Ísey og Djúsí undirbúa opnun í Mosó

Páll, Jónína og Kristinn standa í stórræðum á N1 í Háholti.

Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á N1 í Háholti þar sem fyrirhugað er að opna Ísey skyrbar og Djúsí þar sem áður var Subway.
Staðirnir tveir eru í eigu N1 og bjóða báðir upp á holla og fljótlega rétti, Ísey með skyrskálar og þeytinga og Djúsí með safa, sjeika og samlokur.
„Við erum mjög spennt að opna, sérstaklega þar sem Mosfellingar hafa lengi kallað eftir þessum hollari valkostum og næringarríkum skyndibita. Við ætlum nú aldeilis að svara því kalli,” segir Jónína Kristinsdóttir rekstarstjóri Ísey og Djúsí.

Framkvæmdir eru á lokametrunum og er stefnt að því að opna síðar í mánuðinum og bjóða upp á góð opnunartilboð. „Það er mikil breyting á rýminu, miklu bjartara og nóg af sætum til að setjast niður með fjölskylduna,“ segir Páll Líndal rekstrarstjóri N1. Einnig er verið að fjölga valkostum á þjónustustöð N1, setja allt í lokaða kæla og bjóða upp á betra flæði.
Nú þegar eru Ísey og Djúsí á nokkrum stöðvum N1 og hefur reynst gífurlega vel og bætist nú Mosfellsbær í hópinn. „Þetta verður frábær viðbót við Mosó enda heilsueflandi samfélag og mikill íþróttabær,“ segir Jónína.