Íþróttaþorpið

íþróttaþorp

Ég hitti Yuri Marcialis í Cagliari á Sardiníu í síðasta mánuði. Hann var í forsvari fyrir nokkrum árum fyrir spennandi verkefni í borginni. Það kallast „Íþróttaþorpið“ og er hluti af mikilli heilsueflingu og íþróttaeflingu sem átt hefur sér stað í borginni síðustu ár. Það snýst um byggja upp svæði þar sem almenningur og atvinnumenn geta komið og æft sína íþrótt, nánasta sama hver hún er. Yuri labbaði með mér í gegnum svæðið og sagði mér frá verkefninu, hver staðan væri í dag, hvað væri búið að gera og hvað væri fram undan. Það athyglisverðasta við verkefnið „Íþróttaþorpið“ að mínu mati voru ekki mannvirkin sjálf eða aðstaðan, heldur heildarmyndin. Þorpið á nefnilega að standa undir nafni.

Á milli mannvirkjana er verið að hanna og byggja torg, kaffihús, matsölustaði og félagsaðstöðu. Aðstöðu fyrir alla þá sem koma í þorpið til þess að hreyfa sig. Aðstöðu þar sem fólk getur spjallað við aðra, fengið sér hollt og gott að borða, slakað á, prófað aðrar íþróttagreinar eða hreyfingu. Í stað þess að koma bara á sína æfingu og drífa sig heim. Ég hugsaði allan tímann á meðan við röltum um íþróttaþorpið í Cagliari hvað það væri geggjað að koma upp svona íþróttaþorpi á Varmársvæðinu okkar. Við höfum plássið, við höfum íþróttaaðstöðuna, en það sem okkur vantar upp á er að tengja þetta saman á þann hátt að fólk staldri við, ræði málin, tengist betur.

Hinn heilsueflandi Mosfellsbær gæti orðið fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem byggði íþrótta- og heilsuþorp. Þetta myndi hvetja enn fleiri íbúa bæjarins til þess að hreyfa sig og borða hollan og góðan mat – sem að sjálfsögðu yrði boðið upp á í þorpinu okkar. Síminn er opinn, ég er til í að segja öllum sem vilja hlusta betur frá því hvað er að gerast í Cagliari. Lítilli borg með heilsueflandi drauma.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júlí 2019