Alltaf dreymt um að kynnast ólíkum menningarheimum

ferdalangar

Mosfellingarnir Ása María Ásgeirsdóttir og Agnes Heiður Gunnarsdóttir eru komnar heim úr mikilli ævintýraferð. Þær deila hér með okkur ferðasögu af ævintýrum þeirra.

Fjórtán flugum, þremur næturlestum og óteljandi rútum síðar eru við reynslunni ríkari eftir þriggja mánaða ferðalag um heiminn.
Síðan við munum eftir okkur hefur okkur alltaf langað til þess að ferðast um heiminn, skoða mismunandi menningarheima og læra nýja hluti, svo við létum verða af því.
Við byrjuðum ferðina okkar í Dubai, skoðuðum allt það helsta þar og fórum í safaríferð sem er einn af uppáhaldsdögunum okkar úr ferðinni. Fórum í dagsferð til Abu Dhabi og sáum turnana úr Fast and the Furious og frægu moskuna (Sheikh Zayed Mosque).
Ferðinni var svo haldið til Maldíveyja þar sem við tókum köfunarréttindi niður í 18 metra í einum tærasta sjó í heimi, það var eitt það magnaðasta sem við höfum upplifað. Við sáum endalaust af fallegum og litríkum fiskum, m.a. hákarla, skjaldbökur og stingskötur (stingray).

Dagur í eyðimörkinni í Dubai.

Dagur í eyðimörkinni í Dubai.

Böðuðu fíla í Taílandi
Ferðinni var síðan heitið til Taílands þar sem við hittum hóp af fólki sem við ferðuðumst með ásamt leiðsögumanni í gegnum Taíland, Kambódíu, Víetnam og Laos í 30 daga. Þar kynntumst við frábæru fólki sem kom alls staðar að úr heiminum og erum við búnar að plana að hitta sum þeirra aftur fljótlega.
Við gerðum svo margt framandi og skemmtilegt með þessum hópi en það sem stendur mest upp úr var m.a. fjórhjólaferð um sveitir Kambódíu, hjólaferð um Hanoi sem er fallegasti bær Víetnam að okkar mati, bátsferð um Halong Bay, vatnshellaskoðun í uppblásnum kleinuhring í Laos og þegar við böðuðum fíla og gáfum þeim að borða í Taílandi.

Smökkuðu froska í Kambódíu
Kambódía var algjört menningarsjokk og það var mjög erfitt að horfa upp á alla þessa fátækt. Fólk borðar líka mikið af furðulegum hlutum eins og engisprettur, maura og froska sem við smökkuðum. Laos kom okkur mest á óvart, náttúran þar var svo ótrúlega falleg, hún einkennist af fjöllum, fossum og hreinum lónum.
Í Laos gistum við í litlu þorpi þar sem 50 fátækar fjölskyldur búa, sem var mögnuð upplifun. Við gistum á gólfinu hjá æðsta manninum í þorpinu og eyddum kvöldinu með fólkinu þar sem þau komu öll saman að horfa á eina sjónvarpið í þorpinu sem var svipað og lítill tölvuskjár. Fólkið þarna trúði því að ef það væru teknar myndir af því myndi sálin þeirra festast inni í myndunum þannig við þurftum að biðja um sérstakt leyfi ef við vildum taka myndir.
Eina „klósettið“, sem var meira eins og hola ofan í jörðina, var í 5 mínútna fjarlægð frá húsinu sem við gistum í svo við héldum í okkur þessa nótt. Við eyddum seinustu dögunum okkar með hópnum í Bangkok og héldum svo á taílensku eyjurnar.

Eyjan Phiphi stendur upp úr
Við heimsóttum þrjár eyjur í Taílandi, Phiphi, Koh Lanta og Phuket. Phiphi stendur klárlega upp úr af þessum eyjum, eftir að hafa verið í Víetnam og Taílandi þar sem umferðin er brjáluð var gott að komast á stað þar sem hvorki bílar né vespur voru leyfðar.
Við hittum vini okkar á Phiphi og fórum í bátsferð í kringum eyjuna, fórum á apaströnd, snorkluðum og nutum lífsins. Næst fórum við til Kuala Lumpur þar sem við vorum búnar að leigja okkur íbúð þar sem við gátum slakað á eftir öll hostelin.

Brimbrettanámskeið á Balí
Balí var æðislegt, allt var 100%. Við byrjuðum á brimbrettanámskeiði og komum sjálfum okkur mikið á óvart hvað við stóðum okkur vel í því. Við kynntumst ennþá fleira æðislegu fólki. Eftir viku á brimbretta­námskeiði leigðum við okkur íbúð og vespu í Ubud. Önnur okkar klessti vespuna sem beyglaðist ansi mikið. Fólkið sem leigði okkur vespuna var alls ekki sátt en við getum hlegið að því núna.
Einmitt þegar við vorum þarna var svokallaður „silence day“ þar sem allir á Bali þurfa að vera inni hjá sér og helst hugleiða. Við fengum lista yfir hvernig maður ætti að haga sér þennan dag og það stóð að það væri bannað að hafa gaman. Við munum 100% fara aftur til Bali.

Lært að veiða að víetnömskum sið.

Lært að veiða að víetnömskum sið.

Tekið á móti okkur með söng
Næst fórum við til Sydney, hittum vinkonur aftur og áttum æðislegan tíma þar. Vorum algjörir túristar og skoðuðum allt það týpíska eins og óperuhúsið, Bondi Beach og stóru brúna. Fórum á „hop on hop off“ rútu um borgina og sáum allt það helsta.
Ferðinni var svo haldið til Fiji sem er akkúrat hinum megin á hnettinum. Þar fórum við á eyjahopp sem var magnað, eyjurnar voru svo fallega grænar og sjórinn var svo tær að þetta var næstum óraunverulegt. Við fórum á fimm eyjur og það var tekið svo vel á móti okkur á hverri einustu eyju, fólkið söng og spilaði á hljóðfæri fyrir okkur þegar við mættum. Ein eyjan var ekki nema 150 metrar, það var öðruvísi upplifun.

Út fyrir þægindarammann
Lokaáfangastaðurinn okkar var Los Angeles, við gistum í Hollywood og það kom okkur mikið á óvart hvað það var mikið af heimilislausu fólki þar.
Annars voru Beverly Hills, Santa Monica og Hollywood Hills mjög flottir staðir. Fórum í rúnt til þess að skoða hús fræga fólksins sem okkur fannst mjög áhugavert. Fórum í Universal Studios, sáum m.a. bílinn úr Back to the Future, húsin úr Grinch og Hogwarts kastalann.
Ferðin var æðisleg í alla staði. Við fórum margoft langt út fyrir þægindarammann og mælum með svona ferð fyrir alla, sama á hvaða aldri þú ert.