Stofnleiðir

Una Hildardóttir

Una Hildardóttir

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verða sífellt vinsælli kostur og kjósa fleiri og fleiri að ferðast um á umhverfisvænni máta. Margir hafa sagt skilið við einkabílinn og hjóla frekar í vinnuna og hefur strætó aldrei verið jafn vinsæll og nú.
Við í VG fögnum því en þrátt fyrir þessa þróun er litlum sem engum peningum veitt í samgöngubætur í sveitarfélögunum í kring um Reykjavík. Mikilvægar stofnæðar þurfa viðhald og jafnvel þar sem áhersla hefur verið lögð á að bæta almenningssamgöngur hefur vegakerfið setið eftir.

Það vita það allir sem kjósa að taka Strætó til eða frá miðbæ Reykjavíkur á háannatíma að það gengur ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Jafnvel þótt Strætó bjóði upp á ferðir á 10 mínútna fresti þá er hann oft of seinn og á til að sitja fastur í morgun­umferðinni þrátt fyrir nýjar sérreinar ætlaðar strætisvögnum.
Með því að byggja upp áreiðanlegar og skilvirkar almenningssamgöngur gerum við þær að ákjósanlegri kosti en einkabílinn á ákveðnum svæðum. Slíkt væri jafnframt stórt skref í átt að uppfylla markmið okkar sem samfélags um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Við eigum að horfa til framtíðar. Í nýlegu útboði Strætó bs. á nýjum strætisvögnum kom í ljós að hagkvæmasti kosturinn væri að kaupa rafmagnsvagna. Sá kostur er bæði ódýrari en hefðbundnir díselvagnar og umhverfisvænni.
Síðustu ár hefur verið forgangsröðunin verið sú að efla almenningssamgöngur, en það þýðir ekki að vegakerfið eigi að sitja eftir. Það er mikilvægt að tryggja uppbyggingu og viðhald á mikilvægum stofnæðum og þarf að endurskoða samkomulag um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til stóraukins ferðamannafjölda.

Við í VG viljum marka sérstaklega tekjustofna sem renna óspart til samgöngumála. Nú þegar er mikið álag á vegum til og frá Keflavík vegna aukins straums ferðamanna er mikilvægt að huga vel að stofnæðum eins og Reykjanesbrautinni.
Við verðum að stunda markvissa uppbyggingu í vegamálum, leggja áherslu á bætt viðhald vega og koma sérstaklega til móts við aukinn umferðarþunga. Aðeins þannig getum við tryggt öryggi íbúa og ferðamanna.

Una Hildardóttir, viðskiptafræðinemi,
skipar 3. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.