Hulda Margrét Rútsdóttir

Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins.
Árlega berast um 15 þúsund mál inn á borð 1717 og eru þau af ýmsum toga.
Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara símtölum sem berast og sem dæmi um það sem fólk hefur samband vegna, bæði fyrir sig eða aðstandendur, má nefna:
• Einmanaleika, þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaða
• Átraskanir, geðraskanir, sorgir og áföll
• Fjármál, námsörðugleika, húsnæðisvandamál, atvinnuleysi
• Rifrildi og samskipti, ástarmál, fordóma
• Barnaverndarmál
• Kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi, einelti og stríðni
• Heilbrigðisvandamál, neyslu og fíkn
• Kynferðismál, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma
Þessi listi er á engan hátt tæmandi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.
Síminn og netspjallið er opinn allan sólarhringinn og er ókeypis að hringja í 1717 úr öllum símum, líka þegar inneignin á símanum er búin. Fullum trúnaði og nafnleynd er heitið.

Þegar neyðarástand skapast gegnir Hjálparsími Rauða krossins 1717 hlutverki sem upplýsingasími, s.s. í jarðskjálftum eða eldgosum eða þegar rýma þarf stór svæði. Þar eru m.a. veittar upplýsingar til aðstandenda sem spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina.

Hulda Margrét Rútsdóttir
verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

jafnréttis

FemMos hlýtur jafnréttis­viðurkenningu Mosfellsbæajr

jafnréttis

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn þann 18. september í sal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var „Mosfellsbær – Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi“.
Fjallað var um ofbeldi og birtingarmyndir þess í víðu samhengi. Að umræðu dagsins komu aðilar sem unnið hafa með einum eða öðrum hætti að því að sporna gegn ofbeldi og að opna á umræðuna um málefnið.

Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi
Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði um birtingarmyndir ofbeldis og hvernig þær eru ávallt að þróast og breytast í samræmi við breytingar í samfélaginu. Þá lýsti hún reynslu brotaþola frá sjónarhóli þeirra sem hún hefur sinnt réttargæslu fyrir sem lögmaður.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fór yfir áherslur málaflokka sem tengjast ofbeldi sem lögreglan hefur unnið með frá árinu 2014. Þar vakti sérstaka athygli sú mikla aukning í fjölda mála þar sem tilkynnt er um ofbeldi til lögreglunnar á þessu tímabili.
Einnig voru flutt erindi þar sem starfsemi Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar var kynnt, en allir þessir staðir eru athvarf fyrir þá sem hafa upplifað ofbeldi og gegna þeir lykilatriði í að veita þolendum stuðning.

Unnið að því að jafna rétt kynjanna
Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2017 hlaut FemMos; Femínistafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. FemMos hefur unnið markvisst að því að jafna rétt kynjanna með því að sýna frumkvæði og kveikja umræðu tengda kynbundnu ofbeldi, kynjamismunun og að vekja máls og auka fræðslu í málaflokknum.
Félagið stóð fyrir fjölmörgum áhugaverðum viðburðum, meðal annars má nefna söfnun til styrktar Stígamótum undir yfirskriftinni „Ég er á móti kynferðisofbeldi“.
Haldin voru reglubundin kaffihúsakvöld þar sem kynjafræðikennsla, kynjakvóti, kynbundið ofbeldi og kynjamismunun voru rædd. Ennfremur stóð FemMos fyrir jafnréttisviku þar sem boðið var upp á ýmsa fræðslu og umræðuhópa um jafnrétti í víðum skilningi.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi FemMos í von um að fylgja eftir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.

Una Hildardóttir

Stofnleiðir

Una Hildardóttir

Una Hildardóttir

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verða sífellt vinsælli kostur og kjósa fleiri og fleiri að ferðast um á umhverfisvænni máta. Margir hafa sagt skilið við einkabílinn og hjóla frekar í vinnuna og hefur strætó aldrei verið jafn vinsæll og nú.
Við í VG fögnum því en þrátt fyrir þessa þróun er litlum sem engum peningum veitt í samgöngubætur í sveitarfélögunum í kring um Reykjavík. Mikilvægar stofnæðar þurfa viðhald og jafnvel þar sem áhersla hefur verið lögð á að bæta almenningssamgöngur hefur vegakerfið setið eftir.

Það vita það allir sem kjósa að taka Strætó til eða frá miðbæ Reykjavíkur á háannatíma að það gengur ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Jafnvel þótt Strætó bjóði upp á ferðir á 10 mínútna fresti þá er hann oft of seinn og á til að sitja fastur í morgun­umferðinni þrátt fyrir nýjar sérreinar ætlaðar strætisvögnum.
Með því að byggja upp áreiðanlegar og skilvirkar almenningssamgöngur gerum við þær að ákjósanlegri kosti en einkabílinn á ákveðnum svæðum. Slíkt væri jafnframt stórt skref í átt að uppfylla markmið okkar sem samfélags um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Við eigum að horfa til framtíðar. Í nýlegu útboði Strætó bs. á nýjum strætisvögnum kom í ljós að hagkvæmasti kosturinn væri að kaupa rafmagnsvagna. Sá kostur er bæði ódýrari en hefðbundnir díselvagnar og umhverfisvænni.
Síðustu ár hefur verið forgangsröðunin verið sú að efla almenningssamgöngur, en það þýðir ekki að vegakerfið eigi að sitja eftir. Það er mikilvægt að tryggja uppbyggingu og viðhald á mikilvægum stofnæðum og þarf að endurskoða samkomulag um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til stóraukins ferðamannafjölda.

Við í VG viljum marka sérstaklega tekjustofna sem renna óspart til samgöngumála. Nú þegar er mikið álag á vegum til og frá Keflavík vegna aukins straums ferðamanna er mikilvægt að huga vel að stofnæðum eins og Reykjanesbrautinni.
Við verðum að stunda markvissa uppbyggingu í vegamálum, leggja áherslu á bætt viðhald vega og koma sérstaklega til móts við aukinn umferðarþunga. Aðeins þannig getum við tryggt öryggi íbúa og ferðamanna.

Una Hildardóttir, viðskiptafræðinemi,
skipar 3. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.