Forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins

mosfellingurinn_johanna

Lágafellsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli fyrir nemendur í Mosfellsbæ og er deildaskiptur í yngsta, mið- og unglingastig ásamt leikskóladeildum. Við skólann starfa um 130 manns en um 730 nemendur eru í skólanum. Jóhanna Magnúsdóttir hefur starfað sem skólastjóri Lágafellsskóla frá því skólinn var stofnaður árið 2001 en hefur nú látið af störfum.

Jóhanna er fædd á Eskifirði 17. nóvember 1953. Foreldrar hennar eru þau Erla Charlesdóttir húsmóðir og skrifstofudama og Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar.
Jóhanna er elst þriggja systkina, Agla er fædd 1958 og Charles Óttar er fæddur 1960 en hún á einnig hálfsystur, Sonju f. 1952, samfeðra.

Það var barist með ýmsum áhöldum
„Ég ólst upp á Eskifirði í miklu frjálsræði eins og tíðkaðist á þeim tíma. Við krakkarnir lékum okkur úti allan daginn, dorguðum á bryggjunni, veiddum síli og á vetrum fórum við á skíði.
Það var talsvert um bardaga milli bæjarhluta og þá erum við að tala um alvöru bardaga þar sem barist var með ýmsum áhöldum, m.a. skíðastöfum, og einhverjir bera ör eftir þessar viðureignir.“

Var orðin sjálfstæð í söltuninni
„Síldarævintýrið var í algleymingi þegar ég var barn og ung að árum fékk ég að taka þátt í söltun með mömmu. Ég var 13 ára þegar ég var orðin sjálfstæð í söltuninni en þá var ekkert verið að velta sér upp úr því hvort börnin væru að vinna að nóttu til.
Tvö sumur vann ég svo við flökun í frystihúsinu. Þá naut ég þess mjög að afar mínir og ömmur bjuggu á staðnum og sótti ég mikið til þeirra enda yndislegt fólk. Íþróttir stundaði ég sem unglingur, bæði frjálsar íþróttir og handbolta.“

Ávað tíu ára að verða kennari
„Ég gekk í Barnaskóla Eskifjarðar og fannst gaman að læra. Ég hafði góða og eftirminnilega kennara en nefni helstan Ragnar heitinn Þorsteinsson en ég var líklega 10 ára þegar ég ákvað að verða kennari eins og hann.
Eftir unglingapróf fór ég í landspróf í Alþýðuskólann að Eiðum og útskrifaðist þaðan vorið 1969. Veturinn á Eiðum var afskaplega skemmtilegur, maður eignaðist marga vini, félagslífið var öflugt og mikið íþróttastarf sem ég tók þátt í.“

Æfði frjálsar íþróttir samhliða námi
Haustið 1969 settist Jóhanna í 1. bekk Kennararskóla Íslands og lauk kennaraprófi 1973, 19 ára. Hún ákvað að bæta við sig einu ári í Stúdentadeild skólans til að eiga möguleika á að fara í háskóla. Stúdentsprófið var svo í höfn 1974.
„Samhliða námi æfði ég frjálsar íþróttir og handbolta og keppti í handbolta til 1977 þegar ég varð ófrísk að mínu fyrsta barni.
Á sumrin vann ég á skrifstofu fyrir austan og síðar hjá ferðaskrifstofum í Reykjavík.“

Get enn heyrt glamrið í tönnunum
„Að loknu stúdenstsprófi réði ég mig til kennslu í Hólabrekkuskóla sem þá var ekki fullkláraður. Ég kenndi því 9 ára börnum í Fellaskóla og landsprófs- og verslunardeildum í Réttarholti. Vegna plássleysis í Réttó varð að kenna tveimur bekkjum saman og ég man mjög vel þegar ég stóð í fyrsta sinn frammi fyrir landsprófsnemendum mínum, 46 í bekk og ég tvítug. Ég get enn heyrt glamrið í tönnunum og fundið svitann í lófunum. Það var mikil lífsreynsla en gekk ljómandi vel.
Í skólanum kynntist ég eiginmanni mínum, Edvard Ragnars­syni, sem þar var yfirkennari.“

Áttum yndislegan tíma á Höfn
„Sumarið 1979 fluttum við til Hafnar í Hornafirði með dætur okkar tvær, Erlu f. 1978 og Silju f. 1979. Ætlunin var að vera í tvö ár en árin urðu 12. Edvard hóf störf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga og ég hóf kennslu við Hafnarskóla.
Við áttum yndislegan tíma á Höfn, tókum virkan þátt í ýmis konar félagsstarfi og eignuðumst vini til lífstíðar. Ég starfaði við kennslu í níu ár auk þess sem ég var með umboð fyrir ferðaskrifstofur.
Meðan við bjuggum þar fjölgaði í fjölskyldunni, Magnús fæddist 1982, Darri 1987 og Mist 1990. Edvard á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Önnu Guðrúnu, Ragnar og Kristinn Nikulás. Barnabörnin eru orðin 12 og 2 barnabarnabörn.“

Nýttum skíðalandið vel
„Sumarið 1991 fluttum við fjölskyldan í Mosfellsbæ. Börnin byrjuðu fljótt í íþróttum, tónlistarnámi og hestamennsku. Okkur fannst frábær kostur að hafa skíðaland í næsta nágrenni og nýttum það vel. Fyrstu þrjú árin eftir flutninginn var ég dagmóðir enda ekki hlaupið að því að koma börnum á leikskóla á þeim tíma.
Haustið 1994 hóf ég störf sem kennari við Varmárskóla þar sem ég vann til 1999. Tekin var ákvörðun á þessum tíma að reisa nýjan grunnskóla en á meðan hann var í byggingu var starfrækt útibú frá Varmárskóla.
Ég var beðin um að taka að mér starf útibússtjóra og gegndi því starfi í tvö ár með 170 nemendur eða þar til Lágafellsskóli tók til starfa.“

Þróunarverkefni í stjórnun
„Haustið 2001 hóf ég síðan starf sem skólastjóri Lágafellsskóla ásamt Sigríði Johnsen og Birgi Einarssyni og var um að ræða þróunarverkefni í stjórnun með undanþágu frá menntamálaráðuneyti. Fyrsta árið voru um 270 nemendur við skólann.
Birgir hætti eftir ár en við Sigríður störfuðum saman til 2007 en það ár fór ég í námsleyfi. Þegar Sigríður lét af störfum 2008 var Efemía Gísladóttir ráðin í hennar stað og starfaði hún við hlið mér þar til hún flutti utan 2010. Þá var tveggja skólastjóra kerfið lagt af við skólann og hef ég því gegnt starfinu ein síðan þá.“

Skólinn eins og eitt af börnunum
„Það hafa verið mikil forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins og að vinna með öllu því öfluga og faglega starfsfólki sem unnið hefur við skólann. Þá hefur verið gaman að kynnast og vinna með öllum nemendum skólans í gegnum tíðina og foreldrum þeirra.
Ég hafði alla tíð mikið yndi af að kenna enda starfaði ég við kennslu í 27 ár áður en ég tók við skólastjórnun. Það hefur verið mikil reynsla og afar skemmtilegt og krefjandi starf sem ég hafði gegnt þegar ég lét af störfum 1. ágúst sl.
Skólinn er eins og eitt af börnunum mínum sem ég hef tekið þátt í að „ala upp“ fyrstu 18 árin og hef nú sleppt hendi af, enda í góðum höndum.“

Mun hafa nóg fyrir stafni
En hvað skyldi Jóhanna ætla að taka sér fyrir hendur? „Fyrst og fremst hlakka ég til að verja meiri tíma með manninum mínum og fjölskyldunni en Edvard lét af störfum fyrir 6 árum eftir að starfað sem útibússtjóri í banka og sem grunnskólakennari.
Þá eigum við hjónin bústað í Öndverðarnesi sem okkur finnst frábært að dvelja í.
Okkur þykir gaman að ferðast og höfum farið árlega á skíði til Austurríkis. Kannski sný ég mér að golfinu, hver veit? Ég er viss um að ég mun hafa nóg fyrir stafni og mun njóta þess að vera ekki bundin yfir löngum vinnudegi,” segir Jóhanna og brosir.

Mosfellingurinn 27. ágúst 2019
ruth@mosfellingur.is