Tilhlökkun

Ég las viðtal við unga konu í síðustu viku. Hún er á leiðinni til Ungverjalands með eiginmanni sínum og börnum, en þar ætla þau að búa næstu árin. Hún sagði í viðtalinu frá ástæðum þess að þau væru að flytja og hvernig þau hefðu undirbúið sig fyrir þetta spennandi stökk. Mér finnst alltaf gaman að lesa um fjölskyldur sem láta vaða, þora að kýla á draumana og framkvæma þá. Láta ekki mögulegar hindranir standa í veginum, heldur finna leiðir til þess að breyta hindrunum í verkefni sem hægt er að leysa. Það sem drífur þessa ungu konu áfram í lífinu er tilhlökkunin – að hafa eitthvað að hlakka til. Eitthvað spennandi, áskorun, eitthvað sem brýtur upp rútínuna.

Eitt þarf ekki að útiloka annað. Tilhlökkun fer vel saman með því að njóta dagsins, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og gera það besta úr hverjum degi. Tilhlökkunin getur einmitt verið sterkur hvati til þess að njóta hversdagsins betur. Ég hlakka til að fara í þrautahlaup með frábæru fólki eftir nokkrar vikur, það hvetur mig til að njóta þess að fara á fell og fjöll og gera eitthvað daglega til þess að auka líkurnar á því að þrautahlaupið sjálft verði skemmtilegt og gefandi.

Bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima, er helgi sem margir hlakka til, enda fjöldi viðburða í boði fyrir unga sem aldna. Eitt af því besta við hátíðina er hvað margir taka þátt í að gera hana skemmtilega, það er pláss fyrir alla og ótal tækifæri til þess að búa til viðburð eða vera með í þeim viðburðum sem eru í gangi.

Tilhlökkun snýst líka um daginn í dag og daginn á morgun. Ég hlakka þannig alltaf til þess að vakna á morgnana, hella upp á kaffi og fara í gegnum morgunrútínuna mína – það er mikilvægt að byrja daginn vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. ágúst 2023

 

Vínbóndinn býður upp á lífrænt frá Ítalíu

Mosfellingurinn Arnar Bjarnason hefur síðastliðin sjö ár rekið vefverslunina Vínbóndinn.is sem er lífræn vefverslun bæði með mat og vín, allt gæðavörur frá Ítalíu.
Arnar hefur yfir 20 ára reynslu í að flytja inn vín og mat og stofnaði og rak meðal annars verslunina Frú Laugu um tíma.
„Ég er eingöngu að flytja inn lífrænar matvörur og svokölluð náttúruvín og eiginlega allt frá Ítalíu,“ segir Arnar sem er tónlistarmenntaður og hefur starfað sem tónlistarkennari meðfram rekstrinum.

Eingöngu með lífrænar vörur
Vínbóndinn býður upp á fjölbreytt úrval af lífrænum matvörum svo sem ólífuolíur, tómatafurðir, pasta, ávaxtasafa, blandaða matarkassa og margt fleira, beint frá bónda á Ítalíu.
„Ég hef sérvalið þá bændur sem ég versla við, er búinn að heimsækja þá og á í mjög góðum samskiptum við þá. Margar af vörunum sem við bjóðum upp á eru með allar bestu vottanir sem hægt er að fá í lífrænni ræktun. Það má segja að viðskiptavinir okkar sem byrja að versla við okkur panta aftur og aftur. Við erum með fría heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu ef pöntun fer yfir 12.000 kr.“

Náttúruvín eru alltaf að verða vinsælli
Vínbóndinn flytur inn fjölda vína sem hægt er að kaupa í völdum verslunum Vínbúðarinnar og enn fleiri vín er hægt að sérpanta og fá send í hvaða vínbúð sem er.
„Náttúruvín eru lífræn en það má segja að það sé gengið skrefinu lengra. Náttúruvín eru hrein afurð hreins landbúnaðar, óspilltur vínsafi án aukaefna, best fyrir mann og náttúru. Við erum með rauðvín, hvítvín, rósavín og freyðandi vín, svo erum við líka með svokölluð gulvín sem eru að verða mjög vinsæl. Þetta er eiginlega hvítvín þar sem berin eru notuð með hýðinu og gefur þeim svokallað tannin og líkjast í raun meira rauðvíni á bragðið,“ segir Arnar en það kostar ekkert aukalega að gera sérpantanir og lágmarksmagn er ekki nauðsynlegt.

Vinsælar vörur í fjáraflanir
Margir eru að standa í fjáröflunum þessa dagana og býður Vínbóndinn upp á sérhannaða pakka með ítölskum gæðamatvörum. „Það er alltaf að verða vinsælla að bjóða matarpakka frá okkur í fjáraflanir, það er nýjung á þessum fjáraflanamarkaði og margir fegnir að fá gæðamatvöru á góðu verði.
Við erum með nokkra staðlaða pakka með t.d. ólífuolíu, pasta, pastasósum, pestói og ólífum, svo er alltaf hægt að útbúa eftir óskum hvers og eins. Við bjóðum líka upp á kaffi, súkkulaði, hunang og sultur, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Arnar að lokum, en allar upplýsingar eru á vinbondinn.is og hvetur hann Mosfellinga til að fylgja Vínbóndanum á samfélagsmiðlum.

Snemma farinn að huga að viðskiptum

Daníel Már Einarsson var ungur að árum er hann fór að hafa áhuga á viðskiptum. Hann hefur komið að ýmiss konar rekstri í gegnum tíðina en í dag rekur hann heildsöluna Esjaspirits sem selur áfengi og hágæða matvöru frá Andalúsíu á Spáni.
Daníel segist leggja áherslu á gæði og traust vörumerki og að vörulína þeirra sé ört stækkandi, hann sé því ekkert nema spenntur fyrir komandi framtíð.

Daníel er fæddur í Reykjavík 11. febrúar 1976. Foreldrar hans eru Einar Magnús Nikulásson bifvélavirkjameistari og Herdís Jóhannsdóttir fóstra, Einar lést árið 2019.
Daníel á tvo bræður, Nikulás f. 1973 og Atla Jóhann f. 1986.

Tímarnir voru öðruvísi þá
„Mínar fyrstu æskuminningar eru úr Barrholtinu hér í Mosó en þar bjó ég frá þriggja til sex ára aldurs. Foreldrar mínir keyptu fokhelt hús sem var nú hálfpartinn enn fokhelt þegar við fluttum í það, tímarnir voru bara öðruvísi þá. Það voru malargötur og við krakkarnir lékum okkur mikið úti.
Við fluttum svo til Reykjavíkur og þar bjó ég þangað til að ég flutti að heiman en nú er ég fluttur aftur hingað í sveitina.“

Maður hitti alls kyns fólk
„Þegar maður hugsar til baka til æskuáranna þá rifjast nú ýmislegt upp. Ég man þegar ég fékk gat á hausinn og það þurfti að labba með mig upp á Reykjalund frá Barrholtinu því heilsugæslan var staðsett þar, bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma.
Eftir að við fluttum til Reykjavíkur þá bárum við bræðurnir út Nútímann í hverfinu okkar. Ég man hvað það var mikil vinna að rukka inn áskriftina um hver mánaðamót. Maður hitti alls kyns fólk við þau störf og oft þurftum við að koma mörgum sinnum til þeirra sem gátu ekki borgað á réttum tíma. Rukkunaraðferðin er töluvert auðveldari í dag.“

Seldi með ágætis gróða
„Ég gekk í 6 ára bekk í Varmárskóla og þótt ég hafi verið stutt í Mosó þá kannaðist ég við marga eftir að ég flutti aftur í bæinn. Ég fór svo í Æfingadeildina en það var hverfisskólinn minn eftir að við fluttum til höfuðborgarinnar. Ég var nú kannski ekki uppáhald kennarana, það verður að viðurkennast, og ég hefði líklegast fengið einhverjar greiningar ef út í það hefði verið farið.
Ég byrjaði snemma að vinna og á enn fyrsta launaseðilinn minn, hann er frá því ég var 12 ára en þá starfaði ég hjá Hagkaup, var kerrustrákur og í áfyllingum. Ég færði mig svo yfir í Miklagarð þar sem ég vann í nokkur ár á sumrin og með skóla.
Þegar ég var 10 ára þá fór ég stundum í lakkrísgerð, keypti kílópoka og skipti í tvennt og seldi með ágætis gróða, svo ég var ansi snemma farinn að hafa áhuga á viðskiptum sem hafa fylgt mér æ síðan,“ segir Daníel Már og brosir.

Fluttu til Ísafjarðar
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf Daníel störf hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en þar sá hann um viðhald á orlofshúsum og um tjaldvagnaleiguna á sumrin. Starfaði svo hjá Húsasmiðjunni um tíma en um tvítugt hóf hann störf hjá Ölgerðinni.
„Ég var ráðinn sem svæðisstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum með aðsetur á Ísafirði. Við fjölskyldan fluttum því þangað en þá vorum við bara tvö með lítið ungbarn.
Við bjuggum á Ísafirði í tvö ár og litum á þetta sem pínu ævintýri. Góð reynsla að hafa búið úti á landi sem við sjáum alls ekkert eftir. Ég var í björgunarsveitinni og þegar allt var ófært þá þurftum við að ferðast um á snjósleða sem kom nú oft fyrir á þessum árum.“

Erum dugleg að ferðast
Daníel er giftur Sædísi Jónasdóttur deildarstjóra hjá Samgöngustofu. Þau kynntust ung og eiga þrjá syni, Einar Björn f. 2000, Jónas Inga f. 2008 og Sigurð Helga f. 2012.
„Við vorum frumbyggjar í Krikahverfinu en þar byggðum við okkur hús árið 2007 og búum þar enn. Sædís mín er uppalin í Mosfellsbæ og vildi hvergi annars staðar búa. Það þurfti nú ekkert að sannfæra mig mikið um að koma aftur hingað upp eftir,“ segir Daníel og brosir.
„Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast, förum mikið út á land og til Spánar en þar eigum við íbúð, okkur finnst líka gaman að skoða nýja staði.“

Góðar reiðleiðir í Mosó
„Við höfum stundað hestamennsku lengi og erum með hestana okkar í hestamannafélaginu Herði sem er frábært félag, framúrskarandi aðstaða og svo eru svo góðar reiðleiðir hér í Mosó.
Það er ekkert eins skemmtilegt og að fara í hestaferðir í góðra vina hópi, ég er svo líka í félagi sem heitir Áttavilltir en við erum nokkrir félagar úr Herði sem ríðum út hálfsmánaðarlega og borðum svo saman á eftir, alltaf líf og fjör.
Í gegnum tíðina hef ég líka alltaf átt fjórhjól eða einhver mótorsporttæki, ég er bara ekki rólegur nema eiga eitt slíkt í bílskúrnum, svo hef ég aðeins verið í því að flytja inn Buggy bíla.“

Stoltir með gullverðlaunin
Eftir árin hjá Ölgerðinni á Ísafirði fór Daní­el Már út í sjálfstæðan rekstur, rak kaffihús á Laugavegi í smá tíma og var með fyrirtæki sem sá um umsjón með orlofsíbúðum fyrir verkalýðsfélög í 14 ár. Húsgagnahreinsun sem sérhæfði sig í myglusveppi og svo opnaði hann skyrbar í Danmörku til að kynna Danina fyrir íslenska skyrinu. Hann var framkvæmdastjóri hjá Rolf Johansen og hjá Vöku björgunarfélagi.
„Í dag rek ég áfengisheildsöluna Esja­spirits en nafnið kom til þar sem við hjónin horfum alltaf á fallegu Esjuna út um stofugluggann hjá okkur. Við erum með gott úrval af bæði áfengi og matvörum og leggjum áherslu á gæði og traust vörumerki. Það er nú gaman að segja frá því að við erum nýbúin að fá gullverðlaun fyrir besta ginið á Íslandi, Old Islandia, og einnig fyrir Volcanic vodka.
Við erum með bæði innlend og erlend vín og seljum í ÁTVR og á veitingastaði. Við sérhæfum okkur í veisluþjónustu, erum með vínráðgjöf sem felur í sér að velja réttu vínin í veisluna og hjálpum til við að áætla magn. Við höfum líka verið í innflutningi á matvöru aðallega frá Andalúsíuhéraði, olíur, hnetur, súkkulaði, marmelaði og fleira.
Ég hef óskaplega gaman af viðskiptum og elska að vera í einhverju brasi í kringum þau, kaupa og selja. Við erum með ört stækkandi vörulínu svo við erum bara spennt fyrir framtíðinni,“ segir Daníel að lokum er við kveðjumst.

Rafskútur Hopp mættar í Mosó

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri fer fyrstu ferðina.

Mosfellsbær og Hopp hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um rekstur á stöðvalausri deilileigu fyrir rafskútur í Mosfellsbæ.
Leig­an fer fram í gegn­um smá­for­rit í snjallsíma þar sem unnt er að sjá hvar næsta lausa rafskúta er stað­sett. Upp­hafs­stöðv­ar verða við íþróttamið­stöðv­ar og við mið­bæj­ar­torg en not­end­ur geta skil­ið við hjól­in þar sem þeim hentar. Það er þó mik­il­vægt að skilja við hjól­in með ábyrg­um hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyr­ir ann­arri um­ferð.

Tveggja mánaða tilraunaverkefni – Snýst um traust
„Það er er frábært að fá Hopp loksins í Mosfellsbæ,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Við stólum á Mosfellinga að fara vel með skúturnar og passa upp á hraðann.“
Um er að ræða tveggja mánaða tilraunaverkefni í sumar til að kanna notkun og umgengni. Mikilvægt er að Mosfellingar leggi skútunum vel, svo þær séu ekki fyrir gangandi vegfarendum eða úti á miðri götu.
Verið er að tengja Mosfellsbæ við þjónustuvæði Hopp á höfuðborgarsvæðinu og geta íbúar nú þegar nýtt sér þennan nýja samgöngumáta og skilið bílinn eftir heima.

Mikil eftirspurn og áhugi frá Mosfellingum
„Með mælanlegri eftirspurn og áhuga frá íbúum Mosfellsbæjar ákváðum við að senda formlegt erindi til bæjaryfirvalda. Við vonum svo innilega að samstarfið hér verði farsælt,“ segir Sæunn Ósk framkvæmdastjóri Hopp.
Rafskútur hafa notið sífellt meiri vinsælda á undanförnum árum og eru umhverfisvænn samgöngukostur, en hjólin eru knúin áfram á einungis rafmagni og eru því fullkomlega kolefnishlutlaus. Rafskúturnar munu gagnast bæði íbúum og gestum sveitarfélagsins enda þægilegur, nútímalegur og umhverfisvænn samgöngukostur.
Inn­leið­ing raf­hlaupahjóla í Mos­fells­bæ er meðal annars í sam­ræmi við þau markmið sem sett eru fram í um­hverf­is­stefnu Mos­fells­bæj­ar og með hlið­sjón af heims­mark­mið­um Sam­ein­uðu þjóð­anna.

Diddú og Davíð Þór á 200. stofutónleikum Gljúfrasteins

Stofutónleikar Gljúfrasteins hafa verið fastur liður í starfseminni frá því 2006 og sunnudaginn 9. júlí verða stofutónleikar númer 200 í stofu skáldsins.
Á þessum tímamótatónleikum munu Mosfellingarnir Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Davíð Þór Jónsson píanóleikari koma fram og syngja og spila af hjartans list. Efnisskrá verður fjölbreytt, lífleg og einlæg. Tónleikarnir hefjast kl. 16 og miðar verða til sölu í móttöku safnsins.

Minnast Önnu Guðnýjar píanóleikara
Það er við hæfi að þessir frábæru listamenn sem bæði hafa verið bæjarlistamenn Mosfellsbæjar komi fram á stofutónleikum númer 200 á Gljúfrasteini.
Á tónleikunum munu þau minnast Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag tónleikahalds á Gljúfrasteini.
Diddú og Davíð eru bæði sannkallaðir vinir Gljúfrasteins og hafa margoft sungið og spilað í húsi skáldsins. Tónleikahald á Gljúfrasteini hefur verið fastur liður í starfsemi hússins og var til þeirra stofnað í anda Halldórs og Auðar Laxness.

Einn fjölhæfasti píanóleikari landsins
Davíð Þór Jónsson er einn fjölhæfasti píanóleikari landsins og fetar oft ótroðnar slóðir við hljóðfærið. Hann útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH 2001. Hann hefur spunnið, samið tónlist fyrir fjölda leik – og listsýninga.
Davíð Þór var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2017 og hefur hlotið margvísleg verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss var verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.
Diddú hóf feril sinn ung á sviði
Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn ung á sviði tónlistar og þarf því vart að kynna. Hún hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir söng sinn og meðal annars verið valin söngkona ársins þrjú ár í röð frá 1977-79. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði sönglistarinnar árið 1995. Hún var einnig Stórmeistari af finnsku ljónsorðunni 1997 og var útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 1998. Diddú var heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2019.

Fljúgum hærra

Esjan er falleg. Flestir sem fara á Esjuna fara upp að Steini og svo aftur niður. Langfæstir fara alla leið upp á topp. Upp á Þverfellshorn. Ég sjálfur hafði ekki farið alla leið í svo mörg ár að ég man ekki hvað þau eru mörg fyrr en ég fór á toppinn með konunni og þeim yngsta í síðasta mánuði. Hann var í áheitaverkefni tengt fótboltanum og langaði að hafa göngu upp á Esjutopp hluta af verkefninu. Maður lifandi hvað þetta var gaman!

Svo gaman að ég fór aftur sömu leið viku seinna og stefni á margar fleiri í sumar. Það er ekkert að því að stoppa við Stein, leiðin þangað tekur vel í og útsýnið er fallegt. Síðustu metrarnir upp á topp eru brattari og aðeins meira krefjandi, en leiðin tekur samt bara um korter á jöfnum þægilegum hraða. Það er búið að leggja keðjur og tröppur í klettunum nánast alla leið og flestir þeirra sem komast upp að Steini ættu að geta komist líka á toppinn. Útsýnið þar er enn magnaðra. Síðasti spölurinn á toppinn er skemmtileg áskorun og tilfinningin að hafa farið alla leið frábær.

Afturelding er núna í toppbaráttu í Lengjudeild karla. Þeir stefna á Bestu deildina, alla leið á toppinn. Liðið hefur ekki farið þangað áður, en kvennalið Aftureldingar hefur farið alla leið og ætlar þangað aftur. Aðalþjálfari Aftureldingar hefur farið upp í efstu deild sem leikmaður og lykilmenn í leikmannahópnum hafa farið upp í deildina með sínum liðum. Reynslan og þekkingin er til staðar og það er mikilvægt þegar stefnt er á toppinn – að fara með einhverjum sem hefur farið áður.

Alveg eins og okkar yngsti fékk okkur foreldrana með í sína fyrstu ferð á Þverfellshornið. Aðalmálið er samt að sjá toppinn, vilja fara á hann og trúa því að leiðin sé greið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júlí 2023

 

Hlín Blómahús í 30 ár – fyrst og fremst þakklát

Hlín Blómahús fagnaði 30 ára afmæli þann 8. maí. Það eru hjónin Hlín Sveinsdóttir og Sigþór Hólm Þórarinsson sem eiga og hafa rekið blómabúðina í þennan tíma.
„Við erum fyrst og fremst þakklát fyrir þessi ár og einstaklega trygga viðskiptavini. Við opnuðum hér í þessu húsi 1993, fluttum í skamman tíma í Krónuhúsnæðið, vorum á tímabili með reksturinn heima en komum aftur hingað árið 2015,“ segir Hlín sem tekur brosandi á móti öllum viðskiptavinum.

Náttúruskreytingar okkar sérstaða
„Sérstaða okkar hefur alltaf verið náttúruskreytingar og við nýtum fallegu náttúruna hér í sveitinni til efnisöflunar. Við erum alltaf með fjölbreytt úrval af afskornum blómum, pottaplöntum, pottum og fleiru.
Það má segja að búðin sé mjög árstíðabundin, nú erum við með sumarblómin, á haustin einblínum við á haustskreytingar og jólin eru í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Við erum líka mikið að sinna skreytingum á viðburðum, þá sérstaklega í kringum ferðamenn, og þar er verið að sækjast eftir íslenskum náttúruskreytingum.“

Tryggir viðskiptavinir
„Við höfum verið einstaklega heppin með kúnnahópinn okkar, við marga hefur myndast sterk og traust vinátta.
Maður er búinn að fylgja heilu fjölskyldunum á eftirminnilegum stundum jafnt í gleði sem sorg. Ég hef meðal annars gert skírnar-, fermingar- og brúðarskreytingu fyrir sama einstaklinginn.
Við höfum alltaf einsett okkur að veita persónulega þjónustu og lagt okkur fram við að mynda tengsl við okkar viðskiptavini,“ segir Hlín að lokum og tekur það fram að það sé einstaklega gefandi að starfa við að nýta náttúrlegan efnivið til að gleðja viðskiptavinina.

Halda Barnadjass í Mosó

Helgina 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Selfossi, Hafnarfirði, Reykjavík, Noregi og Færeyjum.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Odd André Elveland en hann er norskur djasstónlistarmaður og rekur tónlistarskólann Improbasen í Osló. Hann hefur þróað aðferðir til að kenna ungum börnum að spila djass eftir eyranu víðsvegar um heiminn.
Árlega stendur hann fyrir tónlistarhátíðinni „Kids in jazz“ í Osló og sækir hátíðin í Mosó innblástur þaðan. Hátíðin er partur af umfangsmiklu samnorrænu verkefni, styrktu af Nordisk kultur­fond, sem miðar að því að koma barnadjassi á kortið.

Tenging frá árinu 2017
Tenginguna á milli Odd André og Mosfellsbæjar má rekja allt til ársins 2017 þegar hann kom til landsins og hélt vinnustofu í spuna fyrir börn í Norræna húsinu.
Jakob Leó Allansson, stóri bróðir Rakelar Elaisu sem tekur þátt í hátíðinni í ár, var með í þeirri vinnustofu og var í framhaldinu boðið, ásamt þremur öðrum íslenskum krökkum, að taka þátt í Kids in Jazz hátíðinni í Osló. Síðan þá hafa yfirleitt verið einhverjir þátttakendur frá Íslandi og oftar en ekki leynst Mosfellingar í hópnum.

Gestgjafar hátíðarinnar 9-12 ára
Tónlistarskólinn í Mosfellsbæ hefur síðustu ár lánað aðstöðu sína þegar Odd André hefur komið til landsins til að kenna krökkunum og halda vinnustofur og hefur Sigurjón Alexandersson, deildarstjóri rytmísku deildar skólans, verið innan handar.
Árið 2021 tóku systkinin Emil Huldar Jonasson og Edda Margrét Jonasdóttir þátt í Kids in jazz í Osló og má segja að það hafi verið upphafið að stofnun 6 krakka djassbands sem er skipað mosfellskum börnum á aldrinum 9-12 ára. Þau eru gestgjafar hátíðarinnar og bera, ásamt erlendu gestunum, hitann og þungann af tónleikahaldinu.
Þar að auki koma fram tvær gestahljómsveitir. Hljómsveitin Rokkbál skipuð krökkum úr 9. bekk sem eru í Listaskóla Mosfellsbæjar undir handleiðslu Sigurjóns Alexanderssonar og hin hljómsveitin er skipuð krökkum úr 2.-4. bekk í Landakotsskóla.

Fyrsta djasshátíðin í Mosfellsbæ
Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Mosfellsbæ, Kiwanisklúbbnum Mosfelli og Barnamenningarsjóði. Þetta er bara byrjunin þar sem verkefnið fékk veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði til að ferðast með verkefnið um allt land.
„Við höldum að þetta sé í fyrsta skipti sem haldin er Djasshátíð í Mosfellsbæ og eins í fyrsta skipti djasshátíð þar sem börn eru í aðalhlutverki,“ segir Guðrún Rútsdóttir skipuleggjandi hátíðarinnar.

 


22. júní kl. 19 – Hlégarður (Mosfellsbæ)
23. júní kl. 17 – Hús máls og menningar (Rvk)
25. júní kl. 16 – Bankinn Bistro (Mosfellsbæ)
Ókeypis er inn á alla tónleikana.

Mjög vel tekið á móti okkur

Valur Oddsson húsasmiður flutti upp á land eftir gosið í Eyjum 1973.

Gosið á Heimaey í Vestmannaeyjum hófst aðfaranótt 23. janúar 1973 og stóð yfir í rúmlega fimm mánuði. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar eða tæplega 400 hús og byggingar. Flestir íbúarnir flúðu til meginlandsins og biðu milli vonar og ótta eftir því hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Einn af þeim sem flutti með fjölskyldu sína er Valur Oddsson, þau fluttu ásamt fleirum íbúum í Mosfellssveit. Hann segist verða ævinlega þakklátur fyrir þær góðu móttökur sem Vestmannaeyingum voru sýndar hér.

Valur er fæddur í Vestmannaeyjum 27. júlí 1942. Foreldrar hans eru Magnea Lovísa Magnúsdóttir húsmóðir og verkakona og Oddur Sigurðsson skipstjóri.
Bræður Vals eru Magnús f. 1934 og Sigurður Pétur, ávallt kallaður Bói, f. 1936 en þeir eru báðir látnir.

Ólst upp við frjálsræði
„Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og það var gott að alast upp þar við algjört frjálsræði, einu skyldurnar voru að koma inn á réttum tíma í mat og kaffi.
Fjöllin og bryggjan heilluðu mest, við vinirnir tókum oft árabáta traustataki og rérum út að Löngu, eins mokuðum við flæðigarða í fjörunni og biðum eftir að sjórinn flæddi inn. Við veiddum einn og einn smáufsa á bryggjunni og stundum marhnút en það þótti mikil hneisa, maður reyndi að láta lítið á því bera,“ segir Valur og brosir.
„Lífið á eyjunni breyttist alltaf í byrjun janúar þegar um 2.000 sjómenn og verkafólk komu á vertíð. Þá kom fleira fólk inn á heimilið og ættingjar ofan af landi komu gjarnan í kaffi á frídögum.“

Beitti bjóð á línu
„Ég gekk í barna- og gagnfræðaskólann og mér leið ágætlega í skóla en hann þvældist pínu fyrir mér þegar líða tók á vertíðirnar. Þá átti maður nefnilega möguleika á að beita eitt og eitt bjóð á línu og fá borgað fyrir það, svo þurfti maður að fara á bryggjuna til að fylgjast með hvernig fiskaðist.
Fyrsta vinnan mín var að breiða saltfisk, þá var ég 11 ára, ég fór sjálfur og bankaði upp á hjá verkstjóranum til að fá vinnu. Við krakkarnir unnum með eldri borgurum sem voru hætt að vinna en fóru í þessa íhlaupavinnu, þau leiðbeindu okkur. Þetta var einhver besta unglingavinna sem hægt var að hugsa sér. Þegar þessu lauk fór ég í frystihúsin, það fannst mér drepleiðinleg vinna.“

Aðstaðan mjög bágborin
„Árið 1958 fór ég á sjó, réri til að byrja með með Bóa bróður og pabba á vertíðum og þess á milli var ég á Halkion 46, 100 og 250 tonna, eða fram til ársins 1963.
Á þessum tíma var öll aðstaða á bátunum bágborin, hreinlætisaðstaðan engin og fata til að gera þarfir sínar í. Í lúkarnum sváfu menn í kojum í öllum fötunum og þar var líka eldað og borðað. Með tímanum batnaði aðstaðan, það var komið klósett og hvalbakur sem skýldi okkur við vinnuna.
Á þessum árum tók ég þátt í að bjarga 18 mönnum, tveimur skipshöfnum í tveimur sjóslysum, en því miður fórust tveir í öðru slysinu.
Árið 1963 byrjaði ég á Ísleifi 4 og síðar á Ísleifi, það aflaðist einhver ósköp á þessum skipum, síldin var í hámarki fyrir austan. Þetta var minn skemmtilegasti tími á sjó með óskaplega góðri áhöfn sem enn heldur hópinn. Ég var á sjó fram undir 1970 en þá fór ég að læra húsasmíði í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum.“

Þyngstu spor sem ég hef stigið
„Árið 1968 féll Bói bróðir milli skips og bryggju í Aberdeen en hann var á leið með skipið sitt í vélarskipti til Noregs. Pabbi var til sjós með Bóa þegar slysið varð en það liðu nokkrar vikur þangað til hann fannst látinn. Þetta var hræðilegur tími, algjör óvissa og það var reynt að halda í vonina fram á síðustu stundu.
Bói var hvers manns hugljúfi, giftur og átti þrjá drengi sem þarna voru 6, 7 og 8 ára. Amma okkar lést á meðan leitað var að Bóa og þau voru jörðuð saman. Það voru þung spor, líklega þau þyngstu sem ég hef stigið,“ segir Valur alvarlegur á svip.

Stóðu uppi heimilislaus
Eiginkona Vals er Kristín Stefánsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður, hún lést árið 2015. Dætur þeirra eru Ingibjörg f. 1970 og Ásdís f. 1976.
„Við Kristín kynntumst um borð í Gullfossi árið 1965, hún var úr Reykjavík en átti ættir að rekja til Eyja. Eftir að við giftum okkur þá bjuggum við okkur heimili í Vestmannaeyjum sem síðar fór undir hraun í gosinu 1973. Þá stóðum við hjónin uppi heimilislaus ásamt dóttur okkar sem var þriggja ára og það var ekkert annað í stöðunni en að flytja upp á land.

Fluttu í Mosfellssveit
„Sveitastjórn Mosfellshrepps með Jón á Reykjum og Hrólf Ingólfsson í fararbroddi buðu okkur sem misst höfðum húsin okkar lóðir við Arnartanga. Verkið var boðið út og sama fyrirtækið byggði flest einbýlishúsin sem þar standa. Þegar kom að því að borga lóðirnar var ekki búið að greiða út bætur úr Viðlagasjóði. Ólafur Helgason bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum lánaði öllum án þess að hafa veð, sem er væntanlega fáheyrt. Arnartanginn var því nokkurs konar útibú frá Vestmannaeyjum.
Það var mjög vel tekið á móti okkur öllum hér í Mosfellssveit og við hjónin fluttum í Arnartanga 1975. Hér bjuggu um 1.100 manns og okkur leið eins og við værum flutt á hjara veraldar. Við náðum þó fljótt að samlagast bæjarbragnum og ég gæti hvergi annars staðar hugsað mér að eiga heima, en ég fer líka mikið á mínar æskuslóðir. Dætur mínar og fjölskyldur búa hér líka og við höldum vel hvert um annað.
Eftir að ég flutti upp á land þá fór ég að vinna við smíðar, hóf síðan störf hjá Borgarspítalanum þar sem ég starfaði í 30 ár með góðum félögum. Síðustu þrjú árin áður en ég fór á eftirlaun starfaði ég hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og sinnti viðhaldi á eignum borgarinnar.“

Góðar stundir í Suðurey
„Lundaveiði hefur fylgt mér nánast alla ævi,“ segir Valur aðspurður um áhugamálin. „Ég fór fyrst í útey 5 ára. Ég veiði í Suðurey og það er mikill félagsskapur í kringum veiðina, sá góði hópur hefur gefið mér afskaplega mikið.
Ég hef spilað golf í 30 ár og svo byrjaði ég að stunda líkamsrækt fyrir nokkrum árum. Ég les líka mikið og nýti mér Storytel inn á milli. Ég var „forseti“ Gufufélags Mosfellsbæjar í tuttugu ár eða svo, það var afskaplega skemmtilegur félagsskapur. Svo sat ég í byggingarnefnd Mosfellsbæjar í fjögur ár og í yfirkjörstjórn í 16 ár fyrir Samfylkinguna þar sem ég hef hitt fyrir margt vandað og gott fólk sem hefur reynst mér vel.
Fyrir utan þessi hefðbundnu áhugamál er ég mjög áhugasamur um fjölskylduna mína og vil gjarnan verja sem mestum tíma með þeim og mínum mörgu og góðu vinum,“ segir Valur og brosir er við kveðjumst.

Gildran undibýr endurkomu í haust

Þórhallur Árnason, Karl Tómasson, Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson. 

Mosfellska hljómsveitin Gildran hefur ákveðið að koma saman í haust og blása til tónleika undir yfirskriftinni „Nú eða aldrei“.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1985 og fagnar því brátt 40 ára afmæli. Sveitin er skipuð þeim Þórhalli Árnasyni, Karli Tómassyni, Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni.

Gildran kemur nú saman eftir nokkurt hlé og varð heimabærinn fyrir valinu eins og oft áður. Helgina 6.-7. október er orðið uppselt á tvenna tónleika í Hlégarði og seldust miðar upp á augabragði.
Nú hafa þeir félagar ákveðið að fara norður í land og spila á Græna hattinum tveimur vikum síðar og bæta síðan við tónleikum í Hlégarði 4. nóvember.

„Það er gríðarleg tilhlökkun í okkur félögum að hefja störf á ný við tónleikahald, sköpun og upptökur á nýju efni,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni. Þessi magnaða rokkhljómsveit, Gildran, hefur á löngum starfsaldri skipað stóran sess í mosfellsku menningarlífi í gegnum tíðina.


NU EÐA ALDREI
6. október – Hlégarður – UPPSELT
7. október – Hlégarður – UPPSELT
20. október – Græni hatturinn, Akureyri
4. nóvember – Hlégarður, Mosfellsbæ
Miðasala á Tix.is og graenihatturinn.is.

Mosfellsbær tekur alfarið við starfsemi Skálatúns

Mosfellingarnir Ásmundur Einar barnamálaráðherra, Sigrún Lóu íbúi á Skálatúni og Regína bæjarstjóra Mosfellsbæjar.

Fimmtudaginn 25. maí var undirritaður samningur um að Mosfellsbær taki alfarið að sér að annast og þróa áfram þjónustu við íbúa Skálatúns en í dag búa þar 33 einstaklingar. Skálatún er rekið af IOGT á Íslandi sem hefur ákveðið að ánafna fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna.
Stofnuð verður sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns og verður framsal lóðaréttinda til sjálfseignarstofnunarinnar bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins.

Miðstöð barna að Skálatúni
Þá var skrifað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar sem lýtur að því að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og þjónustuaðilar barna, verði staðsett að Skálatúni í nokkurs konar miðstöð barna.
Loks var undirritað samkomulag um að jöfnunarsjóður yfirtaki skammtímaskuldir Skálatúns og greiði Mosfellsbæ 240 m.kr. viðbótarframlag árlega næstu 10 árin.

Starfsfólki boðið áframhaldandi starf
„Við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fögnum því að niðurstaða sé komin í viðræður um framtíðarskipan á rekstri Skálatúns,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs. „Sú uppbygging sem er ráðgerð á svæðinu mun opna spennandi möguleika á þróun og nýsköpun í þjónustu við börn og fjölskyldur á Íslandi. Í þeim samningum sem liggja fyrir er sérstaklega gætt að hagsmunum íbúa Skálatúns og tryggt að þeir njóti þeirrar þjónustu og aðbúnaðar sem þeir eiga rétt á. Öllu starfsfólki verður boðið áframhaldandi starf og það boðið velkomið í starfsmannahóp Mosfellsbæjar.“

Með virðingu við íbúana að leiðarljósi
Mjög góð samvinna hefur verið um þessi verkefni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. „Að loknum fundi bæjarráðs var haldinn aukafundur í bæjarstjórn og strax í kjölfarið starfsmannafundur á bæjarskrifstofunum. Í framhaldi var boðað til starfsmannafundar á Skálatúni en þar starfa rúmlega 100 manns. Þar sköpuðust góðar umræður um það mikilvæga starf sem fram undan er og samstaða um að vinna verkin saman,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Í framhaldi af þeim fundi var fundað með íbúum Skálatúns og aðstandendum þeirra. Eins og við var að búast komu fram fjölmargar spurninga á þeim fundi, meðal annars um hvað verði um þá fötluðu íbúa sem búa á Skálatúni í dag. Okkar svör eru þau að við förum í þetta verkefni með virðingu við íbúana að leiðarljósi og berum hag þeirra fyrst og fremst fyrir brjósti. Þeir sem þess óska fá að búa áfram á Skálatúni en við munum þurfa að bretta upp ermar og bjóða upp á aðra búsetukosti fyrir þá sem vilja búa sjálfstæðar. Næstu vikur og mánuðir fara í að kynnast íbúum og starfsmönnum betur og auglýst hefur verið eftir leiðtoga í málaflokk fatlaðs fólks hjá Mosfellsbæ til að leiða þessar mikilvægu breytingar.“

Uppbygging fyrir börn og fjölskyldur
Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.

Athygli

Við fórum hjónin í kaupstaðarferð í síðustu viku. Fórum út að borða og í leikhús. Níu líf var mögnuð upplifun. Halldóra Geirharðs var sem andsetin og það var fallegt og sterkt að fá að syngja með okkar eigin Halli Ásgeirs og systkinum hans á sama degi og móðir þeirra kvaddi.

Það vakti athygli okkar í þessari stuttu en góðu ferð hvað við mannfólkið erum orðin miklir símaþrælar. Pör saman úti að borða, annað eða bæði í símanum. Á leiksvæðinu voru krakkar að leika sér, foreldrarnir hoknir yfir símanum á meðan. Fyrir framan okkur í leikhúsinu, sátu foreldrar með unglingsdóttur. Mamman lagði kapal í símanum á meðan hún beið eftir að sýningin byrjaði, rétt náði að slökkva áður en Dóra æddi inn á sviðið. Reif svo strax upp símann þegar hléið kom og hélt áfram með kapalinn alveg þangað til sýningin byrjaði aftur. Dóttirin vafraði í gegnum Instagram í sínum síma. Pabbinn horfði fyrst aðeins út í loftið en fór svo að senda einhverjum einhver skilaboð. Á leiðinni í höfuðstaðinn sáum við marga bílstjóra rífa upp símann á ljósum, nýta tímann, og auðvitað marga líka vesenast eitthvað í símanum á meðan þeir keyrðu.

Það er ekki aftur snúið með símana. Þeir dekka svo stóran hluta af lífinu og athöfnum okkar í dag. Samskipti, upplýsingaöflun, skipulag, tungumálanám, bankaviðskipti, fréttir, afreying, myndavél, upptökutæki – allt þetta og miklu meira til er í símanum okkar.

En við getum sjálf tekið okkur taki. Hætt vera uppvakningar og þrælar. Hætt að láta þetta brjálæðislega öfluga apparat stýra lífi okkar í staðinn fyrir að nýta það til þess góða sem það býður upp á. Hætt að leggja símakapla, skrolla í gegnum Instagram og senda skilaboð þegar við höfum tekið frá tíma til að njóta samveru og alvöru upplifana sem gefa okkur svo miklu meira. Verið lifandi, með athygli.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. júní 2023

Viktoría Unnur nýr skólastjóri Krikaskóla

Viktoría Unnur Viktorsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Krikaskóla frá og með 1. júní. Alls sóttu 11 einstaklingar um starfið og var Viktoría Unnur metin hæfust. Hún er með B.Ed. gráðu frá KHÍ, með áherslu á kennslu yngri barna, með diplóma­nám á meist­ara­stigi í já­kvæðri sál­fræði frá End­ur­mennt­un Há­skóla Ís­lands og er að ljúka meist­ara­gráðu í stjórn­un og for­ystu í lær­dóms­sam­fé­lagi frá HA. Vikt­oría Unn­ur hef­ur starf­að sem grunn­skóla­kenn­ari í Norð­linga­skóla og ver­ið verk­efna­stjóri og tengi­lið­ur við Há­skóla Ís­lands í sam­evr­ópsku verk­efni sem stuðl­ar að seiglu og þraut­seigju hjá nem­end­um. Þá hef­ur hún reynslu af starfi sem deild­ar­stjóri í leik­skóla.

Ég játa mig sigraða

Anita Pálsdóttir segir ótrúlega sárt að geta ekki hugsað um barnið sitt.

Downs-heilkenni er litningafrávik sem veldur þroskahömlun. Um það bil eitt af hverjum 800 börnum fæðast með heilkennið sem þekkt er um allan heim, þvert á heimssvæði og kynþætti.
Anita Pálsdóttir eignaðist barn með Downs-heilkenni árið 2006. Hún segir að það hafi verið henni mikið áfall þegar hún fékk fréttirnar komin sjö mánuði á leið. Hún fór strax að syrgja barnið sitt sem hún hafði ætlað allt önnur tækifæri í lífinu.

Anita er fædd á Akureyri 25. desember 1967. Foreldrar hennar eru Bjarney Steinunn Einarsdóttir og Páll Helgason tónlistar­maður. Anita á tvo bræður, Helga f. 1963 og Einar f. 1966.

Lékum okkur við Varmána
„Ég ólst upp í Mosfellsbæ frá fjögurra ára aldri en fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Akureyri. Við fluttum í vinnuskúr við Álafoss og leiksvæði okkar krakkanna var á Álafosssvæðinu, í gömlu verksmiðjunni og við Varmána.
Ég man þegar ég og bræður mínir ásamt einum vini vorum að leika okkur á heimagerðum plönkum úti í tjörninni Tító sem er á bak við Þrúðvang. Yngri bróðir minn sem var í þykkri úlpu datt útbyrðis í tjörnina og bróðir minn og vinur okkar náðu honum upp úr með erfiðismunum, þetta situr fast í mér,“ segir Anita alvarleg á svip.
„Við færðum okkur svo um set fjölskyldan, í Byggðarholtið.“

Þar með lauk mínum ferli
„Ég gekk mína grunnskólagöngu í Varmárskóla og fannst gaman í skólanum og mér gekk vel að læra. Ég byrjaði sjö ára að læra á píanó í Tónlistarskólanum í Brúarlandi og þar var ég í eitt ár. Ég byrjaði svo að læra á trompet hjá Lárusi Sveinssyni og var í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar í átta ár.
Á unglingsárunum langaði mig að breyta til og fara að læra á annað hljóðfæri en foreldrar mínir tóku það ekki í mál og Lárus ekki heldur svo ég gerði mér lítið fyrir og pakkaði saman dótinu mínu og þar með lauk mínum trompetferli.“

Þetta voru skemmtileg ár
„Við vinkonurnar byrjuðum ungar að stunda handbolta en við spiluðum einnig fótbolta á sumrin. Þegar ég fermdist þá fékk ég hest í fermingargjöf frá foreldrum mínum og fékk í framhaldi mikinn áhuga á hestamennsku, þetta voru skemmtileg ár.
Eftir að grunnskóla lauk þá þurftum við krakkarnir að sækja framhaldsskóla til Reykjavíkur. Ég fór með rútunni alla daga í Verslunarskólann, tók tvö ár þar en kláraði stúdentinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég fór síðar í Tækniskóla Íslands í rekstrarfræði og útskrifast þaðan 2005.
Á sumrin starfaði ég í trefladeildinni á Álafossi, Búnaðarbankanum, skólagörðunum og svo starfaði ég lengi hjá Ragnari Björnssyni á Western Fried en það var aðal kjúklingastaðurinn í Mosfellssveit, ég á góðar minningar þaðan.
Ég ólst upp í dásamlegri sveitasælu sem nú er orðin að stórum bæ sem vex á ofurhraða, hér hefur mikið breyst,“ segir Anita og brosir.

Syngja fyrir eldri borgara
Eftir framhaldsskóla hóf Anita störf hjá Bílasölu Jöfurs, fór þaðan í ritarastarf hjá Sakadómi Reykjavíkur og svo til Alþýðusambands Íslands. Árið 1999 hóf Anita störf sem ritari í Varmárskóla en 2003 færði hún sig yfir á skrifstofu Borgarholtsskóla. Hjá Vátryggingafélagi Íslands starfaði hún í nokkur ár en í dag starfar hún sem móttökuritari hjá Hjartavernd í Kópavogi.
Anita á þrjú börn, Róbert f. 1992, Rakel Dóru f. 1998 og Katrínu f. 2006 og hundinn Pablo Picasso. En hver skyldu vera áhugamál Anitu? „Golfið og tónlistin eru mín áhugamál í dag og svo hjóla ég þegar tími gefst til, öll útivera finnst mér skemmtileg, náttúran, fólkið og dýrin.
Ég hef sungið lengi með Rokkkór Íslands og er líka í sönghóp sem kallar sig Söngelskur. Við höfum verið að syngja mikið fyrir eldri borgara öll gömlu góðu lögin sem þau muna eftir, mjög gefandi og gaman.“

Var nauðbeygð til að fara
Anita var 39 ára er hún gekk með sitt þriðja barn, á meðgöngunni kom í ljós að barnið hafði 3 eintök af litningi númer 21, Downs heilkenni.
„Meðgangan gekk vel og á 20. viku fór ég í sónar eins og ég hafði gert með hin börnin mín tvö. Í sónar virtist allt vera í lagi með litlu skvísuna sem var á leið í heiminn nema það fannst vökvi í brjóstholi sem þurfti að athuga. Eina sem hægt var að gera var að fara í ástungu, því annaðhvort var þetta sýking í fóstrinu eða litningagalli svo ég var eiginlega nauðbeygð að fara í þessa stungu sem ég og gerði, sýking hefði þýtt aðgerð í Svíþjóð. Ég var búin að fara í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufu til að athuga með Downs heilkenni en það kom allt vel út.“

Byrjaði strax að syrgja
„Það kom svo á daginn eftir nánari skoðanir að okkar litla snót var með þriðja litning í öllum sínum frumum sem er kallað Downs heilkenni. Þessar fréttir fékk ég þegar tveir mánuðir voru eftir af meðgöngunni. Ég fékk sjokk, grét og byrjaði strax að syrgja litla barnið mitt. Ég hugsaði um hvernig ég gæti verið móðir fatlaðs barns, ég kunni ekkert í þeim efnum. Það tók mig um tvær vikur að syrgja, ég var að syrgja stúlku sem ég hafði ætlað önnur tækifæri í lífinu.
Ég fór í það að læra ýmislegt um Downs heilkennið, hafði samband við foreldra og fékk bara góð viðbrögð. Downs börn geta lifað sómasamlegu lífi alveg eins og við hin og þau geta flest en eru með þroskafrávik, það sem háir þeim mest er samfélagið sem hleypir þeim ekki inn.“

Vildum að þau mynduðu sér skoðun
„Við ákváðum að segja systkinunum ekki frá þessum fréttum, við vildum að þau myndu sjá systur sína áður en þau mynduðu sér skoðun um hana. Katrín fæddist 31. desember 2006, yndisleg mannvera. Viku áður en hún kom í heiminn greindist hún með hjartagalla, þannig að við fórum með hana tveggja mánaða til Boston í hjartaaðgerð sem gekk vel. Ári eftir aðgerðina fór hún að fá flogaköst og svo hefur hún greinst með ýmiss konar önnur frávik, einhverfu, hegðunarröskun og ADHD svo eitthvað sé nefnt.“

Þetta er ótrúlega sárt
„Það er stundum þannig að þegar fólk eignast fatlað barn þá verður það foreldrum ofviða. Hegðun Katrínar minnar var orðin þannig að það var ekki lengur ráðið við, ég játaði mig sigraða og kallaði eftir hjálp, hún er í dag í vistun á Klettabæ og þarf stuðning tveggja aðila allan sólarhringinn.
Að þurfa að ganga í gegnum það að geta ekki hugsað um barnið sitt er alveg ótrúlega sárt því hún er mér alveg jafn kær og hin börnin mín. Við eigum samt okkar góðu gleðistundir saman sem eru gulls ígildi,“ segir Anita að lokum er við kveðjumst.

Nýtt flokkunarkerfi tekið í notkun á næstu vikum

Bjarni, Katrín Dóra og Heiða með nýju tvískiptu tunnuna.

Það styttist í að Mosfellingar fái afhentar nýjar tunnur, körfur og bréfpoka undir matarleifar. Nýtt og samræmt flokkunar­kerfi verður innleitt á næstu vikum þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili.
Stærsta breytingin er sú að íbúar fá tunnu fyrir matarleifar ásamt tunnu fyrir pappír og plast. Sorptunnurnar verða endurmerktar en sú gráa verður undir plast, bláa áfram undir pappa og svo bætist við tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Öll heimili fá plastkörfu og bréfpoka til að safna matarleifum innanhúss og verður það afhent með tunnunni.

Tunnunum dreift á sex vikna tímabili
„Spennandi skref í hringrásar­hagkerf­inu og til þess gert að lágmarka þann úrgang sem þarf að grafa,“ segir Katrín Dóra Þorsteinsdóttir verkefnastjóri.
Áætlað er að fyrstu tunnurnar komi samhliða sorphirðu fimmtudaginn 25. maí og verður dreift yfir sex vikna tímabil. Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, Heiða Ágústsdóttir og Bjarni Ásgeirsson ásamt fleira starfsfólki og fulltrúum úr umhverfis­­nefnd verða á bókasafninu til að spjalla við íbúa, fræða þá og svara spurningum. Þau verða á bókasafninu 25. maí, 1. og 8. júní kl. 16-18 og 3. júní kl. 11-13.
Nánari upplýsingar um dreifingaráætlun fyrir tunnurnar má finna í blaðinu í dag auk þess sem allar helstu upplýsingar um verkefnið eru á mos.is og flokkum.is.