Sameina krafta sína á Mosótorgi
MosóTorg er gjafa-, hönnunar- og hannyrðaverslun sem opnuð hefur verið að Háholti 14.
Þar sameina krafta sína þær Sigurbjörg Kristmundsdóttir sem rekur hannyrðaverslunina Sigurbjörgu og Slikkerí.is, Ólína Kristín Margeirsdóttir sem er með Instaprent ásamt því að reka ljósmyndastofuna Myndó og Ísfold Kristjánsdóttir (Folda) með fyrirtækið Foldabassa.art.
„Sagan á bak við þetta samstarf okkar er að við vorum allar að reka okkar fyrirtæki í Þverholti, við vorum í miklum samskiptum og þegar við fréttum að þetta húsnæði hér í Háholtinu alveg við Miðbæjartorgið okkar væri laust þá ákváðum við að stökkva til og sameina krafta okkar,“ segir Folda og bætir við að alltaf sé að bætast í vöruvalið hjá þeim þar sem bæði bjóði þær litlum fyrirtækjum að leigja hillupláss og taki inn nýjar vörur frá fjölbreyttum söluaðilum.
Fjölbreytt vöruval í heimabyggð
Sigurbjörg opnaði sína prjóna- og hannyrðabúð fyrir tveimur árum og er ánægð með viðtökurnar hjá Mosfellingum. Einnig rekur hún Slikkerí.is þar sem hægt er að fá allt hráefni, búnað og umbúðir til brjóstsykursgerðar.
Ólína rekur ljósmyndstofuna Myndó en ljósmyndastúdíóið verður áfram til húsa í Þverholtinu. Hún hefur verið með netverslunina Instaprent síðastliðin 11 ár þar sem hægt er að fá fjölbreytt úrval af persónulegum sérhönnuðum gjafavörum. Með opnun MosóTorgs eru vörur hennar aðgengilegri fyrir viðskiptavinum.
Foldabassa hefur sérhæft sig í heimsíðum og markaðsefni fyrir minni fyrirtæki auk þess að hanna og framleiða ýmislegt fyrir viðburði, s.s. boðskort, gestbækur og fleira.
„Við í raun rekum allar okkar fyrirtæki en sameinumst hér á MosóTorgi, þetta gefur okkur óendanlega möguleika á að stækka, vaxa og dafna. Við erum opnar fyrir því að fá fleiri með okkur í lið og viljum efla verslun í heimabyggð og auðvelda Mosfellingum aðgengi að góðu vöruúrvali,“ segir Sigurbjörg.
Notalegt andrúmsloft
„Við erum með fullt af hugmyndum varðandi það að MosóTorg verði eins konar miðstöð Mosfellinga. Okkur langar að upplifun viðskiptavinarins sé jákvæð og skemmtileg, við viljum hafa hérna notalega kaffihúsastemningu. Við erum alltaf með heitt á könnunni og viljum að fólk gefi sér tíma í að skoða vel torgið okkar og setjast niður í rólegheitum og þiggja veitingar.
Við erum með frábæra aðstöðu til að halda hérna námskeið og eru nú þegar margar hugmyndir í gangi. Við bjóðum líka upp á að taka á móti hópum, hvort sem það er á opnunartíma eða utan. Við leggjum vel við hlustir hver þörfin er og reynum eftir bestu getu að uppfylla óskir markaðarins,“ segir Ólína að lokum en bætir við að allar upplýsingar megi finna á mosotorg.is og á helstu samfélagsmiðlum undir MosóTorg.