Halla Karen hlýtur Gulrótina 2020

Ólöf Kristín og Halla Karen með lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar.

Í vikunni var lýðheilsuviðurkenningin Mosfellsbæjar, Gulrótin afhent í fjórða skipti. Að þessu sinni kom hún í hlut Höllu Karenar Kristjánsdóttur.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.
Það var Ólöf Kristín Sívertsen verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ sem færði Höllu Karen viðurkenninguna sem í ár var listaverk frá Ásgarðsmönnum úr Álafosskvos.
Gulrótin afhent í fjórða skipti
Það eru Heilsuvin og Mosfellsbær sem standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu. Í ár er það Halla Karen íþróttafræðingur sem hlýtur viðurkenninguna fyrir að stuðla að aukinni hreyfingu og gleði meðal bæjarbúa til áratuga.

Hrífur fólk með jákvæðni og hvatningu
Í rökstuðningi segir að Halla Karen hafi verið í fremstu röð og í raun óþreytandi við að hvetja bæjarbúa til hreyfingar og heilbrigðari lífsstíls í áratugi. Hún starfræki m.a. hlaupahóp í bænum og hafi einnig gert frábæra hluti varðandi hreyfingu eldri Mosfellinga síðustu ár.
Halla Karen fái fólk ekki eingöngu til að hreyfa sig heldur stuðli hún jafnframt að félagslegri og andlegri vellíðan með uppbyggjandi fróðleik, núvitund, skemmtilegum spakmælum um heilsu og endalausri hvatningu. Með jákvæðni sinni og lífsgleði hrífi hún fólk með sér til hreyfingar og bætts lífsstíls og sé mikil og góð fyrirmynd fyrir alla bæjarbúa.