Raddir íbúa hafa áhrif

Rúnar Þór Guðbrandsson

Í baráttunni við lyktar- og sjónmengun frá starfsemi Sorpu hafa íbúar í Leirvogstungu náð miklum árangri með stöðugu aðhaldi. Það sýnir að raddir íbúa hafa áhrif og skipta máli.
Að sama skapi hafa kjörnir fulltrúar sýnt máttleysi gagnvart yfirgangi Reykjavíkur og hlutleysi annarra eigenda byggðasamlagsins. Eigendur SORPU eru öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Í rúman áratug hafa íbúasamtök Leirvogstungu átt hátt í hundrað fundi með fulltrúum Mosfellsbæjar og Sorpu um starfsemi þeirra í Álfsnesi. Árið 2013 var svo gert eigendasamkomulag. Í því fólst í stuttu máli eftirfarandi:
• Fullkominni gas- og jarðgerðarstöð með lokuðu ferli yrði komið upp í Álfsnesi með samþykki Mosfellsbæjar og íbúasamtaka Leirvogstungu og urðun hætt í Álfsnesi.
• Brennsla á lyktarsterkum úrgangi færi í Kölku á Suðurnesjum (Suðurnesjamenn og eigendur Sorpu hafa ekki náð samkomulagi um það vegna ósamstöðu).
• Urðun á óvirkum úrgangi (að mestu lyktarlaus) yrði á Suðurlandi (Sunnlendingar bökkuðu út úr þessu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Sorpa setti þvingunaraðgerðir á þá en síðan hafa þeir flutt sitt sorp utan með skipum).
Sveitarstjórnir vilja ýta þessu frá sér og enginn virðist vilja þetta í „sinn bakgarð“. Vandamálið liggur því þar og yfirgangur Reykjavíkur verið algjör og öðrum sveitarfélögum finnst bara fínt að Reykjavík sjái um þetta því þetta trufli enga nema Mosfellinga.
Staðan í dag er sú að Gas- og jarðgerðarstöðin er klár og hefur hafið starfsemi. Umdeilt er hversu vel hafi tekist til. Athugasemdum íbúa um lokað ferli (þrær yfirbyggðar) og staðsetningu var þó mætt.

Urðun átti að vera lokið en er á framlengdum fresti þar sem samstarfssveitarfélögin hafa ekki viljað axla ábyrgð og finna starfseminni staðsetningu. Framlengdur frestur rennur út í lok árs 2023. Allar líkur eru á því að hefja verði útflutning á sorpi að þeim tíma liðnum komist sveitarfélögin ekki að samkomulagi. Til að hægt sé að hefja urðun á óvirkum úrgangi er nauðsynlegt að byggja sorpbrennslustöð því núverandi geta Kolku í Suðurnesjabæ er takmörkuð og ekki hefur náðst samstaða um stækkun hennar.
Vinnuhópur sem skilaði skýrslu um áramót komst að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast væri að byggja sorpbrennslustöðina í Álfsnesi. Þetta munum við aldrei geta sætt okkur við. Aðgerðarleysi og samstöðuleysi samstarfs sveitarfélaganna í Sorpu er búið að setja urðunarmálin í algjört óefni.
Það skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir Mosfellinga að raddir íbúa heyrist áfram í þessu máli. Það hefur vissulega skilað okkur árangri. En það skiptir ekki síður máli að í nýrri bæjarstjórn verði fólk sem mun beita sér fyrir því að þetta stóra umhverfisslys verði ekki í bakgarðinum okkar.

Við í Framsókn erum einhuga í því að koma málefnum Sorpu í réttan farveg.
Munið X við B á kjördag.

Rúnar Þór Guðbrandsson, í stjórn íbúasamtaka Leirvogstungu og skipar 10. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ.