Lengi býr að fyrstu gerð – ungbarnaleikskóli

Ragnheiður HalldórsdóttirÁ Íslandi verða flestir foreldrar að fara að vinna strax að loknu fæðingarorlofi og þurfa þá að fela öðrum umsjá litlu barnanna sinna. Dagforeldrar hafa í gegnum tíðina haft þetta hlutverk en þeim fer fækkandi og nú er krafan að sveitarfélög sjái börnum fyrir leikskólaplássi strax að loknu fæðingarorlofi.
Fyrir nokkru gáfu Samtök atvinnulífsins út skýrslu um menntamál þar sem skorað er á sveitarfélögin að tryggja börnum leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra. Reyndar er hvergi minnst á það í skýrslunni hvernig aðbúnaður barnanna eigi að vera né heldur hvernig eigi að manna þessa leikskóla en eins og alþjóð veit þá er viðvarandi skortur á leikskólakennurum. En um þann mikla vanda verður ekki fjallað hér.
Í Mosfellsbæ eru tveir ungbarnaleikskólar fyrir börn á aldrinum eins til þriggja ára. Þegar opnaðir eru ungbarnaleikskólar eða ungbarnadeildir er að mörgu að hyggja. Eins árs börn eru ekki eins og smækkuð útgáfa af eldri börnum. Ársgömul börn hafa í mörgu aðrar þarfir og þurfa töluvert annan útbúnað í kringum sig en eldri börn s.s húsgögn og kennslugögn bæði úti og inni. Það er ekki nóg að opna dyrnar og bjóða eins árs börnum pláss. Ég geld vara við því sjónarmiði sem fram kemur í skýrslu Samtaka atvinnulífsins að einungis þurfi að finna „úrræði“ fyrir börn að loknu fæðingarorlofi foreldra. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að bjóða upp á gæða leikskóla því hvað skyldi það kosta samfélagið, þegar til lengri tíma er litið, að barn skorti ást og umhyggju á fyrstu árum ævi sinnar? Gæði er vítt hugtak en felur í sér það sem er talið best fyrir börn og styður við nám og þroska þeirra.
Umönnun og umhyggja eru lykilhugtök í ungbarnaleikskóla. Umönnun er fólgin í því að leikskólakennari annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Þannig skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust milli barns og kennara. Slík tengsl eru barninu nauðsynleg, veita því öryggi til að láta í ljós tilfinningar sínar og gefur þeim möguleika á að kanna umhverfi sitt og standa á eigin fótum eins og þroski þeirra leyfir.
Barn myndar tilfinningasamband við þann sem annast það með augnatilliti, brosi og grát. Þegar barni er sinnt af ást og umhyggju byggir það upp taugabrautir öryggis. Þegar barn á traust tilfinningasamband við umönnunaraðila þá er það sú örugga höfn sem það getur leitað til þegar það er þreytt, pirrað, vonsvikið eða hrætt. Barnið kannar heiminn út frá þessari öruggu höfn.
Fyrstu ár ævinnar hafa stundum verið kölluð árin sem engin man sem er þó ekki allskostar rétt. Börn muna en þau hafa ekki vald á tungumálinu til að setja orð á upplifanir sínar. Fullorðinn einstaklingur getur verið hræddur við hunda vegna þess að hann upplifði ógnandi hund sem ungbarn þótt hann „muni“ ekki atburðinn. Upplifuninn situr í hinu svokallaða líkamsminni. Sú reynsla, góð eða slæm, sem barnið verður fyrir á fyrstu árum bernskunnar hefur áhrif og mótar viðbrögð þeirra við lífinu síðar meir.
Að framansögðu má sjá að vanda þarf til verka þegar opnaðir eru ungbarnaleikskólar og ábyrgð starfsfólks er mikil. Helsta áskorunin sem leikskólar standa frammi fyrir er að hafa á að skipa menntuðu og hæfu starfsfólki. Besta fólkið þarf að starfa með yngstu börnunum. Í flestum málsháttum og orðtökum býr viska svo gleymum því ekki að lengi býr að fyrstu gerð.

Ragnheiður Halldórsdóttir
Leikskólastjóri ungbarnaleikskólans Hlíðar