Menningarsetur við Gljúfrastein

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur Bjarnason

Á liðnum vetri fluttu nokkrir þingmenn þingsályktunartillögu um uppbyggingu Laxnessseturs við Gljúfrastein í Mosfellsdal.
Sá er þetta ritar var einn meðflutningsmanna að þessari þingsályktunartillögu og er mjög stoltur af. Ástæðan er sú að verk skáldsins á Gljúfrasteini hafa borið hróður Íslands um víða veröld. Skáldið spurði sig við tímamót í lífinu:
„Hvað má frægð og frami veita skáldi? Vissulega velsælu af því tagi sem fylgir hinum þétta leir. En ef íslenskt skáld gleymir upphafi sínu í þjóðdjúpinu þar sem sagan býr; ef hann missir samband sitt og skyldu við það líf sem er aðþreingt, það líf sem hún amma mín gamla kendi mér að búa öndvegi í huga mér – þá er frægð næsta lítils virði; og svo það hamíngjulán sem hlýst af fé.“

Menningarsetur af því tagi sem þings­ályktunartillagan kveður á um mun rísa,því þjóðin mun gera sér grein fyrir því, að þegar skáldið hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1955 var það ekki aðeins viðurkenning þess að skáldið hafði ekki gleymt upphafi sínu í þjóðdjúpinu, heldur að Ísland var sjálfstæð þjóð meðal þjóða. Sú umfjöllun sem Ísland fékk í kjölfar Nóbelsverðlauna skáldsins er einn af hornsteinum í virðingu lands og þjóðar. Það kann að vera að skáldið hafi vænst meiri sigra á alþjóðavettvangi. Þeir sigrar munu koma.
Skáldið á Gljúfrasteini er meðal mestu rithöfunda í veröldinni á þeirri öld sem leið. Það er öldin sem hann lifði. Verk skáldsins munu verða tilefni til rannsókna og umfjöllunar í allri framtíð.

Auðvitað mun Laxnesssetur við Gljúfrastein verða hluti af menningartengdri ferðaþjónustu í Mosfellsbæ. Það er enginn Íslendingur sem hefur haft eins mikinn skilning á að selja menningu eins og skáldið.
Laxnesssetri er ætlað að verða alhliða menningarmiðstöð. Á Gljúfrasteini voru haldnir stofutónleikar. Verk skáldsins hafa verið kvikmynduð og hjónin á Gljúfrasteini höfðu mikinn áhuga á myndlist.
Auðvitað er heimili skáldsins og konu hans safngripur. En húsið er lítið og starfsemi þar er þröngur stakkur skorinn. Safnkosturinn samanstendur af innbúinu öllu, listaverkum, bókasafni, ljósmyndum og skjölum.

Möguleikar til rannsókna og miðlunar eru óþrjótandi en mikilvægt er að hægt sé að tryggja örugga varðveislu safnkostsins til framtíðar, bæði í húsinu sjálfu og í geymslu.
Það er vert að minna á að Mosfellsdalur er vettvangur í mörgum atburðum í Íslendingasögum. Að því skal stefnt að Laxnesssetur við Gljúfrastein verði alhliða menningarsetur. Það kann að kosta eitthvað en maðurinn lifir í fullkomnun sinni. Það er gjaldið fyrir að vera maður.

Vilhjálmur Bjarnason