Sjálfstæðisflokkurinn og fólkið í landinu

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir kjörorðinu stétt með stétt. Við þurfum nú að skerpa þessar línur á ný og tryggja bakland flokksins.
Baklandið er bjartsýnt en með bakþanka og vil ég taka upp kjörorðin kynslóð með kynslóð samhliða því að leggja áherslu á að tryggja beri velferð í þessu landi. Velferðin skal mótast af hógværð í skattheimtu, sókn í atvinnulífinu, virðingu fyrir lögum og styrkum grunnstoðum til handa ungu fólki sem og öldruðum.

Sem frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sækist ég eftir að þú, lesandi góður, styðjir mig í 3. – 4. sæti. Ég er sprottin úr jarðvegi verkalýðshreyfingar. Að vera alinn upp innan um menn eins og Pétur Sigurðsson er byggði upp Hrafnistu, Guðmund J. Guðmundsson (Guðmund Jaka) og aðra sem bentu mér á gæskuna óháð stjórnmálum og argaþrasi dagslegs lífs. Vil ég byggja brýr vinskapar við pólitíska félaga sem og andstæðinga til að tryggja velferð á Íslandi, umhyggju og sterkt efnahaglíf. Foreldrar mínir eru mín fyrirmynd hvað þetta varðar. Má benda á baráttu föður míns sem Sjálfstæðismanns, fyrrum varaþingmanns og formanns Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þessi kynslóð er sú sem byggði upp sjóði okkar hinna yngri, lánasjóði fyrir námsmenn, lánasjóði til íbúðarkaupa og umgjörð alla svo að þjóðin næði langt.

Tilfinning mín er sú að þegar við höfum nú gert vel hvað kaupmátt almennings varðar sé það ætlunarverk þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem sest næst á þing, að leiðrétta kjör eldri kynslóðann. Það verður að stagbæta öryggisnet þessa hóps sem byggði upp þetta land. Einnig ber að gæta að barnafólki og hlúa að ungu fólki sem á að geta fjárfest í íbúð eða byggt þak yfir fjölskyldu sína.
Þörf er á að löggjöf varðandi eldri borgara verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að skerðingar verði lágmarkaðar og lífsgæðin hámörkuð. Þar spilar einnig inn öll meðferð öldrunarmála. Umönnunarþyngd aldraða mun aukast á næstu árum þegar eldri borgurum fjölgar. Samhliða eykst krafan um aukinn sveigjanleika og minni skerðingar vegna vinnuframlags duglmikilla einstaklinga. Lífeyriskerfið ber að einfalda og auka á sveigjanleika þess til að taka þátt í uppbyggingu innviða samfélagsins með beinum hætti svo ávaxta megi til lengri framtíðar.

Markmið mín eru fleiri og fjölmörg. Legg ég hér þó sérstaka áherslu á málefni aldraða og ungs fólks. Til að við getum náð árangri á því sviði skiptir miklu máli að eiga fyrir þessu, borga niður skuldir hins opinbera svo að breytingar til batnaðar verði varanlegar en ekki teknar að láni. Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel í að greiða niður skuldir og hefur það nú komið ríkissjóði vel sem stendur betur með hverju árinu sem líður. Höldum þessum kúrs og stefnum áfram að því að bæta hag Íslendinga. Skiptum svo rétt þegar við höfum ráð á slíku og deilum til þeirra sem lögðu til fyrir okkur hin. Við verðum að lækka skatta á eldri borgara og draga úr skerðingum. Framkvæmum þetta með trúverðugum og varanlegum hætti og gætum þess að allir hafi borð fyrir báru í lífsins ólgusjó.

Sveinn Óskar Sigurðsson