kvenfélag

Kvenfélagið fagnar 110 ára afmæli

kvenfélag

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

„Vorið og sumarið hefur verið viðburðaríkt hjá Kvenfélagi Mosfellsbæjar. Í ár fagnar félagið 110 ára afmæli.
Við vorum svo lánsamar að fá úthlutað styrk frá samfélagssjóði KKÞ og var það okkur mikils virði að fá viðurkenningu fyrir okkar störf,“ segir Sólveig Jensdóttir formaður kvenfélagsins.
Konur í félaginu hafa í vetur prjónað sjúkrabílabangsa sem afhentir voru starfsfólki á slökkvistöðinni á Skarhólabraut. Sjúkrabílabangsar eru gefnir börnum sem þurfa að ferðast með sjúkrabílum og hafa þeir veitt þeim styrk og hlýju á ferðalaginu.
Kvenfélagskonur tóku til hendinni í skógarreitnum sínum við Skarhólabraut en félagið hefur haft reitinn til umráða til margra ára og nýverið var endurnýjaður samningur til 25 ára við Skógræktarfélagið.

Tekið vel á móti nýjum félögum
Kvenfélagskonur úr Kvenfélagssambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu færðu sumarbúðum í Reykjadal að gjöf þvottavél í samráði við forstöðumann. Tilefni gjafarinnar er 90 ára afmæli KSGK á þessu ári en á aðalfundi sambandsins 2. mars var þetta einróma samþykkt og voru Mosfellingarnir mjög glaðir að gjöfin kæmi í bæjarfélagið.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Á 17. júní tóku fimm konur úr félaginu, ásamt öðrum kvenfélagskonum frá Kvenfélagasambandi Íslands, þátt í að skera niður 75 m langa hátíðartertu í miðborg Reykjavíkur í tilefni 75 ára lýðveldisafmælis Íslands.
„Gaman væri að fleiri konur tækju þátt í okkar frábæra starfi. Við tökum vel á móti nýjum félögum í haust en í stað hefðbundins fundar í byrjun október ætla félagskonur í ferð til Riga í Lettlandi í tilefni 110 ára afmælis okkar.
Fyrsti hefðbundni fundur haustsins verður því 4. nóvember í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, 3. hæð kl. 20:00.“

biggivefur

Nýr vefur fyrir íþróttafólk sem vill ná langt

biggivefur

Þau hjónin Linda Svanbergsdóttir og Birgir Arnaldur Konráðsson, betur þekktur sem Biggi Boot Camp, opnuðu á dögunum nýja vefsíðu þar sem áhersla er á tilbúin æfingaprógrömm fyrir íþróttafólk.
Þau hafa búið í Kaupmannahöfn í fjögur ár þar sem þau hafa kynnt og fylgt eftir Boot Camp-inu ásamt því að þjálfa, en Birgir fagnar um þessar mundir 25 ára þjálfaraafmæli.
„Það var alltaf einn og einn íþróttamaður í þjálfun hjá mér og svo fór að fjölga í þeim hópi. Það var orðin mikil eftirspurn eftir prógrömmum á netinu en við höfum verið að selja þau út um allan heim,“ segir Birgir.
Eins og staðan er núna er einna mest áhersla á handboltann þó svo að við sinnum vel öllum íþróttagreinum. Meðal þeirra sem hafa verið í þjálfun hjá Birgi eru Guðjón Valur handboltamaður og Rúnar Alex fótboltamaður.

Persónulegri þjálfun
„Við erum með tilbúin sérprógrömm fyrir undirbúniningstímabil og keppnistímabil, prógrömm með og án þyngda, fyrir unglinga og einnig úthaldsíþróttafólk, s.s. hlaupara og hjólara. Þessir stóru klúbbar eru flestir bara ótrúlega aftarlega hvað varðar styrktarþjálfun fyrir fólkið sitt, yfirleitt eitt prógram á alla, óháð stöðum og áherslum,“ segir Birgir.
Einnig bjóða þau upp á fjarþjálfun fyrir íþróttafólk sem byggist meira á daglegum samskiptum þar sem allt er sérsniðið að þörfum og dagsformi hvers og eins.
„Við stefnum svo á að gera aðra síðu á íslensku þar sem fókusinn er meiri á almenning.“

Undirbúningur fyrir Tindahlaupið
Birgir hefur yfirumsjón með Tindahlaupi Mosfellsbæjar fram fer laugardaginn 31. ágúst á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
„Þar er allt á sínum stað, við erum alltaf að gera hlaupið betra og betra. Við vorum að fá vottun á hlaupaleiðirnar frá alþjóðasamtökum um utanvegahlaup.
Þá eru leiðunum gefnir punktar eftir erfiðleikastigi. Sjö tindarnir fengu tveggja punkta viðurkenningu og 5 og 1 tindur fengu einn punkt,“ segir Birgir.
„Þessir punktar nýtast t.d. hlaupurum sem stefna á erfið utanvegahlaup erlendis, t.d. 100 km í Ölpunum. Þá þarf að vera búið að safna ákveðið mörgum punktum til að mega hlaupa.
Þessi vottun er virkilega mikill gæðastimpill á Tindahlaupið, en fá hlaup á Íslandi teljast til tveggja punkta hlaupa.“

Hægt er að kynna sér nýja vefsíðu á slóðinni www.coachbirgir.com

carpet á tónleikunum á akureyri 1998

Carpet í endurnýjun lífdaga

carpet á tónleikunum á akureyri 1998

Hljómsveitin Carpet á tónleikunum á Akureyri árið 1998.

Snemma á tíunda áratug síðustu aldar stofnuðu fjórir ungir piltar hljómsveit í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi.
Þetta voru þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson (trommur), Eyþór Skúli Jóhannesson (gítar), Arnar Ingi Hreiðarsson (bassi) og Jón Þór Birgisson (gítar, söngur).
Jón Þór yfirgaf hljómsveitina 1994 til að stofna aðra hljómsveit. Kristófer Jensson tók við míkrafóninum og síðar var kallaður til sögunnar Egill Hübner á gítar. Fékk hljómsveitin að lokum nafnið Carpet.

Upptökur að mestu glataðar
Hljómsveitin spilaði rokktónlist af miklum móð og var um tíma hálfgerð húshljómsveit í Rósenbergkjallara Sigurjóns Skæringssonar.
Ásamt reglulegu tónleikahaldi um víðan völl var hljómsveitin dugleg við lagasmíðar og tók upp nokkur lög fyrir fyrirhugaða plötuútgáfu, í hljóðverinu Núlist í Borgartúni undir handleiðslu fyrrum söngvarans Jóns Þórs og Kjartans Sveinssonar. Svo fór þó að pródúsentarnir urðu of uppteknir af tónleikahaldi um víða veröld að upptökur döguðu uppi og eru nú að mestu glataðar.

Tónleikar sem fæddu af sér Airwves
Árið 1998 urðu kaflaskil hjá hljómsveitinni þegar henni bauðst að koma fram á tímamótatónleikum í íslenskri tónlistarsögu. Þetta voru tónleikar sem Guðmundur Sesar heitinn Magnússon hélt á Akureyri og hafði honum tekist að fá til landsins útsendara erlendra útgáfurisa svo nokkuð sé til tekið.
Tónleikahaldið og allt sem því tengdist var mikil upplifun fyrir unga og óharðnaða tónlistarmenn. Þarna mynduðust tengsl sem á endanum fæddu af sér Iceland Airwaves hátíðina.

Hljómsveitin lognaðist út af
Ekki hlaut Carpet heimsfrægð að launum og lognaðist svo út af ekki mjög löngu síðar. Þrátt fyrir dauða Carpet hafa meðlimir sveitarinnar þó ekki sagt skilið við íslenska tónlistarsögu. Kristófer Jensson varð söngvari Lights On the Highway, Hallgrímur trommaði með Tenderfoot og núna Sólstöfum, Arnar spilaði á bassa í um 10 ár með Hljómsveitinni Ég. Egill hefur að mestu leyti leikið með ballhljómsveitum en gaf nýverið út sitt fyrsta sólóefni undir nafninu Sporfari. Eyþór er eini meðlimur Carpet sem lítið hefur fengist við tónlist undanfarin ár.

Boðin þátttaka 20 árum síðar
Það var því óvænt ánægja þegar hljómsveitinni var boðið að taka þátt á Airwaves 2018 í tilefni þess að 20 ár voru liðin síðan tónleikarnir frægu á Akureyri fóru fram.
Æfingar og tónleikar gengu vonum framar og var ákveðið að loka þessari löngu sögu með því að taka upp lag frá árdögum hljómsveitarinnar.
Lagið heitir Ocean og er eftir Eyþór Skúla Jóhannesson. Það varð fyrst til í bílskúr í Mosfellsbænum, sennilega ´92 eða ´93. Það hefur fylgt hljómsveitinni í gegnum tíðina.

 

coral

Verslunin Coral.is opnar í Kjarna

coral

Verslunin Coral.is opnaði nýverið í Kjarnanum þar sem Dýralæknirinn var áður til húsa. Verslunin hefur verið starfrækt síðan 2012 en aðallega sem netverslun.
„Ég hef verið eigandi Coral.is síðastliðið ár og hef eingöngu rekið búðina á netinu. Það hefur gengið rosalega vel en til að geta veitt viðskiptavinum betri þjónustu og í framtíðinni aukið vöruvalið þá ákvað ég að stíga þetta skref og opna verslun,“ segir Berglind Rich­ardsdóttir sem er mjög ánægð með viðtökurnar.

Mikið úrval af vönduðum vörum
Coral.is býður upp á mikið úrval af kvenfatnaði, snyrtivörum og skartgripum. „Ég er fyrst og fremst með netverslun og allar vörur er hægt að skoða og panta á netinu. En ég fann að það er ákveðinn hópur sem vill koma og máta og skoða vörurnar. Það er rúmur skilatími á öllum okkar vörum þannig að fólk þarf ekki að vera hrætt við að panta á netinu en það er ekkert mál að skila eða skipta vörum. Hér er góð aðstaða, húsnæðið rúmgott, góðir mátunarklefar og nóg af bílastæðum.“

Fastur opnunartími og eftir samkomulagi
„Við erum með fastan opnunartíma á miðvikudögum og fimmtudögum á milli klukkan 16 og 18. Svo samkvæmt samkomulagi en það er hægt að panta tíma til að koma og skoða, máta eða sækja pantanir þegar það hentar viðskiptavininum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð eftir opnunina og finn að Mosfellingar eru ánægðir með þessa viðbót í bæjarfélaginu,“ segir Berglind að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.

bennimosfellingur

Bílarnir hafa breyst til hins betra

bennimosfellingur

Bernhard Linn eða Benni eins og hann er ávallt kallaður er með bíladellu á háu stigi og hefur ekið bílum svo lengi sem hann man eftir sér. Hann ætlaði sér alltaf að verða bifvélavirki en fann fljótt út að það heillaði hann meira að sitja undir stýri og starfa sem atvinnubílstjóri.
Benni hefur átt hátt í 50 fólks- og vörubíla um ævina, nokkur mótorhjól og fjórhjól en fyrsta bílinn eignaðist hann 16 ára gamall, Renault „hagamús“ árgerð 1954.

Bernhard er fæddur í Reykjavík 1. októ­ber 1942. Foreldrar hans voru þau Arndís G. Jakobsdóttir starfsmaður á Álafossi og símamær og Irving Linn hermaður í bandaríska hernum. Faðir Benna var sendur frá Íslandi áður en Benni fæddist og hann hefur aldrei hitt föður sinn.
Benni á þrjá bræður samfeðra, Kenneth, Edward og Eric og hefur hann hitt tvo af þeim en Edward lést árið 1996.

Svínahirðir og sjoppustjóri
Benni hefur búið hér alla sína ævi og er því rótgróinn Mosfellingur. Fyrstu fjögur ár ævi sinnar bjó hann í Tjaldanesi í Mosfellsdal með móður sinni og afa sínum og ömmu en flutti síðan í bragga sem stóð efst í Ullarnesbrekkunni.
„Ég byrjaði að vinna 12 ára gamall á Álafossi, var svínahirðir, vann á traktor og svo var ég sjoppustjóri í tvö ár,“ segir Benni þegar við rifjum upp æskuárin hans.
„Ég gekk í Brúarlandsskóla og þar voru frábærir kennarar. Það var alltaf gaman í skólanum og mér gekk vel að læra.“

Dvergarnir sjö
Benni hefur alltaf verið góður í sundi enda alinn upp í innisundlauginni á Álafossi. Þar tók hann líka afreksstig en Klara Klængsdóttir kenndi honum sundtökin. Krakkarnir úr sumarbústöðunum í Reykjahverfinu komu oft í sund og þá var kátt á hjalla.
„Ég æfði knattspyrnu og frjálsar yfir sumartímann á Tungubökkum og á unglingsárunum æfði ég handbolta. Þá var skotið í mark í kjallara í Brúarlandi en Afturelding æfði líka í Hálogalandi í Reykjavík.
Ég spilaði í tvö ár á Íslandsmóti í handknattleik með Aftureldingu með liði sem gekk undir nafninu Dvergarnir sjö.Það nafn kom til því allir voru svo hávaxnir nema ég. Það gekk vel hjá okkur og einn veturinn fékk ég að taka öll vítaköstin. Ég skoraði úr þeim öllum nema einu sem ég fékk að taka aftur af því að dómarinn var ekki búinn að flauta og ég skoraði.“

Forljótur og erfiður í akstri
„Ég er með bíladellu á háu stigi og eignaðist mitt fyrsta mótorhjól 15 ára gamall og fyrsta bílinn 16 ára, Renault „hagamús“, segir Benni og brosir. „Ég fór í iðnskóla á Reykjalundi að læra bifvélavirkjun en áttaði mig fljótt á því að mér fannst meira spennandi að keyra bílana heldur en að gera við þá og fór þá að starfa sem atvinnubílstjóri.
Fyrsti vörubíllinn sem ég starfaði á var forljótur og erfiður í akstri, grjóthastur og þungur í stýri. Á þessum tíma voru flestir vegir malarvegir, oftast holóttir og allt leiddi þetta upp í skrokkinn á manni.
Bílarnir hafa breyst til hins betra og þróunin er gífurleg, ekki síst fyrir bílstjórann. Flestir vörubílar eru nú með loftfjöðrun á hverju hjóli, stýrishúsið á loftpúðum og sætið á loftfjöðrum og langflestir eru sjálfskiptir. Það er ekkert mál að keyra stóra bíla í dag, bara gaman.“

Kynntust í Dalnum
Benni kynntist eiginkonu sinni, Dagbjörtu Pálmeyju Pálmadóttur, eða Döggu eins og hún er ávallt kölluð, í partýi í Dalsgarði. Þau giftu sig 1970 og byrjuðu búskap sinn í Hlíðartúni en byggðu sér svo hús við Merkjateig. Í dag hafa þau komið sér vel fyrir á Eirhömrum.
Benni og Dagga eiga fimm börn, Arndísi Guðríði f. 1970, Pálma f. 1972, Steinunni f. 1977, Ágúst f. 1979 og Hauk f. 1982. Barnabörnin eru tíu talsins.
„Við Dagga höfum verið dugleg að ferðast í gegnum tíðina, höfum átt húsbíla í yfir tuttugu ár, fyrsti hét Kátur svo kom Skútinn og svo Langintes.
Við höfum farið víða með börnunum okkar og barnabörnum og eins með húsbílafélaginu.“

Unnið alla daga vikunnar
„Maður hefur komið víða við í akstrinum í gegnum tíðina. Ég keyrði sendibíl fyrir Kaupfélag Kjalarnesþings og vörubíl hjá Haraldi Guðjónssyni og mági hans hjá Sandi og möl. Ég vann í námu fyrir Vinnuvélar, keyrði hjá Steypustöðinni, Vörubílastöðinni Þrótti og hjá bækistöð Reykjavíkurborgar í 17 ár.
Vinnudagarnir voru oft ansi langir, allt frá hálfátta á morgnana til ellefu á kvöldin alla daga vikunnar, laugardaga og marga sunnudaga.
Maður setti nú ekki fyrir sig að skreppa á ball á laugardagskvöldum þótt maður þyrfti að mæta til vinnu daginn eftir,“ segir Benni og glottir.

Lærði mikið um mannleg samskipti
Árið 1970 stofnaði Benni jarðverktakafyrirtækið Hengil ásamt félögum sínum Jóni Sverri í Varmadal og Níelsi Unnari á Helgafelli. Á þessum tíma var mikil uppbygging í Mosfellsbæ og þeir félagar tóku að sér gatnagerð og húsgrunna og það var unnið myrkranna á milli.
Benni var einn af stofnendum Litlu bílastöðvarinnar, leigubílastöðvar sem starfrækt var í Mosfellsbæ í nokkur ár. Hann keypti sér leigubíl og ákvað að hvíla sig á vörubílaakstri.
Í leigubílaakstrinum segist hann hafa lært mikið um mannleg samskipti og telur sig reynslunni ríkari.
Litla bílastöðin sameinaðist síðan Hreyfli og þar keyrði Benni í nokkur ár. Samhliða leigubílaakstrinum starfaði hann í sveitastjórnarmálum í átta ár, þar af tvö ár sem framkvæmdastjóri íþróttamannvirkja.

Hefur unnið til margra verðlauna
Benni hefur lengi haft áhuga á flugi og hefur flogið mikið á einkavélinni TF-SPA.
Hann starfaði með Junior Chamber og Lions í tíu ár en bridds hefur spilað mjög stóran sess í lífi hans alveg frá því hann var unglingur og hann spilar enn.
Hann byrjaði að spila með Mosfellingum í Hlégarði en síðan á hinum ýmsu stöðum eftir það. Hann fór í þrjár keppnisferðir erlendis og hefur unnið til margra verðlauna.
Ég spyr Benna að lokum hvað sé skemmtilegast við að spila bridds? „Þetta reynir mikið á mann sem er gaman því þetta er hugaríþrótt og ekki skemmir svo félagsskapurinn fyrir,“ segir Benni er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. júlí 2019
ruth@mosfellingur.is

framkvæmdir við nýja heilsugæslu 
í krikahverfi hefjast á næstu dögum

Ný heilsugæsla í Sunnukrika

framkvæmdir við nýja heilsugæslu í krikahverfi hefjast á næstu dögum

Framkvæmdir við nýja heilsugæslu í Krikahverfi hefjast á næstu dögum.

Heilsugæsla Mosfellsumdæmis og Sunnubær ehf. hafa skrifað undir samning um nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ.
Hún mun rísa í Sunnukrika neðst í Krikahverfi og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið í lok ársins 2020. Þar verður einnig gert ráð fyrir apóteki og annarri heilsutengdri starfsemi.
„Það eru bjartari dagar í vændum með betri mönnun og betra aðgengi að þjónustu,“ segir Svanhildur Þengilsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Húsnæðið í Kjarna löngu sprungið
Heilsugæslan hefur verið starfrækt í Kjarnanum í um 20 ár, frá því íbúafjöldi var um 5.000, þar til nú þegar bæjarbúar eru að verða 12.000 talsins. Það er því ljóst að húsnæðið sem nú þjónar umdæminu er löngu sprungið.
„Það er ekki hægt að líkja saman aðstöðunni núna og þeirri sem verður á nýja staðnum. Stöðin verður öll nútímalegri og allt önnur vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og aðkoma fyrir skjólstæðinga.
Þetta verður flottasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ segir Svanhildur.
Gert er ráð fyrir að lágmarki 10 læknum og vonast er til þess að stöðin verði eftirsóttur vinnustaður og sveitarfélaginu til sóma. „Við viljum auðvitað geta sinnt öllum íbúum sveitarfélagsins,“ segir Svanhildur en á nýju stöðinni verður gert ráð fyrir að hægt verði að sinna 12−15 þúsund manns.

Erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum
Í tilkynningu frá Heilsugæslunni á dögunum var beðist velvirðingar á því hve erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum. Óvænt veikindi starfsmanna og breytingar á mönnun hafa valdið læknaskorti.
„Undanfarnir mánuðir hafi verið erfiðir hjá okkur og við höfum því miður ekki getað sinnt öllu því fólki sem leitar til okkar.
Við höfum verið að glíma við heimilislæknaskort.
Orðræðan sem fór af stað m.a. á samfélagsmiðlum fannst mér bæjarbúum ekki til sóma. Ýmsum rangfærslum var haldið fram sem ekki voru svaraverðar. Þeir sem hér vinna hafa alltaf lagt sig 150% fram við að mæta öllum þörfum þeirra sem hingað hafa leitað og þykir okkur því umræðan auðvitað leiðinleg og oftar en ekki ósanngjörn
Staðan í dag er orðin betri og við höfum fengið til okkar lækna til starfa, bæði nýja og frá öðrum stöðum.“

Sjá fram á öflugri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis
Á heilsugæslu Mosfellsumdæmis eru skráðir 10.000 manns. Svanhildur segist ekki hafa orðið vör við flótta af stöðinni í Mosfellsbæ en þjónustan sé vissulega viðkvæm. „Við gerum allt sem við getum til að þjóna okkar fólki sem best og þykir miður að við höfum ekki náð að gera eins vel og við hefðum viljað.“
Jafnframt þakkar hún fyrir biðlund og traust sem íbúar hafa sýnt heilsugæslunni og sér fram á öflugri heilsugæslu.
„Við höfum ekki náð að halda uppi tveggja tíma síðdegisvakt með tveimur læknum eins og áður og auðvitað finnur fólk fyrir því og bregður jafnvel við að þurfa frá að hverfa.
Við höfum þá vísað á síðdegisvakt í Grafarvogi og morgun- og síðdegismóttöku í Árbæ. Eftir kl. 17 er síðan hægt að leita á Læknavaktina í Austurveri.
Við stefnum að því að endurvekja tveggja tíma síðdegisvakt hjá okkur enda viljum við hafa fólkið hjá okkur og ekki þurfa að vísa því í burtu.
Í dag erum við afskaplega ánægð með að það sé að birta til og við höfum eitthvað til að hlakka til.“
Eins og fyrr segir munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Formður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Ásgeir Sveinsson, segir bæjaryfirvöld leggja á það mikla áherslu að jarðvinnu verði lokið áður en skólastarf í Krikaskóla hefst í haust.

varmafrett

Endurbætur á Varmárskóla ganga samkvæmt áætlun

varmafrett

Nú standa yfir endurbætur á húsnæði Varmárskóla og hafa þær gengið vel að sögn Hallgríms Skúla Hallgrímssonar hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar sem annast verkefnisstjórn endurbótanna.
Endurbæturnar eru samstarfsverkefni margra aðila en leiddar af umhverfissviði Mosfellsbæjar með ráðgjöf frá verkfræðistofunni EFLU.
Endurbæturnar byggjast annars vegar á úttekt verkfræðistofunnar Verksýnar og hins vegar ábendingum sem komu fram í heildarúttekt verkfræðistofunnar EFLU á húsnæði Varmárskóla. Þeir verktakar sem vinna á svæðum þar sem greinst hefur örveruvöxtur hafa allir umtalsverða reynslu af sambærilegum verkefnum.

Staða endurbóta í yngri deild
Í yngri deild eru fjórir verktakar að störfum og er vinna hafin í suðvesturálmunni auk kennaraálmu og bókasafninu.
Ás-Smíði hefur hafist handa við að þvo málninguna af kennaraálmunni og miðar því verki vel áfram. Það verður svo í þeirra verkahring að klára að múra þá álmu að nýju og endurnýja þökin á kennaraálmunni og suðvesturálmu að utan.
Fyrirtækið Pétur & Hákon verktakar eru langt komnir með að fjarlægja alla loftaklæðningu úr stofum á efstu hæð suðvestur­álmu auk þess að vera búnir með rúmlega helminginn af ganginum. Næstu skref eru að fá EFLU til að merkja hvaða fjalir í þakklæðningu skuli fjarlægja og verður það gert um leið og þakjárnið verður fjarlægt, þ.e.a.s. utanfrá. EFLA hefur veitt ráðgjöf varðandi uppbyggingu á þakinu sem verður sett upp í stofunum, leiðbeint um frágang á rakavarnarlagi og hvernig best verði staðið að því að tryggja góða loftun.
Þá eru Kappar verktakar byrjaðir að vinna á þeim svæðum sem EFLA merkti til sérstakrar skoðunar í kjallara yngri deildar. Fyrsti staður var bókageymslan í kjallaranum en Kappar munu vinna sig skipulega í gegnum þá staði sem EFLA merkti til frekari skoðunar og viðgerða.

Staða endurbóta í eldri deild
Ístak hefur hafist handa við endurbætur í eldri deild. Tækjakostur í mötuneyti hefur verið aftengdur og næstu skref eru að fjarlægja innréttingar, gólfefni og eftir atvikum veggi á grunni leiðbeininga frá EFLU.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar leggur áherslu á að fylgja út í hörgul öllum leiðbeiningum EFLU og hefur samstarfið við verkfræðistofuna gengið mjög vel að mati beggja aðila.
„Framkvæmdir við Varmárskóla eru á fullum skriði og það er ánægjulegt að okkur hafi í samstilltu átaki fjölda aðila tekist að setja af stað endurbætur á Varmárskóla sem rúmast innan þess þrönga stakks sem sumarið er sem framkvæmdatími í skólabyggingu.
EFLA er nú sem fyrr okkur öflugur bakhjarl við að skipuleggja og útfæra endurbæturnar og hefur auk þess tekið að sér að vakta framgang og gæði vinnunnar miðað við þeirra gagnreyndu viðmið. Við skólasetningu í lok sumars verður öllum helstu framkvæmdum lokið, þar með talið allt rask tengt vinnu við þök.
Við útilokum ekki að minniháttar frágangur innanhúss gæti þurft að eiga sér stað á fyrstu dögum skólans en sjáum ekki fyrir okkur að það verði til að trufla skólahald og treystum á góða samvinnu við skólasamfélagið um þau úrlausnarefni sem slík staða gæti kallað á,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

íþróttaþorp

Íþróttaþorpið

íþróttaþorp

Ég hitti Yuri Marcialis í Cagliari á Sardiníu í síðasta mánuði. Hann var í forsvari fyrir nokkrum árum fyrir spennandi verkefni í borginni. Það kallast „Íþróttaþorpið“ og er hluti af mikilli heilsueflingu og íþróttaeflingu sem átt hefur sér stað í borginni síðustu ár. Það snýst um byggja upp svæði þar sem almenningur og atvinnumenn geta komið og æft sína íþrótt, nánasta sama hver hún er. Yuri labbaði með mér í gegnum svæðið og sagði mér frá verkefninu, hver staðan væri í dag, hvað væri búið að gera og hvað væri fram undan. Það athyglisverðasta við verkefnið „Íþróttaþorpið“ að mínu mati voru ekki mannvirkin sjálf eða aðstaðan, heldur heildarmyndin. Þorpið á nefnilega að standa undir nafni.

Á milli mannvirkjana er verið að hanna og byggja torg, kaffihús, matsölustaði og félagsaðstöðu. Aðstöðu fyrir alla þá sem koma í þorpið til þess að hreyfa sig. Aðstöðu þar sem fólk getur spjallað við aðra, fengið sér hollt og gott að borða, slakað á, prófað aðrar íþróttagreinar eða hreyfingu. Í stað þess að koma bara á sína æfingu og drífa sig heim. Ég hugsaði allan tímann á meðan við röltum um íþróttaþorpið í Cagliari hvað það væri geggjað að koma upp svona íþróttaþorpi á Varmársvæðinu okkar. Við höfum plássið, við höfum íþróttaaðstöðuna, en það sem okkur vantar upp á er að tengja þetta saman á þann hátt að fólk staldri við, ræði málin, tengist betur.

Hinn heilsueflandi Mosfellsbær gæti orðið fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem byggði íþrótta- og heilsuþorp. Þetta myndi hvetja enn fleiri íbúa bæjarins til þess að hreyfa sig og borða hollan og góðan mat – sem að sjálfsögðu yrði boðið upp á í þorpinu okkar. Síminn er opinn, ég er til í að segja öllum sem vilja hlusta betur frá því hvað er að gerast í Cagliari. Lítilli borg með heilsueflandi drauma.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júlí 2019

robertorri1

Róbert Orri skrifar undir nýjan samning

robertorri2

Róbert Orri Þorkelsson hefur skrifað undir nýjan samning við Aftureldingu sem gildir út tímabilið 2020. Hinn 17 ára gamli Róbert Orri hefur alist upp allan sinn fótboltaferil hjá Aftureldingu og verið fastamaður á miðjunni hjá meistaraflokki undanfarin tvö keppnistímabil. Í fyrra hjálpaði hann Aftureldingu að vinna 2. deildina og í ár hefur hann leikið vel með liðinu í Inkasso-deildinni.
Róbert er úr öflugum 2002 árgangi hjá Aftureldingu sem varð Íslandsmeistari í 3. flokki í fyrra en hann átti að auki fast sæti í byrjunarliði U17 ára landsliðs Íslands sem fór í lokakeppni EM í vor.

Félög í Pepsi Max-deildinni hafa sýnt Róberti áhuga en hann ákvað að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Aftureldingu.
„Það er gríðarlegt fagnaðarefni að Róbert hafi framlengt samning sinn við Aftureldingu. Það er gleðiefni að ungir heimamenn hafi trú á uppbyggingunni sem er í gangi í Mosfellsbæ og vilji taka þátt í henni með okkur. Róbert er efnilegur leikmaður sem hefur verið gaman að fylgjast með í meistaraflokki undanfarin tvö ár og vonandi heldur hann áfram að bæta sig sem leikmaður hér í Mosfellsbæ,” sagði Geir Rúnar Birgisson, formaður meistaraflokksráðs.

nyrleikmadur

Króatísk landsliðskona til liðs við Aftureldingu

nyrleikmadur

Króatíska landsliðskonan Ana María Gugic er gengin til liðs við Aftureldingu. Ana María er örvhent skytta sem spilaði síðasta tímabil með Octeville í Frakklandi og þar á undan með Gjerpen í Noregi.
Handknattleiksdeild Aftureldingar er gríðarlega ánægð með komu Önu og býður hana hjartanlega velkomna. Ana María er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við UMFA, því fyrir nokkru skrifaði litháíska landsliðskonan Roberta Ivanauskaide undir tveggja ára samning við félagið. Meistaraflokkur Aftureldingar leikur í Olís-deildinni á næstu leiktíð.

mosfellingur-forsíður1

Öll blöð Mosfellings frá árinu 2002 aðgengileg á timarit.is

mosfellingur-forsíður2

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Bæjarblaðið Mosfellingur hefur verið gefið út frá árinu 2002. Nú eru öll tölublöð frá upphafi aðgengileg á timarit.is en það er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem rekur vefinn.
Mosfellingur gerði samning við Landsbókasafnið í vetur um varðveislu alls efnis á timarit.is og hefur sú vinna staðið yfir ásamt skönnun á elstu tölublöðunum.
Nú eru hátt í 300 blöð Mosfellings aðgengileg á stafrænu formi á vefnum.

Öflug leitarvél á vefnum
„Við erum að skrifa hina nýju sögu Mosfellsbæjar,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Það er ánægjulegt að blöðin séu komin í trausta varðveislu og aðgengileg öllum hvenær sem er. Þetta eru miklar og sögulegar heimildir bæði í texta og myndum síðastliðin 17 ár.“
Öflug leitarvél er á vefnum og hægt er að prenta út valdar síður. Notendur geta leitað í gagnagrunninum að efni sér til fróðleiks og skemmtunar.

Yfir 8.000 blaðsíður í stafrænu formi
„Blaðsíður Mosfellings á timarit.is telst okkur að séu komnar yfir 8.000 talsins þannig að það má alveg gleyma sér yfir þeim.
Auk frétta úr bæjarlífinu hverju sinni eru viðtöl Ruthar Örnólfsdóttur, Mosfellingurinn, nú orðin 200 og Heilsumolar Gaua, Guðjóns Svanssonar að verða 100 talsins. Þá eru gömlu myndirnar í umsjón Birgis D. Sveinsson orðnar óteljandi og allar myndirnar hans Ragga Óla ómetanlegar, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hilmar.
Framvegis verða blöðin uppfærð á nokkurra mánaða fresti eftir því sem tækifæri gefst til. Einnig má minna á heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is þar sem finna má vefútgáfu af nýjasta tölublaði Mosfellings auk þess sem birtar eru helstu fréttir úr blaðinu á vefsíðunni.

—-

Tímarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga.

Eiríkur Sæmundsson Rafal með synina Kristófer og Sæmund, Hörður Úlfarsson Gröfutækni ehf, Jón Örn Ingileifsson – Jón Ingileifsson ehf, Bubbi Morthens, Guðmundur Daníelsson verkefnastjóri Ljós í Kjós, Jón Gunnarsson þingmaður, Karl Magnús Kristjánsson sveitarstjóri og stjórnarformaður Leiðarljóss ehf,  Rebekka Kristjánsdóttir stjórn Leiðarljóss ehf, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir stjórn Leiðarljóss og Sigríður Klara Árnadóttir framkvæmdastjóri Leiðarljóss.

Ljósleiðaranum fagnað í Kjósinni

Eiríkur Sæmundsson Rafal með synina Kristófer og Sæmund, Hörður Úlfarsson Gröfutækni ehf, Jón Örn Ingileifsson – Jón Ingileifsson ehf, Bubbi Morthens, Guðmundur Daníelsson verkefnastjóri Ljós í Kjós, Jón Gunnarsson þingmaður, Karl Magnús Kristjánsson sveitarstjóri og stjórnarformaður Leiðarljóss ehf, Rebekka Kristjánsdóttir stjórn Leiðarljóss ehf, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir stjórn Leiðarljóss og Sigríður Klara Árnadóttir framkvæmdastjóri Leiðarljóss.

Eiríkur Sæmundsson Rafal með synina Kristófer og Sæmund, Hörður Úlfarsson Gröfutækni ehf, Jón Örn Ingileifsson – Jón Ingileifsson ehf, Bubbi Morthens, Guðmundur Daníelsson verkefnastjóri Ljós í Kjós, Jón Gunnarsson þingmaður, Karl Magnús Kristjánsson sveitarstjóri og stjórnarformaður Leiðarljóss ehf, Rebekka Kristjánsdóttir stjórn Leiðarljóss ehf, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir stjórn Leiðarljóss og Sigríður Klara Árnadóttir framkvæmdastjóri Leiðarljóss. Mynd/Jón Bjarnason

Kjósverjar, jafnt íbúar sem sumarhúsaeigendur, fögnuðu í blíðviðrinu á uppstigningardag að vera komnir með ljósleiðara í sveitina. Við það tæki­færi kynntu fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in Hringdu, Sím­inn og Voda­fo­ne íbú­um til­boð í þjón­ustu.
Mikill kraftur er í Kjósinni en einungis eru þrjú ár síðan tekin var fyrsta skóflu­stungan að stöðvarhúsi nýrrar hitaveitu. Samhliða lagningu hitaveitunnar voru sett ídráttarrör fyrir ljósleiðara og nú er búið að blása ljósleiðaraþræði í rörin. Fyrsta áfanga af þremur er nú lokið.

gulrotin2019_1

Kristín Einarsdóttir hlýtur Gulrótina

Kristín tekur við viðurkenningunni úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags.

Kristín tekur við viðurkenningunni úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ var haldinn 27. maí. Dagurinn hófst með morgungöngu og endaði með málþingi í Listasalnum.
Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður hélt fyrirlestur og Gulrótin var afhent.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.
Það eru Heilsuvin og Mosfellsbær sem standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.

Leikur að læra og Morgunfuglar
Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenningin er veitt en hana hafa hlotið Svava Ýr Baldvinsdóttir íþróttakennari sem hefur m.a. séð um Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu í fjöldamörg ár og hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk hjá Kettlebells Iceland.
Í ár það Kristín Einarsdóttir, íþróttakennari, sem hlýtur viðurkenninguna fyrir óendanlegan drifkraft og frumkvæði að aukinni hreyfingu barna og fullorðinna í gegnum kennsluaðferðina „Leikur að læra“ og skokkhópinn Morgunfuglana.
Í rökstuðningi með tilnefningunni segir að hún hafi unnið ötullega að því að innleiða kennsluaðferðina Leikur að læra í leik- og grunnskóla á Íslandi. Aðferðin nýtir hreyfingu og leik markvisst í námi barnanna og miðar að því að efla líkamlega, andlega og félagslega vellíðan þeirra. Hún hefur síðustu ár haldið úti námskeiðum í aðferðinni fyrir kennara á Spáni og eru þeir ófáir kennarnir sem hafa nýtt sé þau.
Ekki nóg með það heldur hefur hún einnig haldið úti hlaupahópnum Morgunfuglunum hér í Mosfellsbæ.

svannimosfellingur

Það er best að búa í Mosó

svannimosfellingur

Svanþór Einarsson, eða Svanni eins og hann er ávallt kallaður, hefur starfað í sínum heimabæ nánast alla sína tíð og segir það mikil forréttindi. Hann byrjaði ungur í bókbandi hjá föður sínum en keypti síðan veitingastaðinn Pizzabæ þegar hann var á nítjánda ári.
Eftir að hafa selt sjóðheitar pizzur í ellefu ár breytti hann um gír og fór að selja bíla en færði sig svo yfir í fasteignabransann og stýrir í dag daglegum rekstri hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar.

Svanþór er fæddur í Reykjavík 20. september 1976. Foreldrar hans eru þau Halla Svanþórsdóttir starfsmaður í bókbandi og Einar Egilsson bókbindari. Svanþór á tvær systur, Svanhildi f. 1962 og Öglu Björk f. 1964.

Setti kettlinginn í húfuna
Svanþór flutti í Mosfellssveitina eins árs og bjó í Barrholtinu alla sína barnæsku í húsi sem foreldrar hans byggðu. „Sem barn var maður dekraður út í eitt því systur mínar voru 12 og 14 ára gamlar þegar ég fæddist svo það var vel hugsað um prinsinn á heimilinu,“ segir Svanni og skælbrosir.
„Þegar ég var pjakkur fór ég oft með pabba til að kaupa hey. Eitt skiptið gaf bóndinn á bænum mér kettling sem ég setti í húfuna mína. Pabbi komst ekki að því fyrr en við vorum komnir hálfa leiðina heim, ég fékk samt að eiga hann.“

Hentum verðmætum málverkum
„Það var frábært að alast hér upp, ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos og mér fannst mjög gaman í skólanum. Ég eignaðist fullt af vinum sem eru ennþá vinir mínir í dag og ég var heppinn að vera með sömu bekkjarfélögunum í 1.−10. bekk. Kristín Sigsteinsdóttir var uppáhaldskennarinn minn en hún kenndi mér bróðurpartinn af þessum árum.
Margt var nú sjálfsagt í sveitinni á þessum tíma sem tíðkast ekki í dag. Til dæmis byrjuðum við krakkarnir í hverfinu strax eftir jól að safna í brennu fyrir gamlárskvöld sem var haldin á fótboltavellinum á milli Berg- og Barrholts. Þarna notaði fólkið í hverfinu tækifærið til að henda út úr bílskúrunum hjá sér. Eitt skiptið vorum við pabbi aðeins of duglegir að taka til og hentum talsverðu magni af málverkum sem væru mjög verðmæt í dag.“

Það var alltaf gaman á vaktinni
„Eftir útskrift fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og fór svo að vinna í bókbandinu með pabba. Ég ákvað síðan að hefja nám í bókbandi en í miðju námi frétti ég að veitingastaðurinn Pizzabær í Mosó væri til sölu. Þetta hljómaði rosalega spennandi þar sem margir af mínum vinum voru að vinna þarna og líkaði vel. Ég ákvað að slá til, fann leið til þess að kaupa staðinn og rak hann í 11 ár eða til ársins 2007 en þá keypti Hrói höttur hann af mér.
Árin í pizzunum voru hrikalega skemmtileg og fjöldinn allur af Mosfellingum starfaði á staðnum. Þetta var í raun eins og félagsmiðstöð, viðskiptavinirnir að koma og fara og það var alltaf gaman á vaktinni, stutt í grín og gaman.“

Forréttindi að starfa í sínum heimabæ
„Eftir að ég hætti í pizzunum gerðist ég löggiltur bílasali og hóf störf hjá 100 bílum/Ísbandi hjá vini mínum Októ. Ég starfaði þar í eitt ár niður á Höfða eða þangað til að mér bauðst starf í Mosfellsbæ.
Ég hóf störf á Fasteignasölu Mosfellsbæjar 2008 og hef starfað þar í 11 ár. Fyrir þremur árum fór ég í nám til löggildingar fasteignasala. Ég verð nú að viðurkenna að ég var pínu stressaður að setjast aftur á skólabekk en allt gekk þetta eins og í sögu. Í dag stjórna ég daglegum rekstri fasteignasölunnar.“

Missir ekki af leik með Aftureldingu
Fyrir þremur árum kynntist Svanni Önnu Ragnheiði Jónsdóttur kennara frá Akureyri.
„Þetta eru búin að vera frábær þrjú ár hjá okkur Önnu og við höfum verið dugleg að ferðast erlendis. Þetta er engu að síður búið að vera pínu rask hjá okkur þar sem hún bjó fyrir norðan og við þurftum að ferðast mikið á milli en núna er Anna flutt til mín og er að fara kenna hér í Mosfellsbænum.“
Svanþór á einn son, Jason Daða f. 1999. „Við Jason minn höfum alla tíð verið mjög nánir og miklir vinir. Fótbolti er okkar aðaláhugamál og við eyðum miklum tíma saman í að horfa á hann. Við höfum farið saman á Old Trafford í Manchester og við fórum líka á EM í Frakklandi fyrir utan alla leikina sem við höfum farið á hér á landi.
Jason spilar knattspyrnu með Aftureldingu og ég missi ekki af leik með þeim.“

Hvíti Riddarinn og Fálkarnir
„Þann 14. ágúst 1998 komum við saman nokkrir vinir úr Mosó og stofnuðum knattspyrnuliðið Hvíta Riddarann. Ég er stoltur af því að vera í hópi stofnenda því liðið er enn til, 20 árum seinna.
Fyrir þremur árum stofnuðum við góðgerðafélag Hvíta Riddarans. Félagið hefur það að markmiði að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í bæjarfélaginu sem lent hafa í áföllum eða erfiðleikum. Allir geta rétt góðgerðafélaginu hjálparhönd í hvaða mynd sem er og þá er bara um að gera að hafa samband.
Ég hef gaman af því að vera í góðum félagsskap og er líka í góðra vina hópi sem heitir Fálkarnir. Við hittumst í líkamsrækt mjög reglulega og oft líka til þess að fá okkur bjór.
Ég er líka í þorrablótsnefnd Aftureldingar og finnst frábært að geta unnið góðgerðastarf fyrir félagið.“

Réði ekki við sig af kæti
Það fer ekki fram hjá neinum sem ræðir við Svanna að hann er stoltur Mosfellingur. „Já, það er best að búa í Mosó, það er bara þannig, hér búa yfir ellefu þúsund manns og bærinn er ört vaxandi. Ég held með Aftureldingu og öðrum íþróttafélögum í bænum, fyrirtækjunum og fólkinu.
Ég get sagt þér að þegar það kom í fréttum fyrir nokkuð mörgum árum að Mosfellingur hefði unnið stóran vinning í lottó þá varð ég svo glaður að ég réði ekki við mig,“ segir Svanni og brosir og bætir svo við: „Þótt ég hafi ekki haft hugmynd um hver hann er.“

Mosfellingurinn 13. júní 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

varmarskoliskyrla

Heildarúttekt EFLU á Varmárskóla lokið

varmarskoliskyrla

Verkfræðistofan EFLA hefur lokið vinnu við heildarúttekt á öllu húsnæði Varmárskóla en verkfræðistofan hefur á síðustu tveimur árum unnið þrjár úttektir fyrir Mosfellsbæ á rakaskemmdum.
Niðurstöður sýnatöku EFLU gefa til kynna að almennt sé ástand húsnæðis Varmárskóla gott og jafnvel betra en sambærilegur húsakostur af sama aldri. Ekki er þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans en úrbóta er þörf og að hluta til umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Lagt er til að unnið verði að því að fjarlægja á nokkrum afmörkuðum stöðum rakaskemmd byggingarefni innandyra samhliða endurbótum á ytra byrði yngri deildar sem boðnar voru út í vor. Framkvæmdir eru við það að hefjast.

Endurnýjun á elstu húshlutum
Áður en EFLA lauk við heildarúttektina lágu fyrir áform um endurbætur á elstu húshlutum Varmárskóla og hófust þær framkvæmdir við skólaslit Varmarskóla.
Endurnýja á hluta þakefna og glugga auk múrviðgerða og málunar. Innandyra þarf að fara í úrbætur sem Efla leggur til þar sem rakaskemmd byggingarefni verða fjarlægð, steinslípað, hreinsað og málað.
Miðað er við að verktakar með sértæka þekkingu á vinnubrögðum við viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði verði fengnir í verkefnið. Stærri aðgerðum á veðurkápu húsanna hefur verið áfangaskipt og forgangsraðað til næstu þriggja ára í samræmi við niðurstöður fyrirliggjandi úttekta.
Við þessa vinnu er mikilvægt að horfa til framtíðar varðandi endingu hins endurnýjaða húshluta og mæta kröfum byggingarreglugerðar í dag.

Ástand húsnæðis Varmárskóla sambærilegt eða betra en búast mátti við
Í heildarúttekt EFLU kemur fram að það er helst eldri hluti skólans sem þarfnast endurbóta. Ráðgjafar EFLU taka fram í niðurstöðum sínum að alltaf megi búast við að finna svæði með rakaskemmdum í eldra húsnæði en nú sé hins vegar þekking til staðar til að greina slík svæði og því hægara um vik að bregðast við áður en í óefni er komið.
Að mati EFLU hafa þær aðgerðir og endurbætur sem farið hafa fram síðustu tvö ár skilað Varmárskóla betri húsakosti. Enn eru þó nokkur viðfangsefni til staðar og heildarúttektin er góð leiðsögn um æskileg næstu skref.
Niðurstöður EFLU má bæði nýta til forgangsröðunar aðgerða og til leiðbeiningar um verklag við endurbæturnar. Lagt er til að forgangur verði settur í að bæta innivist og aðstöðu nemenda og starfsfólks.

Kynning heildarúttektarinnar
Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ voru helstu niðurstöður heildarúttektar EFLU kynntar fyrir skólastjórum Varmárskóla, starfsmönnum skólans og stjórnendum Mosfellsbæjar sl. föstudag.
Skýrsla EFLU verður kynnt í bæjarráði þann 13. júní og skólasamfélaginu í heild þann 19. júní kl. 18.00 á opnum fundi í Varmárskóla sem jafnframt verður streymt á YouTube rás Mosfellsbæjar.
„Mosfellsbær fagnar því að heildarúttekt EFLU staðfesti að ástand húsnæðis Varmárskóla er almennt gott og jafnvel betra en við mátti búast. Við sinnum okkar húsnæði af kostgæfni og fylgjum góðum ráðum EFLU um æskileg næstu skref.
EFLA hefur nú veitt okkur leiðbeiningar um áherslur næstu mánaða og Mosfellsbær mun bregðast við þessum niðurstöðum af festu og einurð og hér eftir sem hingað til tryggja nemendum og starfsmönnum heilsusamlegt starfsumhverfi,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Niðurstaðan skýr
„Við starfsmenn Varmárskóla fengum kynningu á niðurstöðum heildarúttektar EFLU síðasta föstudag og hlökkum til að vinna með þeim og umhverfissviði Mosfellsbæjar að endurbótum á húsnæði skólans nú í sumar. Niðurstaðan er skýr um að hvorki reyndist þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans og okkar verkefni er að bæta við þeim úrbótaverkefnum sem ekki eru á áætlun sumarsins. Ég vona eindregið að allir aðilar geti sammælst um þau mikilvægu verkefni,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.