Reykjalundur lokar hluta húsnæðis vegna bágs ástands

Í byrjun desember lokaði endurhæfingarstöðin Reykjalundur hluta húsnæðis síns vegna bágs ástands bygginga heilbrigðisstofnunarinnar.
Var þetta gert í framhaldi af úttekt verkfræðistofu sem sýnir að óheilnæmt er fyrir sjúklinga og starfsfólk að dvelja í umræddum byggingum.

Viðamikil úttekt verkfræðistofu
Stjórnendur og starfsfólk Reykjalundar hafa um nokkurn tíma haft grun um að hluti húsnæðis Reykjalundar sé ófullnægjandi, annars vegar út frá veitingu heilbrigðis­þjónustu til viðkvæmra sjúklingahópa og hins vegar sem vinnuaðstaða starfsfólks. Þessar áhyggjur hafa undanfarin misseri verið kynntar fulltrúum Sjúkratrygginga, heilbrigðisráðuneytis og heilbrigðisráðherra sjálfum.
Viðamikil úttekt verkfræðistofunnar Verksýnar á húsnæðinu hófst síðasta sumar og staðfestir hún, því miður, grun um ófullnægjandi ástand þess. Þær byggingar sem þarf að loka eru báðar hæðir C-álmu, efri hæð F-álmu og smáhýsi sem staðsett eru á lóð Reykjalundar og hafa verið notuð til gistingar fyrir sjúklinga utan af landi. Jafnframt þarf að loka nokkrum afmörkuðum stöðum í A-, B- og G-álmum. Auk þessa verða nokkrar álmur settar í sérstaka hreinsun og regluleg aukaþrif þar sem ástandi er ábótavant en þó ekki talið heilsuspillandi.
„Reynt hefur verið eins og kostur er að sjá til þess að lokunin verði ekki til að draga úr starfseminni þó óneitanlega verði einhverjir hnökrar á þjónustu. Óvissa ríkir um hversu lengi lokunin mun vara, þar sem ekki eru fjármunir til staðar til að fara í þær umfangsmiklu lagfæringar sem nauðsynlegar eru,“ segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar.

Stjórnvöld meðvituð um stöðuna
Þjónustusamningur Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands kveður á um að greiðslur samkvæmt honum megi einungis nýta í veitingu þjónustu við sjúklinga og felur ekki í sér sérstakar greiðslur til viðhaldsverkefna. SÍBS (eigandi húsnæðisins) hefur frá stofnun Reykjalundar árið 1945 greitt kostnað við uppbyggingu og viðhald.
Eftir því sem húsnæðið verður eldra og viðhaldsfrekara samhliða því sem tekjur af flokkahappdrætti SÍBS hafa minnkað, þá hrökkva þeir fjármunir ekki lengur til og því hefur einungis lágmarksviðhaldi verið sinnt á Reykjalundi í mörg ár.
Stjórnvöld hafa verið meðvituð um þessa stöðu og meðvituð um að húsnæðismál Reykjalundar væru langt frá því að vera sjálfbær. Þrátt fyrir það hefur ekki ennþá verið gengið frá framtíðarfyrirkomulagi húsnæðismála Reykjalundar.
„Við lokunina standa til boða færri rými fyrir sjúklinga utan af landi því hluti húsnæðisins sem lokað verður hefur verið nýttur fyrir gistingu sjúklinga sem ekki komast til síns heima á kvöldin.
Alls misstu 32 starfsmenn vinnuaðstöðu sína og hefur verið unnið að því að skipuleggja nýjar starfsstöðvar fyrir umrætt starfsfólk til bráðabirgða. Slíkt fyrirkomulag gengur þó ekki upp til langframa,“ segir Pétur Magnússon.

Engir fjármunir til staðar
„Það er von Reykjalundar að hægt verði að finna lausn sem tryggir samfellda og órofna þjónustu við sjúklinga til bæði skamms og langs tíma ásamt því að geta boðið upp á góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk.
Verið er að skoða möguleika á tímabundinni uppsetningu færanlegra húseininga eða flutningi tímabundið í annað laust húsnæði. Vandinn er hins vegar sá að engir fjármunir eru til staðar til að greiða fyrir leigu slíks húsnæðis, né til að hefja viðgerðir á núverandi húsnæði. Það ríkir því mikil óvissa um þá mikilvægu starfsemi sem fram fer á Reykjalundi.“

Almennings eða afreks?

Við erum svo heppin að það eru til einstaklingar eins og Vésteinn Hafsteinsson sem var í ársbyrjun ráðinn afreksstjóri ÍSÍ, en hann er með mikla reynslu af því að þjálfa afreksmenn í frjálsum íþróttum, meðal annars ólympíumeistara.

Ekki allir er ánægðir að Íslendingar séu að leggja svona mikla áherslu á að búa til íþróttamenn í fremstu röð. Segja að við ættum frekar að leggja meiri áherslu á að fá almenning til að æfa og hreyfa sig.

Ég hlustaði fyrir stuttu á viðtal við Véstein útskýra afreksstefnuna. Ástæðan fyrir því að samfélög ættu að leggja áherslu á að byggja upp og styðja við afreksíþróttafólk væri að afrekin sameina okkur og efla sem hóp. Rannsóknir sýna það og við þurfum svo sem engar rannsóknir, við vitum þetta. Við vitum öll hvað það er gaman þegar íslensku landsliðin og íþróttafólkið okkar gerir vel.

Við í Mosfellsbæ vitum þetta líka – mæting bæjarbúa á úrslitaleiki og stemmingin í bænum þegar liðin okkar eru í toppbaráttu sýnir það skýrt. Þau eru fulltrúar okkar, eru að keppa fyrir okkar hönd, leggja á sig fórnir og erfiði fyrir okkar hönd og við kunnum að meta það.

Árangur okkar fólks er líka hvatning fyrir okkur hin að æfa og hreyfa okkur. Það byrja til dæmis fleiri að æfa handbolta í yngri flokkunum þegar meistaraflokkunum gengur vel.

Og það sem kannski mörgum kemur á óvart, Vésteinn segir bestu og farsælustu afreksstefnuna byggjast á því að leyfa efnilegum íþróttabörnum og -unglingum að stunda fleiri en eina íþrótt fram til allavega 15-16 ára aldurs. Þau eiga að hafa gaman af því að æfa og keppa og fá frelsi til þess að lifa eðlilegu lífi, alls ekki byrja að sérhæfa sig eða fórna öllu fyrir mögulegan árangur í einni íþrótt of snemma.

Svarið við spurningunni, almennings eða afreks, bæði takk!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. desember 2023

 

 

asd f

Fjölskyldan loksins sameinuð í Mosfellsbæ eftir erfiðan aðskilnað

Í Bugðutanganum: Hanna Sím, Zahra, Ehsan, Parisa, Hassan, Einar og Mousa

Hjónin Hanna Símonardóttir og Einar Þór Magnússon hafa í gegnum árin tekið að sér fjölmörg fósturbörn í bæði skammtíma- og langtímavistun.
Það var svo í janúar 2021 að Hassan Rasooli kom til þeirra. Hassan var þá 14 ára gamall og hafði komið til Íslands skömmu áður sem flóttamaður en foreldrar hans og systkini voru enn í Íran.
„Fyrstu tvo mánuðina sem Hassan var hjá okkur vorum við að bíða eftir að hann fengi vernd á Íslandi. Eftir að Útlendingastofnun hafði samþykkt það byrjaði vinnan við að sameina fjölskylduna, sem á endanum tókst og nú búa þau öll hérna í Mosfellsbæ,“ segir Hanna sem er ánægð með hvernig Mosfellsbær stendur að móttöku flóttafólks.

Á flótta í átta mánuði
Fjölskylda Hassans er frá Afganistan þau fluttu til Íran þegar hann var um fjögurra ára gamall. Þar bjuggu þau sem flóttamenn þar til þau komu til Ísland þann 14. september. Flótti Hassans frá Íran var langt og erfitt ferli.
„Það tók mig um átta mánuði að komast hingað, ég flúði fyrsti frá Íran til Tyrklands, þar dvaldi ég í sex mánuði, var að vinna í verksmiðju ásamt fleira fólki í sömu stöðu og ég. Við bjuggum öll saman í litlu húsi og unnum í verksmiðjunni, maðurinn sem hjálpaði okkur til Ítal­íu skaffaði okkur bæði þetta húsnæði og vinnuna,“ segir Hassan sem þarna var 14 ára gamall, einn í ókunnu landi í erfiðum aðstæðum og vissi ekki hver næstu skref í hans lífi yrðu.

Þakklátur fyrir íslensku fjölskylduna
„Við fórum svo með bát frá Tyrklandi til Ítalíu, við vorum um 200 manns í þessari ferð. Við vorum fimm daga á siglingu og það var hvorki vatn né matur í boði og enginn gat lagst niður, við stóðum allan tímann. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa endað hér á Íslandi, Hanna og Einar eru einstakar manneskjur sem hafa breytt lífi okkar fjölskyldunnar. Við munum vera þakklát þeim til æviloka,“ segir Hassan en það tók um tvö ár fyrir foreldra hans og systkini að komast til Íslands. En hann saknaði þeirra óskaplega mikið og þau hans meðan á aðskilnaðinum stóð.

Talar mjög góða íslensku
„Hassan er svakalega flottur og duglegur strákur, hann var mjög fljótur að læra íslensku og bjarga sér á allan hátt. Hann byrjaði fljótt í 10. bekk Kvíslarskóla þar sem honum var vel tekið af bæði kennurnum og nemendum. Eignaðist góða vini sem margir eru enn saman í Borgó þar sem hann er núna á bifvélavirkjabraut.
Hann byrjaði strax í fótboltanum og svo er hann líka í karate. Hann hefur unnið með skólanum og er að safna sér fyrir bíl, enda bílprófið handan við hornið. Og nú er hann duglegur að hjálpa fjölskyldunni að læra íslenskuna og þau öll áhugasöm um að aðlagast íslenskum hefðum og venjum,“ segir Hanna.

Fjölskyldan sameinuð
Fjölskylda Hassans, þau Mousa og Zahra, Ehsan 17 ára og Parisa 12 ára komu svo loks til Íslands í september, það voru heldur betur fagnaðarfundir.
„Þau byrjuðu á að búa öll hjá okkur Einari, svo fengu þau íbúð með hjálp þeirra sem taka á móti flóttafólki hjá bænum. Mig langar að taka það fram hve vel er staðið að þessum málum hér í bæ, flott ferli og virkilega verið að kenna fólkinu á lífið hér á landi og gera þau sem allra mest sjálfstæð og örugg,“ segir Hanna og bætir við að þau séu öll svo ánægð með lífið í Mosfellsbæ.

Hlakka til að gefa til baka
Að lokum báðum við fjölskylduna að segja okkur hvað það væri það skrítnasta við Ísland og hvað það var sem kom þeim á óvart. Það stóð ekki á svörum hjá þeim og þótti þeim kuldinn og myrkrið það skrítnasta.
Það sem kom þeim mest á óvart var fólkið og góðvildin sem þau mæta alls staðar og hve allt er frjálst. Þau hlakka til að geta lagt eitthvað til samfélagsins og gefa til baka.

 

 

 

Kosið um íþróttafólk ársins

Búið er að tilnefna átta konur og ellefu karla til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2023.
Eins og áður gefst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd
Mosfellsbæjar, að kjósa íþróttafólk ársins rafrænt á www.mos.is.
Í nýjasta tölublaði Mosfellings má finna kynningu á íþróttafólkinu sem tilnefnt er og afrekum þess á árinu.
Netkosning stendur yfir frá 30. nóvember til og með 11. desember. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti í kvenna- og karlaflokki. Kosningin er ekki gild nema valið sé í öll þrjú sætin.
Tilkynnt verður um valið við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 11. janúar.
Núverandi íþróttafólk Mosfellsbæjar eru þau Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona úr Aftureldingu og Anton Ari Einarsson knattspyrnumaður hjá Breiðabliki.

Hér er hægt að kjósa

Jóga er tenging við hinn innri mátt

Íris Dögg Oddsdóttir flugfreyja, jógakennari og leiðsögumaður hefur það að markmiði að hjálpa fólki við að bæta heilsu og vellíðan.

Jóga er talið elsta mannræktarkerfi veraldar og miðar að þroskun líkama, hugar og sálar. Orðið jóga þýðir tenging eða sameining við hinn innri mátt. Allir geta stundað jóga óháð aldri eða líkamlegri getu og það er aldrei of seint að byrja.
Íris Dögg Oddsdóttir fór í jógakennaranám til Rishikesh á Indlandi. Hún leiðir nú námskeið í jóga hjá GoMove og Mjölni ásamt því að vera með hleðsluhelgar á hótelum víða um land.

Íris Dögg er fædd í Reykjavík 25. maí 1983. Foreldrar hennar eru Guðrún Jónsdóttir bókari og Oddur Þórðarson rannsóknarmaður hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.
Systkini Írisar eru Þórður f. 1966, Þórdís Anna f. 1972, Jón Finnur f. 1976 og Vignir Örn f. 1978.

Ljúft að alast upp í Barrholti
„Ég er alin upp í Barrholtinu, foreldrar mínir byggðu þar hús 1981 og búa þar enn. Það var ljúft að alast upp í þessari götu, yndislegir nágrannar og hverfið stútfullt af börnum. Á auða svæðinu milli Bergholts og Barrholts var leik- og fótboltavöllur, þar lékum við okkur mikið. Þar var líka fyrsti kossinn og fyrstu og einu slagsmálin,“ segir Íris Dögg og brosir.
„Ég á góða fjölskyldu og minningarnar eru margar og þá sérstaklega við eldhúsborðið því það var alltaf matur hjá mömmu klukkan 19:00, þá komu allir heim.“

Góðar minningar frá Gufunesi
„Við systkinin vorum mikið í Gufunesi á okkar yngri árum og við eigum frábærar minningar þaðan. Afi og Hjálmar sem var eins og þriðji afi okkar voru með hesthús á þessu svæði en þeir unnu báðir hjá Áburðarverksmiðju ríkisins.
Þetta var alvöru sveit í borg með heyskap og girðingarvinnu. Þetta var minn öryggisstaður ef ég loka augunum, inni í hlöðu, í rólunni eða liggjandi út í haga.“

Tókum inn sitthvorn hestinn
„Það var eftirminnilegt þegar við fengum að ríða á hestunum með afa og Hjálmari frá Gufunesi upp í Mosfellsbæ og alla leið heim í Barrholt. Mig dreymdi alltaf um að geta haft hestana á Varmárbökkum í hesthúsahverfinu og það fór svo að árið 1994 tókum við systurnar inn sitthvorn hestinn. Systir mín flutti síðan til Kaupmannahafnar og ég var því ein með hestana þann veturinn en þó aldrei ein því foreldrar mínir studdu alltaf við bakið á mér.
Það var líka vel hugsað um mann í hesthúsahverfinu, mikið af góðu fólki og ég á Þresti Karlssyni vini mínum mikið að þakka, ég fékk inni hjá honum í húsi og hann hjálpaði mér óendanlega mikið og hefur alltaf gert.“

Starfaði á hestaleigu
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og leið alltaf vel í skólanum. Við stelpurnar vorum lengi í fótbolta en svo færðum við Ása vinkona okkur yfir í handbolta. Á sumrin passaði ég börn, sinnti hestunum mínum, starfaði á reiðnámskeiði, var í unglingavinnunni og nokkur sumur starfaði ég á hestaleigunni á Reynisvatni, þaðan á ég yndislegar minningar.
„Ég fór í Menntaskólann við Sund en skipti svo yfir í Borgarholtsskóla og kláraði stúdentinn 2003. Með námi starfaði ég hjá World Class en eftir stúdentinn vissi ég ekki hvað ég vildi gera svo ég hélt áfram störfum þar.“

Við getum hlaðið okkur orku
„Í World Class fór ég í minn fyrsta jógatíma, þá kviknaði ljósið og ég fann þennan innri frið sem fylgir þessari iðkun. Síðar á lífsleiðinni eða árið 2018 skellti ég mér í jóganám til Rishikesh á Indlandi. Þegar kom að því að finna starf á þeim vettvangi hér heima þá lá beinast við að ræða við eigendur World Class. Hafdís hvatti mig áfram og ég vona að mér hafi tekist að kveikja jóganeista hjá iðkendum.
Jóga þýðir sameining, á einstaklingssálinni og alheimssálinni, þegar við köfum dýpra þá finnum við þessa tengingu, að eitt er allt og allt er eitt. Ég trúi því að við getum hlaðið okkur orku og vellíðan með jóga og tengingu við náttúruna. Við losum um ákveðin boðefni innra með okkur og komum auga á falleg augnablik þegar við leyfum okkur að vera hér og nú en ekki föst í fortíð og framtíð.“

Nýtur þess að brölta um landið
„Ég hóf nám í Háskóla Íslands í líffræði en eftir fyrstu önnina skipti ég yfir í dönsku. Ég útskrifaðist 2010 og fór í framhaldi í kennslufræði. Ég starfaði sem dönskukennari við FMOS á árunum 2011-2016. Það var dásamlegt að koma inn í skóla sem fór algjörlega eftir nýjum vísindum og stefnum í kennslufræðum.
Samhliða kennslunni starfaði ég tvö sumur á ferðaskrifstofu og eftir það fór ég í leiðsögunám. Eftir að ég hóf störf sem leiðsögumaður uppgötvaði ég að það væri mikilvægt að hafa meirapróf svo ég bætti því við. Ég tek að mér stök verkefni og nýt þess að brölta um landið með ferðamenn.“

Ákveðin liðsheild sem myndast
Sambýlismaður Írisar er Haraldur Árni Hróðmarsson knattspyrnuþjálfari. Sonur þeirra er Hjálmar Þór f. 2020 en fyrir átti Íris þá Loga f. 2005 og Leo f. 2010. Íris Dögg hefur undanfarin ár starfað sem flugfreyja hjá Icelandair og líkar vel.
„Árið 2015 hvatti Lára vinkona mín mig til að sækja um sumarstarf hjá Icelandair. Ég lét tilleiðast og verð alltaf þakklát fyrir það því eftir fyrsta sumarið fann ég að mig langaði til að halda áfram og ég kvaddi því FMOS með trega.
Ég elska flugið og samstarfsfólk mitt, þetta er lifandi starf og enginn dagur er eins. Það er ákveðin liðsheild sem myndast um borð og það er gott að vinna á þannig vinnustað.“

Bíllinn kom á miklum hraða
Í apríl 2022 var Íris að koma heim úr flugi frá Stokkhólmi þegar keyrt var á bíl hennar við hringtorg í Mosfellsbæ. Hún var kyrrstæð þegar pallbíll kom á miklum hraða og keyrði aftan á hana. Íris missti meðvitund og var flutt á sjúkrahús með áverka á höfði. Viku eftir slysið var hún lögð inn á gjörgæslu þar sem hún lá í fimm daga. Íris er enn að glíma við eftirköstin en segist aldrei hafa misst trúna á að hún myndi ná fullum bata.
„Í dag er ég í 50% starfi hjá Icelandair og stjórnendur þar hafa reynst mér vel. Ég starfa einnig sem jógakennari en ég leiði námskeið hjá GoMove og Mjölni. Árið 2020 setti ég á stofn mitt eigið verkefni sem ég kalla irisyogablisss, þar blanda ég saman jóga og útivist með það að markmiði að hjálpa fólki við að bæta heilsu og vellíðan. Ég hef líka verið með svokallaðar hleðsluhelgar á hótelum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu.
Ég veit að ég get gert gagn með því að vinna með fólki, ég treysti á flæðið og karma og ég vil gefa það áfram sem hefur hjálpað mér. Jóga og útivist gripu mig eftir slysið og voru stór þáttur í því að koma mér til heilsu aftur og auðvitað læknar, heilbrigðisstarfsmenn og allt góða fólkið í kringum mig, þetta er ómetanlegt,“ segir Íris að lokum er við kveðjumst.

Þolinmæði Aftureldingar á þrotum

Varmársvæðið í sumar með aðalvöllinn í forgrunni.

Formannafundir Aftureldingar fóru fram á dögunum þar sem formenn allra 11 deilda Aftureldingar hittust og fóru yfir málin.
Mikill órói er meðal Aftureldingarfólks eftir að hafa séð drög að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem tekin hefur verið til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar var settur á laggirnar haustið 2018 um uppbyggingu og nýtingu íþróttamannvirkja að Varmá.
Afturelding hefur nú ákveðið að draga sig úr þessum vettvangi og segir þá vinnu sem þar sé unnin litlu sem engu skila fyrir félagið.

Áskorun til bæjarstjórnar
Formannafundur Aftureldingar skorar á bæjarstjórn að við uppbyggingu að íþróttasvæðinu að Varmá á árinu 2024 verði sú framkvæmd fullkláruð í einum áfanga og til staðar verði bæði knattspyrnuvöllur og frjálsíþróttasvæði við verklok.
Það er að öllu leyti óásættanlegt að ekki eigi að vera til æfingaaðstaða til frjáls­íþróttaiðkunar og með því að bíða með uppbyggingu er Mosfellsbær að stuðla að því að leggja niður starf frjálsíþróttadeildar Aftureldingar, segir í áskoruninni.
Þá skorar Afturelding jafnframt á bæjaryfirvöld að hefja þegar í stað vinnu við að skipuleggja uppbyggingu íþróttasvæðisins að Varmá og fara í hönnun þeirra bygginga sem vitað er að þarf að reisa, þ.e. hönnun þjónustubyggingar og stúku.

Kallað eftir heildarsýn
„Mikill órói hefur verið í mínu kæra félagi, Aftureldingu, síðustu vikur,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar.
„Í langan tíma höfum við kallað eftir heildarsýn og skipulagningu á því hvernig tímalínan á að vera varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja að Varmá.
Það er sannarlega verið að setja 700 milljónir í framkvæmdir á árinu 2024 og fögnum við því sannarlega. En við fögnum því alls ekki að verið sé að taka alveg aðstöðuna af einni deild og óbeint verið að leggja niður frjálsíþróttadeild félagsins.
Ég brenn fyrir því að sjá félagið mitt blómstra og aðstöðuna batna en viðurkenni að það er nett bugun í gangi en saman komumst við vonandi áfram,“ segir Birna Kristín.

Uppsöfnuð uppbyggingarþörf
Eftir holskeflu neikvæðrar umræðu á samfélagsmiðlum á dögunum sá meirihlutinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar sig knúinn til að svara.
„Eftir kosningar í maí 2022 voru miklar væntingar bundnar við að nýr meirihluti hæfi umtalsverða uppbyggingu að Varmá enda var mikil uppsöfnuð uppbyggingarþörf á svæðinu,“ skrifar Halla Karen formaður bæjarráðs.
„Á síðastliðnu eina og hálfa ári hefur gervigrasvöllurinn verið endurnýjaður að fullu og settur upp vökvunarbúnaður. Þá fékk Afturelding afhenta styrktaraðstöðu sem óskað hefur verið eftir í fjöldamörg ár og eins hefur félagið fengið aukið fjármagn til þess m.a. að mæta auknum kostnaði við starfsmannahald.
Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir tæpum milljarði í framkvæmdir, þ.á m. að aðalvöllurinn verði endurgerður að fullu auk þess sem í þriggja ára fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir bæði þjónustubyggingu og stúkubyggingu við aðalvöllinn.
Við erum með stórhuga hugmyndir um framtíð Varmársvæðisins og teljum mikilvægt að horfa á svæðið í heild og horfa til framtíðar en bæta ekki við enn einum bútnum í bútasauminn.“

Gert ráð fyrir rekstrarafgangi í fyrsta skipti frá árinu 2019

Leikskóli í Helgafellshverfi í uppbyggingu.

Fjár­hags­áætl­un Mos­fells­bæj­ar var lögð fram til fyrri um­ræðu í bæj­ar­stjórn þann 8. nóv­em­ber og er lögð áhersla á ábyrg­an rekst­ur og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu inn­viða, hátt þjón­ustu­stig og lág gjöld til barna­fjöl­skyldna.

Þjón­usta við börn og fjöl­skyld­ur
Í fjár­hags­áætl­un árs­ins 2024 er gert ráð fyr­ir því að Mos­fells­bær verði áfram með lægstu gjöld­in í leik­skól­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu en í dag greiða for­eldr­ar 28.284 kr. fyr­ir átta tíma vist­un með fæði.
Bær­inn mun enn frem­ur greiða nið­ur dag­vist­un hjá dag­for­eldr­um þannig að for­eldr­ar greiði jafn­hátt gjald hjá dag­for­eldr­um og á leik­skól­um til að jafna að­stæð­ur barna. Þá er gert ráð fyr­ir að börn fædd 1. ág­úst 2023 eða fyrr kom­ist inn í leik­skóla haust­ið 2024.
Áhersla verð­ur á far­sæld barna og að styrkja Mos­fells­bæ enn frek­ar sem Barn­vænt sveit­ar­fé­lag. Þá verð­ur sett­ur auk­inn kraft­ur í inn­leið­ingu á nýrri mennta­stefnu og efl­ingu upp­lýs­inga­tækni í skól­um.

Þjónusta við íbúa sett í forgang
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra verður þjónusta við íbúa Mosfellsbæjar sett í forgang með aukn­um fjár­fest­ing­um í sta­f­rænni umbreyt­ingu í stjórn­sýslunni.
Þá verður fjárfest fyrir um 4,9 milljarða brúttó og ber hæst bygging leikskóla í Helgafellshverfi, uppbygging aðalvallar að Varmá og gatnagerð og veituframkvæmdir við athafnasvæði við Blikastaði.
„Við verðum samt að hafa í huga að áætlunin getur breyst á milli umræðna en við erum núna komin með uppfærða verðbólguspá frá Hagstofunni sem við verðum að taka mið af við aðra umræðu sem verður 6. desember,“ segir Regína.

 

HELSTU TÖLUR

  • Heild­ar­tekj­ur eru áætl­að­ar 21.476 m.kr. og þar af eru áætl­að­ar út­svar­s­tekj­ur 11.424 m.kr.
  • Tekj­ur af bygg­inga­rétti áætl­að­ar 600 m.kr.
  • Ný­fram­kvæmd­ir árs­ins 2024 eru áætl­að­ar 4,9 millj­arð­ar kr. brúttó.
  • Af­gang­ur verð­ur af rekstri A- og B hluta, 945 m.kr. þrátt fyr­ir hátt fjár­fest­ing­arstig.
  • Veltu­fé frá rekstri verð­ur já­kvætt um 2.097 m.kr. eða um 10% af heild­ar­tekj­um.
  • Álagn­ing­ar­hlut­fall fast­eigna­skatts A lækk­ar til að koma til móts við hækk­un fast­eigna­mats svo hækk­un verði ekki um­fram verð­lag.
  • Álagn­ingar­pró­senta fast­eigna­skatts at­vinnu­hús­næð­is lækk­ar.
  • Gert er ráð fyr­ir að álagn­ing­ar­hlut­fall út­svars verði óbreytt eða 14,74% í sam­ræmi við lög­bundna heim­ild sveit­ar­fé­laga.
  • Hækk­un á gjald­skrám verð­ur til sam­ræm­is við breyt­ing­ar á verð­lagi.
  • Gert er ráð fyr­ir að íbú­ar verði um 13.753 í byrj­un árs 2024 og er ætl­uð íbúa­fjölg­un 2,6%.
  • Út­komu­spá 2023 ger­ir ráð fyr­ir rekstr­araf­gangi í fyrsta skipti síð­an 2019.

Minna er meira

Ég kynntist Steve Maxwell í Danmörku fyrir rúmum 17 árum á þriggja daga námskeiði fyrir ketilbjölluþjálfara. Hann var einn af aðaþjálfurunum og stóð heldur betur undir væntingum, frábær þjálfari og fyrir utan æfingasalinn skemmtilegur og lifandi karakter sem hefur gert og upplifað margt í tengslum við íþróttir, æfingar og lífið sjálft. Við mynduðum sterk tengsl þarna í Kaupmannahöfn og grunn að vináttu sem hefur haldist síðan.

Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast við Steve er að hann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að læra meira, bæði um æfingar og svo annað sem hann áhuga á. Hann er ekki fastur í einni aðferðafræði, prófar sig áfram, fer á námskeið hjá öðrum, les mikið og horfir á viðtöl við þá sem honum finnst vera að gera áhugaverða hluti og ná árangri með þá. Steve fylgist ekki bara með því sem er að gerast í dag, heldur stúderar líka það sem gömlu meistararnir lögðu áherslu á.

Steve er mín helsta þjálfarafyrirmynd og hefur alltaf verið. Hann leggur í dag mikla áherslu á hvíld og endurheimt. Styrktaræfingar sem hann setur sínu fólki fyrir eru stuttar, einfaldar en mjög krefjandi. Ein styrktaræfing á viku er nóg. Minna er meira, ef við hlustum á skilaboð líkamans og förum eftir þeim.

Eftir margra ára hlé er ég aftur kominn í einkaþjálfun hjá gamla meistaranum. Fyrstu vikurnar eru að baki, en við erum að vinna að ákveðnu langtímamarkmiði. Styrkur, liðleiki, þol, tækni, næring, hvíld, öndun og ýmislegt fleira kemur við sögu í þjálfuninni og eins og alltaf þegar ég er í miklu sambandi við Steve er ég að læra eitthvað nýtt alla daga.

Þann dag sem við höldum að við kunnum og vitum allt, byrjar að fjara undan okkur. Höldum áfram að vilja læra og fræðast, það er lykill að betra lífi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. nóvember 2023

Blómsveigur lagður að minnisvarða um Ólafíu Jóhannsdóttur

Sunnudaginn 22. október var haldin guðsþjónusta í Lágafellskirkju í tilefni af því að 160 ár eru frá því að Ólafía Jóhannsdóttir fæddist að Mosfelli.
Hún beitti sér fyrir stofnun Hins íslenska kvenfélags 1894 og Hvítabandsins 1895. Hvatti til stofnunar Háskóla Íslands og helgaði líf sitt líknarmálum.
Eftir guðsþjónustuna var haldið að Mosfelli og lagður blómsveigur að minnsvarða Ólafíu. Það voru Félagsráðgjafafélag Íslands, Hvítabandið og Kvenréttindafélag Íslands sem stóðu fyrir því að heiðra minningu þessarar merkiskonu og frumkvöðuls á þessum tímamótum.
Í guðsþjónustunni talaði Dr. Sigrún Júlíusdóttir um Ólafíu og það sem einkenndi mannúðarstörf hennar. Sr. Henning Emil Magnússon þjónaði. Kór Lágafellssóknar söng undir stjórn Árna Heiðars Karlssonar organista. Oddný Sigrún Magnúsdóttir var fulltrúi Lágafellssóknar þegar kom að því að leggja blómsveiginn að minnismerki Ólafíu.

Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga

Haukur Skúlason hefur starfað á fjármálamarkaði síðan 2005, í dag er hann framkvæmdastjóri Indó sparisjóðs og annar stofnenda hans. Samhliða störfum sínum hefur Haukur kennt fjölmörg námskeið á sviði fjármála, rekstrar og nýsköpunar.
Indó sparisjóður hóf starfsemi 30. janúar 2023. Starfsemin sker sig frá íslensku bönkunum með því að búa til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.

Haukur fæddist í Reykjavík 19. janúar 1974. Foreldrar hans eru þau Kristín Hauksdóttir gjaldkeri og Skúli Sigurðsson lögfræðingur en hann lést árið 1996.
Haukur á tvo bræður, Skúla f. 1977 og Sigurð f. 1981.

Endalaus uppspretta ævintýra
„Ég er alinn upp í Vesturbæ Reykjavíkur, á Melunum og í Skerjafirði og það var alveg frábært að alast upp á báðum þessum stöðum. Skerjafjörðurinn var afar skemmtilegur, mikið ævintýraland enda nýbyggð hús og húsagrunnar endalaus uppspretta ævintýra, ekki skemmir fyrir að konan mín ólst upp í sömu götu. Þarna var líka mikil bryggja sem notuð var af Skeljungi á sínum tíma til að dæla olíu af skipum á tanka, það var afar vinsælt að stelast þangað með veiðistöng í hönd og renna fyrir ufsa og marhnút.
Pabbi var duglegur að taka mig með sér á golfvöllinn á mínum yngri árum, við spiluðum saman á Nesvellinum sama hvernig viðraði. Þessi æskuminning er klárlega sú sem stendur upp úr,“ segir Haukur og brosir.

Byrjaði ungur að vinna
„Ég gekk í Mela- og Hagaskóla og var 5 ára þegar ég fór í fyrsta bekk og var því á undan í skóla. Maður fékk nú stundum að heyra það að maður væri yngri en bekkjarfélagarnir. Mér fannst almennt gaman í skólanum, gekk vel í námi og það fór lítið fyrir mér á þessum árum.
Ég byrjaði mjög snemma að vinna með skólagöngunni, frá 8 ára aldri bar ég út blöð en þegar ég var 12 ára þá starfaði ég sem sendill hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég fór í bæjarvinnuna á sumrin og svo starfaði ég tvö sumur hjá Vínbúðinni. Þegar í framhaldsskóla var komið þá starfaði ég sem einkaþjálfari.“

Leiðir okkar lágu saman aftur
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Verzlunarskóla Íslands og eftir fjórða bekk þá fór ég í máladeild, sem var alveg frábært. Þar kenndi mér Árni Hermannsson latínukennari sem allir Verzlingar þekkja af góðu einu, hann hafði mikil áhrif á mig í náminu. Svo skemmtilega vildi til að mörgum árum síðar lágu leiðir okkar saman aftur en hann er í dag tengdafaðir minn og yndislegur afi barnanna okkar.“

Hef mikið dálæti á þessari íþrótt
Eiginkona Hauks er Elísabet Árnadóttir áhættustjóri hjá AtNorth. Börnin eru sex, Hlynur Hólm f. 1997, Skúli Hólm f. 2001, Agnes Kristín f. 2009, Alexander Atli f. 2009, Árni f. 2017 og Axel f. 2019. Haukur er nýorðinn afi og segist eiga fallegustu afastelpu sem hægt sé að hugsa sér en hún heitir Hilma Lóa.
„Við Elísabet eigum sumarbústað með vinafólki okkar og þangað reynum við fjölskyldan að skella okkur um helgar. Annars erum við að komast á þá skoðun að oft sé bara best að vera heima við og dandalast, gera sem minnst.
Ég er að að þjálfa Taekwondo hjá Aftureldingu og það er íþrótt sem ég hef mikið dálæti á og hef náð að draga meirihluta barna minna í það sport. Konan mín er aftur á móti dugleg í golfinu og við reynum að skjótast saman í það af og til.“

Öðlaðist mikla starfsreynslu
Haukur hóf störf hjá Íslandsbanka árið 2005 eftir að hafa lokið MBA námi í Bandaríkjunum en hann er einnig með BA í enskum bókmenntum og BSc í viðskiptafræði. Í bankanum öðlaðist hann mikla og verðmæta starfsreynslu bæði með því að fara á milli ólíkra deilda innan bankans og vinna að ótrúlega fjölbreyttum verkefnum.
„Ég hætti hjá Íslandsbanka 2014 því mér fannst útséð um að bankarnir myndu eiga frumkvæði að því að breyta nálgun sinni gagnvart neytendum. Ég gerðist fjármálastjóri Netgíró og starfaði þar í 18 mánuði en ákvað svo að taka mér verðskuldað fæðingarorlof með Árna mínum.“

Þetta þótti algjört glapræði
„Í fæðingarorlofinu fæddist sú hugmynd að stofna Indó, það þótti auðvitað algjört glapræði að ætla að stofna nýjan banka sem reyndist svo vera sparisjóður. Æskufélagi minn, Tryggvi Björn Davíðsson, gekk til liðs við mig en við höfum báðir töluverða reynslu af bankastarfsemi. Það sem dreif okkur áfram var sannfæringin fyrir því að bankaþjónusta á Íslandi þyrfti ekki að vera svona dýr, ópersónuleg og ógagnsæ.
Indó hóf starfsemi 30. janúar 2023 og við ætlum okkur að gera hlutina öðruvísi en bankar. Við ætlum að tala mannamál en ekki bankamál,“ segir Haukur ákveðinn á svip. „Við þekkjum öll þessi endalausu gjöld sem við þurfum að borga fyrir allt í bönkunum og svo þessi föstu gjöld sem fólk bara áttar sig jafnvel aldrei almennilega á. Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga.“

Í krafti einfaldleikans
En hvernig getur Indó boðið betri kjör en bankarnir? „Í krafti einfaldleikans, við erum ekki að byggja upp gríðarlegan kostnaðarstrúktur heldur vitum við nákvæmlega hvað við viljum gera og hvað það kostar. Við búum til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.
Í dag erum við komin með 43 þúsund viðskiptavini og erum komin með alvöru markaðshlutdeild í kortaveltu, debetkortum og sparireikningum og það sannar að fólk er með okkur í liði. Hjá okkur er enginn feluleikur og ekkert bull, þetta er okkar leið til að gera heiminn betri.“

Þekking á ólíkum sviðum
„Það er auðvitað að mörgu að huga við að koma jafn flóknu fyrirtæki á legg því þekking á ólíkum sviðum þarf að koma saman eins og á markaðssetningu, regluumhverfinu, fjármálamörkuðum og kerfisinnviðum. Það er alveg ótrúlega gefandi að sjá hversu vel því hefur vegnað og því þökkum við fyrst og fremst því frábæra fólki sem starfar með okkur sem er hvert og eitt framúrskarandi á sínu sviði.
Framtíð Indó er í höndum viðskiptavinanna, við viljum að þeir séu ánægðir og að þeir geti treyst okkur. Okkar hlutverk er að halda okkar markmiðum og hlusta á hvað viðskiptavinir okkar vilja og það höfum við sannarlega gert,“ segir Haukur og brosir er við kveðjumst.

Hreppaskjöldurinn í Miðdal

Ólöf Ósk og Hafþór í Miðdal ásamt börnunum Agnesi Heiðu og Guðmundi Ara og hrútnum Ægi.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram 12. október í aftakaveðri. Þrátt fyrir það var metmæting en sýningin fór fram á Kiðafelli og voru þar veitt verðlaun fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt.
Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Þá fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.
Sigursælir voru hrútarnir frá Miðdal og var það hrúturinn Ægir sem tryggði hreppaskjöldinn eftirsótta.

Hyrndir lambhrútar: 1. sæti Miðdalur, 2. sæti Kiðafell og 3. sæti Kiðafell.
Kollóttir lambhrútar: 1. sæti Miðdalur, 2. sæti Kiðafell og 3. sæti Miðdalur.
Veturgamlir hrútar: 1. sæti Ægir frá Miðdal, 2. sæti Hrútur frá Stíflisdal og 3. sæti Hrútur frá Flekkudal.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlýtur Íslensku menntaverðlaunin

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlaut í vikunni Íslensku menntaverðlaunin í flokknum „Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur“ við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. FMOS fékk verðlaunin fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluaðferða og leiðsagnarnáms.
Leiðsagnarnámið er hornsteinninn í kennsluaðferðum skólans en það hefur verið að ryðja sér rúms í sífellt fleiri framhaldsskólum. Í leiðsagnarnámi eru nemendur virkir þátttakendur í námi sínu og tileinka sér námsefnið með því að vinna margbreytileg verkefni undir leiðsögn kennara.
Í leiðsagnarnáminu er ábyrgðin sett á nemendur sem þurfa að vinna jafnt og þétt yfir önnina og taka framförum með umsögnum og leiðbeiningum sem kennarar veita fyrir verkefnin í stað einkunna. Engin stór lokapróf eru í neinum áfanga og það má benda á að Harvard háskóli í Bandaríkjunum hefur sömu stefnu.

Skýr sýn varðandi hugmyndafræðina
En hvers vegna hefur gengið svona vel að þróa leiðsagnarnám í FMOS?
„Það eru margir þættir sem koma til; Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrsti skólameistari skólans hafði skýra sýn varðandi hugmyndafræðina sem hún vildi að skólinn starfaði eftir,“ segir Valgarð Már Jakobsson núverandi skólameistari. „Hún leiddi kennarahópinn áfram sem síðan hefur verið ötull við að þróa þessar kennsluaðferðir.
Einnig má nefna að skólinn var stofnaður í miðri bankakreppu, haustið 2009, og það voru tugir umsækjenda um hverja kennarastöðu sem var auglýst og hægt var að ráða kennara sem voru tilbúnir að kenna samkvæmt hugmyndafræðinni.
Samfara stækkun skólans hefur kennurum fjölgað og hugmyndafræðin alltaf verið höfð að leiðarljósi við ráðningu kennara.“

Eitt glæsilegasta skólahúsnæði landsins
„Fyrstu árin var skólinn til húsa í Brúarlandi sem allir bæjarbúar þekkja. Á meðan skólinn sleit barnsskónum í gamla barnaskólanum þá vorum við þátttakendur í að hanna framtíðarhúsnæði skólans.
Nýja byggingin er sérhönnuð utan um hugmyndafræðina okkar. Sambland af stórum og litlum kennslustofum og opnum vinnurýmum gefur okkur færi á að hafa mikla fjölbreytni í verkefnavinnu og allir geta fundið vinnuaðstæður við hæfi.
Búnaður og skipulag er til fyrirmyndar og við höldum því fram að við séum að kenna í einhverju glæsilegasta skólahúsnæði landsins og þótt víðar væri leitað.
Allt er úthugsað og þar með talið okkar frábæra mötuneyti þar sem hollur og góður matur er í boði á hverjum degi fyrir nemendur og starfsfólk.
Erlendir gestir sem heimsækja okkur dauðöfunda okkur af byggingunni og í hverri heimsókn er einhver sem spyr hvort við séum ekki að leita að fólki.“

Skapandi og framsæknir kennarar
„Síðustu ár hafa kennarar skólans kynnt hugmyndafræði skólans víða. Þeir hafa haldið námskeið og vinnustofur í leiðsagnarnámsfræðum og mikið er leitast við að fá að heimsækja okkur til þess að fræðast um það sem við erum að gera.
Síðasta vetur héldum við stóra ráðstefnu um leiðsagnarnám með þátttöku kennara og starfsfólks frá yfir 20 skólum víðs vegar að á landinu.
Þeir gestir sem koma hingað taka líka fljótt eftir þeirri einstöku stemningu sem er hérna. Gjarnan er talað um hinar geggjuðu vinnuaðstæður en fólk tekur líka eftir því hversu afslappað andrúmsloft er hér innanhúss og hversu áreynslulaus samskiptin eru milli nemenda og kennara.
Þessi verðlaun eru okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut. Til hamingju, kennarar í FMOS, sem hafa frá byrjun verið ótrúlega skapandi og framsæknir. Þessi verðlaun tilheyra ykkur fyrst og fremst. En mig langar líka að óska Mosfellingum til hamingju með að vera með stórkostlegan framhaldsskóla í heimabyggð.“

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) var stofnaður haustið 2009 og er yngsti framhaldsskólinn á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni eru Guðni Th. Jóhannesson, Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrrum skólameistari, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Valgarð Már Jakobsson skólameistari og Inga Þóra Ingadóttir áfangastjóri.

Sunnudagsmorgnar

Klukkan níu á sunnudagsmorgnum er hinn rúmlega tveggja ára Alexander Emil kominn í Real Madrid búninginn sinn. Um tíu næ ég í hann og við drífum okkur út í íþróttahús. Stundum kemur amma hans með, stundum frændur.

Það eru nokkur atriði varðandi fjölskyldutímana á sunnudagsmorgnum að Varmá sem ég er sérstaklega hrifinn af. Í fyrsta lagi eru þessir tímar ókeypis fyrir fjölskyldur með börn, í öðru lagi þarf ekki að skrá sig sérstaklega í þá og í þriðja lagi snúast þeir um frelsi innan ramma.

Ljúfmennin Þorbjörg, Árni Freyr, Ólafur Snorri og Íris Dögg, sem sjá um þessa tíma, raða upp fjölbreyttum búnaði og boltum og krakkarnir og við sem fylgjum þeim getum skoppað frjáls á milli og prófað alls konar hreyfingu.

Minn maður byrjar alltaf á því að hlaupa út í rimlana, klifrar upp í topp og kíkir yfir salinn. Klifrar svo til hliðar, eins langt og hann kemst. Hann er hrifnastur af rimlunum undir skortöflunni, bak við hlífðarnetið. Svo nær hann sér í bolta og hleypur með hann út um allan sal. Prófar aðeins bandýkylfurnar. Klifrar upp á hestinn og stekkur í mjúku dýnuna. Fær afa til að lyfta sér upp svo hann geti troðið í körfuna. Finnur mark og sparkar fótbolta í það – sorrý Elísa … Hleypur meira, finnst gaman að láta elta sig. Fer aftur í rimlana, þeir eru uppáhaldið. Svona rúllum við í um það bil 45 mínútur, þá er hann orðinn góður. Hann stýrir ferðinni, ég laumast til að sýna honum nýjar þrautir sem hann prófar og metur. Svo röltum við upp í stúkuna í sal 3. Honum finnst gaman að príla niður og upp háu tröppurnar og reynir að stelast til að klifra upp handriðið líka. Þetta er frábær samverustund hjá okkur, styttist í að litli bróðir hans geti farið að koma með. Takk fyrir okkur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2023

Gefur út Löngu horfin spor

Mosfellingurinn Guðjón Jensson hefur gefið út skáldsöguna Löngu horfin spor. Guðjón, sem er bókfræðingur, leiðsögumaður og rithöfundur, hefur lengi fengist við ritstörf, einkum greinaskrif í blöð og tímarit.
„Ég hef undanfarin 10 ár fengist við rannsókanvinnu og ritun á þessu skáldverki sem byggt er á sögu og örlögum Carls Reichsteins sem var Þjóðverji og kom hingað til lands árið 1937 undir því yfirskini að kenna Íslendingum svifflug. En í raun var hann sendur hingað til lands af SS sveitum þýska nasistaflokksins til að stunda hér njósnir,“ segir Guðjón sem í bókinni gerir einnig þjóðlífinu í Reykjavík á þessum tíma góð skil.

Umfangsmiklar rannsóknir
Sagan byggir á umfangsmiklum rannsóknum á lífi Reichsteins á Íslandi en hann lést á dularfullan hátt tæpu ári eftir komu sína til landsins. Andlát hans var aldrei rannsakað til hlítar en ótal margar spurningar vakna við lesturinn. Hvað var gyðingur að gera í SS-sveitum Hitlers? Var hann sendur hingað á vegum nasista til njósna á Íslandi? Var Carl Reichstein myrtur af útsendurum nasista?
Á einhverjum tímapunkti hefur þessi ungi maður sem fæddur var 1909 í borginni Gelsenhausen í Ruhrhéraði tekið þá umdeildu ákvörðun að ganga í SS-sveitir Nasista. Líklega hefur hann bundið þá ákvörðun einhverjum forsendum en líklega var þetta ekki rétt ákvörðun. Með komu sinni til Íslands eru gerðar væntingar til hans að afla upplýsinga á Íslandi í þágu nasista en hann mun vera einn fyrsti SS-maðurinn sem starfaði á Íslandi.

Glímdi við krabbamein á ritunartímanum
„Á meðan á ritunartímanum stóð gekk á ýmsu í mínu lífi, ég glímdi við krabbamein og að komast fyrir það. Þann tíma átti þetta ritverk sinn þátt í að draga athygli mína frá krabbameininu, rannsaka og skrifa um þennan svifflugmann sem hefur verið mér mikil ráðgáta og verðum öðrum líklega einnig við lesturinn.
Skáldverkið er byggt á ítarlegri rannsókn heimilda sem þó eru ekki að fullu rannsakaðar. Í bókinni fjalla ég líka mikið um Reykjavík á þessum tíma, mannlífið og stéttabaráttuna,“ segir Guðjón og bætir við að þessar rannsóknir skilji eftir margar spurningar en einnig nokkrar áhugaverðar niðurstöður. Bókina má nálgast í öllum helstu bókabúðum og hjá höfundi sjálfum.

Vélsmiðjan Sveinn fagnar 30 ára afmæli

Hjónin Ólína og Haraldur við nýja vegglistaverkið.

Vélsmiðjan Sveinn sem staðsett er í Flugumýri 6 heldur upp á 30 ára afmæli um þessar mundir.
Það voru þeir feðgar Haraldur Lúðvíksson og Haraldur V. Haraldsson sem stofnuðu fyrirtækið í lok ágúst 1993. Fyrirtækið sérhæfir sig í allri almennri vélsmíði, stálsmíði, rennismíði, viðgerðum og þessháttar. „Við feðgar störfuðum hér saman þar til árið 2003 en þá féll pabbi frá og skildi mig eftir í súpunni,“ segir Haraldur hlæjandi eða Halli eins og hann er alltaf kallaður.

Redda öllu sem þarf að redda
„Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á þessum 30 árum og það má eiginlega segja að okkar sérstaða er að við reddum öllu. Við erum mjög vel tækjum búnir og verkefnin okkar eru mjög fjölbreytt. Ég er að vinna fyrir mörg stór fyrirtæki, minni fyrirtæki og einstaklinga.
Við erum þekktir fyrir að ganga í öll verk og leysa úr málum sem koma upp, ég er oft fengin með á verkfundi til að hanna lausnir og þess háttar, ég er vel tengdur í þessum bransa og með mikið af góðu fólki í kringum mig.
Við erum með frábært starfsfólk en erum jafnframt að leita fleira fólki í vinnu.“ segir Halli en þess má geta að hann hefur hefur einnig starfað mikið erlendis.

Vegglistaverk á girðingu
Vélsmiðjan Sveinn stendur á hornlóð við fjölfarna götu og verkleg girðing er í kringum fyrirtækið. Margir Mosfellingar hafa sjálfsagt tekið eftir nýlegu listaverki á girðingunni sem lífgar uppá hverfið.
„Eina kvörtunin sem við höfum fengið frá nágrönnum í gegnum tíðina er að þessi veggur eða girðing hafi verið ljót þess vegna langaði okkur að gera eitthvað skemmtilegt. Þessi hugmynd er búin að vera að gerjast með okkur í 5 ár. Ólína konan mín fann svo þenna frábæra listamann hana Kareni Ýr sem sérhæfir sig í vegglist.“

Gjöf okkar til fyrirtækisins
„Við erum rosalega ánægð með útkomuna, hún Karen fékk frjálsar hendur varðandi myndefnið og þótti okkur vænt um hvað hún náði að flétta inn í verkið hlutum sem tengjast okkur eins og tannhjól, manni við járnsmíði og svo fallegri náttúru.
Þetta listaverk er okkar gjöf til fyrirtækisins á 30 ára afmælinu,“ segir Halli að lokum en tekur fram að þau hafa fengið mjög jákvæð viðbröð við listaverkinu bæði frá nágrönnum í kring og öðrum Mosfellingum.