Vel heppnuð afmælisráðstefna Reykjalundar
Á dögunum fór fram glæsileg ráðstefna um endurhæfingu á vegum Reykjalundar í tilefni af 80 ára afmæli Reykjalundar á þessu ári.
Tæplega 250 manns voru skráðir til leiks og hlustuðu á metnaðarfulla dagskrá um stöðu mála í endurhæfingu.
Endurhæfing er samvinna
Afmælisráðstefnan bar titilinn „Endurhæfing er samvinna – Sköpum framtíðina saman“ en starfsfólk Reykjalundar vill gjarnan auka samvinnu þeirra sem starfa í endurhæfingarþjónustu, sjúklingunum og samfélaginu til bóta. Það var mikill samhljómur um aukna samvinnu hjá þeim sem töluðu á ráðstefnunni.
Heilbrigðisráðherra flutti líflegt og áhugavert ávarp, farið var yfir mikilvægi endurhæfingar út frá heilsuhagfræði, rætt um nýjungar, velt upp framtíðarsýn og erlendur gestur kynnti alþjóðalega CARF-gæðavottun sem Reykjalundur stefnir á að fara í gegnum nú síðar á árinu.
Síðast en ekki síst var fléttað inn í dagskrána stuttum kynningum frá fjölda aðila sem í málaflokknum starfa.
Þörf fyrir endurhæfingu mun aukast
Fram kom að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, hefur áætlað að þörf fyrir endurhæfingu muni aukast á heimsvísu samhliða samfélagsbreytingum og lýðfræðilegum breytingum, s.s. breyttri aldurssamsetningu þjóða, bættum læknismeðferðum og aukinni lifun í kjölfar greiningar á langvinnum sjúkdómum. Áætlað er að einn af hverjum þremur muni þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni.
Því er ljóst að endurhæfing mun gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Gísli Einarson fjölmiðlamaður stýrði dagskránni af alkunnri snilld og í lokin lét hann þessa limru falla:
Endurhæfing ætla ég
að ætti að vera skemmtileg
skörp og skýr
ekki of dýr
og þokkalega þverfagleg.
Rástefnunefnd Reykjalundar þakkar öllum fyrir sín innlegg og þátttakendum kærlega fyrir komuna.