Það þarf heilan bæ til að búa til fótboltabörn

Guðbjörg Fanndal

Guðbjörg Fanndal

Af barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar Aftureldingar

Íslenska fótboltaævintýrið er í algleymingi og nær hámarki þegar flautað verður til leiks á EM í Frakklandi næsta sumar. Á sama tíma geta Mosfellingar glaðst yfir farsælu barna- og unglingastarfi Knattspyrnudeildar þar sem iðkendum hefur fjölgað um þriðjung og hlutfall stúlkna aukist.
Mikið hefur verið fjallað um árangur íslenska landsliðsins og á hverju hann byggi. Nefnt hefur verið að undirstaðan liggi í góðu barna- og unglingastarfi. Bætt aðstaða með tilkomu gervigrasvalla og knattspyrnuhalla er einnig talin hafa skipt sköpum. Framlag þjálfara, foreldra og velunnara sem hafa lagt á sig mikið og óeigingjarnt starf er ómetanlegt. Þjálfarar hafa lagt metnað sinn í að sækja menntun og eru meðvitaðir um mikilvægi sitt sem leiðbeinendur og fyrirmyndir. Þátttaka foreldra hefur aukist jafnt og þétt og sjálfboðaliðar sjá um að móta umgjörð sem allt starfið byggir á. Allt eru þetta mikilvægir þættir og án þeirra rúllaði boltinn tæplega.

Við höfum átt því láni að fagna að búa yfir góðum þjálfarahópi. Lögð hefur verið áhersla á að gefa ungum þjálfurum tækifæri og hafa þeir þroskast og eflst með hverju viðfangsefni. Foreldrar hafa stutt vel við starfið eins og Liverpoolskólinn og Intersportmótið sanna. Hvorutveggja eru stórir viðburðir sem vekja athygli og laða að æ fleiri gesti. Því ber að fagna en nú er svo komið að umfang þeirra er orðið slíkt að nauðsynlegt er að staldra við og huga að framtíð þeirra.
Það er staðreynd að vinnan við þessa stóru viðburði sem og öll umsjón með barna- og unglingastarfinu hefur hvílt á of fáum herðum. Sömu aðilarnir draga vagninn of

Sigurður Rúnar Magnússon

Sigurður Rúnar Magnússon

lengi og þreytast. Slíkt endar með að þeir stíga til hliðar og nýir aðilar taka við stjórninni. Þannig er hætt við að reynsla og þekking tapist og mikil vinna felst í því að geta ekki fylgt í fótspor forvera sinna.
Við undirrituð höfum setið saman í stjórn barna- og unglingaráðs frá því í mars 2013 og erum stolt af framlagi okkar til starfsins en meðvituð um að margt er ógert og annað má betur fara. Mikilvægt er í starfi sem þessu að fá sem flesta að verki til að dreifa álagi og byggja upp þekkingu og reynslu. Það er einlæg ósk okkar að fleiri taki virkan þátt í starfinu til að þekking og reynsla glatist síður og vinna við frekari uppbyggingu dreifist á fleiri hendur.
Aðstaða til knattspyrnuiðkunar í Mosfellsbæ gæti verið betri. Aðeins allra yngstu iðkendur fá innitíma á veturna en aðrir verða að æfa úti óháð veðri. Úthlutun á innitímum er mikil vonbrigði þar sem stærsta deild félagsins fær ekki úthlutað tímum í samræmi við umfang og eðli starfsins. Það hefur komið niður á starfinu hjá yngri flokkunum og miðstigi hjá stúlkum.
Núverandi aðstaða er of lítil og viðhald er í lágmarki. Iðkendur eru orðnir rúmlega 400 og gera má ráð fyrir að þeim fjölgi um a.m.k. 100 á næstu tveimur árum. Núverandi aðstaða á Varmá rúmar ekki þann fjölda og stækkun er óhjákvæmileg. Gervigrasvellirnir eru börn síns tíma og brýnt að fá þá endurnýjaða. Nýtanlegur hluti Tungubakka minnkar á hverju ári vegna viðhaldsleysis og þeim fækkar sem vilja nota grasið í núverandi ásigkomulagi. Þannig er mikilvægt að huga að uppbyggingu og endurnýjun æfingasvæða deildarinnar ásamt endurbótum í vallarhúsum.

Knattspyrnudeildin er stærsta deild Aftureldingar með um þriðjung af barna- og unglingastarfi félagsins. Okkur þykir framlag félagsins til starfsins ekki nægilegt. Yfirumsjón, samhæfing og stuðningur mætti vera meiri. Öll vinna við skráningar og innheimtu æfingagjalda hvílir á deildum og sjálfboðaliðum þeirra en ekki á skrifstofu félagsins. Engin íþróttafulltrúi er starfandi hjá félaginu sem hefur í för með sér að verkefni sem þeir sinna alla jafna lenda hjá deildunum

Við höfum hér rakið helstu atriði er lúta að barna- og unglingastarfi Knattspyrnudeildar. Margt hefur áunnist og er það vel en viðfangsefnin eru mörg og aðkallandi. Það er okkar sannfæring að við getum leyst þau í sameiningu enda þarf heilan bæ til að búa til fótboltabörn. Takist okkur það er framtíð knattspyrnunnar í Mosfellsbæ björt.

Guðbjörg Fanndal Torfadóttir er móðir tveggja barna sem stunda íþróttir hjá Aftureldingu. Hún hefur setið í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar frá 2012 og verið formaður ráðsins frá 2013.
Sigurður Rúnar Magnússon er faðir tveggja barna sem stunda íþróttir hjá Aftureldingu. Hann hefur setið í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar sem gjaldkeri frá 2013. Hann er einnig gjaldkeri karatedeildar frá 2014.

Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015

Gervigrasvöllurinn að Varmá veturinn 2015 – 2016

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson

Nú þegar vetraræfingar á gervigrasvellinum eru farnar af stað á fullum krafti er rétt að benda á nokkur atriði sem koma til umræðu á hverjum vetri. Völlurinn er keyrður með hámarks kyndingu yfir vetrartímann eða með eins háu hitastigi og völlurinn þolir, hitakerfið undir vellinum ræður með því móti við að hita völlinn og bræða snjó að ákveðnu marki. Við viss skilyrði er mögulegt að skafa snjó af vellinum sem hitalagnirnar ráða ekki við og er það gert um leið og aðstæður og veður leyfir. Komi sú staða upp, stefnum við að ljúka því áður en æfingar hefjast um miðjan daginn. Þessar aðstæður skapast stundum þegar snjóar mjög mikið og hitastig er rétt ofan við frostmark.
Völlurinn er ekki mokaður þegar skafrenningur er og holklaki myndast í miklu frosti. Þá er besta leiðin að æfa á vellinum og troða þannig niður frosnu skánina/klakann, þá molnar/brotnar hann niður og hitalagnir vallarins bræða hann.
Ekki verður hjá því komist að æfingar og leikir munu falla niður einhverja daga í vetur vegna veðurs, jafnt hér eins og á öðrum gervigrasvöllum. Munum við reyna okkar besta til að halda vellinum opnum eins og aðstæður leyfa.

Síðasta vetur kom á daginn að völlurinn að Varmá var mun oftar æfinga- og leikfær en vellirnir sem næstir okkur eru í Grafarvogi og Grafarholti.

Hanna Símonardóttir

Hanna Símonardóttir

Fundað hefur verið með yfirþjálfara knattspyrnudeildar til að undirbúa þjálfara undir að hafa hjá sér plan B ef æfingar falla niður á vellinum í vetur, vegna snjóa eða veðurs, svo hægt sé að taka á móti iðkendum á æfingatímum og finna þeim verkefni. Við vonum að sjálfsögðu að þeir dagar verði færri en nokkru sinni fyrr.

Með fótboltakveðju,
Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi.
Hanna Símonardóttir, vallarstjóri.

Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015

Dagur minninga og þakklætis

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sorgin er hluti af lífinu. Hún er fylgikona ástarinnar því allir sem hafa elskað eiga það á hættu að missa og syrgja. Sorgin getur verið sársaukafull og erfið en við eigum þó aldrei að bæla hana niður eða afneita henni, ekki frekar en við viljum skiljast við minningarnar um þau sem við höfum elskað eða bæla ástina okkar niður.
Það er misjafnt hvernig syrgjendur vinna úr missi eftir andlát ástvinar. Sumir heimsækja gröf hins látna reglulega, aðrir sjaldan eða aldrei. Sumum líður best með að hlutir hins látna séu óhreyfðir í langan tíma, aðrir vilja taka til og fjarlægja þá sem fyrst. Margir tjá sig á Facebook. Sumir tala um hinn látna eða skrifa béf til viðkomandi. Öðrum finnst minningarnar dofna fljótt. Suma dreymir lifandi drauma oft, jafnvel á hverri nóttu, um þann sem þau hafa misst. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.
Þegar við syrgjum erum við að ná tökum á því sem hefur breyst í lífi okkar. Á sama tíma leitum við nýrra leiða til lifa áfram með því tómarúmi sem verður til við missinn. Til að lifa með sorg, söknuði, tómleika og ótta. Til að lifa án hennar eða hans sem hefur kvatt, til lifa án framtíðarinnar sem við töldum örugga. Þetta tekur tíma og rými í lífinu okkar, rétt eins og ástin og minningarnar.
Í árinu eru nokkrir dagar sem eru teknir frá fyrir minningarnar og þakklætið. Einn þeirra er Allra heilagra messa sem við höldum upp á 1. nóvember. Í kirkjum landsins er boðið til fjölbreyttra bænastunda þar sem við minnumst látinna. Kirkjugarðarnir eru líka opnir. Þangað er hægt að fara, eiga sína stund, kveikja á kerti, minnast og þakka. Þú ert velkomin í garð og til kirkju, Guð blessi þig, blessi minningarnar þínar og ástina og helgi sorg þína.

Sr. Árni Svanur Daníelsson

Sr. Árni Svanur Daníelsson

Ragnheiður Jónsdóttir og Árni Svanur Daníelsson.
Sóknarprestar í Mosfellsprestakalli og Reynivallaprestakalli.

Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015

Náttúran og umhverfið í öndvegi

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Um miðjan septembermánuð verður náttúrunni og umhverfinu gefinn sérstakur gaumur hér í Mosfellsbæ og viðamikil dagskrá helguð þessum mikilvægu málaflokkum.
Að hluta til er um að ræða fjölþjóðlegt átak um mikilvægi þess að vernda umhverfið og náttúruna en einnig er um séríslenskt framtak Lesa meira

Kæru Mosfellingar

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Mig langar að þakka fyrir samstarfið á bæjarhátíðinni okkar, Í túninu heima, sem fram fór helgina 28.-30. ágúst. Hátíðin var einstaklega vel heppnuð og bænum okkar til mikils sóma.
Svona verkefni verður ekki unnið nema með því að allir hjálpist að. Það skiptir miklu máli að fá að borðinu fyrirtæki og félagasamtök og auðvitað íbúana sjálfa sem hafa svo sannarlega gert Í túninu heima að ómissandi skemmtun í sumarlok.
Hátíðin virðist fara stækkandi með árunum og sífellt fleiri gestir sækja Mosfellsbæ heim. Dagskráin endurspeglaði mannlífið í bænum sem er í senn fjölbreytt og skemmtilegt. Hún minnir okkur á hvað við erum rík af umhverfinu, náttúrunni og mannauðnum.

Heilsa og umhverfi
Eins og flestir vita er Mosfellsbær Heilsueflandi samfélag og hefur tekið forystu í að innleiða verkefnið ásamt Heilsuvin ehf. og Embætti landlæknis. Heilsuefling er víðtækt hugtak og tengist heilsu og líðan fólks og aðgengi þess að heilsusamlegum valmöguleikum. Við höfum tengt heilsu við næringu og hreyfingu og erum nú á öðru ári í innleiðingu verkefnisins.

Til að minna á þessar áherslur í daglega lífinu ætlar Mosfellsbær og Heilsuvin ehf. að gefa fjölnota innkaupapoka inn á hvert heimili í Mosfellsbæ. Markmið með dreifingu pokanna er meðal annars að stuðla að minni notkun plasts í umhverfinu og að hafa þannig jákvæð áhrif á náttúruna og heilsu manna og dýra.
Ég vona að þetta framtak falli í jákvæðan jarðveg og efli okkur enn frekar til samstöðu og uppbyggingar í samfélaginu.

Iðkendur frjálsíþróttadeildar Aftureldingar munu dreifa pokunum dagana 18.-20. septem­ber næstkomandi.

Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri Mosfellsbæjar

Greinin birtist í Mosfellingi 10. september 2015

Hver er þín uppáhaldshreyfing?

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Við í Mosfellsbæ tökum nú þátt í Hreyfivikunni „Move Week“ í annað sinn 21. – 27. september nk. Hreyfivikan er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu á sama tíma.
Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020 og eru allir hvattir til að finna sína uppáhaldshreyfingu. UMFÍ heldur utan um verkefnið á Íslandi.

Kynningar, göngur og söngur
Það verður mikið um að vera í Mosfellsbæ þessa viku og má þar m.a. nefna kynningu á starfsemi Aftureldingar og Hestamannafélagsins Harðar. Þá mun Ferðafélag Íslands standa fyrir gönguviku þar sem gengið verður á fellin okkar og um leið hægt að safna stimplum og vinna til verðlauna. Þá mun verða boðið upp á fjölskyldu- og hreyfimessu með Hafdísi Huld í Mosfellskirkju þar sem farið verður í leiki að messu lokinni. Jafnframt munu börnin í sunnudagaskólanum í Lágafellskirkju setja niður haustlauka.

Opnir tímar og opin hús
Fyrir áhugasama þá er um að gera að kynna sér og nýta alla þá opnu tíma sem verða í boði þessa vikuna. Þá er öllum boðið að mæta sér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga. Vala og Gaui verða með opna ketilbjöllutíma, opið verður í tækjasal og alla tíma í World Class laugardaginn 26. september og svo mun Félag eldri borgara bjóða upp á opna tíma í vatnsleikfimi, ringó og fleiru skemmtilegu.
Líkamsræktarstöðin Elding verður með opið hús alla vikuna og býður jafnframt eldri borgurum í Thai Chi. Hestamannafélagið Hörður mun einnig opna sínar dyr og bjóða gestum og gangandi að koma við í Reiðhöllinni og hesthúsunum og þiggja þar kaffisopa og meðlæti.
Síðan er upplagt fyrir fjölskyldufólkið að kíkja í opna fjölskyldutíma sem Mosfellsbær stendur fyrir að Varmá í hádeginu á laugardögum í vetur.

Tökum þátt
Þetta er einungis brot af því sem um verður að vera í þessari skemmtilegu viku og sem fyrr hvetjum við ykkur eindregið til að taka þátt í þessu frábæra verkefni. Frekari upplýsingar verður að finna á www.umfi.is þar sem hægt er að smella á Hreyfivikuna, Ísland og Mosfellsbæ.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur hjá Heilsuvin og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ.

Greinin birtist í Mosfellingi 10. september 2015

Samgönguvika í Mosfellsbæ 16.-22. september

Tómas G. Gíslason. Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Tómas G. Gíslason.
Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Dagana 16.-22. september mun Mosfellsbær taka þátt í Evrópsku samgönguvikunni, European Mobility Week í tíunda sinn.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Lesa meira