Stefna að því að framleiða umhverfisvænasta malbik í heimi

Malbikstöðin á Esjumelum var tekin í gagnið í sumar.

Vilhjálmur Matthíasson

Fagverk verktakar hafa tekið í notkun nýja malbikunarstöð á Esjumelum undir nafninu Malbikstöðin ehf. og er hún með afkastagetu sem samsvarar malbiksþörf höfuðborgarsvæðisins á ársgrundvelli. Heildarfjárhæð fjárfestingarinnar í malbikunarstöðinni er í kringum 2,5 milljarðar.
Nýja stöðin gerir fyrirtækinu kleift að framleiða mun umhverfisvænna malbik en mögulegt hefur verið til þessa á Íslandi. Vilhjálmur Matthíasson eigandi segir Malbikstöðina stefna að því að vera leiðandi í umhverfisvænni framleiðslu malbiks á Íslandi. Nýr tækjabúnaður gerir fyrirtækinu kleift að framleiða malbik með mun hærra hlutfalli af endurunnu malbiki en hefur verið hingað til.

Samstarf við Sorpu um kaup á metani
Á dögunum var undirrituðuð viljayfirlýsingu við Sorpu um kaup og sölu á allt að milljón normalrúmmetrum (Nm3) af hreinsuðu metangasi á ári. Það samsvarar tæplega helmingi af afkastagetu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU.
Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri SORPU, segir að töluverð eftirspurn sé eftir metangasi og það komi ekki á óvart.
„Það er okkur heiður að styðja við framleiðslu á því sem gæti orðið umhverfisvænasta malbik í heimi,“ segir Helgi. Vilhjálmur tekur í sama streng og segist stoltur af því að hafa náð að hrinda verkefninu í framkvæmd með starfsfólki SORPU. „Malbikunarstöð okkar verður umhverfisvænni fyrir vikið og það er gleðiefni,“ segir Vilhjálmur.

Skipta út dísilolíu fyrir metan
Esjumelar tilheyra Reykjavík og hefur Mosfellsbær kært Reykjavíkurborg vegna deiliskipulagsbreytinga á Esjumelum varðandi það að stór hluti svæðisins fari úr að vera athafnasvæði yfir í iðnaðarsvæði.
Hvað finnst Vilhjálmi um það?
„Jú, eins og ég hef sagt áður þá leggjum mikla áherslu á umhverfismál og með nýrri hugsun í framleiðslu á malbiki gætum við mögulega farið að framleiða umhverfisvænasta malbik í heimi.
Malbik er nauðsynlegt fyrir vegakerfi landsins og umhverfissjónarmið fyrirtækisins miðar að því að draga enn frekar úr kolefnislosun við framleiðslu á malbiki með því að skipta út dísilolíu fyrir Metan.
Til að útskýra aðeins ferlið þá þarf að hita upp steinefni og þurrka þau við framleiðslu malbiks. Við það er notaður díselbrennari en steinefnin sjálf fara inn í hitatromlu. Þess vegna kemur þessi gufa annað slagið frá stöðinni sem margir telja vera reyk. Risastórir filterar sjá um að sía allt rykið í sér tanka sem er síðan dælt aftur í malbikið. Tjaran sem fer í malbikið er algjörlega sér og henni er haldið heitri með rafmagni og dælt út í steinana þegar búið er að þurrka og hita þá.
Eini óumhverfisvæni útblásturinn er af brennurunum, því erum við að skipta út fyrir metan og verður það vonandi framkvæmt á næsta ári. Þá tökum við út díselbrennarann og skiptum yfir í metanbrennara.“

Ekki þörf á annarri malbikunarstöð
„Ástæða þess að við réðumst í uppsetningu á stöðinni okkar er sú að Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar (Höfði) við Sævarhöfða er að loka. Eins og komið hefur fram í umræðunni bæði á pólitískum vettvangi og á samfélagsmiðlum þá ríkir ekki mikil ánægja með uppbyggingu malbiksstöðvar í nágrenni Mosfellsbæjar.
Reykjavíkurborg sjálf hyggst reisa aðra malbikunarstöð á Esjumelum í nafni Höfða í stað þess að hætta í samkeppnisrekstri. Það er mín skoðun að opinberir aðilar eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri.
Til þess að setja hlutina í samhengi, ef þær malbikunarstöðvar sem eru á markaði í dag yrðu allar settir í gang samtímis og myndu framleiða malbik án þess að stoppa, gætu þær framleitt ársþörf höfuðborgarsvæðisins á u.þ.b. 14 dögum. Og er þá ekki búið að benda á þá gífurlegu fjárbindingu fyrir borgarbúa sem fylgir slíkri uppbyggingu. Þar sem fjármunir borgarbúa eru nýttir í áhætturekstur og í harðri samkeppni við einkaaðila.“