Sr. Guðrún Helga bætist í prestahópinn

Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin prestur í Lágafellssókn í Mosfellsprestakalli. Prestarnir verða því þrír í stækkandi bæjarfélagi. Hún var vígð til prestþjónustu í Lágafellssókn annan í hvítasunnu frá Skálholtsdómkirkju.
Sr. Guðlaug Helga ólst upp á Hvols­velli og er dóttir hjónanna Guð­rúnar Árnadóttur og Guðlaugs Friðþjófssonar. Hún er gift Einari Þór Hafberg sérfræðingi í lifrarsjúkdómum og lifrarígræðslulækningum barna og þau eiga tvær dætur, Bryn­hildi Guðrúnu Hafberg 14 ára og Ísafold Örnu Hafberg 12 ára. Guðlaug Helga hefur síðastliðin tvö ár starfað hjá Lágafellssókn og haft umsjón með foreldramorgnum, eldri borgarastarfi og sem fermingarfræðari.

Stríð og friður

Við fengum heimsókn í vikunni. Yuri, Victoria og Margret, yngri dóttir þeirra, eru á landinu og kíktu til okkar. Þau eru frá Rússlandi. Ég kynntist Yuri fyrir mörgum árum þegar ég vann hjá Útflutningsráði Íslands og hann hjá sendiráði Íslands í Moskvu. Við unnum talsvert saman, ferðuðumst með íslensk fyrirtæki til staða sem ég hefði líklega annars aldrei komið til. Kasakstan, Kamchatka og Vladivostok eru nokkur dæmi. Þau fjölskyldan fluttu síðan til Íslands, bjuggu fyrst á Ásbrú í Reykjanesbæ og síðan í Hafnarfirði. Yuri vann við að kaupa og selja togara og Victoria hjá IKEA. Síðan fluttu þau aftur til Rússlands með dætrum sínum, en hafa alltaf haft sterka tengingu við Ísland og hafa komið hingað nokkuð reglulega. Við kynntumst vel gestrisni þeirra og velvilja þegar við fengum, ásamt vinafjölskyldu okkar í Mosfellsbæ, að gista í sumarbústað þeirra hjóna í útjaðri Moskvu þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór þar fram árið 2018. Þau hugsuðu vel um okkur, sýndu okkur fjölskylduvæna staði í Moskvu og gerðu ferðalagið ógleymanlegt í okkar huga.

Þau eru ekki í stríði. Þau vilja frið. En þau stýra ekki Rússlandi og hafa lítil áhrif á gang mála. Við gleymum því oft í umræðunni að íbúar þeirra landa sem eru í stríði vilja það fæstir – hvort sem landið sem þeir tilheyra er að ráðast inn í annað land eða er undir árás. Mér fannst Yuri lýsa þessu vel þegar við ræddum stöðuna. Hann sagði – Rússland og Úkraína voru fyrir ekki svo löngu bræður, svo vinir, svo nágrannar, nú óvinir.

Fólk er bara fólk. Hvaðan sem það kemur. Við hugsum flest eins. Viljum eiga góða fjölskyldu, góða vini og búa í góðu samfélagi. Og góða nágranna sem okkur lyndir við – það vilja fæstir vera í stríði við nágranna sína. Talandi um góða nágranna – takk Lára og Gústi!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júní 2024

Mosfellskirkju lokað vegna rakaskemmda og myglu

Sóknarnefnd Lágafellssóknar hefur tekið ákvörðun um að loka Mosfellskirkju tímabundið.
Ástæðan er sú að rakaskemmdir og mygla fannst þegar verkfræðistofan Efla var fengin til að kanna ástand kirkjunnar.
„Nefndin bað um úttekt á ástandi kirkjunnar, kirkjan er komin til ára sinna og ljóst er að hún þarfnast mikils viðhalds,“ segir Ólína Kristín Margeirsdóttir formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar.
„Niðurstöður Eflu voru meðal annars að það eru víðtækar rakasemmdir og að það þurfi að fara í gagngerar endurbætur á byggingunni. Við tókum þá ákvörðun að loka Mosfellskirkju tímabundið á meðan verið er að taka ákvörðun um hvað skuli gera. Það er ljóst að þessar framkvæmdir eru kostnaðarsamar og það þarf að vera til peningur fyrir því sem þarf að gera. Báðar kirkjurnar okkar eru komnar til ára sinna og því mikill viðhaldskostnaður til staðar.
Nýverið var skipt um þak á Lágafellskirkju og ljóst er að fljótlega þarf að skipta þar um glugga og fleira,“ segir Ólína að lokum og nefnir að jafnvel þurfi að stofna til söfnunar meðal almennings fyrir framkvæmdum Mosfellskirkju.

Tónlist gefur manni svo mikið

Hulda Jónasdóttir hlaut tónlistarlegt uppeldi frá blautu barnsbeini og hefur tónlistin fylgt henni æ síðan. Á heimili hennar var mikið hlustað á blús, djass og klassíska tónlist og gömlu góðu íslensku lögin voru einnig í hávegum höfð.
Árið 2016 skellti Hulda sér í nám í viðburðastjórnun og stofnaði sitt eigið fyrirtæki í kjölfarið, Gná tónleikar. Nú skipuleggur hún og viðburðastýrir tónleikum og ýmsum öðrum viðburðum af öllum stærðum og gerðum.

Hulda er fædd á Sauðárkróki 1. janúar 1963. Foreldrar hennar eru Erla Gígja Þorvaldsdóttir matráður og tónlistarkona og Jónas Þór Pálsson málarameistari, leiktjaldasmiður, trommari og listmálari en hann lést árið 2016. Þau hjónin settu mikinn svip á menningarlíf Skagfirðinga hér á árum áður.
Hulda á tvö systkini, Björn f. 1953 skipstjóra og Þórdísi f. 1957 húsmóður.

Naut þess að hlusta
„Ég er alin upp á Sauðárkróki, þeim ­fallega bæ og þar var ákaflega ljúft og gott að alast upp. Ég eignaðist marga góða vini sem enn í dag eru meðal minna bestu vina. Við lékum okkur mikið úti í náttúrunni og brölluðum margt skemmtilegt.
Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að hlusta á tónlist, pabbi hlustaði á djass og blús en mamma meira á karlakórana og gamla íslenska tónlist. Saman hlustuðu þau svo á klassíska tónlist þannig að tónlistarvalið hjá þeim var mjög fjölbreytt.
Ég átti gamlan plötuspilara og naut þess að hlusta, var sjö ára þegar ég eignaðist mína fyrstu vínylplötu, plötu með Bessa Bjarnasyni leikara þar sem hann söng vísur Stefáns Jónssonar. Ég var líka aðdáandi Svanhildar Jakobsdóttur og eignaðist margar plötur með henni.“

Ómissandi partur af aðventunni
„Jólastemmingin á Króknum þegar ég var að alast upp var einstök. Aðalgatan var hlaðin skemmtilegum verslunum og það var gaman að ganga á milli þeirra og kaupa jólagjafir.
Ég var svo heppin að afi minn, Þorvaldur Þorvaldsson, rak verslunina Vísi á þessum árum og þar fékk skólastelpan vinnu fyrir jólin. Afi setti alltaf jólasvein út í glugga og var hann ómissandi partur af aðventunni hjá Króksurum.
Ég man sérstaklega stemminguna á Þorláksmessukvöldi þegar opið var til miðnættis, þá komu margir við í búðinni hjá afa. Sumir til að kaupa í jólamatinn, aðrir til að kaupa jólagjafir og sumir til að fá sér hressingu, eina Spur Cola og Smakk súkkulaði áður en haldið var áfram. Eftir lokun var svo farið til Huldu ömmu sem beið með nýsteiktar kleinur og ískalda mjólk.
Ég kem alltaf til með að bera hlýjar og góðar tilfinningar til Sauðárkróks“, segir Hulda og brosir.

Hóf störf í Noregi
„Hulda gekk í barna- og gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og átti þar góð ár. Á sumrin þegar hún hafði aldur til þá starfaði hún í sjoppu, fiski og í versluninni hjá afa og svo hjálpaði hún föður sínum með bókhald en hann rak málningarfyrirtæki og var oft og tíðum með marga menn í vinnu.
Eftir útskrift úr gaggó 1980 fór ég til Noregs og hóf störf á SAS hóteli. Mig langaði til að prófa að vinna einhvers staðar annars staðar en á Íslandi og læra nýtt tungumál í leiðinni.
Þegar ég kom heim aftur þá fór ég í Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki og útskrifaðist sem stúdent 1984. Ég flutti svo til Reykjavíkur og leigði um tíma með vinkonu minni. Ég hóf nám í snyrtifræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og útskrifast þaðan árið 1988, í framhaldi starfaði ég svo við förðun í Íslensku óperunni.“

Gaman að skoða nýja staði
Hulda kynntist eiginmanni sínum, Garðari Hreinssyni smiði, á balli með Geirmundi árið 1983. Þau keyptu sér íbúð í Mosfellsbæ en fluttu fljótlega í Mosfellsdalinn þar sem þau byggðu sér hús og þar búa þau enn. Börn þeirra eru Hreindís Ylva f. 1989 skrifstofustjóri, leikari og söngkona og Yngvi Rafn f. 1991 smiður og tónlistarmaður. Barnabörnin eru tvö Arey Hólm og Sóley Herdís.
„Hesta og hundahald hefur alltaf fylgt okkur fjölskyldunni. Okkur finnst einnig mjög gaman að ferðast og skoða nýja staði, við Garðar höfum verið dugleg að fara með börnin alveg frá því þau voru lítil. Eftir að þau fluttu að heiman þá hittumst við alltaf reglulega og borðum saman. Okkur finnst líka mjög gaman að skreppa saman í sumarbústaðaferðir og svo eru leikhús og tónleikaferðir í miklu uppáhaldi fyrir jafnt stóra sem smá fjölskyldumeðlimi.“

Ákvað að stíga skrefinu lengra
Hulda hefur unnið ýmis konar störf í gegnum tíðina, í fiski, verslunarstörf, bókhaldi, bankastörf og er í dag þjónustufulltrúi í Lágafellsskóla. En hvernig skyldi hafa staðið á því að hún fór út í það að halda tónleika? „Þetta byrjaði í rauninni allt með styrktartónleikum, frænka mín og maðurinn hennar voru búin að vera mikið veik og höfðu lítið getað unnið. Mér datt því í hug að hóa saman listafólki og halda tónleika fyrir þau.
Í kjölfarið fylgdu nokkrir styrktartónleikar, þar á meðal fyrir tvo Mosfellinga. Þetta gekk allt svo ljómandi vel og var svo skemmtilegt að ég ákvað að stíga skrefinu lengra. Ég ákvað að skella mér í nám í viðburðastjórnun og stofna fyrirtæki í kringum þetta allt saman, Gná tónlist. Þessi verkefni mín eiga hug minn allan og ég er að skipuleggja og viðburðastýra tónleikum og viðburðum af öllum stærðum og gerðum. Ég hafði reyndar alla mína skólagöngu alltaf verið í árshátíðar-, skemmti- og tónlistarnefndum svo þetta er greinilega eitthvað sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á.“

Þetta vatt svo upp á sig
„Ég hef verið að heiðra gömlu góðu söngvarana okkar, Erlu Þorsteinsdóttur, Helenu Eyjólfsdóttur, Hauk Morthens, Mjöll Hólm og Svanhildi Jakobsdóttur og hafa tónleikarnir farið fram í Hofi á Akureyri og í Salnum í Kópavogi.
Fyrstu alvöru tónleikarnir sem ég skipulagði voru tónleikarnir, Út við himinbláu sundin, þetta áttu bara að vera einir tónleikar en þeir gengu svo vel að þeir urðu fimm talsins. Þetta vatt svo upp á sig og í kjölfarið fylgdu alls kyns tónleikar og viðburðir m.a. sjómannatónleikar og fleiri heiðurstónleikar.“

Hvað er hægt að biðja um meira
„Síðustu tónleikar sem ég hélt voru til heiðurs sjálfum Gunnari Þórðarsyni, Himinn og jörð. Gunnar og fjölskylda hans heiðruðu okkur með nærveru sinni og voru afar sátt, hvað er hægt að biðja um meira?“ segir Hulda og brosir. „Við náum vonandi að endurtaka þessa tónleika því færri komust að en vildu. Fólki finnst gaman að heyra þessa gömlu góðu íslensku lög.
Ég hef líka verið að aðstoða aðra við að skipuleggja alls kyns viðburði og nú síðast Rotarý á Íslandi með klassíska tónleika svo eitthvað sé nefnt. Á teikniborðinu eru svo fleiri tónleikar. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi starf sem ég elska,“ segir Hulda að lokum er við kveðjumst.

Ásgeir Jónsson nýr formaður Aftureldingar

Á aukafundi aðalstjórnar Aftureldingar þann 2. maí var Ásgeir Jónsson kjörinn nýr formaður félagsins. Þá voru þau Níels Reynisson og Hildur Bæringsdóttir einnig kjörin í stjórn.
Ásgeir leysir Birnu Kristínu Jónsdóttur af hólmi sem hefur gengt formennsku síðustu sex ár og Níels og Hildur koma inn í stað Sigurðar Rúnars Magnússonar og Reynis Inga Árnasonar.
Fyrir sitja einnig í aðalstjórn þau Hrafn Ingvarsson varaformaður, Geirarður Long, Inga Hallsteinsdóttir og Hildur Pála Gunnarsdóttir.

Styrktarmótið Palla Open haldið í fjórða sinn

Samstarfshópurinn við Hlíðavöll: Óskar Þór arkitekt, Ágúst framkvæmdastjóri GM, Andrea, Hildur og Bergljót frá Reykjadal, Vífill Björnsson arkitekt og Palli Líndal.

Fjórða árið í röð hafa Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Palli Líndal ákveðið að taka höndum saman og halda Palla Open styrktarmótið í golfi.
Í ár verður mótið haldið til styrktar sumarbúðunum í Reykjadal. Verkefnið hófst með Palla Open á síðasta ári þar sem átti að nota styrktarfé, sem var yfir þrjár milljónir, til að útbúa 20 fermetra búningsklefa fyrir einstaklinga með miklar sérþarfir. Þessi búningsklefi átti að vera með tilheyrandi sérbúnaði.
Eftir að verkefnið fór af stað og arkitektarnir Óskar Þór Óskarsson og Vífill Björnsson fóru að skoða málið fórum menn að velta fyrir sér hvort að þessi breyting á gömlu húsnæði myndi ganga. Áhættan við að fara í þessar breytingar þótti of mikil vegna óvissu um breytingar á gömlu húsnæði.
Í framhaldi af þessu var ákveðið í samráði við sumarbúðirnar í Reykjadal, Golfklúbb Mosfellsbæjar og Palla Líndal að safna fyrir endurbótum á búningsklefum fyrir sundlaugina í Reykjadal og séraðstöðu fyrir einstaklinga með miklar sérþarfir.
Verkefnið hefur því stækkað töluvert eða frá því að fara úr 20 fermetrum í rúmlega 120 fermetra rými. Eins má áætla að kostnaður við þetta verkefni aukist töluvert og má ætla að hann verði um 12-15 milljónir. Það er þegar byrjað að leita að samstarfsaðilum að þessu verkefni sem eru vonandi tilbúnir að leggja styrktarfé á móti styrkjarfé Palla Open sem verður á milli 6-7 milljónir.

Stefnir í metþátttöku
Á Palla Open í fyrra mættu til leiks 244 kylfingar og var þetta stærsta golfmót GM á síðasta ári. Eins var þetta næst stærsta golfmót á Íslandi í fyrra. Í ár stefnir aftur í metþátttöku.
Palla Open verður haldið laugardaginn 8. júní á Hlíðarvelli og er þátttökugjald 7.500 kr. Fyrsta holl verður ræst út kl. 7.
Blik Bistro verður með sérstakt tilboð á steikarhlaðborði fyrir þátttakendur mótsins og verður hægt að skrá sig á það um leið og þátttakendur skrá sig á mótið. Eins verða góð tilboð á öðrum veigum.
Skráning í mótið fer fram í gegnum golfboxið.

Bærinn fyllist af blökurum

Undirlag sett í blakhöllina í Fellinu en þar verður leikið á sex völlum.

Mosöld 2024 er Öldungamót Blaksambands Íslands og líklega stærsta mót fyrir fullorðna ár hvert á Íslandi. Mosöld fer fram í Mosfellsbæ og hefst í dag 9. maí og stendur til 11. maí.
Blakdeild Aftureldingar hefur veg og vanda af mótinu og eru yfir 150 lið skráð en til að vera gjaldgengur þá þarf að vera 30 ára á árinu eða eldri. Spilaðir verða 453 leikir í 15 kvennadeildum og 7 í karladeildum frá fimmtudegi til laugardags.
Um 1.200 keppendur verða á Varmársvæðinu og í Mosfellsbæ keppnisdagana. Blakhátíðinni lýkur svo með glæsilegu lokahófi að Varmá á laugardagskvöldið.

Mikil stemning á Varmársvæðinu
Auk keppni í Íslandsmóti Öldunga fara fram tveir landsleikir sem eru styrktarleikir fyrir A-landslið Íslands í blaki sem eru að fara í dýrt verkefni í maí og júní þegar bæði liðin taka þátt í Silver league keppninni.
Á fimmtudaginn kl. 20 mun karlalandslið Íslands keppa við All-star lið erlendra leikmanna sem eru leikmenn sem spila með íslenskum liðum og á föstudaginn kl. 20 mun íslenska kvennalandsliðið spila við landslið Færeyja.
Barna- og unglingaráð stendur fyrir glæsilegri veitingasölu í fimleikasalnum að Varmá og knatthúsið verður gert að blakhöll með sex völlum ásamt markaði þar sem fyrirtæki munu kynna og selja vörur.
Mosfellingar eru hvattir til að kíkja á Varmársvæðið og upplifa þessa víðfrægu stemmingu sem fylgir Öldungamótunum.
Blakdeildin er mjög þakklát stuðningsaðilum sínum á þessu risamóti og hafa vellirnir 15, sem spilað er á, hlotið nöfn þeirra fyrirtækja sem styrkja mótið.

Íþróttir og áfengi

Ég hitti góðan félaga á körfuboltaleik um síðustu helgi. Sömu helgi og það voru hópslagsmál í stúkunni eftir leik Keflavíkur og Grindavíkur í úrslitakeppni karla. Félaginn hefur áhyggjur af því hvað það er orðið vinsælt og sjálfsagt að selja bjór á leikjum á Íslandi. Í öllum hópíþróttunum, körfubolta, handbolta og fótbolta. Ég deili þessum áhyggjum með honum. Við Íslendingar erum ekki beinlínis heimsfræg fyrir að kunna að fara vel með áfengi, það er ennþá inngróið í taugakerfi þjóðarinnar að drekka mikið og hratt þegar tækifæri gefst eftir áratugi af bjórbanni.

Við erum að sjá í auknum mæli félög selja bjór fyrir og á meðan leik stendur, opinberi tilgangurinn er að vera í takt við tímann – það er jú hægt að kaupa bjór á leikjum erlendis, af hverju ekki hér? En raunverulegi tilgangurinn er tekjuöflun, félög skapa sér tekjur með því að selja þyrstum bjór í kringum leiki. Bjórsölumenn elska þennan markað, íþróttaheimurinn er í endalausri endurnýjun. Leikmenn í yngri flokkum mæta margir á völlinn til að styðja sín lið, þeir eru móttækilegir og opnir fyrir hegðun þeirra eldri.

Bjórtjöldin eru ekki beinlínis falin, þau eru fyrir allra augum. Og þeir sem kaupa bjór taka hann með sér á áhorfendapallana. Eru þar með fyrirmyndir þeirra yngri, ómeðvitað eða meðvitað. Ég hitti einn sótblekaðan á mínum aldri á handboltaleik í Mosfellsbænum í þar síðustu viku. Seinni hálfleikur var að byrja og ég þurfti að hjálpa honum að finna leiðina út, hann gat ekki haldið sér á löppunum lengur.

Er þetta sniðugt? Er góð hugmynd að selja áfengi á íþróttaleikjum? Passar þetta vel saman? Bjórfyrirtækin eru líka að taka yfir hlaðvarpsheiminn. Eru styrktaraðilar flestra ef ekki allra stærstu fótboltahlaðvarpana þar sem hressir hlaðvarpsstjórar dásama bjórtegund stuðningsaðilans og taka þar með þátt í að búa til sterka tengingu milli áfengis og íþrótta.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. maí 2024

Júlíus nýr formaður Hollvinasamtakanna

Nýlega fór fram aðalfundur Hollvinasamtaka Reykjalundar. Fundurinn heppnaðist mjög vel og var góður hugur í fundarmönnum. Tilgangur samtakanna er að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á vegum Reykjalundar. Júlíus Þór Jónsson var kjörinn nýr formaður en fráfarandi formaður, Bryndís Haraldsdóttir, gaf ekki kost á sér áfram. Haukur Fossberg Leósson var útnefndur heiðursvinur á fundinum ásamt Bryndísi en þau tvö hafa gegnt formennsku í Hollvinasamtökunum frá stofnun samtakanna fyrir 11 árum.
Í stjórn Hollvinasamtakanna voru kjörin: Júlíus Þór Jónsson formaður, Sigurður Z. Sigurðsson, Halla M. Hallgrímsdóttir, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir og Örn Kjærnested. Til vara eru Magnús Már Leifsson og Ásgeir Ásgeirsson.

Á mynd: Júlíus Þór Jónsson, Haukur Fossberg Leósson og Bryndís Haraldsdóttir.

Ég hef svo gaman af þessu öllu

Grínistann og skemmtikraftinn Jóhann Alfreð Kristinsson þarf vart að kynna enda löngu orðinn landsþekktur fyrir sín störf. Hann hefur starfað með uppistandshópnum Mið-Ísland um áratugaskeið, komið að dagskrárgerð, handritaskrifum og leiklist en undanfarin ár hefur hann starfað á Rás 2 auk þess að sinna dómarahlutverki í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna.
Jóhann hefur einnig verið að taka að sér uppistand við hin ýmsu tilefni ásamt því að vera kynnir og veislustjóri á fjölmörgum viðburðum.

Jóhann Alfreð fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1985. Foreldrar hans eru Elín Símonardóttir og Kristinn Halldór Alfreðsson framreiðslumaður.
Jóhann á fjögur hálfsystkini, Áslaugu Rut f. 1978, Margréti f. 1981, Svein Ómar f. 1982 og Ingólf Bjarna f. 1988 en hann lést árið 2017.

Missti varla af leik
„Ég ólst upp í Þingholtunum í 101 Reykjavík og æskuminningar mínar tengjast mikið alls kyns flækingi og bralli um miðbæinn. Ég var forfallinn íþrótta- og kvikmyndafíkill sem barn og hékk mikið í íþróttahúsi Vals þar sem maður á tímabili missti varla af leik.
Ég er af videoleigukynslóðinni og því fylgdi mikið hangs í videoleigunum eins og tíðkaðist á þeim árum, ein gömul og ein ný. Maður var í endalausum rökræðum við afgreiðslumanninn og aðra fastagesti hvaða mynd maður ætti að taka, sem maður horfði svo kannski aldrei á,“ segir Jóhann og brosir.

Sat heillaður yfir tækninni
„Borgarbókasafnið í Þingholtsstræti var eins og félagsmiðstöð fyrir okkur krakkana og þar gat maður týnt sér dögum saman. Það var mikil bylting þegar tölva mætti á svæðið þar sem hægt var að leita eftir titlum. Við tepptum gjörsamlega þessa tölvu og maður sat þarna heillaður yfir tækninni og leitaði eftir öllum ævintýrabókunum.
Í grenndinni voru líka ágæt svæði eins og Hallargarðurinn og Hljómskálagarðurinn sem við höfðum gaman af að týna okkur í, svo var auðvitað flakkað á milli húsa til vina og kunningja.“

Fengu heitan mat í hádeginu
„Ég gekk í Miðskólann sem var grunnskóli á miðstigi í gamla Miðbæjarskólanum. Það var um margt einstakur skóli, hann var framsækinn því það var alltaf verið að gera einhverjar tilraunir á skólastarfinu sem þekktust ekki þá en flestir þekkja í dag. Við fengum til dæmis fyrst skólabarna í Reykjavík heitan mat í hádeginu.
Á sumrin var maður í þessu hefðbundna bralli en ég var líka duglegur að sækja sumarbúðir, fór árlega í Vatnaskóg en frændi minn og uppeldisbróðir var foringi þar. Ég var farinn að vinna þar á táningsaldri. Ég fór líka norður í land í sumarbúðirnar Ástjörn, rétt við Ásbyrgi í Kelduhverfi sem er alveg einstaklega fallegur staður.
Bróðir pabba rak veitingasöluna og lúgusjoppuna við BSÍ í Vatnsmýrinni, ég var farinn að ganga vaktir þar strax sumarið eftir gaggó. Um haustið hóf ég svo nám í Menntaskólanum í Reykjavík.
Eftir útskrift úr MR lá leið mín í Háskóla Íslands í lögfræði sem maður fer í þegar maður er kannski ekki alveg viss með framtíðarplönin,“ segir Jói og glottir. „Mér féll námið vel, kláraði meistaragráðuna en hef ekki starfað sem lögfræðingur, einhvern veginn togaðist maður í aðrar áttir.“

Kíkja reglulega á bókasafnið
Unnusta Jóhanns Alfreðs er Valdís Magnúsdóttir hagfræðingur og endurskoðandi, hún starfar hjá Íslensku útflutningsmiðstöðinni. Þau eiga tvö börn, Benedikt Elí f. 2017 og Ellý f. 2021.
„Við fjölskyldan erum dugleg að fara í göngutúra og sækja leikvelli í nágrenninu en við búum í Leirvogstungunni,“ segir Jóhann. „Við kíkjum líka reglulega á bókasafnið hér í bænum sem er mjög skemmti­legt og eins skreppum við til höfuð­borgarinnar og fáum okkur bita í miðbæ Reykjavíkur og endum jafnvel daginn á að fara í sund.
Ferðalög hér heima og erlendis eru alltaf ofarlega á baugi hjá okkur eða þegar tækifærin gefast. Við fjölskyldan erum til að mynda spennt fyrir komandi sumri því við erum búin að ganga frá húsaskiptum við fjölskyldu í Atlanta. Ég er í svona andlegum undirbúningi fyrir ferðina því það getur orðið ansi heitt þarna í Suðurríkjunum.“

Á kafi í handritaskrifum
Jóhann Alfreð hefur unnið ýmis störf í gegnum tíðina, afgreiðslustörf, auglýsingasölu, hjá Amnesty á Íslandi, fyrir kvikmyndahátíðina RIFF í nokkur ár og við ýmis verkefni tengd auglýsingum, skrifum og leiklist. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá RÚV við dagskrárgerð og í kynningarmálum. Jóhann hefur einnig starfað sjálfstætt sem skemmtikraftur og uppistandari um árabil. Hann er þaulvanur veislustjóri og kynnir og hefur starfað sem slíkur á fjölmörgum viðburðum síðustu ár.
„Áhugamál mín tengjast mörg vinnunni minni, ég er á kafi í þáttagerð og handritaskrifum þessa dagana og sökkvi mér í ýmislegt sjónvarpsefni og kvikmyndir því tengdu. Ég er svolítið nörd, hef gaman af öllu grúski og svo er ég annálaður íþróttafíkill eins og komið hefur fram, það er varla til sú íþrótt sem ég hef ekki stúderað.“

Við slógum báðir til
Ég spyr Jóhann hvernig uppistandið hafi komið til? „Það kom nú óvænt inn í líf mitt, þannig var að Bergur Ebbi, sem síðar varð kollegi minn í Mið-Íslandi, hafði samband við mig og Ara Eldjárn. Hann hafði prufað að standa fyrir uppistandskvöldi með Dóra DNA og vildi stækka næsta kvöld. Við Ari höfðum verið að leika okkur að gera sketsa og bralla eitthvað grínefni sem að mestu var ofan í skúffu en við slógum báðir til. Þetta var vorið 2009 og á þessum tíma hafði uppistand að mestu legið í láginni á Íslandi í nokkur ár.
Svona uppistandskvöld eru að erlendri klúbbafyrirmynd, þar sem nokkrir grínistar koma fram á sama kvöldi með einum kynni, þetta var nánast óþekkt. Við komum fimm fram þetta kvöld, þetta var skömmu eftir fjármálahrunið og maður fann að eftir ofboðslegan þungan vetur voru margir innstilltir í að hlæja og heyra gert svolítið grín að öllu ástandinu. Bergur Ebbi kom með tillögu að nafninu Mið-Ísland og þá má segja að örlögin hafi verið ráðin, hópurinn sýndi um 500 sýningar á næstu tíu árum. Samhliða uppistandinu fór maður að skemmta í samkvæmum, árshátíðum og öðrum hátíðum.
Fram undan hjá mér núna eru sýningar á uppistandssýningunni Púðursykur sem við höfum verið með og gaman að segja frá því að við verðum með sýningu í Hlégarði 24. apríl og svo taka við ýmis önnur verkefni. Ég verð á flandri með Rás 2 í sumar og svo er ég að vinna að heimildaþáttaröð um bandarískt körfuboltafólk sem vonandi kemur út fyrir jólin á Stöð 2. Ég hef ótrúlega gaman af þessu öllu saman,“ segir Jóhann Alfreð og brosir er við kveðjumst.

Íslandsmeistari í kokteilagerð

Lokaviðburður Reykja­vík Cocktail Week­end var hald­inn í Gamla Bíó á sunnu­dag­inn, 7. apríl, með pomp og prakt.
Mikið fjöl­menni tók þátt og dag­skrá­in var æsispenn­andi og fjöl­breytt. Spenn­an náði há­marki þegar úr­slit hátíðar­inn­ar voru kunn­gjörð.
Hald­inn var gala­kvöld­verður sem skipu­lagður var af Barþjóna­klúbbi Íslands og dag­skrá­in var þétt. Boðið var upp á metnaðarfulla skemmti­dag­skrá.

Sópaði að sér verðlaunum á lokakvöldinu
Keppt var til úrslita í Íslandsmeistaramóti barþjóna í hraðakeppni, en þar þurftu kepp­end­ur að reiða fram fimm mis­mun­andi kokteila á und­ir sjö mín­út­um.
Grét­ar Matth­ías­son barþjónn bar sig­ur úr být­um og var því krýnd­ur Íslands­meist­ari annað árið í röð. Grét­ar fer því út fyr­ir Íslands hönd í októ­ber og kepp­ir á heims­meist­ara­mót­inu í Madeira í Portúgal.
Þetta voru ekki einu verðlaunin sem Grétar á Blik fékk en hann hreinlega fór á kostum og vann til sex verðlaun:
– Fag­leg vinnu­brögð í klass­ískri kokteil­a­gerð.
– Fal­leg­asti kokteill­inn í klass­ískri kokteil­a­­gerð.
– Besti kokteill­inn í klass­ískri kokteil­a­gerð.
– Besti ár­ang­ur í þef- og bragðprófi.
– Besti ár­ang­ur í hraðaprófi.
Og svo auðvitað Íslandsmeistari barþjóna í samanlögðu.
„Drykkurinn minn ber nafnið Volvoinn og er gerður til heiðurs nýlátnum föðurbróður mínum sem var einn af okkar bestu barþjónum á Íslandi“, segir Grétar Matthíasson.
Verðlaunadrykkur Grétars verður að sjálfsögðu í boði á Blik Bistro í Mosfellsbæ.

Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Afmælisfögnuður í tilefni 40 ára afmæli Bólsins

Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Félagsmiðstöðin Bólið fagnar 40 ára afmæli sínu með þriggja daga afmælisfögnuði í Hlégarði dagana 10.-12. apríl.
Félagsmiðstöðin Bólið býður upp á uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10 til 16 ára börn og ungmenni. Í Bólinu er fjölbreytt og lifandi starfsemi sem er skipulögð að miklu leyti í samráði við unglingana.
Félagsmiðstöðin Bólið var fyrst opnuð um áramótin ‘83-’84 og fagnar því á þessu ári 40 ára afmæli.
Fyrst hafði félagsmiðstöðin aðsetur í gömlu símstöðinni, síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Í dag hefur félagsmiðstöðin aðsetur á þremur stöðum, á lóðinni við Lágafellsskóla, inni í Helgafellsskóla og við Skólabraut í svokölluðum Læknisbústað. Þar á neðri hæðinni er tónlistaraðstaða og hljóðver í boði fyrir ungmenni 13-25 ára og ber nafnið Kjallarinn.
Í dag starfa í Bólinu 17 starfsmenn og fer þar fram mikið og öflugt starf alla daga og öll kvöld vikunnar.
Böll verða haldin í Hlégarði á miðvikudags- og fimmtudagskvöld fyrir 5.-10. bekkinga.
Föstudaginn 12. apríl er svo almenningi boðið í veislu í Hlégarði kl. 17:00.
Bólráð sér um veislustjórn og bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun ávarpa samkomuna.
Þar munu ungir listamenn koma fram og boðið verður upp á veitingar og spjall.

Ráðinn framkvæmdastjóri Aftureldingar

Einar Ingi Hrafnsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar frá og með 1. maí í stað Grétars Eggertssonar sem hefur sinnt því starfi s.l. tvö ár.
„Einar Ingi er okkur vel kunnur sem leiðtogi og fyrirliði bikarmeistaraliðs handboltans í fyrra. Það má segja að Einar sé þá búinn að loka hringnum í hringrás Aftureldingar þar sem hann hefur verið iðkandi, foreldri, þjálfari og sjálfboðaliði fyrir félagið okkar þannig að reynsla hans á öllum þessum vígstöðvum mun án efa nýtast honum vel.“
Einar er með BSc-próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er masterinn handan við hornið, hann hefur starfað sem vörumerkjastjóri hjá heildversluninni Halldóri Jónssyni síðan hann kom heim úr atvinnumennsku frá Noregi.
Einar býr í Mosfellsbænum með Þóreyju Rósu Stefánsdóttur landsliðskonu í handbolta og leikmanni hjá Fram, þau eiga tvö börn.

Sameiningarorka

Eitt það besta við íþróttirnar er að þær búa yfir þeim töframætti að geta sameinað fólk. Það er ólýsanlegt að vera hluti af stórum hópi fólks sem er samankominn til þess að styðja eitt og sama liðið til dáða. Lið sem allir í hópnum hafa tengingu við. Tengingarnar ná saman eins og ósýnilegir rafmagnsþræðir, tengja okkur sem erum á pöllunum hvert við annað. Og okkur sem heild við íþróttaliðið okkar úti á vellinum. Það gefur liðinu orku sem síðan endurvarpast á áhorfendapallana. Og þannig eykst þessi sameiginlega orka jafnt og þétt. Við finnum fyrir tengingunum, finnum að við erum í þessu saman.

Vorið er skemmtilegur íþróttatími í Mosfellsbæ. Vetraríþróttirnar eru að ná hámarki og sumaríþróttirnar að byrja. Móðurskip okkar Mosfellinga, Afturelding, heldur úti öflugum félagsliðum í bolta­íþróttunum og það eru heldur betur spennandi tímar fram undan hjá þeim. Karla- og kvennalið UMFA í blaki eru bæði komin í undanúrslit í Íslandsmótinu, en úrslitakeppnin er í fullum gangi þessa dagana. Kvennaliðið okkar í handbolta tekur næstu daga og vikur þátt í úrslitakeppni um að halda sæti sínu í efstu deild og karlaliðið, sem endaði deildarkeppnina í öðru sæti, spilar þessa dagana við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Við eigum, ekki enn, meistaraflokka í körfubolta, en íþróttin er mjög vaxandi í Mosfellsbæ og strákarnir í 2009 árganginum eru á meðal bestu liða landsins í dag. Kvenna- og karlaliðin okkar í fótbolta eiga bæði bikarleiki í apríl og Íslandsmótið hefst í byrjun maí.

Ég hvet unga sem aldna Mosfellinga til að mæta sem oftast á völlinn til að styðja okkar lið og upplifa um leið öfluga mosfellska sameiningarorku. Saman getum við náð langt!

Það er líka margt að gerast á vormánuðum hjá hinum íþróttadeildum UMFA – badminton, fimleikar, frjálsar, hjól, karate, sund og taekwondo. Skoðum það og önnur íþróttafélög bæjarins í næsta pistli.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. apríl 2024

Leikfélagið sýnir Línu Langsokk

Leikfélag Mosfellssveitar sýnir um þessar mundir söngleikinn um Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren sem fólk á öllum aldri ætti að þekkja.
Þegar ný stelpa flytur inn í Sjónarhól með apann sinn Herra Níels og hestinn Litla Kall umturnast líf Tomma og Önnu og þau lenda í hverju ævintýrinu á eftir öðru. Aron Martin Ásgerðarson leikstýrir verkinu, Þorsteinn Jónsson er tónlistarstjóri og Eva Björg Harðardóttir hannar leikmynd og búninga.
Stór hópur leikara og tónlistarfólks tekur þátt í uppsetningunni og mega gestir eiga von á sannkallaðri söng- og dansveislu.
Sýningar fara fram á sunnudögum í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ og er miðasalan í fullum gangi á tix.is.