Þóra útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Á sér­stakri há­tíð­ar­dagskrá við setn­ingu bæj­ar­há­tíð­ar­inn­ar Í tún­inu heima í Mos­fells­bæ fimmtu­dag­inn 29. ág­úst var leir­lista­kon­an Þóra Sig­ur­þórs­dótt­ir út­nefnd bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar 2024.
Menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd Mos­fells­bæj­ar sér um val bæj­arlista­manns ár hvert og veitti Hrafn­hild­ur Gísla­dótt­ir formað­ur nefnd­ar­inn­ar leir­lista­kon­unni Þóru Sig­ur­þórs­dótt­ur verð­launa­grip eft­ir lista­kon­una Ingu El­ínu ásamt við­ur­kenn­ing­ar­fé sem fylg­ir nafn­bót­inni.

Framúrskarandi í leirlist
Þóra Sig­ur­þórs­dótt­ir stund­aði nám við Mynd­list­ar­skóla Reykja­vík­ur og lauk prófi frá leir­list­ar­deild Mynd­list­a- og hand­íða­skóla Ís­lands árið 1989.
Að loknu námi opn­aði hún vinnu­stofu í Ála­fosskvos og tók mik­inn þátt í því fjöl­skrúð­uga list­a­lífi sem blómg­að­ist næstu árin í kvos­inni. Marg­ir lista­menn voru þar með opn­ar vinnu­stof­ur, tóku á móti gest­um og héldu sam­sýn­ing­ar á staðn­um.
Þóra vinn­ur jafnt nytja­hluti sem skúlp­túra og nýt­ir ásamt leir og járni ann­an efni­við í list­sköp­un sinni, til dæm­is hross­hár og kinda­horn.
Þóra hef­ur hald­ið fjöl­marg­ar einka­sýn­ing­ar og tek­ið þátt í sam­sýn­ing­um bæði hér á landi og er­lend­is. Hún er bú­sett í Mos­fells­bæ og starf­ræk­ir vinnu­stofu að Hvirfli í Mos­fells­dal.
Þóra hef­ur ver­ið framúrsk­ar­andi í leir­list hér á landi síð­ustu ára­tugi og því vel að heiðr­in­um komin sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024.

Sjálfboðaliðar

Ég hef verið sjálfboðaliði síðan ég var gutti. Fannst það eðlilegur hluti af tilverunni að hjálpa til í kringum fótboltann hjá Þrótti þar sem ég tók mín fyrstu sjálfboðaliðaskref. Sjálfboðaliðastarf er risastór hluti af íslensku samfélagi. Viðbragðsaðilar Almannavarna eru að stórum hluta sjálfboðaliðar. Björgunarsveitirnir eru þar í aðalhlutverki en hlutverk sjálfboðaliða Rauða krossins er sömuleiðis mjög mikilvægt. Íþróttir á Íslandi byggja á sjálfboðaliðum. Það eru engin Manchester City eða Nottingham Forest hér. Það á enginn íþróttalið á Íslandi. Við eigum þau saman, samfélagið. Sjálfboðaliðar mynda stjórnir, taka ákvarðanir og fá aðra með sér í að halda mót og fjárafla. Halda starfinu gangandi. Gera börnunum okkar mögulegt að æfa hjá sínu félagi.

Sumir sjálfboðaliðar eru áberandi í samfélaginu. Drifkraftar sem brenna fyrir félaginu sínu, björgunarsveitinni sinni, íþróttinni sinni. Þessir drifkraftar eru mjög mikilvægir. Stundum of mikilvægir. Við treystum svo mikið á frumkvæði þeirra og getu þeirra til að leiða verkefni að við förum að treysta of mikið á þau. Hanna græjar þetta, engar áhyggjur. Þessir drifkraftar stoppa aldrei, en við hin þurfum að passa upp á þau, taka af þeim álagið og dreifa ábyrgðinni.

Aðrir sjálfboðaliðar eru minna sýnilegir en jafn mikilvægir. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem opna fjöldahjálparstöðvar og sinna sálrænum stuðningi og áfallahjálp eru minna sýnilegir en sjálfboðaliðar í leitar- og björgunarstörfum úti á vettvangi, en jafn mikilvægir. Einar Þór, vinur minn, sem verður 60 ára á þriðjudaginn er jafn mikilvægur Hönnu sinni, þótt hann sé ekki eins sýnilegur í samfélaginu. Einar er bóngóður, úrræðagóður, traustur vinur og félagi. Alltaf tilbúinn til að hjálpa til og finna lausnir á verkefnum og áskorunum. Ég hvet alla Einarsvini til að koma með okkur í Þrautahlaup Einars á þriðjudaginn til að heiðra manninn bak við tjöldin og sýna í verki að allt sem hann hefur gert fyrir Mosó skiptir okkur miklu máli!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. september 2024

Ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar, en hún var valin úr hópi 23 umsækjenda.

Sem framkvæmdastjóri mun hún koma til með að bera ábyrgð á rekstri sóknarinnar, mannauðsmálum, umsjón með kirkjugörðum, fasteignum og sitja sóknarnefndarfundi. Jóhanna Ýr hóf störf í byrjun ágúst. Hún er með B.A. í guðfræði, diploma próf í kennslufræðum ásamt því að hafa lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá EHÍ. Jóhanna Ýr hefur áður unnið við kennslu í Grunnskólanum í Hveragerði og Sunnulækjarskóla á Selfossi, var verkefnastjóri fræðslustarfs við Selfosskirkju, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og skrifstofustjóri hjá Framsókn. Þá er Jóhanna Ýr bæjarfulltrúi Framsóknar í Hveragerði og fyrrum forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

Jóhanna Ýr býr í Hveragerði ásamt sambýlismanni sínum Ara Guðmundssyni og samtals eiga þau sex börn. Jóhanna Ýr segist vera afar spennt fyrir nýja starfinu, hlakkar til að vinna með samstarfsfólki og sóknarnefnd að þjónustu og frekari uppbyggingu sóknarinnar.

Líf mitt snýst um íþróttir

Gunnar Birgisson þekkja margir af skjánum en hann hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli sem íþróttafréttamaður. Gunnar hefur einnig sinnt öðrum dagskrárliðum hjá RÚV eins og Landanum, Skólahreysti og Eurovision söngvakeppninni en hann fylgdi íslensku Eurovisionförunum eftir í Malmö í Svíþjóð sl. vor.
Gunnar sem hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 2010 segir Eurovisionævintýrið og Ólympíukvöldin frá nýafstöðnum Ólympíuleikum vera það skemmtilegasta sem hann hefur gert á sínum starfsferli.

Gunnar er fæddur á Sauðárkróki 14. júlí 1994. Foreldrar hans eru Þorgerður Sævardóttir kennari og nuddari og Birgir Gunnarsson framkvæmdastjóri Þjóðkirkjunnar. Gunnar á tvö systkini, Sævar f. 1988 og Birgittu f. 2001.

Allt til staðar á þessum tíma
„Ég er alinn upp á Sauðárkróki og bý að því í dag að hafa notið þeirra forréttinda að alast upp úti á landi. Þetta var lítið og samheldið samfélag og allt sem maður þarfnaðist var til staðar á þeim tíma. Maður lék sér úti allan liðlangan daginn með systkinum sínum og vinum. Á veturna var vinsælt að vera á skíðum í götunni okkar og á sumrin lék maður sér í fótbolta eða körfubolta.
Við flytjum í Mosfellsbæ þegar ég var á leið í 8. bekk og ég er þakklátur fyrir það þótt ég hafi verið allt annað en sáttur við foreldra mína þegar þau tilkynntu flutninginn á sínum tíma. Hér í Mosó hef ég eignast mína bestu vini, kynnst kærustunni minni og búið til dásamlegt líf.“

Sumarkvöldin voru góð
„Æskuminningarnar eru margar og góðar, ég fékk frábært tónlistaruppeldi heima í Hólatúninu, Bubbi, ELO, Bob Dylan, Eagles og Michael Jackson. En keppnir milli okkar systkinanna í hinum ýmsu íþróttagreinum og þá einna helst gönguskíðum á veturna standa upp úr. Sævar bróðir kunni á alla takkana mína eins og ég síðan eflaust með Birgittu litlu systur. Ég á enn þann dag í dag eftir að finna eitthvað sem ég get unnið hann í,“ segir Gunnar og brosir.
Árlegar ferðir á Andrésar Andar leikana á skíðum á Akureyri voru líka eftirminnilegar, árið miðaðist svolítið við þá keppni. Sumarkvöldin voru líka góð, þá lék maður sér úti í fótbolta eða gerði einhver prakkarastrik. Í minningunni var alveg nóg af þeim og eflaust of mikið af þeim. Hugsa að ég hafi verið nokkuð krefjandi ungur maður með mikið skap sem kom mér oft í vandræði.“

Keppnisskapið fleytti mér langt
„Ég byrjaði í Árskóla á Sauðárkróki og var þar þangað til í 6. bekk, frábær skóli með skemmtilegum kennurum. Árið 2006 flytjum við fjölskyldan til Noregs í eitt ár og þá fór ég í Sore Ål skole í Lillehammer, stórkostlegt ár.
Árið 2008 flytjum við fjölskyldan svo í Mosfellsbæ og þá fór ég í Varmárskóla, sá skóli þótti mér til fyrirmyndar í öllu. Ég verð seint talinn afburða námsmaður en keppnisskapið fleytti mér nægilega langt til að standast allt saman með sæmd.
Á sumrin með skólagöngunni vann ég á útisvæðinu við Reykjalund, auk þess starfaði ég við knattspyrnuþjálfun hjá Aftureldingu.“

Flutti til Siglufjarðar
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla ætlaði ég mér beint í Verzlunarskóla Íslands en komst ekki inn. Í einhverju gríni setti ég Menntaskólann á Egilsstöðum í annað sætið í vali því ég var svo viss um að komast inn en allt í einu stóð ég uppi skólalaus.
Ég flutti þá norður á Siglufjörð til ömmu minnar og tók eina önn í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fór síðan í hálft ár til Svíþjóðar til að æfa með sænskum skíðamenntaskóla í Jonsköping og komst svo inn í Verzló ári seinna en planlagt var.“

Það þurfti smá sannfæringarkraft
Þegar Gunnar var á síðasta ári í Verzlunarskóla Íslands sótti hann um að verða íþróttalýsandi hjá RÚV í kringum Ólympíuleikana í Sochi árið 2014. Hann var ráðinn til starfa og hefur verið þar allar götur síðan.
„Það þurfti smá sannfæringarkraft til að fá skólastjórnendur til að trúa því að þetta væri eitthvað sem ég myndi vilja starfa við í framtíðinni. Þeir gáfu mér sem betur fer leyfi til að fara og lýsa og ég held að það sé akkúrat það sem skólakerfið ætti að gera þegar svona tækifæri bjóðast.
Árin á RÚV hafa verið frábær, ég er alinn upp í íþróttaumhverfi og það er mikill heiður að fá að starfa við sitt aðaláhugamál, sem íþróttafréttamaður,“ segir Gunnar og brosir.

Sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð
Gunnar hefur ekki eingöngu séð um íþróttafréttir fyrir Ríkissjónvarpið því hann hefur einnig komið að dagskrárgerð í Landanum, verið kynnir í Skólahreysti og svo fylgdi hann íslensku Eurovisionförunum til Svíþjóðar sl. vor.
„Eurovision er líklega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert á starfsferlinum. Þetta kom upp með stuttum fyrirvara og ég sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð, að fara út sem fréttamaður og fjalla um þessa áhugaverðu keppni. Það er svo mikil gleði, allt svo risastórt og stærra en maður hafði ímyndað sér.
Það skemmir ekki fyrir að við Mosfellingar erum svo rík af listamönnum að þeir spretta upp á hverju strái. Að fá að fylgja Heru Björk eftir í þessari keppni voru þvílík forréttindi, eitthvað sem maður lærði mikið af.“

Þetta starf er mér mjög kært
„Ég hef verið knattspyrnuþjálfari í 15 ár samhliða starfi mínu hjá RÚV, fyrst hjá Aftureldingu og nú hjá Breiðabliki og það starf er mér mjög kært. Að fá að taka þátt í uppeldi og að móta ung börn er eitthvað sem ég ber mikla virðingu fyrir og reyni að gera eins vel og ég mögulega get.
Mér þykir óskaplega vænt um að sjá litlu drengina sem ég þjálfaði fyrir 10-15 árum vera orðna að fullorðnum mönnum og standa sig vel í lífinu.“

Stefnumót í sundlaug
Unnusta Gunnars heitir Velina Apostolova, hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Högum og er einnig fyrirliði blakliðs Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna. Þau eiga saman dótturina Önnu Sóleyju f. 2020.
„Við Velina erum bæði mikið í íþróttum og á veturna þá fara kvöldin mikið í æfingar hjá okkur. Anna Sóley fylgir okkur hvert fótmál þannig að hinn hefðbundni kvöldmatartími er svo sem ekki til á okkar heimili. Fjölskyldan sameinast líka oft í sundlaugum Mosfellsbæjar sem er viðeigandi því fyrsta stefnumót okkar Velinu var einmitt í sundi,“ segir Gunnar og brosir.
„Um helgar fylgjum við dóttur okkar eftir í fimleikatímum hjá Aftureldingu og í íþróttaskólanum. Okkur finnst líka gaman að fara út að leika í okkar frábæra Helgafellshverfi og sömuleiðis að hitta ættingja og vini yfir kaffibolla.“

Mosfellsbær leitar að samstarfsaðilum fyrir þróunarverkefni

Bæjarráð hefur samþykkt tillögu um að skoða áhuga mögulegra samstarfsaðila á tveimur þróunarverkefnum á Varmársvæðinu.
Annars vegar þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og hins vegar þróun og uppbyggingu á lóð við Háholt 5. Markmiðið er að veita áhugasömum og hæfum aðilum tækifæri til að koma fram með hugmyndir að þróun og uppbyggingu á svæðinu. Opnað verður fyrir umsóknir fyrir bæði verkefnin í byrjun september.

Spennandi vegferð
„Við erum á spennandi vegferð í Mosfellsbæ með uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og frekari nýtingu aðliggjandi svæða. Þessi þróunarverkefni eru liður í þeirri vinnu,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Þegar við fórum í þarfagreiningu á íþróttahúsinu og nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu þá kom í ljós þörf á stærra rými og umfangsmeiri breytingum en ráð var fyrir gert. Þess vegna viljum við freista þess að fá áhugasama aðila til samstarfs með samnýtingu á þjónustu- og aðkomubyggingunni.
Við viljum líka skoða hvaða tækifæri eru í nýtingu lóðarinnar við Háholt sem liggur nálægt Varmársvæðinu. Þetta ferli skuldbindur ekki Mosfellsbæ en gefur okkur tækifæri til að kanna áhuga aðila á markaði og félagasamtaka áður en næstu skref varðandi uppbyggingu verða tekin.“

Upplýsingaöflun um hugmyndir
Eingöngu er um markaðskönnun að ræða á grundvelli 45. gr. laga um opinber innkaup, þ.e. upplýsingaöflun um hugmyndir áhugasamra aðila á markaði hvað varðar nýtingu á svæðinu og hvernig hún fellur að þörfum og væntingum Mosfellsbæjar og Aftureldingar.
Ekki er tryggt að markaðskönnun leiði til útboðs og þátttaka í henni ekki talin forsenda þátttöku í síðara innkaupaferli/útboði.


Þjónustu- og aðkomubygging íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá:
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun, byggingu og/eða nýtingu á uppbyggingu á nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá.
Þjónustu- og aðkomubygging verður nýtt af Mosfellsbæ og Aftureldingu. Byggingin getur að hámarki orðið 3.000 m2, en ný þarfagreining Mosfellsbæjar og Aftureldingar gerir ráð fyrir allt að 1.700 m2 aðstöðu.
Starfsemi sem kæmi til greina í þjónustu- og aðkomubyggingu er íþrótta- og heilsutengd starfsemi á borð við líkamsrækt, sjúkraþjálfun, verslun, veitingarekstur og skrifstofuaðstöðu.


Háholt 5
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun og uppbyggingu á lóð að Háholti 5. Markmið með uppbyggingu á þróunarsvæðinu að Háholti 5 er að styðja við uppbyggingu Varmársvæðisins til lengri tíma, tengja við miðbæjarsvæðið og styrkja starfsemina á svæðinu.
Um er að ræða nýja 4.000 m2 lóð sem er á skipulögðu miðsvæði við Vesturlandsveg með aðkomu frá Háholti.
Fjölbreytt tækifæri til uppbyggingar í miðbæ Mosfellsbæjar á sviði verslunar, þjónustu, afþreyingar, hótels eða með öðrum þeim hætti sem nýst getur íbúum og gestum sveitarfélagsins. Lóðin er í nálægð við menningar- og samkomuhús Hlégarðs auk íþróttasvæðis að Varmá.

Mosfellingar taka bílaþvottastöð í Háholti fagnandi

Eftir nokkurra ára hlé opnaði N1 aftur þvottastöð í Háholti í Mosfellsbæ og Guðbergur Björnsson, þjónustustjóri þvottastöðva hjá N1, þakkar góðar viðtökur.
„Við erum að fá rosalega góðar móttökur í Mosfellsbæ. Það er frábært hvað hefur verið mikið að gera.“

Þvottastöðvar og -básar á sjö stöðvum
N1 hefur einnig opnað þvottastöð á Gagnvegi í Grafarvogi og á næstu vikum verða opnaðar sjálfvirkar stöðvar hjá N1 í Stórahjalla í Kópavogi, Lækjargötu í Hafnarfirði, í Keflavík og á Akureyri, og í Holtagörðum verða þvottabásar. Eins er N1 í Mosfellsbæ eini staðurinn þar sem eru bæði básar og sjálfvirk þvottavél.
„Við höfum lagt mikinn metnað í stöðvarnar. Húsnæðið var allt nýlega tekið í gegn. Vélarnar eru nýjar, bæði í þvottavélum og -básum, og við reynum að standa eins vel að þessu og hægt er – eins og N1 er von og vísa, allt snyrtilegt og fínt,“ segir Guðbergur. Hann hvetur fólk til að prófa nýju stöðvarnar.

Vandaðar finnskar vélar
Í sjálfvirku þvottastöðvunum er hægt að velja burstaþvott eða snertilausan þvott, með eða án tjöruhreinsis. Verðið fer eftir því hvers konar þvottur er valinn og er á bilinu 3.090–3.690 kr.
Síðan er ekið inn í þvottastöðina og beðið í bílnum á meðan þvottavélin þvær. „Þetta er finnsk smíði og mjög vandaðar vélar sem hafa verið notaðar lengi á Norðurlöndunum,“ útskýrir Guðbergur. Þvottaefnin eru einnig mjög vönduð og koma frá sama framleiðanda. Flest efnin eru Svansvottuð.
Eftir þvottinn er tilvalið að fá sér kaffi, nasl eða eitthvað ferskt og fljótt hjá Nesti. Þvottastöðvarnar eru ómannaðar og opnar alla daga frá 8 til 24. „Ef eitthvað kemur upp á er vegaaðstoðin okkar til taks,“ segir Guðbergur.

Gera sam­komulag um upp­færð­an sam­göngusátt­mála

Styttri ferða­tími, minni taf­ir, auk­ið um­ferðarör­yggi, áhersla á að draga úr kol­efn­is­spori, stór­bætt­ar al­menn­ings­sam­göng­ur, fjölg­un hjóla- og göngu­stíga og upp­bygg­ing stofn­vega eru kjarn­inn í upp­færð­um sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins sem und­ir­rit­að­ur var á dögunum.
Sátt­mál­inn fel­ur í sér sam­eig­in­lega sýn fyr­ir allt höf­uð­borg­ar­svæð­ið, þar sem lögð verð­ur höf­uð­áhersla á skil­virka og hag­kvæma upp­bygg­ingu sam­göngu­inn­viða. Mark­mið­ið er að sam­göng­ur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu verði í fremstu röð þann­ig að svæð­ið og Ís­land allt sé sam­keppn­is­hæft um bæði fólk og fyr­ir­tæki.

Sameiginlegt félag stofnað um skipulag og rekstur
Rík­ið og sex sveit­ar­fé­lög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, Garða­bær, Hafn­ar­fjörð­ur, Kópa­vog­ur, Mos­fells­bær, Reykja­vík og Seltjarn­ar­nes, hafa gert sam­komulag um upp­færð­an sátt­mála sem fel­ur í sér upp­bygg­ingu á sam­göngu­inn­við­um og al­menn­ings­sam­göng­um á svæð­inu til árs­ins 2040.
Á sama tíma var und­ir­ritað sam­komulag um sam­vinnu um rekst­ur og stjórn­skipu­lag al­menn­ings­sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Mark­mið­ið er að efla al­menn­ings­sam­göng­ur, m.a. með aukn­um stuðn­ingi rík­is­ins, en sam­eig­in­legt fé­lag verð­ur stofn­að um skipu­lag og rekst­ur.

Borgarlínu flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholt
„Þessi uppfærði samningur er mikið gleðiefni, ekki síst að ríkið komi að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu en það var sterk krafa okkar sveitarfélaganna,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er mjög ánægjulegt að Borgarlínu verði flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholtið í Mosfellsbæ en það helgast meðal annars af mikilvægi þess að fara af stað í uppbyggingu á Keldnalandi þar sem sala lóða þar skapar tekjur fyrir verkefnið. Sundabraut mun einnig skipta miklu máli fyrir umferðina á Vesturlandsvegi en fjármögnun hennar er utan við sjálfan sáttmálann.“

Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
All­ar lyk­ilfram­kvæmd­ir eru þær sömu og áður í sam­göngusátt­mál­an­um en breyt­ing­ar eru gerð­ar á ein­stök­um verk­efn­um.
Heild­ar­fjárfest­ing á fyrsta tíma­bili í upp­færð­um sam­göngusátt­mála, til árs­ins 2029, er að jafn­aði rúm­lega 14 ma. kr. á ári. Það sam­svar­ar þriðj­ungi af ár­leg­um sam­göngu­fjár­fest­ing­um á fjár­lög­um. Á tíma­bil­inu 2030-2040 er heild­ar­fjárfest­ing að jafn­aði 19 ma. kr. á ári. Heild­ar­fjárfest­ing til árs­ins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Verk­efni sam­göngusátt­mál­ans skipt­ast í fjóra meg­in­flokka sem eru: Stofn­veg­ir, Borg­ar­lína og strætó­leið­ir, göngu- og hjóla­stíg­ar og verk­efni tengd um­ferð­ar­stýr­ingu, flæði og ör­yggi.
Skipt­ing fjár­mögn­un­ar milli rík­is og sveit­ar­fé­lag verð­ur hin sama og áður, þ.e. sveit­ar­fé­lög með 12,5% og rík­ið 87,5%.

Hélt 70 ára afmælismót í minningu barnabarns

Hrefna, Ágúst framkvæmdastjóri golfklúbbsins og Jón Kjartan formaður Umhyggju.

Þann 10. júlí síðastliðin hélt Hrefna Birgitta Bjarnadóttir upp á 70 ára afmælið sitt með því að halda styrktargolfmót á Hlíðavelli.
Mótið var til styrktar Umhyggju en félagið vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Styrkurinn var til minningar um barnabarn hennar sem hefði orðið 10 ára í sumar.
„Mér fannst tilvalið að halda svona upp á afmælisdaginn minn, en þegar ég varð 60 ára þá var lítið barnabarn nýfætt, hann var því miður mikið lasinn og dó einu og hálfu ári seinna. Umhyggja hefur hjálpaði fjölskyldunni mikið í gegnum allt þetta ferli. Drengurinn hefði orðið 10 ára 4. júlí og fannst mér þá tilvalið að halda upp á sjötugsafmælið með þessum hætti,“ segir Hrefna Birgitta.
„Golfklúbburinn gaf eftir öll vallargjöld og því rann allur peningurinn sem kom inn fyrir mótið ásamt afmælisgjöfum beint til Umhyggju, alls um hálf milljón.
Mig langar að þakka Golfklúbbnum, Blik og öðrum styrktaraðilum sem komu að þessu með einum og öðrum hætti fyrir stuðninginn.“

Íþróttahátíðin

Et, drekk og ver glaðr, segir í Hávamálum og sömuleiðis, Sjaldan liggjandi úlfur lær um getur né sofandi maður sigur. Bæjarhátíð Mosfellsbæjar snýst um þetta. Hreyfingu, næringu og gleði. Það er heldur betur margt í gangi í Mosfellsbænum á bæjarhátíðinni þegar kemur að hreyfingu og hreysti. Hundahlaupið er mætt í bæinn, Ævar Mosverji leiðir göngu á Reykjaborg, fjallahjólakeppnin Fellahringurinn er á sínum stað, nýja hjólabrautin og nýuppfærði frisbí­golfvöllurinn í Ævintýragarðinum verða formlega vígð, meistaraflokkar Aftureldingar í knattspyrnu spila bæði heimaleiki í Lengjudeildinni, það verður frítt í sund í nýuppgerðri Varmárlaug, Afturelding og Gæðabakstur halda stórt mót fyrir 6. og 7. flokk karla og kvenna á Tungubökkum, Tindahlaupið fagnar 15 ára afmæli og fyrsti opni fjölskyldutími vetrarins verður um helgina – svo nokkur dæmi séu nefnd. En það er margt fleira í gangi í íþrótta– og útivistarbænum og það er ýmislegt í gangi sem ekki allir vita af. Það er til dæmis komið borðtennisfélag í bæinn, bardagaíþróttaflóran stækkar og UMFA mun senda meistaraflokkslið karla til leiks í körfubolta.

Ég er búinn að gefa það út að ég ætla, í góðum félagsskap, að prófa æfingu eða tvær hjá öllum þeim sem bjóða upp á skipulagðar æfingar í Mosfellsbæ. Sé fyrir mér að vera eina viku á hverjum stað, kynnast íþróttinni og þeim sem leiða hana og kynna svo í framhaldinu fyrir öðrum bæjarbúum. Ég tek fagnandi á móti upplýsingum og tillögum um íþróttir á gudjons@mos.is.

Knattspyrnutímabilið er að klárast. Kvennalið UMFA er í uppbyggingarfasa og verður áfram í Lengjudeildinni að ári. Karlalið UMFA er þegar örfáar umferðir eru eftir í baráttu um að komast í úrslitakeppni um sæti í Bestu deildinni. Hvíti riddarinn er að berjast fyrir að halda sér í 3. deild og Álafoss átti frábært tímabil í 5. deild og var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni þar.

Hreyfi– og hreysti­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2024

Bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram um helgina

Bæjarhátíðin vinsæla Í túninu heima verður haldin 29. ágúst til 1. september. Dagskráin er glæsileg að vanda og teygir sig vítt og breitt, upp á fellin og inn í Mosfellsdal.
Formleg setning fer fram með hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Við það tækifæri fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar umhverfisviðurkenningar.
Þekktir dagskrárliðir verða í boði eins og Ullarpartí og markaðsstemning í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningin á Tungubökkum, kjúklingafestival, götugrill og Pallaball.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stígur á svið. Breyting verður í ár en flugeldasýning sem björgunarsveitin Kyndill hefur staðið fyrir að loknum tónleikum verður ekki á dagskrá. Erfiðara hefur reynst að finna heppilega staðsetningu síðustu ár vegna uppbyggingar í miðbænum sem byrgir sýn frá torginu. Þá hefur umræða um flugelda farið vaxandi síðustu ár með tilliti til umhverfis, manna og dýra.

Allir taka þátt í bæjarhátíðinni
Íbúar, félagasamtök og fyritæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar skreyta hús sín og garða í hverfislitunum. Sérstaða hátíðarinnar felst í heimboðum Mosfellinga í garða sína og víða verður boðið upp á metnaðarfulla dagskrá.
Gljúfrasteinn opnar dyrnar upp á gátt en safnið fagnar 20 ára afmæli í ár og því verður frítt inn bæði á laugardag og sunnudag.
Skrúðanga leggur af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:30 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem Mosfellingar sameinast í brekkusöng.
Áður en haldið er á stórtónleikana á laugardag safnast íbúar Mosfellsbæjar í götugrill í vel skreyttum götum bæjarins.

Heilsueflandi bæjarhátíð
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þónokkrir íþróttatengdir viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar. Tindahlaup Mosfellsbæjar fagnar í ár 15 ára afmæli, en hlaupið er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Björgunarsveitarinnar Kyndils og blakdeildar Aftureldingar. Tindahlaupið er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins.
Fellahringurinn fer fram á fimmtudagskvöldið en um er að ræða fjallahjólamót þar sem hjólað er um stíga innan Mosfellsbæjar. Tvær vegalengdir eru í boði, 15 km og 30 km. Á laugardag verður hjólagarðurinn Flækjan opnaður í Ævintýragarðinum, en Flækjan er stórskemmtileg torfæruhjólabraut.

Hundahlaup í Mosó í fyrsta sinn
Nýjung í ár er Hundahlaupið, en þar gefst hundaáhugafólki tækifæri á að sýna sig og sjá aðra. Markmiðið með hlaupinu er að kynna öðruvísi nálgun á útivist með hundum.
Fótboltamót Aftureldingar og Gæðabaksturs fer fram á íþróttasvæðinu á Tungubökkum og knattspyrnuleikir í Lengjudeildinni fara fram á Malbikstöðinni á föstudag og laugardag.
Ævar Aðalsteinsson Mosverji býður í skemmtilega göngu á Reykjaborg þar sem stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar verða kynntar.

Markaðsstemming alla helgina
Í Álafosskvos verður fjölbreyttur útimarkaður að vanda á föstudagskvöld og á laugardegi. Á laugardegi verður jafnframt loppumarkaður í Kjarna, en þar gefst íbúum tækifæri á að selja ýmiss konar góss.
Á sunnudeginum verður sveitastemming í Álafosskvos þar sem bændur selja vörur sínar beint frá býli. Grænmeti í úrvali, rósir, nýjar kartöflur, gúrkur, tómatar og íslensk hollusta verður í boði.

Ýmislegt í boði fyrir börnin
Margt verður um að vera fyrir börnin á bæjarhátíðinni. Blaðrarinn kemur á uppskeruhátíð sumarlesturs bókasafnsins á miðvikudag og kennir lestrarhestum að búa til blöðrudýr og í Lágafellslaug verður líf og fjör á Sundlaugargleði á fimmtudag.
Boðið verður upp á eins manns sirkussýningu og húllafjör við Hlégarð, teymt undir hestum og hoppukastali á Stekkjarflöt og opna húsið á slökkvistöðinni á Skarhólabraut er á sínum stað á sunnudag, en það slær alltaf í gegn.

Í túninu heima – DAGSKRÁ 2024

Bæjarhátíðin vinsæla Í túninu heima verður haldin 29. ágúst til 1. september. Dagskráin er glæsileg að vanda og teygir sig vítt og breitt, upp á fellin og inn í Mosfellsdal.
Formleg setning fer fram með hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Við það tækifæri fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar umhverfisviðurkenningar.
Þekktir dagskrárliðir verða í boði eins og Ullarpartí og markaðsstemning í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningin á Tungubökkum, kjúklingafestival, götugrill og Pallaball.

Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stígur á svið. Breyting verður í ár en flugeldasýning sem björgunarsveitin Kyndill hefur staðið fyrir að loknum tónleikum verður ekki á dagskrá. Erfiðara hefur reynst að finna heppilega staðsetningu síðustu ár vegna uppbyggingar í miðbænum sem byrgir sýn frá torginu. Þá hefur umræða um flugelda farið vaxandi síðustu ár með tilliti til umhverfis, manna og dýra.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

Þriðju­dag­ur 27. ág­úst

 

14:00 Haustblómasýning Garðyrkjudeildar 

Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar hefst handa við að setja upp haustblómasýningu í miðbæ Mosfellsbæjar. 

 

17:00-20:00 Perlað með Krafti

Kraft­ur kem­ur í Hlé­garð og perl­ar arm­bönd með Aft­ur­eld­ingu og Mos­fell­ing­um. Kraft­ur er stuðn­ings­fé­lag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein. 

 

18:00 Prjóna­skreyt­ing­ar

Kven­fé­lag Mos­fells­bæj­ar skreyt­ir asp­irn­ar við Há­holt í mið­bæ Mos­fells­bæj­ar með hand­verki. Íbú­ar geta tek­ið þátt og kom­ið með það sem þeir eru með á prjón­un­um. 

 

Mið­viku­dag­ur 28. ág­úst

 

14:00-16:00 Kynn­ing fyr­ir eldri borg­ara

Kynn­ing­ar­fund­ur í Hlé­garði um þá þjón­ustu sem stend­ur til boða í sveit­ar­fé­lag­inu. Þjón­ustu­að­il­ar með kynn­ing­ar­bása og heitt á könn­unni.

 

16:30-17:30 Uppskeruhátíð sumarlesturs í Bókasafninu

Eftir frábært lestrarsumar fögnum við lestrarhetjum bæjarins með uppskeruhátíð. Blaðrarinn stýrir blöðrusmiðju sem hefst kl. 16:30. Best er að vera með frá byrjun. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

 

18:00 Hundahlaup

Hundahlaupið er opið öllum. Farin verður sérstaklega falleg hlaupaleið sem hefst við flötina fyrir neðan Reykjalund. Svæðið opnar kl. 16:00, sameiginleg upphitun hefst kl. 17:30 og hlaupið ræst kl. 18:00. 

Í boði er annars vegar 5 km tímataka og hins vegar 2 km skemmtiskokk. 

 

19:00-20:30 Ball í Hlé­garði fyr­ir 5.-7. bekk­

Í tún­inu heima ball í Hlé­garði. Dj Ari heldur uppi stuðinu. 1.000 kr. inn.

 

21:00-23:00 Ung­linga­ball í Hlé­garði fyr­ir 8.-10. bekk

Í tún­inu heima há­tíð­ar­ball á veg­um fé­lags­mið­stöðv­ar­inn­ar Bóls­ins. Herra Hnetusmjör og dj Bjarni K. 2.000 kr. inn.

 

20:00 Tón­leikar í Lága­fells­kirkju

Tónleikar með Elínu Hall í Lágafellskirkju. Reynir Snær Magnússon spilar með á gítar. Ókeypis aðgangur á meðan húsrúm leyfir.

 

21:00 Há­tíð­ar­bingó í Bank­an­um

Bingó full­orðna fólks­ins í Bank­an­um með stór­glæsi­leg­um vinn­ing­um að vanda. Bingó­stjóri: Hilm­ar Mos­fell­ing­ur. 

 

Fimmtu­dag­ur 29. ág­úst

 

Íbú­ar skreyta hús og göt­ur í hverf­islit­um

– Gul­ur: Hlíð­ar, Höfð­ar, Tún og Mýr­ar

– Rauð­ur: Tang­ar, Holt og Mið­bær

– Bleik­ur: Teig­ar, Krik­ar, Lönd, Ásar, Tung­ur og Mos­fells­dal­ur

– Blár: Reykja- og Helga­fells­hverfi

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær

Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen FM 106,5 í og í Spil­ar­an­um. Út­send­ing frá Hlégarði.

 

16:30 Sápubolti við Hlégarð

Félagsmiðstöðin Ból stendur fyrir Sápubolta á túninu við Hlégarð. 4-6 saman í liði. Frítt að taka þátt fyrir alla Mosfellinga, óháð aldri. Skráning liða sendist á bolid@mos.is eða í gegnum instagram @bolid270

 

17:00 Há­tíð­ar­dagskrá í Hlé­garði og setning bæjarhátíðar

– Um­hverf­is­nefnd veit­ir um­hverfis­við­ur­kenn­ing­ar Mos­fells­bæj­ar 2024, veittar verða viðurkenningar fyrir garð ársins, fallega garða, tré ársins og íbúaátak. 

– Mos­fells­bær heiðr­ar starfs­fólk sem á 25 ára starfsaf­mæli

– Út­nefn­ing bæj­arlista­manns Mos­fells­bæj­ar 2024

– Hljómsveitin Piparkorn leikur

– Heitt á könn­unni og öll vel­komin

 

17:00-19:00 Opnun listasýningar – Bæjarás 2

Myndlistarsýningin „Það sem ég sé” eftir Hólmfríði Ólafsdóttur opnar í bílskúrnum í Bæjarási 2. 

 

17:00-22:00 Sund­laug­ar­kvöld

Húll­um­hæ og frítt í Lága­fells­laug. Blaðr­ar­inn gleð­ur börn­in kl. 18-20. Dj Bald­ur held­ur uppi stuð­inu. Halla Hrekkjusvín og Solla Stirða úr Latabæ kl. 18. Aqua Zumba kl. 19. Wipeout-braut opin fyr­ir yngri krakka kl. 17-18 og fyr­ir þá eldri kl. 18-21. Ís í boði.

 

17:00 Gengið á Reykjaborg

Ævar Aðalsteinsson Mosverji býður í göngu á Reykjaborg. Lagt verður af stað frá Hafravatnsrétt kl. 17. Gengið verður að Borgarvatni og á Reykjaborg. Skemmtileg ganga þar sem stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar verða kynntar. 

 

­18:00 Fella­hring­ur­inn 

Fellahringurinn verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst og ræst frá Varmá kl. 18:00. Hjólað er um stíga og slóða umhverfis fellin í Mosfellsbæ. Boðið er upp á tvo mögulega hringi, litla 15 km og stóra 30 km.

 

19:30 Sögu­ganga

Bjarki Bjarnason leiðir sögugöngu um stríðsminjaslóðir. Mæting á bílastæðinu norðan við Helgafell kl. 19.30.

Gengið verður á Helgafell og í áttina að Köldukvísl þar sem stórt sjúkrahús var reist á stríðsárunum. Öll velkomin.

 

20:00 Bíla­klúbbur­inn Krú­ser

Bíla­klúbbur­inn Krú­ser safn­ast sam­an á bíla­plan­inu við Kjarna. Til­val­ið að kíkja á flott­ar dross­í­ur og klass­íska bíla frá lið­inni tíð. Fjöldi glæsi­vagna á svæð­inu ef veð­ur leyf­ir og er heima­fólk hvatt til að mæta.

 

20:00 Laddi í Hlé­garði

Þjóðargersemin Laddi heldur sína fyrstu tónleika ásamt hljómsveit í Hlégarði. Lögin sem Laddi hefur samið og sungið í gegnum tíðina skipta tugum ef ekki hundruðum. Miðasala á Tix.is.

 

20:00 Byggðarholt 5 – Mosfellingar bjóða heim

Heiða Árnadóttir söngkona og Gunnar Gunnarsson flytja lög eftir franska tónskáldið Michel Legrand. Lögin verða flutt á íslensku og eru textar eftir Árna Ísaksson og Braga Valdimar Skúlason.

 

21:30 Ingó Veðurguð í Bankanum

Ingó Veðurguð hefur ferðast um landið með tónleikaröð sem hann kallar Söngur og sögur. Nú er hann mættur í Mosó. Miðasala á Facebook-síðu Bankans. 

 

Föstu­dag­ur 30. ág­úst

 

07:30 Mos­fells­bak­arí

Mosfellsbakarí verður opið virka daga frá kl. 7:30-17:30, 8:00-16:00 á laugardeginum og 8:30-16:00 á sunnudeginum. Heitar vöfflur verða til sölu um helgina, auk bakkelsis í hverfalitunum.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær

Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen FM 106,5 í og í Spil­ar­an­um. Út­send­ing frá Hlégarði.

 

10:00 og 11:00 Söngvasyrpa Lottu

Elsta ár­gangi leik­skól­anna í Mos­fells­bæ er boð­ið á leik­sýn­ingu í bóka­safn­inu. Leik­hóp­ur­inn Lotta flyt­ur söngvasyrpu sem er stút­full af sprelli, fjöri og söng. Dagskrá í sam­starfi við leik­skól­ana.

 

12:00-20:30 Kjúlla­garð­ur­inn 

Mat­ur, drykk­ir og af­þrey­ing fyr­ir alla við Hlégarð. Kjúllabarinn, handboltaborgarar frá UMFA, matarvagnar frá Götubitanum, veltibíllinn og leiktæki frá Köstulum á sínum stað. Til­val­ið stopp fyr­ir skrúð­göngu og brekku­söng.

 

15:00-18:00 Myndlistarsýning Bæjarás 2

Sýningin „Það sem ég sé” eftir Hólmfríði Ólafsdóttur í bílskúrnum í Bæjarási 2. 

 

16:00 Ævintýragarðurinn

Formleg opnun hjólagarðsins Flækjunnar og nýuppfærðs frisbígolfvallar. 

 

16:00-18:00 Opið í Þjón­ustu­stöð

Opið hús og kynn­ing á starf­semi Þjón­ustu­stöðv­ar Mos­fells­bæj­ar að Völu­teig 15. Margt að skoða. Boð­ið upp á grill­að­ar pyls­ur, kaffi og klein­ur.

 

16:00-20:00 Opið hús listamanna í Álafosskvos

Opnun á sýningunni RÁM eftir Svanlaugu Aðalsteinsdóttur og opin vinnustofa Sig­fríð­ar Lár­us­dótt­ur, Lár­usar Þórs Pálma­sonar og Alrúnar Aspar Herudóttur að Ála­foss­vegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli húss­). 

 

17:00-19:00 Glíma á Hlégarðstúni

Glímufélag Reykjavíkur býður öllum að koma og taka þátt eða fylgjast með glímu­æfingu. Það geta allir komið og kynnt sér krakkaglímuna og grunnnámskeið fullorðinna sem verður á dagskrá í haust.

 

18:30 Afturelding – Njarðvík

Afturelding tekur á móti Njarðvík í Lengjudeild karla. Heimaleikur á Malbikstöðinni.  

 

19:00-23:00 Kaffihús Mosverja

Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúkandi heitt kakó eða kaffi ásamt ýmsu góðgæti.

 

19:00-22:00 Súpu­veisla Frið­riks V og vina í Ála­fosskvos

Mat­reiðslu­meist­ar­inn Frið­rik V og vinir galdr­a fram kraft­mikla kjötsúpu ásamt ljúffengri fiskisúpu og dásemdar vegan-súpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja.

 

19:30-22:00 Úti­mark­að­ur í Ála­fosskvos

Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi.

 

20:15 Íbú­ar safn­ast sam­an á Mið­bæj­ar­torgi

Gul­ir, rauð­ir, bleik­ir og blá­ir. Öll hvött til að mæta í lopa­peysu. Skrúð­göng­ur leggja af stað kl. 20:30. Hesta­manna­fé­lag­ið Hörð­ur leið­ir göng­una með vösk­um fák­um. Göngu­stjór­ar frá Leik­fé­lagi Mos­fells­sveit­ar.

 

21:00-22:30 Ullarpartý í Ála­fosskvos

Brekku­söng­ur og skemmti­dagskrá. Aron Can og VÆB bræður hita upp brekkuna. Björgunarsveitin Kyndill kveik­ir á blys­um. Hilm­ar Gunn­ars og Gústi Linn stýra brekku­söng. 

 

22:00-02:00 Mosópartý með Dr. Victori og Mosó All Stars

Kjúllinn kynnir: Old School Mosó Partý í Hlégarði – Sannkölluð lókal þvæla. Dr. Victor og Slææ þeyta skífum og nokkrir af okkar hressustu Mosfellingum taka gestasett. Forsala á Midix.is. 

 

23:00 Herbert Guðmunds í Bankanum

Herbert Guðmunds og Gummi Hebb gera allt tryllt í Bankanum. Dj Geir Flóvent spilar fyrir og eftir. Frítt inn. 

 

Laug­ar­dag­ur 31. ág­úst

 

– Frítt í Varmár­laug

– Frítt á Gljúfra­stein

– Tív­olí við Mið­bæj­artorg alla helg­ina (Að­göngu­mið­ar seld­ir á staðn­um)

 

8:00-20:00 Golf­klúbbur Mosfellsbæjar

Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helg­ina.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um

Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Gæðabaksturs, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

9:00-16:00 Tinda­hlaup­ið

Nátt­úru­hlaup sem hefst í Fellinu við Íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Ræst verð­ur í tveim­ur rás­hóp­um, 5 og 7 tind­ar kl. 9:00, 1 tind­ur og 3 tind­ar kl. 11:00. Fjór­ar vega­lengd­ir í boði, 7 tind­ar (38 km), 5 tind­ar (34 km), 3 tind­ar (19 km) og 1 tind­ur (12 km). Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar er í boði Nettó.

 

9:30 KB Iceland – Engjavegur 12

Opin útiæfing hjá Kettlebells Iceland á Engjavegi. Ketilbjöllur og þrautasprikl. 

 

10:00-12:00 Birkiteigur 3 – Mosfellingar bjóða heim 

Pokémongleði – bítti og sala í tjaldi ásamt götukrítun fyrir alla fjölskylduna. Er hægt að kríta stærsta og flottasta parís í heimi? Komið með eigin krítar eða fáið á staðnum. Tónlist og gleði. 

 

10:00-14:00 Kaffisæti Dalatangi 10

Kaffisæti býður upp á ekta ítalskt kaffi og með því til styrktar Krafti. Kraft­ur er stuðn­ings­fé­lag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær

Um­sjón: Ástrós Hind og Tanja Rasmus­sen FM 106,5 í og í Spil­ar­an­um. 

 

10:00-17:00 Frítt á Gljúfra­stein

Um þessar mundir fagnar Gljúfra­steinn – hús skálds­ins 20 ára afmæli sem safn. Af því tilefni verður frítt inn á safnið um helgina. Gljúfra­steinn var heim­ili og vinnu­stað­ur Hall­dórs Lax­ness og fjöl­skyldu hans um hálfr­ar ald­ar skeið.  

 

11:00-14:30 Þríþrautarbraut ársins í fimleikasalnum í Varmá

Fimleikadeild Aftureldingar setur upp flottar þríþrautarbrautir í fimleikasalnum í íþróttahúsinu að Varmá. Í boði verða tvær brautir, ein fyrir 7 ára og yngri, hin fyrir 8 ára og eldri. Hleypt er inn á heila og hálfa tímanum, 20 mínútur í senn. Kostar 1.000 kr. til fjáröflunar á betri búnaði fyrir deildina. 

 

11:00-16:00 Loppumarkaður

Loppumarkaður verður haldinn í Kjarna. Taktu þátt í gleðinni og bókaðu pláss. Athugið að þátttakendur þurfa að útvega borð, stóla o.þ.h. Hægt að skrá sig með því að senda póst á maddy@mos.is

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garð­ur­inn á Hraðastöðum

Geit­ur, hestar, kett­ling­ar, grísir, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraða­stöð­um í Mos­fells­dal. Að­gang­ur: 1.200 kr., frítt fyrir 2 ára og yngri. 

 

11:00-17:00 Kaffihús Mosverja

Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúkandi heitt kakó eða kaffi ásamt ýmsu góðgæti.

 

11:30-16:00 Súpu­veisla Frið­riks V og vina í Ála­fosskvos

Mat­reiðslu­meist­ar­inn Frið­rik V og vinir galdr­a fram kraft­mikla kjötsúpu ásamt ljúffengri fiskisúpu og dásemdar vegansúpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja.

 

12:00 Barna­skemmt­un á Hlé­garðstúni 

Sirkussýning og húllafjör. Mikilvæg mistök er eins manns sirkussýning fyrir leikskólaaldur. Í sýningunni er notast við sirkusáhöld sem börnin tengja við eins og bolta, kubba og sápukúlur. Húlladúllan býður upp á stutta fjölskylduskemmtun og svo skellir hún í heljarinnar húllafjör þar sem við húllum öll saman. Frír aðgangur. 

 

12:00 Hópakst­ur um Mos­fells­bæ

Fergu­son­fé­lag­ið stend­ur fyr­ir hópakstri drátt­ar­véla og forn­bíla. Lagt af stað frá Tungu­bakkaflug­velli og keyrt um bæ­inn.

 

12:00-14:00 Opin vinnustofa hjá Listapúkanum

Listapúkinn og fyrrum bæjarlistamaður Mosfellsbæjar Þórir Gunnarsson býður gestum í heimsókn á vinnustofu sína í Kjarna. Listapúkinn tekur vel á móti gestum á efri hæð gömlu heilsugæslunnar. 

 

12:00-16:00 Verslun Ásgarðs 

Ásgarður handverkstæði veitir fötluðum einstaklingum vinnu og þjónustu. Í verslun Ásgarðs má til dæmis finna falleg tréleikföng, skrautmuni, töskur og veski og ýmsar vörur fyrir heimilið. 

 

12:00-16:00 Úti­mark­að­ur í Ála­fosskvos

Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi og ýms­ar uppá­kom­ur á sviði.

– 12:00 Djasskrakk­ar

– 12:30 Daníel Moss

– 13:00 Rokkbál

– 13:30 Dúettinn Gleym mér ei

– 14:00 Nóri

– 14:30 Hljóm­sveit­in Slysh

– 15:00 Ísak Dagur

 

12:00-17:00 Wings and Wheels – Tungu­bakka­flug­völl­ur

Fornbílar, flugvélar og dráttarvélar verða til sýnis. Kl. 13.30 fer fram glæsilegt listflug. Stórsveit Íslands ásamt söngvurunum Viggu Ásgeirsdóttur, Ara Jónssyni og Davíð Ólafssyni verður með tónleika á staðnum kl. 14:30 og aftur kl. 15:30.

 

13:00-19:00 Leiktæki við Hlégarð

Leiktæki frá Kastalar leiktækjaleiga.

 

13:00 Lista­manna­spjall í Lista­sal Mosfellsbæjar

Ólöf Björg Björnsdóttir býður gesti velkomna í létt spjall og leiðsögn í tengslum við sýningu sína Smávægilegar endurfæðingar í Listasal Mosfellsbæjar.

 

13:00-15:00 Brúarland

Öllum velkomið að kíkja og sjá nýju heimkynni félagsstarfsins og FaMos. Hlökkum til að sjá sem flesta í þessu fallega sögufræga húsi. Kaffi á könnunni.

 

13:00-14:00 Hesta­fjör

Teymt und­ir börn­um á Stekkj­ar­flöt­inni í boði Hesta­mennt­ar.

 

13:00-17:00 Myndlistarsýning Bæjarás 2

Sýningin „Það sem ég sé” eftir Hólmfríði Ólafsdóttur í bílskúrnum í Bæjarási 2. 

 

13:00 Gallerí Hvirfill í Mosfellsdal

Bjarki Bjarnason rithöfundur les upp úr splunkunýrri skáldsögu sem heitir Gröf minninganna. Bókin verður til sölu á staðnum á sérstöku bæjarhátíðarverði.

 

13:00-17:00 Karl­ar í skúr­um Mos­fells­bæ – Hand­verks­sýn­ing

Opið hús að Skála­hlíð 7A, Litla­hlíð, á svæði Farsældartúns (áður Skála­túns). Margs kon­ar verk til sýn­is. Út­skurð­ur, tálg­un, renn­ismíði, mód­el­smíði, flugu­hnýt­ing­ar o.fl. Kom­ið og fræð­ist um starf­sem­ina. Kaffi og með­læti.

 

13:00-16:00 Bílskúrssala í Barrholti 5 

Ýmislegt til sölu og margt að sjá.

 

13:00 Stöllurnar bjóða heim á Suðurá í Mosfellsdal

Kvennakórinn Stöllur flytur nokkur falleg íslensk lög við bæinn Suðurá í Mosfellsdal. 

Keyrt upp Þingvallaveginn og inn fjórða afleggjara til hægri, Reykjahlíðarveg, inn í enda og yfir brúna.

 

14:00-16:00 Klifurveggur við skátaheimilið

Sigraðu vegginn og láttu þig síga rólega niður. 8 metra hár veggurinn er áskorun fyrir börn á öllum aldri.

 

14:00-18:00 Opið hús lista­fólks í Ála­fosskvos

Ólöf Björg Björns­dótt­ir mynd­list­ar­kona fagnar list­inni í Kvos­inni með vinnu­stofu­sýn­ingu að Ála­foss­vegi 23, 3. hæð. Leið­sögn kl. 15 og 17. Ver­ið hjart­an­lega vel­komin og njót­ið lista, gleði og sam­veru.

 

14:00-17:00 Opnar vinnustofur og sýning í Álafosskvos

Sýningin RÁM eftir Svanlaugu Aðalsteins­dóttur og opin vinnustofa Sig­fríð­ar Lár­us­­dótt­ur, Lár­usar Þórs Pálma­sonar og Alrúnar Aspar Herudóttur að Ála­foss­vegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli húss). 

 

14:00-17:00 Textíl Barinn – Bjartahlíð 23

Textíl Barinn verður formlega opnaður með opnunarskál. Sýning á textílverkum og vörur Textíl Barsins til sölu. Hvað ertu með á prjónunum? Taktu það með. 

Léttar veigar og ljúfir tónar í boði.

 

14:00 Afturelding – HK

Afturelding tekur á móti HK í Lengjudeild kvenna. Heimaleikur á Malbikstöðinni að Varmá kl. 14:00.

 

14:00-17:00 Hótel Laxnes

Opið hús á Hótel Laxnesi og innlit í svítuna. Kaffi og kleinur á Ásláki sveitakrá. 

 

14:00-16:00 Kjúk­linga­festi­val

Stærstu kjúk­linga- og mat­væla­fram­leið­end­ur lands­ins kynna af­urð­ir sín­ar, selja og gefa smakk við íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Mat­ur og skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

 

14:00-17:00 Stekkj­ar­flöt 

Frítt fyr­ir káta krakka í hoppu­kastala. 

 

15:00 Bjarkarholt 8-20 – Mosfellingar bjóða heim

Hljómsveitin Góð í hófi flytur valið efni úr lagasafni Eagles og Eric Clapton. Tónleikarnir hefjast klukkan 15:00 og fara fram inn af bílaplani hússins. Enginn Eagles og Eric Clapton aðdáandi verður svikinn af því að mæta og njóta alls hins besta úr lagasafni þessara frábæru tónlistarmanna og lagahöfunda.

 

16:00 Laxatunga 11 – Mosfellingar bjóða heim

Tónleikar með Tómasi Helga Wehmeier í garðinum í Laxatungu 11. Ekta íslensk útilegustemming í bland við gömlu góðu smellina. 

 

16:30 Kara­mellukast

Kara­mellukast á Tungu­bökk­um.

 

17:00 Kvísl­artunga 98 – Mos­fell­ing­ar bjóða heim

Karla­kór­inn Esja kem­ur fram á heima­tón­leik­um í Kvísl­artungu. Létt­ur og hefð­bund­inn kór með óhefð­bundnu ívafi.

 

17:00-21:00 Götugrill

Íbú­ar í Mos­fells­bæ halda götugrill í vel skreytt­um göt­um bæj­ar­ins.

 

20:00 9 ára afmæli Hrímþursa

Hrímþursar MC halda upp á 9 ára afmæli á Áslák. 

 

21:00-23:00 Stór­tón­leik­ar á Mið­bæj­ar­torgi

Skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem Mos­fells­bær býð­ur upp á stór­tón­leika á Mið­bæj­artorg­inu. Fram koma: Húbba Búbba, Gildran, GDRN, Hr. Eydís ásamt Ernu Hrönn, Páll Óskar og Patr!k. Kynnir Gústi Bé. 

 

22:00 Eyjólfur Kristjáns í Bankanum

Hinn eini sanni Eyjólfur Kristjánsson mætir með gítarinn í Bankann. Dj Geir Flóvent spilar fyrir og eftir. Frítt inn. 

 

23:00-03:00 Stórd­ans­leik­ur í Hlégarði

Páll Ósk­ar mæt­ir í Hlégarð og held­ur há­tíð­ar­ball með Aft­ur­eld­ingu. Miða­verð á Palla­ball 6.500 kr. For­sala í íþrótta­hús­inu að Varmá (20 ára ald­urstak­mark).

 

Sunnu­dag­ur 1. september

 

8:00-20:00 Golf­klúbbur Mosfellsbæjar

Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helg­ina.

 

9:30-11:00 Opinn fjölskyldutími í íþróttahúsinu að Varmá.

Fyrsti opni fjölskyldutími vetrarins í íþróttahúsinu að Varmá. Ætlað börnum á grunnskólaaldri og allri fjölskyldunni. Leikir, íþróttir, boltar, borðtennis, fimleikar, dans og margt fleira. Frítt í sund fyrir alla fjölskylduna að tímanum loknum.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um

Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Gæðabaksturs, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

10:00-17:00 Frítt á Gljúfra­stein

Um þessar mundir fagnar Gljúfra­steinn – hús skálds­ins 20 ára afmæli sem safn. Af því tilefni verður frítt á safnið um helgina. 

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garð­ur­inn á Hraðastöðum

Geit­ur, hestar, kett­ling­ar, grísir, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraða­stöð­um í Mos­fells­dal. Að­gang­ur: 1.200 kr., frítt fyrir 2 ára og yngri. 

 

12:00-16:00 Sveitamarkaður í Mosó 

Alvöru uppskera í Álafosskvos þar sem bændur selja vörur sínar beint frá býli. Grænmeti í úrvali, rósir, nýjar kartöflur, gúrkur, tómatar og íslensk hollusta. Hægt er að panta bás hjá Ingibjörgu Ástu,  sveitamarkadurinnmoso@gmail.com.

 

12:00-16:00 Kaffihús Mosverja

Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúkandi heitt kakó eða kaffi ásamt ýmsu góðgæti.

 

12:00-17:00 Leiktæki við Hlégarð

Leiktæki frá Kastalar leiktækjaleiga.

 

13:00-17:00 Karl­ar í skúr­um Mos­fells­bæ – Hand­verks­sýn­ing

Opið hús að Skála­hlíð 7A, Litla­hlíð, á svæði Farsældartúns (áður Skála­túns). Margs kon­ar verk til sýn­is. Út­skurð­ur, tálg­un, renn­ismíði, mód­el­smíði, flugu­hnýt­ing­ar o.fl. Kom­ið og fræð­ist um starf­sem­ina. Kaffi og með­læti.

 

13:00-16:00 Bílskúrssala í Barrholti 5

Ýmislegt til sölu og margt að sjá.

 

14:00-16:00 Opnar vinnustofur og sýning í Álafosskvos

Sýningin RÁM eftir Svanlaugu Aðalsteinsdóttur og opin vinnustofa Sig­fríð­ar Lár­us­dótt­ur, Lár­usar Þórs Pálma­sonar og Alrúnar Aspar Herudóttur að Ála­foss­vegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli húss­). 

 

13:00-17:00 Myndlistarsýning Bæjarás 2

Sýningin „Það sem ég sé” eftir Hólmfríði Ólafsdóttur í bílskúrnum í Bæjarási 2.

 

14:00-16:00 Opið hús á slökkvi­stöð­inni

Slökkvi­stöðin við Skar­hóla­braut verð­ur til sýn­is fyr­ir há­tíð­ar­gesti. Gest­um býðst að skoða bíla, tæki og bún­að slökkvi­liðs­ins í bíla­sal. Öll vel­komin. 

 

17:00 Bjartahlíð 23 – Mosfellingar bjóða heim

Heiða Árnadóttir söngkona og Gunnar Gunnarsson flytja lög eftir franska tónskáldið Michel Legrand. Lögin verða flutt á íslensku og eru textar eftir Árna Ísaksson og Braga Valdimar Skúlason.

 

20:00 Kvöld­messa

Kvöldmessa í Lágafellskirkju. Kirkjukórinn og Árni Heiðar Karlsson organisti leiða tónlistina. Sr. Arndís Linn og sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir þjóna fyrir altari.

Íþróttir sameina fólk og skapa vináttu

Einar Ingi Hrafnsson var ráðinn framkvæmdastjóri Aftureldingar þann 1. maí. Hann þekkir vel til félagsins enda sjálfur verið þar iðkandi, þjálfari og sjálfboðaliði og mun því reynsla hans nýtast honum vel í starfi.
Einar segir Aftureldingu vera stærstu uppeldismiðstöð Mosfellsbæjar enda flest börn bæjarins sem koma þar við, en í mislangan tíma þó. Hlutverk félagsins sé að skapa umhverfi fyrir þau öll.

Einar Ingi er fæddur í Reykjavík 16. september 1984. Foreldrar hans eru Sonja Ingibjörg Einarsdóttir fv. leikskólastjóri og Hrafn Stefánsson rafvirkjameistari.
Bróðir Einars Inga er Heiðar Númi f. 1989.

Góðir tímar með afa og ömmu
„Ég er alinn upp í Reykjahverfinu í Mosfellsbæ, þar liggja mínar æskuslóðir og foreldrar mínir búa þar enn. Það var virkilega gaman að búa upp í byggðum, ég hefði hvergi annars staðar viljað búa, mikið af krökkum á sama aldri og nóg um að vera.
Maður hjólaði í gryfjunum, smíðaði kofa með strákunum og svo var farið á fótboltaæfingar á Tungubökkum.
Fjölskylduútilegurnar í gamla góða A tjaldinu með mömmu og pabba klikkuðu ekki, svo maður tali nú ekki um sumarfríin til Mallorca. Það voru líka góðir tímar með afa og ömmu á Breiðdalsvík og á Selfossi, þar var margt brallað.“

Maður tengdi við golfið
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og mér fannst mjög gaman í báðum þessum skólum. Í byggðarbekknum var sterkur kjarni sem náði vel saman og við erum enn bestu vinir í dag. Það var eitthvað við skólann sem var töfrandi, skíðaferðirnar, Reykir, Bólið, Útvarp Einar og önnur ferðalög.
Á sumrin var maður á íþróttanámskeiðum Aftureldingar og æfandi fótbolta en svo tók vinnuskólinn við. Það var eftirminnilegur tími, þá var maður oft úti á Hlíðarvelli. Maður tengdi við golfið sem verður vonandi mitt framtíðarsport næsta áratuginn eða svo,“ segir Einar og brosir.
„Ég starfaði líka eitt sumar með pabba í rafmagninu og það var mjög lærdómsríkt.“

Handboltinn alltaf númer eitt
„Ég útskrifaðist sem stúdent frá Borgarholtsskóla, þetta voru góð ár og þarna eignaðist maður vini fyrir lífstíð. Félagslífið tók dágóðan sess, með menntaskólaböllum, innanskóla ræðu- og söngvakeppnum og svo auðvitað handboltinn, hann var alltaf númer eitt.
Á sumrin starfaði ég á Dominos, KFC og í Áhaldahúsi Mosfellsbæjar við allt frá dýraeftirliti til ruslatínslu.“

Mikið á ferð og flugi
Eiginkona Einars Inga er Þórey Rósa Stefánsdóttir mannauðs- og launasérfræðingur hjá flugfélaginu Air Atlanta og landsliðskona í handbolta. Börn þeirra eru Arnór Bjarki f. 2016 og Sara Sonja f. 2020.
„Við fjölskyldan erum mikið á ferð og flugi á sumrin, förum í sund, út að hjóla og svo höfum við gaman af því að ferðast bæði innanlands með tjaldvagninn og svo að fara í ferðir erlendis.“

Markmiðið var alltaf að spila erlendis
„Sumarið 2009 var ferðinni heitið til Þýskalands í atvinnumennsku í handbolta. Það má segja að draumar mínir hafi ræst en markmið mitt var alltaf að spila erlendis. Við fluttum til Nordhorn og bjuggum þar í 2 ár, þetta var skemmtilegur tími. Þaðan fluttum við til Danmerkur, til norður Jótlands en enduðum svo á að vera 4 ár í Noregi þar sem sonur okkar fæddist.
Varðandi veru okkar erlendis er hægt að segja að okkur var alls staðar vel tekið, við kynntumst mörgu fólki og skildum eftir okkur spor á sama tíma.“

Íþróttir sameina fólk
„Þeir titlar sem unnust í Noregi og söguleg undanúrslit sem enduðu með minnsta mun gegn stórliði Álaborgar í Danmörku er eitthvað sem ég gleymi aldrei og er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í.
Vera mín erlendis styrkti mig á margan hátt sem einstakling sem mun nýtast mér alla tíð. Ég er búinn að vinna með liðsfélögum, fólki frá mismunandi löndum, þar sem markmiðið var alltaf skýrt, að hámarka árangur og gera það saman sem lið. Það sem íþróttir gefa fyrst og fremst er að sameina fólk og skapa vináttu og gleði.
Við fluttum heim eftir átta ára veru erlendis og ég hóf störf hjá heildverslun Halldórs Jónssonar ehf. Það kom svo ekkert annað til greina en að fara að spila aftur með mínu liði Aftureldingu og loka þannig hringnum með sögulegum bikarameistaratitli eftir langþráða bið á lokatímabilinu mínu.“

Kemur með ákveðna sýn til starfa
Einar Ingi er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og tók síðan master í stjórnun og stefnumótun. Í Noregi starfaði hann sem cost controller í olíubransanum og innan fjármálateymis og öðlaðist þar dýrmæta reynslu. Einar var ráðinn framkvæmdastjóri Aftureldingar þann 1. maí.
Aðspurður um nýja starfið segir Einar: „Ég elska félagið mitt, það bjó mig til og ég á því mikið að þakka. Ég kem með ákveðna sýn til starfa, mig langar að virkja betur samvinnu innan félagsins, milli eininga og deilda. Ég trúi því af einlægni að saman sem heild sé félagið í fararbroddi í íslenskum íþróttum.
Við eigum frábæra þjálfara, flottustu sjálfboðaliðana og orku innan samfélagsins til að stefna hærra. Með þeirri framtíðaraðstöðu sem áform eru um og lengi hefur verið beðið eftir munum við taka stærri skref í átt að betra og flottara félagi.“

Bjóðum upp á fjölbreytt starf
„Afturelding er ein stærsta uppeldismiðstöð Mosfellsbæjar, hér koma flest börn bæjarins við, í mislangan tíma þó, hlutverk okkar er að skapa umhverfi fyrir þau öll.
Umhverfi íþróttanna er stórkostlegt, sama á hvaða aldri þá eiga íþróttir að virkja einstaklinginn, styrkja hann bæði félagslega og líkamlega. Það verða vissulega ekki allir afreksmenn, en Afturelding þarf að vera vettvangur fyrir alla, við erum fjölgreinafélag. Sem framkvæmdastjóri Aftureldingar þá langar mig að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið og styrkja grunnstoð bæjarins til góðra verka, finna jafnvægi og tengingu milli uppeldisstarfs og afreksstarfs.
Við bjóðum upp á fjölbreytt starf fyrir íbúa bæjarins, af því megum við vera stolt því það er eitt sem við íbúar Mosfellsbæjar eigum sameiginlegt og það er að við styðjum öll Aftureldingu, ekki satt?“ segir Einar Ingi og lítur á mig og brosir.

Styrkir úr Klörusjóði afhentir

Mið­viku­dag­inn 12. júní voru af­hent­ir styrk­ir úr Klöru­sjóði en markmið sjóðs­ins er að stuðla að ný­sköp­un og fram­þró­un í skóla- og frí­stund­astarfi í Mos­fells­bæ.
Í sjóð­inn geta sótt kenn­ar­ar, kenn­ara­hóp­ar, að­r­ir fag­að­il­ar sem starfa við skóla/frístund í Mos­fells­bæ, einn skóli eða fleiri skól­ar/fag­að­il­ar í sam­ein­ingu sem og fræðslu- og frí­stunda­svið í sam­starfi við skóla.
Veitt­ir eru styrk­ir einu sinni á ári úr sjóðn­um. Heild­ar­fram­lag sjóðs­ins árið 2024 eru þrjár millj­ón­ir. Að þessu sinni hlutu eft­ir­far­andi verk­efni styrk úr sjóðn­um:

Verk­leg vís­indi, Varmár­skóli
Verk­efn­ið mun auka verk­lega kennslu í nátt­úru­grein­um í Varmár­skóla með fjöl­breyttu náms­efni sem auð­veld­ar kenn­ur­um að nálg­ast við­fangs­efn­in á skap­andi hátt. Með þess­um styrk að upp­hæð 500.000 kr. mun Varmár­skóli fjár­festa í náms­efni sem efl­ir kennslu í eðl­is­fræði og stærð­fræði.

Nám­skeið í mark­miða­setn­ingu fyr­ir
elstu nem­end­ur grunn­skól­ans, fé­lags­mið­stöðin Ból­ið í sam­starfi við náms- og starfs­ráð­gjafa grunn­skól­anna
Boð­ið verður upp á nám­skeið í sjálfs­efl­ingu og mark­miða­setn­ingu fyr­ir nem­end­ur í 10. bekk. Mark­mið­ið er að ung­menni vinni með eig­in gildi, styrk­leika, áhuga­svið, drauma og fram­tíð­ar­sýn. Inn­tak verk­efn­is­ins snýr að and­legri og fé­lags­legri vellíð­an ung­menna og fell­ur bæði und­ir for­vörn og heilsu­efl­ingu. Verk­efn­ið hlaut 600.000 kr. styrk.

Söng­ur á allra vör­um, leik­skól­inn Hlíð
Verk­efn­ið mun efla notk­un tón­list­ar til að stuðla að mál­þroska ungra barna. Tekin verð­ur upp söng­bók leik­skól­ans bæði í hljóð- og mynd­formi og efn­ið gert að­gengi­legt starfs­mönn­um, for­eldr­um og öðr­um áhuga­söm­um. Styrk­ur að upp­hæð 250.000 kr. er hugs­að­ur til að hefja vinn­una og koma verk­efn­inu af stað.
STEAM-kennsla á öll stig grunn­skól­ans, Helga­fells­skóli
Í verk­efn­inu verð­ur inn­leidd og efld STEAM-nálg­un í kennslu á öll­um stig­um grunn­skól­ans, og gæti hún náð til 5 ára leik­skóla­barna. Styrk­ur að upp­hæð 700.000 kr. verð­ur nýtt­ur til að kaupa bæði tæki og náms­efni til að efla kenn­ara og nem­end­ur í STEAM-kennslu og hvetja til skap­andi og gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar.

Aukin úti­kennsla, Leir­vogstungu­skóli
Í verk­efn­inu verð­ur út­bú­in að­staða á leik­skóla­lóð til að auka útinám með því að skapa útield­hús, vatna­braut og drullu­m­allsvæði. Markmið verk­efn­is­ins er að auka úti­kennslu, leikefni og leik­aðstæð­ur í úti­veru. Styrk­ur­inn að upp­hæð kr. 200.000 er hugs­að­ur til að koma verk­efn­inu af stað í vinnslu inn­an skól­ans í sam­starfi við for­eldra­sam­fé­lag­ið.

Flipp Flopp, Kvísl­ar­skóli
Verk­efn­ið mun styðja Kvísl­ar­skóla við að taka mik­il­vægt skref til að efla raun­grein­ar með kaup­um á smá­sjám, stuðn­ingi við kenn­ara og þró­un kennslu­hátta. Flipp flopp verk­efn­ið, sem hófst fyr­ir þrem­ur árum, hef­ur bætt kennslu­hætti og stuðlað að inn­leið­ingu leið­sagn­ar­náms í skól­an­um. Verk­efn­ið fékk styrk að upp­hæð 400.000 kr.

Frá fræi til af­urð­ar, leik­skól­inn Hlíð
Verk­efn­ið mun veita börn­um og starfs­fólki tæki­færi til að sá fræj­um og fylgjast með þeim vaxa og dafna. Þann­ig fá þau að upp­lifa hringrás nátt­úr­unn­ar og sjá hvern­ig eitt lít­ið fræ get­ur orð­ið að af­urð, kryddi, græn­meti, ávexti eða plöntu sem þau geta síð­ar not­ið. Styrk­ur­inn 350.000 kr. er hugs­að­ur til að koma verk­efn­inu af stað með t.d. gróð­ur­köss­um á lóð­inni.

 

Glímir við lúxusvandamál

Aron Daníel Arnalds er 23 ára uppalinn Mosfellingur sem alla tíð hefur haft mikinn áhuga á tónlist. Hann æfði á trommur í nokkur ár og nú síðustu 2-3 ár hefur hann gefið sér meiri tíma og kraft í að semja texta og lög.
„Ég finn að ég er tilbúinn með mitt sound,“ segir Aron en hann gengur undir listamannanafninu ADA.
„Ég sem texta og lög í samstarfi með „producer“ og er núna að fara gefa út mitt fyrsta lag þann 19. júlí, „Lúxus Vandamál“, í samstarfi við Yung Nigo Drippin sem er vel þekkt nafn í bransanum. Nafnið á laginu segir um hvað lagið snýst, lífstílinn og lúxusvandamálin sem fylgja honum.“
Aron Daníel leikur knattspyrnu með ÍR í Lengjudeildinni og er í námi í Háskólanum í Reykjavík.

Fullt af hugmyndum og mörg lög á lager
„Fyrsta demóið af „Lúxus Vandamál“ var gert sumarið 2023 og það vakti strax mikla eftirtekt hjá þeim sem fengu að heyra það. Svo hélt ég áfram að semja og búa til fleiri lög og alltaf var maður að bæta sig. Frá því í mars hef ég einbeitt mér að því að klára „Lúxus Vandamál“ og gera það fullkomið svo ég geti komið með sprengju inn í leikinn.
Í dag er ég með fullt af hugmyndum og á mörg lög á lager sem eru komin mislangt í sínu ferli. Þannig að ég er með efni sem ég get gefið út í framhaldinu og stefnan í dag er að gefa út EP svona „mini“ plötu seinna á árinu og langtímamarkmiðið er að gefa út stóra plötu á næsta eða þarnæsta ári.

Erna Sól­ey á Ólympíu­leikana

Mosfellingurinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóða­ólympíunefndin staðfesti svo um helgina.
Erna Sóley hefur verið iðin við keppnir síðustu vikur og mánuði og staðið sig afar vel. Hún sigraði meðal annars á Meistaramóti Íslands fyrr í mánuðinum og setti þar að auk Íslandsmet í leiðinni.

Ólympíuleikarnir hefjast í París 26. júlí
Fimm íslenskir kastarar áttu raunhæfa möguleika á því að enda meðal 32 efstu í sinni grein á stigalistanum og fá þar með sæti á Ólympíuleikunum en eftir að lokalistinn var uppfærður þá kom í ljós að ekkert þeirra náði því.
Erna Sóley var þar þó efst Íslendinga í 34. sæti eftir Íslandsmetið sitt um síðustu helgi. Hún var því bara tveimur sætum frá því að vinna sér inn Ólympíusæti.
Erna Sóley hefur ekki áður keppt á Ólympíuleikunum en hún verður fimmti keppandinn sem kemst inn á leikana fyrir Íslands hönd, en þeir hefjast í París í Frakklandi 26. júlí.