Skólasamfélag barnanna okkar

Dagný Kristinsdóttir

Eitt það mikilvægasta í okkar lífi eru börnin okkar og þeirra velferð.
Við viljum öll að vegur þeirra verði sem greiðastur. Því miður er það nú ekki raunin hjá okkur flestum. Lífið færir okkur ýmis verkefni og áskoranir, í bland við góðu dagana. En þá skiptir máli hvernig við stígum inn í þau mál sem upp koma, hvernig við styðjum við barnið okkar og tölum máli þess, því við erum mikilvægustu bandamennirnir í lífi barnanna okkar.
Þegar eitthvað kemur upp á er eðlilegt að það hreyfi við okkur. Ég hef reynslu af því. Fyrir tæpum 10 árum síðan var ég erfiðasta foreldrið í skóla barnanna minna. Ástæðan var sú að eitt barnið mitt átti erfitt uppdráttar félagslega, það varð undir í félagslegum samskiptum og skólinn greip það heldur seint að mínu mati. Ég breyttist í manneskju sem ég vissi ekki að ég gæti orðið. Ég þorði ekki að segja suma hluti, sagði hluti sem mig langaði að segja og sagði hluti sem ég hefði betur látið ósagða.

En hvað lærði ég?
Ég lærði að það er allt í lagi að vera ósáttur og gera athugasemdir. En maður þarf að gera það á réttum stöðum. Samfélagsmiðlar og opinber umræða er ekki staðurinn. Allt sem við setjum á samfélagsmiðla verður þar um ókomin ár, áminning þess hvernig okkur leið á tilteknum tíma.
Ef við veljum þá leið að ræða persónuleg mál barna okkar á opinberum vettvangi þarf að vanda sig, því barnið kemur til með að lesa orð okkar þegar það fær aldur og þroska til. Við þurfum líka að vanda okkur hvernig við tölum um annarra manna börn. Við vitum ekki hver staða þeirra er. Ég hef lært að það er ástæða fyrir allri hegðun. Ég hef líka lært það að það vaknar enginn að morgni og ákveður að vera vondur við alla í dag. Aftur, fyrir allri hegðun er ástæða. Barnið getur verið svefnlaust, svangt, illt í maganum eða sálinni eða hvoru tveggja.
Ég lærði líka að ég sem foreldri er mikilvægur hlekkur í keðjunni. Ég þarf að anda djúpt, hlusta, meðtaka og vera tilbúin í samtalið. Ég stend ávallt með barninu mínu en þarf líka að vanda mig við að standa með þeirri lausn sem er verið að vinna með hverju sinni. Ég lærði líka að það er allt í lagi að fá hjálp, til dæmis með því að fá þriðja aðila að borðinu.
Einn mikilvægasti lærdómurinn af okkar máli var sá að allir starfsmenn skólans vildu allt fyrir mitt barn og okkur foreldrana gera. Við sáum það ekki endilega í auga stormsins en vitum af því í dag. Þið eigið ævarandi þakkir skilið. Þið vitið hver þið eruð.

Verum partur af lausninni
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar erum við foreldrarnir mikilvægustu bandamennirnir. Við verðum að vera hluti af samtalinu. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að vinna með mál barna okkar. Við þurfum að vera tilbúin að hlusta á mismunandi sjónarmið með opnum huga.
Við megum líka vera meðvituð um það að við erum ekki ráðin sem skemmtikraftar í foreldrahlutverkinu. Stundum er það okkar hlutverk að segja nei og veita leiðbeiningar, sem misvel er tekið í.

Dagný Kristinsdóttir
móðir og bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Við getum gert betur

Aldís Stefánsdóttir

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Til minnis -­ ekki gleyma að gefa af þér

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fátt hefur betri áhrif á okkar líðan og andlega og félagslega heilsu en að umgangast fjölskyldu og vini sem hafa góð áhrif á okkur. Fólk sem er styðjandi, hvetjandi, jákvætt og sýnir okkur skilning og hefur trú á okkur.
Það er merkilegt að á okkar tímum þegar tækifærin og tæknin er mikil að þá sé á sama tíma mjög mikil félagsleg einangrun. Oft er talað um að hún sé algengari hjá eldra fólki en það er svo sannarlega ekki einungis þar, heldur á öllum aldursstigum, og sorglegt að heyra að félagsleg einangrun sé að færast niður aldursstigann allt niður í ung börn. Þess vegna er mikilvægt að allir minni sig á það að huga vel að náunganum, hvetja aðra áfram, brosa og vera vingjarnlegur.

Samvera skiptir máli
Gefum okkur tíma til þess að eiga margar og góðar samverustundir og hafa það gaman saman. Í Mosfellsbæ erum við með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og nefni ég öflugt starf Aftureldingar, geggjaðan golfvöll og frábært starf þar, hestamannafélagið Hörð sem er til fyrirmyndar, frábært skátastarf og mjög öfluga björgunarsveit, Kyndil.
Já, bæjarfélagið okkar Mosfellsbær býður upp á mikið úrval af fjölbreyttri og skemmtilegri afþreyingu, svo sem sundlaugaferðir í góðu sundlaugarnar okkar, hér er fullt af góðum stikuðum gönguleiðum á fellin okkar og nágrenni.
Það eru hjólastígar sem og góðir samgöngustígar, skemmtilegir leikvellir og skólalóðir sem er verið að bæta í samvinnu við nemendur og starfsfólk. Það eru battavellir, körfuboltavellir, Stekkjarflötin góða og svo Ævintýragarðurinn með allan sinn sjarma. Í vetur var líka gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem voru mikið notaðar enda ekki leiðinlegt að hafa skíðabraut í bakgarðinum sínum.
Félag eldri borgara er líka með mjög fjölbreytt íþrótta- og tómsundastarf. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.

Það sem er alveg glænýtt og var að bætast við er fjallahjólabrautin sem kölluð er „Flækjan“. Hún var formlega opnuð á bæjarhátíðinni Í túninu heima og hefur heldur betur slegið í gegn. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ. Þessi skemmtilega tæknibraut er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum. Þessi vinna er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og stökkpallana smíðaði Sindri Hauksson en ungir iðkendur í hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Einnig var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.

Forvarnir, lýðheilsa og farsæld
Meirihlutinn í bæjarstjórn leggur afar mikla áherslu á hvers kyns forvarnir og lýðheilsu og teljum við að fjölbreytt afþreying í bænum okkar skili ánægju, gleði og enn betri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Samvera og góð samskipti eru lykillinn að farsæld auk þess sem bros og dillandi hlátur gerir svo mikið fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri manneskjan er. Gleðin skipar nefnilega óneitanlega stóran sess í vellíðan okkar.
Það er þó mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa samfélag sem byggir á góðum gildum og fallegum bæjarbrag. Látum gott af okkur leiða til barnanna okkar, fjölskyldu, nágranna og vina og búum saman til félagslega töfra.

Halla Karen Kristjánsdóttir,
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Ekki vera píslarvottur

Dögg Harðardóttir Fossberg

Þeir sem hafa verið í leiðtogastöðu eða stjórnunarstarfi um árabil vita að stundum koma erfið mál inn á borð leiðtogans sem honum ber að taka á.
Það getur verið erfitt að taka á málum og taka óvinsælar ákvarðanir en það er engu að síður eitt af því sem leiðtogi er ráðinn til. Leiðtogar verða að þola að það sé talað um þá og að það sé ekki alltaf talað vel um þá. Leiðtogar geta líka þurft að hlusta á gagnrýni, stundum óverðskuldaða eða reiðilestur starfsmanna sem illa liggur á.
Þegar leiðtoginn er vel upp lagður gengur oftast vel að tækla þannig mál. En þar sem leiðtoginn er manneskja þá getur hann verið illa sofinn eða illa fyrir kallaður af öðrum ástæðum og umburðarlyndið og þolinmæðin af skornum skammti. Stundum er auðvelt að leiða særandi hluti hjá sér og stundum ekki.
En það sem skiptir öllu máli er að leiðtoginn fari ekki í hlutverk píslarvotts. Þó svo að starfsfólk eða samferðafólk geti komið illa fram þá skilar það engum árangri að erfa hlutina fyrir lífstíð og rifja endalaust upp hvað aðrir gerðu manni. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að ákveða að leggja hlutina að baki sér og halda áfram. Stundum er sagt að það að fyrirgefa ekki sé eins og að drekka eitur og reikna með að einhver annar deyi. Eða að leyfa fólki að búa leigulaust í kollinum á sér.
Það þekkja það sennilega flestir hvernig hægt er að tala við sjálfan sig og rifja upp hversu illa hefur verið komið fram við mann, hversu rætið fólk getur verið og hversu bágt maður eigi. Þetta er mannlegt og kannski í lagi í örfáa daga ef það hjálpar, á meðan maður er að komast yfir óþægindin. En séu liðnir margir mánuðir eða ár frá óþægilegu atviki og leiðtoginn er fastur í því sem aðrir gerðu honum þá er skynsamlegt að taka meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera píslarvottur.
Það getur vel verið að fólk hafi komið illa fram við mann. Það getur vel verið að maður hafi verið særður og fengið óverðskuldaða eða verðskuldaða en óvægna og særandi gagnrýni en það er banvænt að hafa hugann endalaust við fortíðina. Taktu þér taki þegar þessar hugsanir skjóta upp kollinum og taktu ákvörðun um að láta þetta vera hluta af fortíðinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert, en hindrar þig ekki í að halda áfram.
Stundum er fólk að rifja upp löngu liðna, óþægilega atburði sem varða fólk sem það er löngu hætt að hitta og ávöxturinn er fyrst og fremst sorg og vanlíðan. Það er til fólk sem hefur aldrei fyrirgefið áratugagömul atvik og valið að vera píslarvottar allt lífið af því að einhver hafði einhvern tímann gert þeim eitthvað. Ekki vera þannig manneskja. Veldu að fyrirgefa. Veldu að vera ekki píslarvottur. Veldu að gera óþægilegu minningarnar að fortíð en ekki samferðamanni og haltu áfram með bros á vör!

Dögg Harðardóttir Fossberg
Markþjálfi hjá sigur.is

Af atvinnumálum í Mosó

Sævar Birgisson

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Að eiga bakland til að sækja börnin á leikskólann

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Nú er leikskólatími barna í Mosfellsbæ á föstudögum til kl. 14:00 nema fyrir þau sem nauðsynlega þurfa lengri vistunartíma, vinnu sinnar vegna. Þá er hægt að sækja sérstaklega um með átta daga fyrirvara að ná í börnin klukkan 16:00. Þetta hefur leitt til óánægju og óvæntra áskorana fyrir margar fjölskyldur.

Jafnréttisskekkja í barnvænu sveitarfélagi?
Óformleg könnun sýnir að konur sjá oftast um að sækja börnin fyrr á leikskóla. Launamunur kynjanna gerir það að verkum að konur taka frekar á sig þessa ábyrgð með tilheyrandi áhrifum á þeirra starfsframa.
Þetta fyrirkomulag setur óþarfa pressu á mæður, sem eru þegar undir miklu álagi í að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þá má benda á að Mosfellsbær er staðsettur á jaðri höfuðborgarsvæðisins og langflestir sækja vinnu utan bæjarfélagsins.
Stytting leikskóla hefur því ekki aðeins áhrif á daglegt líf fjölskyldna heldur ýtir einnig undir ójafnrétti kynjanna, þar sem konur þurfa nú enn frekar að velja á milli vinnu og fjölskyldulífs. Væri það ekki eðlilegra að Mosfellsbær myndi styðja við fjölskyldur í stað þess að skapa ný vandamál?

Óskýr grein og hentugar niðurstöður ­formanns fræðslunefndar
Formaður fræðslunefndar fullyrti að 70% foreldra þurfi ekki lengri vistunartíma en til kl. 14:00. Þetta kemur á óvart þar sem ótal margir foreldrar í kringum mig hafa lýst yfir erfiðleikum við að sækja börnin svona snemma. Þessi fullyrðing virðist ekki endurspegla raunveruleikann sem margir foreldrar upplifa, þar sem þau hafa leitað til ömmu og afa, tekið vinnuna með sér heim eða jafnvel unnið á laugardögum til að mæta kröfunni. Einhverjir héldu því fram að með því að „framlengja“ vistunartímann til kl. 16:00 á föstudögum færu þessir tveir tímar af þeim átta skráningardögum sem foreldrar hafa til umráða. Ég leyfi mér líka að opna á það hvaða áhrif þetta getur haft á börnin sem eiga erfitt með breytingar og þurfa skýran ramma.

Steininn tók svo úr þegar móðir í fæðingarorlofi var spurð hvers vegna hún þyrfti að sækja barnið sitt kl. 16:00 ef hún væri hvort eð er bara heima. Þarna birtist sú undarlega afstaða að lengd vistunar á leikskóla eigi að ráðast af vinnu foreldra en ekki þörfum fjölskyldunnar. Þá hefur orðalag leikskólastjóra verið undarlegt og jafnvel ýtt undir samviskubit hjá foreldrum. Orðalagið ,,en þetta er eftir sem áður eingöngu fyrir þá sem hafa enga aðra kosti en að skrá barn í lengri viðveru“ gefur í skyn að þegar öllu er á botninn hvolft, þurfi enginn á þessari framlengingu að halda nema viðkomandi sé að vinna á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta verður að þykja ósanngjarnt þar sem atvinnulífið og einkarekstur hafa ekki öll innleitt styttingu vinnuvikunnar. Ég tel einnig að foreldrar væru til í að nýta baklandið sitt í eitthvað annað en að dekka föstudaga og fá frekar pössun þegar eitthvað sérstakt tilefni gefst eða þegar virkilega er þörf á.
Ef þetta er spurning um styttingu vinnuvikunnar vil ég ítreka að styttingin þarf að taka tillit til starfsemi stofnunarinnar, má ekki hafa aukinn kostnað í för með sér og ekki skerða þjónustu. Þá má geta þess að þeir sem eru með styttingu vinnuvikunnar í sínum kjarasamningum eru ekki alltaf með styttingu á föstudögum, heldur getur það einnig verið breytilegt.

Lausnir og framtíðarhorfur
Lausnin gæti verið einföld. Þeir sem ekki þurfa lengri vistun skrái börnin sín þannig yfir önnina. Við hin, sem þurfum að skila af okkur fullum vinnudegi, fáum að klára vinnuna en ekki anda í bréfpoka á leiðinni upp Ártúnsbrekkuna korteri eftir hádegismat að reyna finna út hvenær við vinnum þessa tíma upp. Með þessu móti er tekið tillit til allra foreldra, óháð vinnuaðstæðum og jafnrétti innan sveitarfélagsins þannig tryggt.
Ef Mosfellsbær vill kalla sig barnvænt sveitarfélag þarf að hugsa um heildarmyndina og ekki aðeins velja lausnir sem henta fræðsluyfirvöldum og leikskólastjórnendum. Foreldrar eru mikilvægur hlekkur í þessari ákvarðanatöku og það er ekki bara sanngjarnt heldur einnig nauðsynlegt að þeir séu hafðir með í ráðum þegar breytingar á þjónustu barna þeirra eiga sér stað.
Það má líka benda á, að þau sem sitja í bæjarráði, eiga ekki börn á leikskólaaldri og þurfa því ekki að aðlaga sig og sína fjölskyldu að þessari skerðingu.

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Seljadalur

Guðjón Jensson

Einn af fegurstu og sérstæðustu dölum innan marka Mosfellsbæjar er Seljadalur.
Þessi skjólsæli og vel gróni dalur er við vesturmörk Mosfellsheiðar, sunnan og austan við Grímannsfell sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar. Fremur fátítt er að þar sé fólk á ferð utan hestafólk sem ríður elstu leiðina í átt til Þingvalla.
Þetta var leið þriggja konunga en Kristján IX fór þarna um 1874, Friðrik VIII 1907 og Kristján X 1921.

Jón á Reykjum segir svo í mjög fróðlegri lýsingu sinni af Seljadal sem birtist í Mosfellspóstinum 19.6.1981:
„Seljadalurinn er allur eða að mestu í eigu hreppsins, en er upphaflega úr jörðunum Þormóðsdal og Miðdal. Náttúrufegurð er mikil í dalnum enda skýlt úr öllum áttum nema ef til vill að norðaustan.“
Heimild: https://timarit.is/files/66988132

Örnefnið Seljadalur vísar til að í honum hafi verið tvö sel, kannski fleiri. Í dag er einungis eitt þekkt, Nessel vestarlega í dalnum undir Grímannsfelli. Mun það fremur vera kennt við Gufunes en Nes á Seltjarnarnesi.
Má enn í dag sjá vel varðveittar rústirnar og hvernig húsaskipan var, mjög hefðbundin. Í næsta nágrenni rennur lækur en aðgengi að góðu vatni var ein af mikilvægustu forsendum seljabúskaparins enda hreinlæti mjög mikilvægt.
En hvar var hitt selið?
Viðeyjarklaustur var auðugasta klaustur á Íslandi á miðöldum. Til þess var stofnað af helstu höfðingjum landsins, sjálfum Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Klaustrið var vígt 1226 af Magnúsi biskup í Skálholti, bróður Þorvaldar. Lagði hann til klaustursins biskupstíund (osttolla) milli Botnsár í Hvalfirði og Hafnarfjarðar. Auk þess átti það reka víða um Reykjanes. Klaustrið var rænt tvívegis; 1539 og 1550.

Magnús Guðmundarson sem var prestur á Þingvelli gaf Viðeyjarklaustri selför í Þormóðsdal hinum efri segir í máldaga (eignaskrá) Viðeyjarklausturs frá 1234, heimild: Fornbréfasafn Íslands, fyrsta bindi bls. 507. Nafnið bendir til að örnefnið Seljadalur kemur síðar við sögu eftir að selin hafa verið tvö. Seljadalur er mjög grösugur og skjólsæll og Seljalandsbrúnirnar veita búsmala gott aðhald.
Landbúnaðarsamfélagið fyrrum byggðist á því að unnt væri að hafa seljabúskap yfir hásumarið þannig að afla mætti nægra heyja af heimatúnum og koma búfénu frá. Þannig hefur klausturfólk átt gott samstarf við Gufunesinga við að koma búsmalanum stystu leið upp með Úlfarsá og upp í Seljadal. Þessi leið hefur þann ótvíræða kost að vera fremur stutt og greiðfær enda engar erfiðar torfærur á leiðinni.

Með siðaskiptunum verða gríðarlegar breytingar á búskaparháttum landsmanna. Danski kóngurinn leggur undir sig allar eignir klaustra, kirkna og biskupsstóla og er á einu ári orðinn eigandi 20% allra jarða á Íslandi.
Fyrrum voru jarðirnar leigðar með þeim skilmálum að leiguliðar afhentu klaustrinu tiltekinn hluta af afurðum jarðarinnar, oft 5-10%. Eftir siðaskipti voru þær leigðar með öðrum skilmálum sem einkum var falið í vinnuframlagi í þágu Bessastaðavaldsins. Margir leiguliðar urðu að sjá um að senda vinnumenn sína í verið til að róa á kóngsbátunum og til veiða í Elliðaánum, en fyrirferðarmesta kvöðin hefur verið að vinna viðarkol í Þingvallaskógi og afhenda tiltekið magn á Bessastaði á tilteknum tíma. Þetta hefur væntanlega verið ein þyngsta kvöðin enda verða viðarkol ekki unnin nema um hásumarið þegar mest er um að vera í heyönnum.
Allt þetta breytti öllum búskaparháttum meira og minna. Nautgriparækt dregst verulega saman, enda þörfin fyrir framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum minni, en sauðfjárbúskapur eykst að sama skapi. Unnt var að sleppa sauðfé í haga eftir sauðburð og ekki þurfti eins mikla fyrirhöfn við að mjólka kýr og sinna tímafrekum bústörfum.

Mér þykir mjög líklegt að Viðeyjarsel hafi verið þar sem nú er Kambsrétt. Hún var skilarétt Mosfellinga og nærsveitarmanna væntanlega fljótlega upp úr siðaskiptum og fram yfir miðja 19. öld. Þá var Árnakróksrétt austan Selvatns tekin í notkun, mjög stór og stæðileg.
Umhverfi hennar er votlendi og þótti auk þess vera nokkuð úr leið einkum fyrir þá Mosfellinga sem í Mosfellsdal bjuggu. Varð það til þess að Hafravatnsrétt var tekin í notkun 1901 og er líklega einna frægust rétta í Mosfellsbæ.

Sögufélag Kjalarnesþings fyrirhugar gönguferð um Seljadal laugardaginn 7. september næstkomandi ef veður leyfir.

Guðjón Jensson

Reykjalaug fundin

Leitað að Reykjalaug með jarðsjá á veginum milli Suður-Reykja og Reykjahvols. Ármann Höskuldsson jarðfræðingur og rannsóknaprófessor, Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands og Diana Brum D Silveira G Alvarez doktorsnemi í jarðfræði við Háskóla Íslands.

Reykjalaug eins og listakonan Hanna Bjartmars Arnardóttir sá hana fyrir sér. Laugin þornaði þegar jarðboranir hófust á fjórða áratug 20. aldar.

Í tengslum við lagningu gangstígs upp Reykjaveg að Suður-Reykjum var ákveðið að reyna að staðsetja Reykjalaug sem lenti undir vegi um 1940.
Mosfellsbær óskaði eftir aðstoð Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Minjastofnunar Íslands við að finna hina sögufrægu Reykjalaug með jarðsjá. Af hundruðum lauga og hvera sem voru eitt sinn í Mosfellssveit var hún þeirra þekktust. Í öllum helstu ferðabókum frá 18. öld og fram á okkar daga var minnst á Reykjalaug.
Á korti frá 1771 sem fylgir Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er getið þriggja örnefna í Mosfellssveit; Gufuness, Reykjalaugar og Mosfells. Þorvaldur Thoroddsen getur þess í riti sínu Lýsing Íslands að á suðvesturlandi fyrir sunnan Esju séu kunnastar laugar hjá Reykjum í Mosfellssveit og Laugarneslaug sem Reykvíkingar noti til þvotta. Þarna er laugunum í Reykjahverfi og Reykjalaug í raun jafnað við þvottalaugarnar í Laugarnesi.
Síðar kom í ljós mun meiri orka í Reykjahverfi en við Þvottalaugarnar. Laugin var hlaðin úr grjóti um 3,5 metrar í þvermál og dýpst um 2,5 metrar, en vatnshæð um einn metri. Oddný Helgadóttir húsfreyja á Ökrum (f. 1913) sagði að leirtau og lín hefði verið þvegið í lauginni en ekki annar fatnaður. Heitt vatn var leitt úr Reykjalaug í fjósið á Reykjahvoli.
Þessi má geta að árið 1908 var bærinn á Suður-Reykjum fyrsta íbúðarhús á Íslandi sem hitað var upp með rennandi hveravatni. Vatnið kom úr sk. Tunnuhver sem stóð í mynni Skammadals.
Fyrsta gróðurhúsið á Íslandi var einnig sett upp á Suður-Reykjum á árunum 1923-1924. Á fjórða áratugnum var farið að bora eftir heitu vatni á Reykjum, sem svo var flutt í leiðslum til Reykjavíkur. Við það hurfu flestar laugar og hverir af yfirborðinu í Reykjahverfi. Mokað var ofan í hina frægu Reykjalaug og vegur lagður yfir.
Hinn 11. mars sl. mættu Ármann Hösk­ulds­son jarðfræðingur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands og Diana Alvarez doktorsnemi í jarðfræði til að leita Reykjalaugar með jarðsjá. Með hinni öflugu jarðsjá mátti greinilega sjá manngerðar hleðslur – Reykjalaug var á sínum stað undir veginum.
Fróðlegt og skemmtilegt væri að Mosfellsbær með stuðningi Orkuveitunnar og landeigenda léti grafa upp hina frægu Reykjalaug í tengslum við lagningu gangbrautar upp að Suður-Reykjum.
Þannig væri hinu sögulega og merka náttúruundri komið til nútímans, en með virkjun jarðhitans á Reykjum hefur heita vatnið skilað landsmönnum milljörðum króna í formi varmaorku. Rétt er að minna Mosfellinga og landsmenn alla á uppruna hinna miklu auðæfa og ekki grafa þau í jörðu.

Magnús Guðmundsson
Formaður Sögufélagi Kjalarnesþings

Farsæl efri ár

Guðleif Birna Leifsdóttir

Íslensk stjórnvöld hafa nýlega sett fram aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem ber nafnið „Gott að eldast“ sem byggir á nýrri hugsun við ört stækkandi hóp í samfélaginu.
Í þeirri áætlun er leitast eftir að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk, tryggja þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og fjölga þeim sem taka virkan þátt í samfélaginu. Lögð er áhersla á heilbrigða öldrun með andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsueflingu. Sérleg áhersla er á að auka félagslega virkni og draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika eldra fólks.
Félagsleg einangrun einstaklinga er vaxandi vandamál á heimsvísu. WHO Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur vakið athygli á alvarleika málsins og metur félagslega einangrun sem ógn við lýðheilsu á pari við reykingar, ofneyslu áfengis og hreyfingarleysi. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru einnig tengd kvíða, þunglyndi, sjálfsvígum og heilabilun og geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og heilablóðfalli.
Á sex svæðum á landinu hafa verið ráðnir tengiráðgjafar, sem hafa m.a. það hlutverk að hafa yfirsýn yfir bjargir í nærsamfélaginu, auka félagsleg samskipti einstaklinga og hópa í viðkvæmri stöðu, vinna að betri tengingu á milli þjónustuaðila og auka samtal milli félagsþjónustu, heilsugæslu, félagasamtaka, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka og fleiri aðila.
Hugmyndin er að virkja nærumhverfið og taka betur utan um fólk sem er félagslega einangrað eða einmana. Hlutverk tengiráðgjafa er þannig að stíga inn í og finna lausnir sem henta hverjum og einum.
Það er mikilvægt að draga úr félagslegri einangrun sem hefur áhrif bæði á einstaklinga og samfélagið. Aukin félagleg tengsl efla bæði andlega og líkamlega heilsu, auka lífsgæði, vellíðan og bæta samfélagið.
Undirrituð er tengiráðgjafi fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós og starfar á velferðarsviði Mosfellsbæjar. Velkomið er að hafa samband við mig varðandi ráðgjöf og upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.

Guðleif Birna Leifsdóttir
Tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar
gudleifl@mos.is
s. 525-6700

Hvernig viljum við þroskast sem samfélag?

Dagný Kristinsdóttir

Mosfellsbær varð formlega að kaupstað 9. ágúst 1987 og fagnaði því 35 ára kaupstaðarafmæli á liðnu ári. Á liðnum áratug eða svo hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað mikið. Það kemur okkur ekki á óvart – því það er gott að búa í Mosó.
Nú þegar íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað þurfum við sem samfélag að velta því fyrir okkur, hvernig viljum við halda áfram og hvernig viljum við þroskast? Hvað viljum við sjá í okkar samfélagi eða erum við bara sátt við það eins og það er?
Myndum við ekki vilja að fleiri legðu leið sína í okkar fallega bæ til að skoða, njóta og staldra við?
Hvað eru aðrir að gera?
Ástæður þessara vangaveltna og þessarar greinar eru þær að um liðna helgi lagði ég leið mína í Hafnarfjörð og þar streymdi fólkið að. Fólk var annars vegar að sækja tónleika Hunds í óskilum og hins vegar bæjar- og tónlistarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar, en sú hátíð er haldin vikulega yfir hásumarið. Fyrr í sumar var haldin hin árlega Víkingahátíð sem fjölmargir sóttu og að auki er boðið upp á menningar- og heilsugöngur, alla miðvikudaga, sem eru unnar í samstarfi nokkurra stofnana bæjarins. Svo einhverjir viðburðir séu nefndir. Þessir viðburðir eru ekki allir skipulagðir af bænum – en þeir eiga það sameiginlegt að fólk er að leggjast á eitt um að bjóða upp á margvíslega, skemmtilega dagskrá sem fær fólk til að koma í bæinn og kynnast því sem boðið er upp á. Eftir sitja heimsóknir og tekjur sem liggja hjá fyrirtækjum í bænum.
Hvernig væri að við hugsuðum þetta fyrir komandi ár?
Við höfum upp á svo margt að bjóða. Við gætum boðið upp á skipulagðar göngur á fellin, jafnvel einn eða tvo daga þar sem öll fellin væru tekin í einu eða tvennu lagi. Við gætum líka boðið upp á hjólaferðir, söguferð um Álafosskvos, göngutúr um Reykjahverfið og fræðst um hernámið. Við gætum fengið tónlistarfólk bæjarins til að halda tónleika t.d. í Lágafellskirkju, á túninu við Hlégarð eða á Miðbæjartorginu. Við gætum verið með útileikföng á Miðbæjartorginu. Einnig væri hægt að vera með ratleik sem gengi í gegnum bæinn. Markaðurinn í Mosskógum hefur dregið marga að og nú er lag að einhver taki við boltanum þar.
Margt af þessu er gert á Menningu í mars eða á bæjarhátíðinni en við viljum fá fleiri í bæinn en þá einu helgi. Með markvissu skipulagi og vinnu allra aðila værum við að koma bænum á kortið sem áfangastað, ekki bara svefnbæ sem maður keyrir í gegnum. Af þessari vinnu leiðir að fleiri staldri við, sem þýðir að meiri þjónustu er hægt að bjóða upp á í bænum.
Við höfum upp á svo margt að bjóða í okkar umhverfi sem væri gaman að sýna öðrum og myndi lífga upp á sumarlífið okkar.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.
Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal
Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Sævar Birgisson

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.
Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.
Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman
Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.
Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

„Allir þurfa eina skóla­hljómsveit í sitt líf“

Hulda Björk Finnsdóttir

Hér er vitnað í orð vinkonu minnar, en börnin hennar spiluðu með skólahljómsveit í öðru sveitarfélagi til margra ára.
Ég tek heilshugar undir hennar orð þar sem Skólahljómsveit Mosfellsbæjar eða Skómos, hefur verið einn af ánægjulegu föstum punktum okkar fjölskyldu síðustu 14 árin hér í bæjarfélaginu.
Þegar hljómsveitarmeðlimir voru beðnir um að lýsa Skómos var svarið eftirfarandi. Í Skómos lærist að þjálfa tóneyrað, öðlast nýja færni og þar með nýtt tungumál. Fólk fær æfingu í að gera margt í einu eins og að horfa á stjórnandann, að lesa úr nótum og hlusta á aðra í kringum sig á sama tíma. Bjarga sér út úr feilnótum, mæta reglulega á æfingar og þar með fá þjálfun í úthaldi, þolinmæði og einbeitingu. Mikilvægt er að tilheyra hópi sem skapar og er með færni í að búa til eitthvað saman. Síðast en ekki síst þá eignast fólk vini í Skómos. Einnig stendur hátt upp úr þátttaka í fjölda landsmóta víðsvegar um landið, næturgistingar í skólanum, tónleikar í Hörpu, spilamennska í Mosó á sumardaginn fyrsta og á 17. júní, á útskriftum framhaldsskóla og svo mætti lengi telja. Ekki má gleyma tónleikaferðum erlendis, en hljómsveitin er einmitt að leggja land undir fót nú í júnímánuði til Danmerkur.
Áhugi, metnaður og óeigingjarnt starf stjórnenda og kennara Skómos skín ávallt í gegnum starfið ásamt hlýju viðmóti og mikilli gleði. Við erum þakklát fyrir samfylgdina síðustu árin og hvetjum öll börn og ungmenni í Mosfellsbæ sem hafa áhuga á tónlist og að tilheyra skapandi og skemmtilegum hópi, að taka þátt í Skómos um ókomna framtíð.

Skómos – til hamingju með 60 ára afmælið.

Hulda Björk Finnsdóttir

Uppbygging á Varmársvæði

Erla Edvardsdóttir

Okkar kæra Varmársvæði hefur þjónað bæjarbúum og fleirum einstaklega vel í gegnum árin, flestir íbúar nýta sér þá frábæru aðstöðu sem þar er að finna á einn eða annan hátt.
Svæðið er sannarlega mikilvæg lífæð okkar samfélags. Íbúum er stöðugt að fjölga og iðkendum sem stunda íþróttir að Varmá einnig, það kallar því á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu svo aðstaðan geti staðist nútíma kröfur.

Nýr aðalvöllur
Framkvæmdirnar á aðalvellinum að Varmá hafa eflaust ekki farið framhjá neinum, enda stórar vélar þar að störfum. Unnið er hörðum höndum að því að skipta um jarðveg á hinum sögufræga aðalvelli, í framhaldinu þarf að fergja áður en hægt verður að hefjast handa við að leggja á nýtt gervigras á knattspyrnuvöllinn.
Í næstu áföngum þar á eftir mun svo nýr frjálsíþróttavöllur líta dagsins ljós, við hlið knattspyrnuvallarins, með 200 metra hlaupabraut sem mun geta nýst öllum

Sævar Birgisson

bæjarbúum vel. Að auki verður jarðvegurinn undir framtíðar stúkubyggingu undirbúinn. Það er því verið að taka stór skref í átt að enn betri aðalvelli að Varmá.

Sparkvöllur við Varmárskóla
Á skólalóðinni við Varmárskóla er fyrsti hluti endurbóta á skólalóðinni hafinn sem felur í sér að koma upp nýjum upphituðum sparkvelli ásamt stálrimlagirðingu umhverfis völlinn, hellulögn og ljósastaurum.
Kallað var eftir hugmyndum frá nemendum Varmárskóla þegar hugmyndavinna við nýja skólalóð hófst og voru flestir sem óskuðu eftir sparkvelli.

Hjólabraut í Ævintýragarðinum
Í Ævintýragarðinum eru framkvæmdir hafnar við nýja fjallahjólabraut sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin í júní. Brautin verður mikil lyftistöng fyrir hjólreiðafólk og kærkomin viðbót. Þá verður farið í að uppfæra frisbígolfvöllinn í sumar, færa til nokkrar brautir og leggja heilsárspalla.

Núverandi meirihluti hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samráð með hagsmunaaðilum við uppbyggingu á Varmársvæðinu, það er mikilvægt að vandað sé til verka og verkefnið unnið faglega, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Til að styðja við næstu skref sem þarf að taka við uppbyggingu Varmársvæðis var unnin skýrsla um þarfagreiningu þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá. Mun hún hjálpa til við að ná enn betur utan um framtíðarsýn fyrir svæðið og þá uppbyggingu mannvirkja sem framundan er.
Það eru því mörg spennandi verkefni í gangi og á döfinni á Varmársvæðinu sem munu vafalítið efla íþróttastarf í Mosfellsbæ enn frekar.

Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar
Sævar Birgisson varaformaður íþrótta- og tómstundanefndar

Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023

Ásgeir Sveinsson

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 liggur nú fyrir og sitt sýnist hverjum um niðurstöðuna.

Niðurstaða rekstrarreiknings A-hluta Mosfellsbæjar er jákvæð sem nemur tæpum 230 milljónum, rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var árið 2023 tæpar 341 milljónir, sem er þó lakari útkoma en áætlað var og er það þrátt fyrir umtalsvert hærri tekjur en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu.

 

Ástæða jákvæðrar rekstrarniðurstöðu

Ekki er hægt að segja að reksturinn sé sjálfbær þar sem jákvæða rekstrarniðurstaðan er að mestu vegna hækkunar skatta, gjalda og álaga á íbúa en mestu munar þó um einskiptistekjur af sölu byggingarréttar og leiðréttingar á tekjum frá Jöfnunarsjóði m.a. vegna skólamála.

Hagnaður ársins af A-hluta er nær sá sami og hækkun fasteignaskatta á íbúa bæjarins eða um 250 milljónir. Hér er um að ræða hækkanir á fasteignaeigendur og fyrirtæki, það er ekki er um að ræða fjölgun íbúa í bænum heldur hækkanir á fasteignagjöldum.

Jana Katrín Knútsdóttir

Þetta er áhugavert þar sem fram kemur í málefnasamningi meirihlutans að ætlunin sé að lækka fasteignaskatta til að koma til móts við hækkun á fasteignamati.

Tekjur, gjöld og framkvæmdir
Framlag Jöfunarsjóðs hefur aukist síðustu árin, útsvarstekjur hækkuðu á milli áranna 2022 og 2023 um 1,2 milljarð, fasteignskattur um 250 milljónir, framlag Jöfunarsjóðs um rúmar 700 milljónir og aðrar tekjur um 1 milljarð. Er hér m.a. um að ræða hækkun tekna vegna hækkunar útsvarsprósentu og hækkunar á gjaldskrá.
Launakostnaður hækkaði um 1,3 milljarð á milli áranna 2022 og 2023 og er hluti hækkunarinnar vegna stöðugilda sem fylgja Skálatúni og kjarasamningshækkana eða um 1.1 milljarður.  Annar rekstarkostnaður hækkar um 500 milljónir milli áranna.
Áætluð útgjöld vegna varanlegra fastafjármuna voru áætluð 2,1 milljarður en á árinu fóru 1,8 milljarð í framkvæmdir og þar af 158 milljónir umfram áætlaðan kostnað í Kvíslarskóla. Hluti af öðrum áætluðum framkvæmdum var frestað á árinu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rekstrarniðurstaða félagslegra íbúða var neikvæð um 41 milljón á árinu en var jákvæð árið 2022 um 4,6 milljónir. Þá var rekstrarniðurstaða Hlégarðs neikvæð um 4,3 milljónir.

Það sem stendur upp úr í ársreikningnum er m.a. að:
• skattar og álögur á íbúa hafa stórhækkað annað árið í röð
• skuldir aukast milli ára um tvo milljarða
• kostnaður við rekstur bæjarins eykst milli ára um 20%
• launakostnaður jókst um 21% milli ára á meðan launvísitalan hækkaði um 7%
• stöðugildum fjölgar mikið
• tekjur eru mun hærri en áætlun gerði ráð fyrir

Helga Jóhannesdóttir

Rekstrarhorfur næstu ára 

Miðað við að vextir og verðbólga virðast ætla að lækka hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir, er ljóst að fara þarf í hagræðingar og lækkun á útgjöldum. Það veldur því áhyggjum að í áætlun næsta árs má sjá áframhaldandi innleiðingu á nýju skipuriti með fjölgun stöðugilda.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram og traustur rekstur undanfarinna ára og sterk fjárhagsstaða eiga að gera sveitarfélaginu kleift að veita íbúum áfram framúrskarandi þjónustu sem stöðugt hefur verið að aukast og mun vonandi gera áfram.
Það jákvæða í rekstrarhorfum bæjarins er þó að í fyrsta sinn í mjög mörg ár er Mosfellsbær eigandi að landi sem var úthlutað lóðum á síðasta ári og verður úthlutað áfram á næstu 2-3 árum og mun það tryggja hundruð milljóna í tekjur á hverju ári fyrir sveitarfélagið.
Við bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munum áfram styðja góðar tillögur og hvetja meirihlutann áfram til góðra verka. Við munum einnig  halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri svo áfram verði best að búa í Mosó.
Bæjarfulltrúar D-lista Mosfellsbæ,
Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir

Leiruvogurinn okkar

Úrsúla Jünemann

Ein af helstu gönguleiðum mínum í okkar fallega útivistarbæ er meðfram Leiruvoginum. Í dag, á síðasta degi í apríl í fallegu veðri varð stórkostleg uppákoma: Margæsir hundruðum saman flugu inn voginn með tilheyrandi kvaki og látum.
Þessir fuglar eru alltaf á vorin og haustin gestir hjá okkur, næra sig hér í leirunum í stuttan tíma áður en þeir fljúga áfram á sínni löngu leið frá kanadískum íshafseyjum til vetrardvalar á Írlandi. Án þess að stoppa hér á þessari „bensínstöð“ gætu þær ekki komist þetta. Leirur eins og margæsin þarf eru einungis á Vesturlandi og frekar sjaldgæfar á landsvísu.
Við þurfum að standa vörð um Leiruvoginn okkar. Þetta er bæði útivistarparadís sem margir nota og njóta og með bestu fuglaskoðunarstöðum á landinu. Áformin um Sundabrautina þarf að hugsa vel og vandlega.
Brú með fyllingum mun hefta út- og innstreymi sjávar í voginn þannig að jarðefni mun smám saman safnast fyrir og vogurinn mun grynnast. Lífríkið mun verða fyrir talsverðum breytingum og áhrif á fuglalífið gæti orðið mikið.
Nú munu margir hugsa þannig að fuglarnir komi þeim ekki við, þeir vilja koma stystu og fljótustu leið sína á bíl. En þetta er ekki svona einfalt. Ef við höfum neikvæð áhrif á vistkerfi og jafnvel skemmum þau, þá kemur þetta á endanum okkur sjálfum í koll. Öll vistkerfin eru samspil af mörgum þáttum sem við menn áttum okkur oft ekki á.
Við sem notum gönguleiðir um Leiruvoginn okkar til heilsubóta og ánægju værum örugglega ekki kát að fá umferðaniðinn sem myndi stafa af hábrú þegar við viljum njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar.
Sundabrautina þarf að hanna með þetta í huga þó að það kosti meira. Við Mosfellingar eigum ekki að sætta okkur við ódýrustu leiðina sem gæti skemmt okkar útivistarparadís sem Leiruvogurinn er.

Úrsúla Jünemann