Píratar setja niður akkeri í Mosfellsbæ

Stjórn Pírata í Mosfellsbæ: Kristján Ingi, Einar Bogi og Sigrún.

Stjórn Pírata í Mosfellsbæ: Kristján Ingi, Einar Bogi og Sigrún.

Nýtt aðildarfélag Pírata í Mosfellsbæ var stofnað í Bókasafni Mosfellsbæjar síðastliðinn laugardag. Fundurinn var afar vel sóttur en 25-30 manns tóku þátt.
Kosin var þriggja manna stjórn félagsins og lög hins nýstofnaða aðildarfélags samþykkt. Stjórnarmenn voru kjörnir, þau Sigrún Guðmundsdóttir, Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson.
Boðað hefur verið til fyrsta stjórnarfundar en fyrsta verkefni stjórnar er að skipta með sér verkum og boða til almenns félagsfundar sem tekur afstöðu til framboðsmála Pírata í bæjarfélaginu.

Píratar á mikilli siglingu
„Stofnun Pírata í Mosfellsbæ er enn eitt dæmið um þá miklu siglingu sem Píratar eru á,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, við fundargesti. „Við getum verið stolt af hreyfingunni okkar. Píratar eru komnir til að vera,“ bætti hún við. Þórhildur Sunna er uppalin í Mosfellsbæ þar sem foreldrar hennar búa. „Hingað á ég rætur að rekja. Hér búa foreldrar mínir og hingað kem ég oft eftir langa þingdaga og nýt þeirrar lukku að eyða tíma í fangi fjölskyldunnar í fallegu umhverfi.“

Samstarf í komandi kosningum
Fundurinn fékk góða gesti frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ en fulltrúar hreyfingarinnar hafa þegar hafið samtal við Pírata um samstarf í komandi kosningabaráttu. Hjördís Bjartmars Arnardóttir, formaður Íbúahreyfingarinnar, sagðist á fundinum spennt fyrir nýju blóði í stjórnmál Mosfellsbæjar.

—–

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Stefnt að sameiginlegum fléttulista
Sigrún Pálsdóttir bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar segir að hafnar séu viðræður við Pírata um fléttulista. „Við mættum á fund Pírata um síðustu helgi til að kynna okkur og ræða málin. Ég hugsa að við munum bjóða fram saman og jafnvel með fleirum. Þetta kemur allt í ljós á næstu dögum.
Aðspurð segir Sigrún að Píratar hafi lagt upp með að hún yrði í 1. sæti sameiginlegs framboðs. „Ég og mitt fólk eigum bara eftir að ákveða hvernig það verður. Á milli Íbúahreyfingarinnar og Pírata eru ákveðnir snertifletir. Við leggjum áherslu á gegnsæi, vandaða stjórnsýslu og betra siðgæði í stjórnmálum.
Þá hafa fleiri aðilar haft samband við okkur og við erum opin fyrir samvinnu við aðra íbúa, enda erum við íbúahreyfing.“

Arion banki lokar útibúinu í Mosfellsbæ 10. maí

arionbanki

Á næstu mánuðum verður ráðist í breytingar á útibúaneti Arion banka. Markmiðið er að aðlaga útibúanetið að nýrri nálgun í bankaþjónustu þar sem m.a. er lögð áhersla á aðgengi að stafrænum lausnum og einföldun þjónustu.
Liður í þessum breytingum er að útibúið í Mosfellsbæ sameinast Höfðaútibúi bankans á Bíldshöfða 20. Starfsfólkið hér í Mosfellsbæ mun því flytja sig um set, ýmist í Höfðaútibú eða í önnur störf hjá bankanum.

Sameiningin tekur gildi 10. maí
Höfðaútibúið er eitt af stærstu útibúum bankans, eða svokallaður þjónustukjarni, en þar er áhersla lögð á almenna bankaþjónustu og ráðgjöf sérfræðinga á öllum helstu sviðum fjármála einstaklinga og fyrir­tækja. Aðrir þjónustukjarnar Arion banka eru í Borgartúni, Smáranum í Kópavogi, í Borgarnesi, á Selfossi og Akureyri.
Sameiningin tekur gildi 10. maí en áfram verður alhliða hraðþjónustubanki í Mosfellsbæ þar sem m.a. er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra. Fyrst um sinn verður hann áfram í Þverholti 1, þar sem útibúið hefur verið til húsa, en í framhaldinu fundin ný staðsetning í alfaraleið, nærri verslun og þjónustu.

Fersk á flugvöllum

Heilsumolar_Gaua_15mars

Þessi pistill er skrifaður um borð í WW 903, WOW flugvél á leið frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Við erum sex að ferðast saman, löng helgi í Köben hjá frumburðinum og kærustu hans. Það var freistandi að taka tilboðinu frá WOW (rúmlega fullbókuð vél) um að framlengja dvölina um sólarhring og fá hótel­nótt og farmiða til Bandaríkjanna að auki fyrir, en við Vala kunnum ekki við að senda börnin ein heim… En einhver hefur tekið tilboðinu því sætið við hliðina á mér er tómt.

Mér finnst gaman að fljúga, dotta alltaf í bæði flugtaki og lendingu og næ yfirleitt að hvílast vel. Fæ oft góðar (að mínu mati) hugmyndir á flugi, les, skrifa og vinn mig í gegnum nokkrar suduko þrautir. Ég hef líka gaman af flugvöllum. Sérstaklega þegar ég er að ferðast með mínu fólki. Við tökum alltaf einhverjar keppnir, til dæmis að ganga hratt eða hlaupa meðfram þeim sem eru á rúlluböndunum sem eiga að flýta fyrir en gera það yfirleitt ekki af því að fólk stoppar nánast alltaf á þeim og stendur kyrrt þar til það er komið á enda bandsins. Mér finnst það alltaf jafn undarlegt.

Svo er gott að spila á spil á flugvöllum, Ólsen, Kana eða Þjóf, til dæmis. Það er líka mjög praktískt að labba á flugvöllum. Ná sér í góða hreyfingu í stað þess að sitja eins og klessa í marga klukkutíma. Einhvern tíma fékk ég þá mögnuðu hugmynd að selja flugvöllum þá hugmynd að vera með ketilbjöllur, dýnur og upphífingastangir í afmörkuðum æfingarýmum svo fólk gæti tekið æfingu á meðan það biði eftir fluginu sínu. Líklega hef ég fengið þessa hugmynd í flugi. Mér finnst hún enn góð og kasta henni hér með út í kosmósið fyrir einhvern að stökkva á og framkvæma.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 15. mars 2018

Framkvæmdir hafnar í Bjarkarholti

bjarkarholt2018

Svona munu fjölbýlishúsin líta út sem nú eru í byggingu næst Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Svona munu fjölbýlishúsin líta út sem nú eru í byggingu næst Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Á reitunum á milli Framhaldsskóla Mosfellsbæjar og Krónunnar eru hafnar framkvæmdir við byggingu verslunar- og íbúðarhúsnæðis.
Markmið gildandi deiliskipulags er að þétta og efla miðbæ Mosfellsbæjar. Einnig að móta skjólsæla, þétta og sólríka íbúabyggð auk verslunar og þjónustu og styrkja þannig götumyndina. Svæðið er í hjarta bæjarins og því lögð rík áhersla á metnað og vandaða hönnun við gerð og frágang mannvirkja á svæðinu.

Allt að 105 íbúðir á milli FMOS og Krónunnar
Byggingarnar verða þriggja til fimm hæða háar og verslanir verða á fyrstu hæð á þeim reit sem er næstur Krónunni. Aðrar byggingar á svæðinu verða eingöngu íbúðarhúsnæði og er gert ráð fyrir að unnt verði að byggja allt að 105 íbúðir á þessum þremur reitum í Bjarkarholti.
Framkvæmdir munu standa yfir næstu tvö ár og stefnt verður að því að þeim verði að mestu lokið í árslok 2019.
Samgöngustígurinn meðfram Bjarkarholti mun á meðan framkvæmdir standa sem hæst verða nýttur fyrir bæði gangandi og hjólandi umferð en hann var áður sérgreindur eftir samgöngumáta.
Á næstunni er fyrirhuguð vinna við lagnir í götunni og má því gera ráð fyrir röskun á umferð á því tímabili.

Tómatur selur aukahluti fyrir iPhone-síma

Einar Karl stofnar sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.

Einar Karl stofnar sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.

Einar Karl Sigmarsson er ungur og efnilegur Mosfellingur. Hann er 15 ára nemandi í 10. bekk Lágafellsskóla. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stofnað sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.
„Ég er að selja gæðahulstur fyrir iPhone- síma á mjög góðu verði, ég er með nokkrar týpur og nokkra liti. Þetta byrjaði með því að pabbi minn sem rekur pítsastaðinn Shake&Pizza fór til Dubai. Hann kynntist þar framleiðanda sem framleiðir meðal annars þessi hulstur. Ég fékk svo tækifæri á að hefja viðskipti við hann og hóf innflutning á þessum hulstrum,“ segir Einar Karl.

Frí heimsending í Mosó
„Ætlunin er að auka úrvalið smátt og smátt með ýmsum aukahlutum fyrir síma. Ég hef fengið góð viðbrögð en ég hef aðal­lega verið að kynna fyrirtækið í gegnum Facebook og Instagram. Best er að senda mér pantanir í gegnum Facebook. Hulstrin kosta 1.000 kr. og það er frí heimsending hér í Mosfellsbæ. Hringurinn aftan á hulstrunum er gerður til að geta haldið á símanum með annarri hendi en einnig má nota hann sem stand svo síminn geti staðið á borði.
Ég er búinn að tryggja mér lénið tomatur.is og er að vinna að gerð heimasíðu. Hugmyndin er líka að útbúa Snapchat-reikning og auglýsa þar. Þetta hefur gengið mjög vel en ég fékk fyrstu sendingu í janúar.
Ég er nú þegar búinn að læra helling á þessu, bæði varðandi samskipti við framleiðandann og ýmislegt varðandi innflutning og fleira. Mér finnst gaman að kynnast ferlinu og þetta er góð byrjun ef þig langar í bissneslífið,“ segir Einar Karl sem á greinilega framtíðina fyrir sér í viðskiptalífinu.

Sækir í að vera sem mest á hreyfingu

halldoramosfellingurinn

Halldóra Björnsdóttir íþróttafræðingur telur að hreyfing, hugleiðsla og góð næring sé lykillinn að heilbrigði og hamingju

Í byrjun árs var Halldóra sæmd riddarakrossi við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir framlag sitt til heilsuverndar og lýðheilsu. Hún hefur sinnt margvíslegu fræðslustarfi í gegnum tíðina, flutt erindi víða og talað máli beinverndar í fjölmiðlum.
Áhugamál hennar tengjast íþróttum og heilsu í víðasta skilningi. Hún æfði júdó og fimleika þar til skíðabakterían greip hana heljartökum en hún hefur kennt á skíði bæði hér heima og erlendis. Hjólreiðar eru nýjasta áhugamál Halldóru en hún hjólar til og frá vinnu eins oft og veður leyfir.

Halldóra er fædd í Reykjavík 12. apríl 1961. Foreldrar hennar eru þau Sigríður Jóna Kjartansdóttir fv. skrifstofustjóri og Björn Blöndal Kristmundsson fv. verslunarmaður. Halldóra á tvö systkini, Kjartan Halldór og Kristínu, en Kjartan lést árið 1974.

Fékk að leika sér í áhaldageymslunni
„Ég er alin upp í Sæviðarsundinu og á góðar minningar þaðan. Mamma æfði handbolta þangað til ég varð 8 ára og ég fór oft með henni á æfingar. Ég fékk að leika mér í áhaldageymslunni innan um bogahesta, kistur og alls kyns leikfimisdót. Ég held að grunnurinn að íþróttafræðunum sem ég lærði síðar og varð minn starfsvettvangur hafi orðið til þarna.
Ég sótti í að vera mest á hreyfingu á æskuárunum og hef verið fremur hreyfanleg síðan,“ segir Halldóra og brosir.

Skíðabakterían greip mig heljartökum
Halldóra æfði júdó frá 6-9 ára aldurs og var á þeim tíma sú yngsta sem tekið hafði beltapróf. „Þegar ég var farin að hafa meiri áhuga á að sníkja mér lakkrís í lakkrísgerðinni sem var í sama húsi og júdóæfingarnar þá létu foreldrar mínir mig hætta og ég skipti yfir í fimleika. Fimleikana stundaði ég af miklum áhuga í tvö ár eða þar til skíðabakterían greip mig heljartökum og ég æfði og keppti á skíðum í rúman áratug.“

Kvennaskólaárin voru dásamleg
Ég hóf skólagönguna í Ísaksskóla og þaðan lá leiðin í Langholtsskóla. Ég átti gott með að læra og var bara ánægð með alla kennarana mína. Að loknu barnaskólaprófi fór ég 13 ára gömul í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þaðan gagnfræðaskólanámi. Kvennaskólaárin voru dásamleg, en í skólanum kynntist ég skemmtilegum stelpum og ein þeirra er ein af mínum bestu vinkonum í dag.“

Ógleymanlegt í Kerlingarfjöllum
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Verzlunarskólann og útskrifaðist þaðan 1981. Ég æfði á skíðum öll skólaárin sem náði þó ekki að svala minni skíðafíkn því ég hélt áfram á sumrin og vann þá sem skíðakennari í Kerlingarfjöllum. Þar átti ég ógleymanlegar stundir með yndislegu og skemmtilegu samstarfsfólki.
Ég ákvað að fara til Austurríkis, læra þýsku og taka skíðakennarapróf. Ég kenndi á skíði heilan vetur í austurrísku Ölpunum og hafði sett stefnuna á nám við Íþróttaháskólann í Köln. Áform mín breyttust og fyrr en varði var ég komin hinum megin við Atlantshafið, langleiðina að Kyrrahafinu.“

Í stórbrotnu landslagi Klettafjallana
„Vinkona mín úr Verzló hvatti mig til þess að fylgja sér eftir til Edmonton í Albertafylki í Kanada og þangað fór ég haustið 1982 til þess að læra íþróttafræði. Námsárin urðu fjögur en ég útskrifaðist þaðan sem íþróttafræðingur með áherslu á íþróttir fatlaðra og líkamsþjálfun.
Ég æfði og keppti með skíðaliði skólans og fékk tækifæri til þess að skíða í stórbrotnu landslagi Klettafjallanna.“
Í Edmonton kynntist Halldóra samlanda sínum, Birgi Þór Baldvinssyni, sem sótt hafði þangað í framhaldsnám. Hann varð síðar eiginmaður hennar en hann starfar sem kennari við Klettaskóla. Þau eiga fjögur börn, Kjartan Þór fæddan 1987, Sigríði Þóru fædda 1991, Halldóru Þóru fædda 1993 og Kristínu Þóru fædda 1998. Barnabörnin eru þrjú, Áslaug Ýr, Elías Kári og Una Rán.

Frábær tími á Reykjalundi
„Á háskólaárunum vann ég á sumrin í heilsusporti á Reykjalundi sem var frábær tími. Það var ekki slæmt að fara á hestbak, sigla á Hafravatni, fara í sund og skemmta sér allan daginn.
Eftir að ég kom heim frá Kanada þá fór ég í Háskólann til að ná mér í kennsluréttindi til að geta kennt í grunn- og framhaldsskóla. Ég kenndi leikfimi í Stúdíói Jónínu og Ágústu í nokkur ár og einnig í Heilsurækt Seltjarnarness. Eins kenndi ég á mínu sérsviði íþróttir fatlaðra í Öskjuhlíðarskóla.”

Hjá Ríkisútvarpinu í 30 ár
Árið 1987 tók Halldóra við morgunleikfiminni hjá Ríkisútvarpinu og hefur haft umsjón með henni síðan eða í rúm 30 ár. Morgunleikfimin hefur nú verið á dagsskrá Ríkisútvarpsins í 61 ár en það var Valdimar Örnólfsson sem byrjaði með hana.
„Mér þykir afar vænt um morgunleikfimina og gleðst alltaf innilega þegar fólk hefur samband við mig og segist hafa verið samferða mér á þeim vettvangi.“

Fræðslustarf hjá Beinvernd
„Árið 2000 tók ég að mér framkvæmdastjórn hjá Beinvernd sem er félag áhugafólks um beinþynningu og afleiðingar hennar en þar starfa ég í hálfu starfi. Hjá félaginu hef ég sinnt margvíslegu fræðslustarfi, flutt erindi víða í félögum og stofnunum og talað máli beinverndar.
Ég tel mig hafa verið óþreytandi í því að upplýsa fólk um mikilvægi þess að hreyfa sig fyrir beinin og gæta þess að fá nóg af kalki og D-vítamíni.“

Tók virkan þátt í starfi Aftureldingar
Halldóra fór í jógakennaranám og kenndi m.a. eldri borgurum jóga á Hlaðhömrum í nokkur ár. Enn leitaði hún sér aukinnar menntunar við Háskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum árið 2005. Þaðan lá leið hennar á Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum þar sem hún starfaði á árunum 2005-2008 samhliða starfi sínu hjá Beinvernd. Frá árinu 2008 hefur hún kennt íþróttir við Fjölbrautarskólann í Breiðholti.
„Áhugamál mín tengjast íþróttum og heilsu í víðasta skilningi. Ég tel að hreyfing, hugleiðsla og góð næring sé lykillinn að heilbrigði og hamingju. Ég hef tekið virkan þátt í starfi Aftureldingar, var m.a. í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildarinnar til margra ára og starfaði mikið með meistaraflokki kvenna.“

Heilsan það dýrmætasta sem við eigum
Í byrjun árs var Halldóra sæmd riddarakrossi við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. „Fálkaorðan kom mér verulega á óvart en gladdi mig vissulega. Hún var veitt fyrir störf í þágu heilsuverndar og lýðheilsu og finnst mér afar ánægjulegt að þau málefni skulu vekja slíka athygli enda er heilsan það dýrmætasta sem við eigum.”

Mosfellingurinn 22. febrúar 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Lausn á rekstrarvanda Hamra

hamrarhjúkrunarheimili

Mosfellsbær, velferðarráðuneytið og Hamrar – hjúkrunarheimili hafa komist að samkomulagi um lausn á langvarandi rekstrarvanda heimilisins.
Samkomulagið er forsenda þess að unnt sé að draga til baka uppsögn Mosfellsbæjar á þjónustusamningi við ráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands um rekstur Hamra, sem og uppsögn Hamra ehf. um rekstur heimilisins.
Samkomulagið felur í sér að stækkun hjúkrunarheimilisins hafi forgang við frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu og að undirbúningsvinnu uppbyggingarinnar verði hraðað. Þá verður veitt tímabundin heimild til fjölgunar rýma um þrjú.
Stækkun hjúkrunarheimilisins er forsenda fyrir sjálfbærni rekstursins í framtíðinni. Arkitektar hafa þegar lagt fram hugmyndir um stækkun sem nemur allt að 44 rýmum með viðbótarhæð ofan á núverandi hús, ásamt byggingu norðan við það, sem gæfi möguleika á allt að 74 rýmum.

Fallist á stækkun hjúkrunarheimilisins
Þá felur samkomulagið í sér að unnin verði greining á kostnaði vegna umönnunar yngri íbúa á hjúkrunarheimilinu. Leiði greiningin í ljós að greiðslur til heimilisins vegna yngri íbúa séu vanmetnar mun ríkið taka tillit til þess kostnaðar við ákvörðun daggjalda.
„Það er afar ánægjulegt að tekist hafi að leysa rekstravanda Hamra og tryggja rekstur heimilisins til framtíðar. Það er einnig mikilvægt að fallist hafi verið á stækkun Hamra því þörfin er svo sannarlega til staðar“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Miðflokkurinn stofnaður í Mosfellsbæ

midflokkurinnmoso

Fimmtudaginn 15. febrúar var haldinn formlegur stofnfundur Miðflokksins í Mosfellsbæ. Fundurinn var haldinn á Hótel Laxnesi.
Fjöldi manns sótti fundinn og var fimm manna stjórn kosin og þrír varamenn. Formaður stjórnar er Friðrik Ólafsson verkfræðingur. Stjórnin er kosin til bráðbirgða eða fram að fyrsta formlega aðalfundi.
Fundurinn ákvað að stefnt skuli að því að bjóða fram til bæjarstjórnar í Mosfellsbæ og við val á lista verði uppstilling notuð. Auglýst verður eftir áhugasömum aðilum (sjá auglýsingu í Mosfellingi). Áhugasamir aðilar geta einnig haft samband við formann félagins fridrik@meter.is fyrir 26. febrúar.
Í tilkynningu frá flokknum segir að Miðflokkurinn vilji virkja rödd fólks í Suðvesturkjördæmi og býður því fram til sveitarstjórnarkosninga sem fram fara laugardaginn 26. maí. Stefnt er að því að bjóða fram í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Seltjarnarnesi.

Viðreisn undirbýr framboð í Mosfellsbæ

vidreisnmoso

Félagar í Viðreisn sem eru búsettir í Mosfellsbæ hafa undanfarið verið að undirbúa stofnun félags í bænum, segir Valdimar Birgisson, en hann er einn þeirra sem vinnur að undirbúningi og reiknar með að boðað verði til stofnfundar á næstu dögum. „Markmiðið er að stuðla að öflugu starfi. Fjölmargir hafa þegar lýst yfir áhuga á að koma að þessu starfi og vinna að stefnumálum Viðreisnar sem er frjálslyndur, alþjóða- og jafnréttissinnaður flokkur,“ segir Valdimar.

„Samhliða stofnun félagsins erum við að kanna hvernig best verði staðið að framboði í komandi sveitarstjórnarkosningum. Við viljum helst sameina krafta þess fólks í bænum sem aðhyllist frjálst og opið samfélag þar sem hagsmunir almennings eru látnir ráða för en ekki sérhagsmunir. Það er kominn tími til að gera breytingar. Ég vil hvetja alla sem vilja slást í hópinn og taka þátt í starfinu og undirbúa framboð að hafa samband. Við leitum að kraftmiklum, jákvæðum, traustum og heiðarlegum einstaklingum sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að bæta lífið í Mosfellsbæ“, segir Valdimar um leið og hann býður áhugasömum að setja sig í samband við undirbúningshópinn með því að senda póst á mosfellsbaer@vidreisn.is.

Samfélagssjóður Kaupfélags Kjalarnesþings stofnaður

kaupfelagid_mosfellingur

stjórn sjóðsins: Steindór, Svanlaug, Stefán Ómar, Sigríður og Birgir

Stjórn sjóðsins: Steindór, Svanlaug, Stefán Ómar, Sigríður og Birgir

Stofnaður hefur verið Samfélagssjóður Kaupfélags Kjalarnesþings. Sjóðnum er ætlað að úthluta fjármunum til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélagsins og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af eða frá 1956 í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það m.a. til Krónunnar og fleiri aðila.

50 milljónir í stofnfé sjóðsins
Á aðalfundi Kaupfélagsins í júlí 2016 var tekin ákvörðun um að leggja félagið niður og var sú ákvörðun staðfest á félagsfundi í ágúst 2016. Kjörin var slitastjórn sem fékk það verkefni að annast um slit félagsins, sölu eigna þess og uppgjör við lánadrottna og skyldi það fé sem afgangs yrði lagt í sjóð og fénu ráðstafað til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði kaupfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfélagssjóði KKÞ.
Skilanefnd KKÞ boðaði síðan til félagsfundar 27. desember 2017. Á fundinum var m.a. samþykkt stofnun sjálfseignarstofnunar sem ber heitið Samfélagssjóður KKÞ og var stofnfé sjóðsins ákveðið kr. 50 milljónir. Vonir standa til að þegar skilanefnd hefur lokið störfum muni koma viðbótarstofnfé til sjóðsins.

Fimm manna stjórn skipuð um sjóðinn
Félagsfundur kaus eftirtalda sem aðal- og varamenn í stjórn sjóðsins: Birgi D. Sveinsson, Stefán Ómar Jónsson og Steindór Hálfdánarson sem aðalmenn og Sigríði Halldórsdóttur og Svanlaugu Aðalsteinsdóttur sem varamenn.
Nýkjörin stjórn Samfélagssjóðs KKÞ hefur haldið sinn fyrsta fund þar sem hún m.a. skipti með sér verkum þannig að formaður er Stefán Ómar, ritari er Birgir og meðstjórnandi er Steindór. Stjórnin samþykkt á þessum fyrsta fundi sínum að ávallt skyldi boða bæði aðal- og varamenn á stórnarfundi.

Úthlutanir fari fram næstu 2-3 ár
Verkefni stjórnar er að úthluta fjármunum samfélagssjóðsins til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Gert er ráð fyrir að verkefnið taki eftir atvikum 2-3 ár. Þegar úthlutun úr Samfélagssjóði KKÞ verður lokið verður sjálfseignarstofnunin lögð niður í samræmi við lög nr. 19/1988 um sjóði sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Á næstu misserum verður auglýst um fyrstu úthlutun og þá kynnt nánar um fyrirkomulag umsókna.

Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimsíðu sjóðsins www.kaupo.is

Töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins

Helga, Rúnar Bragi, Arna, Haraldur, Ásgeir, Kolbrún og Hafsteinn. Á myndina vantar Kristínu.

Helga, Rúnar Bragi, Arna, Haraldur, Ásgeir, Kolbrún og Hafsteinn. Á myndina vantar Kristínu.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fór fram laugardaginn 10. febrúar. Tólf frambjóðendur gáfu kost á sér og tæplega 700 manns greiddu atkvæði. Kosið var í félagsheimili flokksins í Kjarna.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar varð efstur í prófkjörinu.
Hann er ánægður með niður­stöðuna og vænt­an­leg­an lista. „Þetta er breiður hópur fólks á ólíkum aldri, með fjölbreytta menntun og reynslu. Þarna eru 4 konur og 4 karlar í 8 efstu sætunum en umfram allt fólk sem er tilbúið að leggja allt sitt af mörkum fyrir Mosfellinga,“ segir Haraldur.
Í kvöld, fimmtudaginn 22. febrúar, mun kjörnefnd leggja fram tillögu að listanum í heild sinni á aðalfundi Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ. Þá fara einnig fram aðalfundir Sjálfstæðisfélagsins og Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna.

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Efstu átta sætin röðuðust þannig:
1. Haraldur Sverrisson
2. Ásgeir Sveinsson
3. Kolbrún Þorsteinsdóttir
4. Rúnar Bragi Guðlaugsson
5. Arna Hagalínsdóttir
6. Hafsteinn Pálsson
7. Helga Jóhannesdóttir
8. Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Bjóða bæjarbúum með í málefnavinnu
Haraldur Sverrisson oddviti sjálfstæðismanna hlaut afgerandi kosningu í 1. sæti listans. Alls greiddu 663 atkvæði í prófkjörinu. Haraldur fékk 545 atkvæði alls og þar af 423 í 1. sæti.
„Ég er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Það varð töluverð endurnýjun á listanum enda gáfu tveir bæjarfulltrúar ekki kost á sér í þetta skipti. Það gefur nýju fólki tækifæri og niðurstaðan, prófkjörið sjálft og dreifing atkvæða endurspeglar það. Mjótt var á mununum í mörg sæti. Niðurstaðan er góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ. Nú hefst málefnavinnan og við munum bjóða bæjarbúum þátttöku í því starfi. Með sterkan málefnagrundvöll og svona góðan hóp fólks er ég viss um að flokkurinn muni fá góðan hljómgrunn í kosningunum í vor.“

Arna Hagalíns og Ásgeir Sveinsson.

Arna Hagalíns og Ásgeir Sveinsson.

Arna og Ásgeir ný á lista
Arna Hagalíns og Ásgeir Sveinsson gáfu bæði kost á sér í fyrsta skipti og náðu tilsettum árangri.
„Ég er ómetanlega þakklát fyrir stuðninginn og hef óbilandi trú á Mosfellingum og bænum okkar,“ segir Arna. „Ég veit að mínir styrkleikar ásamt menntun minni, þekkingu og reynslu munu koma að góðu gagni í samhentum hópi bæjarstjórnarfólks. Markmið mitt er hagur okkar allra.“
Ásgeir tekur í sama streng og segist mjög ánægður með þann frábæra stuðning sem hann fékk. „Ég hlakka til að vinna með þessu öfluga fólki á listanum og markmiðið er að sjálfsögðu að halda meirihluta áfram eftir kosningarnar í vor.“

 

10.000

heilsumolar22feb

Ég týndi skrefamælinum mínum í Flatey fyrir einu og hálfu ári. Síðan þá hef ég ekki mælt hvað ég er að hreyfa mig mikið dags daglega. Ekki fyrr en núna í febrúar. Þá ákvað ég að setja mér það markmið að ganga allavega 10.000 skref á dag í 50 daga. Af hverju? Í fyrsta lagi vegna þess að ég var farinn að hafa á tilfinningunni að ég hreyfði mig ekki nóg dags daglega.

Í öðru lagi vegna þess að ég hef bæði gaman og gott af því að fara í gegnum áskoranir sem krefjast aga og viljastyrks. Ég bauð fleirum að taka áskoruninni með mér. 50 daga áskorunin inniheldur fleiri þætti svo sem ákveðið mataræði og æfingar og við sem tökum þátt veitum hvert öðru aðhald og stuðning. Ég nota símann núna til að mæla skrefin en langar aftur í einfaldan skrefamæli. Það er ljóst að ég hef ekki verið að hreyfa mig nóg síðan ég var í Flatey. Ég æfi reglulega styrk og liðleika og hef gert lengi, en yfir daginn hef ég greinilega setið of mikið við tölvuna. Reglulegar æfingar einar sér eru ekki nóg fyrir okkur. Ég þarf að hafa fyrir skrefunum á þann hátt að ég þarf að fara í 2-3 göngutúra yfir daginn. Annars næ ég þeim ekki. Ég byrja á morgungöngum, frábær byrjun á degi. Við erum í viku 2 í 50 daga áskoruninni og göngutúrarnir eru að gefa mér mikið. Bæði líkamlega og andlega.

Við erum gerð til þess að ganga, mannfólkið, og ef við sinnum því ekki erum við að vanrækja eigin líkama og hug. Veður skiptir engu máli. Góðir skór og útivistarföt eru svarið við þeirri afsökun. Ég er kominn á þá skoðun að ganga sé grunnurinn að góðri heilsu. Ef við vanrækjum hana verðum við að vesalingum. Einfaldlega.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. febrúar 2018

Ráðin verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólks

ugandastarf

Eva Rós Ólafsdóttir félagsráðgjafi MA hefur verið ráðin sem verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólks. Áætlað er að hópurinn komi til Mosfellsbæjar 19. mars n.k.
Eva Rós lauk starfsréttindum í félagsráðgjöf með MA prófi frá Háskóla Íslands árið 2013 og hefur starfað sem félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun frá þeim tíma.
Starf verkefnisstjóra er fólgið í því að hafa umsjón með móttöku flóttafólksins og þjónustu við það. Verkefnisstjórinn á náið samstarf við svið og stofnanir bæjarfélagsins, Rauða krossinn, velferðarráðuneytið og aðra aðila innan og utan sveitarfélagsins. Og loks annast hann skipulagningu fræðslu og kynningar til flóttafólksins og þá sem að málum þess koma.

Kærleiksvika haldin í Mosfellsbæ

kærleiksvika

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 12.-18. febrúar.
Skipuleggjendur eru þær Vigdís Steinþórsdóttir, Oddný Magnúsdóttir og Jóhanna B. Magnúsdóttir og vilja þær nota Kærleiksvikuna til að auðga samskipti fólks á milli með falleg hætti.
„Verum örlát á hrós og falleg skilaboð. Það er ekki væmni heldur styrkur að geta tjáð sig um hæfileika annarra. Tökum höndum saman svo allir bæjarbúar muni finna að það ríkir náungakærleikur hér,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir.
Að þessu sinni fer heiðursgjöfin til fræðslunefndar fatlaðra í hestamannafélaginu Herði. Nefndin hefur unnið gríðalega gott starf og er brautryðjandi í því að hjálpa fötluðum börnum að komast á hestbak og þar með út í náttúruna. Þar hefur einnig verið unnin mikil og falleg sjálfboðavinna, einstaklingar hafa tekið strætó alla leið frá Akranesi og Reykjavík til að gefa vinnu sína hér.
Fjöldi viðburða í boði
Þær stöllur benda einnig Mosfellingum á að gefa sér tíma til að njóta skilaboðanna frá nemendum Lágafells- og Varmárskóla í innkaupakerrunum í Bónus og Krónunni.
„Verið velkomin á alla þá viðburði sem við höfum skipulagt og búið til ykkar eigin viðburði á heimilum og vinnustöðum,“ segir Vigdís en dagskráin er auglýst hér á hinni síðunni og á Facebook undir „Kærleiksvika í Mosfellsbæ.“

——

D A G S K R Á 

Mánudagur 12. febrúar
Bónus og Krónan. Nemendur úr Lágafells- og Varmárskóla setja kærleiksrík skilaboð á innkaupakerrurnar.

Miðvikudagur 14. febrúar
Hátíðarstund í anddyri FMOS kl. 16.30
Fræðslunefnd fatlaðra í hestamannafélaginu Herði heiðruð fyrir frábært starf.
Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við HÍ fjallar í stuttu máli um mikilvægi vináttu.
Nemendur Listaskóli Mosfellsbæjar syngja nokkur lög.
Vinnustofa Skálatúns verður með kærleiksgjafir til sölu.

Fimmtudagur 15. febrúar
Heilunarguðþjónusta í Lágafellskirkju kl. 20. Söngur, bæn, handayfirlagning og smurning.
Sr. Arndís Bernhardsdóttir og græðarar.

Laugardagur 17. febrúar
Félagsvist á torginu í Kjarna á vegum öldungaráðs og ungmennaráðs.
Kaffiveitingar í boði Mosfellsbæjar. Allir velkomnir ungir sem aldnir, ókeypis aðgangur.

Sunnudagur 18. febrúar
Spákaffi í Mosfellsbakaríi kl. 13–16
(15 mín. spá á vægu verði)

Friðarganga
Kl. 16:30, gengið verður frá torginu gegnt Kjarna og niður að tjörninni í Kvosinni og þar verður friðarkertum raðað.
Hver kemur með sitt kerti.

Kærleikssetrið:
Dagskrá alla vikuna sjá kaerleikssetrid.is

Sjá nánari dagskrána á vef Mosfellsbæjar www.mos.is og Kærleikssetursins
www.kaerleikssetrid.is og á facebook „Kærleiks­vika í Mosfellsbæ“

Flokkun á plasti hefst 1. mars

plastmynd

plastmynd2Mosfellsbær mun frá og með 1. mars bjóða íbúum upp á aukna þjónustu varðandi flokkun á plasti frá heimilum til endurvinnslu.
Frá og með þeim degi geta íbúar sett hreint plast í lokuðum plastpoka í sorptunnuna (orkutunnuna) og SORPA flokkar það svo vélrænt frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Ekki er nauðsynlegt að setja hreina plastið í sérstaka poka en þeir þurfa að vera úr plasti.
Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að auka endurvinnslu og draga úr urðun plasts og endurnýta þannig betur plastið sem hráefni.
„Mosfellsbær steig fyrstu skref til aukinnar endurvinnslu árið 2012 með því að bjóða upp á sérstaka endurvinnslutunnu fyrir pappírsúrgang, blátunnu, við hvert heimili í bænum,“ segir Tómas Gíslason umhverfisstjóri Mosfellsbæjar. „Það verkefni tókst vel og hefur magn pappírs sem urðað er minnkað verulega.“

Hvers vegna að flokka plast?
Áætlað er að á árinu 2017 hafi að jafnaði um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu endað í hefðbundinni sorptunnu og farið á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. Eingöngu um 5 kg af plasti á íbúa skiluðu sér flokkað til endurvinnslu.
„Við þurfum að gera betur hvað plastið varðar og með nýjum vélrænum flokkunarbúnaði í móttöku- og flokkunarstöð SORPU verður einfalt að koma því til endurvinnslu. Þá er hagkvæmara fyrir sveitarfélagið, og þar með íbúana, að sem mest af plasti og pappír fari í endurvinnslu frekar en til urðunar,“ segir Tómas.

Aukin þjónusta við íbúa
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbæjar, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar. Verkefnið verður kynnt betur þegar nær dregur.