Tökum höndum saman

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kannanir á líðan barna og unglinga á covid tímum sýna að full ástæða þykir að beina betur sjónum að unglingum okkar.
Nú takast fjölskyldur á við afleiðingar faraldurs og þeirra aðstæðna sem hafa skapast. Íþrótta – og tómstundastarf hefur fallið niður og miklar takmarkanir verið á félagsstarfi unglinga en við þær aðstæður er hætta á að við taki eirðarleysi og einmanaleiki. Ýmis­legt er til ráða og mikilvægast af öllu að taka höndum saman – það getum við Mosfellingar.

Niðurstöður kannana
Í febrúar ár hvert leggur Rannsókn og greining könnun fyrir nemendur í 8. – 10. bekk og hefur það verið gert sl. 10 ár. Í þessum könnunum er m.a. spurt um líðan, notkun tóbaks og vímuefna, vináttu, samskipti við þeirra nánustu og fleira. Ávallt er rýnt í niðurstöður og brugðist við.
Nýjustu niðurstöður hafa verið kynntar í nefndum bæjarins, í skólum og fyrir foreldrum en niðurstöður sýna að það fjölgar í hópi unglinga sem neyta áfengis og tóbaks.
Á síðustu mánuðum hefur starfsfólk sem starfar með unglingum orðið vart við að neysla sé að aukast í fleiri hópum. Nikótín í umbúðum sem líta út eins og saklausir tyggjópakkar, auðvelt aðgengi að vímuefnum og óþekktur félagsskapur eru merki sem foreldrar ættu að vera vakandi yfir.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Vert er að taka fram að langflestir unglingarnir hér í Mosfellsbæ eru sannarlega til fyrirmyndar en má ekki loka augunum fyrir því að fjölgað hefur í þeim hópi unglinga sem neyta áfengis og tóbaks. Við því þarf að bregðast.

Ýmislegt til ráða
Til að bregðast við þessum niðurstöðum hafa foreldrafélögin, grunnskólarnir, skólaþjónustan í Mosfellsbæ, félagsmiðstöðin Bólið og barnavernd tekið höndum saman og hafið nú þegar ýmsar almennar aðgerðir.
Má t.d. nefna að foreldrarölt er hafið að nýju, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga í félagsmiðstöðinni og að lögreglan í samstarfi við barnavernd hefur hitt nemendur elstu deildar í Varmárskóla og Lágafellsskóla.
Í Mosfellsbæ er mikið framboð af fjölbreyttu íþrótta– og tómstundastarfi og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Frístundastyrkir eru í boði fyrir börn og unglinga og er nú í boði sérstakur styrkur fyrir efnaminni heimili.
Gleymum þó ekki að öflugasta forvörnin fer fram við eldshúsborðið þar sem spjallið fer fram og traustið er eflt. Einnig er mikilvægt að foreldrar innan vinahópanna þekkist og tali saman, en það kemur til góðs ef upp kemur vandi.

Sturla Sær Fjeldsted

Bæjarfélagið og allir þeir sem með börnum okkar starfa leggja sig fram við að hjálpa unglingum sem aðstoðina þurfa. En á endanum er ábyrgðin alltaf foreldranna og mikilvægt að sjá þegar hættumerkin fara að blikka. Spyrjum spurninga, opnum augum og þorum að vera foreldrar. Þannig gætum við að velferð unglinganna.

Rafrænn íbúafundur með foreldrum í Mosfellsbæ
Að lokum viljum við benda á að fimmtudaginn 8. apríl mun Mosfellsbær standa fyrir rafrænum íbúafundi á fésbókarsíðu bæjarins þar sem boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra og hvatningu til foreldra undir yfirskriftinni „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Við hvetjum foreldra til að taka þátt í verkefninu og standa um leið að velferð barna sinna.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
Rúnar Bragi Guðlaugsson formaður fjölskyldunefndar
Sturla Sær Fjeldsted formaður íþrótta- og tómstundanefndar