Unnið að deiliskipulagi fyrir atvinnukjarna í landi Blikastaða

Mosfellsbær og Reitir fasteignafélag vinna saman að deiliskipulagi fyrir nýjan atvinnukjarna í landi Blikastaða.
Svæðið er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging atvinnukjarna sem skipulagður verður með náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Náttúra og lífríki í ánni Korpu og í skógræktinni í hlíðum Úlfarsfells skapa vistlega umgjörð um hverfið. Deiliskipulag tekur mið af náttúru, hugmyndum um sjálfbærni og samnýtingu innviða á svæðinu.
Vegtengingar eru greiðfærar og Borgarlína er fyrirhuguð gegnum svæðið sem er mikilvægt fyrir eflingu atvinnulífs Mosfellsbæjar.

Atvinna, náttúra og sjálfbærni
„Okkar markmið er að svæðið byggist upp í takt við þarfir fyrirtækja með atvinnu, náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Við viljum velta við hverjum steini og hvetjum íbúa til að taka þátt í mótun svæðisins og hjálpa okkur að finna því viðeigandi nafn,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
Væntingar standa til þess að deiliskipulagsvinnu Blikastaðalandsins ljúki seinnihluta árs 2020 og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2021. Hraði uppbyggingar á svæðinu mun m.a. ráðast af markaðsaðstæðum. Gera má ráð fyrir að það gæti tekið allt að tíu til tólf ár frá því gatnagerð hefst þangað til svæðið verður fullbyggt.

Það er af mörgu að taka

Sveinn Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Miðflokksins segir flokkinn líta á mótlæti sem orku sem ber að virkja.

Sveinn Óskar leiddist ungur út í stjórnmál en það var nú alls ekki á döfinni af hans hálfu. Á unglingsárunum fór Sveinn að fara víða með föður sínum á fundi en hann starfaði bæði sem varaþingmaður og verkalýðsleiðtogi á Suðurlandi. Líklegt er að áhuginn hafi kviknað þar en Sveinn Óskar hefur komið að stjórnmálum allar götur síðan samhliða sínu starfi. Hann leiddi lista Miðflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2018, náði kjöri og starfar sem bæjarfulltrúi í dag.

Sveinn Óskar er fæddur á Selfossi 27. júlí 1968. Foreldrar hans eru Eygló Guðmundsdóttir fv. saumakona og Sigurður Óskarsson fv. framkvæmdastjóri.
Sveinn á fimm systkini, albróðurinn Elís f. 1971 og hálfsystkinin Guðmund f. 1954, Stefán f. 1957, Ragnheiði f. 1960 og Róbert f. 1960, d. 2009.

Umhverfið var krefjandi
„Ég er alinn upp á Hellu á Rangárvöllum þar sem umhverfið var krefjandi og spennandi, eldfjöll, jöklar, sandar, melar og tún. Það var gott að alast þarna upp og ég man fyrst eftir mér þegar ég sigldi um á vörubílaslöngu á stórri tjörn á milli neðri hluta þorpsins og þess efri þar sem fjölskyldan mín bjó.
Ég gleymi líka seint þeim degi sem við bræðurnir fengum hjól en ætli helsta æskuminningin sé ekki fyrsti kossinn. Ein besta vinkona mín gaf mér fulla heimild til að kyssa sig þegar við vorum bæði 10 ára gömul. Það gleymist nú seint en við höfum verið vinir alla tíð,“ segir Sveinn og brosir.

Nýtur lífsins í Tungunum
„Biskupstungurnar eiga stóran part af hjarta mínu þaðan sem móðir mín er ættuð en ég var þar í sveit. Þangað sæki ég mikið enn í dag því fjölskyldan á þar sumarhús og þarna er yndislegt að vera.
Nú, ekki má gleyma Seljavöllum undir Eyjafjöllum, þar áttum við fjölskyldan sumarhús um langa hríð. Þá skrapp maður oft í gömlu sundlaugina en afi minn, Sveinn Óskar, kenndi sund þar í áraraðir.“

Einir um alla fegurðina
„Ég gekk í Grunnskólann á Hellu og fór síðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég lauk BA í heimspeki og hagfræði, MBA í viðskiptafræði og MSc meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja.
Yfir sumartímann á námsárunum starfaði ég hjá Landsvirkjun við girðingavinnu, gróðursetningar, vatnamælingar og önnur tilfallandi verkefni uppi á hálendi Íslands. Oft var farið í Landmannalaugar að kvöldi til, þar voru engir ferðamenn og við starfsmennirnir einir um alla fegurðina, þetta var dásamlegt,“ segir Sveinn og brosir.
„Einnig starfaði ég hjá alþjóðasviði Seðlabanka Íslands þegar ég stundaði nám í hagfræði.
Samhliða mastersnámi starfaði ég í 11 ár á fasteignasölu föður míns, það var góður skóli.“

Kynntust í Pekingháskóla
Eftir útskrift úr HÍ vann Sveinn Óskar að rannsóknum um efnahagsmál í Asíu í Pekingháskóla ásamt því að stunda nám í kínversku. Hann starfaði einnig sem blaðafulltrúi Morgunblaðsins í Kína.
Í háskólanum kynnist hann Samsidanith Chan eða Danith eins og hún er ávallt kölluð. Hún er fædd árið 1978 í Kambódíu og er lögfræðingur að mennt. Þau hófu sambúð árið 2000 og giftu sig ári seinna. Þau eiga saman tvær dætur, Sylvíu Gló f. 2001 og Ingrid Lín f. 2003.
Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast og eins fara þau mikið í bústaðinn í Biskupstungum. Í frítíma sinnir Sveinn ritstörfum, bóklestri, skógrækt og stangveiði.
Sveinn rekur lítið fjölskyldufyrirtæki og vinnur endrum og sinnum að gerð eignaskiptayfirlýsinga. Eins sinnir hann ráðgjöf bæði hér heima og erlendis er varðar greiningavinnu hvers konar sem og áætlanagerð.

Leitum að skynsamlegustu lausninni
„Ég hef starfað lengi í pólitík, ég sat bæði sem varamaður og aðalmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), var formaður Fjölnis (FUS) í Rangárþingi um árabil og ég var einnig formaður félags Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Eftir breytingar á áherslum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega hér í Mosfellsbæ, sá ég mér ekki fært að starfa fyrir flokkinn lengur.
Í dag starfa ég sem bæjarfulltrúi Miðflokksins en stofnfundur flokksins hér í Mosfellsbæ var haldinn 15. febrúar 2018. Við viljum veita og varðveita stöðuleika og standa vörð um vel ígrundaða stefnu flokksins enda flokkur framfara og raunsæis. Þetta er flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir. Við leitum ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Það er af mörgu að taka og við lítum á mótlæti sem orku sem ber að virkja.“

Það þarf að fara vel með skattféð
„Ég sinni starfi mínu fyrir Mosfellinga með því að sækja bæjarstjórnarfundi og aðra fundi sem varðar málefnin er snúa að sveitarstjórnarmálum. Má þar helst nefna málefni eldri borgara, grunnskólabarna og málefni er snúa að fjárhag sveitarfélagsins.
Það skiptir öllu máli að sveitarfélög hagi fjármálum sínum með þeim hætti að fólk skynji að vel sé farið með skattféð. Sjálfstæði sveitarfélags er ekkert sé fjárhagur þess ekki sterkur og það geti ekki eitt og sér stuðlað að velferð aldraða, barna og sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði og innviðum.
Okkar starf er að benda á það sem betur má fara og gæta þess að það sé gert með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.“

Mikilvægt að vinarþel ríki
„Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur fundað um hin ýmsu málefni eins og samgöngumál og málefni ungra drengja sem mér eru mjög svo hugleikin enda alvarleg þróun hvað sjálfsmorðstíðni þeirra á Íslandi er há.
Ég hef, sem faðir og eiginmaður, afskaplega mikinn áhuga á jafnréttismálum kynjanna, ég á líka marga vini sem eru samkynhneigðir og vil ég að starf mitt í stjórnmálum miði að því að bæta stöðu þessa hóps almennt. Ég legg ríka áherslu á í stjórnmálum að þrátt fyrir pólitísk átök og mismunandi skoðanir fólks sé mikilvægt að vinarþel ríki á milli manna.
Mér hefur líkað mjög vel að starfa sem bæjarfulltrúi, ég vona að þekking mín og reynsla komi til með að nýtast mér í starfi. Það er sannarlega af nægu að taka í 12.000 manna bæjarfélagi sem fer ört vaxandi,“ segir Sveinn Óskar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 25. júní 2020
ruth@mosfellingur.is

 

MotoMos í endurnýjun lífdaga

Ný stjórn MotoMos: Pétur Ómar, Egill Sverrir, Jóhann Arnór, Örn og Leon.

Þann 13. maí var kosin ný stjórn í Moto­Mos og við tók ein yngsta stjórn landsins hjá félagi innan MSÍ (Mótorhjóla- & vélasleðasambandi Íslands sem er hluti af ÍSÍ).
Formaður er Jóhann Arnór Elíasson en aðrir stjórnarmenn eru Leon Pétursson, Egill Sverrir Egilsson, Pétur Ómar Þorsteinsson og Örn Andrésson. Varamenn í stjórn eru þeir Egill Sveinbjörn Egilsson og Einar Sverrir Sigurðsson.
Á bakvið stjórn félagsins eru öflugir foreldrar og aðrir velunnarar félagsins. Stjórnina skipa eingöngu heimamenn héðan úr Mosfellsbæ. Með innkomu nýrrar stjórnar má segja að MotoMos gangi í ákveðna endurnýjun lífdaga en takmörkuð starfsemi hefur verið í gangi síðustu þrjú ár.

Grettistak í viðhaldi á svæðinu
Lyft hefur verið grettistaki í viðhaldi á svæðinu sem var komið til ára sinna. Allt húsið hefur verið tekið í gegn, frágangur á dreni á svæði bættur og nú standa yfir miklar viðgerðir á vökvunarkerfi.
MotoMos-brautin var opnuð í fyrsta sinn í ár laugardaginn 13. júní en sjaldan eða aldrei hefur brautin verið opnuð jafn seint á árinu eftir að hún tók til starfa. Stafar það af aðkallandi þörf á viðhaldi sem stendur enn yfir.

Vilja ná til nýrra og ungra iðkenda
Markmið nýrrar stjórnar er að ná til nýrra ungra iðkenda í Mosfellsbæ og koma þeim á einn stað til að stunda þessa skemmtilegu en krefjandi íþrótt. Liður í því er að hafa gott æfingasvæði. Fyrir þá sem þekkja ekki þá er motocross talin ein allra erfiðasta íþrótt í heimi í dag.
Það er mjög misjafnt í hvaða íþróttum börn finna sig. Sannað er að fáar íþróttagreinar höfða jafn mikið til barna með athyglisbrest og motocross.
Nýlega setti félagið á laggirnar æfingar fyrir börn og unglinga og fara þær fram tvisvar sinnum í viku út sumarið. Hver æfing stendur í minnst tvo tíma og er í höndum aðila sem er með þjálfararéttindi og er einnig crossfit-þjálfari í Crossfit Reykjavík.

Halda Íslandsmeistaramót í Mosó
Á döfinni er fyrsta Íslandsmeistaramótið í motocrossi sem haldið verður 27. júní, en ekki hefur verið haldið Íslandsmeistaramót hjá MotoMos síðan 2017. Gert er ráð fyrir um 100 keppendum í öllum aldursflokkum og fjölda áhorfenda en frítt er á svæðið fyrir áhugasama.
MotoMos skorar á þá sem ekki hafa fylgst með svona keppni að koma og sjá bestu ökumenn landsins takast á í afar skemmtilegri braut. Það er einstök aðstaða til að fylgjast með keppninni í MotoMos og eru fáar brautir jafn áhorfendavænar en útsýni er yfir alla brautina frá klúbbhúsi.

Ný gas- og jarðgerðarstöð tilbúin til notkunar

Ný flokkunarlína fyrir úrgang var tekin í notkun 18. júní í móttökustöð SORPU í Gufunesi, sem markar upphaf prófunarferlis á flokkun úrgangs frá heimilum. Um er að ræða mikilvægt undirbúningsskref fyrir vinnslu í nýrri gas- og jarðgerðarstöð (GAJA) á Álfsnesi.
Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til efni sem er hæft til vinnslu í GAJA. Við sama tilefni var GAJA kynnt fyrir stjórn SORPU, fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fjölmiðlum, en miðað er við að tilraunavinnsla hefjist í stöðinni í júlí.

Losun koltvísýrings minnkar gríðarlega
Þegar GAJA kemst í fullan rekstur verður hætt að urða lífrænan úrgang á svæðinu en í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni.
Áætlað er að það muni minnka losun koltvísýrings um 90 þúsund tonn á ári sem jafngildir því að taka 40 þúsund bensín- eða díselbíla úr umferð og hægt verður að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis. Auk þriggja milljóna rúmmetra af metani verða til í stöðinni árlega um 12 þúsund tonn af moltu sem nýtt verður til landgræðslu og jarðarbóta.

Skuldbindingar á sviði loftslagsmála
Höfuðborgarsvæðið er með þessu verkefni í leiðandi hlutverki í umfangsmesta umbreytingaverkefni á sviði umhverfismála hérlendis og liður í því að gera Íslandi kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í loftlagsmálum.
Miðað er við að stöðin verði komin í fulla starfsemi á næstu mánuðum. Vinnslan þarf að standast þær kröfur um gæði sem kveðið verður á um í starfsleyfi stöðvarinnar og því skiptir eftirlit með vinnslunni höfuðmáli.

Urðun lífræns úrgangs hverfi alfarið
„Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi er mikilvægt umhverfismál fyrir Íslendinga en um leið ákaflega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur Mosfellinga. Þegar fullri afkastagetu verður náð verður unnt að hverfa alfarið frá urðun lífræns úrgangs á Álfsnesi sem fylgt hefur lyktarmengun við vissar aðstæður, sem nauðsynlegt var að bregðast við með stórtækri aðgerð.
Næsta verkefni er síðan að fara í aðgerðir til að breyta ásýnd svæðisins frá Mosfellsbæ séð sem felur í sér að reisa mön þannig að athafnasvæðið blasi ekki við í beinni sjónlínu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Lifðu!

Við Vala erum að gefa út bók. Hún heitir Lifðu! og snýst um heilsu og hamingju. Bókin byggist á ferðalagi okkar um þau svæði heimsins þar sem langlífi og góð heilsa haldast hvað mest í hendur. COVID-19 var ekki komið til sögunnar þegar við vorum á ferðinni um þessi svæði í fyrra, en það hefur verið áhugavert ferli að klára bókarskrifin og koma í prent á sama tíma og vírusinn hefur farið sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Áhugavert að því leyti að það að fara í gegnum erfiða tíma sem einstaklingar, fjölskyldur og samfélög er eitt af því sem hefur lagt grunninn að langlífi og góðri heilsu á bláu svæðunum. Hér að neðan er sýnishorn úr bókinni sem snertir einmitt á þessu og sömuleiðis ein af þeim lykilhugleiðingum sem við setjum fram í bókinni.

Á Sardiníu og á bláu svæðunum almennt er borin virðing fyrir þeim eldri. Þeir hafa, eins og við bentum á í fyrsta kaflanum, tilgang. Hlutverk í lífinu. Skipta máli í samfélaginu og taka þátt í því. Það á sinn þátt í að sögur og reynsla miðlast milli kynslóða. Þær yngri læra af þeim eldri. Og svo öfugt.

Bláu svæðin eru ekki allsnægtasvæði. Á þeim öllum hafa íbúar þurft að takast á við alls konar áskoranir, þurft að hafa fyrir lífinu og því að komast af. Þetta hefur stuðlað að þessu dásamlega viðhorfi sem er ríkjandi á svæðunum. Blanda af seiglu, jafnaðargeði, þolinmæði og húmor.

Fólk veit að það mun komast í gegnum erfiða tíma – fyrri kynslóðir hafa gert það. Það er þakklátt fyrir það sem það hefur og veit að það er mikilvægt að hlæja mikið og njóta lífsins með fjölskyldu, vinum og öðrum sem mynda samfélagið.

Hugleiðing um viðhorf: Veltu fyrir þér hvað þú getur gert í dag til að gleðja aðra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 25. júní 2020

Liðsstyrkur fyrir komandi tímabil

Einar Ingi, Birkir, Arnór og Gunnar verða áfram í herbúðum Aftureldingar

Birkir Benediktson, Einar Ingi Hrafnsson, Arnór Freyr Stefánsson og Gunnar Malmquist hafa allir framlengt samninga sína við handknattleikslið Aftureldingar. Allir hafa þeir verið lykilmenn í liðinu síðustu ár.
Birkir og Einar Ingi eru uppaldir Mosfellingar og er Gunni Mall að hefja sitt sjöunda tímabil í Aftureldingu. Arnór Freyr kom til Aftureldingar árið 2018 eftir að hafa spilað með Randers í Danmörku. Þetta eru frábærar fréttir og mikilvægir hlekkir í liði Aftureldingar.

Nýtt þjálfarateymi Aftureldingar
Eins og áður hefur komið fram hefur Afturelding samið við Gunnar Magnússon um að taka við liði Aftureldingar fyrir næsta tímabil.
Gunnar er margreyndur og sigursæll þjálfari. Hann hefur þjálfað Víking, HK, ÍBV og Hauka auk þess að vera aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Hrannar Guðmundsson verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks en hann kom heim síðasta sumar eftir þjálfun hjá ÍR síðustu tvö ár.
Afturelding hefur einnig ráðið Fannar Karvel sem styrktarþjálfara handknattleiksdeildarinnar. Fannar rekur líkamsræktarstöðina Spörtu á Höfða og þjálfar þar marga af fremstu íþróttamönnum landsins.

Nýir leikmenn til Aftureldingar
Afturelding hefur samið við sjö nýja leikmenn fyrir næsta tímabil. Bergvin Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth koma frá ÍR. Blær Hinriksson kemur frá HK og Úlfar Monsi Þórðarson frá Stjörnunni. Einnig koma Bjarki Snær Jónsson og Hafsteinn Óli Ramos frá Fjölni.

Hrannar, Fannar og Gunnar funda á Grillmarkaðnum.

Allir þessir leikmenn hafa mikla reynslu úr Olís deildinni og munu styrkja Aftureldingarliðið mikið fyrir komandi tímabil.

Piparkorn gefur út plötu og blæs til útgáfutónleika

Djasshljómsveitin Piparkorn var að gefa út sína fyrstu hljómplötu á Spotify.
Hljómsveitina skipa Mosfellingarnir María Gyða Pétursdóttir söngkona, Gunnar Hinrik Hafsteinsson sem spilar á gítar og bassa, Magnús Þór Sveinsson píanóleikari, Þorsteinn Jónsson á trommur og hin ungi og efnilegi 15 ára Keflvíkingur Guðjón Steinn Skúlason sem spilar á saxafón.
„Meðlimir Piparkorns hafa spilað saman í ýmsum myndum í gegnum tíðina en hljómsveitin eins og hún er skipuð í dag hefur spilað saman í rúmlega ár. Við höfum tekið þetta af mikilli alvöru síðasta árið og erum að uppskera eftir því.
Platan heitir Kryddlögur og inniheldur átta lög, fimm lög með söng og þrjú lög án söngs. Við erum virkilega ánægð með útkomuna og höfum fengið jákvæð viðbrögð,“ segir Gunnar Hinrik.

Tóku upp í stúdíó Sýrlandi
„Við vorum svo heppin að Mosfellingurinn Þorsteinn Gunnar Friðriksson var að gera lokaverkefni en hann er í hljóðtækninámi og bauð okkur að koma og taka upp í Stúdío Sýrlandi. Hann var okkur mikil stoð og stytta í þessu ferli. Hann hljóðblandaði og masteraði plötuna fyrir okkur. Þetta var algjört ævintýri en við tókum upp alla plötuna á einum degi og var þetta í fyrsta sinn sem við vorum í alvöru stúdíói,“ segir Þorsteinn.

Sigur í lagasmíðakeppni
„Við ákváðum með skömmum fyrirvara að taka þátt í lagasmíðakeppni MÍT og FÍH. Við sendum inn lagið Hvað er það, sem er eitt af lögunum á plötunni okkar.
Það er skemmst frá því að segja að við lentum í fyrsta sæti. Það var virkilega skemmtilegt að fá þessa viðurkenningu, sérstaklega þar sem margt hæfileikaríkt tónlistafólk tók þátt,“ segir Magnús Þór en að launum hlaut hljómsveitin tíma í stúdíói með hljóðmanni.
„Við hvetjum alla til að hlusta á plötuna okkar á Spotify en útgáfutónleikar verða haldnir á Barion sunnudaginn 21. júní, þar vonumst við til að sjá sem flesta Mosfellinga.“

Mælir ekki með sjúkrahúsvist í Króatíu

Andrea Kristín Gunnarsdóttir fór í örlagaríka hjólaferð ásamt vinkonum sínum þeim Helenu Byron og Hönnu Sigríði Stefánsdóttur til Króatíu í september síðastliðnum. Vinkonurnar flugu til Split og fóru þaðan í viku siglingu með lítilli snekkju sem sigldi á milli króatísku eyjanna þar sem þær hjóluðu um og nutu lífsins.
„Við vorum þrjár íslenskar valkyrjur í 30 manna hópi sem var frá öllum heimshornum, þetta var frábær hópur sem var eiginlega eins og lítil fjölskylda.
Við hjóluðum um eyjarnar með fararstjóra sem var alveg einstakt, algjör draumaferð þar til ég lenti í slysi,“ segir Andrea og bætir við að Króatía sé æðislegt land en mælir hvorki með sjúkrahúsi né læknaþjónustunni þar.
„Það var næstsíðasta daginn sem ég varð fyrir óhappi, ég lenti með framdekkið á hjólinu ofan í holu og það var bara eins og ég keyrði á vegg. Ég flaug fram fyrir mig og í raun er ekki vitað hvað gerðist en ég skarst illa á vinstri ökkla ásamt því að fara úr lið.
Fóturinn var mjög illa farinn, stórt opið og ljótt sár. Það má eiginlega segja að ég hafi verið heppin að halda fætinum. Ég var lemstruð í skrokknum en seinna kom svo í ljós að það hafði komið sprunga í upphandlegginn á mér.“

Níu daga á sjúkrahúsi í Split
Andrea fór með sjúkrabíl að þyrlu sem flutti hana á sjúkrahúsið í Split þar sem hún dvaldi í níu daga. Hún fór í stóra aðgerð við komuna á sjúkrahúsið þar sem sárið var hreinsað og saumað saman og tveir pinnar settir í hælinn.
„Þessi dvöl mín á þessu sjúkrahúsi er eiginlega efni í heila bók, ég hefði bara ekki trúað því að svona aðstæður væru til í dag. Þarna talaði engin ensku, maturinn var algjörlega óætur og þú gast ekki beðið um vatn.
Ég var á fimm manna stofu, þetta var eins og góð blanda af geðveikrahæli og elliheimili. Ég var þó heppin því ég hafði bjöllu við mitt rúm og þurfti því að nota hana bæði fyrir mig og hinar á stofunni,“ segir Andrea sem er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft vinkonur sínar með sér í þessum óvenjulegu aðstæðum en þegar hún fór með þyrlunni vissi enginn hvert hefði verið farið með hana.

Þakkar þjónustuna hjá VISA
Andrea lenti svo í því að fá sýkingu í sárið á þriðja degi og þurfti að gangast undir aðra aðgerð. Þarna var ljóst að hún væri ekki að fara heim í bráð. „Þegar ég þurfti að fara í seinni aðgerðina og gerði mér grein fyrir því að ég væri ekki að fara heim í bráð, hrundi ég eiginlega niður.
En sem betur fer fékk ég frábæra þjónustu hjá SOS sem er ferðatryggingin í gegnum VISA kortið, þeir komu því í kring að ég fékk að fara heim á níunda degi. Þeir gengu frá greiðslu fyrir sjúkrahúsvistinaa og bókuðu far fyrir okkur Hönnu heim, en hún dvaldi með mér allan tímann í Króatíu. Ég mun aldrei aftur kvarta yfir því að borga árgjald fyrir VISA kortið mitt,“ segir Andrea hlæjandi.

Spítalavist og endurhæfing
Heimferðin tók vel á en með dyggri aðstoð Hönnu komst Andrea heim til Íslands. Þegar þangað var komið fór hún beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún dvaldi næstu 10 vikur, fyrstu tvær vikurnar var hún í einangrun. „Það var ólýsanleg tilfinning að koma heim, hitta fólkið sitt og upplifa sig í öruggum höndum. Vikurnar á Landspítalanum voru fljótar að líða og ég er óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini, það leið ekki sá dagur að ég fékk ekki skemmtilega heimsókn.
Í framhaldinu fór ég í endurhæfingu á Grensás og var þar á legudeildinni í fimm vikur. Eftir það fór ég á dagdeildina hjá þeim og mætti þar daglega í frábæra endurhæfingu fram að COVID. Ég er eiginlega orðlaus yfir því frábæra starfi sem fram fer á Grensásdeildinni og þakka fyrir dásamlegt viðmót og einstaka þjónustu sem ég hef fengið hjá þeim.

Verkefni sem ég þarf að tækla
Andrea hefur tekist á við þetta verkefni með jákvæðni og æðruleysi. Hún starfar við ráðgjöf og þjónustu hjá Mentor og hefur frá 1. mars unnið 50% starf að heiman.
Þann 4. maí fór Andrea í aðgerð í Orkuhúsinu þar sem ökklinn á henni var stífaður, það var það eina í stöðunni þar sem fóturinn var svo illa farinn. „Nú er ég að jafna mig eftir þessa aðgerð, í lok júní má ég fara að tylla í fótinn og ég er búin að setja mér það markmið að ári eftir slysið, í september, ætla ég að geta gengið hækjulaus.
Ég er í eðli mínu jákvæð og hress og lít á þetta sem verkefni sem ég ætla að leysa. Ég er bjartsýn á framtíðina, ætla að fara að byggja mig upp aftur og koma mér í gott form. Ég er svo þakklát fyrir lífið og fólkið í kringum mig sem hefur staðið með mér og stutt mig í gegnum þennan tíma,“ segir Andrea að lokum.

Krefjandi vinna en afar skemmtileg

Ingvar Hreinsson múrari og verkstjóri hjá Vegagerðinni sér um viðhald á ljósvitum um land allt.

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878 en í dag eru þeir alls 104 að tölu og er þá ótalinn fjöldi innsiglinga-og hafnarvita í eigu og umsjá sveitarfélaga.
Óhætt er að fullyrða að með tilkomu vitabygginga hafi iðnbyltingin hafist á Íslandi. Bygging þeirra krafðist tækniþekkingar og verkkunnáttu sem áður var óþekkt og þetta voru fyrstu íslensku steinsteypubyggingarnar.
Margir hafa gaman af því að skoða vita landsins á ferðalögum sínum um landið en fáir þekkja þá jafn vel og Mosfellingurinn Ingvar Hreinsson en hann hefur haft yfirumsjón með þeim frá árinu 1996.

Ingvar Hreinsson er fæddur í Hafnarfirði 1. apríl 1957. Foreldrar hans eru þau Fjóla Svandís Ingvarsdóttir húsmóðir og Hreinn Þorvaldsson múrarameistari og starfsmaður Mosfellshrepps en þau eru bæði látin.
Systkini Ingvars eru Eygló Ebba f. 1950 d. 2014, Hrafnhildur f. 1953, Þorvaldur f. 1960 og Jóhanna Hrund f. 1962. Ingvar á einnig sex stjúpsystkini.

Horfðum á sjónvarpið í gegnum glugga
„Ég er alinn upp í Markholtinu og það var gott að alast þar upp, mamma var alltaf heima og tók á móti manni. Það var mikið af börnum í götunni og því alltaf líf og fjör.
Við krakkarnir sem bjuggum við það að hafa ekki sjónvarp á heimilum okkar bönkuðum oft upp hjá þeim vinum sem höfðu það til staðar og fengum að horfa á með þeim, oft bara í gegnum gluggann. Þetta var að sjálfsögðu kanasjónvarpið og skemmtilegast var að horfa á sunnudagsmorgnum, þá var oft ansi troðið við gluggana,“ segir Ingvar og brosir að minningunni.

Flísalagði sturtuklefana að Varmá
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og mér leiddist mikið í skólanum því mér fannst heimalærdómurinn alveg skelfilega leiðinlegur. Uppáhaldsfögin mín voru sund og leikfimi og uppáhaldskennararnir mínir Ágúst Óskarsson og Páll Aðalsteinsson.
Eftir útskrift úr gaggó fór ég að vinna í steypuvinnuflokki hjá Sigfúsi Árnasyni og fór þaðan yfir í Þórisós jarðverktaka. Þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík í múrverk. Lærifaðir minn á iðnskólaárunum var Magnús Sigurðsson og starfaði ég undir hans handleiðslu fyrstu árin hjá Byggung í Mosfellsbæ.
Ég útskrifast árið 1981 og fór þá að starfa sjálfstætt, fyrst um sinn eingöngu við múrverk en síðan með föður mínum og Þorvaldi bróður við flísalagnir og aringerð. Eitt af fyrstu verkefnum okkar feðga var að flísaleggja sturtuklefana í íþróttahúsinu að Varmá.
Við bræðurnir stofnuðum síðan verktakafyrirtækið Múr­vang.“

Samheldin stórfjölskylda
Eiginkona Ingvars er Laufey Jóhannsdóttir klæðskeri og matráður hjá Innes heildverslun. Synir þeirra eru Jens f. 1983 og Hrafn f. 1985. Barnabörnin eru fjögur.
Helstu áhugamál Ingvars eru golf, stangveiði, bjórbrugg, handboltagláp, Afturelding og ferðalög.
„Stórfjölskyldan er mjög samheldin og við ferðumst mikið saman bæði innanlands sem utan, gistum í sumarbústöðum, fellihýsum eða vel völdum vitum. Þegar við leggjum land undir fót þá hefur Flórida oftast orðið fyrir valinu.“

Renndi blint í sjóinn með innkaupin
„Árið 1996 sá ég atvinnuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir múrara til Vita- og hafnamálastofnun sem síðar var breytt í Siglingastofnun Íslands. Ég sótti um og var svo heppinn að fá starfið. Árið 2013 var Siglingastofnunin lögð niður og færðust þá vita- og hafnamál yfir til Vegagerðarinnar.
Í fyrstu hafði ég yfirumsjón með viðhaldsverkefnum á ljósvitum Íslands en svo þróaðist þetta út í það að ég skipulagði verkefnin og vann þau sjálfur ásamt öðrum. Einnig sá ég um öll innkaup stofnunarinnar á efni og tækjum til viðhaldsins að bílum undanskildum.
Þegar ég fór í minn fyrsta túr á varðskipi þá renndi ég blint í sjóinn með efniskaup, ég keypti svo mikið efni að það dugði til viðhaldsvinnu í þrjú ár,“ segir Ingvar og brosir.

Það þarf alltaf að taka tillit til veðurs
„Fyrstu árin með vitana voru mjög erfið vegna múrskemmda. Vitarnir standa oft á afskekktum stöðum svo það er erfitt er að komast að þeim. Sumir eru á eyjum og aðrir á útnesjum þar sem eru engir vegir. Það fer stundum meiri tími í að koma efni og búnaði að og frá vitunum heldur en tíminn við vinnuna sjálfa.
Stundum þarf þyrlu, skip, báta eða bíla til að koma öllu til sem þarf sem næst verkefninu.
Í sumum tilfellum þarf að gæta sjávarfalla og það þarf alltaf að taka tillit til veðurs. Veðurfar við vitana er ekki það sama og í byggð, þar er yfirleitt rok og einhverjum gráðum kaldara. Vinna við þessar aðstæður er bara alls ekki fyrir alla.“

Þakklátur fyrir kennsluna
„Ég var svo heppinn að það voru reyndir starfsmenn í vitahópnum sem kenndu mér mikið um meðferð gúmmíbáta og utanborðsmótora. Þeir voru líka vel að sér um hvort og hvar væri hægt að lenda bátunum. Hjá þeim lærði ég að ganga tryggilega frá bátunum hvort sem þeir voru festir við ból eða akkeri. Þeir kenndu líka að hnýta hnúta og aðra handavinnu. Það var ómetanlegt því mesta hættan á sjó var í lendingum við vitana.
Ég man hvað það var oft erfitt að vera með heilt varðskip á leigu því pressan var mikil frá skipstjórunum að tímaplönin stæðust, dagarnir urðu því oft ansi langir.“

Starfið krefst mikillar skipulagningar
„Meginregla hjá okkur er að komast í viðhald á vitunum á fimm ára fresti. Þetta er mikil vinna og krefst skipulagningar. Það þarf að skafa og mála veggi og gólf, ryðverja, mála járnfleti eins og t.d ljóshúsin á vitunum. Fara þarf yfir allt tréverk og mála það, skipta um brotnar rúður og eitt og annað sem kemur upp á. Ekki má gleyma að þrífa vel gler og linsu sem lýsir út í myrkrið.
Vinna í eyjavitum fer mikið fram í tveggja manna körfum. Þær eru hífðar upp í vitann með köðlum í talíum/blökkum á handafli og þegar karfan er komin upp þá fer maðurinn sem bíður í vitanum í körfuna og festir hana vel. Svo vinna menn sig rólega niður vitann í körfunni þangað til vitinn er fullmálaður.“

Gaman að vinna með unga fólkinu
„Þetta starf á mjög vel við mig, ég hlakka alltaf til að komast af skrifstofunni og út á land á vorin og svo eins að koma inn í notalega innivinnu á haustin en þá hef ég aðallega séð um líkanagerð á höfnum landsins.
Það er gaman að vinna með unga fólkinu í stuttum törnum, það er hresst og skemmtilegt. Þau eru ekki að velta fyrir sér hvað sé í fréttum eða einhverjum kosningum. Það er mest talað um bíómyndir, þætti og tónlist og þau eiga það sameiginlegt að þeirra kynslóð er sú besta, að sjálfsögðu,“ segir Ingvar og brosir þegar við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. júní 2020
ruth@mosfellingur.is

Vínbúðin stækkar í Kjarnanum

Vínbúðin opnaði nýja og endurbætta verslun í Kjarnanum þann 27. maí.
„Við erum bara að færa okkur hinum megin við vegginn,“ segir Fríða Margrét Sigvaldadóttir verslunarstjóri búðarinnar.
Verslunin er talsvert stærri en sú gamla, eða um 500 fermetrar. Um er að ræða stærri búð með stærri kæli og stórauknu vöruúrvali. „Þetta er um 200 fermetra stækkun og fjölgar vörutegundum í rúmlega 700 talsins, sem er aukning um 100 tegundir,“ segir Fríða sem segir útibúið í Mosfellsbæ ganga vel.
„Við viljum auðvitað að Mosfellingar versli í heimabyggð og höfum við séð mikla aukningu eftir að COVID skall á. Eins hentar staðsetning búðarinnar vel fyrir fólk sem er að fara út úr bænum, þá er fínt að renna við hér, nóg af bílastæðum eftir að Bónus fór.“

Uppbygging Blikastaðalands

Bæjarráð hefur tekið fyrir ósk Landeyjar um að hefja vinnu með Mosfellsbæ um þróunar-, skipulags- og uppbyggingarvinnu vegna Blikastaðalands.
Bæjarstjóra var í kjölfarið falið að bjóða forsvarsmönnum Landeyjar á sameiginlegan fund bæjarstjórnar og skipulagsnefndar þar sem fyrirhuguð uppbyggingaráform á Blikastaðalandi yrðu kynnt nánar.

Fyrstu hugmyndir kynntar
Kynningarfundur fór fram í byrjun maí þar sem fulltrúar Landeyjar og ráðgjafar þeirra hjá Alta kynntu fyrstu hugmyndir um mögulega þróun íbúabyggðar á landi Blikastaða og reifuðu möguleg næstu skref í málinu.
Í kjölfar þess var bæjarstjóra Mosfellsbæjar falið að undirbúa viljayfirlýsingu um samstarf sem feli í sér upphaf þróunar-,
skipulags- og uppbyggingarvinnu. Samhliða þeirri vinnu verði gerð tillaga um skipun rýnihópa sem rýni skipulagsmál, skólamál og fjárhagsleg áhrif verkefnisins.

Uppbygging næsta aldarfjórðunginn
„Uppbygging Blikastaðalands hefur lengi verið á teikniborðinu en ekki enn komist þaðan. Núverandi eigandi hefur kynnt Mosfellsbæ sín áform og ekki verður annað séð en að samvinna við hann geti þokað okkur af teikniborðinu til framkvæmda.
Þetta er auðvitað langtímaverkefni og uppbyggingin myndi eiga sér stað næsta aldarfjórðunginn og þá í takti við uppbyggingu Borgarlínu sem er í raun forsenda fyrir bæði byggðinni og því að Borgarlína liggi að miðbæ Mosfellsbæjar.
Fyrir okkur Mosfellinga getur þetta verið áhugavert tækifæri til þess að þróa okkar góða bæjarfélag að enn betra samfélagi,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.

Nýtt rekstrarfélag um Reykjalund

Heilbrigðisráðherra tilnefndi í nóvember 2019 starfsstjórn yfir Reykjalundi til að stýra stofnuninni meðan unnið væri að endurskoðun stjórnskipulags stofnunarinnar sem var samstarfsverkefni starfsstjórnar og SÍBS, eiganda Reykjalundar.
Nú hefur starfsstjórnin kynnt starfsfólki Reykjalundar framtíðarfyrirkomulag stjórnunar endurhæfingarmiðstöðvarinnar. M.a var kynnt nýtt skipurit sem tók gildi 1. júní og var unnið í samráði við starfsfólk.

Óhagnaðardrifið einkahlutafélag
Á fundinum kom fram að stofnað hefur verið sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi. Nýja félagið verður óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem verður óháð stjórn SÍBS. Eins og kynnt var nýlega hefur Pétur Magnússon verið ráðinn forstjóri og tók hann til starfa 1. júní.
Stjórn hins nýja hlutafélags skipa Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, formaður, Gunnar Ármannsson lögmaður, meðstjórnandi, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, meðstjórnandi, Arna Harðardóttir sjúkraþjálfari, varamaður.

Reykjalundur áfram í fararbroddi
Stefán Yngvason formaður starfsstjórnar er ánægður með ávinning af starfi starfsstjórnarinnar. „Að loknu þessu sex mánaða tímabili starfsstjórnar Reykjalundar er ég sannfærður um að við höfum fundið mjög farsæla lausn og að framtíðin er björt fyrir Reykjalund og endurhæfingarþjónustu í landinu.
Á Reykjalundi er metnaðarfullt fagfólk og með þessum breytingum er stigið stórt skref til að tryggja að Reykjalundur verði áfram í fararbroddi í endurhæfingu í íslensku heilbrigðiskerfi.“
Hlutverk SÍBS til framtíðar sem eiganda Reykjalundar endurhæfingar ehf. verður fyrst og fremst að fjármagna uppbyggingu á staðnum. Daglegur rekstur endurhæfingarþjónustunnar mun áfram byggjast á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Tryggt verður að launakjör, lífeyrisréttindi og önnur réttindi og skyldur starfsmanna Reykjalundar haldist óbreytt hjá nýja félaginu.

Bjarnarganga á Stöðvarfirði

Við vorum á Kirkjubæjarklaustri um helgina, ég, frúin og sá yngsti ásamt góðum vinum okkar. Þetta var ótrúlega notaleg helgi. Góð samvera, leikir, spil, útivera og magnað umhverfi. Ég fór eftir helgina að pæla í því hvernig jákvæðar tengingar ég hefði við hina ýmsustu staði landsins. Rúllaði í gegnum þann leik með sjálfum mér að velja stað af handahófi og rifja upp jákvæða og heilbrigða minningu þaðan. Án þess að ofhugsa eða velja staði sem enginn hefur komið til.

Hér eru nokkur sýnishorn: Ísafjörður – fjölskylduganga upp í Naustahvilft; Akureyri – ganga frá flugvellinum inn í bæ, beint á Bláu könnuna í spínatböku og kaffi; Hafravatn – fá að prófa uppblásið SUP bretti hjá ókunnugum; Hornafjörður – útiæfing með góðu fólki við apastigann fyrir neðan Hótel Höfn; Vestamannaeyjar – ganga upp á Heimaklett; Hvalfjörður – sjósund við ryðgaða bryggju; Bifröst – spretthlaup upp Grábrók; Esjan – rösk ganga að Steini, hlaup niður „hinum“ megin; ónefnd gil og gljúfur – ævintýraferðir með ævintýrafólki; Hengilssvæðið – heimagerður heitur pottur með æskufélögum; Búðardalur – fótboltaleikir á battavellinum í stoppi á leiðinni á Strandir; Stöðvarfjörður – bjarnarganga hjá „Gangið ekki á grasinu“ skilti; Sauðárkrókur – körfuboltakeppnisferðir; Djúpavík – kaffi í fjöruborðinu. Þetta eru bara nokkur dæmi, ég hefði getað haldið lengi áfram. Ég komst að því að ég get tengt einhverja jákvæða upplifun við alla, leyfi ég mér að fullyrða, staði sem ég hef komið á. Bæði á Íslandi og erlendis.

Það sem svona æfingar/leikir gera fyrir mann er að fylla mann þakklæti. Þakklæti fyrir allar þessar góðu minningar. Að hafa fengið og tekið þátt í að búa þær til. Njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Við bjuggum til nýjar svona minningar á Klaustri um síðustu helgi. Þær fara í minningabankann með hinum. Og ég á eftir að búa til margar nýjar með mínu fólki í ár og komandi ár. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júní 2020

Listasalurinn starfræktur í 15 ár

Listasalur Mosfellsbæjar er 15 ára í ár. Salurinn er inn af Bókasafni Mosfellsbæjar og opinn á afgreiðslutíma þess.
Settar eru upp um tíu sýningar á ári og er umsjónarmaður Listasalarins Steinunn Lilja Emilsdóttir. Við spurðum hana nokkurra spurninga um starfsemi salarins.

Hvernig sýningar er boðið upp á?
Sýningar í Listasalnum eru mjög fjölbreyttar. Hér hafa verið sýnd málverk, vídeó­verk, ljósmyndir, skúlptúrar, innsetningar, textíll og handverk. Sumar sýningarnar eru sögulegar, sumar þemakenndar og aðrar persónulegar. Markmiðið er að sýna alls konar myndlist.

Eru listasýningar vel sóttar?
Já, þær eru það og undanfarin ár hefur gestum fjölgað. Listasalur Mosfellsbæjar er skemmtilegur að því leyti að fólk sem alla jafna sækir ekki myndlistarsýningar rambar inn þegar það á leið um bæinn eða í bókasafnið. Það hefur einnig færst í vöxt að fólk geri sér ferð úr nágrannasveitarfélögum til að kíkja á sýningar, enda Mosfellsbær minna úr leið en margir halda.
Skólabörn eru líka dugleg að kíkja á sýningar með kennurunum sínum. Það er sérstaklega gaman að yngri gestunum því þeir koma oft með skemmtilegar athugasemdir um listina og hafa aðra sýn en við sem erum fullorðin. Um daginn var t.d. sýning eftir Hjördísi Henrysdóttur þar sem þemað var sjómenn í sjávarháska og þá vildu börnin helst fá að vita hvort fólkið á myndunum hefði ekki örugglega komist heilt á húfi aftur heim til sín.

Hefur svona listasalur mikla þýðingu fyrir bæinn?
Alveg klárlega, bæir þurfa meira en heimili og fyrirtæki. Þar þurfa líka að vera samkomustaðir sem bæjarbúar nýta saman. Listasalur Mosfellsbæjar er kjörið afdrep til að taka smá pásu, taka inn menningu, horfa á fallega og áhugaverða hluti og velta þeim fyrir sér.
Í fyrra var t.d. sýnt verk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem kúrbít var haldið uppi með spýtu. Mörgum eldri gestum fannst þetta heldur skrýtin list en þegar þeir fussuðu yfir þessu spurði ég hvort þeir hefðu nokkurn tíma séð svona áður. Allir svöruðu því neitandi. „Er ekki orðið langt síðan að þú sást eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður?˝ Þá virtist fólk átta sig og brosti út í annað.

Hvað er fram undan hjá ykkur?
Við þurftum að fresta nokkrum sýningum út af hertu samkomubanni en næst á dagskrá er sýning Ásgerðar Arnardóttur. Hún er ung listakona sem vinnur með samspil tvívíddar og þrívíddar. Sýning hennar verður opnuð 29. maí kl. 16. Svo erum við núna að taka á móti umsóknum fyrir sýningarárið 2021.

Getur hver sem er sótt um?
Já, allir geta sótt um sem vilja. Við hvetjum Mosfellinga sérstaklega til að sækja um því mikil gróska er í listalífinu hér, sem Listasalur Mosfellsbæjar vill gjarnan taka þátt í að miðla. Ekki er skilyrði að fólk sé menntað í listum. Aðalmálið er að umsóknin sé vel unnin.
Að mínu mati er myndlist best þegar hún talar til áhorfandans og býður upp á tengingu við hann. Svo þarf líka að hafa í huga að það er enginn skaði skeður þótt maður fái neitun um sýningarpláss. Margar ástæður geta legið þar að baki og sjaldnast beinast þær að gæðum myndlistarinnar eða verkanna.
Í fyrra fengum við metfjölda umsókna en markmiðið er að slá það met í ár.

Tvöföldun Vesturlandsvegar mun ljúka í ár

Samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar um tvöföldun Vesturlandsvegar milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ hefur verið boðið út.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti samning milli Mosfellsbæjar og Vegagerðarinnar um kostnaðarskiptingu og endanlega kostnaðaráætlun verksins.

Miklar samgöngubætur
Verkefnið felur í sér miklar samgöngubætur fyrir bæði íbúa Mosfellsbæjar og þá sem eru á norður eða vesturleið, með breikkun vegsvæða á kaflanum milli Skarhólabrautar og Langatanga, fjórum akreinum og aðskilnaði á akstursstefnum með vegriði.
Vegkaflinn er 1,1 km að lengd og hefur reynst flöskuháls þegar umferð er mikil en við framkvæmdina eykst jafnframt umferðaröryggi til muna. Samhliða verða byggðir hljóðvarnarveggir, hljóðmanir, biðstöð fyrir Strætó og tilheyrandi tengingar við stígakerfi Mosfellsbæjar.
Tilboð í verkið voru opnuð þann 5. maí og var tilboð Loftorku uppá 490 milljónir lægst. Háfell bauð 609 m., Ístak 558 m. og Grjót og grafa 508 m. Áætlaður verktakakostnaður var 706 milljónir.

Flöskuhálsinn brátt úr sögunni
„Með breikkun Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ verður brátt úr sögunni einn mesti flöskuhálsinn á þjóðvegi eitt. Langar raðir sem myndast hafa í átt að Mosfellsbæ á álagstímum heyra þá sögunni til. Þessi framkvæmd hefur verið baráttumál okkar Mosfellinga í mörg ár. Þetta er löngu tímabær framkvæmd og mikið fagnaðarefni,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Samkvæmt útboðslýsingunni skal full ljúka verkinu eigi síðar en þann 1. desember 2020.