Höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar

oddvitar_mosfellingur_annasigríður

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Samfylkingarinnar.

Nafn:
Anna Sigríður Guðnadóttir.

Aldur:
58 ára.

Gælunafn:
Kölluð Anna Sigga.

Starf:
Verkefnastjóri á Heilbrigðisvísindabókasafni LSH og HÍ.

Fjölskylduhagir:
Gift Gylfa Dýrmundssyni og eigum við 4 uppkomin börn. Von á fjölgun, ekki ég samt 🙂

Hvar býrðu?
Í Barrholti.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
19 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
694.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um áherslu á skólastarf og framtíðarsýn í skólamálum, betri þjónustu við ungbarnafjölskyldur, opnari og gegnsærri stjórnsýslu, lýðræðislegt samráð, félagslega samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda. Þær snúast um að sjónarmið jafnaðarstefnunnar fái aukið vægi við stjórn bæjarins.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Konur eru 10 og karlar 8. Elstur er Andrés, 68 ára og yngst er Andrea, að verða tvítug

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já. Braut stöðvunarskyldu og var staðin að verki.

Er pólitík skemmtileg?
Já, langoftast, því viðfangsefnin eru svo margvísleg og svo nálægt okkur. Snerta nánasta umhverfi og þjónustu fyrir bæjarbúa.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Bókmenntakvöld bókasafnsins fyrir jólin.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ætli þeir séu ekki svona 5-6 á virkum dögum en 2-3 um helgar.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Hm … erfitt! Núna er það Blikastaðanes.

Besti matur í Mosó? Heima hjá mér 🙂

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Hekla af miklum móð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Ég tæki með mér sagnaþul, smið, veiðimann og verkfræðing. Ég sæi um að rækta grænmeti og að elda.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Fjölbreyttari matsölustaði og verslanir.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Takk 🙂 frá mágkonu dóttur minnar.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Langtímamarkmiðið er 6 fulltrúar, skammtímamarkmiðið er 3 🙂

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Með þeim sem við náum mestri samstöðu með um þau málefni sem við leggjum áherslu á.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Já, ég hugsa að landsmálin geti haft áhrif að einhverju marki.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Af því að við erum jafnaðarfólk sem vinnum að jöfnuði og jöfnum tækifærum fyrir alla með sjálfbærni og hagsmuni kynslóða framtíðarinnar í huga, félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda og skiljum engan eftir. Einnig vegna þess að við höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar í bæjarstjórn og náð árangri með málefnalegu starfi.

—–

Kynning á framboðslista Samfylkingarinnar – Mikið tilhlökkunarefni að hefja kosningabaráttuna

Samfylkingin í Mosfellsbæ á Facebook

 

Kosningarnar snúast um að skipta um meirihluta

oddvitar_mosfellingur_sveinnoskar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Miðflokksins.

Nafn:
Sveinn Óskar Sigurðsson.

Aldur:
49 ára.

Gælunafn:
Óskar.

Starf:
Ráðgjafi og sjálfstætt starfandi.

Fjölskylduhagir:
Giftur Danith Chan, lögfræðingi. Við eigum tvær dætur, Sylvíu Gló Chan, sem stundar nám við Menntaskólann í Reyjavík og Ingridi Lín Chan, sem stundar grunnskólanám við Varmárskóla í Mosfellsbæ.

Hvar býrðu?
Ég bý að Barrholti í Mosfellsbæ.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Frá 2003 eða í 15 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Síðast var talan 1.793.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Um velferð, börnin, barnafólk, aldraða og öryrkja, um hreyfingu og gjaldfrjálsar máltíðir fyrir grunnskólabörn, svo að öll börn setið við sama borð, óháð fjárhag foreldra. Kosningarnar snúast um að skipta um meirihluta í Mosfellsbæ enda hefur sá sem nú ríkir komið fjármálum bæjarins í svo mikið óefni að grunnstoðum stafar ógn af.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness en sá sem á lífi er og að öðrum ólöstuðum, söng- og listakonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópran.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Það eru 8 konur og 10 karlar en í 8 efstu sætunum eru 5 konur en aðeins 3 karlar. Því er þetta eiginlega kvennalisti með smávegis af körlum í bland aftast í þessum glæsilega hestvagni. Jakob Máni er yngstur, tvítugur og Magnús Jósepsson er elstur, 73 ára. Hann skipar heiðurssætið.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Nei, en get samt sungið með herkjum.

Er pólitík skemmtileg?
Já, annars væri maður ekki að gefa sig í þetta síðustu 35 árin.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Opnun á nýrri sýningu í Listasalnum.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
1-4 en aðeins meira fyrir kosningar og fer í kaffipásur stundum í nokkra mánuði. Drekk þá austurlenskt te af bestu sort.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það er Leirvogurinn. Hann er afar fallegur og fuglarnir gefa lífinu lit. Að ganga með sjónum er yndislegt og að sjá norðurljósin að hausti sem og um vetur, fuglana að vori sem á sumri.

Besti matur í Mosó?
Hann er ótvírætt að finna á grænmetismörkuðunum í Mosfellsbæ. Þar má nefna markaðinn að Mosskógum og að Reykjum. Án þessara markaða væri Mosfellsbær allt annar og ekki samur. Við verðum standa vörð um landbúnað hér í bænum og víðar um land.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Ég hef verið konsúll frá því árið 2003 en ég tók þá við ræðismannsstöðu fyrir Afríkuríkið Namibíu. Þar dvel ég oft og er það yndislegt land. Að hafa kynnst konunni í Pekingháskóla, hún ættuð frá Kambódíu, og vera ræðismaður Namibíu er dálítið spes. En þetta er allt líf mitt og yndi.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna auðvitað!

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Nýjan meirihluta.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
,,Vííí takk :)“ frá Þórunni Magneu Jónsdóttur, sem skipar 4. sæti á lista Miðflokksins eftir að ég hrósaði henni fyrir frábæra frammistöðu.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Ég tel raunhæft að ná 5 ef allir mæta á kjörstað.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Það er ekki gefið upp að svo stöddu enda ekki klókt að úttala sig um það. En það byggir á því að við náum að láta lausnir okkar fyrir Mosfellbæ ná fram að ganga.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Þarf ekki að vera. Sveitastjórnarmál lúta öðrum lögmálum en landsmálin og hafa gert lengi.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Við erum lausnamiðaður flokkur. Flokksmenn Miðflokksins eru þekktir fyrir að leysa mál en ekki flækja þau fyrir kjósendum. Það þekkjum við öll frá lánaleiðréttingunum sem komu mörgum vel og aðgerðum til losunar fjármagnshafta. Íslendingar urðu betur staddir sökum aðgerða flokksmanna Miðflokksins og við stöndum við gefin fyrirheit. Við höfum kjark til að ganga hreint til verks.

—–

Kynning á framboðslista Miðflokksins – Ætla að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins

Miðflokkurinn Mosfellsbæ á Facebook

Kosningarnar snúast um fólk en ekki flokka

oddvitar_mosfellingur_stefanomar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Vina Mosfellsbæjar.

Nafn: Stefán Ómar Jónsson.

Aldur: 63 ára.

Gælunafn: Stebbi
(en bara gamlir skólafélagar úr Gaggó Mos 🙂

Starf: Stjórnsýsluráðgjafi og verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu.

Fjölskylduhagir: Einstæður, þrjú uppkomin börn og átta barnabörn.

Hvar býrðu?
Ég bý í Teigahverfinu.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Ég kom í Mosfellssveit tveggja ára og hef búið hér síðan með nokkrum hléum inn á milli.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Ég á 255 vini … abb það var einn að bætast við akkúrat núna, 256 vinir.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um fólk en ekki flokkana.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Heimsþekktastur og merkur er auðvitað Halldór Laxness. Merkastir eru nokkrir sem ég get ekki gert upp á milli. Minnist þó eins þeirra, Jóns heitins á Reykjum, fyrir það hvað hann sagði við mig þegar hann óskað mér, þá 24 ára gömlum, til hamingju með ráðningu mína sem sveitarstjóri í Garði. „Stefán, vertu alltaf heiðarlegur og samkvæmur sjálfum þér.“ Þetta hefur verið greypt í huga mér allar götur síðan.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Átta konur og tíu karlar. Þar af þrjár konur í efstu fimm sætunum. Úlla er elst og Lilja er yngst.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já, hraðasekt á Kjalarnesinu fyrir margt löngu. Sagði lögreglumönnunum að ég hefði verið að taka fram úr bíl og þá mætti auka hraðann. Þeir keyptu ekki þessa afsökun 🙁

Er pólitík skemmtileg?
Fer eftir hugarfari þeirra sem taka þátt. Já, hún á að vera það.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima og aftansöngur í Lágafellskirkju á aðfangadagskvöld.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Tvo bolla.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Að ganga meðfram Varmánni á góðviðrisdegi, frá Reykjum og niður í Álafosskvos og upplifa í leiðinni sögu hitaveitunnar, heilsutengdrar starfssemi að Reykjalundi og ullarvinnslu í Mosfellssveit á árum áður, o.fl. o.fl.

Besti matur í Mosó?
Yam í Kjarna, ekki spurning.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Það veit ábyggilega ekki að ég var í raun fyrsti trommari Stuðmanna sem þá hét Skólahljómsveit Menntaskólans í Hamrahlíð. Grunar samt að Hafsteinn viti þetta 🙂

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Engan. Ég færi einn og tæki með mér gervihnattarsíma svo ég geti láti sækja mig þegar ég er orðinn leiður á einverunni. Úbbs, er batteríið búið 🙁

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lyftukláf upp á Úlfarsfellið svo allir komist auðveldlega upp og geti þaðan virt fyrir sér fallega bæinn okkar.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
„Jú það geri ég ráð fyrir, annars græja ég það.“

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Við stefnum á þrjá.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Allir sem vilja starfa af einlægni, eru tilbúnir að hlusta, skiptast á rökum og aðhyllast opna og gagnsæja stjórnsýslu eiga samleið með Vinum Mosfellsbæjar.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð sem á sér ekki rætur í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum. Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum, með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.
Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista? Vegna þess að við erum eina algerlega óháða framboðið og án tenginga við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka. Í sveitarstjórnarmálum eru það aðeins hagsmunir sveitarfélagsins sem eiga að ráða för og ekkert annað. Í Vinum Mosfellsbæjar býr sú þekking og reynsla sem þarf við stjórn Mosfellsbæjar.

—–

Kynning á framboðslista Vina Mosfellsbæjar – Óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn

Vinir Mosfellsbæjar á Facebook

Pólitík getur verið mjög skemmtileg

oddvitar_mosfellingur_sigrún

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Íbúahreyfingarinnar og Pírata.

Nafn:
Sigrún H. Pálsdóttir.

Aldur:
Á besta aldri.

Gælunafn:
Sigrún.

Starf:
Bæjarfulltrúi og leiðsögumaður.

Fjölskylduhagir:
Gift og tveggja barna móðir.

Hvar býrðu?
Í Lágafellshverfi.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
15 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
560.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Gegnsæi, lýðræðisumbætur og velferð Mosfellinga.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Jón Kalman.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
10 konur, 8 karlar. Yngst 30 ára/elstur 68 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Nei.

Er pólitík skemmtileg?
Pólitík er mjög verðugt viðfangsefni og getur verið mjög skemmtileg.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Jólabókakynningin í Bókasafni Mosfellsbæjar og bæjarhátíðin Í túninu heima.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag? 2.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Gönguleiðin eftir bökkum Varmár.

Besti matur í Mosó?
Kalkúnn frá Reykjabúinu, grænmeti úr heimabyggð og konfekt úr Mosfellsbakaríi.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Hvað mér finnst gott að vinna að næturlagi.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Hengirúmið, góðar bækur og þjón.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Menningarhús með góðum matsölustað.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Frá vinkonu á ferð um Kína.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
4.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar? Fólki sem brennur fyrir því að auka gegnsæi og knýja fram stjórnsýslubreytingar í Mosfellsbæ.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Nei, ekki beint, en við hlökkum til að eiga bakland í Pírötum á þingi.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Vegna þess að við vinnum af krafti og heilindum að velferð Mosfellinga.

—–

Kynning á framboðslista Íbúahreyfingarinnar og Pírata – Endurnýjun tímabær – Valkostur í boði

Íbúahreyfingin og Píratar á Facebook

Viljum að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ

oddvitar_mosfellingur_haraldur

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Sjálfstæðismanna.

 

Nafn: Haraldur Sverrisson.

Aldur: 56 ára.

Gælunafn: Halli.

Starf: Bæjarstjóri.

Fjölskylduhagir:
Giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi. Á þrjú börn: Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára. Svo eru komin þrjú barnabörn Áróra, Árni Hrafn og Ársól Ella.

Hvar býrðu?
Skálahlíð 46.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Í 49 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
1.242 sýndist mér áðan.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ. Við Sjálfstæðisfólk höfum haldið utan um stjórnartaumana hér í okkar góða samfélagi undanfarin ár. Á þeim tíma hefur bærinn okkar tekið miklum stakkaskiptum til hins betra á flestum sviðum. Kosningarnar snúast um það að halda áfram þessu góða starfi og til þess þurfum við Sjálfstæðisfólk að vera áfram forsvari fyrir framþróun bæjarins og velferð íbúanna.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Kiljan Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
9 konur og 9 karlar. Yngstur Unnar Karl Jónsson, 19 ára, og elstur Hafsteinn Pálsson, 65 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Mér hefur orðið það á að aka of hratt.

Er pólitík skemmtileg?
Oftast nær mjög skemmtileg og gefandi.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Misjafnt, fer eftir vikudeginunum.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Útivistarsvæðið við Leiruvog.

Besti matur í Mosó?
Blik Bistro, frábær nýi matseðillinn þar og ekki skemmir útsýnið.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Er kominn af listamönnum og kommúnistum.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Björgunarsveitina Kyndil og skátana.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lifandi og skemmtilegan miðbæ sem reyndar er núna verið að vinna hörðum höndum að þessi misserin að verði að veruleika.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Frá kosningastjóranum um að ég ætti að hringja.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Sjálfstæðisflokkurinn er nú í meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Við stefnum ótrauð að því að svo verði áfram.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Við Sjálfstæðisfólk getum unnið með öllum. Höfum verið í formlegu meirihlutasamstarfi við VG þrátt fyrir hreinan meirihluta okkar í bæjarstjórn. Auk þess höfum við verið í góðu samstarfi við aðra bæjarfulltrúa sem hafa viljað vera í samstarfi við okkur.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Hef ekki mikla trú á því.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Á lista Sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ er blanda af reynslumiklu fólki sem og fólki sem er að hefja sinn bæjarmálaferil. Ungt fólk í bland við eldra og konur jafnt sem karlar. Allt er þetta fólk sem brennur fyrir bæinn sinn og vill leggja sig allt fram um að gera frábæran bæ enn betri. Við munum vinna af heiðarleika og eljusemi fyrir alla Mosfellinga með gildin okkar góðu að leiðarljósi: Virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju.

—–

Kynning á framboðslista Sjálfstæðisflokksins – Töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ á Facebook

Innleiðum nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu

oddvitar_mosfellingur_valdimar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Viðreisnar.

 

Nafn: Valdimar Birgisson

Aldur: 55

Gælunafn: Ég var alltaf kallaður Valli Bigga Vald á Ísafirði, en Valdi hér fyrir sunnan.

Starf: Auglýsingasérfræðingur.

Fjölskylduhagir:
Kvæntur Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni og eigum við hjónin sex börn. Að auki á ég tvö barnabörn.

Hvar býrðu? Akurholti 17.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Hef búið hér með einu hléi frá 2008.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Rúmlega 2.000

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Kosningarnar snúast um hvort við viljum innleiða nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu eða halda okkur við það gamla.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Það er Halldór Laxness en af núlifandi Mosfellingum er það Jökull í Kaleo.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Við erum með fléttulista þannig að það er jafnt hlutfall kynja á listanum. Hrafnhildur Jónsdóttir er elst 59 ára, Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir og Ari Páll Karlsson eru bæði 21 árs. Fimm af fyrstu 9 eru 30 ára eða yngri.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Ég er nýbúinn að fá sekt fyrir að leggja ólöglega í Skaftahlíð. Mjög neyðarlegt.

Er pólitík skemmtileg?
Hún getur verið það, já, og ætti ekki að vera skemmandi ef við gætum þess að fara í málefnin en ekki manninn. Það er ekkert að því að takast á um málefni en um leið verður að gæta þess að bera virðingu fyrir fólki.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Það er Í túninu heima. Gaman að sjá hvernig sú hátíð hefur vaxið og íbúar taka þátt í henni.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ég drekk opinberlega tvo bolla á dag.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það fyrsta sem ég féll fyrir þegar ég bjó á Ökrum voru bakkar Varmár frá dælustöðinni og uppúr. Núna get ég talið upp fleiri, svo sem Leiruvogurinn og strandlengjan þar, og svo er Mosfellsdalurinn allur fallegur.

Besti matur í Mosó?
Það er Osso Bucco sem konan mín eldar af stakri snilld eins og svo margt annað. Það er eiginlega besti matur í heimi að mati sérfræðinga.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Örugglega fullt. Til dæmis var ég í unglingalandsliðinu á skíðum, ég var sjómaður í mörg ár og svo vann ég við að selja snyrtivörur um hríð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna mína, Sigríði Dögg, því að ég myndi vilja upplifa eyðieyjudvöl með henni, Gordon Ramsay, til að elda fyrir mig góðan mat, Ricky Gervais til að stytta mér stundir, og Elon Musk til að koma mér heim aftur.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Það væri gott að hafa góðan matsölustað í bænum. Það vantar meiri þjónustu í Mosfellsbæ.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Tveir fyrir einn á Bergsson …

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Markmiðið er að ná tveimur inn.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Góðu fólki. Það er fullt af því í öllum flokkum í Mosfellsbæ og við sjáum bara tækifæri en ekki vandamál þar.
Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó? Eflaust eitthvað en sveitarstjórnarkosningar snúast um þær áskoranir sem eru hér en ekki annars staðar.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Vegna þess að það er kominn tími á breytingar og við erum fólkið sem getur komið þeim breytingum á.

—–

Kynning á framboðslista Viðreisnar– Viðreisn ætlar að gera betur

Viðreisn í Mosfellsbæ á Facebook

Hún er engri lík hún póli-tík

oddvitar_mosfellingur_sveinbjörn

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Framsóknarflokksins.

Nafn:
Sveinbjörn Ottesen.

Aldur:
58.

Gælunafn:
„Ásinn.“

Starf:
Verkstjóri.

Fjölskylduhagir:
Kvæntur Olgu Bragadóttur, 4 dætur og 3 barnabörn.

Hvar býrðu?
Hér í Mosó, en ekki hvað?

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
13 ár … happatala 🙂

Hvað áttu marga vini á Facebook?
861.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Stærð loforðanna og heilindin til að efna þau.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Biggi í Gildrunni.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Kk/kvk // 60/40 @ 19-86 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Uppkast, hláturskast eða Kringlukast?

Er pólitík skemmtileg?
Hún er engri lík hún póli-tík.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Dagarnir þegar Mosfellingur kemur út.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Of marga.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Hvaða staður í bakgrunni þar sem konan mín er í forgrunni.

Besti matur í Mosó?
Hundasúrurnar í hlaðvarpanum á Reykjum (já, ég stelst stundum).

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Ég get grátið.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Geira í Kjötbúðinni og Svan hjá Grillvagninum.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Meira af framsóknarmönnum … og Leeds-urum.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Sko, við getum þetta … áfram X-B.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Ertu að ýja að því að við náum ekki hreinum meirihluta?

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Ertu að ýja að því að við náum ekki hreinum meirihluta?

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Mun árangurinn í Mosó spila rullu á landsvísu?

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Hvar annars staðar getur þú kosið Ottesen?

—–

Kynning á framboðslista Framsóknarflokksins – Berjumst fyrir því sem okkur er hjartfólgnast

Framsóknarfélag Mosfellsbæjar á Facebook

 

Fékk snemma áhuga á undrum náttúrunnar

andresarnalds_mosfellingur

Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil bæði í leik og starfi hjá Andrési Arnalds fyrrverandi fagmálastjóra hjá Landgræðslunni og núverandi verkefnastjóra en hann hefur starfað hjá stofnuninni í 37 ár.
Undanfarin ár hefur hann komið að úrbótum vegna þeirra miklu áhrifa sem vaxandi fjöldi ferðafólks hefur á okkar viðkvæma land.
Andrés ætlar að láta af störfum um áramótin en hann segir að hugsjónin um að vernda landið verði ávallt á sínum stað.

Andrés er fæddur í Reykjavík 4. desember 1948. Foreldrar hans eru þau Ásdís Andrésdóttir og Sigurður Arnalds útgefendur bóka og tímaritsins Satt en þau eru bæði látin.
Andrés á fimm bræður, Jón, Ragnar, Sigurð, Einar og Ólaf en Jón og Einar eru látnir.

Glitrandi vorkvöldin við Húnaflóann
„Ég ólst upp í Reykjavík og að hluta til á Ósum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Líklega tengjast æskuminningarnar mest mínu notalegu heimili á Stýrimannastígnum og fjölbreyttum útileikjum.
Dvölin á Ósum á einnig stóran sess, að gefa kindunum, þegar ég fékk að velja mér lamb, fyrsta sumarkaupið, móðurlausi sel­kópurinn Harpa, útreiðatúrar og glitrandi vorkvöldin við Húnaflóann.
Ég dvaldi fyrst á Ósum þegar ég var 3 ára og var þar síðan öll sumur til 16 ára aldurs auk vetrarins þegar ég varð sex ára.“

Mannskapurinn gat verið skrautlegur
„Ég gekk í Miðbæjarskólann og líkaði vel, ég fékk snemma áhuga á undrum náttúrunnar sem fylgt hefur mér mér æ síðan.
Eftir landspróf úr Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti tóku við fjögur dýrðleg ár í Menntaskólanum í Reykjavík. Á menntaskólaárunum vann ég hins vegar fyrir mér á togurum, lengst af á síðutogaranum Ingólfi Arnarsyni.
Á togurunum gat mannskapurinn verið skrautlegur þegar komið var um borð á þeim aflalitlu árum en í ljós kom margt gullið þegar rann af þeim.“

Reyndi að komast á krabbaveiðar
„Leiðin lá á Hvanneyri, þar átti ég frábær ár í Bændaskólanum og framhaldsdeildinni og útskrifaðist 1971. Við tók nám í beitarstjórnun og stjórnun vistfræði beitilanda í Washington í Bandaríkjunum 1972-74.
Á sumrin var ég sjómaður í Alaska, fyrst á laxveiðum þar sem við fengum 19.000 laxa á nítján veiðidögum. Talið var upp í árnar og skipin fengu aðeins að veiða einn dag í viku.
Seinna sumarið fékk ég far með rækjubát frá Seattle til Alaska þar sem ég ætlaði að reyna að komast á krabbaveiðar en lenti í selarannsóknum.“

Kynntist húnvetnskri bóndadóttur
Skömmu eftir heimkomuna, síðasta vetrardag 1975, kynntist Andrés húnvetnskri bóndadóttur og hafa þau verið saman síðan. Hún heitir Guðrún Pálmadóttir og er dósent í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri.
Þau eiga fjögur börn, Ásdísi Aðalbjörgu f. 1977, Ara Pálmar f. 1980, Ólaf Þór f. 1986 og Hólmfríði Ósk f. 1988. Fyrir átti Andrés Stefán f. 1972 með Ráðhildi Stefánsdóttur. Barnabörnin eru sjö.

Standa vörð um sérstöðu náttúrunnar
Á árunum 1981-1984 stunduðu hjónin nám í Colorado í Bandaríkjunum og börnin fylgdu með. „Við fluttum svo í Mosfellssveit skömmu eftir að við komum til baka. Það var ári fyrir breytinguna úr sveit í bæ og trúlega var það sveitablærinn og nálægðin við fellin og fjöllin sem réði mestu.
Við höfum verið dugleg að stunda útivist og fara í ferðalög og víða farið bæði innanlands og utan. Ég hef komið á fjölmarga fallega staði erlendis, en því oftar sem ég fer til annarra landa þeim mun fegurra finnst mér Ísland. Við þurfum að standa vörð um sérstöðu náttúrunnar og landslagsheilda.“

Tónlistin er allra meina bót
„Áhugamál mín eru mörg og hefur tónlistin verið fyrirferðarmikil. Börnin voru í tónlistarnámi hér í bænum og Guðrún hefur lengst af sungið í kórum. Ég var alltaf í klappliðinu og er enn dyggur stuðningsmaður á tónleikum sem eru nokkuð tíðir hjá þessari fjölskyldu. En svo kom loks að mér, ég gekk í Vorboðana, kór aldraðra, nú í vetur. Tónlistin er allra meina bót.
Ég hef verið í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar í mörg ár sem er skemmtilegur félagsskapur. Ég hef séð það í gegnum tíðina, allt frá mínum sjómennskuárum, hve stuðningur við þá sem orðið hafa á mistök í lífinu skiptir miklu máli, ekki bara fyrir þá sjálfa, heldur ekki síður fyrir samfélagið.“

Samskiptin breyttust til hins betra
Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil bæði í leik og starfi hjá Andrési. Sveinn Runólfsson fyrrverandi landgræðslustjóri fékk hann „að láni“ frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sumarið 1981, en svo fór að honum var aldrei skilað.
„Mér líkaði starfið hjá Landgræðslunni vel. Á mínum langa ferli hef ég komið að beitar- og landgræðslumálum um land allt. Það reyndi oft á, einkum vegna skilningsleysis á áhrifum beitar. Með tilkomu farsælla samstarfsverkefna, eins og „Bændur græða landið“, breyttust samskiptin við grasrótina mjög til hins betra.“

Í túninu heima
Andrés hefur haft mikinn áhuga á umhverfismálum í Mosfellsbæ og tók þátt í stofnun og starfi samtakanna Mosa sem voru mjög öflug á sínum tíma.
Í samstarfi við Mosfellsbæ var haldin fjölsótt ráðstefna í Hlégarði árið 1994 sem bar heitið „Í túninu heima“ þar sem fjallað var um umhverfismál, útivist og mannlíf. Samtökin hlutu viðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir framlag til umhverfismála 1996. Árið 2016 var Andrési veitt viðurkenning frá bænum fyrir störf á sviði umhverfismála.

Sæmdur fálkaorðunni
Árið 2011 var Andrés sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi landgræðslu og jarðvegsverndar. Hann hefur verið virkur í alþjóðlegu samstarfi um landgræðslumál, m.a. sótt fundi erlendis og komið að undirbúningi alþjóðlegra ráðstefna.
„Við hér á Íslandi höfum nýtt okkur vel reynslu annarra þjóða, meðal annars til að stuðla að auknu landlæsi og þátttöku bænda jafnt sem almennings í vernd og endurreisn landkosta. Landverndarstarfið í Ástralíu hefur verið þar góð fyrirmynd. Jafnframt höfum við af mikilli þekkingu og reynslu að miðla til annarra þjóða sem eru að stríða við svipuð landeyðingarmál og við höfum verið að fást við hér frá því að skipulagt landgræðslustarf hófst fyrir 110 árum. Á þessum grunni starfar hér Landgræðsluskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna og hef ég verið þar bæði í fagráði og sem kennari frá upphafi.“

Laus við meginskyldur
„Síðustu árin hef ég komið talsvert að úrbótum vegna þeirra miklu áhrifa sem vaxandi fjöldi ferðafólks hefur á okkar viðkvæma land. Ástand gönguleiða og staða er víða slæmt og efla þarf fagmennsku í því sem gert er.
Nú er ég að draga saman seglin, laus við meginskyldur sem fylgdu því að vera fagmálastjóri Landgræðslunnar og læt af störfum um áramót eftir að hafa starfað í 37 ár hjá þessari merku stofnun. Vissulega tímamót en hugsjónin um að vernda landið verður ávallt á sínum stað,“ segir Andrés er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 17. maí 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Vinningstillaga að aðkomutákni afhjúpuð

Ari Þorleifsson og Anna Björg Sigurðardóttir eru höfundar vinningstillögunnar um nýtt aðkomutákn við þrjár aðkomuleiðir í Mosfellsbæ.

Ari Þorleifsson og Anna Björg Sigurðardóttir eru höfundar vinningstillögunnar um nýtt aðkomutákn við þrjár aðkomuleiðir í Mosfellsbæ.

Bæjarráð ákvað á hátíðarfundi sínum í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá því að Mosfellsbær fékk kaupstaðarréttindi að efna til hönnunarsamkeppni um aðkomutákn.
Aðkomutákninu er ætlað að vekja athygli á Mosfellsbæ og marka það svæði sem honum tilheyrir. Til stendur að vígja aðkomutáknið á bæjarhátíðinni Í túninu heima sem fram fer í lok ágúst. Alls bárust 34 tillögur að aðkomutákni og var keppnin unnin í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands.

Sækja í rótgróið merki Mosfellsbæjar
Höfundar vinningstillögunnar eru þau Anna Björg Sigurðardóttir arkitekt og Ari Þorleifsson byggingafræðingur.
Tillaga þeirra var afhjúpuð í Hlégarði þann 3. maí en í umsögn dómnefndar segir m.a. um vinningstillöguna að hún sé:
„Stílhrein og falleg tillaga sem sækir á óhlutbundinn hátt í náttúruna, ásamt því að sækja í rótgróið merki Mosfellsbæjar eftir Kristínu Þorkelsdóttur.
Áhugaverður skúlptúr sem vísar til þriggja innkomuleiða Mosfellsbæjar, þá þrjá staði sem fyrirhugað er að staðsetja merkið á og gefur möguleika á fjölbreytilegum útfærslum.“

Tillögurnar til sýnis í Bókasafninu
Næstu skref þessa verkefnis felast í vinnu Mosfellsbæjar með vinningshöfum við útfærslu hugmyndarinnar, eins og vinna við teikningar, undirbúningur framleiðslu aðkomutáknsins og finna aðkomutákninu endanlega staðsetningu.
Þá veitti dómnefndin þremur tillögum viðurkenningu en þær tillögur komu frá eftirtöldum aðilum:
• Gunnari Kára Oddssyni og Oddi Þ. Hermannssyni, landslagsarkitektum
• Elísabetu Hugrúnu Georgsdóttur, arkitekt
• Kristjáni Frey Einarssyni, grafískum hönnuði og Halldóru Eldjárn
Þær tillögur sem unnu til verðlauna eru nú til sýnis í Bókasafninu, þar með talið líkan af vinningstillögunni.

—–

adkomutakn2Þrjár aðkomuleiðir
– Þrjár náttúruperlur

Hið nýja aðkomutákn er hugsað þannig að þrjár aðkomuleiðir Mosfellsbæjar megi tengja við þrjár náttúruperlur. Að sunnanverðu tekur Úlfarsfell á móti þér með grænum hlíðum sínum, að norðanverðu er það Leirvogsá og á Þingvallavegi er það Helgafell. Þessar þrjár náttúruperlur sem umvefja bæjarmörk Mosfellsbæjar eru í raun ákveðin tákn bæjarfélagsins og aðkomutákninu er ætlað að upphefja það.
Merki Mosfellsbæjar hefur verið tákn bæjarins frá árinu 1968. Merkið var hannað af Kristínu Þorkelsdóttur og er tilvísun í silfurs Egils Skallagrímssonar.
Höfundar vinningstillögunnar telja mikilvægt að merki Mosfellsbæjar verði hluti af aðkomutákninu, verði til þess að styrkja merkið og jafnvel gefa því nýtt líf.
Þau Anna Björg og Ari fóru þá leið að velja þrjú efni sem hvert um sig er lýsandi fyrir hvern aðkomustað.
Helgafellið sýnir m.a. grýtta fjallshlíð sem unnt er að tákna með steypu. Úlfarsfellið er skógi vaxið og viðurinn táknmynd þess. Loks er Leirvogsáin fljótandi vatn sem er táknað með gegnsæjum málmi.
Nýja aðkomutáknið verður þannig skúlptúr sem samanstendur af þessum þremur efnum sem eru lýsandi fyrir hvern aðkomustað. Hugmyndin felur líka í sér að hæð hvers efnis verði mismunandi eftir staðsetningu aðkomutáknsins.

Óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn

vinirmoslisti

Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn í vor. Framboðið á sér ekki rætur í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum.
Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.

Áhersla lögð á góða samvinnu
Heiðarleiki, þekking og lýðræði eru þau gildi sem framboð Vina Mosfellsbæjar mun byggja starf sitt á. Sérsök áhersla verður lögð á góða samvinnu við bæjarbúa og bæjarstarfsmenn.
Vinir Mosfellsbæjar ætla að auka og auðvelda aðkomu bæjarbúa með virku íbúalýðræði. Með opinni, gagnsærri og gagnvirkri stjórnsýslu geta Mosfellingar gert góðan bæ enn betri.

Fyrrum bæjarritari í fyrsta sæti
Stefán Ómar Jónsson, viðskiptalögfræðingur og fyrrverandi bæjarritari Mosfellsbæjar, mun leiða lista Vina Mosfellsbæjar. Í öðru sæti er Margrét Guðjónsdóttir lögmaður. Í þriðja sæti er Michele Rebora stjórnmálafræðingur og ráðgjafi í gæðastjórnun. Fjórða sæti skipar Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri fimleikadeildar Aftureldingar.

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar
1. Stefán Ómar Jónsson
2. Margrét Guðjónsdóttir
3. Michele Rebora
4. Vilhelmína Eva Vilhjálmsd.
5. Olga Stefánsdóttir
6. Sigurður Eggert Halldóruson
7. Lilja Kjartansdóttir
8. Gestur Valur Svansson
9. Óskar Einarsson
10. Agnes Rut Árnadóttir
11. Pálmi Jónsson
12. Rúnar Breiðfjörð Ásgeirsson
13. Björn Brynjar Steinarsson
14. Sonja Ósk Gunnarsdóttir
15. Úlfhildur Geirsdóttir
16. Björn Óskar Björgvinsson
17. Valgerður Sævarsdóttir
18. Valdimar Leó Friðriksson

Styrkur einstaklinga úr ýmsum áttum
Stefán Ómar Jónsson leiðir listann fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 26. maí. „Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.
Vinir Mosfellsbæjar hvetja alla unga sem aldna til þess að nýta kosningarétt sinn, þennan mikilvæga lýðræðislega rétt sem við þurfum að viðhalda og rækta.
Við höfum einlægan áhuga á vandaðri og réttsýnni stjórnsýslu. Í nútímasamfélagið þar sem tölvutækni og róbótavæðing, fjórða iðnbyltinginn, ræður ríkjum er mikilvægt að stjórnsýslan sé ekki aðeins vönduð og rétt, heldur að hún sé rafræn og gagnvirk. Á þessum málum hef ég mikla þekkingu og hana mun ég sem bæjarfulltrúi nýta þannig að íbúar fái notið fremstu tækni.
Ég leiði Vini Mosfellsbæjar til þessara bæjarstjórnarkosninga af heilindum og með gleði í hjarta.“

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Með viðamikla þekkingu
„Vinir Mosfellsbæjar hafa það að markmiði að koma að uppbyggingu og þjónustu við Mosfellinga, með viðamikla þekkingu að vopni,“ segir Margrét Guðjónsdóttir.
„Við höfum einlægan áhuga á velferðarmálum almennt, málefnum fatlaðra svo og málefnum eldri borgara. Í eldri borgurum býr fjársjóður reynslu og þekkingar sem við getum og eigum að nýta okkur. Í skipulagsmálum þurfum við að vanda okkur sérstaklega til að tapa ekki þeim sjarma að vera sveit í borg. Á þessum málefnum hef ég mikla þekkingu og hana mun ég nýta.
Ef við stöndum saman og ræðum málin, leyfum öllum þeim mannauði sem Mosfellsbær býr yfir að njóta sín og koma að málum, þá getum við gert bæinn okkar enn betri fyrir íbúa hans, jafnt unga sem aldna.“

 

Berjumst fyrir því sem okkur er hjartfólgnast

þrjú efstu á lista framsóknar­- flokksins í mosfellsbæ: Sveinbjörn Ottesen, Birkir Már og Þorbjörg.

Þrjú efstu á lista Framsóknar­flokksins í Mosfellsbæ: Sveinbjörn Ottesen, Birkir Már og Þorbjörg.

Sveinbjörn Ottesen verkstjóri skipar fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar undir lok mánaðarins.
Hann segir að framboðið berjist fyrir því sem því sé hjartfólgnast, menntamálum, samgöngumálum og þjónustu við íbúa.
„Við Framsóknarmenn erum fáorðir en gagnorðir. Því segi ég:
Fjölnotahús – Betra er heilt hús reist af heilum hug en hálft hús af hálfum hug
Útboðsmál – Ekki hringja í vin … allt í útboð
Heilbrigðisþjónusta 24/7 – Nei, doktor Saxi, ekki skera meira. Hér bætum við í.“

Sveinbjörn Ottesen

Sveinbjörn Ottesen

Framboðslisti Framsóknarflokksins
1. Sveinbjörn Ottesen
2. Þorbjörg Sólbjartsdóttir
3. Birkir Már Árnason
4. Óskar Guðmundsson
5. Sveingerður Hjartardóttir
6. Kristján Sigurðsson
7. Sigurður Kristjánsson
8. Kristín Fjólmundsdóttir
9. Ólavía Rún Grímsdóttir
10. Elín Arnþórsdóttir
11. Leifur Kr. Jóhannesson
12. Frímann Lúðvíksson
13. Ásgerður Gísladóttir
14. Árni R. Þorvaldsson
15. Sigurður Helgason
16. Halldóra Eyrún Bjarnadóttir
17. Roman Brozyna
18. Ingi Már Aðalsteinsson

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Lýðheilsa er eitt okkar helsta stefnumál
Þorbjörg Sólbjartsdóttir skipar 2. sæti á listanum.
„Lýðheilsa er eitt helsta stefnumál okkar í Framsókn og beinast áherslur okkar að breiðum aldurshópi.
Í fyrsta lagi viljum við efla forvarnir fyrir unglinga með greiningar á borð við kvíða og þunglyndi. Þessa aðstoð viljum við kalla snemmtæka íhlutun. Í kringum þessa einstaklinga á að vera forvarnarteymi sem sinnir bæði líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Samkvæmt rannsóknum hafa þrír þættir mest áhrif á andlega heilsu: Sofa rétt, borða rétt og stunda líkamsrækt. Við teljum að með því að auka styrkveitingu til þessa hóps með ráðum eins og heilsuávísun, sem myndi koma í formi frístundastyrks, sé komin fram mjög góð forvörn gegn félagslegri einangrun og í versta falli sjálfsvígum.
Í öðru lagi viljum við að auka lífslíkur aldraðra. Því teljum við að það sé mjög mikilvægt að grípa til ráðstafana fyrir þann hóp sem er komin að og á eftirlaun. Áhættusjúkdómar eins og beinþynning og sykursýki 2 eru alvarlegur fylgikvilli öldrunar og geta reynst banvænir. Það er því mikilvægt að þessi hópur eigi kost á hreyfingu við sitt hæfi og að fá ráðleggingar varðandi matarræði þeim að kostnaðarlausu. Ellilífeyririnn dugar allt of mörgum aðeins rétt fyrir helstu nauðsynjum og er hreyfing því allt of sjaldan í forgangi. Heilbrigð sál í hraustum líkama hefur mikið forvarnagildi og sparar mikla fjármuni í heilsugæslu en þó það mikilvægasta, eflir og bætir líðan fólks.“

Birkir

Birkir Már Árnason

Beitum okkur fyrir lagningu Sundabrautar
Birkir Már Árnason skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins.
„Við getum öll verið sammála því að undanfarin ár hefur umferð um Mosfellsbæ og Mosfellsdal stóraukist. Fólk ekur í gegnum fallega bæinn okkar til og frá sveitafélögum í nágrenni okkar, mest til að t.d. að sækja vinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er mikil aukning ferðamanna sem fara í gegnum bæinn um Mosfellsdal til helstu ferðamannastaða Íslands, s.s. Þingvalla, Gullfoss og Geysi. Hraðakstur, slit á götum, mengun og aukin slysahætta eru fylgifiskar mikillar umferðar.
Við í X-B leggjum því áherslu á:
Að bæta almennar umferðarmerkingar til að takmarka hraðakstur til að koma í veg fyrir slys á þjóðvegi 1, í Mosfellsdal og í nýjum hverfum bæjarins, hvar slíkum er verulega ábótavant í dag. Einnig viljum við beita okkur fyrir lagningu Sundabrautar sem myndi létta verulega á þungaumferð um gatnakerfi Mosfellsbæjar og stytta tíma vegfaranda sem allajafna færu í gegnum Mosfellsbæ til þess eins að komast til borgarinnar.“

Útskrifa sérhæfða starfsmenn íþróttamannvirkja

ithrottathjalfun

Föstudaginn 4. maí útskrifuðust 23 sérhæfðir starfsmenn íþróttamannvirkja eftir 150 stunda þjálfun sem unnið hefur verið að síðasta árið.
Námið var þróað og útfært í samstarfi við starfsmenn og forstöðumenn íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, en umsjón og framkvæmd verkefnisins var í höndum starfsþjálfunarfyrirtækisins Skref fyrir skref sem hefur sérhæft sig í fullorðinsfræðslu og starfsþróun.
Mosfellsbær er fyrst sveitarfélaga til þess að veita starfsmönnum aðgang að þessari tegund starfstengds náms en sérstaklega er kveðið á um það í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitafélaga og Starfsmannafélags Mosfellsbæjar.

Auka fagmennsku og vellíðan í starfi
Í upphafi útskriftarinnar, sem haldin var í íþróttamiðstöðinni Kletti, bauð Haraldur Sverrisson gesti velkomna. Að því loknu sagði forstöðumaður íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, Sigurður Guðmundsson, frá markmiðum námsins.
Meginmarkmið námsins er að auka fagmennsku og vellíðan í starfi og byggja upp traust, ábyrgð, samstarf og virkni á vinnustaðnum. Þá sagði Hansína B. Einarsdóttir hjá Skref fyrir skref frá uppbyggingu námsins.
Loks afhenti Linda Udengaard framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs viðurkenningarskjöl til þátttakenda.

Grunnur að góðri þjónustu
„Við hjá Mosfellsbæ viljum standa vel að þjálfun og starfsþróun okkar starfsmanna. Þetta nám er vel til þess fallið að styðja við starfsmenn íþróttamannvirkja um leið og við styrkjum þá þjónustu sem við veitum íbúum í íþróttahúsum og laugum Mosfellsbæjar. Vel þjálfaðir og ánægðir starfsmenn sem geta þróast í sínu starfi eru grunnur að góðri þjónustu og öryggi í okkar íþróttamannvirkjum.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þetta nám styður við okkar vinnu í þeim efnum enda varðar það í senn þjónustu, öryggi og framþróun starfseminnar,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Vinnufrí

Heilsumolar_Gaua17mai

Ég var norður á Ströndum í síðustu viku að hjálpa til að standsetja hús sem stórfjölskyldan á þar. Þetta var fjögurra daga ferð. Lífið var mjög einfalt. Við vöknuðum snemma. Unnum fram á kvöld. Tókum nokkrar matarpásur. Fórum í sund eða heitan pott eftir vinnu. Sofnuðum snemma.

Það var ekkert sjónvarp í húsinu. Slökkt á útvarpinu. Ég ákvað að taka netfrí þessa daga og vissi því lítið hvað var að gerast í hinum stóra heimi utan Bjarnarfjarðar. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Hausinn fékk frí á meðan líkaminn vann. Góður félagskapur og vinnufélagar. Vinnan gekk vel en það var ekkert stress eða læti. Veðrið var notalegt. Það er mikil gróðursæld í firðinum og urmull af fuglum af ýmsu tagi að vinna í vorverkunum rétt fyrir utan húsið.

Ég mæli virkilega með nokkra daga frívinnuferðum þar sem maður skiptir alveg um umhverfi og hvílir sig á því sem maður fæst við dags daglega. Það er gott fyrir líkamlega og andlega líðan og maður skilur eitthvað eftir sig í leiðinni. Það var líka gott að koma til baka. Sultuslakur og hlaðinn orku. Klár í að halda áfram með lífið heima og hlakka til alls þess sem á eftir að gerast í sumar.

Þetta verður viðburðarríkt og skemmtilegt sumar. Á mörgum sviðum. Eitt sem ég hlakka mikið til er að fara á Guns N‘ Roses tónleikana á Laugardalsvelli í júlí. Mér finnst ég eiga tónleikana skilið eftir að hafa ferðast um Evrópu fyrir nokkrum árum með góðum félögum, haldandi á sístækkandi bunka af Guns N‘ Roses tólftommum (vínyllinn tekur vel í). Þeir hefðu alveg mátt koma fyrr blessaðir en betra er seint en aldrei og ég bíð spenntur eftir þeim. Er með hina hráu G N‘ R Lies plötu í eyrunum á meðan ég skrifa þessar pælingar. Stillt hátt!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. maí 2018

Snarpur er nýtt app í símann

Viðar með Snarp við höndina.

Viðar Hauksson með Snarp við höndina.

Hjónin Viðar Hauksson og Lýdía Grímsdóttir hafa undanfarið ár hannað og þróað smáforritið Snarpur sem er aðgengilegt fyrir bæði Android og Iphone notendur.
Snarp­ur er smáforrit sem eykur skilvirkni í viðskiptum fagaðila í iðngreinum og einstaklinga sem þurfa á fagaðstoð að halda. Viðar er iðnaðarmaður og fékk hugmyndina þegar hann sjálfan vantaði minni verkefni á milli stærri verkefna.

Einfalda ferlið
„Hugmyndin er að einfalda ferlið á milli fagaðila og einstaklinga. Í gegnum forritið geta einstaklingar nálgast fagaðila í ólíkum iðngreinum, búið til og deilt verki á markaðstorgi Snarps og óskað eftir tilboðum fagaðila. Að sama skapi gerir forritið fagaðilum kleift að nálgast auglýst verk einstaklinga sem henta tíma og aðstæðum hverju sinni og gera í þau tilboð.“

Hugmynd í stöðugri þróun
„Smáforritið eða appið er mjög einfalt í notkun og bæði einstaklingar og fagaðilar geta stofnað sinn aðgang. Segjum sem svo að þú sért að fara taka eldhúsinnréttinguna í gegn og vanti í verkið smið, rafvirkja og pípara. Þú býrð þá til verk þar sem þú óskar eftir tilboði frá þessum fagaðilum allt á einum stað. Þetta einfaldar allar boðleiðir og skilar vonandi skilvirkari vinnu.
Við erum spennt að sjá hvernig viðbrögðin verða og ætlum okkur að halda áfram að þróa þessa hugmynd,“ segir Viðar að lokum.

Hér er hægt að nálgast appið í símann.

Veitingastaðurinn opinn fyrir alla

Kokkarnir Joost van Bemmel og Karl Jóhann Unnarsson standa vaktina í golfskálanum.

Blik Bistro & Grill er veitingastaður sem opnaði síðasta sumar í Kletti, íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Veitingastaðurinn opnar þriðjudaginn 1. maí með nýjum og spennandi matseðli. Staðurinn er opinn yfir sumartímann en hægt er að bóka viðburði og veislur yfir veturinn.
„Veitingastaðurinn er fyrir alla, það geta allir komið hingað hvort sem það er í morgun-, hádegis- eða kvöldmat, eða allt þar á milli. Matseðillinn hjá okkur er fjölbreyttur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur.
„Það er skemmtilegt að segja frá því að þegar við hönnuðum matseðil sumarsins gerðum við tvær tillögur að kjúklingaborgara. Ég gerði annan og Karl Jóhann Unnarsson, sem er nýr kokkur hjá okkur, gerði hinn. Það var ekki hægt að gera upp á milli og því enduðu þeir báðir á seðlinum,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur og hlakkar til sumarsins.

Sérsmíðaður skápur hluti af matseðli
„Við erum búin að leggja mikla vinnu í matseðilinn svo erum við alltaf með rétt dagsins og súpu í hádeginu. Raggi Óla vinur minn er að sérsmíða fyrir okkur skáp sem er partur af matseðlinum en þar verðum við með súpu, salat og ferskar kryddjurtir.

Sértilboð og annað skemmtilegt
„Hugmyndin hjá okkur er svo að vera með skemmtileg sértilboð og þemakvöld. Til dæmis á mánudögum verður tilboð af rifjum eins og hver og einn getur borðað. Á þriðjudögum verður pítsukvöld og miðvikudagar verða grænmetisdagar svo eitthvað sé nefnt.
Matseðillinn er settur upp þannig hjá okkur að það er hægt að panta fyrir 1-4 og deila eins og til dæmis tacos og fleira sem er mjög hentugt fyrir vinahópa.
Svo verð ég að minnast á að við erum með mikið úrval af kokteilum og verðum með „happy hour“ á kokteilum. Hægt er að fylgjast með öllum viðburðum og tilboðum á Facebook-síðunni,“ segir Joost og vonast til að sjá sem flesta Mosfellinga í sumar.