Ég hef svo gaman af þessu öllu

Grínistann og skemmtikraftinn Jóhann Alfreð Kristinsson þarf vart að kynna enda löngu orðinn landsþekktur fyrir sín störf. Hann hefur starfað með uppistandshópnum Mið-Ísland um áratugaskeið, komið að dagskrárgerð, handritaskrifum og leiklist en undanfarin ár hefur hann starfað á Rás 2 auk þess að sinna dómarahlutverki í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna.
Jóhann hefur einnig verið að taka að sér uppistand við hin ýmsu tilefni ásamt því að vera kynnir og veislustjóri á fjölmörgum viðburðum.

Jóhann Alfreð fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1985. Foreldrar hans eru Elín Símonardóttir og Kristinn Halldór Alfreðsson framreiðslumaður.
Jóhann á fjögur hálfsystkini, Áslaugu Rut f. 1978, Margréti f. 1981, Svein Ómar f. 1982 og Ingólf Bjarna f. 1988 en hann lést árið 2017.

Missti varla af leik
„Ég ólst upp í Þingholtunum í 101 Reykjavík og æskuminningar mínar tengjast mikið alls kyns flækingi og bralli um miðbæinn. Ég var forfallinn íþrótta- og kvikmyndafíkill sem barn og hékk mikið í íþróttahúsi Vals þar sem maður á tímabili missti varla af leik.
Ég er af videoleigukynslóðinni og því fylgdi mikið hangs í videoleigunum eins og tíðkaðist á þeim árum, ein gömul og ein ný. Maður var í endalausum rökræðum við afgreiðslumanninn og aðra fastagesti hvaða mynd maður ætti að taka, sem maður horfði svo kannski aldrei á,“ segir Jóhann og brosir.

Sat heillaður yfir tækninni
„Borgarbókasafnið í Þingholtsstræti var eins og félagsmiðstöð fyrir okkur krakkana og þar gat maður týnt sér dögum saman. Það var mikil bylting þegar tölva mætti á svæðið þar sem hægt var að leita eftir titlum. Við tepptum gjörsamlega þessa tölvu og maður sat þarna heillaður yfir tækninni og leitaði eftir öllum ævintýrabókunum.
Í grenndinni voru líka ágæt svæði eins og Hallargarðurinn og Hljómskálagarðurinn sem við höfðum gaman af að týna okkur í, svo var auðvitað flakkað á milli húsa til vina og kunningja.“

Fengu heitan mat í hádeginu
„Ég gekk í Miðskólann sem var grunnskóli á miðstigi í gamla Miðbæjarskólanum. Það var um margt einstakur skóli, hann var framsækinn því það var alltaf verið að gera einhverjar tilraunir á skólastarfinu sem þekktust ekki þá en flestir þekkja í dag. Við fengum til dæmis fyrst skólabarna í Reykjavík heitan mat í hádeginu.
Á sumrin var maður í þessu hefðbundna bralli en ég var líka duglegur að sækja sumarbúðir, fór árlega í Vatnaskóg en frændi minn og uppeldisbróðir var foringi þar. Ég var farinn að vinna þar á táningsaldri. Ég fór líka norður í land í sumarbúðirnar Ástjörn, rétt við Ásbyrgi í Kelduhverfi sem er alveg einstaklega fallegur staður.
Bróðir pabba rak veitingasöluna og lúgusjoppuna við BSÍ í Vatnsmýrinni, ég var farinn að ganga vaktir þar strax sumarið eftir gaggó. Um haustið hóf ég svo nám í Menntaskólanum í Reykjavík.
Eftir útskrift úr MR lá leið mín í Háskóla Íslands í lögfræði sem maður fer í þegar maður er kannski ekki alveg viss með framtíðarplönin,“ segir Jói og glottir. „Mér féll námið vel, kláraði meistaragráðuna en hef ekki starfað sem lögfræðingur, einhvern veginn togaðist maður í aðrar áttir.“

Kíkja reglulega á bókasafnið
Unnusta Jóhanns Alfreðs er Valdís Magnúsdóttir hagfræðingur og endurskoðandi, hún starfar hjá Íslensku útflutningsmiðstöðinni. Þau eiga tvö börn, Benedikt Elí f. 2017 og Ellý f. 2021.
„Við fjölskyldan erum dugleg að fara í göngutúra og sækja leikvelli í nágrenninu en við búum í Leirvogstungunni,“ segir Jóhann. „Við kíkjum líka reglulega á bókasafnið hér í bænum sem er mjög skemmti­legt og eins skreppum við til höfuð­borgarinnar og fáum okkur bita í miðbæ Reykjavíkur og endum jafnvel daginn á að fara í sund.
Ferðalög hér heima og erlendis eru alltaf ofarlega á baugi hjá okkur eða þegar tækifærin gefast. Við fjölskyldan erum til að mynda spennt fyrir komandi sumri því við erum búin að ganga frá húsaskiptum við fjölskyldu í Atlanta. Ég er í svona andlegum undirbúningi fyrir ferðina því það getur orðið ansi heitt þarna í Suðurríkjunum.“

Á kafi í handritaskrifum
Jóhann Alfreð hefur unnið ýmis störf í gegnum tíðina, afgreiðslustörf, auglýsingasölu, hjá Amnesty á Íslandi, fyrir kvikmyndahátíðina RIFF í nokkur ár og við ýmis verkefni tengd auglýsingum, skrifum og leiklist. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá RÚV við dagskrárgerð og í kynningarmálum. Jóhann hefur einnig starfað sjálfstætt sem skemmtikraftur og uppistandari um árabil. Hann er þaulvanur veislustjóri og kynnir og hefur starfað sem slíkur á fjölmörgum viðburðum síðustu ár.
„Áhugamál mín tengjast mörg vinnunni minni, ég er á kafi í þáttagerð og handritaskrifum þessa dagana og sökkvi mér í ýmislegt sjónvarpsefni og kvikmyndir því tengdu. Ég er svolítið nörd, hef gaman af öllu grúski og svo er ég annálaður íþróttafíkill eins og komið hefur fram, það er varla til sú íþrótt sem ég hef ekki stúderað.“

Við slógum báðir til
Ég spyr Jóhann hvernig uppistandið hafi komið til? „Það kom nú óvænt inn í líf mitt, þannig var að Bergur Ebbi, sem síðar varð kollegi minn í Mið-Íslandi, hafði samband við mig og Ara Eldjárn. Hann hafði prufað að standa fyrir uppistandskvöldi með Dóra DNA og vildi stækka næsta kvöld. Við Ari höfðum verið að leika okkur að gera sketsa og bralla eitthvað grínefni sem að mestu var ofan í skúffu en við slógum báðir til. Þetta var vorið 2009 og á þessum tíma hafði uppistand að mestu legið í láginni á Íslandi í nokkur ár.
Svona uppistandskvöld eru að erlendri klúbbafyrirmynd, þar sem nokkrir grínistar koma fram á sama kvöldi með einum kynni, þetta var nánast óþekkt. Við komum fimm fram þetta kvöld, þetta var skömmu eftir fjármálahrunið og maður fann að eftir ofboðslegan þungan vetur voru margir innstilltir í að hlæja og heyra gert svolítið grín að öllu ástandinu. Bergur Ebbi kom með tillögu að nafninu Mið-Ísland og þá má segja að örlögin hafi verið ráðin, hópurinn sýndi um 500 sýningar á næstu tíu árum. Samhliða uppistandinu fór maður að skemmta í samkvæmum, árshátíðum og öðrum hátíðum.
Fram undan hjá mér núna eru sýningar á uppistandssýningunni Púðursykur sem við höfum verið með og gaman að segja frá því að við verðum með sýningu í Hlégarði 24. apríl og svo taka við ýmis önnur verkefni. Ég verð á flandri með Rás 2 í sumar og svo er ég að vinna að heimildaþáttaröð um bandarískt körfuboltafólk sem vonandi kemur út fyrir jólin á Stöð 2. Ég hef ótrúlega gaman af þessu öllu saman,“ segir Jóhann Alfreð og brosir er við kveðjumst.