Einn eða tveir skólar?

Foreldar barna í Varmárskóla fengu rafræna kynningu á niðurstöðum HLH ráðgjafar um stjórnskipulag Varmárskóla og tillögu hans um að skipta skólanum í tvo skóla.
Fámennt var á fundinum og því ákvað stjórn foreldrafélgsins að varpa spurningunni yfir til foreldra/forráðamanna um álit þeirra á fyrirhugaðar breytingar stjórnskipulagsins. Á heimasíðu foreldrafélagsins var einfaldlega spurt; einn eða tveir skólar?
Alls svöruðu 147 foreldar/forráðamenn könnuninni. Rúmlega helmingur eða 51% af þeim voru sammála tillögum HLH ráðgjafar um að betra væri að skipta skólanum upp í tvo sjálfstæða skóla. Það voru 26.5% sem svöruðu neitandi og 22.4% voru hlutlaus. Foreldrum/forráðamönnum gafst einnig kostur á að svara spurningunni: „Viltu koma einhverju á framfæri?”. Tæplega þrjátíu manns svöruðu og komu með ýmis konar ábendingar og tillögur. Það sem helst kom stjórn foreldrafélagsins á óvart við úrvinnslu gagnanna var hversu mikill fjöldi foreldra/forráðamanna hafði ekki vitneskju um fyrirhugaðar aðgerðir og skildi því ekki ástæðu könnunarinnar. Það er því ljóst að upplýsingaflæði varðandi skýrslu HLH ráðgjafar til foreldra/forráðamanna hefði mátt vera ýtarlegra og með meiri fyrirvara.

Hér er að neðan er samantekt úr þeim ábendingum sem barst frá foreldrum/forráðamönnum:
Jákvæð viðhorf: Eins og fram hefur komið var meirihluti forráðamanna jákvæður fyrir því að skólanum yrði skipt upp í tvo sjálfstæða skóla. Nokkrir þeirra tóku fram að tilvalið væri að skipta skólanum upp í smærri einingar. Fram kom að skólinn væri sprunginn og að með skiptingunni fengist eflaust meiri yfirsýn yfir skólastarfið.
Nýir skólastjórnendur: Algengasta ábend­ingin sem kom fram var ósk forráðamanna um að ráðnir yrðu nýir skólastjórnendur fyrir nýja skóla og mikilvægt væri að auglýsa báðar stöðurnar. Foreldrafélagið tekur undir þessar ábendingar foreldra.
Ónægar upplýsingar: Margir höfðu spurningar um hvaða breytingar þetta myndi í raun hafa í för með sér. Hvort mötuneyti yrði í báðum skólum? Hvort stoðþjónustan myndi eflast? Hvort tvö foreldrafélög yrðu starfrækt? Skýr ósk kom fram um að nauðsynlegt væri að hafa ýtarlega kynningu fyrir foreldra/forráðamenn.
Annað: Aðrir voru sáttir við stöðuna eins og hún er í dag. Fram kom að kosturinn við óbreytt fyrirkomulag væri samnýting ýmissa starfsmanna. Einnig var bent á að ef einungis væri um stjórnarfarslega breytingu að ræða myndi þetta í raun skipta litlu fyrir nemendur og foreldra/forráðamenn.
Stjórn foreldrafélags Varmárskóla mun senda fræðslunefnd Mosfellsbæjar niðurstöður könnunarinnar í von um að ábendingar foreldra reynist gagnlegar og að mark verði tekið af þeim í komandi skipulagningu skólanna.

Fh. stjórn foreldrafélags Varmárskóla
Ólafía Bjarnadóttir

Leiruvogurinn – útivistaperla í Mosfellsbænum

Úrsúla Jünemann

Við sem búum í Mosfellsbænum erum stolt af náttúrunni allt í kringum okkur.
Hér getur hver og einn stundað útivist við sitt hæfi. Það er sérlega mikilvægt á þessum erfiðu tímum þar sem COVID setur okkur svo þröngar skorður. Fjöllin í kringum okkar laða að alveg eins og skóglendin. Fjórar fallegar ár renna í gegnum bæjarlandið eða rétt hjá. Þar eru fossar og frábærar gönguleiðir.
En svo er ein perla í landi Mosfellsbæjar sem ég vil nefna sérlega: Strandlengjan við Leiruvoginn. Innst í voginum er friðlandið við Varmárósa. Það er nýbúið að stækka þetta svæði og er það gott.
Æskilegt væri að Leiruvogurinn, sem hefur verið lengi á náttúruminjaskrá, væri einnig friðlýstur í heild. Reykjavíkurborg hefur stigið skrefið til fulls og nýlega friðlýst sína strandlengju frá Blikastaðarkró og vestur úr.
Hvers vegna gátu mosfellsku yfirvöldin ekki verið í samfloti í þessu til að skapa eina heild?
Leirurnar í voginum eru sérstakar og mjög dýrmætt lífríki. Þær eru ákaflega frjósamar og þar þrífst urmull af smádýrum sem gefa hundruðum jafnvel þúsundum fugla fæði allt árið í kring.
Í leirurnar leita vetrarfuglar þegar lítt annað er að fá í gogginn. Svæðið er líka afar mikilvægt fyrir umferðarfugla sem stoppa hér á leiðinni til að birgja sig upp áður en þeir halda áfram. Má þar nefna margæs, rauðbrysting og fleiri tegundir.
Útivistarfólk í Mosfellsbænum og reyndar líka í Reykjavík vilja væntanlega varðveita þessa strandlengju og vernda hana. Það á við alla þá sem njóta einstakrar náttúru við sjóinn: göngufólk, skokkarar, hestamenn, hjólreiðafólk og golfarar. Að fara meðfram strandlengjunni jafnt að sumri sem vetri er alltaf sérstök upplifun.

Úrsúla Jünemann

Býrð þú yfir þrautseigju og seiglu?

Ólöf Kristín Sívertsen

Mörg okkar gera markvissar æfingar til að efla líkamlegt úthald og vöðvastyrk en spurning hversu mörg okkar gera æfingar til að auka andlegan styrk og verða sterkari í daglegu lífi?

Hvað er þrautseigja/seigla?
Þessi hugtök eru sannarlega ekki ný af nálinni enda voru þau og merking þeirra til umræðu hjá forngrískum heimspekingum á borð við Aristóteles og Plató. Hugtökin er náskyld og segja sumir að seigla sé hluti af þrautseigju en hér verða þau lögð að jöfnu.
Þrautseigja/seigla er notað um þá færni sem við beitum þegar við mætum mótlæti í lífinu og það að gefast ekki upp þó að á móti blási. Hún einkennist af staðfestu, andlegum styrk og og úthaldi til að takast á við áskoranir og krefjandi breytingar í lífi okkar. Þeir sem hafa náð að tileinka sér þrautseigju/seiglu eiga það flestir sameiginlegt að hafa trú á eigin getu, vera sjálfsöruggir, sjálfstæðir, ábyrgðarfullir og líta jákvæðum augum á lífið.

Vellíðan og farsæld
Þrautseigja/seigla kemur ekki í veg fyrir erfið tímabil eða áföll í lífi okkar en þessir eiginleikar gera það af verkum að við eigum auðveldara með að takast á við áskoranir og halda áfram farsælu lífi þrátt fyrir krefjandi tímabil. Þótt við búum yfir þessum eiginleikum kemur það ekki í stað þess að leita aðstoðar sérfræðinga ef á þarf að halda á erfiðum tímum, slíkt getur verið mikilvæg leið til vaxtar og þroska.

Þrautseigja/seigla er talin samstanda af félagslegri hæfni, samskiptahæfni, lífsleikni, sjálfsstjórn og því umhverfi og aðstæðum sem við búum við.
Það sem styður við þrautseigjuna/seigluna, og þar með vellíðan okkar og farsæld í lífinu, er að ástunda heilbrigðan lífsstíl sem einkennist af góðum venjum s.s. að vinna með eigin tilfinningar, hvílast og nærast vel, hreyfa sig reglulega, stunda útivist og eiga í góðum félagslegum samskiptum.

Leggjum rækt við andlegan styrk, lærum um leiðir hugans og látum það endurspeglast í viðhorfum okkar og hegðun.
Bjartsýni og þrautseigja/seigla eru eitt af því mikilvægasta sem við lærum því þannig tekst okkur betur að takast á við hindranir og njóta lífsins.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnastjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Guðrún Marínósdóttir

Í nóvember 2020 bauð félagsmálaráðuneytið fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, ásamt sex öðrum sveitarfélögum í landinu, að vera með í tilraunaverkefni um framkvæmd félagslegrar ráðgjafar sem sérstaklega snýr að skilnaðarráðgjöf.
Markmið samkomulagsins um verkefnið er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Verkefnið snýr að eflingu félagslegrar ráðgjafar með áherslu á skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál.

Félagsmálaráðuneytið tryggir innleiðingu verkefnisins hvað varðar kostnað vegna samninga, annars vegar við danska fyrirtækið Samarbejde Efter Skilsmisse (SES) og hins vegar við íslenska sérfræðinga sem hafa umsjón með innleiðingu verkefnisins á Íslandi, þ.m.t. þýðingu efnis, fræðslu og handleiðslu til starfsmanna. Gildistími verkefnisins er 1. janúar til 30. júní 2021.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fékk kynningu á verkefninu 17. nóvember 2020. Verkefnið var síðan staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. nóvember 2020. Félagsráðgjafar fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hafa nú fengið þjálfun og kennslu frá sérfræðingum SES í þeim gagnreyndu aðferðum sem notaðar eru í verkefninu og geta þannig stutt við þá foreldra sem taka þátt í SES.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir foreldrar sem taka þátt í SES skilnaðarráðgjöf líður betur bæði andlega og líkamlega, en þátttaka foreldra hefur einnig áhrif á bætta líðan barna þeirra.

Ráðgjöfin er miðuð við foreldra barna 0-18 ára. Ráðgjöfin miðar að því að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi milli foreldra sem standa í skilnaðarferli og á þann hátt að vernda börn þeirra í ferlinu. Í gegnum verkefnið öðlast foreldrar færni og verkfæri til að takast á við óvæntar uppákomur sem tengjast skilnaðinum sem og skilning á viðbrögðum barna sinna við honum.

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda hagsmuni barnsins í ferlinu og bæta andlega og líkamlega líðan foreldra og barns. Úrræði verkefnisins sem í boði eru:
1. Rafrænt námskeið.
Námskeiðið samanstendur af þremur áföngum: Áhrif skilnaðar á foreldra, viðbrögð barna við skilnaði og samvinna foreldra við skilnað.
2. Sérhæfð ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Mosfellsbæjar.
3. Hópnámskeið. Námskeið fyrir foreldra er fyrirhugað á árinu (2021) þar sem ítarlega verður fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Mikilvægt er að hafa í huga að ráðgjöfin þarf ekki að fara fram jafnhliða í skilnaðarferli og er einstaklingsmiðuð. Þannig er hún líka fyrir foreldra þótt lagt sé um liðið frá skilnaði. Ekki er þörf á að báðir foreldrar taki þátt í SES verkefninu, þó svo það sé æskilegt, heldur getur annað foreldrið hæglega nýtt sér úrræðin sem í boði eru.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á samvinnaeftirskilnad.is, og á heimasíðu Mosfellsbæjar, þar sem einnig er hægt að sækja um í ráðgjöfina í gegnum mínar síður. Þá hefur samstarfsaðilum fjölskyldusviðs verið kynnt úrræðið.

Fyrir hönd SES hjá Mosfellsbæ,
Guðrún Marinósdóttir,
Stjórnandi barnaverndar

Vorhreingerningar

Michele Rebora

Veturinn í vetur hefur verið afskaplega blíður hér í bænum og lítið tilefni til að kvarta undan veðri.
Því kitlar hækkandi sól og lengri dagsbirta eflaust marga til að huga að vorverkum, hvort sem er í görðum, hesthúsum, bílskúrum eða geymslum. Vorinu fylgir oft innileg löngun til endurnýjunar, til þess að taka til og gera hreint. Tiltektin og endurnýjunin skila okkur vellíðan og snyrtilegu nærumhverfi en leiða jafnan af sér einhvers konar úrgang, eitthvert „drasl“ sem við þurfum að losa okkur við. Þá er gott að staldra dálítið við og velta fyrir sér hvernig best er bera sig að.
Sumt sem við sjálf höfum ekki lengur not fyrir getur komið sér vel fyrir aðra. Nýtum okkur t.d. hverfissíður á Facebook og auglýsum hlutina gefins, spörum okkur sporin og stuðlum um leið að betri nýtingu auðlinda. Endurnotkun er besta tegund endurvinnslu.
Ef við erum með garð er tilvalið að koma sér upp moltugerð sem getur tekið við laufum, grasi og öðrum minni garðúrgangi, ásamt flestum lífrænum eldhúsúrgangi. Þannig drögum við úr akstri, viðhöldum hringrás næringarefna á staðnum og fáum fínan áburð án búðarferða.
Auðvitað verður þó alltaf eitthvað sem við þurfum að losa okkur við og fara með í SORPU. En þá er gott að kíkja á vef fyrirtækisins, sorpa.is, og skoða vel hvaða flokkar eru í boði á okkar ágætu endurvinnslustöð hér að Blíðubakka. Rusl er nefnilega ekki bara rusl og fullt af því er hægt að endurvinna sé því komið í réttan farveg. Það er því mikilvægt að kynna sér möguleikana og skipuleggja ferðirnar eftir því.
Hreingerningarþörfin nær að sjálfsögðu líka til bílanna okkar; meira og minna salt-skítugir kaggar bíða þess eins að verða þrifnir. Munum þá að innkeyrslur og bílaplön eru almennt ekki staðurinn til þess. Tjöruhreinsir og drullugt sápuvatn mega ekki renna niður götuna og hverfa ofan í niðurfall. Þau hverfa nefnilega ekki, heldur berast óhreinsuð í læki og ár og eyðileggja lífiríki þeirra. Notum viðurkenndar bílaþvottastöðvar og þvottaplön bensínstöðvanna þar sem frárennsli fer í gegnum viðunandi hreinsivirki áður en því er veitt í fráveitukerfi.
Sleppum svo fram af okkur beislinu í vorhreingerningum og hjálpumst að í að fegra bæinn okkar eftir veturinn. Að plokka er til að mynda frábær leið til að sameina útihreyfingu og umhverfismál. Og það er ekki bara ruslið sem tínt er upp, heldur ýtir snyrtilegt umhverfi undir betra umgengni. Svo ekki sé talað um mikilvægi jákvæðs fordæmis.
Já, það er vor í lofti og gildir einu þótt eitthvert páskahret sé eftir, tiltektin er hafin.

Michele Rebora
Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd

Hlégarður – Hús okkar Mosfellinga

Bjarki Bjarnason

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að ráðast í viðamiklar endurbætur innanhúss á félagsheimilinu Hlégarði.
Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið á næstu fjórum árum, nú þegar hefur fyrsti áfanginn verið boðinn út og er hann fólginn í gagngerum breytingum og endurbótum á jarðhæð hússins. Í síðari áföngum verksins verður opnuð leið upp á efri hæð Hlégarðs svo hægt verði að nýta það rými betur. Áður hefur húsið verið endurbætt að utan, skipt um klæðningu og glugga og þakið endurgert.

Merkileg saga
Félagsheimilið Hlégarður á sér merka sögu, það var vígt 17. mars 1951 og fagnar því 70 ára vígsluafmæli í þessum mánuði. Arkitekt hússins var Gísli Halldórsson (1914-2012) sem teiknaði meðal annars Laugardalshöll og fleiri stórbyggingar í Reykjavík.
Þegar Hlégarður var reistur bjuggu einungis rúmlega 500 manns í Mosfellshreppi, byggingin var stórátak fyrir sveitarfélagið en Ungmennafélagið Afturelding og Kvenfélag Lágafellssóknar lögðu einnig hönd á plóginn og áttu reyndar eignarhlut í húsinu næstu áratugina. Salurinn rúmaði 230 manns og var haft á orði að félagsheimilið nýja væri það glæsilegasta í sveit á Íslandi. Öllum Mosfellingum var boðið til vígslunnar, þar flutti Halldór Laxness hátíðarræðu þar sem hann kvaðst

Haraldur Sverrisson

óska þess að hér mætti „ … blómgast siðmentað skemtana- og listalíf í ýmsum myndum og hér verði mörgum góðum ráðum ráðið um hvaðeina sem vera má til velgeingni mentunar og eindrægni innan héraðs í samræmi við félagslegar hugsjónir nútímans.“
Hlégarður varð strax kjölfestan í félagslífi Mosfellinga, húsið hefur tekið allmiklum breytingum í tímans rás, það hefur verið stækkað og innra rýmið tekið nokkrum stakkaskiptum. Á heilum mannsaldri hefur Hlégarður gegnt afar fjölþættu hlutverki, þar hafa til dæmis verið leiksýningar og leikfimikennsla, tónleikar og tombólur, alls konar fundir, basarar, bíósýningar og böll.

Nútímalegt hús á gömlum grunni
Markmið endurbótanna í Hlégarði er að tryggja aukið notagildi hússins og það verði ein af miðstöðvum menningarlífsins í Mosfellsbæ. Er þetta í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að unnið verði „ … að stefnumótun fyrir Hlégarð og að eitt höfuðmarkmið þeirrar vinnu verði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.“
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fer með málefni Hlégarðs í umboði bæjarstjórnar og samþykkti nefndin fyrir nokkrum árum að fá arkitektastofu til að gera tillögur að breytingum á innra rými hússins. Arkitektastofan Yrki tók það verkefni að sér og hugaði sérstaklega að heildaryfirbragði og sögu hússins og að byggingin héldi sem mest sínu upphaflega svipmóti. Um leið yrði kappkostað að húsið svaraði nútímakröfum og notagildi þess verði í senn mikið og fjölbreytt.
Það er von okkar og vissa að þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast í Hlégarði muni efla allt félags- og menningarlíf í Mosfellsbæ í lengd og bráð.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.

Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi

Sveinbjörg Davíðsdóttir

Lærdómssamfélag leikskóla í Mosfellsbæ

Í september 2018 fóru leikskólar í Mosfellsbæ í samstarf við Menntamálastofnun og Áshildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing um innleiðingu á verkefninu „Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi“.
Áherslur í verkefninu voru í samræmi við áherslur Aðalnámskrár leikskóla þar sem vægi leiksins er þungamiðjan og meginnámsleið leikskólastarfsins. Leikur er þannig mikilvæg námsaðferð og getur kallað á fjölbreytta notkun tungumálsins og samskipti.

Markmið verkefnisins var
• Að öll börn í leikskólum Mosfellsbæjar nái hámarksárangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning fyrir læsi. Stefnt er á að þessi undirbúningur skili börnunum betur undirbúnum inn í fyrsta bekk grunnskóla og að unnið sé í anda heildstæðrar skólastefnu.
• Að Mosfellsbær taki leiðandi hlutverk í valdeflingu starfsfólks leikskólanna til að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar í daglegu starfi til að efla málfærni og læsi.

Þórunn Ósk Þórarinsdóttir

Lögð verður áhersla á að hvert barn fái íhlutun og kennslu við hæfi og að kennsla í grunnskólum byggist á niðurstöðum og áherslum í kennslu frá leikskólum, þannig að komið verði í veg fyrir afturvirkt rof. Unnið verður eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun með áherslu á hámarksárangur allra barna hvað varðar málfærni og læsi.
Samstarfinu lauk formlega í júní 2020 og afurðin eru handbækur sem innihalda verkferla og skráningar á málörvun innan hvers leikskóla. Stjórnendur, starfsfólk og foreldrar fengu fjölbreytta fræðslu um mikilvægi málþroska og leiðir til að efla málþroska og læsi á þessu tímabili. Ánægjulegt er að nefna hvað foreldrar tóku virkan þátt í fræðslunni og voru áhugasamir.

Mat
Mat á verkefninu var m.a. unnið út frá grunnmælingum á niðurstöðum athugana, HLJÓM2. Mælingar sýna að góður árangur er af verkefninu og gefur það okkur byr í seglin um að halda áfram þessu skemmtilega starfi
HLJÓM 2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfið­leika.
Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). (https://mms.is/hljom-2)
Vaxandi áhersla er lögð á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til örvunar hljóðkerfis- og mál­meðvitundar þeirra og að þeim sem virðast eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Verkefnin eru miðuð við námsleiðir ungra barna sem er fyrst og fremst í gegnum leik.

Afrakstur verkefnisins
Starfsfólk leikskóla Mosfellbæjar hélt vel utan um verkefnið. Hver skóli gerði handbók sem er sérsniðinað hverjum skóla með sínar áherslur í leik og námi. Þær nýtast hverjum starfsmanni sem leiðarvísir að því námi sem þarf að fara fram í leikskóla með skipulagðri kennslu í málþroska og læsi.

Lærdómssamfélagið
Kennarar og starfsfólk leikskóla eru stöðugt að reyna að bæta kennsluhætti sína. Við ígrundum reglulega starfið og með tilkomu handbókanna náðum við að ramma inn það starf sem við viljum hafa að leiðarljósi. Við innleiðingu handbókanna fara börn og starfsfólk í gegnum sameiginlegt nám, starfsþróun, sameiginleg gildi og sameiginleg ábyrgð sem verður að lærdómssamfélagi þar sem allir valdeflast í námi og starfi.

Sveinbjörg Davíðsdóttir leikskólastjóri á Hlaðhömrum
og Þórunn Ósk Þórarinsdóttir leikskólastjóri á Reykjakoti.

112 er líka fyrir börnin

Sigurbjörg Fjölnisdóttir

Það er mikið ánægjuefni fyrir okkur sem störfum við velferðarþjónustu í Mosfellsbæ, þar sem einstaklingurinn er í forgrunni, að 112 dagurinn sé að þessu sinni helgaður barnavernd og öryggi og velferð barna og unglinga.
Í barnaverndarlögum er kveðið á um tilkynningaskyldu almennings og opinberra aðila ef grunur leikur á misfellum í aðbúnaði barns. Allt frá árinu 2004 hefur símanúmerið 112 verið tengt aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum. Því er hægt að leita eftir aðstoð barnaverndar Mosfellsbæjar með þrennum hætti: Með því að hringja í símanúmerið 112, senda tilkynningu í gegnum heimasíðu Mosfellsbæjar eða hringja í ráðgjafa barnaverndar Mosfellsbæjar á símatíma, sem taka á móti tilkynningum og geta veitt upplýsingar og ráðgjöf ef fólk er í vafa um hvort beri að tilkynna um slæman aðbúnað.
Að börn og unglingar hafi aðgengi að símanúmerinu 112 til að tilkynna um slæmar aðstæður barna auðveldar þeim hópi að koma ábendingum á framfæri, þar sem aðrar leiðir til þess að tilkynna gætu reynst þeim flóknari.
Það er mikið gleðiefni fyrir barnavernd Mosfellsbæjar að bæta enn frekar aðgengi barna og unglinga að barnaverndinni með því að setja í loftið ábendingahnapp fyrir þennan hóp og gera slíkt á sjálfan 112 daginn. Á forsíðu heimasíðu Mosfellsbæjar má nú sjá hnapp merktan „Ég er barn og hef áhyggjur“ þar sem börn geta komið slíkum tilkynningum á framfæri til barnaverndar.
Sú tilkynning er einfaldari í sniðun en sú tilkynning sem fullorðnir fylla út. Í tilkynningunni greinir barnið frá því hverju það hefur áhyggjur af, hvað það heitir sem og símanúmer þess. Starfsmenn barnaverndar fara yfir allar slíkar tilkynningar og hafa samband við barnið, ef við á, til að fylgja tilkynningunni eftir.
Það er hagur okkar allra sem samfélags að veita góða þjónustu við börn í vanda og fjölskyldur þeirra. Hluti af þeirri þjónustu er að allir hafi greiðan aðgang að barnavernd í sínu sveitarfélagi. Þegar símanúmerið 112 var tengt við barnavernd í öllum sveitarfélögum bætti það verulega þjónustu og aðgengi fyrir börnin. Barnavernd Mosfellsbæjar hefur átt í farsælu samstarfi við 112 og þakkar sérstaklega fyrir það samstarf með hvatningu til allra um að hika ekki við að tilkynna um slæmar aðstæður barns annaðhvort í gegnum 112 eða með öðrum leiðum sem hafa verið kynnar hér að framan.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir
Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar

Verður Sundabraut loksins að veruleika?

Bryndís Haraldsdóttir

Sundabraut er framkvæmd sem rifist hefur verið um í áratugi, hún rataði fyrst inn í aðalskipulag Reykjavíkur árið 1975.
Síðan þá hafa óteljandi nefndir verið skipaðar og skýrslur skrifaðar. Nýjasta nefndin skilaði nýverið af sér og leggur til að lagðar verði brýr í stað jarðganga. Hvort sem Sundabraut verður brú eða göng – vona ég að hún verði að veruleika á næsta áratugi.

Sundabraut er mikilvæg bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og ekki síður landsbyggðina. Hún sparar akstur og þungaflutninga og mun þannig spara kolefnisútblástur. Sundabraut er mikilvæg tenging við gatnakerfi höfuð­borgarsvæðisins. Með Sundabraut felst bætt tenging Grafarvogshverfis við gatnakerfi borgarinnar og töluvert myndi draga úr álagi um Ártúnsbrekku. Þá er mikilvægt út frá almannavarnasjónarmiðum að fjölga tengingum út úr borginni.
Sundabraut styttir vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bætir umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Þá léttir Sundabraut á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ. Þannig bætir Sundabraut tengingu milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og stuðlar að greiðari og öruggari umferð.

Einkaframkvæmd er eina lausnin
Kostnaður við Sundabraut er áætlaður á bilinu 70-80 milljarðar. Til samanburðar var allt nýframkvæmda- og viðhaldsfé Vegagerðarinnar á landinu öllu á 10 ára tímabili 2007-2017 á verðlagi ársins 2018 um 160 milljarðar, eða eins og tvær Sundabrautir. Fjárfestingar í vegum og samgöngumannvirkjum hafa sem betur fer aukist á síðustu árum, heildarframlög til Vegagerðarinnar hafa farið úr um 25 milljörðum í 30 milljarða, en þar eru bæði innviðir í flugi, siglingum og vegakerfið. Það er því algjörlega óraunhæft að ætla að hægt sé að taka 70-80 milljarða til að leggja Sundabraut úr ríkissjóði. Það myndi kalla á að ekkert annað yrði gert í viðhaldi eða uppbyggingu samgöngumannvirkja annars staðar á landinu, nú eða að fjármagn til þess málaflokks yrði tekið úr öðrum mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslu o.s.frv. Hér þarf einfaldlega aðrar lausnir.
Í mörg ár hefur verið bent á möguleika á samstarfsverkefni einkaaðila og hins opinbera, svokölluð PPP-verkefni, og eru Hvalfjarðargöng besta dæmið um slíkt hér á landi.

Ég, ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að Sundabraut verði boðin út í einkaframkvæmd.
Áhugasamir hópar geta þá komið með sína útfærslu af legu, aðferðafræði, hönnun, fjármögnun og rekstri. Viðkomandi hefðu heimild til að rukka veggjöld í ákveðinn tíma en að þeim tíma liðnum yrði mannvirkið ríkisins.

Ég er sannfærð um að þetta sé raunhæf leið til að sjá Sundabraut verða að veruleika. Þá spyrja sumir sig, hver á slíka fjármuni og er tilbúinn að verja þeim í slíka framkvæmd. Augljósasti kosturinn eru lífeyrissjóðirnir okkar, þeir eru einfaldlega fullir af peningum og stjórnendur þeirra eiga í mesta basli við að finna þeim peningum hlutverk, sérstaklega í lágvaxtaumhverfi dagsins í dag.
Maður myndi ætla að Sundabraut væri arðbær og álitlegur fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóði og atvinnulífið hefur án efa áhuga á að koma að þessu verkefni. Látum á það reyna og könnum hvort einkaframtakið hafi burði í að reisa Sundabraut. Framkvæmdina sem rifist hefur verið um í hátt í 50 ár. Við höfum engu að tapa en allt að vinna.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks

Best að búa í Mosó

Ásgeir Sveinsson

Nýlega voru kynntar niðurstöður í árlegri þjónustukönnun Gallup þar sem viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins eru mæld.
Enn eitt árið getum við Mosfellingar glaðst yfir því að Mosfellsbær kemur mjög vel út úr flestum viðhorfsspurningum, og þess má geta að Mosfellsbær og Garðabær deila efsta sætinu þegar spurt er um hvar best sé að búa.
Breytingar á niðurstöðum könnunarinnar milli ára eru mjög litlar nema í spurningu um þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu sem lækkar markvert milli ára. Þetta þarf að skoða vel, sérstaklega þegar horft er til þess að stöðugt er verið að auka og styrkja þjónustuna í málaflokknum.
Í september sl. var hafin vinna við stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks. Þar gafst íbúum, starfsfólki og öðrum sem málið varðaði tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Sú vinna er í gangi.
Þess má einnig geta að í Mosfellsbæ eru hlutfallslega flestir samningar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) miðað við íbúafjölda á landinu. Áfram verður haldið að rýna í hvað hægt er að gera betur í málflokknum til að auka ánægju notenda þjónustunnar.

Leik- og grunnskólar
Undanfarin tvö ár hefur mikil áhersla verið lögð á að auka þjónustu leikskólanna og var leikskólaplássum fyrir yngstu börnin fjölgað á síðasta ári í bæjarfélaginu og gjöld lækkuð um 5%.
Forráðamenn leikskólabarna í Mosfellsbæ eru ánægðir í 97% tilfella með þjónustu leikskólanna samkvæmt könnuninni og er það ánægjuhlutfall sem nánast þekkist ekki í könnun sem þessari. Þessi niðurstaða er fyrst og fremst mikið hrós til starfsfólks leikskólanna sem vann sína vinnu við mjög erfiðar aðstæður á síðasta ári.
Ánægja með þjónustu grunnskólanna minnkar aðeins á milli ára og er mikilvægt að rýnt verði í þá niðurstöðu. Verður það gert m.a. með sérstakri foreldrakönnun og rýnihópum til að fá upplýsingar hver upplifun foreldra er af þjónustu grunnskólanna.
Það sem stendur upp úr á síðasta ári er það starf sem kennarar, skólastjórnendur, fræðslusvið Mosfellsbæjar og skólasamfélagið allt lagði á sig til þess að halda skólum opnum á erfiðum Covid-tímum og var sú vinna ómetanleg. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því grettistaki sem þarna var lyft og fyrir það ber að þakka.

Aðrir málaflokkar
Þjónusta við aldraða er einnig mikilvægur flokkur og þar er Mosfellsbær stöðugt að bæta í þjónustu. Þar má til dæmis nefna nýjungar varðandi hreyfingu og heilsueflingu, verkefnið Karlar í skúrnum o.fl.
Aðstaða til íþróttaiðkunar hækkar milli ára enda er uppbygging í gangi t.d. á Varm­ársvæðinu, Fjölnotahúsið Fellið var tekið í notkun og mun uppbygging halda áfram í samráði við Aftureldingu á næstu árum.

Gerum gott betra
Það er ánægjulegt og þakkarvert að sjá það traust sem Mosfellingar sýna starfsemi og þjónustu bæjarins sem endurspeglast í jákvæðu viðhorfi til þjónustunnar.
Mosfellsbær hefur á að skipa mjög metnaðarfullu og hæfileikaríku starfsfólki sem mun m.a. nota niðurstöðu þessarar könnunar til þess að rýna til gagns og bæta þá þætti sem betur mega fara í þjónustu bæjarins, með því gerum við Mosfellsbæ enn betri.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs
og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.

Takk fyrir okkur, sjálfboðaliðar

Birna Kristín Jónsdóttir

Eins og önnur íþróttafélög á Íslandi er Afturelding háð starfsemi sjálfboðaliða. Aðkoma sjálfboðaliða í íþróttastarfsemi byggir á áratugalangri hefð og er eiginlega grundvöllur þess að geta haldið úti fjölgreina íþróttafélagi.
Við sem störfum fyrir félagið erum meðvituð um þá staðreynd að það er alls ekki sjálfgefið að vera með jafn góðan hóp sjálfboðaliða og við höfum á að skipa hjá Aftureldingu.

COVID-19 heimsfaraldurinn minnti okkur á það hvers megnugir allir okkar sjálfboðaliðar eru. Við höfum þurft að bæta við alls kyns verkefnum sem snúa að sóttvörnum, til að mynda þarf nú að vera sóttvarnafulltrúi á öllum viðburðum sem deildirnar bera ábyrgð á að útvega.
Það er er krefjandi verk að halda úti áhuga og starfi þegar ekki má mæta á staðinn en sjálfboðaliðar okkar og þjálfarar hafa fundið ótrúlegustu leiðir og lausnir til að vinna með.

Hanna Björk Halldórsdóttir

Rétt rúmlega hundrað einstaklingar eru á skrá hjá okkur og allir leggja þeir sitt af mörkum á einhvern hátt, svo hægt sé að halda úti starfinu.
Við erum með heilu ráðin, allt að 20 manns, sem hafa það afmarkaða verkefni að sjá um að handboltaleikir hjá karlaliðinu geti farið fram. Annar eins fjöldi heldur utan um sömu mál í kvennahandboltanum, sem og hjá báðum kynjum í knattspyrnu og blaki.
Fyrrnefndur sóttvarnafulltrúi þarf svo að vera til staðar, ritarar og dómarar, boltasækjar og fólkið á moppunni — svo fáeinir séu tíndir til.

Þá starfar lítill hópur innan félagsins að AftureldingTV og sér um að hægt sé að sýna frá hinum ýmsu mótum og leikjum. Það hefur reynst einstaklega dýrmætt að eiga, nú þegar COVID-19 hefur gert okkur ómögulegt að leika fyrir framan áhorfendur, eða hleypa foreldrum iðkenda á leiki eða mót.
Einnig eru innan okkar vébanda foreldrar og forráðamenn sem þreytast ekki við að skrá söguna með ljósmyndum og fréttum á heimasíðunni okkar.

Loks er rétt að nefna lítinn hóp vaskra sjálfboðaliða sem setti upp á sitt einsdæmi á fót fjáröflunarnefnd, sem gerir öllum iðkendum kleift að safna fyrir mótum, æfingagjöldum, búnaði eða öðru sem þau þurfa, alveg óháð því hvort flokkurinn þeirra eða deild standi í fjáröflun.

Þetta allt fyrir utan þá sjálfboðaliða sem sitja í stjórnum og ráðum deilda og sitja reglulega fundi til þess eins að halda utan um starfið, þjálfara og iðkendur.

Án þessara frábæru sjálfboðaliða væri starfið fátæklegt, við fögnum öllum þeim sem vilja vinna með okkur í skemmtilegu starfi í þágu barna, unglinga og alls bæjarfélagins.

Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar og
Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar.

Áhrif orkudrykkja á börn og ungmenni

Arnar Ingi H. Friðriksson

Neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum er mikið áhyggjuefni enda með því mesta sem þekkist meðal ungmenna í Evrópu. Margir þeirra innihalda gríðarlegt magn koffíns sem er ávanabindandi efni og getur haft neikvæð áhrif á heilsu fólks – bæði líkamlega og andlega.
Börn og ungmenni eru mun viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla þess því sérstaklega slæm fyrir þann aldurshóp.
Nægur svefn er nauðsynlegur til að geta búið við góða heilsu. Börn og unglingar þurfa um níu til ellefu tíma svefn en niðurstöður íslenskrar rannsóknar (Rannsókn og greining) sýnir að helmingur unglinga nær ekki þessum viðmiðum.
Einnig hefur verið sýnt fram á að þau börn sem neyta mikils magns orkudrykkja eiga erfiðara með að sofna og mjög hátt hlutfall sefur lítið (minna en 6 tíma). Viðvarandi svefnleysi hefur áhrif á athygli, minni, ákvörðunartöku og rökhugsun en þessir þættir hafa mikil áhrif á námsárangur. Svefnleysi eykur einnig líkurnar á ýmiss konar tilfinninga- og hegðunarvanda eins og kvíða, pirringi, leiða og mótþróa.
Þess má geta að koffín er mun lengur í líkamanum en fólk gerir sér almennt grein fyrir en helmingunartími koffíns, þ.e. sá tími sem það tekur helming þess koffíns sem er neytt að hverfa úr líkamanum, er fimm til sjö klukkustundir. Ef við neytum koffíns seinnipartinn er mikið magn þess enn í líkamanum þegar við leggjumst til rekkju.
Börn líkja eftir þeirri hegðun sem þau sjá hjá öðrum. Munum að við sem foreldrar erum fyrirmyndir barnanna okkar og því mikilvægt að sýna gott fordæmi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Arnar Ingi H. Friðriksson, sálfræðingur
skólaþjónustu Mosfellsbæjar og foreldri.

Skólinn í öndvegi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Breytingar á Varmárskóla
Í Mosfellsbæ fer fram framúrskarandi skólastarf í fjölbreyttu skólaumhverfi. Mosfellsbær með fagfólkið í fararbroddi hefur sýnt frumkvæði í skólastarfi eins og t.d. með 200 daga skóla fyrir yngsta skólastigið og með opnun skóla fyrir 2–9 ára börn. Hróður skólastarfsins fer víða og er áhugafólk um menntamál tíðir gestir í okkar skólum.
Fræðsluyfirvöld í Mosfellsbæ ásamt stjórnendum skólanna skoða stöðugt alla daga hvað megi gera betur í skólamálum. Hluti af því er að skólarnir fái úttekt hjá Menntamálastofnun og nú síðast fékk Varmárskóli úttekt sem mun leiða af sér töluverðar breytingar.

Breytingar á Varmárskóla
Bæjarráð samþykkti að fela Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra og Lindu Udengård framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs að láta framkvæma úttekt og mat á stjórnskipulagi Varmárskóla.
Sú úttekt fór fram haustið 2020 og var fenginn til verksins Haraldur Líndal Haraldsson hjá HLH ráðgjöf sem hefur viðamikla þekkingu á starfsemi sveitarfélaga og skólamálum. Haraldur Líndal lagði fram tillögur og hefur ein þeirra verið lögð fram í bæjarráði og fræðslunefnd og kynnt fyrir hagaðilum eins og stjórnendum, starfsfólki og foreldrum. Lagt er til að Varmárskóla verði skipt upp í tvo sjálfstæða skóla með skólastjóra ásamt stjórnendateymi í hvorum skóla. Það var mat Haraldar Líndals að með þessu fyrirkomulagi náist markvissari stjórnun á málefnum hvors skóla fyrir sig.

Arna Hagalínsdóttir

Fram undan eru krefjandi en uppbyggilegir tímar er gefa Varmárskóla tækifæri til að byggja upp nýja skóla á sterkum grunni og skapa þannig áfram gott og öflugt skólastarf börnum okkar í hag.
Allt er þetta hluti af þeirri stöðugu endurskoðun á skólastarfi því við viljum alltaf gera betur. Til þess eru m.a. gerðar þjónustukannanir og íbúar spurðir hvernig þeim líkar þjónustan sem bærinn veitir.

Könnun á þjónustu Mosfellsbæjar
Ár hvert gerir Gallup könnun á þjónustu sveitarfélaga og hefur Mosfellsbær tekið þátt í mörg ár. Niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður fyrri ára og einnig við önnur sveitarfélög. Niðurstöður eru kynntar í bæjarráði og nefndum bæjarins með það að markmiði að bæta þjónustuna enn frekar bæjarbúum til hagsbóta.
Það er ánægjulegt frá því að segja að Mosfellsbær situr í efstu sætum meðal bæjarfélaga á Íslandi eins og undanfarin ár.

Framúrskarandi leikskólar
97% svarenda segjast mjög ánægðir með þjónustu leikskólanna en mikil áhersla hefur verið lögð á að auka þjónustu leikskólanna. Má nefna fjölgun plássa á ungbarnadeildum og samkomulag meirihlutans um lækkun leikskólagjalds um 25% á kjörtímabilinu.
Nú er svo komið að Mosfellsbær býður upp á lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og ljóst að Mosfellsbær hefur á að skipa góðu fagfólki á leikskólum bæjarins.
Ánægja með þjónustu grunnskólanna minnkar aðeins á milli ára og bókaði fræðslunefnd á fundi sínum að rýnt yrði í niðurstöður með sérstakri foreldrakönnun og rýnihópum og fá þannig að vita hver upplifun foreldra er. Einnig á að skoða þau mælitæki og niðurstöður sem þegar eru til staðar í innra og ytra mati skólanna.
Vert er að nefna að bæjaryfirvöld leggja höfuðáherslu á framúrskarandi faglegt starf svo hægt sé að mæta ólíkum nemendahópum. Þannig gerum við góða skóla enn betri.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir situr í fræðslunefnd

Mosfellsbær verður Barnvænt sveitafélag

Una Hildardóttir

Þann 28. janúar síðastliðin var skrifað undir samstarfssamning Mosfellsbæjar, UNICEF á íslandi og félagsmálaráðuneytisins um þátttöku bæjarins í verkefninu Barnvæn sveitafélög.
Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi Mosfellsbæjar að fræðslu og stuðning við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á sveitarstjórnarstiginu. Töluverður hluti þjónustu hins opinbera við börn og barnafjölskyldur er á ábyrgð sveitafélaga og þau leika því mikilvægt hlutverk við innleiðingu sáttmálans. Með þátttöku Mosfellsbæjar í verkefninu skuldbindum við okkur til þess að vinna markvisst að innleiðingu barnasáttmálans og tryggja að réttindi barna séu höfð í huga í öllum verkefnum, stefnumótunum og ákvörðunum bæjarins.

Mosfellsbær er tólfta sveitarfélagið til þess að taka þátt í verkefninu en framkvæmd þess verður leidd af lýðræðis- og mannréttindanefnd bæjarins. Mikill metnaður er innan nefndarinnar til þess að takast á við verkefnin fram undan en inneiðingarferlið, sem byggist á hugmyndafræði alþjóðlegs verkefnis UNICEF „Child Friendly Cities“ er óvægið. Til þess að ná árangri er mikilvægt að kjörnir fulltrúar og starfsfólk bæjarins vinni þétt saman í innleiðingaferlinu. Ég tel að lýðræðis- og mannréttindanefnd sé einstaklega vel til þess fallin að leiða vinnuna enda byggjast grunnþættir Barnvænna sveitafélaga á mannréttindum barna. Grunnþættir þessir eru þekking á réttindum barna, það sem er barni fyrir bestu, jafnræði, þátttaka barna og barnvæn nálgun.

Á kjörtímabilinu hefur Mosfellsbær einsett sér að nýta verkfæri Sameinuðu þjóðanna í stefnumótun sinni. Árið 2019 var samþykkt ný umhverfisstefna sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í fyrra hafði lýðræðis- og mannréttindanefnd markmiðin til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar lýðræðisstefnu bæjarins. Við búum yfir reynslu sem mun nýtast vel við innleiðingu barnasáttmálans og verður sérstök áhersla lögð á náið samstarf nefndarinnar við ungmennaráð Mosfellsbæjar. Aðkoma barna að ákvörðunartöku er veigamikill þáttur Barnasáttmálans og mikilvægt að samráð við börn og ungmenni sé tryggt frá upphafi.

Vinna við verkefnið hefst með greiningu en stefnt er að því að Mosfellsbær uppfylli allar forsendur verkefnisins á árinu 2023 og hljóti í kjölfarið viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitafélag. Verkefninu lýkur þó ekki þá, enda þarf að endurnýja viðurkenninguna á þriggja ára fresti og til þess að standast úttekt þarf sveitafélagið að sýna fram á að það tileinki sér barnaréttindanálgun á öllum stigum stjórnsýslunnar og virði réttindi barna sem tryggð eru í sáttmálanum.

Una Hildardóttir, formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar

Við áramót

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Haraldur Sverrisson

Kæru Mosfellingar!
Við áramót er hefðbundið að líta um öxl, rifja upp það sem gekk vel og ekki síður velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári. Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi verið sögulegt ár og orðið „fordæmalaust“ sennilega eitt mest notaða orð ársins og „þú ert á mute“ algeng setning.

Kórónaveiran sem bankaði fyrst rólega en svo óþyrmilega á dyrnar hjá okkur í lok febrúar einkenndi allt okkar líf á árinu 2020. Daglegt líf okkar hefur einkennst af takmörkunum á flestu af því sem okkur hefur alltaf þótt sjálfsagt að gera. Koma saman á vinnustað, heilsast eða faðmast, heimsækja ættingja og vini, fylgja börnum í skólann, stunda íþróttir og ferðast utan lands svo nokkuð sé nefnt.
Starfsemi Mosfellsbæjar hefur ekki farið varhluta af þessu. Við þurftum ítrekað að endurskipuleggja starfsemi leik- og grunnskóla og loka hefur þurft íþróttamiðstöðvum og bókasafni. Á bæjarskrifstofum hefur þurft að koma upp vaktaskiptum og fólk hefur þurft að læra ný vinnubrögð og allir eru orðnir sérfræðingar í notkun fjarfundarbúnaðar. Þá hefur fólk gengið í störf hvers annars þegar við vorum á neyðarstigi og fólk var að lenda í sóttkví eða veikindum.
En þrátt fyrir þessar hindranir hefur starfsmönnum Mosfellsbæjar tekist að halda uppi starfsemi sveitarfélagsins og þjónusta við íbúana hefur að langmestu leyti verið óskert. Starfsfólk bæjarins hefur sýnt dugnað, hugmyndaauðgi og þrautseigju við að takast á við breyttar aðstæður og leyst úr málum sem við fyrstu skoðun virtust nánast óleysanleg. Þá hafa íbúar staðið með starfsfólki í því að laga sig að breyttum aðstæðum sem skipti miklu máli þegar þyngslin í fyrstu bylgju voru sem mest.

Þjónustan varin og viðspyrna tryggð
Áhrif faraldursins á efnahagslífið eru mikil, jafnt hér á landi sem á alþjóðavísu. Atvinnuleysi hefur aukist umtalsvert og mörg fyrirtæki hafa þurft að leggjast í eins konar híði til að bíða ástandið af sér. Ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla og sveitarfélög hafa orðið fyrir miklum tekjumissi og útgjöld aukist vegna áhrifa veirunnar á þjónustu þeirra. Að sjálfsögðu kemur þetta niður á fjárhag Mosfellsbæjar eins og annarra sveitarfélaga.
Sá afgangur sem áformaður var í rekstri fyrir árið 2020 mun breytast í töluverðan halla og verður sveiflan væntanlega allt að 800 m.kr. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár gerir ráð fyrr töluverðum halla eða um 560 m.kr. Við þessar aðstæður er gott að sveitarfélagið hafi staðið styrkum fótum áður en þessi efnahagskreppa skall á. Samfélagið í Mosfellsbæ býr að því að töluverður afgangur hefur verið af rekstri bæjarins undanfarin ár og skuldahlutfallið lækkað ár frá ári.
Vegna þessarar stöðu er unnt að veita viðspyrnu með því að reka bæjarfélagið með tímabundnum halla og verja þjónustuna án þess að stefna fjárhag sveitarfélagsins í hættu. Skuldir munu aukast á meðan þetta ástand varir því reksturinn skilar litlum fjármunum upp í fjárfestingar en við þær aðstæður er gott að hafa búið okkur í haginn.

Í Mosfellsbæ einkenndist árið 2020 af miklum framkvæmdum og fjölgun íbúa. Mosfellingar urðu rúmlega 12.500 talsins í lok ársins og hefur fjölgað um tæp 5% á árinu. Það er mikil fjölgun og ein sú mesta á meðal sveitarfélaga og sýnir hversu vinsælt sveitarfélagið er til búsetu.
Stærsta einstaka framkvæmdin á nýliðnu ári var bygging Helgafellsskóla en þar er unnið að því að ljúka seinni tveim áföngum skólans. Þá fóru fram miklar endurbætur á húsnæði Varmárskóla sem voru endurnýjun ytra byrðis yngri deildar og viðgerðir í kjölfar rakaskemmda. Allt skólahúsnæði bæjarins hefur nú verið skimað fyrir rakaskemmdum. Komu þar fram nokkur úrbótatækifæri en á heildina litið er skólahúsnæði bæjarins í góðu ásigkomulagi.
Í íþróttamiðstöðinni að Varmá voru töluverðar framkvæmdir í gangi á árinu og má þar sérstaklega nefna endurbætur á búningsklefum og lagnakerfum. Á haustmánuðum var tekin í notkun ný skrifstofu- og félagsaðstaða fyrir Aftureldingu í millibyggingu við fimleikasalinn. Á árinu 2020 var fyrsta heila rekstrarár Fellsins, nýja fjölnota íþróttahússins okkar. Má með sanni segja að Fellið sé mikil lyftistöng fyrir íþróttalíf í bænum og þá einkum knattspyrnu.

Metnaðarfull fjárhagsáætlun
Þrátt fyrir þau efnahagslegu áföll sem dunið hafa á okkur að undanförnu einkennist fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 af miklum metnaði. Við höldum áfram þeim uppbyggingarverkefnum sem í gangi hafa verið, stöndum ekki bara vörð um þá þjónustu sem veitt er til íbúanna heldur bætum við á nokkrum sviðum.
Á árinu 2021 munu álögur á íbúa og fyrirtæki ekki hækka að raungildi og lækka í nokkrum tilfellum. Síðustu tveir áfangar Helgafellsskóla verða teknir í notkun næsta haust og þá verður rými fyrir alla árganga í skólanum.
Loks er í undirbúningi bygging nýs leikskóla í Helgafellshverfi til að mæta þörfum fyrir leikskólapláss í stækkandi bæjarfélagi. Á árinu verður bætt við 30 nýjum plássum á ungbarnadeildum leikskólanna okkar. Allt er þetta gert til að mæta þörfum íbúa núna og til framtíðar, byggja upp öflugt og gott samfélag og auka lífsgæði og velferð íbúa.

Hér hef ég stiklað á stóru um hvað dreif á daga okkur á liðnu ári og það sem fram undan er. Árið 2020 var skrýtið ár, ár sem við sjálfsagt munum seint gleyma og verður skráð í sögubækur. Nýtt ár felur í sér ný tækifæri til að blómstra.
Bólusetning er hafin og raunhæfar vonir uppi um að það takist að bólusetja nógu marga á fyrri hluta ársins þannig að líf okkar færist í sem eðlilegast horf og atvinnulífið geti tekið við sér að nýju.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur sem fyrr allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2020 og ég er viss um að nýrunnið ár muni færa okkur gæfu og gleði.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri