Afgangur af rekstri bæjarins áætlaður um 350 milljónir

fjarhagsaætlunmos

kakamosFjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 og næstu þrjú ár þar á eftir var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 30. október.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að tekjur verði 13.380 m.kr., gjöld án fjármagnsliða 12.402 m.kr., fjármagnsliðir 628 m.kr. og að rekstrarafgangur verði 350 m.kr. Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 2.970 m.kr. sem að mestu rennur til skóla-, gatna- og veitumannvirkja. Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega 5% milli ára, en þeir eru nú um 12.000. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Leikskólagjöld lækki um 5%
Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 10,6% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.277 m.kr. eða tæplega 10%. Skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði 79% í árslok.
Gert er ráð fyrir hóflegri hækkun gjaldskráa til samræmis við stefnumörkun lífskjarasamninganna en að leikskólagjöld lækki um 5%, auk þess sem álagningarprósentur fasteignagjalda lækka.
Áfram verður aukning á nýjum plássum á leikskólum fyrir 12–18 mánaða börn og er gert ráð fyrir að fjölga um 25 pláss á árinu 2020.
Á sviði fjölskyldumála eru lagðir til auknir fjármunir í málefni fatlaðs fólks, meðal annars með stofnun heimilis fyrir geðfatlaða.
Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 14% auk þess sem stefnumörkun um starfsemi Hlégarðs ljúki og auknum fjármunum verði varið í endurbætur hússins.

Kraftur einkennir samfélagið
„Það er okkur Mosfellingum sem fyrr fagnaðarefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er í miklum blóma og kraftur einkennir samfélagið okkar sem er í örum vexti,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þjónusta við íbúa og viðskiptavini eflist stig af stigi, Helgafellsskóli er í byggingu og nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í notkun um síðustu helgi. Allt er þetta gert til að mæta þörfum íbúa núna og til framtíðar, byggja upp gott samfélag og auka lífsgæði og velferð íbúa.“
Síðari umræða um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 fer fram miðvikudaginn 27. nóvember.

Hetjusögur og heilsa

Heilsumolar_Gaua_14nov

Við elskum hetjur. Elskum að sjá einstaklinga og hópa vinna til verðlauna. Gera meira en aðrir. Í vikunni var viðtal við unga konu í Fréttablaðinu. Í undirfyrirsögn sagði að hún hefði lokið framhaldsprófi í djasssöng fimm árum eftir að hún hóf nám og afrekað á sama tíma að ljúka mastersnámi og eignast tvö börn. Þetta er afrek, það er ekkert grín að koma svona miklu í verk á meðan maður berst sem foreldri í gegnum svefnlitlu næturnar sem óhjákvæmilega fylgja því að eiga ungbörn.

Á sama tíma og við elskum að heyra af fólki sem getur og gerir meira en við hin, þá tölum við um mikilvægi jafnvægis í lífinu. Að við þurfum að passa upp á heilsuna, hreyfa okkur, sofa vel, borða hollt, njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum og sinna áhugamálunum.

Hvernig fer þetta saman? Að hafa brjálað að gera og koma mörgu í verk á sama tíma og passa upp á jafnvægið í lífinu? Ég hef farið í gegnum nokkur „brjálað að gera“ tímabil í lífinu, mislöng. Stundum lendir maður einhvern veginn í þannig tímabilum, en stundum er maður sjálfur arktitektinn að þeim. Eftir á að hyggja, þá get ég með fullvissu sagt að heilsufar mitt hefur aldrei verið verra en þegar sem brjálaðast var að gera. Ég á dagbækur sem sýna þetta svart á hvítu. Get flett í þeim og lesið hvað ég var lengi að drattast upp á Reykjafellið og hvað púlsinn fór hátt.

Alveg eins og ríkisstjórnir, þar á meðal okkar eigin, eru byrjaðar að tala um að nota vellíðan og velferð frekar en hagvöxt sem mælikvarða á velgengi þjóða, gæti verið gott fyrir okkur að líta í eigin barm og tala og haga okkur samkvæmt því sem við vitum að er best fyrir okkur. Skipta vellíðan inn fyrir brjálæðið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. nóvember 2019

Tækifærin eru óteljandi

sóley

Sóley Rut Jóhannsdóttir ætlaði sér alltaf að verða dýralæknir en hætti við og fór í Byggingatækniskólann í Reykjavík í húsgagna- og húsasmíði. Hún er nú með tvö sveinspróf í hendi aðeins 26 ára gömul og lætur ekki staðar numið þar því hún byrjaði í meistaranámi nú í haust.
Hún segir að iðngreinarnar henti jafnt konum sem körlum og að atvinnutækifærin séu óteljandi.

Sóley Rut er fædd í Reykjavík 10. mars 1993. Foreldrar hennar eru þau Katrín María Káradóttir fagstjóri og dósent í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Jóhann Bjarki Júlíusson flugvirki hjá British Airways.
Sóley Rut á eina systur, Salvöru Lóu Stephensen, fædda 2017. Faðir hennar er Sigurður Sverrir Stephensen barnahjartalæknir.

Flutti til Parísar
„Ég ólst upp að mestu leyti í miðbæ Reykjavíkur hjá mömmu minni en foreldrar mínir slitu samvistum þegar ég var á öðru ári. Árið 2000 fluttum við mæðgur til Parísar þar sem mamma fór í nám og þar bjuggum við í 5 ár.
Við mamma komum alltaf heim til Íslands á sumrin því hún starfaði sem fjallaleiðsögumaður. Ég var þá mikið hjá afa og ömmu og hjá vinafólki og á því góðan hóp af aukaforeldrum sem mér þykir ákaflega vænt um. Þar á meðal er guðmóðir mín, Kristín Sólveig Kristjánsdóttir, en börn hennar urðu svolítið eins og systkini mín.
Faðir minn, Bjarki, og Eva eiginkona hans hafa búið erlendis meira og minna alla mína ævi en ég hef líka verið mikið hjá þeim.“

Græddi margt á þessum árum
„Árin í París voru fyrir mér mikil lífsreynsla og ég kunni alveg ofboðslega vel við mig þarna. Ég var samt alltaf í góðu sambandi við gömlu vini mína úr Austurbæjarskóla. Það var ekki fyrr en ég varð unglingur sem ég fékk fyrst heimþrá og fljótlega eftir það fluttum við heim.
Ég hef oft hugsað um það hvernig líf mitt hefði orðið ef við hefðum ekki flutt aftur heim, en ég sé alls ekki eftir neinu. Ég græddi margt á árunum þarna úti, nýtt tungumál, nýja menningu, kynntist fólki og svo á maður svo margar góðar minningar sem erfitt er að lýsa með orðum.“

Þetta var eins og í bíómynd
„Af æskuminningunum er af mörgu að taka, veiði við Brúará og stundirnar í bústaðnum hjá ömmu og afa. Þau voru miklir veiðimenn og sáu um lítið veiðihús þar. Ég fékk að skrifa aflatölur í bækur og segja frá því sem gerst hafði yfir daginn. Þau eiga allar þessar bækur ennþá.
Ég held mikið upp á mótorhjólaferð sem ég fór í með pabba og Evu en það var alveg nýr heimur fyrir mig að sitja aftan á mótorhjóli. Við gistum í hjólahýsagarði með fullt af mótorhjólafólki, þetta var eins og í bíómynd,“ segir Sóley Rut og brosir. „Þau fóru líka með mig til Þýskalands til að læra á Trial mótorhjól, það var mjög skemmtilegt.“

Besta gjöf sem ég hef fengið
„Ég man þegar ég fór með mömmu á tískusýningu hjá Christian Dior og John Galliano á Champs-Elysées en hún fór til að sýna mér afrakstur vinnu sinnar en hún vann fyrir tískuhúsin. Ég man hvað ég var stolt af henni.
Þegar ég var níu ára þá var ég búin að fara á óteljandi tískusýningar, taka þátt í að sýna og svo sat maður fyrir í myndatökum fyrir tískublöð, maður hrærðist í þessum heimi.
Besta minning mín er samt án efa dagurinn þegar mamma sótti mig í skólann og kom mér á óvart með bestu gjöf sem ég hef fengið á ævinni. Þegar við komum heim þá beið mín hundabúr með hvolpi í. Vivienne varð órjúfanlegur partur af okkar tveggja manna fjölskyldu en hún veitti okkur stanslausa gleði í 13 ár. Besti hundur í heimi og ég hef ekki ennþá fundið neitt sem nær að fylla hennar pláss í hjarta mínu.“

Keppti á tveimur mótum
„Við bjuggum í miðbænum eftir að við fluttum heim og ég bjó þar fram yfir útskrift úr menntaskóla en þá flutti ég að heiman. Ég var eitt ár í Menntaskólanum í Reykjavík en færði mig svo yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist þaðan. Ég kynntist módelfitness á síðasta árinu mínu í MH og keppti á tveimur mótum. Með skólanum vann ég á McDonalds´s og á skemmtistöðum í bænum.“

Innréttuð með tilliti til nýtingar
„Planið alveg frá því að ég var barn var að læra dýralækningar en á síðustu metrunum í skólanum fóru einhverjar efasemdir af stað og ég hætti við. Ég fór að vinna í fiski svona til að prófa eitthvað nýtt, en fór svo að hugsa um einkaþjálfaranám eða innanhússhönnun.
Mamma fann að ég var eitthvað áttavillt þegar ég var farin að skoða skóla í Ástralíu. Hún stakk upp á að ég færi í húsgagnasmíði þar sem ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á smáhúsum sem voru innréttuð á margvíslegan máta, sérstaklega með tilliti til nýtingar á plássi.
Ég byrjaði í Byggingatækniskólanum 2012 og strax eftir fyrstu önnina var ég búin að skrá mig á húsasmíðabrautina líka. Ég vann sem barþjónn með skólanum og gerði það þangað til ég fór á samning í húsasmíði.“

Bættum við öðrum hundi
„Ég flutti í Mosfellsbæ og ári eftir að ég flutti kynntist ég Stefáni Sindra Ragnarssyni, múrara. Við keyptum okkur lítið raðhús nú í byrjun árs og erum alveg ofboðslega ánægð hérna.
Ég var nýbúin að fá mér hvolp þegar við Stefán kynntumst en við ákváðum síðan að bæta við öðrum hundi sem kom til okkar í sumar. Tíkurnar eru hálfsystur og það er bara eins og þær hafi verið saman alla ævi.“

Vinnutíminn gaf mér frelsi
„Ég kláraði sveinspróf í húsasmíði en hætti svo að vinna við smíðar. Ég var orðin frekar leið á lífinu og fór aftur í barstörfin og vinnutíminn gaf mér frelsi til að tjasla mér saman andlega.
Eftir nokkra mánuði var mér farið að líða betur og vinkonur mínar og kærastinn hvöttu mig til að sækja um annað smíðastarf og láta slag standa. Ég gerði það og er óendalega þakklát fyrir þá ákvörðun. Fyrirtækið sem ég starfa hjá í dag heitir Afltak, og er hér í Mosfellsbæ. Frábært fyrirtæki í alla staði sem heldur vel utan um sitt fólk. Í dag eru óteljandi atvinnutækifæri fyrir iðnmenntað fólk og ég hvet unga fólkið til að kynna sér þetta nám.
Fyrir nokkrum vikum fékk ég sveinsbréfið í húsgagnasmíði og svo byrjaði ég í Meistaraskólanum núna í september svo það er því lítill tími fyrir áhugamál þessi misserin nema kannski í félagsstörfum fyrir Félag fagkvenna en það er félag fyrir konur sem starfa í karllægum iðngreinum,“ segir þessi harðduglega kona að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 24. október 2019
ruth@mosfellingur.is

Varmárkórinn er nýr kvennakór í Mosfellsbæ

kvennakór

Nýr kór hefur verið stofnaður í Mosfellsbæ. Kórinn er aðallega skipaður fyrrverandi félögum Skólakórs Varmárskóla en fleiri áhugasamir geta þó tekið þátt en þurfa að vera söngvanir.
Það var flottur hópur fyrrverandi félaga sem söng á 40 ára afmælistónleikum Skólakórs Varmárskóla í vor og einhverjir höfðu á orði að gaman væri að gera eitthvað meira úr þessu. Varð það tilefni að stofnun kórsins sem er kvennakór.
Markmið kórsins er að syngja saman í góðum félagsskap og vera stuðningur við kórstarfið í Varmárkóla auk þess að vera með eigin tónleika eða í samvinnu við aðra.
Kórinn hefur fengið æfingaaðstöðu í Varm­árskóla og þurfa kórfélagar ekki að greiða kórstjóra laun eða önnur kórgjöld.
Æfingar eru tvisvar í mánuði, að öllu jöfnu annan og fjórða miðvikudag hvers mánaðar. Þetta er því upplagt tækifæri fyrir þær sem hafa gaman af syngja í kór en vilja kannski ekki binda sig í hverri viku.
Kórinn hefur fengið nafnið Varmárkórinn. Söngstjóri er Guðmundur Ómar Óskarsson, netfang gudm.omar@gmail.com.

Ólga á Reykjalundi

reykjalundurolga

Mikil reiði og vanlíðan er meðal starfsfólks Reykjalundar í kjölfar þess að stjórn SÍBS, sem á Reykjalund, sagði Birgi Gunnarssyni forstjóra og Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga, upp störfum með skömmu millibili. Birgir gegndi stöðu forstjóra í þrettán ár og Magnús starfaði á Reykjalundi í 34 ár.
Magnúsi var sagt upp störfum 9. október, aðeins nokkrum vikum áður en hann átti að fara á eftirlaun. Í viðtali við RÚV sagði hann uppsögnina hafa komið sér mjög á óvart og viðurkenndi að hann hefði séð starfslokin öðruvísi fyrir sér.
Daginn eftir voru sjúklingar í endurhæfingu sendir heim þar sem starfsfólk treysti sér ekki til að sinna þeim án framkvæmdastjóra lækninga. Starfsmennirnir lýstu yfir vantrausti á stjórn Reykjalundar og skoruðu á heilbrigðisráðherra að grípa inn í stöðuna.

Birgir frábær og Magnús kominn á aldur
Að minnsta kosti fjórir læknar á Reykjalundi hafa sagt upp störfum síðustu daga og fram hefur komið í fréttum að fleiri íhugi stöðu sína. Tólf læknar starfa að jafnaði á stofnuninni.
Stjórn SÍBS hefur sagt að ekkert saknæmt hafi átt sér stað í störfum fyrrverandi forstjóra. Starfslokasamningur var gerður við hann sem trúnaður ríkir um. Sveinn Guðmundsson, formaður SÍBS, sagði Birgi hafa verið frábæran stjórnanda. Magnúsi hefði verið sagt upp sökum aldurs.
Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir hefur nú verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi. Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs stofnunarinnar, hefur verið ráðin forstjóri tímabundið en til stendur að auglýsa stöðuna. Herdís var áður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hún sagðist í samtali við RÚV búast við að nýr forstjóri taki við 1. febrúar á næsta ári.

Knatthúsið að Varmá vígt 9. nóvember

knatthús

Nýtt fjölnota knattspyrnuhús verður vígt að Varmá laugardaginn 9. nóvember. Dagskrá hefst kl. 13 þegar Sturla Sær Erlendsson formaður íþrótta- og tómstundanefndar býður gesti velkomna. Þá munu bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, og Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar ávarpa samkomuna. Alverk ehf. mun afhenda húsið formlega og kynnt verður samkeppni meðal bæjarbúa um nafn á húsið. Boðið verður upp á knattspyrnu- og frjáls­íþróttaþrautir, vítakeppni og hoppukastala. Þá mun félag eldri borgara í Mosfellsbæ, FaMos, opna formlega göngubraut í húsinu. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Gert er ráð fyrir því að æfingar hefjist í húsinu þriðjudaginn 29. október að loknu vetrarfríi í skólum.

SIGRAR

heilsa24okt

Við fórum 25 manna hópur til Barcelona fyrir stuttu að taka þátt í skemmtilegri keppni sem kallast Spartan Race. Fyrir suma var þetta fyrsta keppnin, aðrir voru búnir að taka þátt í nokkrum keppnum frá því að við kynntumst henni fyrst í desember 2018. Það var kjarnakona í æfingahópnum okkar sem stakk upp á því að við myndum taka þátt í Spartan Race í Hveragerði 2018 og vorum við nokkur sem stukkum á þá hugmynd. Hún var sjálf reyndar fjarri góðu gamni þá, en löglega afsökuð og kemur sterk inn í næstu keppni sem við förum í.

Spartan Race er magnað fyrirbæri, það geta allir tekið þátt í sömu keppninni en á sínum forsendum og í flokki sem hentar viðkomandi. Afreksíþróttamenn, atvinnumenn í greininni, keppa á sama stað og fólk sem hefur aldrei tekið þátt í utanvegarþrautahlaupi. Munurinn er vegalengdin sem er hlaupin, erfiðaleikastig þrautanna sem þarf að leysa á leiðinni og hvort þú mátt fá aðstoð frá öðrum eða ekki.

Við sem tókum þátt í Hveragerði urðum strax heilluð af keppninni, passlega löng hlaup, erfiðar en skemmtilegar þrautir og óvæntar aðstæður til að takast á úti í náttúrunni. Fólkið okkar hefur síðan þá tekið þátt í Kaliforníu, Búdapest, Skotlandi og svo núna í Barcelona. Mér finnst skemmtilegast að upplifa alla litlu en samt stóru sigrana í kringum keppnina. Til dæmis þegar sá 55 ára gat í keppni klifrað upp drulluskítugan og sleipan kaðallinn, eitthvað sem hann hefur dreymt um að gera síðan hann komst aldrei upp kaðal í grunnskólaleikfimi. Það var líka gaman að upplifa hvað konurnar í hópnum voru sterkar, hreinlega pökkuðu saman styrktarþrautunum í Barcelona, þrautum sem heimasæturnar áttu margar í erfiðleikum með. Samstaðan, þrautseigjan, samveran og gleðin við að klára erfiða en gefandi þrautabraut telur líka mikið.

Við erum rétt að byrja, kemur þú með næst?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. október 2019

90 ára afmæli Klébergsskóla

Sölvi Sveinbjörnsson (nýútskrifaður úr Klébergsskóla), Sigrún Anna Ólafsdóttir skólastjóri Klébergsskóla, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Brynhildur Hrund Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri Klébergsskóla.

Sölvi Sveinbjörnsson (nýútskrifaður úr Klébergsskóla), Sigrún Anna Ólafsdóttir skólastjóri Klébergsskóla, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Brynhildur Hrund Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri Klébergsskóla.

Afmælishátíð var haldin í Klébergsskóla á Kjalarnesi laugardaginn 19. október en þá voru liðin 90 ár frá því að hann var vígður. Á afmælisdaginn var opið hús í skólanum og mættu fjölmargir gestir í heimsókn.
Nokkur félagasamtök á Kjalarnesi stóðu að byggingu hússins árið 1929 sem var einnig hugsað sem samkomuhús sveitarinnar og var Klébergsskóli í röð fyrstu heimavistarskóla á landinu.
Klébergsskóli er því elsti grunnskólinn í Reykjavík en það sýnir að það var framsýnt fólk í skólamálum á Kjalarnesi og er enn í dag. Á Kjalarnesi er starfræktur leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð ásamt íþróttamiðstöð undir einum hatti.
Í tilefni stórafmælisins var afmælisþema í skólanum vikuna fyrir afmælið þar sem nemendur unnu að ýmsum verkefnum tengdum 90 ára afmælinu, fræðsla í bland við skemmtun. Gestir og gangandi gátu skoðað afrakstur þemavinnunnar og upplifað margt skemmtilegt í öllum stofum skólans. Að sjálfsögðu var glæsileg afmælis­terta í boði fyrir alla.

Náttúran og blómin eru minn heimur

júlí

Júlíana Rannveig Einarsdóttir eða Júlí eins og hún er ávallt kölluð var ung að árum er hún byrjaði að starfa í blómaverslun en áhugi á blómum og blómaskreytingum hefur lengi verið í hennar stórfjölskyldu, langt aftur í ættir. Hún útskrifaðist úr Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1996 og tók síðar að sér starf þar sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar og starfaði við það í mörg ár.
Í dag unir Júlí sér vel í sínu eigin gróðurhúsi í Mosfellsdalnum þar sem hún hefur komið sér upp góðri vinnuaðstöðu meðal annars til námskeiðshalds en hún byrjar með haustkransanámskeið núna í október.

Júlíana Rannveig er fædd í Reykjavík 29. desember 1958. Foreldrar hennar eru þau Hafdís Jóhannsdóttir verslunarkona og Einar M. Guðmundsson járnsmiður, leikari og kennari. Hafdís lést árið 2001.
Systkini Júlíönu eru þau Jóhann, Gunnlaugur og Heiða. Júlí er yngst systkinanna sem fædd eru á sex árum en móðir þeirra var 25 ára þegar hún eignaðist Júlí.

Frumbyggjar í Kópavogi
„Ég er alin upp í vesturbæ Kópavogs, foreldrar mínir voru frumbyggjar þar sem kom ekki til af góðu því það var enga lóð að fá í Reykjavík á þessum tíma en foreldrar mínir eru þaðan. Þau byggðu fyrst bílskúrinn og fluttu þangað inn þegar ég var 2 ára og í honum bjuggum við þangað til ég varð 12 ára, sem sagt 6 manna fjölskylda í 40 fm. Mér fannst fínt að búa í Kópavogi enda þekkti ég ekkert annað. Það voru krakkar í hverju húsi og í stærstu fjölskyldunni voru 17 börn.
Vor, sumar og haust lékum við okkur í snú snú og brennóbolta en á veturna var farið á skauta og svo renndum við okkur í brekkunum á öllu sem rann. Ég var send í sveit á sumrin og maður fór norður um miðjan maí og kom ekki aftur fyrr en í september. Ég var mikið fyrir að passa börn bæði í sveitinni og með skólanum, svo vann maður í unglingavinnunni og í fiskbúð og fleira.“

Heimasmurt og mjólk í flösku
„Ég gekk í Kársnesskóla sem var þrísetinn þá, það var enginn skólabíll og ég man aldrei eftir því að hafa verið keyrð eða sótt í skólann. Það var heldur ekkert mötuneyti svo maður fór bara með heimasmurt og mjólk í flösku.
Leiðin lá síðan í Þingholtsskóla sem var splunkunýr skóli og þaðan fór ég í Iðnskólann í Hafnarfirði í almennt nám því ég vissi ekkert hvað ég vildi verða. Ég fór svo út á vinnumarkaðinn og starfaði við símsvörun hjá Geysi og Sláturfélagi Suðurlands.“

Byrjuðu að búa saman 17 ára
Júlí kynntist eiginmanni sínum, Þresti Sigurðssyni, mjög ung. Þau ólust bæði upp í vesturbæ Kópavogs og gengu saman í skóla. Þau trúlofuðu sig eftir að hafa verið saman í þrjú ár og byrjuðu að búa þegar þau voru 17 ára. Þröstur er verktaki með gröfur og vörubíla en hann er símsmiður að mennt. Þau hjónin hafa rekið verktakafyrirtækið í yfir 30 ár.
„Við Þröstur eigum þrjú börn, Hafdísi Huld tónlistarleikkonu f. 1979, hún er gift Alisdair Wright og þau eiga tvö börn, Ara­bellu Iðunni og Elíot Óðinn. Eiður Þorri er fæddur 1982, hann fetaði í fótspor föður síns og er verktaki með gröfur og vörubíla. Hann býr í Hveragerði með Margréti Þ. Magnúsdóttur og þau eiga tvær dætur, Örnu Sól og Ágústu. Fyrir átti hann Aþenu Sif sem býr hjá okkur og stundar nám í FMOS.
Yngst er Telma Huld f. 1984, hún er bílstjóri og hefur verið að vinna við akstur stórra bifreiða í kringum erlendar bíómyndir teknar hér heima. Hún á einn son, Júlían Aðils. Svo eigum við hundinn Mosa, kisur, hesta og hænur.“

Vann við akstur stórra bifreiða
„Ég tók verslunarpróf og meirapróf og vann við akstur stórra bifreiða með manninum mínum. Ég ákvað að hefja nám í Garðyrkjuskóla ríkisins, fór að læra blómaskreytingar og byrjaði 18 ára að vinna í blómabúð hjá Ringelbert í Rósinni.
Ég fann fljótt út að náttúran og blómin eru minn heimur og ég vann í mörgum blómabúðum eftir það en tók síðan að mér starf sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar Garðyrkjuskólans frá 2001-2008.“

Dýfði blómunum í vax
„Áhugi á blómaskreytingum hefur lengi verið í minni fjölskyldu, langt aftur í ættir. Ein elsta heimild um blómaskreytingar á Íslandi sem ég hef heyrt um er frá langömmu minni sem bjó á Eskifirði en hún sá um brúðar- og útfararskreytingar.
Amma safnaði lyngi og jurtum yfir sumartímann og geymdi í strigapokum yfir veturinn. Hún bjó til blóm úr kreppappír og dýfði þeim í vax til að þau blotnuðu ekki í rigningu. Hún bankaði stundum upp á hjá fólki ef hún sá blóm út í glugga eða vissi af því að fólk ætti blómstrandi plöntur sem gætu nýst í skreytingar.“

Fékk draum minn uppfylltan
„Ég bjó í vesturbæ Kópavogs fyrstu 45 ár ævi minnar en fékk svo draum minn uppfylltan að flytja út fyrir bæinn. Við hjónin eltum Hafdísi dóttur okkar sem hafði fest kaup á húsi í Mosfellsdal ásamt manni sínum. Við fengum þau síðan til að flytja sig um set og kaupa með okkur Reykjahlíð sem síðar varð Suðurá.
Við endurbyggðum gróðurhúsin, þar hef ég komið mér upp góðri aðstöðu fyrir blómaskreytingar og svo er ég líka með námskeið og tek við bókunum símleiðis. Endurbyggingunni er ekki lokið og verður eflaust seint, við erum endalaust að breyta og bæta.”

Söngur, göngur og glaðleg börn
„Að ganga á fjöll og um landið okkar er dásemdin ein, við erum heppin að búa hér með náttúruna allt í kring. Ég þarf ekki annað en að koma mér í skó og viðeigandi fatnað og ganga af stað. Mín helsta heilsurækt er sú að ég geng hér daglega á Helgafellið eða Æsustaðafjall sem er hérna í bakgarðinum hjá okkur.
Ég hef líka alltaf haft gaman af að syngja og hef sungið í kórum síðan ég var í barnaskóla. Ég hef sungið með Samkór Kópavogs, Skagfirsku söngsveitinni, Álafosskórnum og Samstillingu en í dag syng ég með Léttsveit Reykjavíkur sem telur um 130 konur.
Er þá ekki óhætt að segja að áhugamál þín séu blóm, göngur og söngur? „Jú, svo sannarlega,“ segir Júlí brosandi og bætir við: „Og glaðleg börn.“ Með þeim orðum kveðjumst við.

Mosfellingurinn 3. október 2019
ruth@mosfellingur.is

 

 

Breyta banka í bar

sigmar vilhjálmsson og vilhelm einarsson standa í stórræðum

Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson standa í stórræðum.

Miklar framkvæmdir standa yfir í húsinu sem áður hýsti Arion banka í miðbæ Mosfellsbæjar. Félagarnir Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson ætla að breyta Arion í Barion.
„Hér mun opna sportbar, hverfisbar, veitingastaður eða hvernig sem við viljum orða það. Við erum að búa til félags­heimili fullorðna fólksins. Þetta verður ekki beint mathöll en alla vega tveir matsölustaðir á einum stað og Hlölli hluti af því. Við munum bjóða upp á steikur, salöt, rif, borgara og almennt góðan mat.“

Fjórir risaskjáir í tveimur rýmum
„Þetta verður skemmtilegur staður til að hittast á og horfa leiki eða stóra viðburði. Við verðum með fjóra risaskjái í tveimur hljóðrýmum. Þá verður svið á staðnum fyrir uppákomur. Hér verður líka hægt að koma með alla fjölskylduna og fara út að borða.
Við höfum stækkað rýmið til að koma öllu fyrir en alls munu komast 140 manns í sæti. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur en stefnt er að því að opna Barion á næstu vikum.“
Þeir Sigmar og Vilhelm eru ekki alls ókunnugur veitingabransanum og hafa komið víða við en síðast ráku þeir saman Shake&Pizza í Keiluhöllinni.

Bankahvelfingin flóknust
Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í húsinu en Sigmar segir gömlu bankahvelfinguna hafa verið flókna að vinna sig í gegnum. „Það voru hér sjö menn í fimm daga þegar mest lét að bora og brjóta niður. Það er ekki til steinsög sem ræður við þetta þannig að þetta var erfiðasta verkið hingað til. Við reynum þó að halda í einhverjar minningar sem gefa staðnum ákveðinn sjarma.“
Öll neðri hæðin er lögð undir nýja staðnum en á efri hæðinni eru íbúðir í langtímaleigu. Eigandi hússins er Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson.

Þrúður Hjelm hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar

Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.

Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur í íþróttamiðstöðinni Kletti fimmtudaginn 19. september.
Dagskráin var einkar fjölbreytt en viðfangsefnið var kynjajafnrétti í íþróttum. Í lok dagskrár var veitt Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2019 en hana hlýtur Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla.

Karlmenn um 25% af starfsfólki
Frá því að Krikaskóli var stofnaður árið 2008 hefur Þrúður Hjelm unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna með því að ráða konur jafnt sem karla í leik- og grunnskólastörf. Hún hefur sérstaklega lagt sig fram við að fjölga karlmönnum í starfsmannahópi sínum en í dag starfa 16 karlmenn í Krikaskóla og eru þeir nú um það bil 25% af starfsfólki skólans.
Að minnsta kosti einn karlkyns starfsmaður er starfandi í hverjum árgangi með tveggja til níu ára börnum og sinna karlar einnig íþrótta- og myndlistarkennslu.

Allir eigi jafna möguleika
Krikaskóli er með virka jafnréttis- og framkvæmdaáætlun sem fylgt er eftir og hún endurskoðuð með reglubundnum hætti. Þar kemur meðal annars fram að allir einstaklingar í Krikaskóla skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi Krikaskóla og benda á mikilvægi þess að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru á sviði jafnréttismála í samvinnu stjórnenda og starfsmanna.

Fólkið mitt

Heilsumolar_Gaua_3okt

Þegar maður spyr fólk hvað skipti það mestu máli í lífinu nefna flestir fjölskylduna og/eða nána vinir sem eitt af því mikilvægasta. Fólkið manns. Samt er raunveruleiki margra sá að þeir forgangsraða lífinu þannig að fólkið sem skiptir þá mestu máli verður útundan.

Mikil vinna og stundum tíma­krefjandi áhugamál eru á undan í forgangsröðinni. Fólkið manns er yfirleitt nánasta fjölskylda, en ekki alltaf. Fjölskylduaðstæður eru alls konar og í sumum tilvikum mynda góðir vinir þennan mikilvæga hóp, fólkið mitt.

Hópinn mynda einstaklingar sem standa með þér í blíðu og stríðu, taka þér eins og þú ert, bakka þig upp þegar á þarf að halda og fagna með þér á gleðistundum. Mér sjálfum líður best þegar ég er að gera eitthvað með mínu fólki, langbest finnst mér þegar við náum að sameina ferðalög, hreyfingu og samveru.

Ég upplifði svoleiðis stund um þarsíðustu helgi. Þá fórum við hjónin með alla okkar syni á Strandir í leitir og réttir. Við fengum frumburðinn (sem er enn ekki nema 22ja ára þrátt fyrir að einhverjir haldi að hann sé eldri) og kærustuna hans heim frá Danmörku og fórum með allt gengið okkar norður. Þetta var frábær helgi, mikið labbað, sund og náttúrupottur alla daga og góð samvera.

Um nýliðna helgi fengum við svo afa og ömmur og tengdafjölskylduna í heimsókn til okkar. Súpa, kaka og skemmtilegt spjall. Ég er að reyna að bæta mig í þessu, hef stundum verið í þeim hópi sem forgangsraðar í misræmi við eigin gildi. En finn skýrt þegar ég forgangsraða lífinu í samræmi við það sem mér finnst mikilvægast hvað það gefur mér mikið.

Svo má ekki gleyma fólkinu sem ekki tilheyrir innsta kjarnanum, en er samt hluti af stóra fólkið mitt menginu. Við erum félagsverur mannfólkið, þurfum hvert á öðru að halda til að líða vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. október 2019

Enduropnun Krónunnar eftir breytingar og betrumbætur

Baldur Jónasson verlsunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Baldur Jónasson verslunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Verslun Krónunnar í Mosfellsbæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu vikum og má segja að um enduropnun sé að ræða.
Búið er að opna bæði kjúklingastað og sushivinnslu í búðinni og verslunin almennt tekin í gegn. Sjálfsafgreiðslukassar hafa verið teknir í notkun, nammibarinn fjarlægður og plastpokar á útleið.
Krónan er stór vinnustaður en þar eru um 80 manns á launaskrá og margt ungt fólk byrjar sinn starfsferil innan fyrirtækisins. Við hittum verslunarstjóra Krónunnar, Baldur Jónasson.

Nýr kjúklingastaður og sushivinnsla á staðnum
„Við höfum beðið spennt eftir þessum nýjungum sem nú eru komnar í gagnið. Við höfum lækkað alla rekka og tekið í notkun nýja og orkusparandi kæla. Anddyrið hefur verið opnað betur og yfirsýnin yfir búðina er miklu betri,“ segir Baldur. Sjálfsafgreiðslukassar eru nú í boði í versluninni og hefur þeim verið tekið framar vonum. „Þetta hefur hjálpað okkur að halda búðinni betri. Við höfum ekki sparað eina einustu vinnustund, heldur bætt þjónustuna. Við sjálfsafgreiðslukassana er alltaf starfsmaður sem er tilbúinn að aðstoða og kenna. Fólk hefur samt auðvitað val hvernig það gengur frá kaupunum.“
Tokyo Sushi hefur opnað í Krónunni ásamt kjúklingastaðnum Rotissiere. „Það gerir íbúum auðveldara að grípa með sér tilbúinn mat. Sushivinnsla er á staðnum og verður hægt að kaupa úr borði eða panta eftir óskum. Kjúklingastaðurinn á eftir að verða mjög vinsæll en þar er hægt að ná sér í eldgrillaðan kjúkling ásamt öllu helsta meðlæti sem til þarf.“

Ávaxtamarkaður í stað nammibars
Krónan er hætt með nammibar og býður þess í stað upp á ávaxtamarkað þar sem hægt er að kaupa 5 ávexti á 220 kr. „Það er eini nammibarinn okkar í dag. Þú kemur aldrei fyrst að sykruðum vörum í versluninni, nammið er ekki nálægt kössunum og áherslan hjá okkur er fyrst á vatn og sódavatn. Fólk hefur tekið mjög vel í þetta.“
Baldur segir breytingum á versluninni lokið og eru nú allar verslanir Krónunnar svipað uppbyggðar.

Fagna 10 ára afmæli Sprey

Katrín Sif og Dagný Ósk  í afmælisveislunni þann 6. september.

Katrín Sif og Dagný Ósk í afmælisveislunni þann 6. september.

Hárstofan Sprey fagnaði á dögunum 10 ára afmæli með mikilli veislu. Hárstofan er staðsett í Háholti við hlið Krónunnar. Katrín Sif Jónsdóttir stofnaði fyrirtækið fyrir áratug, þá 21 árs, og á Sprey í dag með Dagnýju Ósk Dagsdóttur.
„Okkur líður vel hér og íbúum Mosfellsbæjar fjölgar ört. Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða og svo margt sem ég hef lært og upplifað ásamt því að stofan hefur dafnað og stækkað með dásamlegu fólki,“ segir Katrín Sif.
„Það var pabbi, Jón Jósef, sem ýtti mér út í þetta fyrir 10 árum og taldi mér trú um að best væri að vera sinn eigin herra. Þannig hófst þetta ævintýri en í dag erum við tíu sem vinnum hérna, allt algjörir snillingar. Sem betur fer greip ég tækifærið sem gafst á sínum tíma og lét drauminn rætast. Það eru miklir demantar sem hafa komið að Sprey, má þar nefna Unni Hlíðberg og Svövu Björk sem áttu stofuna með mér lengi og settu blóð, svita og tár í að byggja upp fyritækið.“
Við sama tilefni var því fagnað að Katrín Sif var á dögunum kosin Hármeistari Íslands 2019 á Nordic Hair Aw­ards & Expo sem fram fór í Kaup­manna­höfn í sumar.

Bjóða upp á íþróttatíma eftir vinnu

xxx

Starfsmenn Mosfellsbæjar eru hvattir til reglulegrar hreyfingar. Myndin er tekin í vatnsleikfimi í Lágafellslaug.

Mosfellsbær hefur keyrt þróunarverkefnið „Heilsueflandi samfélag“ í samvinnu við Heilsuvin og Embætti landlæknis í þónokkur ár og eins og áður miðar verkefnið að því að setja heilsueflingu í forgrunn í allri þjónustu sveitarfélagsins.
Í mannauðsstefnu Mosfellsbæjar er lagður metnaður í að skapa heilsueflandi vinnustaðamenningu fyrir starfsmenn og gera starfsmönnum aðgengilegra að huga að hreyfingu og auknu heilbrigði.
Til að framfylgja mannauðsstefnu bæjarins og með það að markmiði að ýta undir heilsueflingu starfsmanna hefur Mosfellsbær síðustu rúmu tvö árin boðið starfsmönnum sínum að sækja fjölbreytta íþróttatíma, þeim að kostnaðarlausu, í íþróttamiðstöð Lágafells.

Í anda heilsueflandi samfélags
„Tímarnir eru í boði eftir hefðbundinn vinnutíma starfsmanna og þarf að skrá sig áður en mætt er,“ segir Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri hjá Mosfellsbæ.
„Er þetta liður í að hvetja alla starfsmenn til að hreyfa sig reglubundið, bæta heilsufar sitt, vellíðan og hreysti í anda heilsueflandi samfélags Mosfellsbæjar. Þeir starfsmenn sem kjósa geta skráð sig í tímana og mætt, óháð því hvort viðkomandi er með líkamsræktarkort eða ekki.“

Í átt að betri líðan
Fyrirkomulagið hófst veturinn 2017-2018 og var upphaflega hugsað sem tilraunverkefni en hefur frá upphafi verið tekið einstaklega vel.
„Með þessu teljum við Mosfellsbæ styðja við bakið á starfsmönnum og veita þeim fleiri tækifæri til að stunda reglubundna hreyfingu ásamt því að taka skrefin í átt að betri heilsu og líðan,“ segir Hanna.

Fjölbreyttir tímar
Í haust geta starfsmenn sótt tíma í jóga, vatnsleikfimi eða Tabata. Tímarnir verða í boði til 1. desember en það fer eftir ásókn og ástundun starfsmanna hversu langt inn í veturinn þeir halda áfram.
„Við hvetjum starfsmenn okkar að nýta sér þessa heilsueflandi viðbót við samgöngustyrk og ókeypis sundkort.“