Endurbætur og viðhald Varmárskóla á lokametrunum

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Frá því í júní hafa staðið yfir margháttaðar endurbætur og viðhald á Varmárskóla sem nú sér fyrir endann á.
Framkvæmdirnar byggja á tveimur ólíkum úttektum. Annars vegar úttekt Verksýnar sem tekur til almenns viðhalds og endurbóta á elstu hlutum skólahúsnæðisins. Hins vegar heildarúttekt EFLU á rakaskemmdum og afleiðingum þeirra.
Dagleg verkefnisstjórnun var í höndum umhverfissviðs Mosfellsbæjar og voru Verksýn og EFLA til ráðgjafar við framkvæmdir, röðun þeirra og leiðbeiningar um vinnubrögð á rakaskemmdum svæðum og þeim stöðum þar sem örveruvöxtur hafði greinst.
Samkvæmt upplýsingum frá EFLU var öllum verklagsreglum fylgt í hvívetna og fram fóru sérhæfð alþrif á húsnæðinu fyrir skólasetningu föstudaginn 23. ágúst.
Verktakar við framkvæmdirnar í Varmárskóla í sumar voru ÁS-Smíði ehf., Ístak hf. og Kappar ehf. og Pétur og Hákon ehf.

Gluggaskiptum lokið í suðvesturálmu
Framkvæmdunum er nú að mestu lokið og gluggaskiptum sem í síðustu viku var talið að þyrftu að eiga sér stað í vetrarfríinu í október er nú lokið í suðvesturálmu yngri deilda.
Vinna við gluggaskipti í bókasafni hófst mánudaginn 26. ágúst og gluggar í starfsmannaálmu verða endurnýjaðir næstu helgar. Þessi verkþáttur tafðist vegna tafa á afhendingu glugga frá framleiðanda.

Heildarskimun og loftgæðamælingar
Á fundi bæjarráðs 22. ágúst var samþykkt að ganga til samninga við annars vegar verkfræðistofuna EFLU og hins vegar við Orbicon um frekari úttektavinnu og heildarskimun á skólahúsnæði Mosfellsbæjar auk loftgæðamælinga.