Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Afmælisfögnuður í tilefni 40 ára afmæli Bólsins

Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Félagsmiðstöðin Bólið fagnar 40 ára afmæli sínu með þriggja daga afmælisfögnuði í Hlégarði dagana 10.-12. apríl.
Félagsmiðstöðin Bólið býður upp á uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10 til 16 ára börn og ungmenni. Í Bólinu er fjölbreytt og lifandi starfsemi sem er skipulögð að miklu leyti í samráði við unglingana.
Félagsmiðstöðin Bólið var fyrst opnuð um áramótin ‘83-’84 og fagnar því á þessu ári 40 ára afmæli.
Fyrst hafði félagsmiðstöðin aðsetur í gömlu símstöðinni, síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Í dag hefur félagsmiðstöðin aðsetur á þremur stöðum, á lóðinni við Lágafellsskóla, inni í Helgafellsskóla og við Skólabraut í svokölluðum Læknisbústað. Þar á neðri hæðinni er tónlistaraðstaða og hljóðver í boði fyrir ungmenni 13-25 ára og ber nafnið Kjallarinn.
Í dag starfa í Bólinu 17 starfsmenn og fer þar fram mikið og öflugt starf alla daga og öll kvöld vikunnar.
Böll verða haldin í Hlégarði á miðvikudags- og fimmtudagskvöld fyrir 5.-10. bekkinga.
Föstudaginn 12. apríl er svo almenningi boðið í veislu í Hlégarði kl. 17:00.
Bólráð sér um veislustjórn og bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun ávarpa samkomuna.
Þar munu ungir listamenn koma fram og boðið verður upp á veitingar og spjall.