Stærsta verkefnið mitt hingað til

Anna Guðrún Auðunsdóttir viðskiptafræðingur á fjármálasviði Landspítalans greindist með krabbamein í maga árið 2019.

Líf Önnu Guðrúnar Auðunsdóttur tók sannarlega óvænta stefnu vorið 2019 er hún fékk þau tíðindi að hún hefði greinst með krabbamein í maga. Fjórum mánuðum síðar fór Anna í átta klukkustunda aðgerð þar sem magi hennar var fjarlægður og nýrri leið til meltingar var komið á. Hún hefur nú þurft að aðlagast nýjum raunveruleika.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna, árin fyrir vestan, veikindin og hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður þegar alvarleg áföll dynja yfir.

Anna er fædd í Reykjavík 26. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Sigurbjörg Guðmundsdóttir fyrrv. skrifstofumaður og Auðunn H. Ágústsson skipaverkfræðingur. Anna á einn bróður, Ágúst Jóhann f. 1974.

Léku saman í útileikjum
„Foreldrar mínir fluttu til Kaupmannahafnar og þar bjó ég fyrsta árið mitt eða á meðan faðir minn kláraði þar nám. Við fluttum síðan heim og ég er lengst af alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti. Þetta var mjög góður staður til að alast upp á, ungt hverfi og mörg börn sem voru saman úti í alls konar leikjum.“

Gleymdi að setja filmu í vélina
Anna gekk í Fellaskóla, Ölduselsskóla og Seljaskóla og henni gekk vel í námi. Hún var mikill lestarhestur og tungumál lágu vel fyrir henni. Við útskrift úr grunnskóla fékk hún safn af verkum H.C Andersen í verðlaun fyrir góðan árangur í dönsku.
„Mér er minnisstætt að þegar ég var í 9. bekk þá var Eiríkur Hauksson söngvari kennari við skólann. Þetta var á sama tíma og lagið Gaggó Vest kom út og Eiríkur var fenginn til að skemmta á árshátíð skólans. Ég var dugleg að taka myndir um kvöldið en áttaði mig svo á að það var engin filma í vélinni, það olli mikilli sorg,“ segir Anna og brosir er hún rifjar upp æskuminningarnar.

Kynntust á Ísafirði
„Eftir skólaskyldu fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifast þaðan 1990. Þaðan fór ég beint í Kennaraháskólann og útskrifaðist 1993. Ég tók síðan ákvörðun um að ráða mig í kennslu út á landi og varð Ísafjörður fyrir valinu, þar kenndi ég við grunnskólann í þrjú ár.“
Anna kynntist eiginmanni sínum, Friðriki Má Gunnarssyni, á Ísafirði en hann starfar sem kerfisfræðingur hjá Össuri. Þau eiga tvö börn, Valdísi Björgu f. 1996 sem útskrifaðist úr ferðamálafræði frá HÍ og er nú að læra að verða heilsunuddari og Bjarka Má f. 1998 en hann er nemi í tölvunarfræði við HR.

Þar sem borgin og sveitin mætast
„Við bjuggum á Ísafirði þegar snjóflóðin féllu í Tungudal, á Súðavík og Flateyri. Þegar ég vaknaði við fréttirnar af flóðinu á Flateyri fannst mér tími til kominn að skipta um umhverfi. Ekki að ég hafi verið hrædd heldur langaði mig í fjarlægð frá atburðunum.
Við fluttum til Noregs 1997 og þar líkaði okkur vel að vera. Fyrsta árið kenndi ég íslenskum börnum íslensku og fór svo í barneignarfrí. Haustið 1999 fluttum við aftur heim því okkur langaði til að vera nær fjölskyldum okkar.
Við fluttum í Grafarvoginn og þaðan í Mosfellsbæinn og áttuðum okkur fljótt á hvað þetta er frábær staður til að ala upp börn. Kannski má segja að það henti vel að sameina Ísfirðinginn og borgarbarnið hér, þar sem borgin og sveitin mætast,“ segir Anna og hlær.
„Ég hóf störf hjá Tryggingamiðstöðinni og starfaði þar í mismunandi störfum. Ég fór í fjarnám og útskrifaðist úr viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri 2007.“

Stóð upp úr sófanum eftir fertugt
„Í gegnum tíðina hef ég haft mjög gaman af ferðalögum, handavinnu og eins hef ég lesið töluvert. Síðustu ár hef ég svo fallið fyrir hreyfingu og útivist og ég segi stundum að ég hafi staðið upp úr sófanum um fertugt.
Ég byrjaði að hlaupa og áttaði mig á að ég er með mikið keppnisskap. Eftir nokkur 10 km og hálfmaraþonhlaup langaði mig í eitthvað stærra og árið 2016 kláraði ég Laugavegshlaupið sem er 55 km utanvegahlaup og var óendanlega stolt af því,“ segir Anna og brosir.
„Í nokkur ár hef ég hlaupið með hlaupahópi í Mosó sem kallar sig morgunfuglana og þar hef ég eignast góðar vinkonur. Haustið 2016 kom upp sú hugmynd að skella sér í Landvættina og það varð úr. Ég mæli sannarlega með þessu fyrir þá sem langar að gera eitthvað sem er bæði ótrúlega skemmtilegt og krefjandi.
Í kjölfarið fór ég svo að prófa sjósund í Nauthólsvík og í dag finnst mér sundið eitt það besta sem ég geri fyrir líkamlega og andlega vellíðan.“

Maður metur hlutina á annan hátt
„Lengi vel upplifði ég að ég væri nánast fædd undir heillastjörnu, ég hafði sloppið við öll áföll og grínaðist oft með það að við hjónin værum hálfgerðar risaeðlur. Við værum enn gift, foreldrar okkar beggja líka og allir voru heilsuhraustir. Sú staða breyttist árið 2017 er mágur minn tók sitt eigið líf og við tók erfitt tímabil. Við slíka lífsreynslu vakna alls konar spurningar og maður fer að meta hlutina á annan hátt.“

Upplifði að ég hefði ekki annan kost
„Haustið 2017 sagði ég skilið við Tryggingamiðstöðina eftir 18 ár. Ég ákvað sjálf að hætta við erfiðar aðstæður þar sem ég upplifði að ég hefði ekki annan kost. Það tók á andlega og ég þurfti að vinna mikið í sjálfri mér í kjölfarið.
Ég fékk að reyna á eigin skinni að það er ekki auðvelt að skipta um starfsvettvang með næstum fimmtuga kennitölu og ég var atvinnulaus í nokkra mánuði. Ég er mikil prinsipp-manneskja og tilhugsunin um að sækja um atvinnuleysisbætur fannst mér í raun óhugsandi. Eftir á að hyggja er ég í raun þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til þroska og myndi ekki breyta ákvörðuninni þó ég gæti.
Fyrir tveimur árum hóf ég störf á fjármálasviði Landspítalans, þar starfa ég við tekjubókhald. Ég fór líka í MPM-nám í verkefnastjórnun við HR.“

Greind með krabbamein í maga
„Vorið 2019 fékk ég stærsta verkefnið í lífi mínu hingað til þegar ég var greind með krabbamein í maga. Ég hafði verið með óþægindi í meltingunni en hafði ekki haft miklar áhyggjur því mér fannst það algengt í kringum mig. Haustið áður var ég samt búin að fara til heimilislæknisins sem fann ekkert sérstakt að hjá mér.
Ég fór síðan að finna fyrir því að þegar ég borðaði varð ég mjög fljótt södd og átti erfitt með að ropa. Þetta truflaði mig ekki alvarlega nema í þau skipti sem ég ætlaði að gera vel við mig í mat og drykk, þá gat ég lítið borðað og leið verulega illa.“

Gaf sér góðan tíma til að útskýra málið
Smátt og smátt minnkaði magaplássið hjá Önnu og þegar hún leitaði aftur til læknisins þá voru allar máltíðir orðnar óeðlilega litlar. Hún var send í magaspeglun og þar kom í ljós æxli á mótum maga og vélinda sem átti upptök sín í magaveggnum.
„Mig langar að hrósa Sigurjóni meltingasérfræðingi sérstaklega fyrir það hvernig hann færði mér þessar erfiðu fréttir. Hann gaf sér góðan tíma til að útskýra málið og fullvissaði sig svo um að ég meðtæki tvo punkta, að þetta væri alvarlegt en það væri læknanlegt. Ég vil meina að þarna hafi hann hjálpað mér að stilla á mér höfuðið fyrir framhaldið.
Ég veit að ég hafði enga stjórn á aðstæðum en ég gat stjórnað mínum eigin viðbrögðum. Ég leit alltaf á þetta sem tímabundið verkefni og varð aldrei verulega hrædd. Auðvitað er alltaf hætta á að greinast aftur síðar en ég er fljót að stoppa slíkar hugsanir. Það er svo tilgangslaust að eyða orku í að hafa áhyggjur af því sem gæti gerst.“

Reyndi að halda einhverri virkni
„Í framhaldi af greiningunni fór ég í jáeindaskanna sem sýndi sem betur fer enga dreifingu meinsins. Ég hitti síðan krabbameinslækni sem ákvað framhaldið á meðferðinni. Ég byrjaði á átta vikna þungri lyfjameðferð sem kallast FLOT4. Ég þoldi hana ágætlega þó að hún hafi ekki verið auðveld. Sem betur fer eru komin svo góð stuðningslyf sem minnka mikið aukaverkanir af krabbameinslyfjunum sjálfum. Ég slapp því að mestu við ógleði, sem ég hafði kviðið mikið fyrir.
Ég tók frí frá vinnu og námi á meðan á meðferðinni stóð, ég reyndi samt að halda einhverri virkni, fara í göngutúra og hitta fólk.“

Passaði slönguna eins og gull
„Dagarnir voru misjafnir, stundum var ég eldhress og aðra daga hafði ég enga orku.
Ég missti hárið og fannst það ekki erfitt, hafði ekki þörf fyrir að fá mér hárkollu. Ég fékk mér samt tattú á augabrúnirnar svo ég yrði ekki alveg sviplaus,” segir Anna og brosir.
Ég lenti í ævintýri á þessu tímabili, ég fékk eitt lyf í æð með lyfjadælu sem ég tók með mér heim. Í eitt skiptið náði kötturinn minn Viggó að bíta í sundur slönguna með lyfinu og það sprautaðist yfir mig alla. Ég held að ég hafi aldrei verið eins snögg að stökkva á fætur eins og þarna, ég hringdi á spítalann til að spyrja hvað ég ætti að gera. Sem betur fer var þetta lyf ekki hættulegt við snertingu og ég gat fengið nýjan skammt daginn eftir. Ég passaði slönguna eins og gull eftir þetta.“

Maginn fjarlægður
„Í september var komið að öðrum fasa í meðferðinni þegar skurðlæknirinn minn fjarlægði magann, neðsta hluta vélindans og alla eitla við magann, auk þess að tengja saman vélinda og smáþarma. Þetta var átta klukkustunda aðgerð.
Ég var óheppin eftir aðgerðina því ég fékk lungnabólgu með miklum fleiðruvökva sem þurfti að tappa af með drenum. Ég lá því inni í þrjár vikur í staðinn fyrir eina. Ég var mjög veik, alveg kraftlaus og missti mikinn vöðvamassa þar sem ég var rúmliggjandi og á lítilli næringu. Endurhæfingin snerist til að byrja með bara um að standa upp úr rúminu og ganga nokkra metra með göngugrind og súrefniskút.“

Aðlagast nýjum raunveruleika
„Mér finnst alveg magnað að hægt sé að búa til nýja meltingu sem virkar eftir svona aðgerð og hvernig líkaminn getur aðlagast nýjum raunveruleika. Ég byrjaði á næringu í æð fyrstu dagana, svo fljótandi fæði og fór síðan að prófa mig áfram með fasta fæðu tveimur vikum eftir aðgerð. Í dag get ég borðað flest en hef minna pláss og ef ég borða of mikið fæ ég verki, auk þess þoli ég ekki hvað sem er.
Í kjölfar veikindanna hef ég misst rúmlega 20 kg og geri grín að því að ég hef verið að reyna að losa mig við þau í 25 ár og loksins tókst það. Ég mæli samt ekki með þessar aðferð,“ segir Anna og brosir.
„Í nóvember þegar ég var búin að jafna mig þokkalega eftir aðgerðina hófst svo önnur umferð af átta vikna lyfjameðferð en henni lauk í janúar. Hún gekk vel en ég var þreyttari en í fyrri umferðinni, bæði líkamlega og andlega.“

Þarna fer fram magnað starf
„Í gegnum meðferðina og eftir að henni lauk hef ég nýtt mér þjónustuna hjá Ljósinu sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Þar fer fram magnað starf og starfsfólkið er dásamlegt. Ég mæli með fyrir alla sem greinast með krabbamein að leita til Ljóssins sem fyrst því endurhæfingin hefst í raun strax við greiningu.
Ég hef oft hugsað í gegnum þetta ferli hversu mikla sérstöðu krabbamein hefur í huga fólks. Ég upplifði að allir í kringum mig höfðu áhyggjur og vildu fylgjast með og ég kann virkilega að meta það. Ég fékk mitt verkefni sem var vissulega erfitt á meðan á því stóð og ég sit eftir með ákveðnar afleiðingar sem ég þarf að læra að lifa með. En þegar ég lít í kringum mig er samt svo mikið af fólki sem er að ganga í gengum miklu erfiðari veikindi en fær ekki sömu athygli af því það er ekki með krabbamein.“

Með jákvæðni að leiðarljósi
„Í dag er ég laus við krabbameinið og er óendanlega þakklát fyrir hversu vel þetta hefur gengið. Með jákvæðni að leiðarljósi gengur allt betur. Ég verð í eftirliti í einhver ár en annars lít ég svo á að þessu verkefni sé lokið.
Mér líður vel, er komin í fulla vinnu og í MPM-námið sem ég stefni á að útskrifast úr næsta vor, svo hver dagur er upp á við.
Mig langar að lokum að fá að óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vona að nýja árið færi okkur öllum birtu, yl og fleiri samverustundir,“ segir Anna er við kveðjumst.