Betra og réttlátara heilbrigðiskerfi – fyrir alla

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Við göngum til þingkosninga 7 mánuðum fyrr en áætlað var í kjölfar uppljóstrana um þátt æðstu íslensku stjórnmálamanna í Panamaskjölunum. Þær afhjúpuðu að hinir ríku og áhrifamiklu komu sér undan því að greiða með sanngjörnum hætti til skattkerfisins, í sameiginlega sjóði okkar allra.

Það er góðs viti að almenningur hafi mótmælt því þegar efnamikið fólk veigrar sér við því að borga sanngjarnan hlut í samneyslu okkar allra. Að þess sé krafist að hér sé samfélag þar sem við borgum öll skattana okkar, líka hinir ríku. Skattana sem renna í uppbyggingu á innviðum samfélagsins.

Íslendingum hefur ofboðið fleira á þessu kjörtímabili sem tengist skiptingu opinberra fjármuna og skorti á uppbyggingu og framtíðarsýn. Fólki hefur ofboðið fjársveltið á heilbrigðiskerfinu; að hlutfall opinberra fjármuna í heilbrigðiskerfið hafi farið ört lækkandi síðustu ár þrátt fyrir batnandi afkomu ríkissjóðs eftir Hrunið. Og fólk gerir kröfu um að þetta breytist. Tæpar 87 þúsund undirskriftir vitna um það.

Það er ekki skrítið að fólk geri skýrar kröfur um róttækar breytingar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Ný skýrsla McKinsley sýnir að á Íslandi er lægra hlutfalli þjóðartekna varið til heilbrigðismála en á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskilið, og hefur lækkað stöðugt frá árinu 2003. Húsakostur Landspítalans er löngu úr sér genginn, stenst ekki gæðakröfur og ekki hefur verið staðið við áform um uppbyggingu spítalans. Álag fer stöðugt vaxandi og mönnun af hálfu sérfræðilækna er ófullnægjandi.

Til að rétta þessa skekkju af vilja Vinstri græn að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 10,6% af vergri landsframleiðslu. Það viljum við gera með því að auka opinber framlög úr 7,17% af VLF árið 2015 í 9% árið 2020. Til samanburðar voru árið 2015 opinber framlög til heilbrigðismála 9,27% í Svíþjóð , 8,91% í Danmörku, 8,47% í Noregi og 7,28 í Finnlandi.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum leggja það til að ný ríkisstjórn ráðist strax í að breyta þessu, að fyrsta verkefnið verði að móta aðgerðaráætlun um það hvernig þessum markmiðum verður náð og að sú áætlun liggi fyrir innan þriggja mánaða.
En það skiptir öllu máli hvernig við förum með opinbera fjármuni og við verðum að gæta þess að stýringu þeirra verði breytt. Undanfarin ár hafa fjárframlög til sérgreinalækninga vaxið ótæpilega meðan sjúkrahús og heilsugæsluþjónusta hafa setið eftir. VG mun beita sér fyrir því að snúa þeirri þróun við að á síðustu árum hafi fjölgun lækna fyrst og fremst orðið á einkastofum og æ fleiri aðgerðir og læknisverk hafi færst frá sjúkrahúsum á einkastofur sérgreinalækna. Sú þróun hefur m.a. verið gagnrýnd af Landlækni enda hefur þetta grafið undan mönnun á sjúkrahúsunum sem hafa mætt niðurskurði alltof lengi.
Látum heilsugæsluna fara að virka sem raunverulegan fyrsta valkost og eflum sérgreinalækningar inni á sjúkrahúsunum. Vindum svo okkur í að klára byggingu nýs Landspítala með viðunandi vinnuaðstæðum fyrir lækna, heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga.

Gerum þá sjálfsögðu kröfu að hér sé fjármunum varið til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu en ekki skotið undan. Byggjum upp réttlátt heilbrigðiskerfi, til aukinnar velferðar fyrir alla.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
skipar efsta sæti lista VG í Suðvesturkjördæmi.