Stofna styrktarsjóð í nafni Kötlu Rúnar sem lést 2007

rúna birna, kristjana og arna

Mæðgurnar Rúna Birna, Kristjana og Arna hafa stofnað styrktarsjóðinn Kraftur Kötlu.

Mæðgurnar og Mosfellingarnir Kristjana Arnardóttir, Arna Hagalínsdóttir og Rúna Birna Hagalínsdóttir hafa stofnað styrktarsjóðinn Kraftur Kötlu. Markmið sjóðsins er að styðja við börn í þróunarlöndum til uppeldis og menntunar.
„Hugmyndin að sjóðnum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar okkur mæðgum langaði til að hefja einhvers konar styrktarstarfsemi í nafni Kötlu Rúnar, dóttur Rúnu, sem lést í janúar 2007.
Katla gaf okkur öllum ótrúlegan kraft, kraft til að standa saman, kraft til að miðla og hjálpa og æðri skilning á því að allir fá ekki sömu tækifærin,“ segir Arna en hugmyndin hefur verið í mótun í nokkur ár.

Öll börn hafi möguleika á menntun
Undir lok árs 2014, þegar Rúna var búsett ásamt fjölskyldu sinni í litlum bæ í suðurhluta Eþíópíu, bankaði upp á hjá þeim sárafátæk ung stúlka og óskaði eftir að fá að vinna hjá þeim. Rúna hafnaði stúlkunni og sagðist því miður ekki vera með neina vinnu en þessi áræðna stúlka lét ekki segjast og stóð fyrir utan hús fjölskyldunnar í tvo daga. Að lokum fór svo að Rúna og sótti hana og bauð henni starf við þrif.
„Stúlkan kunni ekkert til þrifa, enda alin upp og bjó sjálf í moldarkofa en hún lagði sig hins vegar alla fram við að læra tökin, mætti daglega til starfa og varð fljótt ómissandi partur af fjölskyldunni. Eftir því sem á leið tók ég eftir því að þegar stúlkan var að fara heim í lok dags laumaði hún alltaf ávöxtum og öðrum afgöngum í poka og tók með sér. Kom í ljós að hún var að taka sér mat til að fara með heim því að maðurinn hennar var mjög veikur. Þau áttu fjögurra ára gamlan dreng sem heitir Eybo.
Eftir þetta var hún alltaf send heim með mat í lok dags og var hvött til að hafa drenginn sinn með sér í vinnuna, enda nóg af börnum á heimilinu til að leika sér við. Til að gera langa sögu stutta þá varð þessi litla fallega fjölskylda ómissandi hluti af heimilislífinu. Okkur fannst ómögulegt að Eybo hefði ekki sömu tækifæri og okkar eigin börn til að sækja góðan skóla,“ segir Rúna.

Auðvelt að rétta hjálparhönd
Þarna kviknaði krafturinn og Rúna hafði samband heim til Íslands og bað nánastu fjölskyldumeðlimi um að taka höndum saman og stofna smá sjóð til að tryggja skólagöngu Eybo. Í fimm ár hefur Eybo núna sótt góðan skóla og fær þá menntun sem hann á skilið, ritföng og fatnað.
„Nú er svo komið að við viljum nýta þennan kraft og gefa fleiri börnum sömu tækifæri og Eybo hefur fengið. Kraftur Kötlu styrkir börn til skólagöngu sem búa hjá foreldrum sínum sem hafa ekki efni á að mennta þau.
Markmiðið er að veita þessum börnum aðgang að skólum í sínu landi til að þau menntist og eflist sem einstaklingar innan sinnar þjóðar. Við erum í góðu sambandi við aðra foreldra nú þegar sem bíða þess spenntir að börnin þeirra komist í góða skóla,“ segir Kristjana.

—-

Kraftur Kötlu þiggur frjáls framlög og sá sem vill gerast styrktaraðili velur sjálfur hversu mikið eða hversu oft viðkomandi styrkir börnin. Allir sem gerast styrktaraðilar fá reglulega upplýsingar um börnin, námsárangur þeirra og fjölskyldur. Hafa má samband við þær mæðgur með því að senda póst á kotlukraftur@gmail.com.