Betri orka á göngu

gaui13juni

Ég hef skrifað nokkra pistla í flugvélum. Hér er einn í viðbót. Er núna í flugvél á leiðinni frá Róm til London, þaðan fljúgum við eftir mjög stutt stopp heim til Íslands. Höfum verið á ferðalagi í fimm mánuði. Það verður gott að koma heim í íslenska sumarið. Ferðalagið hefur verið frábært en Ísland er líka frábært.

Ég rakst á viðtal við hinn norska Erling Kagge í flugblaði British Airways. Erling vinur minn – þekki hann reyndar ekki en sé fyrir mér að hitta á hann fyrr en síðar – er rithöfundur sem elskar að labba. Hann var að gefa út bókina, „Walking: One Step at a Time“ og samkvæmt viðtalinu talar hann í henni um allt það góða við að labba. Labba í vinnuna, í búðina, á Norðurpólinn og allt þar á milli. Hann talar um hvað tíminn líður öðruvísi þegar maður gengur, hvað maður meðtekur umhverfið miklu betur, hvað maður eykur sköpunargáfuna og skilning á lífinu með því að labba. Ganga er frábært mótvægi við hraðann í lífi okkar í dag, segir Erling.

Ég er á hans línu. Elska að labba. Er síðustu vikur og mánuði búinn að labba marga kílómetra á hverjum degi og finn sterkt hvað það gerir mér gott. Mér og mínum. Mér hefur nefnilega tekist að draga fjölskylduna með í labbið, svona oftast. Það er margt rætt á göngunni, orkan er öðruvísi en þegar maður ferðast á meiri hraða. Það er reyndar aðeins öfugsnúið að skrifa um hvað það er dásamlegt að ganga og fara þannig á rólegum hraða á milli staða þegar maður situr í flugvél sem færir mann á ofurhraða milli landa. En það er erfitt að labba frá Róm til Íslands, eiginlega ógerlegt, og ég tími hreinlega ekki að missa af íslenska sumrinu við að reyna það. Sjáumst hress á röltinu!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. júní 2019