Ómar hlaut heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla

ómarviðurkenning

kór1Á 40 ára afmælishátíð skólakórs Varmárskóla veitti foreldrafélag Varmárskóla Guðmundi Ómari Óskarsyni kórstjóra og tónmenntakennara sérstök heiðursverðlaun fyrir ötult og óeigingjarnt starf við tónlistarkennslu og eflingu tónlistar í skólastarfinu.

Órjúfanlegur hluti af skólastarfinu
Guðmundur Ómar eða Ómar eins og flestir kalla hann hóf störf sem tónmenntarkennari við Varmárskóla árið 1979 og sama ár hófst reglubundið kórstarf sem hefur alla tíð síðan verið undir hans stjórn. Tónlist Ómars hefur verið órjúfanlegur hluti af skólastarfinu og hann komið að tónlistaruppeldi fjölda Mosfellinga.
Í gegnum árin hefur skólakórinn komið fram víða bæði innanlands og utan en tónleikarnir í Guðríðarkirkju voru síðustu opinberu tónleikar kórsins undir stjórn Ómars þar sem hann lætur nú af störfum eftir 40 ára farsælan feril. Síðasta verkefni Ómars verður að leiða kórinn í söngferð til Spánar í júní.

Farsæll og árangursríkur ferill
Inga Elín Kristinsdóttir leirlistarkona og einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar var fengin til samstarfs um hönnun á heiðursverðlaunum foreldrafélagsins sem veitt eru starfsmanni skólans sem á að baki langan, farsælan og árangursríkan starfsferil. Sigríður Ingólfsdóttir afhenti Ómari verðlaunin fyrir hönd foreldrafélagsins á afmælishátíð skólakórsins og henni til aðstoðar voru kórfélagarnir Valgerður Kristín Dagbjartsdóttir og María Qing Sigríðardóttir. Er þetta í fyrsta sinn sem heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla eru veitt og er Ómari óskað innilega til hamingju með heiðurinn.