Harald S. Holsvik

Kæru FaMos félagar

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra með þökk fyrir liðin. Fram undan er mikil og stórbrotin dagskrá á döfinni í samvinnu við Félagsstarfið og Elvu Björgu að Eirhömrum.
Við skulum gera allt sem við getum til að njóta þess sem í boði er. Þjóðsagnanámskeið mun byrja þann 17. janúar n.k. ef næg þátttaka fæst. Enn eru örfá sæti laus. Skráið ykkur hjá famos@famos.is sendið inn nafn, og símanúmer ásamt kennitölu.
Við erum að byrja fjórðu önnina í Módelsmíðinni og þar er svo til fullbókað. Listmálun er að hefjast á nýjan leik. Síðan eru tréútskurður, bókband, glervinnsla og hugsanlega kennsla á spjaldtölvur ef næg þátttaka fæst ásamt að venju hannyrðum.
Allar ýtarlegri upplýsingar fást hjá Félagsstarfinu að Eirhömrum. Tekið verður í spil og spilað bingó ásamt félagsvist sem mun verða auglýst nánar.

Eitt atriði fyrir aldraða og eldri borgara er að hafa eitthvað fyrir stafni og láta sér ekki leiðast.
Í mínum síðasta pistli fyrir áramót setti ég fram spurninguna: „Erum við á réttri leið?“ Ýmis lög hafa síðan verið samþykkt á Alþingi. Þar á meðal Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég vil því skoða málið betur.
Þegar ég tók að mér formennsku í stjórn FaMos, fyrir nærri þremur árum síðan, varð mér ljóst að ein besta kjarabót fyrir þá aldurshópa sem eru í félaginu og sem hætt hafa atvinnuþátttöku, væri að knýja á um skatta­tilslakanir. Þegar á hólminn var komið var það deginum ljósara að nær útilokað væri að óska eftir tilslökun og vægari skattlagningu á eldri borgara.
Ein fyrsta ábendingin sem kom frá þingmanni úr kjördæminu var sú, að hendur alþingismanna væru svo bundnar við stjórnarskrá Íslands, sérstakleg 65. gr. um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Nýlega samþykkt ofannefnd lög bera því miður með sér m.a. eftirtalin atriði sem spurningar vakna um.
1. Enn er ekki búið að samhæfa lögin við eldri útgáfu laganna. Hvers vegna ekki?
2. Ef ákvæði um jafnrétti á að gilda, ættu einhleypingar að hafa sérstakar bætur vegna húsnæðis umfram gifta? Er verið að stuðla að aukinni skilnaðartíðni?
3. Sagt er manna á milli að um 4.200 einstaklingar verði af svokölluðum grunnlífeyri sem var á bilinu 40-47.000 á mánuði, ef þeirra sparnaður og ráðdeild gefur þeim meira en 531.406 kr. á mánuði. Upphæðin kemur hvergi fram í lögunum. Hvers vegna ekki? Er talan fengin fram með reiknilíkönum? Sumir segja að hér sé um eignaupptöku að ræða. En hver hefði trúað því á fráfarandi ríkisstjórn?
4. Líklegt er að sumir njóti einhverra lagfæringa með þessum nýju lögum. Það er í góðu lagi.

Bestu félagskveðjur.
Harald S. Holsvik, formaður stjórnar FaMos.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Nokkur orð um fjárhags­áætlun og kaffisopa

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hin árlega afgreiðsla fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar er eiginlega boðberi hækkandi sólar og jóla ár hvert. Áætlunin var afgreidd á fundi bæjarstjórnar þann 7. desember síðastliðinn.
Reksturinn hefur gengið vel eins og hjá flestum öðrum sveitarfélögum landsins enda efnahagsumhverfið nokkuð hagfellt. Enn skortir þó á að ríkisvaldið komi til móts við sveitarfélögin hvað varðar t.d. málefni fatlaðs fólks og tekjur af ferðamennsku.
Ýmislegt gott er að finna í áætlun næsta árs og sumt af því byggist á tillöguflutningi okkar Samfylkingarfólks fyrr á kjörtímabilinu, s.s. hækkun frístundaávísunar og væntanleg starfsemi Ungmennahúss. Þá eru ýmis atriði sem mikill samhljómur hefur verið um í bæjarstjórninni eins og t.d. aukin þjónusta við fjölskyldur ungbarna hvað varðar dagvistun og lækkun fasteignagjalda hjá tekjuminni eldri borgurum svo fátt eitt sé nefnt.
Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina lögðum við Samfylkingarfólk fram nokkrar tillögur sem því miður var hafnað af meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks þótt einni væri hleypt breyttri áfram til skoðunar á næsta ári. Þannig virðist sá samstarfsvilji sem við höfum séð við fyrri fjárhagsáætlanir kjörtímabilsins ekki vera enn fyrir hendi, hvað sem lesa má út úr því. Af þessum orsökum sat Samfylkingin hjá við afgreiðslu áætlunarinnar. Tillögur okkar má finna á Facebooksíðunni „Samfylkingin í Mosfellsbæ“ sem og í fundargerð á vef sveitarfélagsins.

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Má bjóða þér tíu dropa?
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þannig er lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frekar pólitísk yfirlýsing en aðgerð sem skiptir sköpum fyrir íbúa hvað varðar heimilisbókhald þeirra.
Þessi lækkun þýðir um 120 krónur aukalega á mánuði í vasann hjá launþega með 300 þúsund kr. á mánuði en 800 krónur mánaðarlega í vasa þess sem er með 2 milljónir á mánuði. Með öðrum orðum, þeir tekjuhæstu geta farið á kaffihús og fengið sér tvöfaldan cappuccino mánaðarlega en hinir ná líklega tíu dropum af uppáhellingi. Þessi lækkun útsvars er sýndargjörningur sem missir marks.
Útsvarið er grunnur að þjónustu sveitarfélagsins og meðan enn er þörf á að bæta þjónustuna er ekki tilefni til lækkunar útsvars. Þær 14,4 milljónir sem með þessari ákvörðun eru teknar út úr bæjarsjóði hefðu nýst bæjarbúum mun betur í samfélagslegum verkefnum, t.d. í lækkun leikskólagjalda eins og við gerðum tillögu um, til meira samræmis við það sem gerist í nágrannasveitarfélögum. Þannig hefði Mosfellsbær orðið enn fjölskylduvænni bær, öllum bæjarbúum til hagsbóta.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu á nýju ári halda áfram að vinna að góðum málum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Framundan er hátíð ljóss og friðar sem alltaf er jafn kærkomin í amstri skammdegisins. Við sendum bæjarbúum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári.

Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar

thorgerdurkatrin

Jólakveðjur

thorgerdurkatrin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Haustið hefur verið viðburðaríkt. Eftir snarpa kosningabaráttu náði Viðreisn 7 fulltrúum á þing úr fimm kjördæmum af sex. Samtals féllu 10,5% atkvæða í skaut Viðreisnar. Bestur árangur náðist hér í Suðvesturkjördæmi, tæp 13% atkvæða og tveir þingmenn.
Fyrir þetta mikla traust erum við þakklát og munum leggja okkur fram um að standa undir væntingum kjósenda okkar. Auðvitað berum við hag landsmanna allra fyrir brjósti en gerum okkur góða grein fyrir sérstökum skyldum okkar við kjósendur og íbúa í kjördæmi okkar.

Þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir hvaða ríkisstjórn tekur við stjórnartaumum og ekki heldur hvort Viðreisn á aðild að henni. Viðreisn hefur á hinn bóginn lagt sig fram í tilraunum til stjórnarmyndunar bæði til hægri og vinstri. Málefnin hafa ráðið för hjá okkur í þeim öllum en við erum að sjálfsögðu meðvituð um nauðsyn málamiðlana þegar margir koma að samningaborði.
Okkar mat er að allar þessar viðræður hafi skilað vissum árangri og við erum vongóð um að þessi samtöl geti leitt til aukinnar samvinnu og betri vinnubragða á Alþingi. Það yrði til hagsbóta fyrir fólkið í Kraganum sem annars staðar. Viðreisn og Björt framtíð hafa átt farsælt samstarf í þessum viðræðum. Þótt flokkarnir séu ólíkir þá hafa menn sammælst um að ýta undir og styrkja frjálslyndið með nánu samstarfi í gegnum stjórnarmyndunarviðræður. Það er ný nálgun.
Við horfum bjartsýn fram á veg og hlökkum til þess að láta til okkar taka og eiga við ykkur gott samstarf á komandi ári.

Jón Steindór Valdimarsson

Jón Steindór Valdimarsson

Með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Þorgerður Katrín og Jón Steindór

Ólöf Kristín Sívertsen

Vegferð til vellíðunar

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð er ekki úr vegi að staldra aðeins við, líta yfir árið og velta því fyrir sér hvernig það var og af hverju.
Leið mér vel? Lagði ég rækt við sjálfa/-n mig og aðra? Var ég meðvituð/-aður um gerðir mínar og viðbrögð í hinu daglega amstri? Þetta eru aðeins örfáar af þeim spurningum sem koma upp í hugann því það er nefnilega svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur.

Jákvæðni er val
Eins og segir í fyrsta geðorðinu þá er einfaldlega léttara að hugsa jákvætt og slíkt er í raun val hvers og eins. Það er sama hversu krefjandi verkefnin okkar eru, það er alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar á þeim og þó okkur takist jafnvel ekki að leysa þau eins og við vildum þá erum við að minnsta kosti alltaf reynslunni ríkari. Mundu að reynslan og viðhorf okkar til hlutanna skapa okkur sem manneskjur og þau gildi sem við stöndum fyrir. Áskoranir lífsins eiga nefnilega ekki að hafa lamandi áhrif á okkur, þær eiga að hjálpa okkur að uppgötva hver við erum í raun.

Þakklæti bætir heilsuna
Þakklæti er göfug og góð tilfinning. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur meðal annarra rannsakað áhrif þakklætis á samskipti, hamingju og heilsu fólks. Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífs­ánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin. Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína reglulega og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.

Vellíðan
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfirgnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra. Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkur með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ færir ykkur hjartans þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, óskar ykkur gleði og friðar um hátíðirnar og að sjálfsögðu heilbrigðis og hamingju á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Harald S. Holsvik

Formaður FaMos spyr: Erum við á réttri leið?

mosfellingur_hopmynd_img_7242_00

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Við í FaMos gerðum garðinn frægan og fórum í góða skemmtiferð til Tíról í Austurríki dagana 20.-27. september sl.
Ferðin heppnaðist að öllu leyti mjög vel og varð Ferðanefnd FaMos og Bændaferðum ásamt fararstjóra til virkilegs sóma.

Við höfum haldið, það sem af er á þessum vetri, tvö menningar- og skemmtikvöld. Fyrra kvöldið var í Hlégarði þann 10. okt. sl. Skemmtikraftar voru ekki af verri endanum en það voru þeir félagar Grétar Örvarsson, með hljómborð og Hans Þór Jensson á saxafón. Þeir fóru létt með að taka hin ýmsu gömlu og góðu dægurlög og „standarda“. Grétar söng einnig og lék við hvern sinn fingur.

Seinna menningar- og skemmtikvöld FaMos var svo haldið í Hlégarði 14. nóv. sl. Þá byrjaði undirritaður á myndasýningu úr Tíról ferðinni. Þar næst kom Greta Salóme Stefánsdóttir, okkar snjalli bæjarlistamaður, hún lék við hvern sinn fingur og af fingrum fram á fiðluna við mikla ánægju og góðar undirtektir FaMos félaga.

Næsta menningar- og skemmtikvöld FaMos verður haldið í Hlégarði þann 12. des. n.k. Þá verður heldur betur „allt í stuði“ með Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ sem koma til okkar og syngja jólalögin inn í hjörtu okkar fyrir hátíðarnar. Kaffinefnd FaMos sér svo um hið rómaða kaffihlaðborðið eins og venjulega. Komugjald við inngang er aðeins 1.000 kr. seðill.

En hvað er að gerast á Eirhömrum?
Félagsstarfið sér um allt skipulag og niðurröðun námskeiða og viðburða. Er það allt í góðri samvinnu við FaMos. Starfið þar er fjölbreytt, spilað á spil, Gaman saman o.fl. og virðist gagnast mörgum. Þeir sem ekki eru með rafpóst, geta ævinlega litið við á Eirhömrum og séð viðburðadagskrár á auglýsingatöflunum.

Eftir áramót stendur til að byrja Þjóðsagnanámskeið (sjá nánar auglýsingu hér í blaðinu). Ánægjulegt væri að fá viðbrögð og að sjá hugsanlegan áhuga á skákíþróttinni. En við erum alltaf tilbúin til að bæta við áhugaverðum viðfangsefnum.
Einnig hefur staðið til að endurvekja áhuga fyrir spjaldtölvunámi eða námskeiðum en allt þetta fer eftir þátttöku. Því fleiri sem skrá sig því betra en skráningarblöð eru yfirleitt í hannyrðastofu að Eirhömrum. Einnig er hægt að skrá sig í síma hjá Félagsstarfinu. Ef nægur fjöldi þátttakenda er til staðar aukast líkur á að viðkomandi námskeið fari af stað.

Megi aðventan leiða okkur öll inn í jólahátíðina með tilkomu gleðilegra daga og friðar á jörð.
Innilegar jólakveðjur frá stjórn FaMos.

Harald S. Holsvik, form.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Þjónusta aukin og skattar lækkaðir

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2017 er nú til umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir rúmlega 200 mkr. afgangi af rekstri.
Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 924 mkr. eða um 10% af heildartekjum og að í árslok 2017 verði skuldaviðmið komið niður í 106% af tekjum sem er langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga.

Skattar lækkaðir og þjónustugjöld óbreytt
Skattar verða lækkaðir á íbúa Mosfellsbæjar á árinu 2017. Í fyrsta skipti síðan fyrir hrun verður álagningarhlutfall útsvars fyrir neðan hámark en bæjarstjórn hefur ákveðið að það verði 14,48% en hámarkið er 14,52%. Jafnframt er gert ráð fyrir lækkun fasteignagjalda til að koma til móts við þá auknu eignamyndun sem átt hefur sér stað með hækkun fasteignamats. Þessar aðgerðir lækka greiðslur heimilanna um 12.000 kr. á ári að meðaltali.
Auk lækkunar skatta er gert ráð fyrir að þjónustugjöld sveitarfélagsins haldist óbreytt milli ára og lækki því að raungildi. Hér er um kjarabætur að ræða fyrir fjölmargar barnafjölskyldur í bænum og er þetta t.d. annað árið í röð sem leikskólagjöld hækka ekki. Fjárhagáætlunin gerir auk þessa ráð fyrir auknum niðurgreiðslum á fasteignagjöldum fyrir tekjulága eldri borgara.

Þjónusta við barnafjölskyldur aukin og bætt
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir aukinni þjónustu og auknum niðurgreiðslum, einkum til barnafjölskyldna. Verulegir fjármunir verða settir í að auka þjónustu við börn 1-2ja ára. Stofnaðar verða ungbarnadeildir við tvo leikskóla bæjarins þar sem pláss verður fyrir um 30 börn á þessum aldri, auk þess sem plássum verður fjölgað á einkareknum leikskólum í nágrenni sveitarfélagsins fyrir börn úr Mosfellsbæ. Auk þessa verða niðurgreiðslur auknar talsvert þannig að frá 18 mánaða aldri er greitt fyrir börn sama gjald, hvort sem þau eru á leikskólum bæjarins, á einkareknum skólum eða hjá dagforeldrum.
Haldið verður áfram að stuðla að íþrótta- og tómstundaiðkun barna með hækkun frístundaávísunar um 18%. Það er til viðbótar þeim breytingum sem gerðar voru í haust þegar frístunda­ávísunin var hækkuð verulega til barnmargra fjölskyldna. Fjárhagsáætlunin gerir einnig ráð fyrir því að fjármunir verði settir í að koma upp skipulögðu ungmennastarfi á vegum Mosfellsbæjar í nafni Ungmennahúss sem hafi aðstöðu í Framhaldsskólanum, sem og að Listaskólinn verði efldur til að geta sinnt fleiri nemendum og að tónlistarnám verði aukið innan grunnskólanna.
Hér hafa verið nefnd nokkur af þeim atriðum þar sem þjónusta við bæjarbúa er aukin til muna. Hægt er að skoða áætlunina í heild sinni inni á vef bæjarins www.mos.is.

Uppbygging heldur áfram – nýr grunnskóli byggður
Mikil uppbygging á sér stað í Mosfellsbæ um þessar mundir og aðeins í Helgafellshverfi einu hafa verið gefin út byggingarleyfi fyrir ríflega 400 íbúðum. Þessi mikla uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að fjárfest verði fyrir tæplega 800 mkr. að frádregnum gatnagerðargjöldum. Þar er stærsta einstaka framkvæmdin bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að í þá framkvæmd fari um 500 mkr. á árinu 2017.
Fyrsti áfangi skólans verður tekinn í notkun haustið 2018. Auk þess er gert ráð fyrir töluverðum fjármunum í framkvæmdir við íþróttamannvirki með áherslu á Varm­ársvæðið. Auk þess er í skoðun bygging fjölnota íþróttahallar í einkaframkvæmd í samvinnu við Ungmennafélagið Aftureldingu. Fé er áætlað í endurbætur á eldri byggingum bæjarfélagsins og einkum er þar horft til Varmárskóla sem þarfnast viðhalds.

Hér hefur verið stiklað á stóru um þau atriði sem tillaga að fjárhagsáætlun felur í sér. Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag og það er ánægjulegt að svigrúm hafi skapast fyrir því að geta bætt hag bæjarbúa með aukinni þjónustu og lækkun skatta og gjalda eins og stefnt er að.
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það er okkar vilji sem störfum í hans þágu að svo verði áfram.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Bergljót Ingvadóttir

Þolinmæðin á þrotum

Bergljót Ingvadóttir

Bergljót Ingvadóttir

Spáð hefur verið að næsta uppreisn í samfélaginu verði hjá láglauna menntafólki. Ég vona svo sannarlega að sú spá rætist. Það er styrkur í fjöldanum. Kennarar eru fjölmenn stétt. Þeir eiga að hafa bolmagn til að standa á kröfum sínum en til þess þurfa kennarar að sýna sterkan vilja og samstöðu.
Kennarar hafa reynt að stilla mótmælum sínum í hóf og hafa nokkrum sinnum gengið út af vinnustað seinni part dags til að vekja athygli á kjarabaráttu sinni. Þetta hefur verið gert til að raska starfsemi skóla sem minnst. En það kemur í ljós að þetta er lögleysa, brot á starfssamningi og eiga kennarar á hættu að vera hýrudregnir fyrir vikið. Kennarar eru sem stendur samningslausir og hafa verið mánuðum saman. Hversu lengi mega yfirvöld draga kennara á asnaeyrunum? Illa gert en eflaust löglegt.
Eftir hrun hafa tekjur kennara rýrnað jafnt og þétt. Flestir gera sér ekki grein fyrir því að kennarar urðu þá fyrir duldri launalækkun. Kennslustundum og skóladögum var fækkað og yfirvinna tekin af. Minnkuðu kröfurnar að sama skapi? Nei, kröfurnar jukust, ekkert fellt út af stundaskrá og verkefnum fjölgað. Kennarar áttu bara að vinna helmingi hraðar.
Margir undrast þá stífni í kennurum að hafna samningum – ekki einu sinni, heldur tvisvar. Ég skora á kennara að hafna samningum aftur ef sami grautur í sömu skál verður borinn á borð. Kennarar kæra sig ekki um samning þar sem þeir eru látnir afsala sér áunnum réttindum fyrir nokkrar krónur á mánuði. Ekki aftur.
Ef ekkert er að gert horfum við fram á kennaraskort í náinni framtíð. Kröfur hafa verið gerðar á aukna menntun kennara og hið besta mál að vera með vel menntaða kennara. En háskólamenntun er tímafrek og dýr. Ef ráðamenn vilja fá til starfa unga kennara með fimm ára háskólanám að baki verða launin að endurspegla það. Nú blasir einnig við flótti úr kennarastéttinni. Verkföll hafa engu skilað nema tekjutapi. Hugsanlega skila hópuppsagnir einhverju. Þolinmæðin er að minnsta kosti á þrotum.
Krafan er einföld og afdráttarlaus. Kennarar vilja laun í samræmi við menntun, ábyrgð og vinnuálag. Þeir vilja launaleiðréttingu. Án skilmála. Rétt eins og alþingismenn og aðrir háttsettir embættismenn fá skilyrðislaust. Ekki bráðum, ekki í áföngum, heldur strax.

Bergljót Ingvadóttir,
kennari við Varmárskóla.

Katrín Sigurðardóttir

Gönguferðir og fræðsla

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Það er margsannað hvað hreyfing og mataræði hefur mikil áhrif á heilsuna. Hreyfing þarf ekki að vera svo mikil og mataræði ekki að vera mjög sérhæft eða ýkt til að skila bættri heilsu.
Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ viljum stuðla að bættri heilsu og skipulögðum gönguhópi sem hefur það að markmiði að hjálpa fólki að taka ábyrgð á eigin heilsu. Gönguhópurinn er fyrir alla sem þurfa heilsu sinnar vegna að hreyfa sig eða þá sem langar bara í göngutúr í góðum félagsskap.
Gengið er tvisvar í viku í 30 til 40 mínútur, á hraða sem hentar hverjum og einum. Ekki er ætlunin að keppa að því að verða fyrstur eða komast í keppnisform. Til þess er nóg af lausnum í boði hjá líkamsræktarstöðum og fleiri aðilum. Það að ganga með fleirum á fyrirfram ákveðnum tíma gerir það mun líklegra að maður fari af stað eða haldi sig við efnið til lengri tíma. Það er líka alkunna að maður er manns gaman og er þetta upplagt tækifæri til að fara í göngutúr í góðum félagsskap.
Til viðbótar við göngurnar verða fræðslukvöld einu sinni í mánuði um hreyfingu, mataræði og helstu lífsstílssjúkdóma. Þannig getur fólk betur tileinkað sér venjur sem eru um leið forvörn fyrir ýmsa lífsstílssjúkdóma eða, ef einhver slíkur er þegar til staðar, hjálpað fólki að tileinka sér lífsstíl til að vinna gegn sjúkdómnum. Í fræðslunni er miðað við sannreyndar og viðurkenndar upplýsingar og ekki fjallað um sérstaka kúra eða tískubólur tengdar mataræði.
Til að styrkja okkur enn frekar munum við elda saman hollan og góðan mat einu sinni í mánuði og fá sérfræðinga til að miðla til okkar hvernig hægt er að hafa mataræðið hollt, gott og fjölbreytt.
Gengið er á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16.15 frá Rauða kross húsinu í Þverholti 7 Mosfellsbæ. Mikilvægt er að tilgangur hreyfingarinnar er ekki að komast í keppnisform eða að vera fyrstur heldur er markmiðið að stunda hreyfingu sem stuðlar­ að eigin heilbrigði.
Nánari upplýsingar: hulda@redcross.is eða í síma: 898 6065.

Katrín Sigurðardóttir hópstjóri verkefnisins
og ritari í stjórn Rauða krossins í Mosfellsbæ

Ólöf Kristín Sívertsen

Veldu þér viðhorf

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það eru margir sem halda að viðhorf þeirra sé afleiðing ytri aðstæðna og þess sem gerist í umhverfi okkar.
Það er hins vegar fjarri sanni því viðhorf okkar er afleiðing þess hvernig við veljum að vinna úr og túlka það sem gerist í kringum okkur. Við ráðum því nefnilega sjálf hvort við þróum með okkur jákvætt viðhorf, sjáum björtu hliðarnar og tækifærin í hverjum þeim aðstæðum sem lífið býður upp á.

Geðorðin 10
Við getum gert ýmislegt til að tileinka okkur jákvætt viðhorf með markvissum hætti. Geðorðin 10 eru vel til þess fallin að auðvelda okkur vegferðina að slíku viðhorfi og minna okkur á hvað þarf til. Þar er vikið að því hvað við þurfum að tileinka okkur til að öðlast lífsgæði, sátt og sálarró til að verða besta útgáfan af sjálfum okkur.
Við þurfum að hugsa jákvætt, læra af mistökum okkur, rækta hæfileikana, hlúa að því sem okkur þykir vænt um, setja okkur markmið, láta drauma okkar rætast og muna að velgengni í lífinu er langhlaup.

Umkringjum okkur jákvæðni
Hvernig væri nú að taka ráðin í sínar hendur og byrja hvern dag á einhverju jákvæðu? Það er t.d. hægt að syngja, hlusta á hvetjandi tónlist, lesa jákvæða og uppbyggilega hluti, dansa og/eða leita í gleðibankann okkar eftir skemmtilegum myndum, myndböndum o.s.frv.
Svo er líka snjallt að forðast hreinlega neikvætt fólk og neikvæð skilaboð og einblína á þá hluti sem okkur langar til að gera, bæði núna og í framtíðinni. Síðast en ekki síst þurfum við að temja okkur að staldra við og íhuga hvernig við bregðumst við aðstæðum hverju sinni, er glasið okkar hálftómt eða er það hálffullt?

Jákvæðni grundvöllur lífsgæða
Ýmsar rannsóknir sýna að jákvætt viðhorf er grundvöllur velgengni í persónulegu lífi og starfi og hefur ekki aðeins áhrif á lífsgæði okkar heldur einnig heilsu og lífslíkur. Jákvætt viðhorf leiðir af sér tækifæri, lausnir og gefur okkur tækifæri á að þroskast sem einstaklingar.

Síðast en ekki síst þá verður lífið einfaldlega skemmtilegra ef við horfum á hlutina og tökumst á við þá með jákvæðnina að vopni!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Sr. Skírnir Garðarsson

Stjórnsýslu Lágafellssóknar stórlega ábótavant

Sr. Skírnir Garðarsson

Sr. Skírnir Garðarsson

Að gefnu tilefni vil ég undirritaður, Skírnir­ Garðarsson, fyrrum prestur Lágafellssóknar koma eftirfarandi á framfæri:
Ónóg stjórnsýsla Lágafellssóknar og mannauðsstjórnun hefur undanfarin misseri dregið dilk á eftir sér. Í fyrra hættu organisti, prestur og djákni og í framhaldinu var klúður varðandi ráðningu nýs starfsfólks, óánægja var með ráðningarferli organista og óánægja er nú meðal starfsfólks sóknarinnar.
Sóknarpresturinn og framkvæmdastjórinn voru sett undir rannsókn Úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og var niðurstaðan birt 3. nóv. sl.
Þar kemur fram að ámælisverð vinnubrögð hafa verið viðhöfð gagnvart undirrituðum, gagnvart opinberum eftirlitsaðilum og stjórnsýsla framkvæmdastjórans virðist hafa einkennst af þekkingarskorti og vöntun­ á vandvirkni.
Þá eru meint brot sömu aðila á persónuverndarlögum og trúnaði gagnvart tölvupóstum starsfólks til skoðunar hjá Persónuvernd. Þar er ljóst að viðkvæmum upplýsingum var komið á óheiðarlegan hátt til yfirmanna kirkjunnar, meintir gerendur eru sóknarpresturinn og framkvæmdastjórinn.
Þessi meintu brot teygja sig yfir þriggja ára tímabil, 2014 –2016, fyrri hluta árs.
Um er að ræða meint brot á meðferð rafrænna skjala, ásamt því að farið hefur verið á svig við siðareglur kirkjunnar.
Úrskurður Úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar liggur frammi á biskupsstofu og hefur verið sendur sóknarnefnd Lágafellssóknar og kirkjuráði.
Úrvinnsla Persónuverndar er í gangi og niðurstöðu er að vænta í vetur.
Allt er þetta til tjóns fyrir sóknarbörnin í Lágafellssókn.

Sr. Skírnir Garðarsson

——-

Úrskurðarorð:
Aðfinnsluvert er að enginn gagnaðila skyldi láta málshefjanda tafarlaust vita af erindi Persónuverndar frá 12. ágúst 2013.
Aðfinnsluvert er með hvaða hætti gagnaðilar sóknarnefnd og framkvæmdastjóri Lágafellssóknar brugðust við fyrrgreindu erindi Persónuverndar.
Aðfinnsluvert er að gagnaðili sóknarprestur skyldi vísa erindi Persónuverndar til biskups Íslands án þess að tilkynna málshefjanda tafarlaust þá ákvörðun sína.
Gagnaðilum bar ekki að veita máls­hefjanda andmælarétt vegna erindis Persónuverndar.

Signý Björg Laxdal

Vertu breytingin sem þú vilt sjá

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Verandi fædd og uppalin í Mosfellsbæ verður óumflýjanlegt að þykja ekki nokkuð vænt um þessa sveit.
Ég var svo heppin að fá að vera alla tíð í sama leik- og grunnskóla, fá að blómstra í lúðrasveitinni og uppgötva tilvistarleysi íþróttahæfileika minna í þeim fjölmörgu greinum sem Afturelding býður upp á. Við fjölskyldan erum afar gæfurík með vinalega nágranna og fallegt umhverfi hvert sem litið er. Þetta eru sannarleg forréttindi.
Ókeypis er allt það sem er best. Að vissu leyti. Staðreyndin er að manneskjur um allan heim búa við raunverulegan ójöfnuð og það er okkar hlutverk að taka virkan þátt í að útrýma honum. Við þurfum ekki að leita út fyrir bæjarmörkin til að sjá að manneskjan­ næst okkur gæti þurft aðstoð.
Rauði Kross Íslands er mannúðarhreyfing sem miðar að því að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa. Sú hjálp er af ýmsum toga, allt frá félagslegum stuðningi og fataúthlutunum að beinni aðstoð á stríðssvæðum. Það er því eðlilegt að spyrja sig – hvað hef ég upp á að bjóða? Hvað get ég gert fyrir aðra?
Að gefa tíma er rausnarleg gjöf. Að taka þátt í opnu húsi, félagsstarfi með hælisleitendum, vera heimsóknavinur eða kenna íslensku sem annað tungumál. Fjölmörg og fjölbreytt verkefni standa til boða og ég vil hvetja þig, lesandi góður, til þess að kynna þér starfið og velta því fyrir þér hvert þitt framlag gæti orðið.

Signý Björg Laxdal, varaformaður
Mosfellsbæjardeildar Rauða Kross Ísland.

Úrsúla Jünemann

Vatnsvernd kemur okkur öllum við

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Vandfundinn er sá staður þar sem er gnægð af góðu ferskvatni og meira en það eins og hér á landi.
Okkur Íslendingum þykir sjálfsagt að vatn – bæði kalt og heitt – er nær alls staðar að finna og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þar verði skortur á. Fréttir af því að nýlega hafi verið mengun í drykkjarvatni á Vestfjörðum hafa ekki snert landsmenn sérlega mikið en gefa samt smá aðvörunarmerki.

Í gegnum Mosfellsbæjarlandið renna nokkrar ár: Varmá, Kaldakvísl, Suðurá, Úlfarsá og Leirvogsá (sem er á landamærunum við Reykjavík). Varmá sem er á náttúruminjaskrá og Kaldakvísl renna í gegnum þéttbýli og eru því í mestri hættu að verða fyrir mengun. Reyndar hafa orðið nokkur mengunarslys í báðum þessum ám.
Hvað er það sem getur valdið mengun í ám, vötnum og sjó?
-Rangar tengingar frá húsum og bílskúrum þar sem skólp fer óhreinsað í árnar og sjóinn.
-Óhreinsað skólp frá ófullnægjandi rotþróm og siturlögnum.
-Málning, olía og annað sem hellt er í niðurföll utandyra eða í bílskúrum.
-Tjöruhreinsir og sápa frá bílaþvotti.
-Klór úr heitum pottum.

Búið er að hanna góðan bækling um vatnsvernd sem allir bæjarbúar ættu að fá heim. Því miður hefur ekki orðið af því vegna peningaleysis því ekki er veitt nægilegu fjármagni til umhverfismála. En vatnsvernd ætti að vera eitt af forgangsmálunum hér eins og annars staðar, ekki spurning.
Mosfellsbærinn er yndislegur bær þar sem gott er að búa. Hér á að vera heilsueflandi samfélag. Þannig að umhverfið okkar á að vera heilnæmt en ekki mengað. Vatnakerfin eru viðkvæm og ef þau verða fyrir raski og mengun eru þau lengi að ná sér – ef þau nái sér. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru margfalt ódýrari en mótvægisaðgerðir seinna meir þegar skaðinn er skeður.

Ég skora á bæjaryfirvöld að leggja til fjármagn til fræðslu um vatnsvernd og til að vakta vatnakerfin í bænum reglulega. Umhverfismálin eiga ekki að lenda alltaf í aftasta sæti.

Úrsúla Junemann
Höfundur starfar í umhverfisnefnd fyrir M- listann

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

VG er treystandi fyrir verkefnum framtíðarinnar

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Alþingiskosningar nálgast óðfluga og margir kjósendur gera nú upp hug sinn síðustu daga fyrir þær.
Það er persónulegt val hvers og eins að kjósa stjórnmálaflokk en líka mikilvæg ákvörðun sem skiptir máli fyrir okkur öll hin. Þegar við tökum ákvörðunina um hverjum við viljum gefa atkvæði okkar, þá skulum við því líka spyrja okkur um leið hvers konar samfélag við viljum byggja upp til framtíðar.

Eins og allir vita, kjósum við nú snemma í kjölfar hneyklismála ráðherra. Fjársterkir ráðamenn vildu forðast að borga sanngjarnan hlut til samfélagsins og reyndu að koma fjármunum sínum undan í aflandsfélög.
Þannig samfélag ójöfnuðar viljum við ekki. Við sýndum það í verki þegar við mótmæltum við Alþingishúsið 4. apríl síðastliðinn. Það voru ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar og gáfu mjög skýr skilaboð um að hér eigi ekki að búa tvær þjóðir í einu landi. Að fólk vill skila sínu til samfélagsins og að við eigum öll að gera það.

Við viljum ekki heldur fjársvelt heilbrigðiskerfi þar sem starfsfólk býr við tvöfalt álag samanborið við sjúkrahús í nágrannaríkjunum. Við viljum ekki að öryrkjar og aldraðir fái ekki mannsæmandi framfærslu eða að lægstu laun dugi ekki til. Við viljum ekki samfélag þar sem hinir ríku verða miklu ríkari á meðan hinir efnaminni og ungu hafa stöðugt minna á milli handanna. Þar sem ójöfnuður vex.

Við viljum réttlátara samfélag. Þar sem allir hafa jafnan rétt til lífsgæða óháð fjárhag, stétt eða stöðu. Að allir fái bestu heilbrigðisþjónustuna og geti stundað nám við hæfi. Samfélag með sanngjörnu og réttlátu skattkerfi. Þar sem strákar og stelpur hafa jöfn tækifæri, þar sem kynbundið ofbeldi á ekki að líðast eða að konur fái lægri laun en karlar. Við viljum mannúðlegt samfélag sem býður fjölskyldur og börn á flótta undan stríði velkomin. Samfélag sem ber hag náttúrunnar fyrir brjósti í hvívetna og þar sem stigin eru alvöru skref til að draga úr loftslagsbreytingum.
VG er treystandi fyrir þeim verkefnum.

Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri kæru kjósendur, segjum skilið við afturhaldssama og gamaldags hagsmunapólitík fortíðarinnar. Stígum saman skref til framtíðar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir er oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi.

Jón Steindór Valdimarsson

Öll erum við neytendur

Jón Steindór Valdimarsson

Jón Steindór Valdimarsson

Samkeppni, gott viðskiptasiðferði og frjáls markaður veita aðhald og stuðla að efnahagslegum framförum og hagsæld almennings. Þess vegna á að nýta markaðslausnir á öllum sviðum nema þar sem almannahagsmunir krefjast annars.
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru og þjónustu. Samtímis þarf að hafa skilvirkt samkeppniseftirlit og tryggja almenna neytendavernd.

Réttur neytenda
Settar hafa verið fram nokkrar grundvallareglur til þess að tryggja rétt neytenda. Þar má helst nefna að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum. Svo er það rétturinn til að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta mótað skynsamlegt val og ákvarðanir.
Sem betur fer eru þessi réttindi í flestum tilvikum virt. Því miður eru á þessu undantekningar, stórar og smáar, sem brýnt er að lagfæra.

Fyrst skal nefna búvörusamninga, tolla og innflutningshöft sem leiða til skerts vöruúrvals og hærra verðs til neytenda en ella væri. Að auki er vandséð að bændur hagnist á þessu fyrirkomulagi.

Þá eru það reglur sem koma í veg fyrir að t.d. tannlæknar geti auglýst sína þjónustu og þar með gjaldskrár. Þannig er komið í veg fyrir að neytendur geti kynnt sér mismunandi verð og þjónustu. Kraftar samkeppninnar fá ekki að virka. Það er vont fyrir neytendur og þá tannlækna sem veita ódýra þjónustu.

Loks skulu nefnd uppgreiðslugjöld fjármálastofnana. Skuldurum er gert mjög erfitt um vik að færa viðskipti sín til lánastofnana sem bjóða betri vexti og þjónustu. Kostnaðurinn við að færa viðskiptin getur verið það hár að hann standi í vegi fyrir raunverulegu vali neytandans. Meginröksemd lánastofnana fyrir uppgreiðslugjaldi er að þær verði að geta varist áföllum vegna hugsanlegrar uppgreiðslu á lánum fyrir gjalddaga. Það stangast á við rétt neytandans og hindrar samkeppni. Þetta verður að lagfæra.

Jón Steindór Valdimarsson
Skipar 2. sæti á lista Viðreisnar
í Suðvesturkjördæmi

Bryndís Haraldsdóttir

Við kjósum um framtíðina

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Kæru Mosfellingar, senn líður að kosningum til Alþingis og miklu máli skiptir að á Alþingi veljist flokkar og fólk sem tryggir áframhaldandi velgengni íslensku þjóðarinnar.
Nauðsynlegt að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika svo verðbólgan haldist lág. Það tryggir einnig lækkun stýrivaxta. Til framtíðar er mikilvægt að lánakjör hér séu í samræmi við það sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar.

Á þessu kjörtímabili hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs. Við höfum greitt upp mikið af skuldum, en staðan er sú að vaxtagreiðslur eru einn af stærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs. Þess vegna er nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð að greiða niður skuldir. Því þannig skapast svigrúm til að setja aukna fjármuni í þau góðu mál sem við erum öll sammála um; öflugt heilbrigðiskerfi, enn betra menntakerfi, örugga vegi og síðast en ekki síst málefni eldri borgara.

Á síðustu árum hef ég unnið fyrir þig, Mosfellingur góður, að því að gera okkar góða bæjarfélag enn betra og ég hyggst gera það áfram. En nú býð ég jafnframt fram krafta mína til þingsetu og er tilbúin að takast á við þau verkefni sem bíða nýs Alþingis.

Ég vil hvetja þig til að mæta á kjörstað 29. október næstkomandi og setja X við D

Bryndís Haraldsdóttir
Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi.