Ég hef svo gaman af þessu öllu

Grínistann og skemmtikraftinn Jóhann Alfreð Kristinsson þarf vart að kynna enda löngu orðinn landsþekktur fyrir sín störf. Hann hefur starfað með uppistandshópnum Mið-Ísland um áratugaskeið, komið að dagskrárgerð, handritaskrifum og leiklist en undanfarin ár hefur hann starfað á Rás 2 auk þess að sinna dómarahlutverki í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna.
Jóhann hefur einnig verið að taka að sér uppistand við hin ýmsu tilefni ásamt því að vera kynnir og veislustjóri á fjölmörgum viðburðum.

Jóhann Alfreð fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1985. Foreldrar hans eru Elín Símonardóttir og Kristinn Halldór Alfreðsson framreiðslumaður.
Jóhann á fjögur hálfsystkini, Áslaugu Rut f. 1978, Margréti f. 1981, Svein Ómar f. 1982 og Ingólf Bjarna f. 1988 en hann lést árið 2017.

Missti varla af leik
„Ég ólst upp í Þingholtunum í 101 Reykjavík og æskuminningar mínar tengjast mikið alls kyns flækingi og bralli um miðbæinn. Ég var forfallinn íþrótta- og kvikmyndafíkill sem barn og hékk mikið í íþróttahúsi Vals þar sem maður á tímabili missti varla af leik.
Ég er af videoleigukynslóðinni og því fylgdi mikið hangs í videoleigunum eins og tíðkaðist á þeim árum, ein gömul og ein ný. Maður var í endalausum rökræðum við afgreiðslumanninn og aðra fastagesti hvaða mynd maður ætti að taka, sem maður horfði svo kannski aldrei á,“ segir Jóhann og brosir.

Sat heillaður yfir tækninni
„Borgarbókasafnið í Þingholtsstræti var eins og félagsmiðstöð fyrir okkur krakkana og þar gat maður týnt sér dögum saman. Það var mikil bylting þegar tölva mætti á svæðið þar sem hægt var að leita eftir titlum. Við tepptum gjörsamlega þessa tölvu og maður sat þarna heillaður yfir tækninni og leitaði eftir öllum ævintýrabókunum.
Í grenndinni voru líka ágæt svæði eins og Hallargarðurinn og Hljómskálagarðurinn sem við höfðum gaman af að týna okkur í, svo var auðvitað flakkað á milli húsa til vina og kunningja.“

Fengu heitan mat í hádeginu
„Ég gekk í Miðskólann sem var grunnskóli á miðstigi í gamla Miðbæjarskólanum. Það var um margt einstakur skóli, hann var framsækinn því það var alltaf verið að gera einhverjar tilraunir á skólastarfinu sem þekktust ekki þá en flestir þekkja í dag. Við fengum til dæmis fyrst skólabarna í Reykjavík heitan mat í hádeginu.
Á sumrin var maður í þessu hefðbundna bralli en ég var líka duglegur að sækja sumarbúðir, fór árlega í Vatnaskóg en frændi minn og uppeldisbróðir var foringi þar. Ég var farinn að vinna þar á táningsaldri. Ég fór líka norður í land í sumarbúðirnar Ástjörn, rétt við Ásbyrgi í Kelduhverfi sem er alveg einstaklega fallegur staður.
Bróðir pabba rak veitingasöluna og lúgusjoppuna við BSÍ í Vatnsmýrinni, ég var farinn að ganga vaktir þar strax sumarið eftir gaggó. Um haustið hóf ég svo nám í Menntaskólanum í Reykjavík.
Eftir útskrift úr MR lá leið mín í Háskóla Íslands í lögfræði sem maður fer í þegar maður er kannski ekki alveg viss með framtíðarplönin,“ segir Jói og glottir. „Mér féll námið vel, kláraði meistaragráðuna en hef ekki starfað sem lögfræðingur, einhvern veginn togaðist maður í aðrar áttir.“

Kíkja reglulega á bókasafnið
Unnusta Jóhanns Alfreðs er Valdís Magnúsdóttir hagfræðingur og endurskoðandi, hún starfar hjá Íslensku útflutningsmiðstöðinni. Þau eiga tvö börn, Benedikt Elí f. 2017 og Ellý f. 2021.
„Við fjölskyldan erum dugleg að fara í göngutúra og sækja leikvelli í nágrenninu en við búum í Leirvogstungunni,“ segir Jóhann. „Við kíkjum líka reglulega á bókasafnið hér í bænum sem er mjög skemmti­legt og eins skreppum við til höfuð­borgarinnar og fáum okkur bita í miðbæ Reykjavíkur og endum jafnvel daginn á að fara í sund.
Ferðalög hér heima og erlendis eru alltaf ofarlega á baugi hjá okkur eða þegar tækifærin gefast. Við fjölskyldan erum til að mynda spennt fyrir komandi sumri því við erum búin að ganga frá húsaskiptum við fjölskyldu í Atlanta. Ég er í svona andlegum undirbúningi fyrir ferðina því það getur orðið ansi heitt þarna í Suðurríkjunum.“

Á kafi í handritaskrifum
Jóhann Alfreð hefur unnið ýmis störf í gegnum tíðina, afgreiðslustörf, auglýsingasölu, hjá Amnesty á Íslandi, fyrir kvikmyndahátíðina RIFF í nokkur ár og við ýmis verkefni tengd auglýsingum, skrifum og leiklist. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá RÚV við dagskrárgerð og í kynningarmálum. Jóhann hefur einnig starfað sjálfstætt sem skemmtikraftur og uppistandari um árabil. Hann er þaulvanur veislustjóri og kynnir og hefur starfað sem slíkur á fjölmörgum viðburðum síðustu ár.
„Áhugamál mín tengjast mörg vinnunni minni, ég er á kafi í þáttagerð og handritaskrifum þessa dagana og sökkvi mér í ýmislegt sjónvarpsefni og kvikmyndir því tengdu. Ég er svolítið nörd, hef gaman af öllu grúski og svo er ég annálaður íþróttafíkill eins og komið hefur fram, það er varla til sú íþrótt sem ég hef ekki stúderað.“

Við slógum báðir til
Ég spyr Jóhann hvernig uppistandið hafi komið til? „Það kom nú óvænt inn í líf mitt, þannig var að Bergur Ebbi, sem síðar varð kollegi minn í Mið-Íslandi, hafði samband við mig og Ara Eldjárn. Hann hafði prufað að standa fyrir uppistandskvöldi með Dóra DNA og vildi stækka næsta kvöld. Við Ari höfðum verið að leika okkur að gera sketsa og bralla eitthvað grínefni sem að mestu var ofan í skúffu en við slógum báðir til. Þetta var vorið 2009 og á þessum tíma hafði uppistand að mestu legið í láginni á Íslandi í nokkur ár.
Svona uppistandskvöld eru að erlendri klúbbafyrirmynd, þar sem nokkrir grínistar koma fram á sama kvöldi með einum kynni, þetta var nánast óþekkt. Við komum fimm fram þetta kvöld, þetta var skömmu eftir fjármálahrunið og maður fann að eftir ofboðslegan þungan vetur voru margir innstilltir í að hlæja og heyra gert svolítið grín að öllu ástandinu. Bergur Ebbi kom með tillögu að nafninu Mið-Ísland og þá má segja að örlögin hafi verið ráðin, hópurinn sýndi um 500 sýningar á næstu tíu árum. Samhliða uppistandinu fór maður að skemmta í samkvæmum, árshátíðum og öðrum hátíðum.
Fram undan hjá mér núna eru sýningar á uppistandssýningunni Púðursykur sem við höfum verið með og gaman að segja frá því að við verðum með sýningu í Hlégarði 24. apríl og svo taka við ýmis önnur verkefni. Ég verð á flandri með Rás 2 í sumar og svo er ég að vinna að heimildaþáttaröð um bandarískt körfuboltafólk sem vonandi kemur út fyrir jólin á Stöð 2. Ég hef ótrúlega gaman af þessu öllu saman,“ segir Jóhann Alfreð og brosir er við kveðjumst.

Íslandsmeistari í kokteilagerð

Lokaviðburður Reykja­vík Cocktail Week­end var hald­inn í Gamla Bíó á sunnu­dag­inn, 7. apríl, með pomp og prakt.
Mikið fjöl­menni tók þátt og dag­skrá­in var æsispenn­andi og fjöl­breytt. Spenn­an náði há­marki þegar úr­slit hátíðar­inn­ar voru kunn­gjörð.
Hald­inn var gala­kvöld­verður sem skipu­lagður var af Barþjóna­klúbbi Íslands og dag­skrá­in var þétt. Boðið var upp á metnaðarfulla skemmti­dag­skrá.

Sópaði að sér verðlaunum á lokakvöldinu
Keppt var til úrslita í Íslandsmeistaramóti barþjóna í hraðakeppni, en þar þurftu kepp­end­ur að reiða fram fimm mis­mun­andi kokteila á und­ir sjö mín­út­um.
Grét­ar Matth­ías­son barþjónn bar sig­ur úr být­um og var því krýnd­ur Íslands­meist­ari annað árið í röð. Grét­ar fer því út fyr­ir Íslands hönd í októ­ber og kepp­ir á heims­meist­ara­mót­inu í Madeira í Portúgal.
Þetta voru ekki einu verðlaunin sem Grétar á Blik fékk en hann hreinlega fór á kostum og vann til sex verðlaun:
– Fag­leg vinnu­brögð í klass­ískri kokteil­a­gerð.
– Fal­leg­asti kokteill­inn í klass­ískri kokteil­a­­gerð.
– Besti kokteill­inn í klass­ískri kokteil­a­gerð.
– Besti ár­ang­ur í þef- og bragðprófi.
– Besti ár­ang­ur í hraðaprófi.
Og svo auðvitað Íslandsmeistari barþjóna í samanlögðu.
„Drykkurinn minn ber nafnið Volvoinn og er gerður til heiðurs nýlátnum föðurbróður mínum sem var einn af okkar bestu barþjónum á Íslandi“, segir Grétar Matthíasson.
Verðlaunadrykkur Grétars verður að sjálfsögðu í boði á Blik Bistro í Mosfellsbæ.

Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Afmælisfögnuður í tilefni 40 ára afmæli Bólsins

Edda Davíðsdóttir, Lárus Jónsson og Leifur Guðjónsson á vaktinni í Bólinu á árum áður.

Félagsmiðstöðin Bólið fagnar 40 ára afmæli sínu með þriggja daga afmælisfögnuði í Hlégarði dagana 10.-12. apríl.
Félagsmiðstöðin Bólið býður upp á uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10 til 16 ára börn og ungmenni. Í Bólinu er fjölbreytt og lifandi starfsemi sem er skipulögð að miklu leyti í samráði við unglingana.
Félagsmiðstöðin Bólið var fyrst opnuð um áramótin ‘83-’84 og fagnar því á þessu ári 40 ára afmæli.
Fyrst hafði félagsmiðstöðin aðsetur í gömlu símstöðinni, síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Í dag hefur félagsmiðstöðin aðsetur á þremur stöðum, á lóðinni við Lágafellsskóla, inni í Helgafellsskóla og við Skólabraut í svokölluðum Læknisbústað. Þar á neðri hæðinni er tónlistaraðstaða og hljóðver í boði fyrir ungmenni 13-25 ára og ber nafnið Kjallarinn.
Í dag starfa í Bólinu 17 starfsmenn og fer þar fram mikið og öflugt starf alla daga og öll kvöld vikunnar.
Böll verða haldin í Hlégarði á miðvikudags- og fimmtudagskvöld fyrir 5.-10. bekkinga.
Föstudaginn 12. apríl er svo almenningi boðið í veislu í Hlégarði kl. 17:00.
Bólráð sér um veislustjórn og bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun ávarpa samkomuna.
Þar munu ungir listamenn koma fram og boðið verður upp á veitingar og spjall.

Ráðinn framkvæmdastjóri Aftureldingar

Einar Ingi Hrafnsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar frá og með 1. maí í stað Grétars Eggertssonar sem hefur sinnt því starfi s.l. tvö ár.
„Einar Ingi er okkur vel kunnur sem leiðtogi og fyrirliði bikarmeistaraliðs handboltans í fyrra. Það má segja að Einar sé þá búinn að loka hringnum í hringrás Aftureldingar þar sem hann hefur verið iðkandi, foreldri, þjálfari og sjálfboðaliði fyrir félagið okkar þannig að reynsla hans á öllum þessum vígstöðvum mun án efa nýtast honum vel.“
Einar er með BSc-próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er masterinn handan við hornið, hann hefur starfað sem vörumerkjastjóri hjá heildversluninni Halldóri Jónssyni síðan hann kom heim úr atvinnumennsku frá Noregi.
Einar býr í Mosfellsbænum með Þóreyju Rósu Stefánsdóttur landsliðskonu í handbolta og leikmanni hjá Fram, þau eiga tvö börn.

Sameiningarorka

Eitt það besta við íþróttirnar er að þær búa yfir þeim töframætti að geta sameinað fólk. Það er ólýsanlegt að vera hluti af stórum hópi fólks sem er samankominn til þess að styðja eitt og sama liðið til dáða. Lið sem allir í hópnum hafa tengingu við. Tengingarnar ná saman eins og ósýnilegir rafmagnsþræðir, tengja okkur sem erum á pöllunum hvert við annað. Og okkur sem heild við íþróttaliðið okkar úti á vellinum. Það gefur liðinu orku sem síðan endurvarpast á áhorfendapallana. Og þannig eykst þessi sameiginlega orka jafnt og þétt. Við finnum fyrir tengingunum, finnum að við erum í þessu saman.

Vorið er skemmtilegur íþróttatími í Mosfellsbæ. Vetraríþróttirnar eru að ná hámarki og sumaríþróttirnar að byrja. Móðurskip okkar Mosfellinga, Afturelding, heldur úti öflugum félagsliðum í bolta­íþróttunum og það eru heldur betur spennandi tímar fram undan hjá þeim. Karla- og kvennalið UMFA í blaki eru bæði komin í undanúrslit í Íslandsmótinu, en úrslitakeppnin er í fullum gangi þessa dagana. Kvennaliðið okkar í handbolta tekur næstu daga og vikur þátt í úrslitakeppni um að halda sæti sínu í efstu deild og karlaliðið, sem endaði deildarkeppnina í öðru sæti, spilar þessa dagana við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Við eigum, ekki enn, meistaraflokka í körfubolta, en íþróttin er mjög vaxandi í Mosfellsbæ og strákarnir í 2009 árganginum eru á meðal bestu liða landsins í dag. Kvenna- og karlaliðin okkar í fótbolta eiga bæði bikarleiki í apríl og Íslandsmótið hefst í byrjun maí.

Ég hvet unga sem aldna Mosfellinga til að mæta sem oftast á völlinn til að styðja okkar lið og upplifa um leið öfluga mosfellska sameiningarorku. Saman getum við náð langt!

Það er líka margt að gerast á vormánuðum hjá hinum íþróttadeildum UMFA – badminton, fimleikar, frjálsar, hjól, karate, sund og taekwondo. Skoðum það og önnur íþróttafélög bæjarins í næsta pistli.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. apríl 2024

Leikfélagið sýnir Línu Langsokk

Leikfélag Mosfellssveitar sýnir um þessar mundir söngleikinn um Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren sem fólk á öllum aldri ætti að þekkja.
Þegar ný stelpa flytur inn í Sjónarhól með apann sinn Herra Níels og hestinn Litla Kall umturnast líf Tomma og Önnu og þau lenda í hverju ævintýrinu á eftir öðru. Aron Martin Ásgerðarson leikstýrir verkinu, Þorsteinn Jónsson er tónlistarstjóri og Eva Björg Harðardóttir hannar leikmynd og búninga.
Stór hópur leikara og tónlistarfólks tekur þátt í uppsetningunni og mega gestir eiga von á sannkallaðri söng- og dansveislu.
Sýningar fara fram á sunnudögum í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ og er miðasalan í fullum gangi á tix.is.

Ferðalagið tók fjögur ár

Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar ákvað að fara í tæknifrjóvgunarferli til Grikklands.

Ýmsar meðferðir flokkast undir tæknifrjóvgun og margvíslegar ástæður geta legið að baki þess að fólk fari í slíkar meðferðir. Þetta er t.d. kjörmeðferð fyrir einhleypar konur sem vilja eignast börn og hefur árangur af slíkum meðferðum verið góður.
Hanna Björk Halldórsdóttir er ein þeirra sem hefur kosið að fara slíka leið en hún eignaðist tvíbura í júlí sl. Hanna ákvað að leita sér aðstoðar erlendis og segist ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Grikklandi, þar var á hana hlustað og henni gefin ráð.

Hanna Björk fæddist í Reykjavík 9. mars 1985. Foreldrar hennar eru Valgerður Hermannsdóttir hjúkrunarfræðingur og Halldór Bárðarson smiður.
Hanna Björk á tvo bræður, Sverri Einar f. 1971 og Hall Þór f. 1981.

Þetta voru ævintýralöndin okkar
„Ég er alin upp í Mosfellsbæ og elskaði að alast upp hérna, myndi hvergi annars staðar vilja ala upp mín börn.
Það voru forréttindi að alast upp í næstu götu við ömmu og við vinkonurnar nýttum okkur það gjarnan að fara til hennar og fá heitt kakó og skúffuköku. Klettarnir í bakgarðinum hjá henni á Helgastöðum, Álafosskvosin og skógurinn í Brekkulandi voru helstu ævintýralöndin okkar.“

Við kunnum engar reglur
„Maður var alltaf úti að leika sér með krökkunum úr Holtunum. Við bjuggum til hafnaboltavöll á grasblettinum á horninu á Markholti og Skeiðholti. Við spiluðum en raunin var sú að við kunnum engar reglur nema kasta bolta, slá með kylfu og hlaupa,“ segir Hanna og hlær. „Pæjumótin voru líka stór hluti af sumartímanum og voru í raun það sem maður hlakkaði mest til.
Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, ég var mikil strákastelpa og var í fótbolta í öllum frímínútum. Árgangurinn minn var örugglega vel hress fyrir kennara og stjórnendur skólans. Ég held að ég hafi nú ekki verið sú sem hafi verið til vandræða endilega en átti það til að koma vinum mínum í vandræði, svona þegar prakkarinn kom upp í mér,“ segir Hanna Björk og brosir.
„Á sumrin starfaði ég á Reykjalundi og svo æfði ég fótbolta og frjálsar íþróttir, maður nýtti hverja lausa stund til að spila. Ég ferðaðist mikið um landið með fjölskyldu minni en ferðalögin voru oft farin vegna fótboltamóta hjá mér.“

Bauðst að fara til Miami
„Ég gekk í Menntaskólann í Reykjavík og við vorum tvær úr Mosó sem lentum saman í bekk. Okkur leist ekki vel á þetta frá fyrsta degi. Einn daginn fórum við saman í Menntaskólann við Sund til að sækja bók hjá vinkonu okkar en enduðum á að skrá okkur í skólann.
Ég átti fjögur frábær ár í MS og eignaðist þar mína bestu vini. Eftir útskrift prófaði ég alls konar, fór í HÍ en endaði svo á Flórída í einkaþjálfaranámi. Ég starfaði við þjálfun í Baðhúsi Lindu P í nokkur ár en bauðst svo að fara til Miami í Florida Memorial University og spila knattspyrnu fyrir nýtt háskólalið, þar var ég í tvö ár.“

Ein besta hugmynd sem ég hef fengið
„Eftir heimkomu frá Miami fór ég í Háskólann í Reykjavík í íþróttafræði. Það er án efa ein sú besta hugmynd sem ég hef fengið. Sumarið eftir útskrift þá gekk ég inn á ferðaskrifstofuna Kilroy og sagði ráðgjafa þar að mig langaði í meistaranám um haustið. Ég vildi fara þar sem væri hlýtt og töluð enska, ráðgjafinn benti mér á Hawaii Pacific University. Þangað fór ég og sótti nám í breytingastjórnun sem er ansi skemmtileg blanda með íþróttafræðinni.“

Menning hefur alltaf heillað
„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum en er að mestu leyti hætt að sprikla sjálf. Ég hef samt sett mér það markmið að fara á íþróttaviðburði í hverju landi sem ég fer til og það markmið hefur leitt mig á ýmsa skemmtilega viðburði.
Menning hefur alltaf heillað mig líka, að sjá hvernig fólk lifir. Lífið á Hawaii t.d. sýndi mér fjölbreytileika á allt öðrum stað en við þekkjum hérna heima, ég fann mig vel í því umhverfi og naut þess að læra.“

Ákvað að leita mér aðstoðar
Hanna Björk er sjálfstæð móðir tvíbura sem fæddust 6. júlí 2023 eftir mikið ævintýri í Grikklandi. Eftir 32 vikna meðgöngu fæddust Baltasar Bjarkan og Sunneva Kristín.
„Almennt séð hef ég gaman af að vera í góðum félagsskap en nú fer tíminn minn mest í börnin mín og það er bara yndislegt,“ segir Hanna Björk og brosir.
„Ég hóf mitt tæknifrjóvgunarferli 2019 og þetta ferðalag varði í fjögur ár. Ég fór í viðtal hjá Livio hér á Íslandi en var aldrei fyllilega ánægð þótt margir hafi fengið þar góða þjónustu, mér fannst viðtalið þurrt, stutt og ekki hlustað á mínar áhyggjur eða pælingar. Ég ákvað samt að gefa þeim tækifæri sem er kannski mín stærsta eftirsjá.
Fyrsta tæknisæðingin fór fram í júlí 2020, fór í fjögur skipti hér heima sem gengu ekki svo ég ákvað þá að leita mér aðstoðar erlendis. Ég hafði heyrt gott af Serum IVF Clinic í Grikklandi, fékk símaviðtal við kraftaverkakonuna Penny sem bauð mér að koma í rannsókn.
Eftir þær rannsóknir voru allar mínar áhyggjur, sem ég hafði rætt hér heima, staðfestar.“

Óendanlega þakklát
„Ég fór í fimm ferðir til Grikklands, þrjár meðferðir og allt gekk upp í þeirri þriðju sem jafnframt var fyrsta glasameðferðin og til urðu tveir fullkomnir einstaklingar.
Meðferð sem þessi er dýr og það voru margir sem höfðu á orði að þeir vildu styrkja mig í þessu ferli. Eftir miklar vangaveltur fór ég út í fjáröflun og seldi hinar ýmsu vörur. Ég náði að safna langleiðina upp í fulla meðferð, eina aðgerð, tvær flugferðir og hótelkostnað. Þetta var mikil vinna og oft á tíðum yfirþyrmandi, pabbi og vinkona mín tóku að sér að keyra út vörurnar í öllum veðrum.
Ég verð óendanlega þakklát öllum þeim sem létu fé af hendi rakna, það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig það var að finna fyrir öllum þessum stuðningi.“

Starfið er margþætt
Hanna Björk hefur starfað við dagvistun, þjálfun og þjónustustörf í gegnum tíðina en árið 2017 var hún ráðin íþróttafulltrúi Aftureldingar. Hanna þekkir félagið og alla aðstöðu vel í gegnum sinn íþróttaferil frá unga aldri.
„Það eru mikil forréttindi að fá að starfa hjá uppeldisfélaginu og ég er ákaflega þakklát fyrir það tækifæri. Ég stýri íþróttamálunum og starfið er margþætt. Við viljum alltaf gera betur þegar kemur að þjálfun iðkenda og ekki síst í fræðslu fyrir þjálfara félagsins, starf mitt er liður í þeirri uppbyggingu,“ segir Hanna Björk og brosir er við kveðjumst.

Jökla og Ístex efna til hönnunarsamkeppni

Ullin og Jökla er yfirskrift hönnunarsamkeppni sem Jökla stendur að um þessar mundir í samvinnu við Ístex í Mosfellsbæ.
Markmið keppninnar er að styðja íslenskan prjónaiðnað, listiðnað, hönnun og frumleika fyrir íslensku ullina sem og nýsköpun fyrir íslenskan landbúnað.
„Keppnin gengur út á að hanna peysu úr íslenskri ull með merki eða hönnun Jöklu rjómalíkjörs sem vitnar í hina margrómuðu og ísköldu Jöklu sem streymir niður árfarveginn til hafsins,“ segir Pétur en fagleg dómnefnd velur best hönnuðu peysurnar.

Íslensk mjólkurafurð
Mosfellingarnir og frumkvöðlahjónin Pétur Pétursson og Sigríður Sigurðardóttir voru í mörg ár að þróa íslenska rjómalíkjörinn Jöklu. Pétur er mjólkurfræðingur að mennt og mikill áhugamaður um framleiðslu íslenskra mjólkurafurða.
„Hugmyndin um fyrsta íslenska rjómalíkjörinn kviknaði á ferðalagi um Ítalíu þegar við borðuðum hjá ítölskum bónda sem framleiddi sinn eigin mjólkurlíkjör. Það tók mörg ár að fullkomna uppskriftina, en loksins, árið 2021, kom lokaafurðin í hillur verslana ÁTVR,“ segir Pétur.

Mosfellskt samstarf
Þrjár peysur verða valdar í vinningssæti og einnig verða veitt verðlaun fyrir frumlegustu peysuna. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir vinningssætin, að andvirði hálfrar milljónar í heildina.
Peysurnar skulu berast nafnlausar en merktar með einkunnarorði/dulnefni eða númeri og þeim skal fylgja umslag sem inniheldur upplýsingar um þátttakanda.
„Skila þarf inn peysunum fyrir 29. maí til Ístex að Völuteigi 6 í Mosó.
Úrslitakvöldið verður svo haldið í Hlégarði þann 31. maí þar sem einnig verður kynning á vörum sem tengjast nýsköpun í landbúnaði,“ segir Pétur að lokum og er spenntur að sjá hvaða listaverk koma út úr þessari samkeppni og hvetur sem flesta til þátttöku. Hann veitir nánari upplýsingar í gegnum netfangið petur@joklavin.is eða á www.jokla.com.

Þjónustusvæðið á landi Skálatúns fær nafnið Farsældartún

Dómnefnd ásamt verðlaunahöfunum þremur í nafnasamkeppninni. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Guðrún Birna Einarsdóttir, Sigurveig Gunnarsdóttir, Gerður Pálsdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi og Ragnar Jónsson á auglýsingastofunni TVIST.

Á Skálatúni hefur um árabil verið búsetusvæði fyrir fatlað fólk sem var rekið af IOGT á Íslandi. Vorið 2023 hætti IOGT á Íslandi þeirri starfsemi og þjónusta við íbúa á Skálatúni er nú á höndum Mosfellsbæjar en eignarhald fasteigna á svæðinu í eigu nýs aðila, Skálatúns, sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.
Til stendur að byggja upp þjónustusvæði fyrir börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á svæðinu og mun svæðið því taka vissum breytingum. Í ljósi þessara breytinga var ákveðið að halda nafnasamkeppni í þeim tilgangi að fá nýtt nafn á svæðið sem mun sinna breyttum verkefnum þegar svæðið hefur verið byggt upp.

Þrír sigurvegarar með sama nafnið
Niðurstaða dómnefndar í nafnasamkeppni fyrir uppbyggingu á svæðinu í landi Skálatúns í Mosfellsbæ er: Farsældartún.
Dómnefnd var skipuð þremur fulltrúum, Ásmundi Einari Daðasyni f.h. mennta- og barnamálaráðuneytisins, Önnu Sigríði Guðnadóttur bæjarfulltrúa, f.h. Mosfellsbæjar og Ragnari Jónssyni, f.h. auglýsingastofunnar TVIST.
Leitað var til almennings um tillögur að nafni. Samkeppnin var auglýst sérstaklega á heimasíðu Mosfellsbæjar og í bæjarblaðinu Mosfellingi. Enn fremur var þremur opinberum stofnunum gert sérstaklega viðvart um samkeppnina og þær hvattar til að fá sitt fólk til að taka þátt. Um það bil 150 tillögur bárust.
Niðurstaða dómnefndar var að velja heitið Farsældartún úr innsendum nafnatillögum.
Þrír aðilar stungu upp á nafninu, þær Guðrún Birna Einarsdóttir, Sigurveig Gunnarsdóttir og Gerður Pálsdóttir og var þeim veitt viðurkenning í vikunni.

Farsæld barna í forgrunni
Orðið farsæld merkir samkvæmt orðabók „það að farnast vel í lífinu“. Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, farsældarlögunum, merkir farsæld barns þær „aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.“
Starfsemin sem mun fara fram í Farsældartúni mun einmitt miða að því að farsæld barna verði náð og því skýrt samhengi milli þess sem fara mun þar fram og heitis svæðisins.
Dómnefndin taldi að vísan þess heitis í tún væri m.a. vísan í gamla tíma þar sem fyrra heiti svæðisins var Skálatún. Einnig að þannig væri vísað í hefðir Mosfellsbæjar eins og bæjarhátíðina „Í túninu heima“. Þá eru tún tákn um ræktun, grósku og uppskeru, sem vísar til þess starfs sem fara mun fram á svæðinu þegar það hefur verið byggt.
Nafnið gefur einnig tækifæri til þess að skapa samverusvæði á reitnum sem gæti kallast Farsældartún, en þar mætti hafa leiktæki og annað sem hvetur til jákvæðrar og uppbyggjandi samveru barna, ungmenna og fjölskyldna.
Dómnefnd hvetur Mosfellsbæ einnig til þess að haga því þannig til að götuheiti á svæðinu beri nafnið Farsældartún og byggingar á svæðinu standi því við Farsældartún nr. 1, 2, 3, o.s.frv.
Fljótlega verður farið í deiliskipulagsvinnu á svæðinu en markmiðið er að þarna verði á einum stað helstu stofnanir og samtök sem koma að þjónustu við börn og ungmenni auk úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda.

Bankinn kominn í nýjar hendur

Ragnheiður Þengilsdóttir afhendir Kára Guðmundssyni lyklana að Bankanum.

Það er komið að tímamótum á veitingastaðnum Bankanum Bistro í Þverholtinu. Eftir að hafa rekið Bankann Bistro (áður Barion) í tæp 5 ár, afhenda hjónin Ragnheiður Þengilsdóttir og Óli Valur Kára Guðmundssyni lyklana.
„Ég var þjónustustjóri í Arion Mosó og þegar útibúinu var lokað í kjölfar breytinga árið 2018 kom upp tækifæri til að kaupa húsið og umbreyta því í hverfisstað Mosfellinga. Óli Valur sem rekur eigið byggingafyrirtæki fjárfesti í húsinu og sá um umbreytinguna.
Eftir að hafa „brotist inn“ í bankann og farið í miklar framkvæmdir opnuðum við Barion, sem varð að Bankanum, 1. desember 2019,“ segir Ragnheiður.

Krefjandi og skemmtilegur tími
„Markmiðið var að skapa skemmtilegan hverfisstað fyrir Mosfellinga og teljum við að nokkuð vel hafi tekist til. Í Bankanum hefur fjöldi Mosfellinga komið og notið þess að borða saman, spila bingó, hlusta á góða tónlistamenn, hitað upp fyrir Aftureldingarleiki og skemmt sér án þess að þurfa að fara út fyrir bæjarmörkin. Við höfum haldið skákmót og einnig boðið krökkum í Mosfellsbæ í bíó í vetrarfríum og reynt að leggja okkar af mörkum til þess að gera Mosfellsbæ fjölskylduvænan.“
„Það er búið að vera bæði krefjandi og skemmtilegt að reka Bankann í erfiðu rekstrarumhverfi – sérstaklega þar sem við opnuðum staðinn rétt fyrir Covid-faraldurinn. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við höfum fengið og afhendum glöð Kára lyklana,“ segir Ragnheiður.

Grindvíkingur tekur við lyklunum
„Við vorum svo heppin að kynnast Kára í gegnum sameiginlegan vin. En Kári rak Fish House í Grindavík sem var mjög vinsæll veitingastaður og skemmtistaður Grindvíkinga allt fram til þess að rýma þurfti bæinn í kjölfar eldgoss,“ segir Ragnheiður.
„Við erum búin að vera í samstarfi við Kára undanfarna mánuði og afrakstur þess er að Kári hefur tekið við rekstri Bankans að fullu. Við óskum Kára alls hins besta með framhaldið og hlökkum til að njóta áfram þess að hafa flottan hverfisstað í hjarta bæjarins.
Við hjónin munum ekki sitja auðum höndum en við rekum áfram átta aðra veitingastaði. Við erum að hefja sjöunda rekstrarár okkar með Hlöllabáta og einnig rekum við Mandí staðina sem við tókum yfir árið 2022.“
Kári tekur fullur tilhlökkunar við lyklunum og stefnir að því að bjóða áfram upp á góðan mat og skemmtilega viðburði. Einhverjar breytingar eru í kortunum eins og gengur og gerist með nýjum eigendum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Íþrótta- og heilsubær Íslands

Ég hef nýhafið störf sem íþrótta- og lýðheilsufulltrúi Mosfellsbæjar. Starfið byggir á grunni sem ljúfmennið Sigurður Guðmundsson reisti, en starfslýsingin er á ýmsan hátt ólík hans. Ég er mjög spenntur fyrir þeim fjölmörgu verkefnum sem fram undan eru, er afar þakklátur fyrir traustið og ætla að gera mitt allra besta til að standa undir því.

Það er mikill áhugi á íþróttum og hreyfingu í bæjarfélaginu og margt í boði fyrir bæjarbúa á öllum aldri á því sviði. En við ætlum að gera enn betur. Mosfellsbær og Afturelding eru til dæmis að vinna þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá. Fjölmargir kynningarfundir hafa verið haldnir og viðtöl tekin við á þriðja tug hagaðila. Að auki er nú opin rafræn könnun á vegum Mosfellsbæjar þannig að allir bæjarbúar geta komið skoðunum sínum og hugmyndum varðandi bygginguna á framfæri.

Ég hef undanfarna daga mikið hugsað um eitt af bláu svæðunum (Blue Zones) í heiminum og borið það saman við okkur í Mosfellsbæ. Loma Linda (fallega hæðin) er rúmlega 20 þúsund manna bæjarfélag í Kaliforníu. Við fjölskyldan dvöldum í þar í mánuð þegar við ferðuðumst um bláu svæðin fyrir akkúrat fimm árum að kynna okkur og læra um samspil langlífis og góðrar heilsu.

Það sem stuðlar fyrst og fremst, að mínu mati, að áberandi góðri heilsu íbúa Loma Linda er hugarfarið. Íbúar eru mjög meðvitaðir að búa í heilsubæ og nota það sem hvatningu til að stunda heilsusamlegt líferni. Ég sé Mosfellsbæ fyrir mér sem íþrótta– og heilsubæ Íslands. Við höfum allt sem til þarf – umhverfið, grunnaðstöðuna og það sem mikilvægast er, drífandi og jákvætt fólk sem vill vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Hugarfarið er mikilvægast. Hugsum og tölum jákvætt, það hvetur okkur mest til dáða.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. mars 2024

MAIAA í Söngvakeppninni á laugardaginn

Mosfellingurinn MAIAA eða María Agnesardóttir tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2024 með laginu „Fljúga burt“ eða „Break Away“ á ensku. MAIAA keppir í seinni undankeppninni 24. febrúar sem fer fram í Fossaleyni í Grafarvogi.
MAIAA ólst upp í Mosfellsbæ og rekur tónlistarrætur sínar þangað. MAIAA var í Lágafellsskóla og tók þátt í öllu sem tengdist að einhverju leyti tónlist, allt frá söngleikjum settum upp af Lágafellsskóla yfir í söngkeppnir á borð við söngkeppni Bólsins og söngkeppni Kragans.

Fékk gullhnappinn í Iceland Got Talent 2016
Söngvakeppnin er ekki fyrsta skiptið hennar Maríu á stóra sviðinu. Árið 2014 tók María þátt í Ísland Got Talent með afa sínum Þresti Lýðssyni, ekki til mikillar lukku, en María lét það ekki á sig fá, reyndi aftur 2016 og hreppti þar gullhnappinn frá Ágústu Evu.
Ein helsta minning Maríu úr Mosfellsbænum eru þau sumur þar sem hún hjólaði yfir til ömmu sinnar og afa í Krókabyggð.
„Það var tekið á móti manni með opnum örmum hvort sem maður lét vita af sér eða ekki og auðvitað vöfflur og ís alltaf í boði,“ segir María.

Afla reynslu og stækka tengslanet
Það að keppa í Söngvakeppninni hefur verið ævilangur draumur hjá Maríu. Þegar hún var 9 ára stal hún símanum af afa sínum, Sverri Agnarssyni, til að kjósa Jóhönnu Guðrúnu 100 sinnum, sem setti svo sannarlega strik í símreikninginn.
María er einstaklega spennt fyrir Söngvakeppninni og ætlar hún að nýta sér þetta tækifæri eins vel og hún mögulega getur.
„Þetta verður notað til að afla reynslu, stækka tengslanet og kynna þjóðinni fyrir MAIAA,” segir María Agnesardóttir.

Moldin er undirstaða alls

Ólafur Gestur Arnalds prófessor hefur lengi fengist við rannsóknir á íslenskri náttúru og vernd hennar.

Moldin fæðir og klæðir jarðarbúa og hún miðlar jafnframt ferskvatni um vistkerfi. Skilningur á náttúrunni og hvernig hún bregst við álagi vegna athafna mannsins á jörðinni krefst þekkingar á moldinni.
Jarðvegur á Íslandi er einstakur á heimsvísu, frjór en viðkvæmur, því aðstæður fyrir þróun hans hérlendis eru afar sérstakar.
Ólafur Gestur Arnalds vísindamaður hefur verið málsvari moldarinnar um langt skeið, hann hefur afgerandi þekkingu og skilning á þessari dýrmætu auðlind. Ólafur hefur alla tíð helgað líf sitt fræðistörfum á sviði jarðvegs og vistkerfa og kennt ófáum háskólanemum allt um moldina og mikilvægi hennar.

Ólafur er fæddur í Reykjavík 5. janúar 1954. Foreldrar hans eru Ásdís Andrésdóttir Arnalds og Sigurður Arnalds, útgefendur.
Systkini Ólafs eru Sigurður f. 1947, Andrés f. 1948, Einar f. 1950 og samfeðra Jón Laxdal f. 1935 og Ragnar f. 1938.

Hrifu jafnvel barnið með sér
„Ég ólst upp í gamla Vesturbænum á Stýrimannastíg. Hverfið var frábært fyrir börn að alast upp, margir krakkar í hverfinu sem höfðu mikið frjálsræði. Flestir voru úti meginhluta dags utan skólatíma, örstutt niður í Slipp, út í Örfirsey eða niður í miðbæ.
Ég á ansi fjölbreyttar æskuminningar, mikill gestagangur heima fyrir, faðirinn og margir gestkomandi voru frábærir sagnamenn sem hrifu jafnvel barnið með sér. Man hlátrasköllin um húsið en sögurnar gáfu mér um leið tilfinningu fyrir erfiðri lífsbaráttu landans á fyrri hluta 20. aldar.
Vinir okkar bræðra voru heimagangar og það var iðulega mannmargt á Stýró og margir urðu vinir til lífstíðar. Móðirin hélt þessu öllu saman af miklu umburðarlyndi og veitti stuðning þegar hans var þörf.“

Merkileg flóra alþingismanna
„Ég gerðist þingsveinn á Alþingi þegar ég var 10 ára gamall og vann þar marga vetur. Þar kynntist ég merkilegri flóru alþingismanna um miðjan sjöunda áratuginn í miðju kalda stríðinu.
Ég vann m.a. fyrir peningum til að kaupa útvarp og segulband til að hljóðrita tónlist úr Kanaútvarpinu enda þótti popptónlist óæðri músik, óáran sem myndi ganga fljótt yfir og var lítið spiluð í útvarpi landsmanna.“

Háseti á síðutogara
„Ég gekk í Miðbæjarbarnaskólann sem enn stendur við Tjörnina. Man marga frábæra kennara, góða vini og skemmtilega tíma.
Á sumrin var ég í sveit nokkur sumur en einnig við ýmis sendlastörf. Ég byrjaði sem háseti á síðutogara 15 ára gamall og var til sjós fjögur sumur. Aflaði fjár til vetrarins, sem var nú ekki alltaf varið af skynsemi,“ segir Ólafur og brosir. „Síðar vann ég sem verkamaður við gerð brimvarnargarðs í Súgandafirði og eitt sumar sem fangavörður.
Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík eins og fimm bræður mínir á undan mér. Ég tók virkan þátt í leiklistarlífinu (Herranótt) þar sem var oft glatt á hjalla.“

Ýmislegt brallað á Birkiteignum
Eiginkona Ólafs er Ása Lovísa Aradóttir prófessor í landgræðslufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þau eiga tvö börn, Arndísi Ósk f. 1979 sem er verkfræðingur að mennt og Guðmund Ara f. 1994 mannfræðing og tónlistarmann. Barnabörnin eru tvö.
„Það er ýmislegt brallað hérna á Birkiteignum þegar barnabörnin koma í heimsókn, málað, lesið og spilað. Við reynum einnig að eiga góðan sameiginlegan tíma á sumrin í orlofshúsum sem og í sumarhúsi stórfjölskyldunnar við Álftavatn í Grímsnesi. Við hjónin ferðumst þar fyrir utan mjög mikið, bæði vegna starfa okkar og í frítíma, innanlands sem utan.“

Skíðaferðirnar stytta veturinn
„Við Ása höfum alltaf stundað útivist, áður fyrr voru lengri göngur með „allt á bakinu“ á dagskrá en nú eru göngurnar styttri. Gjarnan farið á tjaldsvæði við hálendisbrúnina eftir því sem vindar blása.
Við höfum farið í árlegar ferðir með félögum frá menntaskólaárunum í um 30 ár sem hafa verið mjög gefandi. Skíðaferðir til Ítalíu og víðar stytta veturinn og nú hafa vetrarferðir til heitari slóða í frí bæst við. Vera okkar í Bandaríkjunum telur sjö ár og þar höfum við ferðast mjög mikið. Vinnan kemur okkur líka til framandi staða, m.a. til ýmissa landa Afríku.
Konan mín er listfengur málari en ég stunda töluvert myndatökur með dróna. Náttúra landsins er bæði innblástur í lífinu en einnig viðfangsefni í starfi okkar sem náttúrufræðingar.“

Störfin hafa verið fjölbreytt
Störf Ólafs, bæði á meðan hann stundaði háskólanám og síðar, hafa tengst jarðvegi, landnýtingu, ástandi vistkerfa, landgræðslu o.fl. Hann hóf sumarstörf við beitarrannsóknir við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) sumarið 1976 og hefur starfað þar allar götur síðan, fyrst meðfram námi en síðar sem sérfræðingur og sviðsstjóri eftir að háskólanámi lauk.
„Ég varð prófessor eftir að RALA sameinaðist Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Störfin hafa verið fjölbreytt og hafa meðal annars beinst að sérstökum eiginleikum moldar á eldfjallasvæðum jarðar í samvinnu við evrópska kollega, að rannsóknum á eiginleikum sem og flokkun íslensk jarðvegs, en einnig að sandfoki og ryki á Íslandi, ástandi lands og vistheimt.
Í upphafi stýrði ég kortlagningu á jarðvegsrofi á landinu öllu en síðar þróun gagnagrunns um landgerðir og bújarðir á Íslandi með verkefninu Nytjaland, auk rannsókna á moldinni. Ég hef átt marga frábæra samstarfsmenn og nemendur í gegnum tíðina.“

Mold ert þú
Störf Ólafs hafa jafnframt falið í sér kennslu og skriftir, m.a. á vísindagreinum og bókum en sl. vor kom út bók eftir hann, Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra, sem var búin að vera lengi í smíðum.
Mold ert þú er efnismikil og glæsileg bók þar sem fjallað er um jarðveg og umhverfismál frá mörgum hliðum. Hún skiptist í þrjá meginhluta, grunnþætti jarðvegsfræðinnar, íslenska mold og umhverfið. Þetta er fróðleg bók fyrir alla sem hafa áhuga á náttúrufræði.
Bókin er prýdd miklum fjölda ljós- og skýringarmynda sem unnar voru af Fífu Jónsdóttur.

Tónlistin ofarlega á blaði
Ólafur hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 fyrir kortlagningu á jarðvegsrofi á Íslandi. Eins var honum, eiginkonu hans og Andrési Arnalds veitt umhverfisviðurkenning umhverfisnefndar Mosfellsbæjar árið 2016 fyrir störf að umhverfismálum. Ólafur hlaut landgræðsluverðlaun Landgræðslu ríkisins árið 2018.
Ólafur lauk formlega störfum í janúar síðastliðnum, ég spyr hann að lokum hvað taki nú við? „Aðeins rólegri dagar,“ segir Ólafur og brosir en náttúra, útivist og samvera með fjölskyldu er efst á blaði. „Að ferðast, kynnast náttúrunni, sögu og menningu, það eru forréttindi þegar atvinna og áhugamál hafa farið saman eins og í mínu tilfelli. Mosfellsbær er hreint magnaður bær þegar kemur að útivistinni.
Tónlistin er líka alltaf ofarlega á blaði, það er gaman að pikka upp lög og gítarsóló sem kemur í veg fyrir liðagigt og eflir andann á ýmsa lund.“

Uppbygging í Mosfellsbæ

Korputún, atvinnukjarni í landi Blikastaða.

Regína Ásvaldsdóttir

Á komandi árum er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis í Mosfellsbæ.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er lögð áhersla á að fjölga og auka fjölbreytni starfa í Mosfellsbæ í nýrri atvinnustefnu bæjarins.
Í dag er bæjarfélagið stærsti atvinnurekandinn með um eitt þúsund starfsmenn. Næst á eftir koma Reykjalundur og Matfugl þar sem hvor aðili er með um 150 starfsmenn. Þá kemur Reykjabúið með 66 störf og Ísfugl með um 50 störf. Þar á eftir hjúkrunarheimilið Hamrar með um 40 starfsmenn.

Okkur vantar fjölbreyttari störf
„Það vantar tilfinnanlega fjölbreyttari störf í bæjarfélagið og því eru ánægjuleg tíðindi að öflug fyrirtæki hafa sóst eftir lóðum á nýju svæði við Korputún auk þess sem uppbygging Skálatúns mun hafa í för með sér mikla fjölgun sérfræðistarfa,“ segir Regína.
Á lóð Skálatúns er ráðgert að koma fyrir að minnsta kosti þremur ríkisstofnunum sem þjónusta börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Það eru Barna- og fjölskyldustofa með 80 starfsmenn, Ráðgjafar– og greiningarstöð með 70 starfsmenn og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með 45 starfsmenn.
Um þessar mundir fer fram greining á húsnæðisþörf þessara stofnana og í framhaldinu verður auglýst eftir áhugasömum arkitektastofum til að vinna deiliskipulag á svæðinu. Þá fer fram nafnasamkeppni um heiti þessa nýja klasa. Gert er ráð fyrir að fleiri stofnanir og félagasamtök bætist við þegar fram líða stundir. Svæðið er mjög stórt, eða um sex hektarar, og að sögn Regínu getur það vel rúmað þá búsetukjarna sem eru fyrir og nýjar byggingar.

Uppbygging á Blikastaðalandi
En það er líka gert ráð fyrir fjölgun íbúða, meðal annars á Blikastaðalandi. Á fundi bæjarstjórnar í lok janúar var staðfest fundargerð skipulagsnefndar sem fjallaði um umsagnir og ábendingar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Blikastaðalandi.
Um var að ræða skipulagslýsingu sem var auglýst 13. desember í skipulagsgáttinni og höfðu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar mánuð til að senda inn umsagnir sínar og ábendingar.
Skipulagslýsingin er fyrsta skrefið í samráði vegna fyrsta áfanga Blikastaðalands. Í lýsingu kom fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur verkefnisins, fyrirliggjandi stefna og fyrirhugað skipulagsferli samkvæmt lögum.
Í skipulagslýsingunni segir meðal annars að skipulagssvæði í fyrsta áfanga sé u.þ.b. 30-35 ha að stærð og liggi upp að núverandi byggð við Þrastarhöfða. Svæðið verður skilgreint sem íbúðarbyggð og miðsvæði.
Gert er ráð fyrir mögulegum 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast muni í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar. Þá er gert ráð fyrir grænum svæðum og einnig er markmiðið að skapa aðlaðandi bæjarmynd þar sem gamli Blikastaðabærinn er hjarta svæðisins og aðdráttarafl.

Svipuð þróun og frá aldamótum
„Fram undan er umfangsmikið samráð vegna skipulagsvinnunnar og er áætlað að sú vinna taki um eitt og hálft ár vegna fyrsta áfangans. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging fyrsta áfanga geti tekið allt að fjögur til fimm ár héðan í frá,“ segir Regína og bætir við að þróun uppbyggingar á Blikastaðalandi verði svipuð og þróun Mosfellsbæjar frá aldamótum.
„Ef við skoðum þróun Mosfellsbæjar síðastliðin 25 ár þá hefur íbúafjöldi bæjarins meira en tvöfaldast. Fjöldi íbúa í Mosfellsbæ var rúmlega 6 þúsund manns árið 2000.
Miðað við að uppbygging Blikastaðalands taki jafnlangan tíma, eða 25 ár, þá má gera ráð fyrir að íbúafjöldi Mosfellsbæjar verði orðinn 25 til 30 þúsund árið 2050. Þá er einnig tekið tillit til þess fjölda íbúða sem enn á eftir að byggja miðsvæðis í Mosfellsbæ og á óbyggðum svæðum í Helgafellshverfi.
Á Íslandi er ákall um meiri uppbyggingu húsnæðis, og á það ekki síst við núna í tengslum við eldgosin á Reykjanesi og rýmingu Grindavíkur. Horft er til norðurs í því samhengi og hvatt til hraðari uppbyggingar.
Við verðum að gera okkur grein fyrir að land er verðmæti, ekki síst þar sem hægt er að nýta dýra innviði og fjárfestingar sem fyrir eru í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir Mosfellsbæ að geta boðið upp á góða þjónustu fyrir íbúana en til þess að það sé hægt þá þurfum við tiltekinn fjölda útsvarsgreiðenda og fyrirtækja til að standa undir henni.“

Jóna Margrét keppir til úrslita í Idol

Jóna Margrét ásamt foreldrum sínum Guðmundi St. Valdimarssyni og Hjördísi Kvaran.

Mosfellingurinn Jóna Margrét Guðmundsdóttir keppir til úrslita í Idol stjörnuleit föstudagskvöldið 9. febrúar en sýnt verður frá keppninni í beinni útsendingu á Stöð 2.
Jóna Margrét er alin upp í Mosfellsbæ til 10 ára aldurs, en býr nú á Akranesi. Foreldrar hennar eru Mosfellingarnir Hjördís Kvaran Einarsdóttir og Guðmundur St. Valdimarsson. Jóna Margrét lauk stúdentsprófi af tónlistardeild Menntaskólans á Akureyri 2023. Eftir MA fór hún til Kaupmannahafnar í söngnám í Complete Vocal Institute.
„Ég var í námi úti í Danmörku þegar umsóknarferlið fyrir Idolið hófst og varð bara óskaplega skotin í þessu og ákvað að sækja um. Fékk svo svar um að ég væri komin inn og þá varð þetta allt svo raunverulegt. Ég er mjög þakklát fyrir það í dag og er ótrúlega stolt.“

Vön að koma fram
„Ég hafði komið nokkuð fram áður en ég fór í Idolið. Var búin að vera mikið á sviði í söngleikjum í Hofi á Akureyri sem LMA setti upp, keppti í söngvakeppnum og komið oft fram á vegum TónAk.
Ég á mér draum um að geta lifað á því að vera tónlistarmaður og þá þarf maður að vera duglegur að koma sér að. Ég hélt eigin útgáfutónleika á Græna hattinum þegar platan mín, Tímamót, kom út 2022. Platan var hluti af lokaverkefni mínu hjá TónAk.“

Allt sem mig dreymir um
„Úrslitakvöldið fer fram með þeim hætti að þrír keppendur koma fram og syngja eitt lag sem við veljum sjálf. Í miðjum þætti verður kosið og einn fer heim og þeir tveir sem eftir standa keppa aftur með því að syngja úrslitalag og aftur er kosið og eftir það verður krýndur sigurvegari Idolsins 2024.
Þetta hefur gengið ótrúlega vel, þetta er náttúrulega allt sem mig dreymir um að gera, að koma fram undir nafninu Jóna Margrét og vera listamaður.
Eins og fram hefur komið í þáttunum þá er þetta mjög, mjög erfitt ferðalag en á sama tíma 100% það sem mig dreymir um. Þetta er alveg magnað ferli og maður kynnist fullt af yndislegu og mjög hæfileikaríku fólki og myndar tengsl við fólk til frambúðar.“

Finnur fyrir ótrúlegum stuðningi
„Það er alveg magnað, ég finn fyrir ótrúlegum stuðningi alls staðar frá. Mosó er alltaf mínar æskuslóðir og ég finn fyrir ótrúlega miklum stuðningi þar en svo hef ég búið á fleiri stöðum og hef mótast þar sem karakter og listamaður og ég mun alltaf tengja mig við þá staði líka.
Ég finn fyrir miklum stuðningi frá öllum þessum stöðum, ég er mjög þakklát fyrir það og mér þykir vænt um það.
Ég ætla svo að nota „platformið“ og halda áfram, gefa út meiri tónlist og vera bara duglegri við að koma fram og trúa og treysta á það sem ég er. Þannig að ef einhvern vantar atriði eða tónlistarflutning þá endilega bara hafið samband.
Ég vil enn og aftur þakka kærlega fyrir allan stuðninginn og ég fer hress inn í úrslitakvöldið,“ segir Jóna Margrét glöð í bragði að lokum.