Forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Kæru sjálfstæðismenn.
Kjörtímabilið sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur verið viðburðaríkt. Árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur skilað fjölmörgum framfaramálum í höfn, landsmönnum öllum til hagsbóta.
Verðbólga hefur verið í sögulegu lágmarki, kjör almennings hafa stórbatnað bæði vegna aukins kaupmáttar vegna hækkunar launa og auknum ráðstöfunartekjum vegna skattalækkana sem við sjálfstæðismenn höfum barist fyrir. Nú sér fyrir endann á afnámi fjármagnshafta undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem skapar grundvöll til framtíðar fyrir áframhaldi í bættum lífskjörum. Ég hef verið í forystu fyrir Atvinnuveganefnd Alþingis á kjörtímabilinu, en undir nefndina heyra málefni atvinnulífsins í landinu, þ.e. sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu. Þessar atvinnugreinar eru grundvöllurinn undir þjóðfélaginu sem við lifum í og lífæð samfélagsins.
Ef atvinnulífið skilar ekki sínu; skapar fólki atvinnu og tekjur, framleiðir verðmæti til innanlandsnota og útflutnings og skilar ríkinu beinum og óbeinum skatttekjum, er til lítils barist. Öll opinber þjónusta hverju nafni sem hún nefnist byggir á fjármunum sem atvinnulífið myndar á einn eða annan máta. Þess vegna er það forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara.
Í þessu samhengi er grundvallaratriði að fólkið í landinu, atvinnulífið og stjórnvöld séu ásátt um þær leikreglur sem unnið er eftir. Sífelldar deilur um umgjörð atvinnulífsins eru meinsemd sem verður að uppræta. Það verður að ríkja sátt um samspil atvinnulífsins og einstaklinganna. Fyrir slíkri sátt mun ég beita mér af alefli á næsta kjörtímabili, fái ég til þess traust kjósenda.
Umgjörð helstu atvinnugreina landsins, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu hefur allt of lengi verið bitbein stjórnmálamanna. Þar hafa of margir farið fram með óábyrgum hætti og lagt fram algerlega óraunhæfar tillögur. Þetta á t.a.m. við um sjávarútveginn. Í þeim málaflokki hef ég kynnt hugmyndir um blandaða leið sem tekur tillit til sjónarmiða beggja aðila, þ.e. þeirra sem halda vilja í gildandi fyrirkomulag um auðlindagjald og hinna sem vilja bjóða upp aflaheimildirnar. Ég vil koma til móts við sjónarmið beggja, án þess þó að raska starfsumhverfi greinarinnar en skapa samt rými fyrir nýja aðila að hasla sér völl í sjávarútvegi.
Landbúnaðurinn og búvörusamningur sem ráðherra gerði við bændur hefur skapað deilur undanfarið. Ég hef barist fyrir sátt um málið, þannig að samningstíminn verði styttur verulega. Næstu þrjú ár verði nýtt til að gera þjóðarsátt um greinina með aðkomu neytenda, verslunar, bænda og verkalýðsfélaga undir forystu Alþingis. Sama á við um samspil orkufreks iðnaðar og náttúruverndar. Þar er forgangsmál að ná sátt um hvaða svæði megi nýta og hver beri að friða. Með það að leiðarljósi mun ég beita mér fyrir umtalsverðri stækkun friðlands á hálendi Íslands sem yrði ósnortið um alla framtíð.

Jón Gunnarsson alþm.