Opna skyndibitastaðinn Dúos

Skyndibitastaðurinn Dúos hefur opnað við hlið Krónunnar í Háholtinu. Tvíburasystkinin Alexía Gerður og Sigdór Sölvi Valgeirsbörn reka staðinn sem opnaði þann 12. janúar.
Systkinin eru alin upp á Kjalarnesi en búa nú í Mosó ásamt fjölskyldum sínum. Þau hafa mikla reynslu af lokum og hraðri afgreiðslu af Hlöllabátum þar sem þau hafa unnið í rúman áratug.
„Það hefur alltaf verið draumurinn að opna okkar eigin stað en hugmyndin var samt komin út af borðinu fyrir þónokkru síðan. Við ætluðum að breyta algjörlega um starfsvettvang. Svo einhvern veginn kom þetta bara upp á einum degi, skyndiákvörðun má segja,“ segir Alexía.

Lokurnar skírðar eftir Mosfellingum
„Þetta fer eiginlega betur af stað en við þorðum að vona og móttökurnar verið frábærar, alveg geggjaðar. Margir sem koma aftur og aftur.“
Á boðstólum eru lokur, hamborgarar, djúpsteiktar pylsur og franskar.
En hvaðan kemur nafnið Dúos?
„Við systkinin erum bara svo gott dúó að það lá beinast við.“
Hvaðan koma nöfnin á lokunum?
„Okkur langaði að hafa smá bæjarstemningu hérna hjá okkur þannig að við fengum lánuð nokkur gælunöfn með góðfúslegu leyfi. Nöfnin á lokunum eru því tengd við nokkra þekkta Mosfellinga. Það eru ekkert endilega allir sem fatta það, en pælingin er skemmtileg.“
Og hver er vinsælasta lokan?
„Það er hörð samkeppni á milli Bulkdórs og Bingó Bjössa þessa dagana. Fleiri nöfn eins og Pulla Jr., Slæ, Jollinn, King og Queen B skjóta þarna líka upp kollinum.“

Hægt að fá sent heim með Wolt
„Stærðin á húsnæðinu hér er fullkomin og staðsetningin góð. Næg bílastæði og líf í húsnæðinu öllu. Hér er hægt að grípa með sér mat eða gleypa í sig á staðnum. Við opnum kl. 10:00 á morgnana og lokum kl. 20:30 á kvöldin. Í hádeginu erum við með hádegistilboð sem hljóðar upp á loku og gos á 1.850 kr.“
Dúos hefur hafið samstarf við Wolt um heimsendingar þannig að nú er hægt að fá matinn sendan beint heim að dyrum.
„Við sjáum hvernig þetta gengur hjá okkur, svo er aldrei að vita nema við förum í frekari útrás í framtíðinni, það kemur bara í ljós. Það er nóg að gera í bili,“ segir Sigdór.

Ísey og Djúsí undirbúa opnun í Mosó

Páll, Jónína og Kristinn standa í stórræðum á N1 í Háholti.

Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á N1 í Háholti þar sem fyrirhugað er að opna Ísey skyrbar og Djúsí þar sem áður var Subway.
Staðirnir tveir eru í eigu N1 og bjóða báðir upp á holla og fljótlega rétti, Ísey með skyrskálar og þeytinga og Djúsí með safa, sjeika og samlokur.
„Við erum mjög spennt að opna, sérstaklega þar sem Mosfellingar hafa lengi kallað eftir þessum hollari valkostum og næringarríkum skyndibita. Við ætlum nú aldeilis að svara því kalli,” segir Jónína Kristinsdóttir rekstarstjóri Ísey og Djúsí.

Framkvæmdir eru á lokametrunum og er stefnt að því að opna síðar í mánuðinum og bjóða upp á góð opnunartilboð. „Það er mikil breyting á rýminu, miklu bjartara og nóg af sætum til að setjast niður með fjölskylduna,“ segir Páll Líndal rekstrarstjóri N1. Einnig er verið að fjölga valkostum á þjónustustöð N1, setja allt í lokaða kæla og bjóða upp á betra flæði.
Nú þegar eru Ísey og Djúsí á nokkrum stöðvum N1 og hefur reynst gífurlega vel og bætist nú Mosfellsbær í hópinn. „Þetta verður frábær viðbót við Mosó enda heilsueflandi samfélag og mikill íþróttabær,“ segir Jónína.

Takk fyrir okkur

Dóri DNA

Kæru Mosfellingar

Fyrir hönd sjónvarpsþáttaraðarinnar Aftureldingar langar mig að þakka kærlega fyrir okkur. Þið hafið væntanlega orðið vör við umstangið og vesenið, fólk í snjógöllum að reykja, fræga leikara að spígspora um Kjarnann að þykjast eiga heima þar, síðskeggjaða ljósamenn í stríði við skamm­degið; þetta eru allt saman við, fólkið sem er að gera Aftureldingu – sjónvarpsþátt sem gerist að öllu leyti í Mosfellsbæ og verður frumsýndur á RÚV um páskana.
Þátturinn er svokölluð dramedía um handboltafólk – saga af vígvelli kynjastríðsins, saga um börn, foreldra og harpix.

Það er ótrúlegt hvernig tekið hefur verið á móti okkur. Hvert sem við komum stendur fólk með útbreiddan arminn boðið og búið að aðstoða hvernig sem er.
Sérstaklega langar mig að þakka hersingunni í íþróttahúsinu, en þar hefur starfslið hússins og þáttanna einhvernveginn runnið saman í eitt. Ótrúlegt, ég segi með sanni að við gætum ekki gert þessa þætti án bæjarbúa hér í Mosfellsbæ.

Við lofum að láta ykkur í friði um jólinn, en birtumst svo öðru hvoru megin við þrettándann og klárum síðustu tvær vikurnar.

Verð líka að segja….djös andi í bænum núna.
Gleðileg jól!

Dóri DNA

Hvað geta einstaklingar og fyrirtæki gert til að bæta aðgengi?

Hlynur Þór Agnarsson

Við þurfum ekki öll að sigra heiminn. Margt smátt gerir eitt stórt og þannig ber okkur að hugsa þegar kemur að aðgengi.
Við skulum fyrst og fremst huga að okkar nærumhverfi og þeim verkefnum sem við sjálf vinnum að og standa okkur nærri. Hér koma nokkrar hugmyndir um hluti sem ég tel mikilvæga og ættu allir að geta fundið eitthvað sem þeir geta gert:
Stofnanir og fyrirtæki þurfa að innleiða aðgengi í alla sína vinnuferla og hafa aðgengi til hliðsjónar í öllum ákvörðunum sem teknar eru. Aðgengismál eiga að vera hluti af fyrirtækjamenningu. Hér koma nokkur dæmi um aðgengi innan stofnana og fyrirtækja:
• Aðgengi hjólastóla, rampar, skábrautir o.s.frv.
• Skýrar og góðar umhverfismerkingar.
• Gæta þess að handrið sé á öllum tröppum og þær merktar með afgerandi lit, þ.e. tröppunef.
• Engar hindranir á gangvegi. Leiðarlínur og áherslusvæði fyrir blinda og sjónskerta.
• Huga að hljóðvist. Er mikill kliður eða bergmál?
• Hafa þægilega og góða lýsingu.
• Aðgengi að salernum fyrir fatlaða.
• Góðar og skýrar merkingar á lyftuhnöppum. Talandi lyftur.
• Aðgengileg heimasíða.
• Ekki aðeins huga að aðgengi fyrir viðskiptavini. Starfsfólk nýtur einnig góðs af góðu aðgengi.
• Bjóða upp á að hafa samband í síma, spjallglugga og tölvupósti eða að koma á staðinn. Sami samskiptamátinn hentar ekki öllum.
• Huga þarf að aðgengi þegar kemur að lausnum á borð við sjálfsafgreiðslukassa, hraðbanka, innskráningarskjái o.fl.
• Huga að aðgengi utandyra sem og innandyra.
• Vera með augljósar og opnar samskiptaleiðir þar sem almenningur getur komið ábendingum til skila, t.d. varðandi aðgengismál.

Þegar verið er að byggja, breyta eða endurnýja húsnæði skal huga að aðgengismálum frá upphafi. Kröfur um aðgengi og algilda hönnun má m.a. finna í núgildandi byggingarreglugerð. Einnig þarf við hönnun, breytingu eða skipulagningu á svæði utandyra að huga að aðgengi og má þar nýta sér nýlegar leiðbeiningar um „Hönnun fyrir alla – algild hönnun utandyra“ sem nálgast má á vef Vegagerðarinnar. Við smíði á nýju vefsvæði eða smáforriti er brýnt að huga að aðgengismálum frá upphafi og í gegnum allt ferlið. Notast skal við WCAG aðgengisstaðalinn þegar kemur að stafrænu aðgengi, gera notendaprófanir o.s.frv.
Einstaklingar sem vilja láta gott af sér leiða og stuðla að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra geta t.d. sótt smáforritið Be My Eyes og skráð sig sem sjálfboðaliða. Almenningur getur einnig sent ábendingar á sveitarfélög í gegnum heimasíður þeirra, komi þeir auga á eitthvað sem betur má fara, t.d. bilaða ljósastaura, illa farna göngustíga, óaðgengilegar byggingar eða vefsíður o.s.frv.
Komum ábendingum áleiðis frekar en að bölva í hljóði.
Listinn hér að ofan er langt frá því tæmandi og það er fjölmargt sem við sem einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir getum gert, auk ríkis og sveitarfélaga.
Ef þú hefur einhverjar spurningar, vilt óska eftir ráðgjöf eða fá frekari upplýsingar, hvet ég þig til að hafa samband við okkur hjá Blindrafélaginu í síma 525 0000 eða senda tölvupóst á netfangið adgengi@blind.is.

Hlynur Þór Agnarsson, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins

Tökum höndum saman

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kannanir á líðan barna og unglinga á covid tímum sýna að full ástæða þykir að beina betur sjónum að unglingum okkar.
Nú takast fjölskyldur á við afleiðingar faraldurs og þeirra aðstæðna sem hafa skapast. Íþrótta – og tómstundastarf hefur fallið niður og miklar takmarkanir verið á félagsstarfi unglinga en við þær aðstæður er hætta á að við taki eirðarleysi og einmanaleiki. Ýmis­legt er til ráða og mikilvægast af öllu að taka höndum saman – það getum við Mosfellingar.

Niðurstöður kannana
Í febrúar ár hvert leggur Rannsókn og greining könnun fyrir nemendur í 8. – 10. bekk og hefur það verið gert sl. 10 ár. Í þessum könnunum er m.a. spurt um líðan, notkun tóbaks og vímuefna, vináttu, samskipti við þeirra nánustu og fleira. Ávallt er rýnt í niðurstöður og brugðist við.
Nýjustu niðurstöður hafa verið kynntar í nefndum bæjarins, í skólum og fyrir foreldrum en niðurstöður sýna að það fjölgar í hópi unglinga sem neyta áfengis og tóbaks.
Á síðustu mánuðum hefur starfsfólk sem starfar með unglingum orðið vart við að neysla sé að aukast í fleiri hópum. Nikótín í umbúðum sem líta út eins og saklausir tyggjópakkar, auðvelt aðgengi að vímuefnum og óþekktur félagsskapur eru merki sem foreldrar ættu að vera vakandi yfir.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Vert er að taka fram að langflestir unglingarnir hér í Mosfellsbæ eru sannarlega til fyrirmyndar en má ekki loka augunum fyrir því að fjölgað hefur í þeim hópi unglinga sem neyta áfengis og tóbaks. Við því þarf að bregðast.

Ýmislegt til ráða
Til að bregðast við þessum niðurstöðum hafa foreldrafélögin, grunnskólarnir, skólaþjónustan í Mosfellsbæ, félagsmiðstöðin Bólið og barnavernd tekið höndum saman og hafið nú þegar ýmsar almennar aðgerðir.
Má t.d. nefna að foreldrarölt er hafið að nýju, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga í félagsmiðstöðinni og að lögreglan í samstarfi við barnavernd hefur hitt nemendur elstu deildar í Varmárskóla og Lágafellsskóla.
Í Mosfellsbæ er mikið framboð af fjölbreyttu íþrótta– og tómstundastarfi og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Frístundastyrkir eru í boði fyrir börn og unglinga og er nú í boði sérstakur styrkur fyrir efnaminni heimili.
Gleymum þó ekki að öflugasta forvörnin fer fram við eldshúsborðið þar sem spjallið fer fram og traustið er eflt. Einnig er mikilvægt að foreldrar innan vinahópanna þekkist og tali saman, en það kemur til góðs ef upp kemur vandi.

Sturla Sær Fjeldsted

Bæjarfélagið og allir þeir sem með börnum okkar starfa leggja sig fram við að hjálpa unglingum sem aðstoðina þurfa. En á endanum er ábyrgðin alltaf foreldranna og mikilvægt að sjá þegar hættumerkin fara að blikka. Spyrjum spurninga, opnum augum og þorum að vera foreldrar. Þannig gætum við að velferð unglinganna.

Rafrænn íbúafundur með foreldrum í Mosfellsbæ
Að lokum viljum við benda á að fimmtudaginn 8. apríl mun Mosfellsbær standa fyrir rafrænum íbúafundi á fésbókarsíðu bæjarins þar sem boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra og hvatningu til foreldra undir yfirskriftinni „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Við hvetjum foreldra til að taka þátt í verkefninu og standa um leið að velferð barna sinna.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
Rúnar Bragi Guðlaugsson formaður fjölskyldunefndar
Sturla Sær Fjeldsted formaður íþrótta- og tómstundanefndar

Myndó flytur í Þverholtið

Ljósmyndarinn Ólína Kristín Margeirsdóttir er að flytja í Þverholtið með fyrirtækið sitt Myndó ljósmyndastofa. Ólína útskrifaðist sem ljósmyndari 2008 og hefur rekið Myndó síðan 2009 að heimili sínu í Hrafnshöfðanum þar sem hún innréttaði bílskúrinn sem stúdíó og vinnustofu.
„Stofan hefur gengið vel öll þessi ár í bílskúrnum en nú langaði mig að komast aðeins út af heimilinu og vera sýnilegri í bæjarfélaginu. Hér í Þverholtinu hef ég útbúið rúmgott, hlýlegt og þægilegt stúdíó,“ segir Ólína en samfara flutningunum hefur stofan opnað nýja og endurbætta heimasíðu, www.myndo.is.

Fjölbreytt þjónusta í boði
Ólína býður upp á fjölbreytta þjónustu, allar hefðbundnar barna- og fjölskyldumyndatökur auk auglýsinga- og vörumyndtaka. Einnig á og rekur Ólína vefina Instaprent.is, sem sérhæfir sig í að prenta instagram myndir á pappír, púða eða segla, og póster.is sem framleiðir límmiða á veggi og innrammaðar tilvitnanir og fleira.
„Ég tek að mér mjög fjölbreytt verkefni og mynda bæði hér í stúdíóinu og úti í náttúrunni. Ég afhendi allar myndir útprentaðar í albúmi og stafrænt en allar upplýsingar er að finna á heimasíðunni okkar.“

Passamyndir afhentar samstundis
„Ég sérhæfi mig í faglegum myndatökum á einstaklingum, hlutum, landslagi og fjölskyldum eða öðrum hópum. En langar að taka fram að ég býð upp á passamyndatöku þar sem myndirnar eru afhentar samstundis sem kemur sér oft vel fyrir fólk.
Einnig er ég mikið í því að taka starfsmannamyndir fyrir bæði stór og lítil fyrirtæki, þá annað hvort kemur fólk í stúdíóið til mín eða ég mæti á staðinn.“

Opnunartilboð alla helgina
„Stofan verður formlega opnuð föstudaginn 15. maí klukkan 17 til 19 og laugardaginn 16. maí milli klukkan 14 og 18. Það eru allir velkomnir og þeir sem bóka myndatöku á staðnum fá 15% afslátt.
Ég hlakka til að sjá sem flesta og vona að Mosfellingar eigi eftir að nýta sér þá þjónustu sem ég býð upp á en einnig má geta þess að ég er með úrval af myndarömmum til sölu og get einnig sérpantað fyrir fólk,“ segir Ólína að lokum.

Lengi býr að fyrstu gerð – ungbarnaleikskóli

Ragnheiður HalldórsdóttirÁ Íslandi verða flestir foreldrar að fara að vinna strax að loknu fæðingarorlofi og þurfa þá að fela öðrum umsjá litlu barnanna sinna. Dagforeldrar hafa í gegnum tíðina haft þetta hlutverk en þeim fer fækkandi og nú er krafan að sveitarfélög sjái börnum fyrir leikskólaplássi strax að loknu fæðingarorlofi.
Fyrir nokkru gáfu Samtök atvinnulífsins út skýrslu um menntamál þar sem skorað er á sveitarfélögin að tryggja börnum leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra. Reyndar er hvergi minnst á það í skýrslunni hvernig aðbúnaður barnanna eigi að vera né heldur hvernig eigi að manna þessa leikskóla en eins og alþjóð veit þá er viðvarandi skortur á leikskólakennurum. En um þann mikla vanda verður ekki fjallað hér.
Í Mosfellsbæ eru tveir ungbarnaleikskólar fyrir börn á aldrinum eins til þriggja ára. Þegar opnaðir eru ungbarnaleikskólar eða ungbarnadeildir er að mörgu að hyggja. Eins árs börn eru ekki eins og smækkuð útgáfa af eldri börnum. Ársgömul börn hafa í mörgu aðrar þarfir og þurfa töluvert annan útbúnað í kringum sig en eldri börn s.s húsgögn og kennslugögn bæði úti og inni. Það er ekki nóg að opna dyrnar og bjóða eins árs börnum pláss. Ég geld vara við því sjónarmiði sem fram kemur í skýrslu Samtaka atvinnulífsins að einungis þurfi að finna „úrræði“ fyrir börn að loknu fæðingarorlofi foreldra. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að bjóða upp á gæða leikskóla því hvað skyldi það kosta samfélagið, þegar til lengri tíma er litið, að barn skorti ást og umhyggju á fyrstu árum ævi sinnar? Gæði er vítt hugtak en felur í sér það sem er talið best fyrir börn og styður við nám og þroska þeirra.
Umönnun og umhyggja eru lykilhugtök í ungbarnaleikskóla. Umönnun er fólgin í því að leikskólakennari annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Þannig skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust milli barns og kennara. Slík tengsl eru barninu nauðsynleg, veita því öryggi til að láta í ljós tilfinningar sínar og gefur þeim möguleika á að kanna umhverfi sitt og standa á eigin fótum eins og þroski þeirra leyfir.
Barn myndar tilfinningasamband við þann sem annast það með augnatilliti, brosi og grát. Þegar barni er sinnt af ást og umhyggju byggir það upp taugabrautir öryggis. Þegar barn á traust tilfinningasamband við umönnunaraðila þá er það sú örugga höfn sem það getur leitað til þegar það er þreytt, pirrað, vonsvikið eða hrætt. Barnið kannar heiminn út frá þessari öruggu höfn.
Fyrstu ár ævinnar hafa stundum verið kölluð árin sem engin man sem er þó ekki allskostar rétt. Börn muna en þau hafa ekki vald á tungumálinu til að setja orð á upplifanir sínar. Fullorðinn einstaklingur getur verið hræddur við hunda vegna þess að hann upplifði ógnandi hund sem ungbarn þótt hann „muni“ ekki atburðinn. Upplifuninn situr í hinu svokallaða líkamsminni. Sú reynsla, góð eða slæm, sem barnið verður fyrir á fyrstu árum bernskunnar hefur áhrif og mótar viðbrögð þeirra við lífinu síðar meir.
Að framansögðu má sjá að vanda þarf til verka þegar opnaðir eru ungbarnaleikskólar og ábyrgð starfsfólks er mikil. Helsta áskorunin sem leikskólar standa frammi fyrir er að hafa á að skipa menntuðu og hæfu starfsfólki. Besta fólkið þarf að starfa með yngstu börnunum. Í flestum málsháttum og orðtökum býr viska svo gleymum því ekki að lengi býr að fyrstu gerð.

Ragnheiður Halldórsdóttir
Leikskólastjóri ungbarnaleikskólans Hlíðar

Þjálfun líkamans er nauðsyn

Paul Cota og Hlynur Chadwick Guðmundsson

Paul Cota og Hlynur Chadwick Guðmundsson

Aldrei hefur lífið verið jafn auðvelt fyrir þjóðina, hvað varðar líkamlega virkni.
Nú til dags getur þú eytt heilum degi án líkamlegs erfiðis. Margir eru sammála þessari setningu og við veltum því fyrir okkur hvort þetta sé eðlilegt fyrir líkama okkar eins og hann er skapaður til?

Er þetta rétt þróun? Hvað getum við gert?
Gamalt máltæki segir einhvað á þá leið, að ef þú notar það ekki eins og það er skapað til, stirðnar verkið, verður þyngra í virkni og skemmist fyrr en ella.

Líkami þinn er stórkoslegt musteri og er með háþróaðari tækjum í heiminum. Það sem við þekkjum til er hann fullkomlega hannaður til að vera sterkur og heilbrigður. Hann hefur ýmsar leiðir til að berjast við alls kyns sjúkdóma og pestir og hefur ótrúlega færni til bæta sig og laga, en bara aðeins ef við notum líkamann rétt og skynsamlega.

Þú þarft að nota hann, eins og hann var hannaður til á þúsund árum með þróun tímans og aðlögun að veðri og vindum, sérstaklega hér á Íslandi við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Fyrir u.þ.b. 100 árum eyddi fólk svo miklu meiri tíma í það eitt að halda sér á lífi. Bara það að verða sér úti um mat var mjög erfitt. Allt tók lengri tíma í almennu húshaldi því allt var frumstæðara, þrif, þvottar, matargerð. Frumstæð búmennska, veiðimennska til sjós og lands var ekki bara erfið heldur líka hættuleg. Fyrir börn að fara í skóla jafnvel þótt veður væri gott gat verið erfitt og hættulegt.
Getur þú borið saman lífið í dag saman við lífið eins og það var?

Við erum hér tveir frjálsíþróttaþjálfarar með samanlagt yfir 70 ára reynslu í ýmissi hreyfiþjálfun, sem finnst hlutirnir ekki vera að þróast í eðlilega átt nútildags. Okkur langar að bjóða upp á í sumar í sveitarfélögum hér á Reykjavíkursvæðinu upp á útiverutíma viku í senn í „hreyfi- og agaþjálfun“ án áhalda á stað þar sem kalla má „grænt útiverusvæði“ þíns sveitarfélags. Hugmynd er að vera tvo tíma hvern dag í sex daga (eitt námskeið) einhvers staðar út í náttúrunni að stunda líkamsþjálfun í hvaða veðri sem er.

Spurning sem við veltum fyrir okkur: Mundir þú vilja hreyfi- og agaþjálfun fyrir 14 ára og eldri í þitt sveitarfélag í sumar? …. og sem innanbúðarmaður máttu benda á hepilegan stað?

Viðbrögð um framkvæmd má senda á aga_kjarni@outlook.com eða Instagram KJARNAhreyfing.

Með kveðju,
Hlynur Chadwick Guðmundsson, kennari/þjálfari
Paul Cota, MA í Kinesiology/þjálfari

Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins.
Árlega berast um 15 þúsund mál inn á borð 1717 og eru þau af ýmsum toga.
Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara símtölum sem berast og sem dæmi um það sem fólk hefur samband vegna, bæði fyrir sig eða aðstandendur, má nefna:
• Einmanaleika, þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaða
• Átraskanir, geðraskanir, sorgir og áföll
• Fjármál, námsörðugleika, húsnæðisvandamál, atvinnuleysi
• Rifrildi og samskipti, ástarmál, fordóma
• Barnaverndarmál
• Kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi, einelti og stríðni
• Heilbrigðisvandamál, neyslu og fíkn
• Kynferðismál, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma
Þessi listi er á engan hátt tæmandi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.
Síminn og netspjallið er opinn allan sólarhringinn og er ókeypis að hringja í 1717 úr öllum símum, líka þegar inneignin á símanum er búin. Fullum trúnaði og nafnleynd er heitið.

Þegar neyðarástand skapast gegnir Hjálparsími Rauða krossins 1717 hlutverki sem upplýsingasími, s.s. í jarðskjálftum eða eldgosum eða þegar rýma þarf stór svæði. Þar eru m.a. veittar upplýsingar til aðstandenda sem spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina.

Hulda Margrét Rútsdóttir
verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

FemMos hlýtur jafnréttis­viðurkenningu Mosfellsbæajr

jafnréttis

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn þann 18. september í sal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var „Mosfellsbær – Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi“.
Fjallað var um ofbeldi og birtingarmyndir þess í víðu samhengi. Að umræðu dagsins komu aðilar sem unnið hafa með einum eða öðrum hætti að því að sporna gegn ofbeldi og að opna á umræðuna um málefnið.

Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi
Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði um birtingarmyndir ofbeldis og hvernig þær eru ávallt að þróast og breytast í samræmi við breytingar í samfélaginu. Þá lýsti hún reynslu brotaþola frá sjónarhóli þeirra sem hún hefur sinnt réttargæslu fyrir sem lögmaður.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fór yfir áherslur málaflokka sem tengjast ofbeldi sem lögreglan hefur unnið með frá árinu 2014. Þar vakti sérstaka athygli sú mikla aukning í fjölda mála þar sem tilkynnt er um ofbeldi til lögreglunnar á þessu tímabili.
Einnig voru flutt erindi þar sem starfsemi Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar var kynnt, en allir þessir staðir eru athvarf fyrir þá sem hafa upplifað ofbeldi og gegna þeir lykilatriði í að veita þolendum stuðning.

Unnið að því að jafna rétt kynjanna
Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2017 hlaut FemMos; Femínistafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. FemMos hefur unnið markvisst að því að jafna rétt kynjanna með því að sýna frumkvæði og kveikja umræðu tengda kynbundnu ofbeldi, kynjamismunun og að vekja máls og auka fræðslu í málaflokknum.
Félagið stóð fyrir fjölmörgum áhugaverðum viðburðum, meðal annars má nefna söfnun til styrktar Stígamótum undir yfirskriftinni „Ég er á móti kynferðisofbeldi“.
Haldin voru reglubundin kaffihúsakvöld þar sem kynjafræðikennsla, kynjakvóti, kynbundið ofbeldi og kynjamismunun voru rædd. Ennfremur stóð FemMos fyrir jafnréttisviku þar sem boðið var upp á ýmsa fræðslu og umræðuhópa um jafnrétti í víðum skilningi.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi FemMos í von um að fylgja eftir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.

Stofnleiðir

Una Hildardóttir

Una Hildardóttir

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verða sífellt vinsælli kostur og kjósa fleiri og fleiri að ferðast um á umhverfisvænni máta. Margir hafa sagt skilið við einkabílinn og hjóla frekar í vinnuna og hefur strætó aldrei verið jafn vinsæll og nú.
Við í VG fögnum því en þrátt fyrir þessa þróun er litlum sem engum peningum veitt í samgöngubætur í sveitarfélögunum í kring um Reykjavík. Mikilvægar stofnæðar þurfa viðhald og jafnvel þar sem áhersla hefur verið lögð á að bæta almenningssamgöngur hefur vegakerfið setið eftir.

Það vita það allir sem kjósa að taka Strætó til eða frá miðbæ Reykjavíkur á háannatíma að það gengur ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Jafnvel þótt Strætó bjóði upp á ferðir á 10 mínútna fresti þá er hann oft of seinn og á til að sitja fastur í morgun­umferðinni þrátt fyrir nýjar sérreinar ætlaðar strætisvögnum.
Með því að byggja upp áreiðanlegar og skilvirkar almenningssamgöngur gerum við þær að ákjósanlegri kosti en einkabílinn á ákveðnum svæðum. Slíkt væri jafnframt stórt skref í átt að uppfylla markmið okkar sem samfélags um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Við eigum að horfa til framtíðar. Í nýlegu útboði Strætó bs. á nýjum strætisvögnum kom í ljós að hagkvæmasti kosturinn væri að kaupa rafmagnsvagna. Sá kostur er bæði ódýrari en hefðbundnir díselvagnar og umhverfisvænni.
Síðustu ár hefur verið forgangsröðunin verið sú að efla almenningssamgöngur, en það þýðir ekki að vegakerfið eigi að sitja eftir. Það er mikilvægt að tryggja uppbyggingu og viðhald á mikilvægum stofnæðum og þarf að endurskoða samkomulag um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til stóraukins ferðamannafjölda.

Við í VG viljum marka sérstaklega tekjustofna sem renna óspart til samgöngumála. Nú þegar er mikið álag á vegum til og frá Keflavík vegna aukins straums ferðamanna er mikilvægt að huga vel að stofnæðum eins og Reykjanesbrautinni.
Við verðum að stunda markvissa uppbyggingu í vegamálum, leggja áherslu á bætt viðhald vega og koma sérstaklega til móts við aukinn umferðarþunga. Aðeins þannig getum við tryggt öryggi íbúa og ferðamanna.

Una Hildardóttir, viðskiptafræðinemi,
skipar 3. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.