Bankinn kominn í nýjar hendur

Ragnheiður Þengilsdóttir afhendir Kára Guðmundssyni lyklana að Bankanum.

Það er komið að tímamótum á veitingastaðnum Bankanum Bistro í Þverholtinu. Eftir að hafa rekið Bankann Bistro (áður Barion) í tæp 5 ár, afhenda hjónin Ragnheiður Þengilsdóttir og Óli Valur Kára Guðmundssyni lyklana.
„Ég var þjónustustjóri í Arion Mosó og þegar útibúinu var lokað í kjölfar breytinga árið 2018 kom upp tækifæri til að kaupa húsið og umbreyta því í hverfisstað Mosfellinga. Óli Valur sem rekur eigið byggingafyrirtæki fjárfesti í húsinu og sá um umbreytinguna.
Eftir að hafa „brotist inn“ í bankann og farið í miklar framkvæmdir opnuðum við Barion, sem varð að Bankanum, 1. desember 2019,“ segir Ragnheiður.

Krefjandi og skemmtilegur tími
„Markmiðið var að skapa skemmtilegan hverfisstað fyrir Mosfellinga og teljum við að nokkuð vel hafi tekist til. Í Bankanum hefur fjöldi Mosfellinga komið og notið þess að borða saman, spila bingó, hlusta á góða tónlistamenn, hitað upp fyrir Aftureldingarleiki og skemmt sér án þess að þurfa að fara út fyrir bæjarmörkin. Við höfum haldið skákmót og einnig boðið krökkum í Mosfellsbæ í bíó í vetrarfríum og reynt að leggja okkar af mörkum til þess að gera Mosfellsbæ fjölskylduvænan.“
„Það er búið að vera bæði krefjandi og skemmtilegt að reka Bankann í erfiðu rekstrarumhverfi – sérstaklega þar sem við opnuðum staðinn rétt fyrir Covid-faraldurinn. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við höfum fengið og afhendum glöð Kára lyklana,“ segir Ragnheiður.

Grindvíkingur tekur við lyklunum
„Við vorum svo heppin að kynnast Kára í gegnum sameiginlegan vin. En Kári rak Fish House í Grindavík sem var mjög vinsæll veitingastaður og skemmtistaður Grindvíkinga allt fram til þess að rýma þurfti bæinn í kjölfar eldgoss,“ segir Ragnheiður.
„Við erum búin að vera í samstarfi við Kára undanfarna mánuði og afrakstur þess er að Kári hefur tekið við rekstri Bankans að fullu. Við óskum Kára alls hins besta með framhaldið og hlökkum til að njóta áfram þess að hafa flottan hverfisstað í hjarta bæjarins.
Við hjónin munum ekki sitja auðum höndum en við rekum áfram átta aðra veitingastaði. Við erum að hefja sjöunda rekstrarár okkar með Hlöllabáta og einnig rekum við Mandí staðina sem við tókum yfir árið 2022.“
Kári tekur fullur tilhlökkunar við lyklunum og stefnir að því að bjóða áfram upp á góðan mat og skemmtilega viðburði. Einhverjar breytingar eru í kortunum eins og gengur og gerist með nýjum eigendum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Íþrótta- og heilsubær Íslands

Ég hef nýhafið störf sem íþrótta- og lýðheilsufulltrúi Mosfellsbæjar. Starfið byggir á grunni sem ljúfmennið Sigurður Guðmundsson reisti, en starfslýsingin er á ýmsan hátt ólík hans. Ég er mjög spenntur fyrir þeim fjölmörgu verkefnum sem fram undan eru, er afar þakklátur fyrir traustið og ætla að gera mitt allra besta til að standa undir því.

Það er mikill áhugi á íþróttum og hreyfingu í bæjarfélaginu og margt í boði fyrir bæjarbúa á öllum aldri á því sviði. En við ætlum að gera enn betur. Mosfellsbær og Afturelding eru til dæmis að vinna þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá. Fjölmargir kynningarfundir hafa verið haldnir og viðtöl tekin við á þriðja tug hagaðila. Að auki er nú opin rafræn könnun á vegum Mosfellsbæjar þannig að allir bæjarbúar geta komið skoðunum sínum og hugmyndum varðandi bygginguna á framfæri.

Ég hef undanfarna daga mikið hugsað um eitt af bláu svæðunum (Blue Zones) í heiminum og borið það saman við okkur í Mosfellsbæ. Loma Linda (fallega hæðin) er rúmlega 20 þúsund manna bæjarfélag í Kaliforníu. Við fjölskyldan dvöldum í þar í mánuð þegar við ferðuðumst um bláu svæðin fyrir akkúrat fimm árum að kynna okkur og læra um samspil langlífis og góðrar heilsu.

Það sem stuðlar fyrst og fremst, að mínu mati, að áberandi góðri heilsu íbúa Loma Linda er hugarfarið. Íbúar eru mjög meðvitaðir að búa í heilsubæ og nota það sem hvatningu til að stunda heilsusamlegt líferni. Ég sé Mosfellsbæ fyrir mér sem íþrótta– og heilsubæ Íslands. Við höfum allt sem til þarf – umhverfið, grunnaðstöðuna og það sem mikilvægast er, drífandi og jákvætt fólk sem vill vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Hugarfarið er mikilvægast. Hugsum og tölum jákvætt, það hvetur okkur mest til dáða.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. mars 2024

MAIAA í Söngvakeppninni á laugardaginn

Mosfellingurinn MAIAA eða María Agnesardóttir tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2024 með laginu „Fljúga burt“ eða „Break Away“ á ensku. MAIAA keppir í seinni undankeppninni 24. febrúar sem fer fram í Fossaleyni í Grafarvogi.
MAIAA ólst upp í Mosfellsbæ og rekur tónlistarrætur sínar þangað. MAIAA var í Lágafellsskóla og tók þátt í öllu sem tengdist að einhverju leyti tónlist, allt frá söngleikjum settum upp af Lágafellsskóla yfir í söngkeppnir á borð við söngkeppni Bólsins og söngkeppni Kragans.

Fékk gullhnappinn í Iceland Got Talent 2016
Söngvakeppnin er ekki fyrsta skiptið hennar Maríu á stóra sviðinu. Árið 2014 tók María þátt í Ísland Got Talent með afa sínum Þresti Lýðssyni, ekki til mikillar lukku, en María lét það ekki á sig fá, reyndi aftur 2016 og hreppti þar gullhnappinn frá Ágústu Evu.
Ein helsta minning Maríu úr Mosfellsbænum eru þau sumur þar sem hún hjólaði yfir til ömmu sinnar og afa í Krókabyggð.
„Það var tekið á móti manni með opnum örmum hvort sem maður lét vita af sér eða ekki og auðvitað vöfflur og ís alltaf í boði,“ segir María.

Afla reynslu og stækka tengslanet
Það að keppa í Söngvakeppninni hefur verið ævilangur draumur hjá Maríu. Þegar hún var 9 ára stal hún símanum af afa sínum, Sverri Agnarssyni, til að kjósa Jóhönnu Guðrúnu 100 sinnum, sem setti svo sannarlega strik í símreikninginn.
María er einstaklega spennt fyrir Söngvakeppninni og ætlar hún að nýta sér þetta tækifæri eins vel og hún mögulega getur.
„Þetta verður notað til að afla reynslu, stækka tengslanet og kynna þjóðinni fyrir MAIAA,” segir María Agnesardóttir.

Moldin er undirstaða alls

Ólafur Gestur Arnalds prófessor hefur lengi fengist við rannsóknir á íslenskri náttúru og vernd hennar.

Moldin fæðir og klæðir jarðarbúa og hún miðlar jafnframt ferskvatni um vistkerfi. Skilningur á náttúrunni og hvernig hún bregst við álagi vegna athafna mannsins á jörðinni krefst þekkingar á moldinni.
Jarðvegur á Íslandi er einstakur á heimsvísu, frjór en viðkvæmur, því aðstæður fyrir þróun hans hérlendis eru afar sérstakar.
Ólafur Gestur Arnalds vísindamaður hefur verið málsvari moldarinnar um langt skeið, hann hefur afgerandi þekkingu og skilning á þessari dýrmætu auðlind. Ólafur hefur alla tíð helgað líf sitt fræðistörfum á sviði jarðvegs og vistkerfa og kennt ófáum háskólanemum allt um moldina og mikilvægi hennar.

Ólafur er fæddur í Reykjavík 5. janúar 1954. Foreldrar hans eru Ásdís Andrésdóttir Arnalds og Sigurður Arnalds, útgefendur.
Systkini Ólafs eru Sigurður f. 1947, Andrés f. 1948, Einar f. 1950 og samfeðra Jón Laxdal f. 1935 og Ragnar f. 1938.

Hrifu jafnvel barnið með sér
„Ég ólst upp í gamla Vesturbænum á Stýrimannastíg. Hverfið var frábært fyrir börn að alast upp, margir krakkar í hverfinu sem höfðu mikið frjálsræði. Flestir voru úti meginhluta dags utan skólatíma, örstutt niður í Slipp, út í Örfirsey eða niður í miðbæ.
Ég á ansi fjölbreyttar æskuminningar, mikill gestagangur heima fyrir, faðirinn og margir gestkomandi voru frábærir sagnamenn sem hrifu jafnvel barnið með sér. Man hlátrasköllin um húsið en sögurnar gáfu mér um leið tilfinningu fyrir erfiðri lífsbaráttu landans á fyrri hluta 20. aldar.
Vinir okkar bræðra voru heimagangar og það var iðulega mannmargt á Stýró og margir urðu vinir til lífstíðar. Móðirin hélt þessu öllu saman af miklu umburðarlyndi og veitti stuðning þegar hans var þörf.“

Merkileg flóra alþingismanna
„Ég gerðist þingsveinn á Alþingi þegar ég var 10 ára gamall og vann þar marga vetur. Þar kynntist ég merkilegri flóru alþingismanna um miðjan sjöunda áratuginn í miðju kalda stríðinu.
Ég vann m.a. fyrir peningum til að kaupa útvarp og segulband til að hljóðrita tónlist úr Kanaútvarpinu enda þótti popptónlist óæðri músik, óáran sem myndi ganga fljótt yfir og var lítið spiluð í útvarpi landsmanna.“

Háseti á síðutogara
„Ég gekk í Miðbæjarbarnaskólann sem enn stendur við Tjörnina. Man marga frábæra kennara, góða vini og skemmtilega tíma.
Á sumrin var ég í sveit nokkur sumur en einnig við ýmis sendlastörf. Ég byrjaði sem háseti á síðutogara 15 ára gamall og var til sjós fjögur sumur. Aflaði fjár til vetrarins, sem var nú ekki alltaf varið af skynsemi,“ segir Ólafur og brosir. „Síðar vann ég sem verkamaður við gerð brimvarnargarðs í Súgandafirði og eitt sumar sem fangavörður.
Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík eins og fimm bræður mínir á undan mér. Ég tók virkan þátt í leiklistarlífinu (Herranótt) þar sem var oft glatt á hjalla.“

Ýmislegt brallað á Birkiteignum
Eiginkona Ólafs er Ása Lovísa Aradóttir prófessor í landgræðslufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þau eiga tvö börn, Arndísi Ósk f. 1979 sem er verkfræðingur að mennt og Guðmund Ara f. 1994 mannfræðing og tónlistarmann. Barnabörnin eru tvö.
„Það er ýmislegt brallað hérna á Birkiteignum þegar barnabörnin koma í heimsókn, málað, lesið og spilað. Við reynum einnig að eiga góðan sameiginlegan tíma á sumrin í orlofshúsum sem og í sumarhúsi stórfjölskyldunnar við Álftavatn í Grímsnesi. Við hjónin ferðumst þar fyrir utan mjög mikið, bæði vegna starfa okkar og í frítíma, innanlands sem utan.“

Skíðaferðirnar stytta veturinn
„Við Ása höfum alltaf stundað útivist, áður fyrr voru lengri göngur með „allt á bakinu“ á dagskrá en nú eru göngurnar styttri. Gjarnan farið á tjaldsvæði við hálendisbrúnina eftir því sem vindar blása.
Við höfum farið í árlegar ferðir með félögum frá menntaskólaárunum í um 30 ár sem hafa verið mjög gefandi. Skíðaferðir til Ítalíu og víðar stytta veturinn og nú hafa vetrarferðir til heitari slóða í frí bæst við. Vera okkar í Bandaríkjunum telur sjö ár og þar höfum við ferðast mjög mikið. Vinnan kemur okkur líka til framandi staða, m.a. til ýmissa landa Afríku.
Konan mín er listfengur málari en ég stunda töluvert myndatökur með dróna. Náttúra landsins er bæði innblástur í lífinu en einnig viðfangsefni í starfi okkar sem náttúrufræðingar.“

Störfin hafa verið fjölbreytt
Störf Ólafs, bæði á meðan hann stundaði háskólanám og síðar, hafa tengst jarðvegi, landnýtingu, ástandi vistkerfa, landgræðslu o.fl. Hann hóf sumarstörf við beitarrannsóknir við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) sumarið 1976 og hefur starfað þar allar götur síðan, fyrst meðfram námi en síðar sem sérfræðingur og sviðsstjóri eftir að háskólanámi lauk.
„Ég varð prófessor eftir að RALA sameinaðist Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Störfin hafa verið fjölbreytt og hafa meðal annars beinst að sérstökum eiginleikum moldar á eldfjallasvæðum jarðar í samvinnu við evrópska kollega, að rannsóknum á eiginleikum sem og flokkun íslensk jarðvegs, en einnig að sandfoki og ryki á Íslandi, ástandi lands og vistheimt.
Í upphafi stýrði ég kortlagningu á jarðvegsrofi á landinu öllu en síðar þróun gagnagrunns um landgerðir og bújarðir á Íslandi með verkefninu Nytjaland, auk rannsókna á moldinni. Ég hef átt marga frábæra samstarfsmenn og nemendur í gegnum tíðina.“

Mold ert þú
Störf Ólafs hafa jafnframt falið í sér kennslu og skriftir, m.a. á vísindagreinum og bókum en sl. vor kom út bók eftir hann, Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra, sem var búin að vera lengi í smíðum.
Mold ert þú er efnismikil og glæsileg bók þar sem fjallað er um jarðveg og umhverfismál frá mörgum hliðum. Hún skiptist í þrjá meginhluta, grunnþætti jarðvegsfræðinnar, íslenska mold og umhverfið. Þetta er fróðleg bók fyrir alla sem hafa áhuga á náttúrufræði.
Bókin er prýdd miklum fjölda ljós- og skýringarmynda sem unnar voru af Fífu Jónsdóttur.

Tónlistin ofarlega á blaði
Ólafur hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 fyrir kortlagningu á jarðvegsrofi á Íslandi. Eins var honum, eiginkonu hans og Andrési Arnalds veitt umhverfisviðurkenning umhverfisnefndar Mosfellsbæjar árið 2016 fyrir störf að umhverfismálum. Ólafur hlaut landgræðsluverðlaun Landgræðslu ríkisins árið 2018.
Ólafur lauk formlega störfum í janúar síðastliðnum, ég spyr hann að lokum hvað taki nú við? „Aðeins rólegri dagar,“ segir Ólafur og brosir en náttúra, útivist og samvera með fjölskyldu er efst á blaði. „Að ferðast, kynnast náttúrunni, sögu og menningu, það eru forréttindi þegar atvinna og áhugamál hafa farið saman eins og í mínu tilfelli. Mosfellsbær er hreint magnaður bær þegar kemur að útivistinni.
Tónlistin er líka alltaf ofarlega á blaði, það er gaman að pikka upp lög og gítarsóló sem kemur í veg fyrir liðagigt og eflir andann á ýmsa lund.“

Uppbygging í Mosfellsbæ

Korputún, atvinnukjarni í landi Blikastaða.

Regína Ásvaldsdóttir

Á komandi árum er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis í Mosfellsbæ.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er lögð áhersla á að fjölga og auka fjölbreytni starfa í Mosfellsbæ í nýrri atvinnustefnu bæjarins.
Í dag er bæjarfélagið stærsti atvinnurekandinn með um eitt þúsund starfsmenn. Næst á eftir koma Reykjalundur og Matfugl þar sem hvor aðili er með um 150 starfsmenn. Þá kemur Reykjabúið með 66 störf og Ísfugl með um 50 störf. Þar á eftir hjúkrunarheimilið Hamrar með um 40 starfsmenn.

Okkur vantar fjölbreyttari störf
„Það vantar tilfinnanlega fjölbreyttari störf í bæjarfélagið og því eru ánægjuleg tíðindi að öflug fyrirtæki hafa sóst eftir lóðum á nýju svæði við Korputún auk þess sem uppbygging Skálatúns mun hafa í för með sér mikla fjölgun sérfræðistarfa,“ segir Regína.
Á lóð Skálatúns er ráðgert að koma fyrir að minnsta kosti þremur ríkisstofnunum sem þjónusta börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Það eru Barna- og fjölskyldustofa með 80 starfsmenn, Ráðgjafar– og greiningarstöð með 70 starfsmenn og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með 45 starfsmenn.
Um þessar mundir fer fram greining á húsnæðisþörf þessara stofnana og í framhaldinu verður auglýst eftir áhugasömum arkitektastofum til að vinna deiliskipulag á svæðinu. Þá fer fram nafnasamkeppni um heiti þessa nýja klasa. Gert er ráð fyrir að fleiri stofnanir og félagasamtök bætist við þegar fram líða stundir. Svæðið er mjög stórt, eða um sex hektarar, og að sögn Regínu getur það vel rúmað þá búsetukjarna sem eru fyrir og nýjar byggingar.

Uppbygging á Blikastaðalandi
En það er líka gert ráð fyrir fjölgun íbúða, meðal annars á Blikastaðalandi. Á fundi bæjarstjórnar í lok janúar var staðfest fundargerð skipulagsnefndar sem fjallaði um umsagnir og ábendingar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Blikastaðalandi.
Um var að ræða skipulagslýsingu sem var auglýst 13. desember í skipulagsgáttinni og höfðu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar mánuð til að senda inn umsagnir sínar og ábendingar.
Skipulagslýsingin er fyrsta skrefið í samráði vegna fyrsta áfanga Blikastaðalands. Í lýsingu kom fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur verkefnisins, fyrirliggjandi stefna og fyrirhugað skipulagsferli samkvæmt lögum.
Í skipulagslýsingunni segir meðal annars að skipulagssvæði í fyrsta áfanga sé u.þ.b. 30-35 ha að stærð og liggi upp að núverandi byggð við Þrastarhöfða. Svæðið verður skilgreint sem íbúðarbyggð og miðsvæði.
Gert er ráð fyrir mögulegum 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast muni í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar. Þá er gert ráð fyrir grænum svæðum og einnig er markmiðið að skapa aðlaðandi bæjarmynd þar sem gamli Blikastaðabærinn er hjarta svæðisins og aðdráttarafl.

Svipuð þróun og frá aldamótum
„Fram undan er umfangsmikið samráð vegna skipulagsvinnunnar og er áætlað að sú vinna taki um eitt og hálft ár vegna fyrsta áfangans. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging fyrsta áfanga geti tekið allt að fjögur til fimm ár héðan í frá,“ segir Regína og bætir við að þróun uppbyggingar á Blikastaðalandi verði svipuð og þróun Mosfellsbæjar frá aldamótum.
„Ef við skoðum þróun Mosfellsbæjar síðastliðin 25 ár þá hefur íbúafjöldi bæjarins meira en tvöfaldast. Fjöldi íbúa í Mosfellsbæ var rúmlega 6 þúsund manns árið 2000.
Miðað við að uppbygging Blikastaðalands taki jafnlangan tíma, eða 25 ár, þá má gera ráð fyrir að íbúafjöldi Mosfellsbæjar verði orðinn 25 til 30 þúsund árið 2050. Þá er einnig tekið tillit til þess fjölda íbúða sem enn á eftir að byggja miðsvæðis í Mosfellsbæ og á óbyggðum svæðum í Helgafellshverfi.
Á Íslandi er ákall um meiri uppbyggingu húsnæðis, og á það ekki síst við núna í tengslum við eldgosin á Reykjanesi og rýmingu Grindavíkur. Horft er til norðurs í því samhengi og hvatt til hraðari uppbyggingar.
Við verðum að gera okkur grein fyrir að land er verðmæti, ekki síst þar sem hægt er að nýta dýra innviði og fjárfestingar sem fyrir eru í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir Mosfellsbæ að geta boðið upp á góða þjónustu fyrir íbúana en til þess að það sé hægt þá þurfum við tiltekinn fjölda útsvarsgreiðenda og fyrirtækja til að standa undir henni.“

Jóna Margrét keppir til úrslita í Idol

Jóna Margrét ásamt foreldrum sínum Guðmundi St. Valdimarssyni og Hjördísi Kvaran.

Mosfellingurinn Jóna Margrét Guðmundsdóttir keppir til úrslita í Idol stjörnuleit föstudagskvöldið 9. febrúar en sýnt verður frá keppninni í beinni útsendingu á Stöð 2.
Jóna Margrét er alin upp í Mosfellsbæ til 10 ára aldurs, en býr nú á Akranesi. Foreldrar hennar eru Mosfellingarnir Hjördís Kvaran Einarsdóttir og Guðmundur St. Valdimarsson. Jóna Margrét lauk stúdentsprófi af tónlistardeild Menntaskólans á Akureyri 2023. Eftir MA fór hún til Kaupmannahafnar í söngnám í Complete Vocal Institute.
„Ég var í námi úti í Danmörku þegar umsóknarferlið fyrir Idolið hófst og varð bara óskaplega skotin í þessu og ákvað að sækja um. Fékk svo svar um að ég væri komin inn og þá varð þetta allt svo raunverulegt. Ég er mjög þakklát fyrir það í dag og er ótrúlega stolt.“

Vön að koma fram
„Ég hafði komið nokkuð fram áður en ég fór í Idolið. Var búin að vera mikið á sviði í söngleikjum í Hofi á Akureyri sem LMA setti upp, keppti í söngvakeppnum og komið oft fram á vegum TónAk.
Ég á mér draum um að geta lifað á því að vera tónlistarmaður og þá þarf maður að vera duglegur að koma sér að. Ég hélt eigin útgáfutónleika á Græna hattinum þegar platan mín, Tímamót, kom út 2022. Platan var hluti af lokaverkefni mínu hjá TónAk.“

Allt sem mig dreymir um
„Úrslitakvöldið fer fram með þeim hætti að þrír keppendur koma fram og syngja eitt lag sem við veljum sjálf. Í miðjum þætti verður kosið og einn fer heim og þeir tveir sem eftir standa keppa aftur með því að syngja úrslitalag og aftur er kosið og eftir það verður krýndur sigurvegari Idolsins 2024.
Þetta hefur gengið ótrúlega vel, þetta er náttúrulega allt sem mig dreymir um að gera, að koma fram undir nafninu Jóna Margrét og vera listamaður.
Eins og fram hefur komið í þáttunum þá er þetta mjög, mjög erfitt ferðalag en á sama tíma 100% það sem mig dreymir um. Þetta er alveg magnað ferli og maður kynnist fullt af yndislegu og mjög hæfileikaríku fólki og myndar tengsl við fólk til frambúðar.“

Finnur fyrir ótrúlegum stuðningi
„Það er alveg magnað, ég finn fyrir ótrúlegum stuðningi alls staðar frá. Mosó er alltaf mínar æskuslóðir og ég finn fyrir ótrúlega miklum stuðningi þar en svo hef ég búið á fleiri stöðum og hef mótast þar sem karakter og listamaður og ég mun alltaf tengja mig við þá staði líka.
Ég finn fyrir miklum stuðningi frá öllum þessum stöðum, ég er mjög þakklát fyrir það og mér þykir vænt um það.
Ég ætla svo að nota „platformið“ og halda áfram, gefa út meiri tónlist og vera bara duglegri við að koma fram og trúa og treysta á það sem ég er. Þannig að ef einhvern vantar atriði eða tónlistarflutning þá endilega bara hafið samband.
Ég vil enn og aftur þakka kærlega fyrir allan stuðninginn og ég fer hress inn í úrslitakvöldið,“ segir Jóna Margrét glöð í bragði að lokum.

Opna skyndibitastaðinn Dúos

Skyndibitastaðurinn Dúos hefur opnað við hlið Krónunnar í Háholtinu. Tvíburasystkinin Alexía Gerður og Sigdór Sölvi Valgeirsbörn reka staðinn sem opnaði þann 12. janúar.
Systkinin eru alin upp á Kjalarnesi en búa nú í Mosó ásamt fjölskyldum sínum. Þau hafa mikla reynslu af lokum og hraðri afgreiðslu af Hlöllabátum þar sem þau hafa unnið í rúman áratug.
„Það hefur alltaf verið draumurinn að opna okkar eigin stað en hugmyndin var samt komin út af borðinu fyrir þónokkru síðan. Við ætluðum að breyta algjörlega um starfsvettvang. Svo einhvern veginn kom þetta bara upp á einum degi, skyndiákvörðun má segja,“ segir Alexía.

Lokurnar skírðar eftir Mosfellingum
„Þetta fer eiginlega betur af stað en við þorðum að vona og móttökurnar verið frábærar, alveg geggjaðar. Margir sem koma aftur og aftur.“
Á boðstólum eru lokur, hamborgarar, djúpsteiktar pylsur og franskar.
En hvaðan kemur nafnið Dúos?
„Við systkinin erum bara svo gott dúó að það lá beinast við.“
Hvaðan koma nöfnin á lokunum?
„Okkur langaði að hafa smá bæjarstemningu hérna hjá okkur þannig að við fengum lánuð nokkur gælunöfn með góðfúslegu leyfi. Nöfnin á lokunum eru því tengd við nokkra þekkta Mosfellinga. Það eru ekkert endilega allir sem fatta það, en pælingin er skemmtileg.“
Og hver er vinsælasta lokan?
„Það er hörð samkeppni á milli Bulkdórs og Bingó Bjössa þessa dagana. Fleiri nöfn eins og Pulla Jr., Slæ, Jollinn, King og Queen B skjóta þarna líka upp kollinum.“

Hægt að fá sent heim með Wolt
„Stærðin á húsnæðinu hér er fullkomin og staðsetningin góð. Næg bílastæði og líf í húsnæðinu öllu. Hér er hægt að grípa með sér mat eða gleypa í sig á staðnum. Við opnum kl. 10:00 á morgnana og lokum kl. 20:30 á kvöldin. Í hádeginu erum við með hádegistilboð sem hljóðar upp á loku og gos á 1.850 kr.“
Dúos hefur hafið samstarf við Wolt um heimsendingar þannig að nú er hægt að fá matinn sendan beint heim að dyrum.
„Við sjáum hvernig þetta gengur hjá okkur, svo er aldrei að vita nema við förum í frekari útrás í framtíðinni, það kemur bara í ljós. Það er nóg að gera í bili,“ segir Sigdór.

Stór meirihluti íbúa vill ekki þétta byggð á Blikastöðum

Hagsmunasamtök íbúa í Mosfellsbæ voru formlega stofnuð þann 9. janúar en tilgangur félagsins er að vera vettvangur fyrir íbúa Mosfellsbæjar til að gæta hagsmuna íbúa gagnvart stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og öðrum.
„Við viljum hvetja íbúa til að taka virkan þátt í umræðunni um öll þau mál er varða hagsmuni íbúa Mosfellsbæjar,“ segir Berglind Þrastardóttir formaður samtakanna en með henni í stjórn eru Einar Páll Kjærnested og Ingibjörg Sigríður Árnadóttir.
Stuttu eftir stofnun samtakanna var sett af stað íbúakönnun og stofnaður hópur á Facebook sem telur um 900 meðlimi.
„Könnuninni var dreift með póstum á Facebook og þar komu hverfasíður bæjarins sér vel. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum en tæplega 1.000 manns tóku þátt í könnuninni og ljóst er, út frá niðurstöðum hennar, að lítill samhljómur er á milli vilja bæjarbúa og bæjarfulltrúa um hvernig fólk vill sjá þróun byggðar í Mosfellsbæ.“

Brugðið eftir fund skipulagsnefndar
Hugmyndin að stofnun Hagsmunasamtaka íbúa í Mosfellsbæ varð til í framhaldi af því að íbúar í Bröttuhlíð og Hamratanga voru boðaðir á samráðsfund skipulagsnefndar Mosfellsbæjar í byrjun desember.
„Tilefnið var að kynna fyrir íbúum tillögu um að breyta þessari 47 íbúða götu, sem eingöngu er byggð einbýlishúsum og fjórbýlishúsum yfir í 157 íbúða borgarbyggð, þar sem m.a. yrðu byggðar sjö, þriggja og fjögurra hæða blokkir upp við Vesturlandsveginn í Bröttuhlíð.
Það er óhætt að segja að íbúum hafi brugðið enda tillagan í engu samræmi við gildandi aðalskipulag og ef af yrði myndi hún gjörbreyta ásýnd og byggð í götunni. Eftir fundinn hringdu nokkrir aðilar sig saman og voru allir sammála um að eitthvað yrði að gera til að berjast gegn þessum áformum og úr varð sterkur og drífandi hópur fólks. Fljótlega kom upp sú hugmynd að það væri skynsamlegt að stofna hagsmunasamtök þar sem hægt væri að ræða mál bæjarins á ópólitískum og málefnalegum vettvangi því flest höfum við skoðun á því hvernig við viljum sjá bæinn okkar þróast.“

Þörf á meiri umræðu um framtíðarsýn
Hagsmunasamtökin, í samvinnu við Húseigendafélagið, fengu Pál Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði, til að vinna skoðanakönnun á meðal bæjarbúa og spyrja íbúa hvernig þeir sjái fyrir sér húsnæði, búsetu og þróun byggðar í sveitarfélaginu.
„Auðvitað hefði sveitarfélagið átt að vera búið að gera slíka könnun áður en ráðist var í meiriháttar umbreytingu á þróun byggðar, en því miður þá var það ekki gert.
Vonandi gefa bæjarfulltrúar okkar í Mosfellsbæ sér tíma til að rýna niðurstöðurnar og hugsanlega sjá þeir að það sé þörf á miklu meiri umræðu um framtíðarsýn Mosfellsbæjar á milli bæjarbúa og bæjarfulltrúa.“

960 manns tóku þátt í könnuninni
Vefkönnun var gerð á tímabilinu 17.-31. janúar 2024 og eru frumniðurstöður kynntar hér. 960 manns tóku þátt í könnuninni og var dreifing svara góð eftir aldursflokkum, kynjum og hverfum. Að sögn Páls Jakobs hafa þátttakendurnir almennt áhuga á skipulagsmálum og ættu niðurstöðurnar að vera hvatning fyrir skipulagsyfirvöld að efla samtal og samráð við íbúa.
– Flestir voru sammála um að þétting byggðar ætti ekki að fara fram með þeim hætti að opin svæði í þeirra eigin hverfi myndu víkja fyrir íbúðabyggð.
– 48% þátttakenda nefna Reykja-, Tanga-, Holta- og Höfðahverfi sem hverfi sem lýsi Mosfellsbæ best.
– Niðurstöður sýna að yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda er andvígur því að ný byggð í Blikastaðalandi verði tvöfalt þéttari en núverandi byggð í Helgafellshverfi.

Þolinmæði og þrautseigja

Febrúar er hressandi mánuður. Það er svalt, það er stormasamt, það er allra veðra von. En febrúar er líka stysti mánuður ársins, líka þegar það er hlaupár eins og í ár. Ég er að verða mikill febrúarmaður. Hef gaman af því að vakna á morgnana og kíkja út um gluggann til að taka púlsinn á veðrinu og færðinni.

Oft kemur febrúar á óvart en hann á það líka til að detta í samfleytt skeið af eins veðri. Hann virðist vera þannig stemmdur núna, alvöru frost í kortunum eins langt og spár ná. Það þýðir að við eigum eftir að fá marga fallega sólardaga og þá er upplagt að nýta til þess að skella sér í léttar fella- eða fjallgöngur.

Við hjónin fórum á Mosfellið í gær. Sólin skein á hvítan snjóinn allt í kringum okkur, útsýnið var magnað, þetta var eins og að standa inni í póstkorti. Það var vissulega kalt, en við vorum vel klædd og fundum lítið fyrir kuldanum. Þegar mér verður aðeins kalt þessa dagana verður mér strax hugsað til La sociedad de nieve (Snjósamfélagið), bíómyndar sem yngsti sonur okkar kynnti okkur fyrir. Frábær mynd frá 2023 um atburð sem gerðist árið 1972. Þolinmæði, þrautseigja og sterkur lífsvilji eru lykilatriði í myndinni og eftir að hafa horft á hana og sett sig í spor þeirra sem þar er sagt frá, er erfitt að detta í að kvarta yfir kulda og klaka klæddur í hlý föt í upphituðu húsi á Íslandi.

Febrúar 2024 er líka sérstakur fyrir mig persónulega. Ég er að breyta til í vinnu. Legg á hilluna nokkur verkefni sem ég hef verið að fást við í mörg ár og stíg núna í febrúar inn í nýtt hlutverk sem mér finnst alveg ótrúlega spennandi og áhugavert. Óska ykkur öllum gleðilegs febrúar, njótum hans í botn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. febrúar 2024

Framleiðir sitt eigið fæðubótarefni

Mosfellingurinn Daníel Ingi Garðarsson er ungur athafnamaður sem hóf framleiðslu á fæðubótarefnum á síðasta ári.
„Upphafið að þessu var að ég fór sjálfur í hormónamælingu og greinist með of lágt testósterón og vantaði góðan búster fyrir testó en fann engan hér á landi og ákvað að búa til minn eigin og svo þróaðist þetta út frá því,“ segir Daníel sem segir lágt testósterón og ófrjósemi hjá ungum karlmönnum vera vaxandi vandamál í vestrænum heimi.

Framleitt í Matís
Daníel er mikill grúskari og hefur mikinn áhuga á indverskri og kínverskri læknisfræði, grúskar mikið í rannsóknum og er í líftækninámi sem stendur.
„Öll línan mín er framleidd hér á landi í Matís og ég nota einungis hágæða hráefni í fæðubótarefnin mín sem ég flyt inn sjálfur. Ég er með 6 vörur og ætla mér að breikka línuna í framtíðinni. Svo hef ég mikinn áhuga á að skoða íslenskar jurtir og vinna með þær í framtíðinni.“

Framleiðir undir nafninu Ingling
„Sem barn las ég mikið Íslendingasögurnar og ein af mínum uppáhalds sögum er Ynglingasaga en allir Íslendingar geta örugglega rakið ættir sínar þangað.
Sagan fjallar um afkomendur guðsins Freys sem er guð frjósemi og fannst mér þetta smellpassa. Og lógóið mitt er Ynglingarúnin. Svo er það líka skemmtilegt að ég heiti Ingi að öðru nafni,“ segir Daníel og hlær.

Ætlar sér stóra hluti
„Virknin í jurtunum sem ég er með, eins og til dæmis Ashwagandha sem hefur notið mikilla vinsælda á síðastliðnum árum, er að koma á hormónajafnvægi, virkar vel á streitu og álag og fleira. Markmið mitt er að bæta heilsu og vellíðan allra Íslendinga.
Vörurnar er hægt að fá á heimasíðunni minni www.ingling.is, Mamma veit best og í Urðarapóteki,“ segir Daníel að lokum og hvetur allar Mosfellinga til að skoða síðuna sína og kynna sér fæðubótarefnin sem hann býður upp á.

Náttúran heillar mig alltaf

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður og rithöfundur er landsmönnum vel kunnugur enda hefur hann starfað mikið að upplýsingamiðlun til almennings um náttúruna, margs konar vísindi og tækni, nýsköpun, jarðvísindi og umhverfismál. Hann hefur skrifað fjölda bóka um náttúru Íslands og gefið út ljóðabækur, skáldsögur og smásagnasöfn.
Árið 2016 var Ari Trausti kosinn á þing þar sem hann var m.a. formaður og fulltrúi ýmissa nefnda en hann lét af störfum árið 2021.

Ari Trausti fæddist í Reykjavík 3. desember 1948. Foreldrar hans eru Lydía Pálsdóttir Zeitner-Sternberg leirmunasmiður og Guðmundur Einarsson myndlistamaður og rithöfundur frá Miðdal.
Ari á fimm systkini, Guðmund f. 1932, Einar Steinólf f. 1932, Yngva Örn f. 1938, Auði Valdísi f. 1943, Egil Má f. 1952.

Náttúran var áhugaverð
„Ég er alinn upp í Reykjavík, efst á Skólavörðustíg og í sumarhúsinu Lynghól í Mosfellsbæ, gamla Miðdalslandinu en þar bjuggum við í rúma þrjá mánuði á hverju ári.
Æskuminningarnar eru margar og góðar, hverfið mitt í Reykjavík var fullt af búðum, vinnustöðum, krökkum og leiksvæðum og svo dvölin frá því snemma sumars og fram yfir réttir í Lynghól og á Miðdalsheiðinni, þar var náttúran áhugaverð, trjáræktin og dýralífið.“

Nútíminn hélt innreið sína
„Ég gekk í Miðbæjarskólann þar sem mér leið vel, eignaðist góða vini og man bara eftir vönduðum kennurum. Þaðan fór ég í landsprófsdeild í Iðnaðarmannahúsinu við Vonarstræti og svo í Menntaskólann í Reykjavík þar sem nám gekk þokkalega en kennararnir voru upp og ofan. Við strákarnir oftar í jakkafötum til að byrja með en gallabuxum og þurftum að þéra suma kennara þar til þeir urðu dús. Yngri kennarar höfðu fundið nútímann og hann hélt líka innreið sína meðal nemanda með bítla- og hippatímabilinu.
Á sumrin dvaldi ég í sumarbústaðnum í Lynghól, fékk að fara með pabba og eldri bræðrum á veiðar og í ferðalög með foreldrum víða um land og í utanlandsferðir til Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf ég störf hjá Belgjagerðinni og starfaði þar við frágang vara. Ég starfaði einnig hjá Mjólkursamsölunni við ýmis störf og hjá Flugmálastjórn við viðhald á Reykjavíkurflugvelli.“

Samvera við ýmis góð tilefni
Eiginkona Ara Trausta er María Gíslína Baldvinsdóttir sjúkraliði frá Siglufirði. Þau eiga þrjú börn, Huldu Sóllilju f. 1973, Hugin Þór f. 1976 og Helgu Sigríði f. 1985. Barnabörnin eru fimm.
„Þegar börnin voru yngri vorum við mikið í sumarbústaðnum okkar, fórum á skíði og svo ferðuðumst við út á land, gjarnan til Siglufjarðar. Smám saman lá leið okkar einnig til útlanda. Núna snýst samvera um alls konar tilefni til að hittast, gjarnan til að borða saman og svo höfum við gætt barnabarnanna af og til sem veitir okkur hjónunum mikla ánægju.“

Hlotið margar viðurkenningar
Það er óhætt að segja að Ari Trausti hafi komið víða við á sínum ferli. Hann stundaði nám í jarðeðlisfræði við Oslóarháskóla og tók síðar viðbótarnám í jarðvísindum frá Háskóla Íslands og útskrifast þaðan 1984.
Hann vann við rannsóknarstörf, blaðamennsku, kennslu og leiðsögn og ferðaþjónustu til ársins 1987. Eftir það varð hann sjálfstætt starfandi og sinnti ýmiss konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, ferðaþjónustu, fjölbreyttum ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp.
Ari Trausti hefur skrifað fjölda bóka, gefið út smásagnasöfn, ljóðabækur og skáldsögur. Hann hefur einnig skrifað margar greinar í blöð og tímarit um umhverfismál, ýmis þjóðmál, stjórnmál, ferðaþjónustu og fjallamennsku. Hann hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín m.a. Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Landgræðsluverðlaunin, verðlaun Rannís fyrir framlag til vísindamiðlunar og árið 2022 varð hann handhafi riddarakross Fálkaorðunnar fyrir störf á sviði vísinda og þekkingarmiðlunar.

Á ekki langt að sækja listhneigð sína
Ari Trausti hefur komið að hönnun ýmissa safna og sýninga, meðal annars Lava Centre á Hvolsvelli. Hann hefur framleitt heimildarmyndir og sjónvarpsþætti, tekið þátt í ljósmyndasýningum og haldið sýningar á eigin verkum, vatnslitamyndum og teikningum.
Ari Trausti á ekki langt að sækja listhneigð sína en faðir hans var þekktur og afkastamikill myndlistarmaður og rithöfundur, móðir hans leirmunasmiður og Guðmundur (Erró) bróðir hans er einn af þekktustu samtímalistamönnum Íslands og hefur einnig leikið veigamikil hlutverk í alþjóðlegri myndlist.

Leitaði uppi óklifin fjöll
„Ég hef stundað útivist, fjalla- og jöklaferðir í yfir fimm áratugi, bæði hér heima, í Ölpunum og í nokkrum háfjallalöndum, t.d í Asíu og Suður-Ameríku. Mörg eldgos hafa verið tilefni til útivistar og svo hef ég líka stundað ísklifur. Ég var svolítið í hálendisleiðsögn hér heima og var í litlum hópi sem leitaði uppi óklifin fjöll á Íslandinu góða til að klífa.
Ég fór líka út í það að leiðsegja íslenskum hópum erlendis, m.a. á norðurslóðum og í Ekvador, auk ferða til Suðurskautslandsins, Mongólíu og Nýja-Sjálands svo dæmi séu nefnd. Fjallganga, létt eða erfið, er eiginlega meira en holl áreynsla, líka einhvers konar jóga, ég er ekki einn um þá skoðun.“

Alltaf gaman að skoða nýjar slóðir
Mörg Evrópulönd hafa verið á dagskránni á löngum tíma og við Maja höldum upp á borgarferðir og höfum farið í fáeinar slíkar um Frakkland að undanförnu. Það er alltaf gaman að skoða sig um á nýjum slóðum og í alls konar samfélögum.“
Ég spyr Ara hvað standi upp úr frá öllum þessum ferðalögum um heiminn? „Margar minningar hafa safnast til manns, t.d að klífa ófarinn tind eins og Snæfell við Kálfafellsdal í kulda og trekki. Ganga um ósnortnar slóðir á Grænlandi með sauðnautum.
Standa á fyrsta tindinum yfir 6.000 metrana í Bólivíu og horfa á langan skugga hans styttast í takt við sólaruppkomuna. Þurfa að taka tilhlaup til að stökkva af hraunfleka yfir glóandi sprungu á fast land í Heklugosi og sitja með Maju á Café Carette í Mýrinni í París. Eftirminnilegt já, en það eftirminnilegasta er ef til vill ókomið í sjóðinn,“ segir Ari og brosir.

Fara í göngutúra um bæinn
Árið 2016 var Ari Trausti kosinn á þing fyrir Vinstri græna í Suðurkjördæmi. Meðal annarra starfa á Alþingi var hann fulltrúi VG í utanríkismálanefnd, formaður Þingvallanefndar, formaður þingmannanefndar um norðurslóðir og varaformaður umhverfis og samgöngunefndar en hann lét af störfum 2021.
Ég spyr Ara Trausta hvað hann sé að gera í dag? „Ég sinni ritstörfum, fyrirlestrum, nefndarstörfum, leiðsögn og fjölmiðlun en nýti frístundir til annars, t.d. gönguferða með Maju upp og niður hér í sveitinni og í bænum,“ segir Ari að lokum er við kveðjumst.

Fyrsti Mosfellingur ársins kom í heiminn á nýársdag

Piotr og Karina með nýársdrenginn.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2024 er drengur sem fæddist á Landspítalanum þann 1. janúar klukkan 22:49, hann var 3.855 gr. og 50 cm.
Drengurinn er fyrsta barn foreldra sinna sem eru þau Karina Cieslar og Piotr Cieslar sem koma frá Póllandi en hafa búið í Mosfellsbæ í tvö ár.

Fæðingin gekk vel
„Við vorum í gamlárspartýi til kl. 2 um nóttina og vöknuðum svo við að vatnið fór hjá mér kl. 6.
Fæðingin gekk mjög vel, það var vel tekið á móti okkur á Landspítalanum og mér finnst fæðingarþjónustan hér alveg dásamleg,“ segir hin nýbakaða móðir.

Elska kyrrðina og náttúruna
„Okkur líkar rosalega vel að búa hér í Mosfellsbæ, við elskum kyrrðina og náttúruna hér í kring. Við komum frá suður Póllandi og landslagið minnir okkur á heimaslóðir. Við stefnum á að flytja aftur til Póllands eftir ár til að vera nærri fjölskyldu og vinum,“ segir Piotr.
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með drenginn.

Sundlauginni á Skálatúni lokað vegna slæms ástands

Ákveðið hefur verið að loka sundlauginni á Skálatúni til frambúðar vegna slæms ástands hennar.
Meðal þeirra sem mikið hafa notað laugina er sundkennarinn Snorri Magnússon sem kennt hefur ungbarnasund. Snorri greinir frá því á Facebook að hann sitji uppi með nemendur sem biðu þess að hefja námskeið eftir jólafrí og fullan biðlista.

Þungbær ákvörðun
Nýr eigandi fasteigna á landi Skálatúns tók á dögunum þá þungbæru ákvörðun að starfsemi gæti ekki haldið áfram í sundlauginni á grundvelli öryggissjónarmiða, ekki síst með hliðsjón af því um hvers konar rekstur er að ræða.
Þetta kemur fram hjá Sóleyju Ragnarsdóttur framkvæmdastjóra sjálfseignarstofnunar Skálatúns.
„Milli jóla og nýárs á nýliðnu ári tók nýr eigandi formlega við eignarhaldi fasteigna í landi Skálatúns. Innan þess eignasafns er sundlaug, þar sem kennt hefur verið ungbarnasund til fjölda ára við góðan orðstír. Ætlun nýrra eigenda var alla tíð að sá rekstur myndi halda áfram, enda merk saga ungbarnasunds í lauginni sem mikill vilji var til þess að héldi þar áfram.“

Ástand burðarvirkis ótraust
„Síðla árs bárust upplýsingar um að ástand húsnæðisins sem laugin er í væri ekki eins og best yrði á kosið og var ákveðið að fá fagmenn til þess að skoða húsnæðið og meta ástand þess.
Út úr þeirri skoðun kom sú niðurstaða að ástand húsnæðisins er afar slæmt. Það sem vegur þyngst er að burðarbitar sem halda uppi þaki og veggjum laugarinnar eru mjög fúnir og illa farnir.
Ástand burðarvirkis er þannig ótraust og metið óöruggt.“

Dóri DNA Mosfellingur ársins 2023

Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Dóri er annar tveggja höfunda sjónvarpsþáttaraðarinnar Afturelding sem sýnd var á RÚV á síðasta ári og fékk frábærar viðtökur. Serían hefur verið sýnd víðsvegar á Norðurlöndunum og var m.a. valin besta norræna sjónvarpssería ársins í Svíþjóð.
„Ég er djúpt snortinn, þetta eru fyrstu verðlaunin sem ég vinn á ævi minni og að þau komi úr þessari átt er þeim mun sætara,“ segir Dóri en samningar um aðra þáttaröð af Aftureldingarþáttunum hafa þegar verið undirritaðir.

Höldum áfram að hugsa stórt
„Í mínum huga er þetta einhvers konar fullnægja á öllu þessu Aftureldingarverkefni og gott veganesti í næstu seríu. Við erum að skila fyrstu drögum að seríu tvö í lok mánaðarins, við förum enn dýpra í bæjarlífið, hleypum smá pólitík inn í þetta og skemmtilegum karakterum. Við erum enn að velta upp hugmyndum en finnum að það eru allir spenntir fyrir þessu.
Ég tel að þessir þættir hafi hreyft við bænum, það er einhver lenska að líta á okkur Mosfellinga sem sveitó en ef við horfum á listafólkið sem kemur héðan og hefur gert á undanförum áratugum þá erum við núna með Kaleo, Ólaf Arnalds og Sigur Rós á heimssviðinu.
Það er þetta afslappaða viðmót sem við Mosfellingar höfum gagnvart listum sem er lykillinn að þessari velgengni listafólks héðan, við þurfum bara að halda áfram að hugsa stórt.“

Stórt ár á sviði lista
Árið hefur verið stórt hjá Dóra því auk Aftureldingarþáttanna er hann einn aðalhöfundur kvikmyndarinnar Northern Comfort sem frumsýnd var í september en sýningarréttur hefur verið seldur til fjölmargra landa. Uppistandssýningin Dóri DNA, Engar takmarkanir, var sýnd um allt land og m.a. fyrir fullu húsi í Hlégarði.
„Í ár komst ég aftur á kreatíva sporið, við Haddi meðhöfundur minn í Afureldingu erum að skrifa saman tvær aðrar sjónvarpsseríur. Gerðum kvikmyndina Northern Comfort sem var stórt verkefni, Netflix, erlendir leikarar og allt á ensku. Við erum í sambandi við erlenda aðila sem vilja vinna með okkur en við vinnum rosalega vel saman og samstarfið algjör snilld.“

Munum hertaka bæjarfélagið aftur
„Þegar við skrifuðum fyrstu Aftureldingarseríuna þá rýndum við vel í bæjarlífið, það er svo gott að spegla samfélagið í Mosfellsbæ því hér er allt. Tökuferlið var algjört ævintýri og samstarfið við alla sem komu að þáttagerðinni var frábært. Það voru margir starfsmenn Mosfellbæjar og Aftureldingar sem fóru langt fram úr sínum hlutverkum og gerðu svo miklu meira fyrir okkur en þeim bar og fyrir það erum við rosalega þakklát.
Það er einn Mosfellingur sem verður að fá risa hrós en það er Ásgeir Jónsson sem sá um að þjálfa stelpurnar í handbolta og koma með handboltasýnina inn handritið.
Við skilum handriti í vor og ef allt gengur að óskum þá hertökum við bæjarfélagið aftur næsta vor. Það eru margar hugmyndir í gangi. Mögulega verður einn leikmaður liðsins farinn að leita út í atvinnumennsku og okkur langar að sýna hvernig atriði eins og lóðarifrildi í bæjarstjórn getur haft áhrif eða afleiðingar í handboltanum hjá 3. flokki.

Alltaf sendiherra Mosfellsbæjar
„Ég er svolítið gjarn á að hugsa sjálfan mig í baksætinu, en árið 2025 verð ég fertugur og þá ætla ég að gefa út bók sem fjallar að miklu leyti um líkamsvitund og það að vera feitur en er samt skemmtisaga. Þá ætla ég líka að stefna á að vera með uppistand í 1.000 manna sal og halda upp á ferilinn.
Það er mér gríðalegur heiður að hljóta þennan titil, er alltaf sendiherra Mosfellsbæjar hvar sem ég er í heiminum. Mosfellsbær hefur breyst mikið frá því ég ólst hér upp en í allri minni sköpun leita ég í upprunann, yfirleitt er ég að lýsa Mosfellsbæ æsku minnar.
Ég veit að þetta hljómar kannski lúðalega en Mosfellsbær gaf mér rödd, gaf mér afstöðu til að sjá hlutina í ákveðnu ljósi og þetta er það eina sem ég á sem listamaður,“ segir Dóri að lokum.

Núið

Ég er að vinna í núinu. Það er ekki einfalt. Kollurinn fer svo auðveldlega á flakk. Ég fer að hugsa um það sem ég ætla að gera, það sem er fram undan, það sem væri gott að myndi gerast og það sem væri minna gott að myndi gerast. En þegar ég næ að róa hugann og njóta þess sem ég er að gera án þess að velta á sama tíma fortíð eða framtíð fyrir mér þá færist yfir mig ró og friður, athyglin verður dýpri og ég skynja hluti betur.

Samhliða því að vinna í núinu er ég að vinna í breytingum. Ár 2024 er fyrir mér ár breytinga. Þessar breytingar krefjast þolinmæði, úthalds, seiglu og jákvæðs viðhorfs. Það er hollt að setja sjálfan sig í þannig aðstæður reglulega, að geta tekist á við þær áskoranir sem breytingar hafa í för með sér.

Ein leið til að tengja núið og breytingar saman er flæði. Að taka ákvarðanir, gera eitthvað en leyfa svo hlutunum að gerast í stað þess að vera of ákaftur í að ýta þeim áfram með afli. Anda inn um nefið og út um það líka. Það er heldur ekki einfalt fyrir mig, ég er ekki mjög þolinmóður að upplagi. Svo það er hollt fyrir mig að vinna í því líka, flæðinu. Flæði eins og ég túlka það, snýst um að koma hreyfingu á hluti, gára vatnið, en svo leyfa vatninu að renna þangað sem það á að renna og á þann hátt sem það á að renna.

Janúar er góður mánuður, einn af mínum uppáhalds. Lífið verður eðlilegt aftur eftir viðburðaríkan desember og það er upphafs- og bjartsýnisorka í loftinu. Evrópumót í handbolta spillir ekki fyrir – ég spái því að Steini okkar Mosfellinga verði kallaður inn í liðið um mitt mót og verði í kjölfarið ein af stjörnum mótsins.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. janúar 2024