu verkefni á Mosfellsheiði og Esju
Helstu verkefni Kyndils í dag eru að taka þátt í leit að fólki sem hefur annaðhvort týnst upp á hálendi eða hér í nágrenninu.
Eins og við þekkjum skellur oft á vonskuveður á Mosfellsheiði á örskotsstundu. Helstu verkefni þar eru að koma fólki niður af heiðinni og passa upp á öryggi ferðamanna.
Esjan er líka stórt viðfangsefni hjá Kyndli þar sem hún verður sífellt vinsælli meðal ferðamanna og fleiri ganga hana. Esjan er oft vanmetin vegna þess hversu nærri hún er borginni en hún getur verið varasöm á hvaða árstíma sem er. Fólk leggur af stað í rjómablíðu frá bílastæðinu en getur endað í hvassviðri og snjókomu þegar ofar kemur.

Endurnýjun gríðarlega mikilvæg
Meðlimir Kyndils í dag eru um 60 talsins og þar af um 25 virkir. Hinir koma þó inn ásamt eldri meðlimum þegar mikið á reynir og í árlega flugeldasölu sem er ómetanlegur stuðningur.
Nýliðun hjá Kyndli hefur verið mikil undanfarin ár. Endurnýjun á mannskap er afar mikilvæg í litlum björgunarsveitum.
Á þessu ári gengu átta nýir meðlimir í sveitina eftir að hafa lokið þjálfun.
Unglingadeild Kyndils hefur stækkað ört undanfarin ár og er helsta lífæð sveitarinnar. Nú eru um 30 unglingar í Kyndli. Mikið er lagt upp úr því að hafa öflugt starf með fjölbreyttum æfingum og ferðum svo unglingar kynnist sem flestum þáttum björgunarstarfsins. Kyndill hefur ávallt lagt mikinn metnað í að fylgja eftir og styðja við umsjónarmenn unglingadeildarinnar.

Lifum lengi – betur

Heilsumolar_Gaua_8nov

Við fjölskyldan erum að undirbúa rannsóknarferð á þau svæði í heiminum þar sem fólk lifir lengst og við góða heilsu. Á þessum svæðum þykir ekkert tiltökumál að verða 100 ára. Og fólk heldur áfram að gera hluti sem skiptir það og aðra máli fram á síðasta dag.

Mér finnst þetta mjög heillandi, að eldast vel. Eins og kellingin sagði, það er svalt að vera 100 ára en það er enn svalara að vera 100 ára og heilbrigður. Við leggjum af stað í rannsóknarferðina í ársbyrjun 2019 og komum til baka, vonandi stútfull af nýjum – og gömlum – fróðleik, um mitt sumar sama ár. Síðan ætlum við að leggja okkur fram við að dreifa sem víðast því sem við höfum lært. Ætlum að nota haustið í það.

Það má segja að það að hafa fengið Gulrótina, lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar, fyrr á þessu ári hafi verið sú hvatning sem við þurftum til þess að kýla á þetta verkefni. Hugmyndin var fædd á þeim tíma, en lokaákvörðin hafði ekki verið tekin. Mig minnir að við hjónin höfum ákveðið þetta sama kvöld og við fengum verðlaunin að láta verða af þessu. Það er nefnilega þannig að maður þarf stundum hvatningu og stuðning til þess að þora að gera það sem mann virkilega langar til. Oft þarf ekki mikið til.

Fyrir okkur var Gulrótin skilaboð um að gera meira, ekki láta staðar numið. Halda áfram að hvetja, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, til heilbrigðis og heilsuhreysti – án öfga. Þetta er það sem við viljum standa fyrir og láta eftir okkur liggja. Það hafa allir einhvern tilgang í lífinu. Stundum er hann ekki augljós. Stundum þarf að grafa eftir honum. En hann er þarna og þegar hann er fundinn er ekki aftur snúið. Finnum okkar tilgang og hvetjum aðra til þess sama. Lifum lengi – betur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. nóvember 2018

„Þjónusta efld, álögur lækka og traustur rekstur”

kjarni_mosfellingur

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2019-2022 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 31. október.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að tekjur nemi 12.224 m.kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 11.020 m.kr. og fjármagnsliðir 620 m.kr. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 559 m.kr., að framkvæmdir nemi 1.820 m.kr. og að íbúum fjölgi um tæplega 5% milli ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Helgafellsskóli til starfa í janúar 2019
Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 13% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.352 m.kr. eða um 11%. Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum lækki enn og að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði 99,5% í árslok 2019.
Á næsta ári verða stærstu nýju innviðaverkefnin annars vegar framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss með það að markmiði að starfsemi hefjist í húsinu haustið 2019 og hins vegar að halda áfram framkvæmdum við Helgafellsskóla en starfsemi hefst í fyrsta áfanga skólans í janúar 2019.

Aukin þjónusta við barnafjölskyldur
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að komið verði á fót 20 nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og áfram verði varið verulegum fjármunum til frekari upplýsinga- og tæknimála og annarra verkefna til að bæta aðstöðu í grunn- og leikskólum Mosfellsbæjar.
Á sviði fjölskyldumála er lagt til að tekin verði upp frístundaávísun fyrir 67 ára og eldri og að framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri elli- og örorkuþega hækki um 25%.

Verkefnið Okkar Mosó endurtekið
Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 20% og að á sviði fræðslumála verði auknum fjármunum varið til eflingar á stoðþjónustu í skólum.
Á sviði umhverfismála verða framlög aukin til viðhalds húsa og lóða bæjarins og kallað eftir tillögum íbúa í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó.

Lækkun gjalda
Ekki er gert ráð fyrir almennri hækkun gjaldskráa fyrir veitta þjónustu og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára fjórða árið í röð auk þess sem leikskólagjöld lækka um 5%. Loks er lagt til að álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds verði lækkuð um 7%.
Áætlunin verður nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða um áætlunina fer fram miðvikudaginn 28. nóvember næstkomandi.

Rekstur og starfsemi í góðu horfi
„Það er okkur Mosfellingum ánægjuefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er nú sem áður í góðu horfi. Sveitarfélagið vex og dafnar sem aldrei fyrr, reksturinn er skilvirkur og starfsfólk okkar stendur sig vel í að veita íbúum og viðskiptavinum okkar þjónustu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.“

Þarf sterk bein til að þola góða tíma
„Til að þessi framtíðarsýn gangi eftir þarf að ríkja jafnvægi í rekstrinum og gæta þess að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær. Fjárhagsáætlun ársins 2019 endurspeglar áherslur sem færa okkur nær þessari framtíðarsýn.
Samantekið er staðan hjá Mosfellsbæ sú að íbúum fjölgar, tekjur aukast, skuldir lækka, álögur á íbúa og fyrirtæki lækka, þjónusta við íbúa og viðskiptavini eykst, innviðir eru byggðir upp til að mæta framtíðarþörfum en samhliða er rekstrarafgangur af starfseminni.
Þetta er um margt öfundsverð staða en um leið mikilvægt að muna að það þarf sterk bein til að þola góða tíma og ég tel að með fjárhagsáætlun ársins 2019 sé lagður grunnur að enn farsælli framtíð í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur.

Afturelding stykir liðið fyrir Inkasso-deildina

xxx

Magnús Már Einarsson aðstoðarþjálfari, Loic Ondo, Ragnar Már Lárusson, Viktor Marel Kjærnested, Sigurður Kristján Friðriksson, Kristján Atli Marteinsson, Trausti Sigurbjörnsson og Arnar Hallsson þjálfari.

Eftir að hafa unnið 2. deildina í sumar þá eru strákarnir í meistaraflokki Aftureldingar í fótbolta byrjaðir að undirbúa sig af krafti fyrir Inkasso-deildina næsta sumar. Liðið hefur hafið æfingar og framundan eru margir krefjandi æfingaleikir gegn Pepsi-deildar liðum fram að jólum.
Nýlega hafa tveir sterkir leikmenn gengið til liðs við félagið, markvörðurinn reyndi Trausti Sigurbjörnsson (28), sem var í úrvalsliði Inkasso-deildarinnar 2015, og kantmaðurinn öflugi Ragnar Már Lárusson (21). Báðir leikmennirnir eru ættaðir af Skaganum og uppaldir hjá ÍA. Trausti var lengi í röðum Þróttara í Reykjavík en kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu frá Leikni R. Ragnar Már þótti einn allra efnilegasti knattspyrnumaður landsins og fór ungur til enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton en lék með Kára í 2. deildinni að láni frá ÍA síðastliðið sumar.

Sterkir leikmenn framlengja
Þá hafa nokkrir af sterkustu leikmönnum félagsins framlengt samninga sína við félagið. Þeir eru: Bakvörðurinn sókndjarfi Sigurður Kristján Friðriksson sem var fastamaður í liði meistaraflokks á síðasta tímabili.
Sóknarmaðurinn efnilegi Viktor Marel Kjærnested sem er enn í 2. flokki félagsins og hefur tekið stórstígum framförum á liðnu ári. Miðjumaðurinn Kristján Atli Marteinsson sem kom af miklum krafti inn í lið meistaraflokks á miðju síðasta tímabili.
Síðastur en ekki sístur er Loic Ondo besti varnarmaður 2. deildarinnar á síðasta tímabili og fulltrúi félagsins í liði ársins sem valið var af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í 2.deildinni.
Allir leikmennirnir hafa augljóslega mikla trú á því uppbyggingarstarfi sem í gangi er og skrifuðu undir tveggja ára samninga við félagið. Afturelding fagnar undirskriftum þessara öflugu leikmanna og er enn frekari frétta er að vænta af samningamálum á næstunni.

Opna glæsilega Reebok-stöð

ccxxx

Mosfellingarnir Unnur Pálmars og Halla Heimis.

Líkamsræktarkeðjan Reebok Fitness opnaði nýja stöð að Lambhagavegi við Vesturlandsveg þann 29. september síðastliðinn.
Stöðin sem er 2.400 m2 er öll hin glæsilegasta, útbúin nýjustu tækjum og þar eru þrír hóptímasalir. Auk þess opnaði CrossFit Katla annað boxið sitt en það fyrsta er í Holtagörðum. Í Lambhaga er sauna, gufubað og heitur og kaldur útipottur. Á teygjusvæðinu er hægt að kveikja á innrauðum hita sem talið er að auki virkni og áhrif teygjuæfinga.
„Við erum mjög ánægð með viðtökurnar á nýju stöðinni okkar en þetta er áttunda líkamsræktarstöðin sem við opnum frá árinu 2011,“ segir Unnur Pálmarsdóttir mannauðs- og fræðslustjóri Reebok Fitness.

Heimilisleg og fjölskylduvæn stöð
„Sérstaða okkar í Lambhaganum er að í einum hóptímasalnum er innrauður hiti og rakatæki til að hámarka upplifun viðskiptavina okkar. Auk þess að vera með 300 m2 æfingasal og glæsilegan spinningsal. Við bjóðum upp á fjölbreytta hópatíma og ýmis lokuð námskeið fyrir alla aldurshópa.
Við höfum lagt mikla áherslu á að stöðin sé heimilisleg og að umhverfið sé fjölskylduvænt. Við eigum aðeins einn líkama og verðum að huga vel að líkama og sál til framtíðar. Andrúmsloftið hjá okkur er notalegt, hvetjandi og rólegt. Við bjóðum upp á einvala lið einkaþjálfara, kennara og starfsfólks,“ segir Unnur en sérstaða Reebok Fitness er að bjóða upp á líkamsrækt fyrir alla aldurshópa með ólík markmið í huga.

Bjóða Mosfellingum frían vikupassa
„Öllum Mosfellingur gefst nú kostur á að koma og prófa stöðina hjá okkur, hægt er að nálgast frían vikupassa í afgreiðslunni. Við bjóðum líka upp á barnapössun, þar sem litlu krílin geta leikið sér í frábæru leikherbergi á meðan foreldrar eða forráðamenn taka á því í ræktinni. Viðskiptavinir Reebok Fitness hafa aðgang að átta líkamsræktarstöðvum og þremur sundlaugum. Auk þess höfum við boðið öllum krökkum sem fædd eru 2002-2003 fría mánaðaráskrift en Halla Heimis er einmitt með frábær unglinganámskeið og einnig í CrossFit Kötlu,“ segir Unnur að lokum og hvetur alla Mosfellinga til að koma og prófa. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu www.reebokfitness.is.

Afturelding leikur í Jako næstu árin

Jói í jako og Birna kristín formaður aftureldingar ásamt ungum iðkendum

Jóhann Guðjónsson og Birna Kristín formaður Aftureldingar ásamt ungum iðkendum.

Ungmennafélagið Afturelding og Namo ehf. hafa gert með sér samning til næstu fjögurra ára og mun Afturelding leika í fatnaði frá Jako.
Afturelding hefur leikið í fatnaði frá Errea undanfarin átta ár. Í byrjun árs var leitað tilboða hjá búningaframleiðendum á Íslandi, félaginu bárust nokkur tilboð. Búninganefnd, sem samanstendur af fulltrúum frá hverri deild, valdi að lokum á milli þriggja aðila með tilliti til framboðs og verðs. Þar varð Jako hlutskarpast.

Tilhlökkun að hefja samstarf á ný
„Það er með tilhlökkun sem við hefjum á ný samstarf við Jako og þökkum jafnframt Errea kærlega fyrir samstarfið,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar.
Verslun Namo er til húsa að Smiðjuvegi 74 en jafnframt er hægt að skoða fjölbreytt úrval á www.jakosport.is.
Á myndinni má sjá Jóhann Guðjónsson frá Jako og Birnu Kristínu Jónsdóttur formann Aftureldingar ásamt ungum iðkendum Aftureldingar í glænýjum fatnaði félagsins

Samfélagssjóður KKÞ auglýsir eftir umsóknum

Stjórn samfélagssjóðsins: Sigríður, Steindór, Stefán Ómar, Birgir og Svanlaug.

Stjórn samfélagssjóðsins: Sigríður, Steindór, Stefán Ómar, Birgir og Svanlaug.

Samfélagssjóður KKÞ var stofnaður í fyrra eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings. Sjóðurinn hefur það hlutverk að úthluta fjármunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Nú auglýsir sjóðurinn eftir umsóknum um styrki vegna fyrstu úthlutana úr sjóðnum. Stefnt er að því að úthluta um 20 milljónum króna. Samkvæmt ákvörðun stjórnar við þessa fyrstu úthlutun er auglýst eftir umsóknum á sviði æskulýðsmála og á sviði málefna eldri borgara.

Taka saman sögu Kaupfélags Kjalarnesþings
Friðrik Olgeirsson sagnfræðingur hefur tekið saman yfirlit um sögu KKÞ eftir þeim gögnum sem fyrir liggja. Stefnt er að því að ritið verði tilbúið þegar fyrsta úthlutun úr samfélagssjóðnum fer fram. Ráðgert er að fyrsta úthlutun úr sjóðnum eigi sér stað fyrir árslok 2018. Nálgast má umsóknareyðublað á heimasíðu sjóðsinswww.kaupo.is og er umsóknarfrestur til og með 25. október.

Tengingin við bæjarbúa gefandi

valdimarbirgis

Valdimar Birgisson stofnaði Viðreisn í Mosfellsbæ, leiddi listann í síðastliðnum sveitarstjórnarkosningum, náði kjöri og situr nú í bæjarstjórn. Hann segir starfið vera lærdómsríkt en það sem er mest gefandi er ekki endilega þetta pólitíska vafstur heldur tengingin við bæjarbúa.
Hann lítur björtum augum til framtíðar þótt mörg verkefni séu krefjandi og vill sjá blómstrandi bæ sem tekur mið af þörfum allra íbúanna.

Valdimar er fæddur á Ísafirði 1. júní 1962. Foreldrar hans eru þau María Erla Eiríksdóttir fv. verslunarmaður frá Keflavík og Birgir Breiðfjörð Valdimarsson fv. útgerðarmaður frá Ísafirði. Valdimar á þrjár systur, Stefaníu f. 1957, Oddnýju Báru f. 1958 og Erlu Kristínu f. 1969.

Æskuminningar frá Ísafirði
„Ég er alinn upp á Ísafirði og það var að mörgu leyti gott að alast upp þar. Maður naut mikils frelsis en á sama tíma var vinnusemi mikil. Eftir á að hyggja þá var þetta of mikið fyrir börn og unglinga, þ.e.a.s. að vinna eins og fullorðið fólk, jafnvel erfiðisvinnu.
Æskuminningar mínar tengjast aðallega Ísafirði og þá helst fjölskyldu minni. Ein sterkasta minning mín er þegar foreldar mínir komu heim með yngri systur mína nýfædda af spítalanum. Við bjuggum í blokk á móti spítalanum og ég horfði á þau út um gluggann koma gangandi og beið spenntur eftir að fá þau inn.“

Naut þess að æfa skíði
„Ég gekk í Barnaskóla Ísafjarðar og síðar Gagnfræðaskólann. Skemmtilegust voru þau fög sem tengdust sögu og landafræði en íslenska og þá sérstaklega stafsetning voru ekki í uppáhaldi. Eftir útskrift úr gaggó fór ég að vinna fyrst í stað en var einnig sem mest á skíðum. Skíðaaðstaðan á Ísafirði var á þessum tíma ein sú besta á landinu og ég naut þess æfa skíði og vera í fjallinu.
Árið 1980 fór ég til Reykjavíkur og sótti nám við Fjölbrautarskólann í Ármúla en starfaði sem sjómaður á Ísafirði á sumrin. Ég flutti svo alfarið suður árið 1989 og fór að vinna við sölustörf, innflutning á snyrtivörum og við kvikmyndagerð.
Árið 1993 færði ég mig svo yfir til Miðlunar ehf. sem gaf út bækur með upplýsingum um fyrirtæki. Þar var reynt að nýta netið sem best sem þá var að yfirtaka heiminn.“

Kúrustundirnar í sófanum bestar
Valdimar giftist Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni 24. júní 2005. Þau eiga samtals sex börn, Aldísi Maríu f.1984, Matthías Má f. 1994, Diljá Björt f. 1997, Þorbjörgu Eddu f. 2003, Bríeti Erlu f. 2006 og Birgi Marzilíus f. 2008. Barnabörnin eru tvö.
„Samverustundir með fjölskyldunni eru helst að kúra í sófanum og horfa saman á mynd. Við höfum líka gaman af því að spila og eigum gott safn af spilum. Við erum nokkuð dugleg að fara á skíði og höfum farið nokkrum sinnum til Frakklands og eins höfum við skíðað mikið á Ísafirði.
Sigga Dögg er ættuð frá Seljalandi undir Eyjafjöllum og þar eigum við samastað sem við notum talsvert.“

Hóf fjölmiðlaferilinn á Fréttablaðinu
„Ég hafði í langan tíma haft áhuga á að starfa við fjölmiðla og sótti um nokkur störf. Tækifærið kom svo þegar Fréttablaðið hóf göngu sína. Eftir ævintýralegan vöxt blaðsins hætti ég störfum þar og við hjónin stofnuðum okkar eigin fjölmiðil, vikublaðið Krónikuna. Það var metnaðarfullt verkefni sem því miður gekk ekki. Við vildum gefa út blað sem væri stjórnað af konum. Á þessum tíma var flestum fjölmiðlum ritstýrt af körlum og konur voru síður sýnilegar, þessu vildum við breyta.
Blaðið var selt til DV og við hjónin fylgdum með og hófum störf þar.“

Úr miðborginni í sveitina
„Árið 2008 ákvað Sigga Dögg að breyta um starfsvettvang og hóf vinnu hjá Mosfellsbæ sem kynningarstjóri. Það var ástæða þess að við fluttum í Mosfellsbæ og við sjáum ekki eftir því. Við vildum komast úr miðborginni í sveitina því hér áttum við fjölskyldu og vini.
Helgarblaðið Fréttatíminn var stofnað árið 2009 og kom ég að stofnun þess. Aftur var markmiðið að höfða til kvenna. Það verkefni gekk ágætlega en fjárhagslega var þetta mjög erfitt. Nú er ég kominn hringinn og starfa í dag sem markaðsfulltrúi á Fréttablaðinu og líkar vel.“

Ekki ætlun mín að fara í framboð
Valdimar stofnaði og leiddi lista Viðreisnar í Mosfellsbæ í sveitastjórnarkosningunum í vor, náði kjöri og starfar nú sem bæjarfulltrúi. En hvað var það sem leiddi hann út í pólitík? „Þannig var að ég hafði verið skráður í Viðreisn frá stofnun flokksins og hafði starfað þar með mörgum af flokksfélögum mínum sem stofnuðu hann. Það var ýtt á mig að stofna félag Viðreisnar í Mosfellsbæ og ég sló til.
Það náðist að safna saman frábærum hópi fólks og það varð úr að ég myndi leiða listann. Það var ekki ætlun mín að fara í framboð, bara alls ekki, en svona gerast hlutirnir stundum. Kosningabaráttan var skemmtileg en þetta var gríðarleg vinna. Við náðum kjöri og urðum næststærsti flokkurinn í Mosfellsbæ.
Okkur félögunum í Viðreisn hefur gengið mjög vel að vinna saman eftir kosningar enda ótrúlega samhentur hópur.“

Það hefur verið mikið að meðtaka
„Starfið í bæjarstjórn hefur verið lærdómsríkt frá upphafi og það hefur verið mikið að meðtaka. Það sem er kannski mest gefandi í þessu starfi er ekki endilega þetta pólitíska vafstur heldur tengingin við bæjarbúa. Ég hef nokkrum sinnum verið tekinn tali jafnvel þegar ég er úti að skokka með hundinn minn og þá eru það bæjarbúar sem vilja koma einhverju að. Mér þykir vænt um það því þannig á starfið að vera, vinna fyrir íbúana og hlusta á þá.
Það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum hjá Viðreisn,“ segir Valdimar að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 18. október 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

20 ára afmælisár Hvíta Riddarans

godgerdarhviti

Íþróttafélagið Hvíti Riddarinn var stofnað þann 14. ágúst 1998. Upphaflega var einungis um knattspyrnulið að ræða en síðar bættust við fleiri íþróttagreinar.
„Upphafið má rekja til þessa að hópur af strákum og stelpum hittist reglulega á túninu við Reykjalund,“ segir Jóhann Benediktsson fyrsti formaður félagsins. Hópurinn taldi um 15-20 manns og var spilaður fótbolti á sumrin. Formleg stofnun fór svo ekki fram fyrr en tveimur árum síðar þegar liðið var skráð til leiks í firmakeppni á Tungubökkum sumarið 1998.
„Mikil ánægja var með þetta fyrsta mót okkar og var grunnurinn lagður. Nafn félagsins kom þannig til að við skrifuðum okkur í gestabækur golfklúbbsins undir nafni Hvíta Riddarans enda ekki í neinum golfklúbbi. Þetta byrjaði því sem brandari.“

Lið í fótbolta, handbolta og körfubolta
Liðið sóttist eftir því að komast í utandeildina í knattspyrnu og eftir neitun tvö ár í röð, vegna plássleysis, þá hafðist það árið 2001 þegar liðum var fjölgað í deildinni. Á næstu fjórum árum varð Hvíti Riddarinn tvisvar utandeildarmeistari, einu sinni í 2. sæti og einu sinni í því þriðja.
Árið 2005 hóf liðið leik í 3. deild KSÍ, sem síðar var breytt í 4. deild, og komst þó nokkrum sinnum í úrslitakeppnina.
Síðar hófst samstarf við Aftureldingu.
Hvíti Riddarinn/Afturelding hefur teflt fram sameiginlegu liði á Íslandsmóti 30 ára og eldri undanfarin ár og kom fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í hús í sumar í kringum 20 ára afmæli félagsins.
Í dag starfrækir Hvíti Riddarinn lið í karla og kvennaflokki í knattspyrnu auk 30+ í karlaflokki í fótbolta sem og liði í utandeildinni í handbolta. Í tvö ár var einnig starfrækt körfuboltalið.

Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans
Stofnað hefur verið Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans. Félagið hefur það að markmiði að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í bæjarfélaginu sem lent hafa í áföllum eða erfiðleikum.
Önnur úthlutun félagsins fór fram á dögunum þar sem fjölskyldu ofurhetjunnar Júlíu Rutar var afhent hálf milljón króna. Riddarar vilja senda baráttukveðjur til fjölskyldunnar en Júlía Rut, 4 ára, greindist með bráðahvítblæði fyrir um ári síðan.

___________________________________________________________________________
Mosfellingar eru hvattir til að ganga til lið við Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans á Facebook og fylgast með.  

Samið við Alverk um byggingu fjölnota íþróttahúss

Til vinstri má sjá tölvugerða mynd af útliti hússins að Varmá. Til hægri eru fulltrúar Alverks, Aðalgeir Hólmsteinsson og Halldór Karlsson auk Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra Mosfellsbæjar.

Tölvugerð mynd af útliti hússins að Varmá. Til hægri eru fulltrúar Alverks, Aðalgeir Hólmsteinsson og Halldór Karlsson auk Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra Mosfellsbæjar.

Í vor var boðin út bygging fjölnota íþróttahúss að Varmá. Að loknum samningskaupaviðræðum við bjóðendur bárust Mosfellsbæ ný tilboð þann 12. september frá þremur fyrirtækjum. Að mati ráðgjafa Verkís og fulltrúa Mosfellsbæjar eftir yfirferð tilboðanna reyndist tilboð Alverks lægst en það nemur 621 m.kr.
Á fundi bæjarráðs þann 11. október var samþykkt að hafist verði handa við framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss og að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda.

Húsið tekið í notkun haustið 2019
Samningurinn mun ná yfir hönnun og byggingu hússins. Gert er ráð fyrir að húsið verði byggt úr tvöföldum PVC dúk á stálgrind en undirstöður og veggir verði steinsteyptir. Húsið mun standa að austanverðu við núverandi íþróttahús þar sem eldri gervigrasvöllurinn stendur í dag.
Húsið verður um 3.800 fermetrar að grunnfleti auk innfelldrar lágbyggingar, sérútbúið til knattspyrnuiðkunar auk göngubrautar umhverfis völlinn. Gert er ráð fyrir því að húsið verði tekið í notkun haustið 2019.

Bylting í aðstöðu til knattspyrnuiðkunar
„Við hjá Mosfellsbæ erum mjög ánægð með að samningagerð vegna þessa mikilvæga verkefnis er nú að ljúka. Ég er viss um að fjölnota íþróttahús að Varmá verði til þess að styrkja enn frekar öflugt íþróttastarf í Mosfellsbæ. Í húsinu verður aðstaða fyrir alla aldurshópa en húsið mun bylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í Mosfellsbæ.
Þá verður unnt að nýta svæðið í kringum völlinn til gönguferða t.d. fyrir eldri borgara þegar hálkan leggst yfir og myrkrið er mest. Loks gerir húsið okkur kleift að taka á móti nýjum iðkendum vegna fjölgunar íbúa,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Bestu hrútarnir í sveitinni

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Hrútar frá Kiðafelli, Miðdal, Mora­stöðum og Reykjum. Nánar um úrslit á www.mosfellingur.is

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Guðbrandur  Sigurbergsson með Sprengisand frá Kiðafelli, Hafþór Finnbogason með Tralla frá Miðdal, Orri Snorrason með Öl frá Morastöðum og Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir með hrútinn Skeggja frá Reykjum.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram mánudaginn 15. október. Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum og fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Hrúturinn Ölur bar sigur úr býtum en hann er í eigu Orra og Maríu á Morastöðum sem hlutu því hinn eftirsótta hreppaskjöld. Í umsögn dómara er Ölur sagður jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann. Að sögn Maríu er galdurinn að rækta hrútana vel og setja einungis þá bestu undir, þá endar með því að maður uppsker. „Það skiptir mjög miklu máli að eiga góða hrúta, enda eiga þeir flestu afkvæmin,“ segir María.

Úrslit hrútasýningarinnar:

lamb

Kollóttir lambhrútar í efstu sætunum allir frá Kiðafelli.

Kollóttir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 18 frá Kiðafelli. 87,5 stig. Gríðargóður og vænn, 67 kg með 32 mm bakvöðva.
2. sæti – Lamb nr. 3 frá Kiðafelli. 85 stig. Vænn hrútur.
3. sæti – Lamb nr. 14 frá Kiðafelli. 87 stig. Vænn hrútur.

Mislitir lambhrútar
1. sæti – Svartur hrútur frá Morastöðum. 85 stig. Lítill en vel gerður og með bestu læraholdin.
2. sæti – Mórauður hrútur frá Þórunni á Hraðastöðum. 85,5 stig. Fallegur hrútur með góðan bakvöðva.
3. sæti – Svartflekkóttur hrútur frá Reyni Hólm í Víði. 84,5 stig. Vænn hrútur.

Hyrndir hvítir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 885 frá Morastöðum. 86,5 stig. Holdaköggull og pakkaður af kjöti.
2. sæti – Lamb nr. 328 frá Kiðafelli. 86,5 stig. Jafngóður hrútur fyrir alla þætti.
3. sæti – Lamb nr. 9 frá Kiðafelli. 86 stig. Vænn 64 kg hrútur, langur með góða ull.
4. sæti – Lamb nr. 442 frá Miðdal. 85,5 stig.

Veturgamlir hrútar
1. sæti – Ölur frá Morastöðum. Hvítur, hyrndur. 85 stig. Jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann.
2. sæti – Tralli frá Miðdal. Hvítur, kollóttur. 86 stig. Þéttur hrútur með góð læri og malir.
3. sæti – Skeggi frá Reykjum. Grár, hyrndur. 85 stig. Jafnöflugur hrútur með góðar malir og læri.
4. sæti – Sprengisandur frá Kiðafelli. Svartur, hyrndur. 85,5 stig.

Gaman er að segja frá því að sigurvegarinn í Veturgamla flokknum, Ölur frá Morastöðum, er faðir lambs nr 885 frá Morastöðum sem stóð efstur í flokki hyrndra hvítra lambhrúta.

Jákvætt fólk

Heilsumolar_Gaua_18okt

Ég var umkringdur jákvæðu fólki um helgina. Fólki sem á það sameiginlegt að hafa áhuga á heilsuhreysti, hreyfingu, mis­alvarlegum keppnum og hressandi útiveru. Þegar svona hópur er saman myndast sterk og jákvæð orka. Orka sem maður hleður inn á kerfið og endist manni lengi. Við þurfum öll að passa upp á að fá svona orkuinnspýtingu reglulega, það gefur manni svo mikið.

Ég náði að vera í núinu nánast alla helgina, vissi lítið hvað var að gerast í heiminum. Var ekkert að skoða eða fylgjast með fréttum. Og það var líka orkugefandi. Fréttir eru í langflestum tilfellum neikvæðar og soga frekar frá manni orku en að bæta á tankinn. Örstutt rennsli yfir stærstu íslensku fréttamiðlana þegar þessi moli er skrifaður staðfestir það. Helst í fréttum er fjársvikamál, dreifing heróíns, 330 milljóna umframkostnaður, afsögn framvæmdastjóra, Hrunið og gíslataka á lestarstöð. Jákvæða frétt dagsins er að Megan og Harry eiga von á barni. Til hamingju með það, kæru hjón.

Helgin góða og sú jákvæða orka sem þar myndaðist fékk mig til að hugsa hvernig ég gæti búið til fleiri svona stundir og fækkað þeim dögum sem ég leyfi orkukrefjandi áreiti að ná til mín. Ég er með ýmsar hugmyndir í kollinum og stefni á að koma þeim í framkvæmd, fyrr en síðar. Lífið er of stutt fyrir neikvæðni og áhyggjur. Lykilatriði í svona ferli er að hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Upplifa tilgang. Að það sem maður gerir skipti einhverju máli, fyrir sjálfan mann og aðra. Þá hefur maður ekki tíma í að lúslesa vefsíður og samfélagsmiðla og velta sér upp úr vandamálum sem maður hefur ekkert með að gera. Að lokum vil ég mæla með skriðsundsnámskeiði Dodda – þið finnið það á Facebook – ég nánast óskriðsyndur fyrir námskeiðið synti án erfiðleika mörg hundruð skriðsundmetra um helgina og blés varla úr nös.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. október 2018

Sigurður Hreiðar rifjar upp minningar

medanegman

Meðan ég man er heiti á nýrri bók eftir Sigurð Hreiðar. Eins og nafnið bendir til rifjar hann þar upp ýmsar minningar frá langri ævi.
Um tilurð bókarinnar segir hann að oft hafi verið imprað á því við hann að skrifa ævisögu sína. „Ef ég gerði það er viðbúið að einhverjum þætti þar að sér vegið,” segir hann. En hann hefur í gegnum tíðina birt ýmsar glefsur frá liðinni ævi, bæði í tímaritum og á Facebook. „Þegar svo nýprentað kver sem mér þótti fallegt barst mér í hendur skömmu eftir áttræðisafmælið í vor fór ég að hugsa: Svona bók gæti ég hugsað mér að búa til. Ætli ég kunni enn að beita umbrotsforritinu sem ég notaði löngum meðan ég taldist enn vinnandi maður? – Ég fór að smala saman þessum glefsum, vinsa úr þeim og tengja með nýjum þannig að úr yrði sæmilega samheilt safn einnar mannsævi án þess að vera beint ævisaga. Ég ákvað að gefa bókina út sjálfur í takmörkuðu upplagi og selja hana bara sjálfur, einkum gegnum Fésbók.“

Sigurður er innfæddur Mosfellingur og hefur átt heima í Mosfellsbæ megnið af ævinni. Bókin er 216 blaðsíður og kostar 2.500 krónur.

Bábiljur og bögur í baðstofunni

Kristín og nemendur hennar,  Dagný, Ída María og Steinunn

Kristín og nemendur hennar, Dagný, Ída María og Steinunn.

Kristín Lárusdóttir, sellókennari við Listaskóla Mosfellsbæjar, stendur fyrir skemmtilegum viðburði í safnaðarheimili Lágafellssóknar sunnudaginn 7. október kl. 17.
„Viðburðinn kalla ég Bábiljur og bögur í baðstofunni og er tilgangurinn að eiga notalega samverustund,“ segir Kristín.
Kristín hefur í gegnum tíðina otað rímnakveðskap að nemendum sínum. Rímur eru mjög merkilegt fyrirbæri og dýrmætur arfur sem við Íslendingar eigum. „Krökkunum finnst þetta hin besta skemmtun og eftir því sem vísurnar verða flóknari og fjölbreyttari í orðaforða, því skemmtilegra finnst þeim. Enda læra þau heilan helling af þessu, verða tunguliprari, fá dýpri skilning á tungumálið sitt og rætur.“

Kveðskapur, ljóð og tónlist
Á viðburðinum þann 7. október verður fjölbreytt dagskrá. Bára Grímsdóttir mun mæta og kveða úr vel völdum rímum. Agnes Wild verður með æsispennandi sögustund. Atli Freyr Hjaltason, ungur Mosfellingur, mun syngja og spila á langspil. Krakkar úr Listaskólanum í Mosfellsbæ munu kveða úr rímum og fara með annan kveðskap, t.d. um Kóngulóna sem á gula skó! Hver vill missa af því?
Hlynur Sævarsson, ungur Mosfellingur, mun lesa ljóð. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir mun flytja örfyrirlestur um kvöldvökurnar á Íslandi. Boðið verður upp á molakaffi og kleinur, frítt inn og allir Mosfellingar hvattir til þess að mæta.

Mikilvægar samgöngubætur fyrir Mosfellinga komnar á samgönguáætlun

sssasd fasd fa sdf

Vesturlandsvegur liggur í gegnum Mosfellsbæ. 

Nú liggur fyrir að tvær mikilvægar samgöngubætur eru komnar á áætlun samkvæmt drögum að samgönguáætlun sem nú liggja fyrir Alþingi.
Samhliða þeirri vinnu rituðu framkvæmdastjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra undir viljayfirlýsingu þann 21. september um að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfðuborgarsvæðinu.
Þær framkvæmdir sem um er að ræða eru annars vegar að ljúka við tvöföldun Vesturlandsvegar þar sem hann liggur í gegnum Mosfellsbæ. Með þeirri framkvæmd mun draga verulega úr þeim umferðateppum sem íbúar Mosfellsbæjar hafa gjarnan orðið fyrir á álagstímum á einum umferðamesta þjóðvegi landsins.
Hins vegar er um að ræða endurbyggingu Þingavallavegar með það að markmiði að auka öryggi vegarins m.a. með gerð tveggja hringtorga auk undirganga. Báðar þessar framkvæmdir eru áætlaðar á fyrsta hluta tímabilsins eða 2019-2023.

Hefja framkvæmdir við borgarlínu 2020
„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Mosfellinga að þessar samgöngubætur séu núna komnar á áætlun enda höfum við unnið jafnt og þétt að því á síðustu árum að tryggja þá niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er líka ánægjulegt að sjá hversu framarlega á áætlunartímabilinu þessar framkvæmdir eru, sem sýnir vel hversu brýnar þær eru.
Þá skiptir ekki síður máli að sameiginleg vinna innan höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu samgangna til næstu 10 ára er nú komin í formlegan farveg.“
Markmið viðræðna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að ná samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingu er talað um að hefja framkvæmdir við það sem heitir hágæða almenningssamgöngur og stundum er nefnt borgarlína árið 2020.

Eyða flöskuhálsum og bæta flæði
Unnið verður að því að eyða flöskuhálsum í umferðinni með því að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi og eru ráðherra og sveitarstjórnarmenn sammála um að bæta almenningssamgöngur. Í yfirlýsingunni segir: „Jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.“
Að loknum viðræðum um ofangreind viðfangsefni er starfshópnum falið að leiða til lykta málefni Sundabrautar undir forystu Hreins Haraldssonar.