Hildur Ágústsdóttir markþjálfi og Jón Finnur Oddsson flugvirki deila saman reynslu af kulnun.
Kulnun er sálfræðileg lýsing á afleiðingum langvinnrar streitu. Kulnun er ekki bara tengd starfi því oft er einnig um að ræða álagsþætti heima fyrir. Helstu einkenni eru þreyta, pirringur, spenna, depurð, gleymska, og áhugaleysi.
Hildur og Jón Finnur hafa bæði reynslu af kulnun og segja þetta grafalvarlega stöðu að vera í. Þau eru tilbúin að deila sögu sinni með lesendum Mosfellings en þau eru enn að vinna sig úr þessum erfiðu aðstæðum.
Hildur er fædd í Reykjavík 10. október 1978. Foreldrar hennar eru þau Sigurlaug Vilhjálmsdóttir verslunarmaður og Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri og rafvirkjameistari.
Jón Finnur er fæddur í Reykjavík 12. maí 1976. Foreldrar hans eru þau Guðrún Jónsdóttir bókari og Oddur Þórðarson rannsóknarmaður í byggingariðnaði.
Hildur ólst upp í Breiðholti, gekk í Seljaskóla og varð stúdent frá MK.
Hún hóf störf í ferðaþjónustu árið 1998 og starfaði m.a. á bílaleigum, ferðaskrifstofum og við skipulagningu hvataferða. Eftir nám í Sviss fékk Hildur starf á hóteli þar.
Í dag starfar hún sem ACC markþjálfi og rekur sitt eigið fyrirtæki, Vilji Markþjálfun.
Jón Finnur ólst upp í Mosfellsbæ, gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og varð stúdent frá FB.
Jón fór í flugvirkjanám til Bandaríkjanna og útskrifast frá Colorado Aerotech. Eftir það starfaði hann hjá Cessna í Wichita og í París og síðar hjá Jet Aviation í Sviss.
Frá árinu 2007 hefur hann starfað hjá Air Iceland Connect.
Byrjuðu búskap í Sviss
Leiðir Hildar og Jóns Finns lágu saman árið 2000 en það var sameiginleg vinkona sem kynnti þau þótt leiðir þeirra hafi ekki legið saman í það skiptið. Þau héldu þó sambandi símleiðis enda bjuggu þau í hvort í sínu landinu á þessum tíma. Jón kom heim í stutt stopp árið 2002 og þá skruppu þau saman í ísbíltúr og hafa verið saman síðan.
„Ég flutti til Jóns um haustið og var fram að jólum en þá fór ég til Ástralíu í hótelstjórnunarnám. Eftir hálft ár í fjarbúð fluttum við saman til Sviss og ég lauk náminu þar og Jón fékk vinnu á flugvellinum í Zürich.“
Húsið var strax of lítið
„Við fluttum heim árið 2006 og frumburðurinn okkar, Róbert Dagur, leit dagsins ljós 2008 og Elmar Snær 2011. Ég tók við hótelstjórastöðu og var einnig rekstrarstjóri á upplýsingamiðstöð og Jón hóf störf á Reykjavíkurflugvelli.
Við fluttum í Fálkahöfðann í Mosfellsbæ árið 2009 en festum síðar kaup á einbýlishúsi og fóru kaupin fram á föstudegi. Á mánudeginum komst ég að því að ég væri ófrísk í þriðja sinn og að tvíburum. Húsið var því strax orðið of lítið og við fengum vægt taugaáfall. Tvíburasysturnar, Lilja Guðrún og Tinna Sóley, fæddust svo í janúar 2016.“
Álagið var mjög mikið
„Mitt stærsta og fyrirferðamesta hlutverk í lífinu er að vera unnusta og móðir fjögurra barna sem er jafnframt mest krefjandi og gefandi verkefni sem ég hef tekið að mér. Svo er ég dóttir, systir, tengdadóttir, vinkona og svo mætti lengi telja,“ segir Hildur þegar tal okkar hefst af reynslu hennar af kulnun en tímabil Hildar spannar töluvert lengri tíma en Jóns.
„Saga mín er flókin og löng og spannar 10 ár en hún hófst árið 2009. Það ár skipti ég um vinnu og elsti sonurinn var eins árs. Ég hef alla tíð verið dugleg að vinna og datt í gírinn en svo hlóðst líka upp álag utan vinnu.“
Myndin er greftruð í huga mér
„Ég veiktist skyndilega, fékk illkynja frumubreytingar og þurfti að fara í aðgerð sem gekk vel. Ég var samt með endalausar áhyggjur af því að þetta myndi dreifa sér aftur.
Ég fékk ekki þá aðstoð sem ég þurfti og áhyggjurnar nærðust inni í mér. Ég var þó lánsöm að vinnuveitendur mínir sýndu mér skilning.
Stuttu síðar fékk ég annað áfall þegar ég horfði á strákinn minn detta ofan í djúpan læk en ég náði til hans í tæka tíð sem betur fer. Þetta var hrikaleg tilfinning og myndin af drengnum mínum liggjandi undir yfirborði læksins er greypt í huga mér.
Ég fór í fyrsta veikindaleyfið árið 2010 og var mánuð í burtu vegna álags og þreytu.“
Erfitt að sjá fjölskylduna splundrast
„Lífið hélt áfram en svo fór að bera á erfiðleikum í hjónabandi foreldra minna. Skilnaður þeirra var erfiður og staðurinn sem hafði verið okkar örugga heimili var allt í einu ekki lengur til. Þetta tók mikið á mig en enn erfiðara var að fylgjast með ósætti milli fjölskyldumeðlima vegna skilnaðarins.
Mitt í þessu tók yngri sonur okkar upp á því að hvíla sig sem minnst þannig að svefninn fór fyrir bí. Þegar ég átti að fara vinna aftur eftir sex mánuða orlof þá var ég úrvinda og var engan veginn tilbúin til að hefja störf aftur.“
Búin að vera í bullandi afneitun
„Mamma greinist með krabbamein og ég var eyðilögð og langaði að hjálpa henni meira en ég gerði en staðan á mér þarna var ekki góð. En sem betur fer sigraðist hún á þessu og er heilsuhraust í dag.
Haustið 2012 kom svo næsti skellur. Fram að því var ég búin að vera í bullandi afneitun með álagið þannig að það kom sjálfri mér að óvörum. Ég var á leið á ferðaráðstefnu og fór heim til að skipta um föt en komst ekki út aftur. Ég brotnaði saman og grét út í eitt og var skikkuð í annað veikindaleyfi.
Ég fór svo aftur í vinnuna og allt var óbreytt nema ég minnkaði starfshlutfallið niður í 75% og tók veturinn í að reyna að byggja mig upp.“
Ég átti ekkert erindi þangað
„Annar fjölskylduskellur kom svo upp og það mál átti ekki eftir að hjálpa til þannig að árið 2014 var því farið að halla verulega undan fæti hjá mér á ný og ég var greind með kulnun. Það var sótt um fyrir mig á Heilsustofnuninni í Hveragerði og ég man hvað mér fannst það hræðileg tilhugsun, mér fannst ég ekki eiga erindi þangað.
Ég minnkaði vinnuna í 50% og ætlaði í nám en því lauk fljótt því ég gat ekki einbeitt mér. Heilinn var bara ekki á sínum stað og ég grét bara fyrir framan tölvuna.“
Endaði á bráðamóttökunni
„Listinn af stöðugum áhyggjum hlóðst upp, sinna heimili, vinnu, áhyggjur að fá aftur krabbamein, peningaáhyggjur, vefjagigt, sjóntruflanir, heilaþoka, dró mig úr öllum hittingum, þunglyndi, kvíði og endaði á að fá ofsakvíðakast sem endaði með sjúkrabíl á bráðamóttöku.
Fyrsta vinnudag ársins 2015 mætti ég ekki til vinnu, ég sat heima og grét og hugsaði djöfulsins aumingjaskapur er þetta hjá annars hraustri konu. Við tók biðtími að komast inn hjá Virk í starfsendurhæfingu og bið eftir innlögn í Hveragerði. Ég reyndi smátt og smátt að tjasla mér saman og það gekk ágætlega.“
Fór heim úthvíld og endurnærð
„Ég fór síðan inn á Heilsustofnunina og nýtti þá dvöl vel. Fór aldrei heim á þessum fjórum vikum með stuðningi mannsins míns og fjölskyldu sem sáu um börnin og heimilið á meðan. Dvölin var frábær og ég fór heim úthvíld. Virk tók síðan við og þar fór í gang ýmis vinna, hreyfing, sálfræðingar, markþjálfun og talmeðferð.
Við hjónaleysin vorum bjartsýn með lífið þarna 2015 en vegna óléttu minnar þurfti ég að hætta í Virk þar sem ég var ekki á leið út á vinnumarkaðinn í bráð.
Eftir fæðingu tvíburarana tók við mest krefjandi tímabilið af öllu fyrir okkur bæði, því orkan okkar var búin. Stelpurnar voru mjög veikar fyrstu þrjú árin, meira en eðlilegt getur talist. Álagið sem fylgdi þessum tveimur yndislegu einstaklingum var bara eitthvað sem við vorum ekki að ná utan um. Hægt og rólega fjarlægðumst við hvort annað því við vorum uppgefin eftir svefnleysi og veikindi.“
Vissi ekki hvort ég gæti haldið áfram
„Vandamálin hlóðust upp og verkjalistinn kominn langt út fyrir A4 blað. Öll gömlu vandamálin voru komin í heimsókn. Ég missti skap mitt út af engu og það var engin sönn gleði. Þetta var hræðilegur staður til að vera á þegar maður á að vera hamingjusamur með lífið með fjögur heilbrigð börn og nýtt hús. En sannleikurinn er sá að ég hef aldrei verið eins einmana á ævinni.
Það sem ég áttaði mig ekki á í öllum þessum látum var ástandið á manninum mínum. Ég var búin að vera að furða mig á hegðun hans og afskiptaleysi akkúrat þegar við þurftum að vinna sem mest saman.
Ég fór samt aftur í Hveragerði margfalt verr stödd en ég var síðast. Þarna var ég orðin svo örmagna að ég vissi ekki hvort ég gæti haldið áfram með lífið. Eina ljósið sem ég sá var að vera þarna því mér hafði liðið svo vel eftir síðust dvöl.“
Setti súrefnisgrímuna á mig fyrst
„Þegar ég var komin í innlögn þá gerist það að maðurinn minn var kominn í nákvæmlega sömu stöðu og ég og kominn í veikindaleyfi vegna kulnunar, gæfulegt.
Þetta var sennilega ekki besta tímasetningin fyrir mig að fara í Hveragerði en ef ég hefði ekki gert það þá hefði verið úti um okkar samband líka og þess óskaði ég ekki. Dvölin var erfið vitandi það að manninum mínum og börnum leið illa heima.
Ég er viss um að þeim sem hjálpuðu til í fjarveru minni hafi ekki litist á blikuna. Ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun þá hefði fjölskyldan okkar splundrast. Þarna var ég einfaldlega að að setja súrefnisgrímuna á mig fyrst.“
Duglega fólkið endar yfirleitt hjá mér
„Ég byrjaði fyrst að finna fyrir streitueinkennunum 2015 sem jukust svo á árunum 2016 og 2017 og ég endaði í veikindaleyfi 2018,“ segir Jón Finnur er við rifjum upp hans reynslu. „Þegar álagið er mikið í vinnunni og heima fyrir þá endist maður ekki lengi, það er eins og að brenna kerti í báða enda á sama tíma. Það voru jú einhverjir búnir að benda manni á ástandið en maður hlustaði bara ekki.
Það fyrsta sem læknirinn segir við mig þegar ég leitaði til hans var „hafðu engar áhyggjur, duglega og samviskusama fólkið eins og þú endar yfirleitt hér hjá mér. Það eina sem við þurfum til að laga þetta, er tími,” og að heyra þetta var þvílíkur léttir.“
Að lenda í þessu er ákveðin vakning
„Að ganga í gegnum svona tímabil er erfitt og það fylgir þessu ákveðin skömm og manni finnst maður vera að bregðast öllum með því að fara í veikindafrí. En maður verður bara að takast á við þetta og gera breytingar. Stuðningur vinnuveitanda skiptir miklu máli og ég var heppinn.
Ég byrjaði í 50% vinnu haustið 2018 og er núna kominn í fullt starf. Að mæta aftur á sama vinnustað eftir veikindafrí var eitt það erfiðasta í ferlinu. Maður áttar sig á að því að maður hefur miklu minna þol gagnvart áreiti og álagi heldur en maður hafði. Það er magnað hvað streitueinkennin eru fljót að koma fram aftur.
Ég tel mig ekki vera búinn í þessu ferli en ég er að læra betur á sjálfan mig til að fara ekki aftur í þetta ástand. Að lenda í svona stöðu er samt ákveðin vakning sem ég held að hafi verið góð fyrir mig. Þetta breytti mér til hins betra og ég horfi öðruvísi á lífið.“
Nýtir reynslu sína til að hjálpa öðrum
„Ég fann út eftir veru mína í Virk að ég þurfti að skipta um starfsvettvang,“ segir Hildur. „Mér fannst eins og ég þyrfti að nýta mér reynslu undanfarinna ára til að hjálpa öðrum.
Ég byrjaði í markþjálfanámi hjá Evolvia og lauk þaðan alþjóðlegum réttindum og stofnaði svo mitt eigið fyrirtæki. Núna er ég í framhaldsnámi sem ég lýk í maí 2019.“
Erum á betri stað í dag
„Það var mikil þörf á tiltekt í sambandi okkar Jóns en við náðum að losa um spennuna sem hafði hlaðist upp á milli okkar. Breytingin á okkur sjálfum sem einstaklingum og sem pari er gífurleg. Við erum í betra jafnvægi líkamlega og andlega og höldum áfram að rækta heilsuna með útiveru og hreyfingu. Eftir situr þó að við erum bæði með mun skertara þol við álagi og erum meðvitaðri um líðan okkar.
Við hvetjum alla sem finna fyrir örmögnun í lífinu að leita sér hjálpar strax því það er leið út, við getum staðfest það,” segir Hildur og brosir til Jóns.
Mosfellingurinn 2. maí 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs