Fyrsti Mosfellingur ársins kom í heiminn á nýársnótt

Snorri, Jakob Hrannar, Jóna Magnea og Þorlákur Hrannar.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2025 er drengur sem fæddist á Landspítalanum kl. 03:25 þann 1. janúar og mældist 3.690 gr og 53 cm.
Foreldrar hans eru þau Jóna Magnea Magnúsdóttir Hansen og Snorri Pálsson, fyrir eiga þau soninn Jakob Hrannar sem er 9 ára. Litli drengurinn hefur fengið nafnið Þorlákur Hrannar en skírn hans mun fara fram í apríl.
„Þau ákváðu Þorlákur en ég ákvað Hrannar,“ segir Jakob Hrannar stoltur stóri bróðir.
Jóna Magnea er uppalinn Mosfellingur og segist hafa spurt Snorra á þeirra öðru stefnumóti hvernig honum líkaði Mosó því hún myndi aldrei flytja héðan en Snorri er úr Garðabænum. Þau segja að á bak við Þorlák Hrannar sé mikil og falleg saga sem nær sex ár aftur í tímann.
„Þegar Jakob Hrannar var um 3 ára fór hann að biðja um systkini, við byrjuð að reyna að eignast barn sem gekk ekki vel og á einu og hálfu ári misstum við þrisvar sem var mjög erfitt. Við héldum áfram að reyna árangurslaust í rúm tvö ár.“

Líkurnar meiri erlendis
„Við fórum svo í eina meðferð hjá Livio hér heima en svo var okkur bent á að líkurnar væru meiri erlendis bæði í Alicante og í Grikklandi. Við fengum stuðning og styrk frá fjölskyldunni til að fara til Alicante í frjósemismeðferð. Litla kraftaverkið okkar kom í fyrstu tilraun og erum við mjög þakklát fyrir þetta allt saman,“ segir Jóna Magnea.
„Hann átti að koma í heiminn 29. desember, en ákvað að koma á nýju ári. Það var mjög gaman að keyra niður á Landspítala í allri flugeldadýrðinni. Þegar við komum á fæðingardeildina var Jóna Magnea komin með 8 í útvíkkun og hafði misst vatnið áður en hún komst upp á skoðunarbekkinn.
Fæðingin var strembin en hann dafnar vel og er alveg dásamlegur,“ segir Snorri. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með Þorlák Hrannar.