Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga

Haukur Skúlason hefur starfað á fjármálamarkaði síðan 2005, í dag er hann framkvæmdastjóri Indó sparisjóðs og annar stofnenda hans. Samhliða störfum sínum hefur Haukur kennt fjölmörg námskeið á sviði fjármála, rekstrar og nýsköpunar.
Indó sparisjóður hóf starfsemi 30. janúar 2023. Starfsemin sker sig frá íslensku bönkunum með því að búa til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.

Haukur fæddist í Reykjavík 19. janúar 1974. Foreldrar hans eru þau Kristín Hauksdóttir gjaldkeri og Skúli Sigurðsson lögfræðingur en hann lést árið 1996.
Haukur á tvo bræður, Skúla f. 1977 og Sigurð f. 1981.

Endalaus uppspretta ævintýra
„Ég er alinn upp í Vesturbæ Reykjavíkur, á Melunum og í Skerjafirði og það var alveg frábært að alast upp á báðum þessum stöðum. Skerjafjörðurinn var afar skemmtilegur, mikið ævintýraland enda nýbyggð hús og húsagrunnar endalaus uppspretta ævintýra, ekki skemmir fyrir að konan mín ólst upp í sömu götu. Þarna var líka mikil bryggja sem notuð var af Skeljungi á sínum tíma til að dæla olíu af skipum á tanka, það var afar vinsælt að stelast þangað með veiðistöng í hönd og renna fyrir ufsa og marhnút.
Pabbi var duglegur að taka mig með sér á golfvöllinn á mínum yngri árum, við spiluðum saman á Nesvellinum sama hvernig viðraði. Þessi æskuminning er klárlega sú sem stendur upp úr,“ segir Haukur og brosir.

Byrjaði ungur að vinna
„Ég gekk í Mela- og Hagaskóla og var 5 ára þegar ég fór í fyrsta bekk og var því á undan í skóla. Maður fékk nú stundum að heyra það að maður væri yngri en bekkjarfélagarnir. Mér fannst almennt gaman í skólanum, gekk vel í námi og það fór lítið fyrir mér á þessum árum.
Ég byrjaði mjög snemma að vinna með skólagöngunni, frá 8 ára aldri bar ég út blöð en þegar ég var 12 ára þá starfaði ég sem sendill hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég fór í bæjarvinnuna á sumrin og svo starfaði ég tvö sumur hjá Vínbúðinni. Þegar í framhaldsskóla var komið þá starfaði ég sem einkaþjálfari.“

Leiðir okkar lágu saman aftur
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Verzlunarskóla Íslands og eftir fjórða bekk þá fór ég í máladeild, sem var alveg frábært. Þar kenndi mér Árni Hermannsson latínukennari sem allir Verzlingar þekkja af góðu einu, hann hafði mikil áhrif á mig í náminu. Svo skemmtilega vildi til að mörgum árum síðar lágu leiðir okkar saman aftur en hann er í dag tengdafaðir minn og yndislegur afi barnanna okkar.“

Hef mikið dálæti á þessari íþrótt
Eiginkona Hauks er Elísabet Árnadóttir áhættustjóri hjá AtNorth. Börnin eru sex, Hlynur Hólm f. 1997, Skúli Hólm f. 2001, Agnes Kristín f. 2009, Alexander Atli f. 2009, Árni f. 2017 og Axel f. 2019. Haukur er nýorðinn afi og segist eiga fallegustu afastelpu sem hægt sé að hugsa sér en hún heitir Hilma Lóa.
„Við Elísabet eigum sumarbústað með vinafólki okkar og þangað reynum við fjölskyldan að skella okkur um helgar. Annars erum við að komast á þá skoðun að oft sé bara best að vera heima við og dandalast, gera sem minnst.
Ég er að að þjálfa Taekwondo hjá Aftureldingu og það er íþrótt sem ég hef mikið dálæti á og hef náð að draga meirihluta barna minna í það sport. Konan mín er aftur á móti dugleg í golfinu og við reynum að skjótast saman í það af og til.“

Öðlaðist mikla starfsreynslu
Haukur hóf störf hjá Íslandsbanka árið 2005 eftir að hafa lokið MBA námi í Bandaríkjunum en hann er einnig með BA í enskum bókmenntum og BSc í viðskiptafræði. Í bankanum öðlaðist hann mikla og verðmæta starfsreynslu bæði með því að fara á milli ólíkra deilda innan bankans og vinna að ótrúlega fjölbreyttum verkefnum.
„Ég hætti hjá Íslandsbanka 2014 því mér fannst útséð um að bankarnir myndu eiga frumkvæði að því að breyta nálgun sinni gagnvart neytendum. Ég gerðist fjármálastjóri Netgíró og starfaði þar í 18 mánuði en ákvað svo að taka mér verðskuldað fæðingarorlof með Árna mínum.“

Þetta þótti algjört glapræði
„Í fæðingarorlofinu fæddist sú hugmynd að stofna Indó, það þótti auðvitað algjört glapræði að ætla að stofna nýjan banka sem reyndist svo vera sparisjóður. Æskufélagi minn, Tryggvi Björn Davíðsson, gekk til liðs við mig en við höfum báðir töluverða reynslu af bankastarfsemi. Það sem dreif okkur áfram var sannfæringin fyrir því að bankaþjónusta á Íslandi þyrfti ekki að vera svona dýr, ópersónuleg og ógagnsæ.
Indó hóf starfsemi 30. janúar 2023 og við ætlum okkur að gera hlutina öðruvísi en bankar. Við ætlum að tala mannamál en ekki bankamál,“ segir Haukur ákveðinn á svip. „Við þekkjum öll þessi endalausu gjöld sem við þurfum að borga fyrir allt í bönkunum og svo þessi föstu gjöld sem fólk bara áttar sig jafnvel aldrei almennilega á. Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga.“

Í krafti einfaldleikans
En hvernig getur Indó boðið betri kjör en bankarnir? „Í krafti einfaldleikans, við erum ekki að byggja upp gríðarlegan kostnaðarstrúktur heldur vitum við nákvæmlega hvað við viljum gera og hvað það kostar. Við búum til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.
Í dag erum við komin með 43 þúsund viðskiptavini og erum komin með alvöru markaðshlutdeild í kortaveltu, debetkortum og sparireikningum og það sannar að fólk er með okkur í liði. Hjá okkur er enginn feluleikur og ekkert bull, þetta er okkar leið til að gera heiminn betri.“

Þekking á ólíkum sviðum
„Það er auðvitað að mörgu að huga við að koma jafn flóknu fyrirtæki á legg því þekking á ólíkum sviðum þarf að koma saman eins og á markaðssetningu, regluumhverfinu, fjármálamörkuðum og kerfisinnviðum. Það er alveg ótrúlega gefandi að sjá hversu vel því hefur vegnað og því þökkum við fyrst og fremst því frábæra fólki sem starfar með okkur sem er hvert og eitt framúrskarandi á sínu sviði.
Framtíð Indó er í höndum viðskiptavinanna, við viljum að þeir séu ánægðir og að þeir geti treyst okkur. Okkar hlutverk er að halda okkar markmiðum og hlusta á hvað viðskiptavinir okkar vilja og það höfum við sannarlega gert,“ segir Haukur og brosir er við kveðjumst.

Hreppaskjöldurinn í Miðdal

Ólöf Ósk og Hafþór í Miðdal ásamt börnunum Agnesi Heiðu og Guðmundi Ara og hrútnum Ægi.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram 12. október í aftakaveðri. Þrátt fyrir það var metmæting en sýningin fór fram á Kiðafelli og voru þar veitt verðlaun fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt.
Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Þá fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.
Sigursælir voru hrútarnir frá Miðdal og var það hrúturinn Ægir sem tryggði hreppaskjöldinn eftirsótta.

Hyrndir lambhrútar: 1. sæti Miðdalur, 2. sæti Kiðafell og 3. sæti Kiðafell.
Kollóttir lambhrútar: 1. sæti Miðdalur, 2. sæti Kiðafell og 3. sæti Miðdalur.
Veturgamlir hrútar: 1. sæti Ægir frá Miðdal, 2. sæti Hrútur frá Stíflisdal og 3. sæti Hrútur frá Flekkudal.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlýtur Íslensku menntaverðlaunin

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlaut í vikunni Íslensku menntaverðlaunin í flokknum „Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur“ við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. FMOS fékk verðlaunin fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluaðferða og leiðsagnarnáms.
Leiðsagnarnámið er hornsteinninn í kennsluaðferðum skólans en það hefur verið að ryðja sér rúms í sífellt fleiri framhaldsskólum. Í leiðsagnarnámi eru nemendur virkir þátttakendur í námi sínu og tileinka sér námsefnið með því að vinna margbreytileg verkefni undir leiðsögn kennara.
Í leiðsagnarnáminu er ábyrgðin sett á nemendur sem þurfa að vinna jafnt og þétt yfir önnina og taka framförum með umsögnum og leiðbeiningum sem kennarar veita fyrir verkefnin í stað einkunna. Engin stór lokapróf eru í neinum áfanga og það má benda á að Harvard háskóli í Bandaríkjunum hefur sömu stefnu.

Skýr sýn varðandi hugmyndafræðina
En hvers vegna hefur gengið svona vel að þróa leiðsagnarnám í FMOS?
„Það eru margir þættir sem koma til; Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrsti skólameistari skólans hafði skýra sýn varðandi hugmyndafræðina sem hún vildi að skólinn starfaði eftir,“ segir Valgarð Már Jakobsson núverandi skólameistari. „Hún leiddi kennarahópinn áfram sem síðan hefur verið ötull við að þróa þessar kennsluaðferðir.
Einnig má nefna að skólinn var stofnaður í miðri bankakreppu, haustið 2009, og það voru tugir umsækjenda um hverja kennarastöðu sem var auglýst og hægt var að ráða kennara sem voru tilbúnir að kenna samkvæmt hugmyndafræðinni.
Samfara stækkun skólans hefur kennurum fjölgað og hugmyndafræðin alltaf verið höfð að leiðarljósi við ráðningu kennara.“

Eitt glæsilegasta skólahúsnæði landsins
„Fyrstu árin var skólinn til húsa í Brúarlandi sem allir bæjarbúar þekkja. Á meðan skólinn sleit barnsskónum í gamla barnaskólanum þá vorum við þátttakendur í að hanna framtíðarhúsnæði skólans.
Nýja byggingin er sérhönnuð utan um hugmyndafræðina okkar. Sambland af stórum og litlum kennslustofum og opnum vinnurýmum gefur okkur færi á að hafa mikla fjölbreytni í verkefnavinnu og allir geta fundið vinnuaðstæður við hæfi.
Búnaður og skipulag er til fyrirmyndar og við höldum því fram að við séum að kenna í einhverju glæsilegasta skólahúsnæði landsins og þótt víðar væri leitað.
Allt er úthugsað og þar með talið okkar frábæra mötuneyti þar sem hollur og góður matur er í boði á hverjum degi fyrir nemendur og starfsfólk.
Erlendir gestir sem heimsækja okkur dauðöfunda okkur af byggingunni og í hverri heimsókn er einhver sem spyr hvort við séum ekki að leita að fólki.“

Skapandi og framsæknir kennarar
„Síðustu ár hafa kennarar skólans kynnt hugmyndafræði skólans víða. Þeir hafa haldið námskeið og vinnustofur í leiðsagnarnámsfræðum og mikið er leitast við að fá að heimsækja okkur til þess að fræðast um það sem við erum að gera.
Síðasta vetur héldum við stóra ráðstefnu um leiðsagnarnám með þátttöku kennara og starfsfólks frá yfir 20 skólum víðs vegar að á landinu.
Þeir gestir sem koma hingað taka líka fljótt eftir þeirri einstöku stemningu sem er hérna. Gjarnan er talað um hinar geggjuðu vinnuaðstæður en fólk tekur líka eftir því hversu afslappað andrúmsloft er hér innanhúss og hversu áreynslulaus samskiptin eru milli nemenda og kennara.
Þessi verðlaun eru okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut. Til hamingju, kennarar í FMOS, sem hafa frá byrjun verið ótrúlega skapandi og framsæknir. Þessi verðlaun tilheyra ykkur fyrst og fremst. En mig langar líka að óska Mosfellingum til hamingju með að vera með stórkostlegan framhaldsskóla í heimabyggð.“

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) var stofnaður haustið 2009 og er yngsti framhaldsskólinn á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni eru Guðni Th. Jóhannesson, Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrrum skólameistari, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Valgarð Már Jakobsson skólameistari og Inga Þóra Ingadóttir áfangastjóri.

Sunnudagsmorgnar

Klukkan níu á sunnudagsmorgnum er hinn rúmlega tveggja ára Alexander Emil kominn í Real Madrid búninginn sinn. Um tíu næ ég í hann og við drífum okkur út í íþróttahús. Stundum kemur amma hans með, stundum frændur.

Það eru nokkur atriði varðandi fjölskyldutímana á sunnudagsmorgnum að Varmá sem ég er sérstaklega hrifinn af. Í fyrsta lagi eru þessir tímar ókeypis fyrir fjölskyldur með börn, í öðru lagi þarf ekki að skrá sig sérstaklega í þá og í þriðja lagi snúast þeir um frelsi innan ramma.

Ljúfmennin Þorbjörg, Árni Freyr, Ólafur Snorri og Íris Dögg, sem sjá um þessa tíma, raða upp fjölbreyttum búnaði og boltum og krakkarnir og við sem fylgjum þeim getum skoppað frjáls á milli og prófað alls konar hreyfingu.

Minn maður byrjar alltaf á því að hlaupa út í rimlana, klifrar upp í topp og kíkir yfir salinn. Klifrar svo til hliðar, eins langt og hann kemst. Hann er hrifnastur af rimlunum undir skortöflunni, bak við hlífðarnetið. Svo nær hann sér í bolta og hleypur með hann út um allan sal. Prófar aðeins bandýkylfurnar. Klifrar upp á hestinn og stekkur í mjúku dýnuna. Fær afa til að lyfta sér upp svo hann geti troðið í körfuna. Finnur mark og sparkar fótbolta í það – sorrý Elísa … Hleypur meira, finnst gaman að láta elta sig. Fer aftur í rimlana, þeir eru uppáhaldið. Svona rúllum við í um það bil 45 mínútur, þá er hann orðinn góður. Hann stýrir ferðinni, ég laumast til að sýna honum nýjar þrautir sem hann prófar og metur. Svo röltum við upp í stúkuna í sal 3. Honum finnst gaman að príla niður og upp háu tröppurnar og reynir að stelast til að klifra upp handriðið líka. Þetta er frábær samverustund hjá okkur, styttist í að litli bróðir hans geti farið að koma með. Takk fyrir okkur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2023

Gefur út Löngu horfin spor

Mosfellingurinn Guðjón Jensson hefur gefið út skáldsöguna Löngu horfin spor. Guðjón, sem er bókfræðingur, leiðsögumaður og rithöfundur, hefur lengi fengist við ritstörf, einkum greinaskrif í blöð og tímarit.
„Ég hef undanfarin 10 ár fengist við rannsókanvinnu og ritun á þessu skáldverki sem byggt er á sögu og örlögum Carls Reichsteins sem var Þjóðverji og kom hingað til lands árið 1937 undir því yfirskini að kenna Íslendingum svifflug. En í raun var hann sendur hingað til lands af SS sveitum þýska nasistaflokksins til að stunda hér njósnir,“ segir Guðjón sem í bókinni gerir einnig þjóðlífinu í Reykjavík á þessum tíma góð skil.

Umfangsmiklar rannsóknir
Sagan byggir á umfangsmiklum rannsóknum á lífi Reichsteins á Íslandi en hann lést á dularfullan hátt tæpu ári eftir komu sína til landsins. Andlát hans var aldrei rannsakað til hlítar en ótal margar spurningar vakna við lesturinn. Hvað var gyðingur að gera í SS-sveitum Hitlers? Var hann sendur hingað á vegum nasista til njósna á Íslandi? Var Carl Reichstein myrtur af útsendurum nasista?
Á einhverjum tímapunkti hefur þessi ungi maður sem fæddur var 1909 í borginni Gelsenhausen í Ruhrhéraði tekið þá umdeildu ákvörðun að ganga í SS-sveitir Nasista. Líklega hefur hann bundið þá ákvörðun einhverjum forsendum en líklega var þetta ekki rétt ákvörðun. Með komu sinni til Íslands eru gerðar væntingar til hans að afla upplýsinga á Íslandi í þágu nasista en hann mun vera einn fyrsti SS-maðurinn sem starfaði á Íslandi.

Glímdi við krabbamein á ritunartímanum
„Á meðan á ritunartímanum stóð gekk á ýmsu í mínu lífi, ég glímdi við krabbamein og að komast fyrir það. Þann tíma átti þetta ritverk sinn þátt í að draga athygli mína frá krabbameininu, rannsaka og skrifa um þennan svifflugmann sem hefur verið mér mikil ráðgáta og verðum öðrum líklega einnig við lesturinn.
Skáldverkið er byggt á ítarlegri rannsókn heimilda sem þó eru ekki að fullu rannsakaðar. Í bókinni fjalla ég líka mikið um Reykjavík á þessum tíma, mannlífið og stéttabaráttuna,“ segir Guðjón og bætir við að þessar rannsóknir skilji eftir margar spurningar en einnig nokkrar áhugaverðar niðurstöður. Bókina má nálgast í öllum helstu bókabúðum og hjá höfundi sjálfum.

Vélsmiðjan Sveinn fagnar 30 ára afmæli

Hjónin Ólína og Haraldur við nýja vegglistaverkið.

Vélsmiðjan Sveinn sem staðsett er í Flugumýri 6 heldur upp á 30 ára afmæli um þessar mundir.
Það voru þeir feðgar Haraldur Lúðvíksson og Haraldur V. Haraldsson sem stofnuðu fyrirtækið í lok ágúst 1993. Fyrirtækið sérhæfir sig í allri almennri vélsmíði, stálsmíði, rennismíði, viðgerðum og þessháttar. „Við feðgar störfuðum hér saman þar til árið 2003 en þá féll pabbi frá og skildi mig eftir í súpunni,“ segir Haraldur hlæjandi eða Halli eins og hann er alltaf kallaður.

Redda öllu sem þarf að redda
„Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á þessum 30 árum og það má eiginlega segja að okkar sérstaða er að við reddum öllu. Við erum mjög vel tækjum búnir og verkefnin okkar eru mjög fjölbreytt. Ég er að vinna fyrir mörg stór fyrirtæki, minni fyrirtæki og einstaklinga.
Við erum þekktir fyrir að ganga í öll verk og leysa úr málum sem koma upp, ég er oft fengin með á verkfundi til að hanna lausnir og þess háttar, ég er vel tengdur í þessum bransa og með mikið af góðu fólki í kringum mig.
Við erum með frábært starfsfólk en erum jafnframt að leita fleira fólki í vinnu.“ segir Halli en þess má geta að hann hefur hefur einnig starfað mikið erlendis.

Vegglistaverk á girðingu
Vélsmiðjan Sveinn stendur á hornlóð við fjölfarna götu og verkleg girðing er í kringum fyrirtækið. Margir Mosfellingar hafa sjálfsagt tekið eftir nýlegu listaverki á girðingunni sem lífgar uppá hverfið.
„Eina kvörtunin sem við höfum fengið frá nágrönnum í gegnum tíðina er að þessi veggur eða girðing hafi verið ljót þess vegna langaði okkur að gera eitthvað skemmtilegt. Þessi hugmynd er búin að vera að gerjast með okkur í 5 ár. Ólína konan mín fann svo þenna frábæra listamann hana Kareni Ýr sem sérhæfir sig í vegglist.“

Gjöf okkar til fyrirtækisins
„Við erum rosalega ánægð með útkomuna, hún Karen fékk frjálsar hendur varðandi myndefnið og þótti okkur vænt um hvað hún náði að flétta inn í verkið hlutum sem tengjast okkur eins og tannhjól, manni við járnsmíði og svo fallegri náttúru.
Þetta listaverk er okkar gjöf til fyrirtækisins á 30 ára afmælinu,“ segir Halli að lokum en tekur fram að þau hafa fengið mjög jákvæð viðbröð við listaverkinu bæði frá nágrönnum í kring og öðrum Mosfellingum.

Ný bók og útgáfuboð í Hlégarði

Ingibjörg Valsdóttir gaf nýverið út sína þriðju barnabók, Að breyta heiminum. Lilja Cardew er höfundur teikninga og er bókin gefin út af Bókabeitunni.
Áður hefur hún skrifað tvær bækur um þau Pétur og Höllu við hliðina; Fjöruferðin og Útilegan. Ingibjörg er uppalin í Mosfellsbæ og hefur búið hér frá unga aldri.

Sagan rúllaði áfram
„Það var engin ein hugmynd eða kveikja á bak við bókina, smám saman komu sögupersónurnar og umhverfið til mín og sagan rúllaði bara áfram sína leið,“ segir Ingibjörg.
Að breyta heiminum fjallar um systkinin Marko og Stellu sem eru skyndilega stödd á skrýtnum stað. Marko hittir ýmsar furðuverur í leit sinni að leiðinni heim, eins og Rösk, Verkil og Beru, sem búa yfir leyndum hæfileikum og eiga það sameiginlegt að vilja leiða Marko í rétta átt.
„Ég hef fengið mjög góð viðbrögð við bókinni. Mér þótti sérstaklega vænt um umsögn þar sem fram kom að bókin hefði vakið djúpar pælingar og umræður milli barnungs lesanda og foreldris.
Í framhaldinu var því velt upp hvort það sé ekki með betri kostum bókar ef slíkt gerist. Þetta gladdi mig mjög mikið,“ segir Ingibjörg.

Útgáfuboð í Hlégarði á þriðjudaginn
Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum og á www.bokabeitan.is.
Þriðjudaginn 17. október verður haldið útgáfuboð í Hlégarði sem hefst kl. 17 og verður einnig hægt að kaupa bókina þar á tilboðsverði.
„Mér fannst viðeigandi að halda útgáfuboðið í Hlégarði þar sem er svo notalegt að vera. Ég hlakka til að eiga þar góða stund og vonast auðvitað til að sjá sem flesta Mosfellinga, á öllum aldri,“ bætir Ingibjörg við að lokum.

Handverkstæðið Ásgarður hélt 30 ára afmælisveislu

Laugardaginn 30. september bauð Ásgarður til mikillar afmælisveislu í Hlégarði í tilefni 30 ára afmælis handverk­stæðisins. Ásgarður var stofnaður árið 1993 og hefur starfrækt verkstæði í Álafosskvos í Mosfellsbæ síðan 2003.
Ásgarður er sjálfseignarstofnun þar sem 33 þroskahamlaðir einstaklingar starfa ásamt leiðbeinendum.
Frá upphafi hafa starfsmenn lagt áherslu á að hanna og þróa einföld, sterk og skemmtileg leikföng unnin úr náttúrulegum efnivið sem eiga sér samsvörun í íslenskum þjóðháttum.
Á myndinni má sjá Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, Heimi Þór Tryggvason forstöðumann Ásgarðs, starfsmennina Óskar Albertsson og Steindór Jónsson, Guðmund Inga félagsmálaráðherra og Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands.

Aukin tíðni sorphirðu

Skrif­að hefur verið und­ir við­auka við verk­samn­ing um sorp­hirðu við Ís­lenska gáma­fé­lag­ið.
Nýtt úr­gangs­flokk­un­ar­kerfi hef­ur nú ver­ið til reynslu síð­ast­liðna fjóra mán­uði og hef­ur ár­ang­ur­inn ver­ið fram­ar von­um sem skil­ar sér í hreinni úr­gangs­straum­um til Sorpu og skil­virk­ari end­ur­vinnslu.
Ákveð­ið var á fundi bæj­ar­stjórn­ar 27. sept­em­ber að sam­þykkja við­auka við verk­samn­ing um sorp­hirðu með auk­inni tíðni sorp­hirðu frá og með 1. októ­ber. Jafn­framt var sam­ið um að fá­menn sér­býli gætu sótt um tví­skipta tunnu fyr­ir papp­ír/pappa og plast­umbúð­ir.
Papp­ír/pappi og plast­umbúð­ir verða nú hirt á 21 daga fresti auk þess sem mat­ar­leif­ar og bland­að­ur úr­gang­ur verð­ur hirt­ur á 14 daga fresti.
Íbú­ar geta einnig beð­ið um út­prent­un á sorp­hirðu­da­ga­tali á bæj­ar­skrif­stof­um og á Bóka­safni Mos­fells­bæj­ar.
Mark­mið­ið með auk­inni flokk­un er að minnka það magn sem urð­að er í Álfs­nesi. Þátt­taka íbúa skipt­ir öllu máli til þess að ná ár­angri við aukna end­ur­vinnslu og minnk­un urð­un­ar.
„Við vilj­um þakka íbú­um fyr­ir já­kvæð við­brögð við flokk­un á heim­il­iss­orpi bæði í tunn­urn­ar fjór­ar fyr­ir papp­ír/pappa, plast­umbúð­ir, mat­ar­leif­ar og bland­að­an úr­gang, en einnig fyr­ir flokk­un á málmi, gleri og tex­tíl sem skil­að er á grennd­ar­stöðv­ar.“

Ábyrgð og atburðir

Ég veit ekki hvort það er bara ég, en þegar eitthvað gerist sem hefur áhrif á alla heimsbyggðina, þá leitar stundum á mig sú hugsun hvort það skipti einhverju máli í stóra samhenginu að ég passi upp á mitt persónulega heilbrigði. Hryllingurinn og stríðsástandið í Ísrael hafði þessi áhrif á mig. Fréttirnar og atburðarrásin drógu úr mér mátt og hvatningu til þess að borða hollt og hreyfa mig. En eftir að hafa sofið á þessu og leyft þessum hugsunum að veltast um í undirmeðvitundinni þá sá ég ljósið. Það er einmitt á svona stundum sem það skiptir máli að hver og einn taki ábyrgð á sinni eigin heilsu og geri allt til þess að vera sjálfbjarga og í aðstöðu til þess að leggja öðrum lið ef á þarf að halda.

Við getum öll, sama hvar við erum stödd í heilsuhreystisstiganum, gert eitthvað til þess að bæta heilsu okkar. Allt telur, hreyfing, næring, samskipti við aðra, jákvæðar hugsanir. Allt sem hefur jákvæð áhrif á okkur og umverfi okkar er heilsubætandi. Neikvæðar hugsanir eins og „við á móti þeim“ eru það ekki. Hreyfingarleysi og að fylgjast með fréttum allan sólarhringinn er ekki heilsubætandi. Á svona stundum þurfum við að passa upp á það góða í okkur, það uppbyggilega, okkur sjálf og hvort annað.

Að halda fast í góðar rútínur skiptir máli. Nágranni minn og spræki hundurinn hans hlaupa til dæmis fram hjá eldhúsglugganum mínum alla morgna, veður hefur engin áhrif á þá félaga, þeir taka alltaf rúntinn sinn saman. Hnarreystir og ferskir. Góð morgunrútína fyrir þá báða. Og hún hefur hvetjandi áhrif á mig og aðra sem sjá þá á ferðinni. Við erum öll meðvitað eða ómeðvitað fyrirmyndir og höfum sem einstaklingar áhrif á aðra í okkar nánasta umhverfi. Jákvæð orka einstaklinga hefur smitandi góð áhrif út í samfélagið. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. október 2023

 

Snyrtistofan BeautyStar opnar í Sunnukrika

Snyrtistofan BeautyStar opnaði með pomp og prakt á bæjarhátíðinni Í túninu heima en stofan er staðsett í Sunnukrika 3, fyrir aftan Apótekarann.
Það er snyrtifræðingurinn Ágústa Nellý Hafsteinsdóttir sem er eigandi stofunnar en þess má geta að Ágústa er að láta áratugagamlan draum rætast.
„Ég hef starfað í faginu í rúm 20 ár og alltaf langað til að opna mína eigin stofu. Ég er að koma úr krabbameinsveikindum og í þessu veikindaferli þá ákvað ég að nú væri tími til að láta verkin tala og draumana rætast. Ég er í endurhæfingu og ætla mér að sigrast á þessu,“ segir Ágústa sem er í skýjunum með viðtökurnar og segir að fullt hafi verið út að dyrum í opnuninni.

Brúnkusprautun og göt í eyru
„Við bjóðum upp á alla almenna snyrtingu, litun og plokkun, hand- og fótsnyrtingu, vaxmeðferðir, naglaásetningu og fleira. Við bjóðum upp á brúnkusprautun sem ég held að sé nýjung hér í Mosfellsbæ. Við getum sett göt í eyru og í framtíðinni munum við bjóða upp á nudd og ýmsar líkamsmeðferðir.
Við erum í frábæru húsnæði, stofan er 180 fm rúmgóð og björt. Hér er pláss fyrir alla og aðkoman hentar öllum hvort sem fólk notast við hjólastól eða göngugrind.“

20% afsláttur í september
Opnunartilboð BeautyStar er 20% afsláttur á öllum meðferðum sem pantaðar eru í september. „Við erum uppfullar af hugmyndum, nú er opnunartilboðið í gildi og okkur langar að taka þátt í bleikum október með einhverjum hætti þar sem það málefni stendur mér nærri.
Við verðum með sérstakt tilboð á öllum bleikum vörum sem við bjóðum upp á og viljum gefa áfram af okkur til Krabbameinsfélagsins. Svo langar okkur að gera okkar eigið jóladagatal og fleira í þeim dúr. Okkur langar að sjá stofuna okkar vaxa og dafna í takt með bæjarbúum, tökum fagnandi á móti hugmyndum og viljum gera okkar besta til að verða við þörfum og óskum Mosfellinga,“ segir Ágústa að lokum en hægt er að panta tíma í gegnum Noona.is eða í síma 8680844.

Persónuupplýsingar í dreifingu

Kennarinn sem átti hlut að máli þegar persónuupplýsingar um nemendur Lágafellsskóla fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum er farinn í leyfi frá kennslu.
Skólayfirvöld líta málið alvarlegum augum og það er til skoðunar hjá Persónuvernd.
Upplýsingarnar komust í hendur nemanda þegar hann fékk lánaða stílabók til að skrifa í hjá kennara sínum.
Í bókinni, sem kennarinn taldi vera auða, fann nemandinn tvær blaðsíður með upplýsingum um nemendur í 8. bekk. Hann tók myndir af þeim og setti á samfélagsmiðla. Umræddar upplýsingar hafði kennari skráð í minnisbók í kjölfar skilafundar í ágúst þegar árgangurinn var að flytjast milli stiga innan skólans.

Verkefnið fram undan að endurvekja traust
Lísa Greipsson skólastjóri segir að næstu daga verði lögð áhersla á að hlúa að þeim nemendum sem málið snertir með beinum hætti. Hún segir mikilvægasta verkefnið fram undan að endurvekja traust.
Ljóst þykir að skráning, innihald og orðalag minnispunktanna sem ritaðir voru í minnisbókina voru settir fram á ófaglegan hátt og þannig óásættanlegir og óviðeigandi.
Atvikið er harmað og skólinn og skólayfirvöld biðjast auðmjúklega afsökunar.

Vellíðan á líkama og sál helst í hendur

Guðrún Ásta Húnfjörð heilsunuddari og snyrtifræðingur sá tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu.

Guðrún Ásta stofnaði Dharma nudd- og snyrtistofu árið 2020. Þar hefur henni tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft þar sem áhersla er lögð á slökun og vellíðan.
Guðrún býður einnig upp á kennslu í nuddi ásamt því að vera með ráðgjöf m.a um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl.

Guðrún Ásta er fædd í Keflavík 16. mars 1979. Foreldrar hennar eru Brynja Sif Ingibersdóttir og Óskar Ingi Húnfjörð eigendur Íslandshúsa ehf.
Guðrún á tvö systkini, Auði Ingibjörgu f. 1976 og Brynjar Marinó f. 1983.

Tókum þátt eftir aldri og getu
„Ég ólst upp á Blönduósi og á mjög góðar minningar þaðan. Það var gott að búa í litlum bæ þar sem maður gat gengið á milli staða og þurfti aldrei að láta skutla sér neitt. Allir þekktu alla og það var óþarfi að læsa húsunum. Ég hefði samt alveg viljað fleiri tækifæri til tómstunda en það var því miður takmarkað framboð á þeim.
Mínar helstu æskuminningar snúast um að vinna með fjölskyldu minni í fjölskyldufyrirtækjunum sem voru allnokkur. Ég kem af miklu athafnafólki sem var og er alltaf að og fjölskyldan vann mikið saman, hvort sem það var að baka í Brauðgerðinni Krútt, þjóna á Sveitasetrinu, elda og afgreiða í Blönduskálanum, hreinsa og pressa í efnalauginni, selja snyrtivörur í versluninni Hjá Brynju eða afgreiða áfengi í vínbúðinni sem móðir mín sá um. Nú eða gera upp hótelið og húsið sem við bjuggum í, það var alltaf nóg að gera og við systkinin tókum þátt eftir aldri og getu.“

Það þurfti að stía okkur í sundur
„Ég gekk í Grunnskóla Blönduóss og var ánægð alla skólagönguna enda alltaf átt auðvelt með að læra. Í elstu bekkjum grunnskólans var ég ein af þeim sem þurfti svolítið að sussa á og það þurfti stundum að stía okkur vinkonunum í sundur sökum ófriðar í kennslustofunni, það var bara svo gaman að vera til,“ segir Guðrún og brosir. „Á sumrin var maður mestmegnis að leika sér úti við, það var ekki mikið af námskeiðum og sumarstörfum eins og er núna, maður lék svolítið lausum hala.
Nokkur sumur var ég send með rútu til afa og ömmu í Keflavík ásamt systur minni og við vorum hjá þeim nokkrar vikur í senn. Ég var tólf ára fyrsta sumarið mitt í bæjarvinnunni og svo starfaði ég í fjölskyldufyrirtækjunum.
Fyrsta árið mitt í framhaldsskóla tók ég á Sauðárkróki og bjó þá á heimavistinni. Ég flutti síðan suður og leigði herbergi með vinkonu minni í miðbæ Reykjavíkur og hóf nám í snyrtifræði.“

Flutti til Danmerkur
Eftir að Guðrún Ásta lauk samningstíma og sveinsprófi í snyrtifræðinni fór hún til New York borgar í hálft ár og starfaði þar sem au-pair og sem einkasnyrtifræðingur og nuddari hjá amerískri fjölskyldu. Þaðan fór hún til Danmerkur og var í hálft ár hjá foreldrum sínum sem voru í námi í Horsens, þar lærði hún dönsku og starfaði við þrif. Guðrún fór aftur heim til Íslands, kláraði stúdentinn og flutti svo til Kaupmannahafnar þar sem hún bjó í sjö ár.
„Ég lærði viðskipta- og markaðshagfræði úti og fékk síðan starf sem verkefnastjóri í markaðsdeild Nordea banka, hjá þeim starfaði ég í fjögur ár. Eftir að ég flutti aftur heim til Íslands starfaði ég sem vörumerkja- og markaðsstjóri í sjö ár.“

Heimakær fjölskylda
Eiginmaður Guðrúnar Ástu heitir Þorsteinn Kr. Haraldsson, hann er eigandi að Hreinum Görðum og Hoist vinnulyftum. Þau eiga tvo syni, Ísak Elí Húnfjörð f. 2011 og Dag Frey Húnfjörð f. 2013.
„Við erum heimakær fjölskylda og okkur finnst notalegt að spila og horfa saman á bíómyndir. Við hjónin höfum aðeins stundað fjallgöngur en sumarið er háannatími hjá Þorsteini svo að við gerum ekki eins mikið af því og við vildum. Við eigum líka stóra fjölskyldu sem við verjum miklum tíma með og bjóðum gjarnan litlum frænkum og frændum í gistingu til okkar um helgar.
Ég er svo að prjóna heilmikið og hekla og á það til að föndra og mála, ég hef líka mikinn áhuga á alls kyns heilsu- og geðrækt.“

Lít á kulnunina sem tækifæri
Fyrir sex árum lenti Guðrún í alvarlegri kulnun og var í veikindaleyfi í rúmt ár. Hún tók þá ákvörðun að líta á kulnunina sem tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu þegar hún var komin upp úr hjólförunum sem henni fannst hún vera föst í.
„Ég skráði mig í heilsunuddaranám og tók það nám samhliða bataferlinu. Um leið og ég kláraði námið 2020 ákvað ég að opna Dharma nuddstofu hér í Mosfellsbæ og tveimur árum síðar ákvað ég að bjóða líka upp á almenna snyrtiþjónustu. Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir viðtökurnar sem bæjarbúar hafa sýnt mér,“ segir Guðrún Ásta og brosir.

Hef styrkst meira í þeirri trú
Guðrúnu hefur tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft á stofunni hjá sér þar sem áhersla er lögð á slökun og endurnæringu. „Ég nýti alla mína menntun og lífsreynslu til að bæta heilsu, útlit og líðan fólks, enda hef ég alltaf hallast að því að vellíðan á líkama og sál haldist í hendur. Eftir reynslu mína af kulnun hef ég styrkst enn meira í þeirri trú.
Ég býð einnig upp á kennslu í sjálfsnuddi og ungbarnanuddi og veiti ráðgjöf m.a. um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl. Það jákvæða í þessu öllu saman er að það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl.
Ég sinni líka kennslutímum á Heilsunuddarabraut Fjölbrautaskólans við Ármúla, þá helst nuddmeðferðir, leiðsögn í stofnun og rekstri nuddstofa og sjálfsrækt heilsunuddara. Ég er einnig í stjórn Félags íslenskra heilsunuddara.“

Tilgangur lífsins
En hvaðan kemur nafnið á stofunni, Dharma? „Það kemur úr búddisma og þýðir tilgangur lífsins. Samkæmt Dharma lögmálinu erum við öll með einstaka hæfileika sem við síðan tjáum á okkar einstaka hátt, hvert og eitt. Þegar við nýtum þessa hæfileika í þjónustu við aðra upphefjum við eigin anda og upplifum ótakmarkaða sælu og gnægð. Það má því með sanni segja að mitt „Dharma“ sé að hjálpa fólki til bættrar heilsu, jafn að innan sem utan.“

Bæjarlistamenn Mosfellsbæjar 2023

Þórhallur Árnason, Karl Tómasson, Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson. 

Á sér­stakri há­tíð­ar­dag­skrá í lok bæj­ar­há­tíð­ar­inn­ar Í tún­inu heima var hljóm­sveit­in Gildr­an út­nefnd bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar árið 2023.
Menn­ing­ar- og lýð­ræð­is­nefnd Mos­fells­bæj­ar sér um val bæj­arlista­manns ár hvert og veitti Hrafn­hild­ur Gísla­dótt­ir formað­ur nefnd­ar­inn­ar hljóm­sveit­inni Gildrunni verð­launa­grip eft­ir lista­kon­una Ingu El­ínu ásamt við­ur­kenn­ing­ar­fé sem fylg­ir nafn­bót­inni. Sveit­in er skip­uð þeim Þór­halli Árna­syni, Karli Tóm­as­syni, Birgi Har­alds­syni og Sig­ur­geiri Sig­munds­syni.
Hljóm­sveit­in Gildr­an var stofn­uð 1985 í Mos­fells­bæ og sam­an­stend­ur að stór­um hluta af ein­stak­ling­um sem hófu sinn tón­list­ar­fer­il sem ung­ling­ar í Gagn­fræða­skóla Mos­fells­bæj­ar og hef­ur átt því sem næst órofa fer­il síð­an þá. Gildr­an starf­aði í ára­tugi í Mos­fells­bæ og er órjúf­an­leg­ur hluti af menn­ing­ar­lífi bæj­ar­ins.
Gildr­an hef­ur gef­ið út sjö plöt­ur og mun koma fram á tón­leik­um í Hlé­garði í haust.
Hljóm­sveit­in hef­ur stutt við menn­ing­ar­líf í Mos­fells­bæ á liðn­um árum og leik­ið á fjölda styrkt­ar­tón­leika fyr­ir fé­laga­sam­tök í Mos­fells­bæ. Gildr­an samdi Aft­ur­eld­ing­ar­lag­ið og veitti jafn­framt fé­lag­inu veg­lega pen­inga­gjöf vegna fyrsta gervi­grasvall­ar­ins í Mos­fells­bæ svo nokk­uð sé nefnt.
Gildran þakkaði fyrir sig á dögunum með því að setja í loftið lagið „Veturinn verður hlýr“ sem er endurútgáfa á lagi sem kom út á safnplötu fyrir 20 árum.
„Við erum sannarlega þakklátir fyrir þann mikla meðbyr sem við höfum fengið að undanförnu og hlökkum mikið til að sjá ykkur á tónleikum haustsins.“

Hvert næst?

Við fórum 14 saman úr Kettlebells Iceland æfingahópnum til Austurríkis um síðustu helgi til að taka þátt í Spartan Race þrautahlaupi. Kaprun þrautahlaupið þykir með þeim erfiðari en það fer að mestu fram í háum skíðabrekkum og hækkunin mikil. Þrautirnar eru fjölbreyttar og flestar krefjandi. Þetta var frábær ferð, allir kláruðu sín hlaup með stæl og komu stoltir og ánægðir í mark.

Þetta var erfitt. Það verður að segjast. Það erfiðasta sem ég hef gert, sagði einn. Við þurftum öll að kafa djúpt í orkubrunninn til þess að klára þetta. Sumir föðmuðu tré og fögnuðu hinu kyngimagnaða umhverfi, aðrir blótuðu og tóku erfiðustu kaflana á uppsafnaðri reiðiorku. Báðar aðferðir virkuðu.

Það sem mér finnst skemmtilegast og mest gefandi við að taka þátt í svona áskorunum með góðu fólki er sjá fólki takast að gera hluti sem það hélt einhvern tíma að það gæti ekki. Það er ekkert sem toppar það. Mér finnst líka ótrúlega gaman að leysa þrautirnar, klára þær og ef ég næ ekki að klára þær, finna leiðir til þess að gera það í næsta þrautahlaupi. Greina hvað ég þarf að bæta og æfa það reglulega. Ég einbeitti mér að því fyrir þetta þrautahlaup, að æfa mig fyrir ákveðnar þrautir sem ég hafði verið í veseni með í síðustu þrautum. Og tilfinningin að upplifa það takast var geggjuð, ólýsanleg eiginlega.

En þessi félagsskapur, maður lifandi! Margar sögur eiga eftir að lifa lengi, bjallan á toppnum, straumharða áin og ljónhressi hvetjarinn svo nokkrar séu nefndar. Það er magnað að vera í félagsskap fólks sem er til í svona léttruglaðar áskoranir, þorir að stíga út fyrir þægindarammann og búa saman til orku sem er hvetjandi fyrir einstaklingana í hópnum. Það tók okkur ekki langan tíma að byrja að pæla í næsta þrautahlaupi, spurningin er ekki hvort heldur hvenær!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. september 2023