hrutasyningkjos

Hreppaskjöldurinn á Morastaði

hrutasyningkjos

3) Efstir í flokki veturgamalla hrúta.

Sameiginleg hrútasýning fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós var haldin að Kiðafelli á mánudaginn.
Þar gefst bændum kostur á að fá stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta. Sauðfjár­ræktarfélagið Kjós stendur fyrir sýningunni sem jafnframt er vettvangur til að verða sér út um gripi til kynbóta.
Lárus og Torfi sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.

Verðlaun voru veitt fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt í þremur flokkum.
1) Mislitir/kollóttir lambrútar
Fyrsta sæti hlaut hrútur frá Kiðafelli í eigu Bergþóru Andrésardóttur. Í öðru sæti lenti hrútur frá Andrési á Hrísbrú og í þriðja sæti hrútur frá Kiðafelli sem Maggi heldur í.
2) Í flokki lambrúta voru það allt hrútar frá Kiðafelli sem röðuðu sér í efstu þrjú sætin.
3) Í flokki veturgamalla hrúta var keppt um hinn eftirsótta hreppaskjöld. Hrúturinn Partur var þar hlutskarpastur en hann er í eigu Orra og Maríu á Morastöðum. Annað sætið hlaut hrútur frá Kiðafelli sem Nonni heldur í. Í þriðja sæti er svo hrútur í eigu Harðar Bender á Hraðastöðum.

1) Mislitir/kollóttir  2) Lambhrútar

1) Mislitir/kollóttir 2) Lambhrútar

siggasveinbjorns

„Þakklát fyrir að vera á lífi“

siggasveinbjorns

Mosfellingurinn Sigríður Sveinbjörnsdóttir lenti í alvarlegu bílslysi á Þingskálavegi í Rangárvallasýslu þann 20. ágúst.
Slysið var með þeim hætti að bíll sem kom úr gagnstæðri átt fór yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl Sigríðar. Bílstjóri hins bílsins lést samstundis.
„Við hjónin erum að byggja sumarbústað í Heklubyggð, ég skaust í Húsasmiðjuna og var á leið til baka þegar slysið varð. Ég var sem betur fer á stórum bíl og er ekki í neinum vafa um að það, loftpúðarnir og bílbelti björguðu því að ekki fór verr,“ segir Sigríður.

Var send með þyrlu á Landspítalann
„Ég man nú ekki alveg atburðarásina á slysstað en það var björgunarsveitamaður sem kom að slysinu og tilkynnti það. Ég náði að hringja í Frímann manninn minn og þegar hann kom á vettvang voru lögreglan, sjúkraflutningamenn og læknir kominn á staðinn.
Slysið var tilkynnt um kl. 13:30 og þyrlan lenti með mig á Landspítalanum um kl. 14:30, ótrúlegur viðbragðsflýtir.“
„Þegar ég kom á spítalann fór í gang ferli með ítarlegri skoðun og myndtökum. Í kjölfarið fór ég í fjögurra tíma aðgerð á fótunum. Áverkarnir sem ég hlaut voru miklir, ég var með opin beinbrot á báðum ökklum, hægri hnéskelin margbrotnaði en sú vinstri fór bara í tvennt. Auk þess brákaðist beinið sem er utan um hægri mjaðmakúlu, bringubein brákaðist, rifbein brotnaði, áverkar á hægri hendi og svo fékk ég stórt brunasár og mikið mar eftir bílbeltið.
Þrátt fyrir alla þessa áverka þá er ég svo þakklát að bakið á mér og hálsinn er í lagi,“ segir Sigríður af æðruleysi.

Byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi
„Ég var 11 daga á spítalanum, fékk að fara heim 31. ágúst eftir að fagaðilar höfðu tekið heimilið út og gefið grænt ljós á að ég gæti athafnað mig. Ég var með gifs á báðum fótum og við þurftum að gera lítilsháttar breytingar til að auðvelda mér lífið.
Það var yndislegt að koma heim og vera umvafinn sínum nánustu. Ég losnaði við gifsið þann 5. október, það var mikill léttir þó að ég þurfi enn að notast við hjólastólinn. Ég er byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi, er þar í góðum höndum frábærs fagfólks. Ég sóttist eftir því komast að þar enda stutt að fara og yndislegt að vera þar.“

Þakklæti er mér efst í huga
„Þetta hefur gengið vel og ég er þakklát fyrir hvert lítið skref sem ég næ í bataferlinu. Ég er endalaust þakklát fyrir fjölskylduna, vini mína og lífið. Ég ætla að taka þessu verkefni með jákvæðni og brosi á vör og sigrast á þessu.
Svona slys hefur mikil áhrif á fjölskylduna og vini. Við Frímann eigum 6 börn og öll upplifum við þetta á misjafnan hátt. Við höfum notið stuðnings sr. Arndísar Linn til að takast á við þetta og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir frábær og fagleg vinnubrögð. En það sem er mér efst í huga er þakklæti,“ segir Sigríður að lokum.

helgafellshverfi

Aldrei jafn margar íbúðir byggðar á sama tíma

helgafellshverfi

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Mosfellsbæjar hafa aldrei verið byggðar jafn margar íbúðir samtímis í sögu bæjarins.
Bara í Helgafellshverfi einu er búið að gefa út byggingarleyfi fyrir ríflega 400 íbúðum en í aðalskipulagi er gert ráð fyrir samtals um 1.050 íbúðum í hverfinu. Auk þessa er búið að úthluta lóðum fyrir um 150 íbúðir í miðbænum, þ.e. við Þverholt og Háholt.

Frumhönnun Helgafellsskóla kynnt
Þessari hröðu uppbyggingu fylgir aukin þjónusta leik- og grunnskóla. Verið er að kynna frumhönnun Helgafellsskóla fyrir kjörnum fulltrúum, fræðslunefnd og stjórnendum Mosfellsbæjar þessa dagana.
Hönnunin er byggð á þarfagreiningu sem unnin var meðal annars með rýnihópum úr skólasamfélaginu ásamt leik- og grunnskólabörnum. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú þegar samþykkt að bjóða út jarðvegsframkvæmdir við 1. áfanga skólans.
Upplýsingar um byggingaráform og hönnun verða aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar innan tíðar.
Helgafellsskóli verður leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 1-15 ára. Gert er ráð fyrir að skólinn rísi í fjórum áföngum. Áætlað­ er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018 og að kostnaður við hann verði um 1.245 milljónir.

Hafa áhuga á hóteli í Sunnukrika
Í Mosfellsbæ er einnig öflug uppbygging á atvinnuhúsnæði. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ hefur verið sótt um lóðir í Sunnukrika. Svæðið er á aðalskipulagi skilgreint sem miðsvæði fyrir verslun og þjónustu. Lóðirnar hafa verið auglýstar til úthlutunar frá árinu 2005 en þær voru skipulagðar samhliða uppbyggingu hverfisins.
Bæjarráð hefur til umfjöllunar umsóknir um lóðirnar frá aðilum sem hafa áhuga á því að byggja upp hótel og/eða aðra starfsemi tengda ferðaþjónustu. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar að svo komnu máli.

Eflir þjónustu og atvinnumöguleika
„Að mati sérfræðinga í skipulagsmálum fer rekstur hótela vel saman við íbúabyggð,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Til dæmis er mun minni og dreifðari umferð við hótel en við íbúðarhúsnæði eða verslunarkjarna auk þess sem umhverfi þeirra er yfirleitt snyrtilegt ásýndar.
Að mínu mati myndi slík uppbygging auk þess að efla þjónustu og atvinnumöguleika í bænum gefa kost á frekari uppbyggingu á verslun og þjónustu í miðbænum,“ segir Haraldur.

doriumfa

Skrifar sjónvarpsþætti sem gerast í Mosfellsbæ

doriumfa

Þessa dagana stendur yfir undirbúningur að sjónvarpsþáttaröð sem nefnist Afturelding. Þættirnir sem verða níu talsins munu að mestu gerast í Mosfellsbæ.
Það er Mosfellingurinn Halldór Halldórsson eða Dóri DNA sem skrifar handritið í samstarfi við Hafstein Gunnar Sigurðsson, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Jörund Ragnarsson.
„Upphaflega hugmyndin var að gera gamanmynd en svo þróaðist þetta í þá átt að gera sjónvarpsþætti. Þetta er dramasería með glettnu ívafi og sögusviðið er handboltaheimurinn.
Við ákváðum að nota Mosfellsbæ, íþróttahúsið að Varmá og Reykjalund svo eitthvað sé nefnt, þar sem ég er með góða þekkingu á þessum stöðum. Svo komumst við að því að þessir staðir hafa verið lítið notaðir í kvikmyndaheiminum, svolítið eins og óplægður akur,“ segir Dóri DNA.

Þjálfar kvennalið Aftureldingar
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningamálanefnd, Kvikmyndasjóði Íslands og RÚV. „Þættirnir fjalla um Skarphéðinn, sem var leikmaður í sigurliði Íslands á B-keppninni í Frakklandi árið 1989. Hann er að snúa heim eftir veru erlendis og fær það starf að þjálfa kvennalið Aftureldingar. Honum finnst það langt fyrir neðan sína virðingu og það gengur á ýmsu,“ segir Dóri.
Næsta ár mun fara í fjármögnun en stefnt er að tökum árið 2018.

heilsumolar20okt

Reykjafellið

heilsumolar20okt

Við fjölskyldan gengum á Reykjafellið um síðustu helgi. Sá fimm ára var tregur af stað, mjög þreyttur í fótunum til að byrja með og fór hægt yfir. Vildi helst fara þetta á háhesti. Nota okkur hin sem hesta. Ekki óskynsamlegt og vel þess virði fyrir hann að reyna að létta sér lífið. En við gáfumst ekki upp, þetta átti að vera holl hreyfing fyrir alla. Við mjökuðumst áfram á þolinmæðinni, tókum kvörtunum hans með stakri ró og yfirvegun og beittum síðan sama bragði á hann og við höfum gert með eldri bræður hans. Nefnilega að leyfa honum að leiða hópinn. Vera fyrstur. Það breytir öllu þegar maður er fimm ára. Forystu­sauðir verða ekki þreyttir. Þeir eru of uppteknir við að finna bestu leiðina fyrir hópinn sinn.

Þetta virkaði, alveg eins og með bræðurna. Svo vel að þegar við vorum komin upp að vörðunni, þá vildi okkar maður alls ekki fara til baka. Leið fantavel eftir þessa sigurgöngu og var ánægður með sjálfan sig og lífið. Á endanum fórum við nú samt niður. Klifruðum yfir Raggarétt við rætur Reykfellsins og hittum skemmtilega fjölskyldu sem sagði okkur fréttir af hundasamfélagi Mosfellsbæjar. Við tókum eina upphífingu á grein trés sem stendur keikt við litla brú yfir Varmá og röltum svo heim eftir skógarstígnum.

Stígurinn sem var gerður upp í sumar er nú horfinn að hluta til eftir vatnavextina í síðustu viku. Þetta er svo vinsæl gönguleið að bæjaryfirvöld verða örugglega snögg að koma honum aftur í lag. Við enduðum þennan góða og gefandi göngutúr á því að ég og sá bráðum 14 ára kepptum í brekkuspretti. Í mínum huga er ekki spurning hver vann þann sprett, hvað sem hver segir þá var ekkert talað um fyrir keppnina að það mætti ekki toga í andstæðinginn í miðjum spretti. Nýtum umhverfið og njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. október 2016

disalinnvidtal

Kom mínum nánustu ekki á óvart

disalinnvidtal

Arndís Guðríður Bernhardsdóttir Linn tók við embætti prests í Lágafellssókn þann 1. maí 2016.

Í Lágafellssókn eru tvær kirkjur, að Lágafelli og að Mosfelli. Í sókninni fer fram fjölbreytt starf fyrir unga jafnt sem aldna og næsta víst að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn hóf nám í guðfræði komin á fertugsaldur. Átta árum eftir útskrift tók hún við prests­­­­e­­­m­bætti í Lágafellsókn. Arndís segir starfið einstaklega gefandi, skemmtilegt og fjölbreytt.

Arndís er fædd í Reykjavík 12. septem­­­ber 1970. Foreldrar hennar eru þau Dagbjört Pálmey Pálmadóttir húsmóðir og Bernhard Linn fyrrverandi vörubílstjóri. Arndís er elst fimm systkina, Pálma, Steinunnar Svandísar, Ágústs og Hauks.
„Ég er alin upp í Mosfellssveit. Við fjölskyldan bjuggum fyrst í Hlíðartúninu en þegar ég var fjögurra ára fluttum við í Teigana. Við krakkarnir lékum okkur mikið í gilinu í Teigunum, löbbuðum stokkinn og alltaf var gengið fram hjá Brúarlandi á leið í skólann.
Síðustu árin hef ég gengið mikið hér um bæinn og smátt og smátt rifjast upp fyrir mér að ég á minningar frá hverri þúfu. Fyrir vikið þykir mér óendanlega vænt um þessa sveit.“

Ævintýralegar ferðir með ömmu
„Uppáhalds æskuminning mín er þegar við amma fórum saman til höfuðborgarinnar, en við fórum alltaf bara tvær. Þetta voru algjörar ævintýraferðir sem endaðu með viðkomu á Hressingarskálanum.
Ég gekk í Varmárskóla og svo í Gaggó Mos. Ég söng í kór, var í skátunum, lærði á blokkflautu, fiðlu og horn og var í Skólahljómsveit Varmárskóla. Ég spilaði aðeins fótbolta en handboltinn náði svo yfirhöndinni. Ég náði meira að segja að æfa með unglingalandsliðinu.“

Rekin heim úr skólanum
„Mér fannst stundum erfitt að vera unglingur og var ekki alltaf til fyrirmyndar. Ég var þónokkur gelgja og svolítið uppvöðslusöm. Það var stundum pínu uppreisn í manni og það kom fyrir að ég var rekin heim úr skólanum í einhverja daga. Ætli ég hafi ekki stundum verið dálítið dramatísk,“ segir Arndís og glottir.

Lærði mikið af dvöl minni í Þýskalandi
„Ég byrjaði ung að passa börn, vann í sjoppu og í Kaupfélaginu. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík og eftir útskrift starfaði ég í Kaupfélaginu í hálft ár. Þaðan fór ég sem aupair til Baden Baden í Þýskalandi og var þar í rúmt ár. Þar passaði ég Paul sem var dásemdardrengur og fjölskylda hans reyndist mér einstaklega vel.
Þegar ég kom heim fór ég að vinna hjá Hans Petersen. Ég hef verið með ljósmyndadellu alveg síðan ég fékk mína fyrstu myndavél að gjöf frá mömmu og pabba, þá var ég níu ára. Ég hætti störfum í versluninni 1996 og tók eina önn í þýsku í Háskóla Íslands.“

Athöfnin fór fram í kyrrþey
Arndís er gift Hilmari Kristni Friðþjófssyni vélfræðingi en hann er Mosfellingur í húð og hár. Þau hafa verið saman síðan árið 1993 og eiga tvö börn, Sigríði Maríu fædda 1997 og Bernhard Linn fæddan 1998.
„Við Kiddi trúlofuðum okkur í hlíðum Úlfarsfells með súkkulaðisnúða og kampavín í bakpoka 1993 en giftum okkur ekki fyrr en 2012. Ég segi stundum að athöfnin í Lágafellskirkju hafi farið fram í kyrrþey því einungis foreldrar okkar og börn voru viðstödd. Það voru ekki allir sáttir við þessa leið okkar en svona vildum við hafa þetta.“

Trúin braust einhvern veginn í gegn
„Ég hef alltaf verið trúuð alveg frá því ég man eftir mér. Það var amma Dísa sem kynnti mig fyrir Guði og trúnni, hún kenndi mér bænir og talaði við mig um Jesú. Hún hafði mikil áhrif á mig og er mér sterk fyrirmynd.
Ég las Nýja testamentið sem ég fékk að gjöf frá skólanum, sótti styrk í Biblíuna á unglingsárunum og þegar ég hugsa til baka þá var þetta leið sem átti alltaf eftir að liggja fyrir mér. Í gömlu myndaalbúmunum mínum má finna myndir af kirkjum, altörum og styttum af Jesú, trúin braust svona einhvern veginn í gegn. Það kom mínum nánustu því ekki á óvart þegar ég skráði mig í guðfræði en ég byrjaði í náminu haustið 2003 og útskrifaðist um vorið 2008.“

Mikill áhugi á femínískri guðfræði
„Áður en ég fór í guðfræði sá ég um foreldramorgnana í Lágafellskirkju. Ég byrjaði árið 2002 og hef unnið þar alla tíð síðan því seinna varð ég meðhjálpari, kirkjuvörður, sá um barnastarf, skúringar, heimasíðu og ýmislegt fleira.
Ég vígðist til kvennakirkjunnar, sem er sjálfstætt starfandi hópur innan þjóðkirkjunnar, 14. júlí 2013. Starfið í kvennakirkjunni er í sjálfboðavinnu og þar starfa ég við hlið sr. Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur sem er fyrsta konan sem vígðist til prests á Íslandi árið 1974. Ég hef mikinn áhuga á femínískri guðfræði en Kvennakirkjan byggir á henni. Messurnar eru léttari og öðruvísi.“

Draumur minn rættist
„Ég hef sótt um þó nokkur embætti innan íslensku þjóðkirkjunnar síðustu átta árin og ekki fengið. Draumur minn var alltaf að geta verið prestur í minni heimabyggð, hann rættist og fyrir það er ég afskaplega þakklát. Það var einstaklega skemmtilegt að ég var kosin til prests á brúðkaupsdaginn minn 18. mars 2016 og tók síðan við embætti 1. maí.
Það eru forréttindi að fá að vinna og þjóna í bæjarfélaginu þar sem ég hef kynnst svo mörgum í gegnum tíðina. Starf mitt er einstaklega fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi. Við prestarnir erum mikið á ferðinni, meðal annars í kirkjunum, safnaðarheimilinu og förum inn á heimili fólks. Starfið getur tekið á andlega því við mætum fólki líka á erfiðustu stundum lífs þess.“

Fólk finnur sig ekki alltaf í helgihaldi
„Ég held að fólk hafi þörf fyrir að rækta hið andlega og kirkjan er staður til þess. Fólk finnur sig ekki alltaf í helgihaldi kirkjunnar og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að koma betur til móts við fólkið í samfélaginu. Við höfum leitast við að gera guðþjónusturnar aðgengilegri, létta helgihaldið til dæmis með því að syngja sálma sem ná betur til fólks. Breyta orðaforða, það má ekki gleyma sér í orðaforða sem enginn skilur, einhverskonar himnesku.
Það er alltaf hægt að bæta leiðir til að finna samfélagið við Guð,“ segir Arndís með bros á vör er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 29. september 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

meistaraflokkurkvenna

Eigum fullt erindi í toppsætin í þessari deild

meistaraflokkurkvenna2

Meistaraflokkur kvenna í handknattleik 2016-2017. Mynd: Raggi Óla.

Davíð Svansson þjálfari

Davíð Svansson þjálfari

Aukablað um meistaraflokk kvenna í handknattleik má finna í nýjasta tölublaði Mosfellings. Þar er meðal annars rætt við Davíð Svansson þjálfara liðsins. Miklar breytingar hafa orðið á liðinu sem nú leikur í 1. deild. Næsti leikur er gegn FH að Varmá á laugardaginn kl. 15:00.

Hvernig hefur undirbúningur fyrir veturinn gengið?
Undibúningurinn hefur verið upp og ofan. Það voru enn miklar breytingar á hópnum stuttu fyrir mót. Því höfum við ekki getað undirbúið okkur með okkar besta lið fyrr en núna rétt fyrir mót.
Einnig lentum við í meiðslum og forföllum sem er að stríða okkur nú í byrjun móts. En við spiluðum nokkra æfingaleiki og þeir gengu ágætlega.

Hvernig líst þér á leikmannahópinn fyrir veturinn? Nú hafa orðið töluverðar breytingar á liðinu, getur þú frætt okkur meira um það?
Mér líst mjög vel á hópinn sem við erum með, það er mjög góður mórall í hópnum og stelpurnar ná mjög vel saman. Já, það urðu nokkrar breytingar á hópnum, við misstum Heklu og Ingibjörgu sem voru stórir póstar hjá okkur í fyrra. En fáum aftur á móti inn nýja leikmenn, við fengum margar mjög góðar stelpur inn í staðinn.
Við fengum tvo útlendinga, þær Paulu og Kristu, svo fengum við Nínu Líf Gísladóttur frá Val, Írisi Kristínu Smith frá Fram, Selmu Rut Sigurbjörnsdóttur frá ÍBV, Andreu Þorkelsdóttur frá Stjörnunni, Sunnu Dögg Jónsdóttur frá Val og nú síðast Ragnhildi Hjartardóttur sem var í Danmörku.

Hvaða væntingar hefur þú til tímabilsins ?
Eins og staðan er núna þá er erfitt að segja til um hvernig veturinn verður. Við erum að berjast við meiðsli og forföll, Nína og Sesselja meiddust rétt fyrir mót og Telma Rut verður ekki með okkur fyrr en í nóvember þar sem hún er að fara að keppa á HM í karate. Það verður erfiðast fyrir okkur að bíða eftir henni, hún er fyrirliðinn í hópnum og er algjör lykilleikmaður innan sem utan vallar.
Þegar við verðum komin með fullt lið þá sjáum við betur hvar við stöndum og þá hvaða væntingar við ættum að hafa til vetrarins. En eins og ég segi þá erum við með frábærar stelpur og eigum við fullt erindi í toppsætin í þessari deild.

 

kaupfelagid

Ákveðið á félagsfundi að leysa upp Kaupfélag Kjalarnesþings

kaupfelagid

Deilur hafa staðið milli stjórnar Kaupfélags Kjalarnesþings og núverandi og fyrrverandi félagsmanna þess.
Skilanefnd hefur verið skipuð yfir félagið sem á fasteignir í hjarta Mosfellsbæjar, ásamt leigulóðarrétti við Háholt 16-24. ViðskiptaMogginn greindi frá stöðu mála á dögunum.
Deilurnar eru meðal annars sagðar snúast um að í aðdraganda aðalfundar voru nöfn tuga félagsmanna afmáð úr félagaskrá.
Á félagsfundi sem fram fór 23. ágúst gerði stjórnin tillögu um að skipuð yrði slitastjórn yfir félagið, eignir þess seldar og andvirðið greitt til félagsmanna eftir tilteknum reglum. Eigin fé félagsins yrði síðan varið til góðgerða- og líknarmála á félagssvæðinu.

Félagsmenn 85 talsins í dag
„Þetta er komið í formlegt slitaferli og skipuð hefur verið sérstök skilanefnd,“ segir Ragnheiður Þorkelsdóttir formaður skilanefndar.
„Kröfulýsingafrestur er tveir mánuðir og í kjölfarið útbýr skilanefnd kröfuskskrá og heldur fund með lánadrottnum félagsins. Þegar kröfurnar eru allar komnar á hreint og eignum félagsins komið í verð þá eru í raun allar kröfur félagsins greiddar.
Í kjölfarið er útbúin úthlutunargerð í samræmi við samþykktir félagsins og samvinnufélagalögin og þær samþykktir sem gerðar voru á þessum félagsfundum,“ segir Ragnheiður.
Samkvæmt skilanefnd eru félagsmenn nú 85 talsins og fær hver félagsmaður sitt stofnsjóðsframlag samkvæmt reglum félagsins.
„Það var ekki búið að uppfæra félagaskrána fyllilega þangað til tekinn var skurkur í því í sumar. Samkvæmt reglum félagsins voru ennþá einhverjir á félagatalinu sem uppfylla ekki skilyrði samþykktar að vera félagsmenn. Ýmist brottfluttir eða látnir.“

Meinaður aðgangur að aðalfundi
Og einhverjum var meinaður aðgangur að síðasta aðalfundi félagsins?
„Já, það voru einhverjir sem voru brottfluttir og svo voru vissulega aðrir sem höfðu verið skráðir en höfðu aldrei greitt félagsgjald samkvæmt bókhaldi félagsins. Það er forsenda félagsaðildar að gjaldið hafi verið greitt.“
En af hverju er þessi óánægja?
„Það eru margir sem spyrja sig hvaða hagsmunir búa þar að baki, sérstaklega í ljósi þess að megintilgangurinn og ætlunin er að peningarnir fari í góð málefni á svæðinu,“ segir Ragnheiður.
Samkvæmt deiliskipulagi er búið að skipuleggja kirkju og menningarhús á svæðinu. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að viðræður standi við ákveðinn aðila um kaup á eignunum fyrir 130 milljónir. „Það er ekkert frágengið með söluna og engar ákvarðanir hafa verið teknar,“ segir Ragnheiður. „Vissulega er þetta ákveðnum erfiðleikum bundið vegna óvissu um framtíð þessara lóða.“

pumpan1

Glæný hjólahreystibraut tekin í notkun í samgönguvikunni

pumpan1

pumpan2Samgönguvika fór fram í Mosfellsbæ 16.-22. september. Málþing var haldið í Hlégarði undir yfirskriftinni „Hjólum til framtíðar“. Þá var fjöldi smærri viðburða í boði þessa vikuna.
Hjólahreystibraut var tekin í notkun á Miðbæjartorginu við mikla kátínu yngri kynslóðarinnar. Brautin er sett upp í samstarfi við LexGames þar sem Alexander Kárason ræður ríkjum.
„Já, þetta er Pumpan í Mosó, pumptrack-braut. Hún er hönnuð þannig að þú þarft ekki að hjóla til að halda þér á ferð heldur notar líkamann til að pumpa þig áfram,“ segir Lexi. „Þetta er allt vísindalega hannað og hentar mörgum hópum, þeim sem eru á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum, hjólabrettum, BMX og fl.“

Stefnan sett á að keppa í hjólahreysti
Um er að ræða fyrstu braut sinnar tegundar á Íslandi. Pumpan stenst allar þær vottanir og kröfur sem leiktæki þurfa að hafa í dag. „Svo er auðvitað hjálmaskylda í brautinni.“
„Þetta er íþróttaaðstaða sem mikil þörf er á og er Mosfellsbær fyrsta sveitarfélagi sem tekur slíka braut í notkun. Brautin hentar gríðarlega breiðum hóp sem hefur litla sem enga aðstöðu fengið fyrir sitt sport.“
Lexi segir að næsta skref sé að fjölga brautum og standa fyrir keppni á milli bæjarfélaga og skóla. „Mig langar að koma á keppni í hjólahreysti. Snýst bæði um að fara sem hraðast og gera trikk.

Krakkar sem finna sig ekki í venjulegum íþróttum
Lexi segir að í Mosfellsbæ sé stærsti BMX-hópurinn á landinu. „Þetta eru krakkar sem margir hverjir eru greindir með ADHD eða eitthvað í þeim dúr. Þessir velvirku krakkar sem eiga erfitt með að vera kyrrir fá frábæra útrás í þessu. Oft er krökkum úthýst sem vandræðagemsum af því þeir þurfa á þessari hreyfingu að halda en finna sig kannski ekki í venjulegum íþróttum.
Lexi tók nýverið þátt í að breyta skólareglum í Lágafells- og Varmárskóla varðandi hjólabretti. „Áður var bannað að vera á hjólabrettum en nú er komið sérstakt svæði fyrir bæði hjól og bretti.“
Lexi hefur verið að nota sína eigin palla í verkefnin og bætir við að hjálmaskylda sé algjört lykilatriði.

Pumpan komin til að vera í Mosó
Pumpan mun á næstu vikum flytjast að íþróttahúsinu að Varmá þar sem hún mun fá varanlegan stað. Hjólabrettapallarnir sem hafa verið að Varmá munu þá flytjast á svæðið við hliðina á Áhaldahúsinu í Völuteigi. „Þetta er því allt í áttina,“ segir Lexi að lokum en hann hefur verið ötull í því að bæta þessa aðstöðu í samstarfi við Mosfellsbæ.

leggjanidur

Leggja niður meistaraflokkana?

leggjanidur

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu verður áfram í 2. deild á næsta ári. Það er þriðja efsta deild á Íslandi og þar hefur liðið verið síðan 2009 þegar það féll úr 1. deild ásamt Ólafsvíkurvíkingum. Meistaraflokki kvenna hefur gengið betur síðustu ár, en verður eftir tvö döpur tímabil í röð sömuleiðis í þriðju efstu deild á næsta tímabili.

Mosfellsbær er sjöunda stærsta bæjarfélag landsins og það er hálfbiturt að meistaraflokkarnir okkar séu ekki öflugri en þetta í vinsælustu íþróttagrein landsins. En kannski er þetta blessun í dulargervi. Tækifæri til að gjörbylta því hvernig við hugsum um fótbolta í bænum okkar. Barna- og unglingastarfið hefur verið gott undanfarin ár. Við höfum alið upp mikið af frambærilegu knattspyrnufólki sem spilar í dag með bestu liðum landsins. Þrír af byrjunarliðsmönnum bikarmeistara Vals í karlaflokki voru til dæmis Mosfellingar.

Kannski eigum við að hætta að rembast svona við að búa til samkeppnishæf meistaraflokkslið í fótbolta. Setja alla okkar krafta í yngri flokkana. Leggja enn meiri rækt við krakkana, bæði þá sem stefna á afrek og þá sem vilja vera með til þess að leika sér. Þar eru tækifæri. Semja við eitthvað af nágrannaliðunum um samstarf í meistaraflokkum. Menn fá kannski fyrir hjartað þegar þeir lesa þetta, vilja halda fast í meistaraflokkana. Fyrirmyndir yngri krakkana og allt það. En staðreyndin er sú að það hefur gengið illa að fá fólk til starfa fyrir meistaraflokkana og sömuleiðis til þess að fá okkur íbúana til að mæta á völlinn. Áhorfendur hafa yfirleitt verið taldir í tugum í sumar, ef það.

Þetta er bara pæling. En heilsu- og íþróttabærinn Mosfellsbær verður að gera eitthvað afgerandi í sínum málum varðandi fótboltann. Ef menn vilja alls ekki leggja niður meistaraflokkana, hvað þá með að standa við kosningaloforð um knattspyrnuhús, rífa upp starfið af krafti og koma okkur í hóp þeirra bestu?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. september 2016

nyrtann

Nýr tannlæknir í Mosfellsbæ

nyrtann

Katrín Rós Ragnarsdóttir útskrifaðist sem tannlæknir síðastliðið vor. Katrín er um þessar mundir að koma sér fyrir með sinn eigin tannlæknastól sem hún rekur sjálfstætt í Þverholti 7, í samstarfi við Elmar Geirsson sem starfað hefur um árabil í Mosfellsbæ.
„Ég gekk í Varmárskóla, fór þaðan í Borgarholtsskóla og svo í tannlækningar í HÍ. Frá því að ég byrjaði í náminu var ég alltaf ákveðin í að opna mína stofu í Mosfellsbæ.“

Sveigjanlegur opnunartími
„Ég hef að undanförnu verið að vinna á Akranesi og verð það eitthvað áfram á meðan ég er að koma mér fyrir hérna og eignast minn kúnnahóp. Ég leigi aðstöðu hjá honum Elmari og hlakka mikið til að starfa hér í mínum heimabæ, segir Katrín Rós.
„Ég hef fjárfest í góðum græjum og tek að mér allar almennar tannlækningar. Til að byrja með verð ég að vinna á mánudögum kl. 9-19 og á laugardögum. Það er hægt að hafa beint samband við mig í síma 789-8270 eða hringja beint á stofuna í síma 566-6104. Ég er mjög sveigjanleg og er alveg tilbúin að vinna líka á kvöldin ef það hentar fólki.“

umhverfisvidurkenningar

Hljóta umhverfisviðurkenningar

umhverfisvidurkenningar

Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar fyrir árið 2016 voru afhentar við hátíðlega athöfn í Hlégarði á bæjarhátíð Mosfellsbæjar „Í túninu heima“.
Umhverfisviðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum á árinu. Að þessu sinni bárust samtals 17 tilnefningar um garða, fyrirtæki og einstaklinga. Umhverfisnefnd ákvað að í ár yrðu veittar viðurkenningar fyrir fallegan garð og til þriggja einstaklinga sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum.

Miðla þekkingu á umhverfismálum
Ásdís Hannesdóttir og Jón Ólafur Halldórsson fá viðurkenningu fyrir fallegan garð að Hamratanga 8. Þar er blandað skemmtilega saman gróðri og hönnun, aðkoma er sérstaklega snyrtileg og takmarkað svæði er einstaklega vel nýtt.

Andrés Arnalds er virtur fræðimaður á sviði landgræðslumála og hefur lengi látið sig varða umhverfismál í Mosfellsbæ. Meðal annars starfaði hann mikið í grasrótarsamtökunum Mosa sem sinntu uppgræðslu og öðrum umhverfismálum í Mosfellsbæ.

Hjónin Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir hafa starfað sem prófessorar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um langt skeið og miðlað þar sinni þekkingu á umhverfismálum á faglegan hátt. Bókin „Að lesa og lækna landið” kom út í fyrra og þar eru góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að hlúa að röskuðu landi.

mosfellingurinn_sveinbjorg

Börn læra mest í gegnum leik

mosfellingurinn_sveinbjorg

Sveinbjörg Davíðsdóttir leikskólastjóri á Hlaðhömrum segir að í leikskólanum sé lögð sérstök áhersla á gæði í samskiptum, með aðaláherslu á virðingu, vináttu og kærleik.

Leikskólinn Hlaðhamrar er elsti leikskóli Mosfellsbæjar. Hann hóf starfsemi sína að Hlaðhömrum þann 8. október 1976, en húsið var áður íbúðarhús. Byggt var við skólann árið 1997 og batnaði þá aðstaðan til muna. Í skólanum eru nú íþróttasalur, listaskáli, eldhús og góð vinnuaðstaða fyrir starfsfólk.
Á Hlaðhömrum ræður Sveinbjörg Davíðs­dóttir ríkjum, en hún tók við leikskólastjórastöðunni árið 2002.

Sveinbjörg Davíðsdóttir er fædd í Reykjavík 9. september 1963. Hún er einkabarn foreldra sinna, þeirra Huldu Kolbrúnar Finnbogadóttur og Davíðs Björns Sigurðssonar. Hulda lést árið 1999.

Yndislegar minningar úr Dalnum
„Ég bjó fyrstu ár ævi minnar í Reykjavík. Við fjölskyldan leigðum litla kjallaraíbúð af frændfólki sem bjó á efri hæðinni. Pabbi sem er húsasmíðameistari hafði hug á að byggja hús fyrir litlu fjölskylduna sína og því var keypt lóð í Mosfellssveit.
Á meðan á byggingu stóð leigðum við risíbúð á Laugabóli í Mosfellsdal. Ég á góðar minningar úr Dalnum, elskaði að leika mér úti í náttúrunni við krakkana.“

Fór sex ára í sveit
„Ég fór alltaf í sveit á sumrin þegar ég var yngri, að Melum í Hrútafirði. Ég byrjaði að fara þegar ég var sex ára og var í tvær vikur.
Þegar ég var 11 ára þá flutti Sigrún Eygló systir pabba á sveitabæ í Borgarfirði. Þá fór ég að fara til hennar og það gerði ég þangað til ég varð 15 ára. Ég á Sigrúnu mikið að þakka, hún hefur kennt mér margt og hefur alltaf stutt mig í gegnum lífið. Við erum bestu vinkonur í dag.“

Vorum reknar úr tíma
„Það var yndislegt að alast upp í Mosfellssveit, hér er gott að vera og ég vil hvergi annars staðar eiga heima.
Ég gekk í Varmárskóla og Klara Klængsdóttir gerði sitt besta til að reyna að kenna mér að lesa og henni tókst það á endanum. Eitt sinn vorum ég og vinkona mín reknar úr tíma fyrir að hlæja of mikið. Þetta var mikill skellur, ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær.
Pabbi fór í það ásamt öðrum að koma af stað handboltadeild innan Aftureldingar. Hann þjálfaði alla flokka á tímabili og hefur oft verið kallaður faðir handboltans í Mosfellsbæ. Ég reyndi fyrir mér í boltanum en það gekk nú því miður ekki eftir,“ segir Sveinbjörg og hlær.

Passaði öll börnin í götunni
„Eftir útskrift úr Gaggó Mos sótti ég um í Fjölbraut í Breiðholti eins og flestar mínar vinkonur. Ég fékk höfnun sem var mikið áfall og var vísað á Kvennaskólann í Reykjavík. Ein vinkona mín sem var í Kvennó var alltaf að læra, það var ekki séns að ná í hana í síma. Ég ætlaði sko ekki í þann pakka.
Í ljós kom að flestum vinkonum mínum var síðan vísað á Kvennó og þangað fórum við. Ég á þeim góða skóla allt að þakka því þar lærði ég að læra.
Á leikskólanum Hlaðhömrum vann ég öll sumur. Þar kviknaði áhugi minn á börnum. Auðvitað hafði ég alltaf haft áhuga á að passa börn enda saknaði ég þess að eiga ekki systkin. Ég held að ég hafi passað öll börnin í götunni á sínum tíma.“

Barnabörnin orðin þrjú
Sveinbjörg á þrjú börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Svani Magnússyni, en þau slitu samvistum árið 2000. Elst barna þeirra er Kolbrún fædd 1981, Davíð Hlíðdal fæddist svo 1985 og yngst er Magnea Rós fædd 1995. Barnabörnin eru þrjú, Gabríel Davíð, Sonja Karen og Viktor Ari.

Mamma hafði mikla ástríðu fyrir börnum
„Árið 1999 lést móðir mín eftir að hafa barist við krabbamein í tvö ár. Þetta er erfiðasta ár sem ég hef upplifað. Ég hélt að það væri ekki hægt að sigrast á þessari sorg, en ég á yndislegan pabba sem hefur stutt mig í blíðu og stríðu. Án hans held ég að ég hefði ekki getað lært að lifa með sorginni.
Mamma var engri lík, hún hafði mikla ástríðu fyrir börnum. Hún starfaði í sundlauginni að Varmá þegar hún lést. Öll börn sem fóru í skólasund muna vel eftir henni enda var hún amma allra barnanna.“

Börn eru skapandi einstaklingar
„Ég útskrifaðist úr Fósturskólanum árið 1985 og fékk starf á leikskólanum Birkibæ.
Vorið 1986 tók ég við deildarstjórastöðu á Leikskólanum Hlaðhömrum og svo við leikskólastjórastöðunni árið 2002.
Leikskólinn starfar í anda Reggio stefnunnar. Hún er að uppruna frá borg í Ítalíu sem nefnist Reggio Emilia. Frumkvöðull þessarar stefnu hét Loris Malaguzzi. Hann sagði að börn hafi 100 mál en frá þeim séu tekin 99, að börn væru skapandi einstaklingar sem búa þarf umhverfi sem hvetur þau til náms.
Barnið lærir með því að kanna, fást við og upplifa.
Til þess að nálgast þessa hugmyndafræði er leikskólinn Hlaðhamrar vel búinn efniviði og aðstöðu s.s. rúmgóðum listaskála. Mikið er notaður verðlaus efniviður til myndlistar og sköpunar.”

Áhersla lögð á gæði í samskiptum
Starfsárinu er skipt í ákveðin þematímabil með ákveðinni yfirskrift sem þó er ekki bindandi því fyrst og fremst er farið eftir áhugasviði barnanna hverju sinni. Sérstök áhersla er lögð á gæði í samskiptum, með aðaláherslu á virðingu, vináttu og kærleik, og svo skapandi starf þar sem tekið er tillit til löngunar barnsins hér og nú og þeim búinn skapandi efniviður og aðstæður í máli og myndum, til leikja sem og í öðru starfi.
Með þessu teljum við að barnið verði skapandi og frjór einstaklingur með hæfni til að velja og hafna í framtíðinni og takast á við formlegra nám síðar meir.
Börn læra best í gegnum leik. Það er mikilvægt að gera leiknum hátt undir höfði og horfa á sterku hliðar barnsins og efla jákvæða sjálfsmynd þess.
Það er mikilvægt að gera fyrsta skólastiginu hátt undir höfði, það er mikilvægasta skólastigið að mínu mati.“

Verðum að halda vel á spöðunum
„Áhugamál fjölskyldunnar er klárlega handboltinn enda er hann okkur í blóð borinn. Börnin mín hafa öll spilað handbolta og í fyrra voru þau öll í sama liðinu hjá Aftureldingu. Þá varð mömmuhjartað stolt.
Ég hef starfað lengi við barna- og unglingastarf og hef verið m.a. í stjórn barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar Aftureldingar og í meistaraflokksráði kvenna.
Ég held að kvennahandboltinn hér í bænum eigi eftir að koma til enda margar efnilegar stúlkur hér í bænum í handbolta. Við verðum að halda vel á spöðunum og ekki slaka á í þeim efnum.“

Mosfellingurinn 8. september 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

hjolasprettur

Hjóla í gegnum Mosó og keppa í hjólaspretti

hjolasprettur

Hjólreiðaviðburðurinn Tour of Reykjavik verður haldinn í fyrsta sinn sunnudaginn 11. september. Tour of Reykjavík býður upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum en keppnin sjálf er haldin í Laugardalnum og ýmist hjólað alla leið á Þingvelli eða styttri hringi í Laugardal og miðborginni.
Í lengstu vegalengdinni (110 km) verður hjólað í gegnum Mosfellsbæ. Bæði er um einstaklingskeppni og liðakeppni karla og kvenna að ræða en liðin samanstanda af fimm keppendum þar sem þrír bestu tímarnir telja.
Liðakeppni eykur spennuna í keppninni og er mjög þekkt í götuhjólreiðum erlendis eins og t.d. Tour de France en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt fyrirkomulag verður í keppni hérlendis.

Mesta spennan í Mosfellsbæ
Einn mest spennandi hluti keppninnar verður í Mosfellsbæ en þar fer POLAR spretturinn fram. Fjörið fer fram í Langatanga við Eirhamra þar sem hjólreiðafólkið mun taka u.þ.b. 300 metra sprett upp götuna.
Verðlaunað verður sérstaklega fyrir besta árangur karls og konu á þeim kafla en búast má við fyrstu hópunum um kl. 11. Tímatökubúnaður verður á staðnum, ásamt klukku, stóru uppblásnu marki, drykkjarstöð og plötusnúð.
Vonir standa til að Mosfellingar fjölmenni á göturnar og taki vel á móti keppendum en algengt er erlendis að berja á trommur, potta og allt það sem gefur frá sér hávaða. Hjólreiðafólkið kemur m.a. í fylgt lögreglu, dómarabíla, fjölmiðlabíls en útvarpað verður frá þessu í beinni útsendingu frá Rás 2.
Kjartan Freyr Ásmundsson frá ÍBR ásamt samstarfsfélögum sínum hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur segir: „Bæjarstjórn Mosfellsbæjar tók strax tekið vel í viðburðinn og starfsfólk aðstoðað við undirbúninginn en þess má geta að skátafélagið Mosverjar munu einnig annast brautargæslu um Nesjavallaleið, Grafning, Þingvallaleið og í gegnum Mosfellsbæ. Við kunnum öllum þessum aðilum bestu þakkir fyrir samstarfið.“

Skráning í keppnina er í fullum gangi á www.tourofreykjavik.is
en netskráningu lýkur föstudaginn 9. september kl. 23:00.

skataralafoss

Skátarnir flytja í nýtt húsnæði

skataralafoss

Skátafélagið Mosverjar er um þessar mundir að flytja í nýtt húsnæði í Álafosskvosinni.
„Við vorum að festa kaup á þessu fína húsnæði að Álafossvegi 18. Við fengum góðan styrk frá Mosfellsbæ og hjálp frá Arion banka. Þetta er fyrsta húsnæðið sem er í eigu skátafélags í Mosfellsbæ, hingað til höfum við verið í húsnæði á vegum bæjarins,“ segir Dagbjört Brynjarsdóttir félagsforingi Mosverja sem er annað stærsta skátafélag á landinu með 150 skátum.
„Við státum af góðu skátastarfi með traustu baklandi, öflugum sjálfboðaliðum og frábærum foreldrum. Við sjáum fram á enn meiri fjölgun núna með svona flottu húsnæði í frábæru umhverfi. Það var farið að þrengja verulega að okkur á gamla staðnum.“

Frábær staðsetning fyir skátastarfið
„Við erum alsæl með staðsetninguna og eigum eftir að nýta okkur vel Stekkjarflötina, Reykjalundarskóginn og það sem Kvosin hefur upp á að bjóða og þá menningu sem hér er.
Við upplifum okkur sérstaklega velkomin hér í Álafosskvosina en margir nágrannar hafa kíkt við og boðið okkur velkomin.“
„Starfið hjá okkur byrjar mánudaginn 12. september og erum við spennt að byrja starfsemina. Það er sérstaklega góður andi í húsinu. Upplýsingar um fundatíma og aldursbil er hægt að finna á heimasíðu Mosverja og Facebook-síðu okkar. Við hvetjum alla til að koma og sjá hvað við höfum að bjóða. Skemmtileg áskorun fyrir skemmtilega krakka,“ segir Dagbjört að lokum.