Að eldast með reisn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Við Vinstri græn leggjum ríka áherslu á öflugt velferðarkerfi sem grípur og sinnir öllum aldurshópum. Eldra fólk á rétt á góðri þjónustu sem og að því sé mætt af virðingu og skilningi.
Í ríkisstjórnartíð Vinstri grænna hófum við umbætur í þjónustu við eldra fólk. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði.

Það á að vera gott að eldast
Aðgerðaáætlunin „Gott að eldast“ er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem ég fékk samþykkta á Alþingi. Hún felur í sér grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að veita betri og heildstæðari þjónustu, gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér, efla dagdvalir og endurhæfingu og draga úr þörf á hjúkrunarrýmum. Þessi vinna er hafin með þróunarverkefnum víða um land.

Bætum kjör þeirra sem minnst hafa
Annað forgangsverkefni er að hækka framfærslu þeirra í hópi eldra fólks sem minnstar tekjur hafa. Við tökum skref í þá átt í fjárlögum næsta árs að mínu frumkvæði, þar sem almennt frítekjumark ellilífeyris verður hækkað.
Þessu þarf að fylgja eftir með frekari kjarabótum á næsta kjörtímabili. Markmiðið á að vera að ellilífeyrir þeirra sem engar aðrar tekjur hafa sé aldrei lægri en lágmarkslaun.

Aukum samskipti kynslóða
Ég hef einnig talað fyrir því að efla tengsl milli kynslóða, þar sem hin yngstu í samfélaginu geta lært af reynslu og visku þeirra eldri.
Sjálfur naut ég þeirrar gæfu í æsku að umgangast ömmu mína á hverjum degi. Þessi samskipti eru ómetanleg, þar sem þau flytja menningu og þekkingu á milli kynslóða og skapa dýrmætan félagsskap.

Verjum velferðina
Varðstaða um velferðarkerfin og grunninnviðina eru hluti af hjartslætti okkar Vinstri grænna. Saman getum við séð til þess að Ísland verði samfélag sem tryggir heilbrigða öldrun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Varaformaður VG og skipar 1. sæti VG í Suðvesturkjördæmi

Menning í aðdraganda jóla

Hrafnhildur Gísladóttir

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir,
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar

Nýtt upphaf með Samfylkingunni

Þórunn Sveinbjarnardóttir

Við kjósum til Alþingis á laugardaginn 30. nóvember. Kosningar, sem boðað var til þegar stjórnarflokkarnir þrír sprungu endanlega á limminu eftir sjö ár af brokkgengu samstarfi.
Á laugardaginn gefst kjósendum langþráð tækifæri til að stokka upp í stjórnmálunum. Það skiptir máli fyrir framtíð Íslands að nýta það vel.

Undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur Samfylkingin kynnt þrjú veigamikil útspil í kosningabaráttunni. Þar eru stefnumál og markmið sem við höfum sett okkur í þéttu samráði við fólkið í landinu.
Við lofum ekki töfralausnum og erum alveg hreinskilin með að við þurfum tvö kjörtímabil til að marka Íslandi nýja og betri framtíð. Þá framtíð þarf að marka í ríkisstjórn sem Samfylkingin leiðir.

Örugg skref
Samfylkingin ætlar að setja heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra í hæsta forgang með því að taka örugg skref að betra og öruggara aðgengi að heilbrigðiskerfinu og vinna upp halann sem myndast hefur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það hefur reynst kostnaðarsöm vanræksla.
Hver einasti íbúi hér á landi þarf að fá fastan heimilislækni. Það eitt eykur öryggi og lækkar kostnað í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur aðeins helmingur landsmanna

Alma D. Möller

aðgang að föstum heimilislækni. Þetta viljum við laga á tveim kjörtímabilum.

Krafa um árangur
Samfylkingin gerir kröfu um árangur í samgöngu- og atvinnumálum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um innviðskuldina sem bíður okkar í samgöngum um allt land.
Mesta fólksfjölgun í Evrópu og rúmlega tvær milljónir ferðamanna á ári hafa reynt á samgöngukerfið svo um munar. Fjárfesting í samgöngum þarf að hækka um helming og nema 1% af vergri landsframleiðslu.
Við viljum líka ljúka uppbyggingu betri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þó fyrr hefði verið.

Umbætur á húsnæðismarkaði
Samfylkingin vill ráðast í bráða­aðgerðir svo að stærri hluti íbúðarhúsnæðis nýtist sem heimili fólks fremur en fjárfestingarvara hinna efnameiri.
Við viljum ná stjórn á Airbnb, herða eftirlit og takmarka heimagistingu við lögheimili eða sumarbústað. En 90 daga reglan verður að sjálfsögðu áfram í gildi. Við leggjum til að gististarfsemi í atvinnuskyni verði aðeins í samþykktu atvinnuhúsnæði en ekki íbúðarhúsnæði, óháð því hvenær rekstrarleyfi var gefið út.
Samfylkingin stendur með ungu fólki og vinnandi fjölskyldum og auðveldar þeim að koma sér þaki yfir höfuðið.

Til grundvallar allri okkar pólitík liggur jafnaðarstefnan og hugsjónir hennar um algild mannréttindi og frelsi einstaklingins í samfélagi þar sem öll njóta velferðar og öryggis án tillits til stöðu. Í samfélagi þar sem atvinnugreinar blómstra í heilbrigðri samkeppni og gætt er að fjölbreyttri nýsköpun og framþróun okkur öllum til heilla.

Kjósum Samfylkinguna fyrir nýtt upphaf á Íslandi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Alma D. Möller
eru í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðvestur­kjördæmi í alþingiskosningunum 30. nóvember.

Miðflokkurinn – fyrir framtíðina

Lóa Jóhannsdóttir

Landsmenn eru orðnir þreyttir á stöðunni í íslenskum stjórnmálum. Það er vegna þess að stjórnmálaflokkar gleyma oftast að hlutverk þeirra er að þjóna samfélaginu og gæta hagsmuna allra landsmanna.
Stjórnmál eiga ekki að snúast um hagsmuni eða pólitík flokka, heldur um velferð þjóðarinnar á grunni skýrrar hugmyndafræði. Þess vegna viljum við Miðflokksmenn breyta stöðunni í efnahags-, útlendinga- og orkumálum en einnig í húsnæðismálum þar sem ráðist verði á rót vandans. Það þarf að rjúfa áratuga kyrrstöðu í nauðsynlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að festa okkur í vítahring óraunhæfra og kostnaðarsamra hugmynda borgarlínunnar. Hugum að nokkrum þáttum:

1. Setjum þjóðina framar flokkspólitík
Miðflokkurinn vill endurskoða hvernig við hugsum um stjórnmál. Við stöndum fyrir innihald umfram umbúðir og viljum hætta að fylgja úreltri hugmyndafræði prinsipplausra stjórnmála. Þess í stað viljum við leggja áherslu á lausn aðkallandi verkefna á grundvelli þess hvað sé skynsamlegt að gera. Við viljum flokk sem forgangsraðar í þágu fólksins og grunnkerfa samfélagsins.

2. Heildstæð nálgun á efnahagsmál og atvinnulíf
Miðflokkurinn vill tryggja að skattpeningar fari í það sem skiptir okkur raunverulega máli – heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð. Til þess er nauðsynlegt að draga úr óþarfa útgjöldum og stöðva viðvarandi halla á ríkissjóði undanfarinna ára. Um leið viljum við Miðflokksmenn efla nýsköpun og styrkja sjálfstæði atvinnulífsins enda verður engin velferð án verðmætasköpunar.

3. Ábyrg innflytjendastefna sem tekur mið af íslenskum veruleika
Miðflokkurinn telur að innflytjendastefna eigi ekki að byggjast á skyndiákvörðunum undir pólitískum þrýstingi. Þvert á móti á hún að vera ábyrg, mannúðleg og í samræmi við það sem íslenskt samfélag getur staðið undir.
Nauðsynlegt er að endurskoða lög um hælisleitendur, þá þannig að þau taki mið af getu samfélagsins til að taka á móti hælisleitendum í stað óstjórnar síðustu ára. Um leið þarf að vera til kerfi sem tryggi að nýir íbúar landsins fari eftir lögum og virði okkar samfélag. Þar með verðum við betur í stakk búin til að bæta þjónustu og stuðning við þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

4. Velferð sem stuðlar að jafnrétti fyrir alla
Velferðarkerfið okkar þarf að vera öryggisnet fyrir alla, ekki aðeins þá í neyð. Miðflokkurinn vill bæta þjónustu fyrir aldraða, þá sem hafa sérstakar þarfir og fjölskyldur. Við viljum samfélag þar sem allir hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og öryggi, samfélag þar sem börn geta alist upp í umhverfi sem styður við velferð þeirra.

5. Sjálfbær framtíð og raunhæf
Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á vísindum og heilbrigðri skynsemi og nýjustu tækni. Við teljum mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka lífskjör á Íslandi. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur til að bæta kjör landsmanna.

Miðflokkurinn – flokkurinn fyrir framtíðina
Ég býð mig fram fyrir Miðflokkinn til að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af.
Ef þú vilt sjá breytingar og tryggja að Ísland verði fyrir okkur öll, þá er Miðflokkurinn rétta valið fyrir þig. Við getum gert betur og við eigum að krefjast þess að stjórnmál snúist um hagsmuni þjóðarinnar. Við eigum það öll skilið.

Lóa Jóhannsdóttir.
Höfundur er Mosfellingur og er í 6. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hvað vantar í aðstöðuna við Varmá?

Ari Trausti Guðmundsson

Hér í bæ er áberandi hve margvísleg tækifæri eru til þess að rækta líkamann (og hugann þar með).
Það á við alla aldursflokka og ekki hvað síst við 60+ aldursflokkinn og til dæmis starf FAMOS og Gaman saman. Enn fremur alls konar tilboð og atburði sem felast í stefnumiði bæjarins og kjarnast í hugtakinu heilsueflandi samfélag.
Góð lýðheilsa er ótrúlega mikilvæg. Áhrif hennar á efnahag fólks og sveitarfélagsins eru mikil og líka á líðan hvers og eins og á andann í Mosfellsbæ.
Eftir því sem greina má er fyrirhugað að stækka húsnæði íþróttaklasans við Varmárlaug á næstunni. Leitað er eftir hugmyndum um starfsemi sem þar gæti farið fram og áhugasömum aðilum sem gætu sinnt henni.
Hvað sem komið hefur fram í þeim efnum er eitt ljóst í mínum huga: Sá þáttur heilsueflandi starfsemi sem ber einna mestan árangur er líkamsrækt með tækjum, lóðum og liðkandi æfingum. Slík aðstaða var í klasanum en var lokað. Samfélagið stækkar og hópurinn 60+ enn hraðar en áður.
Ég tala fyrir munn margra þegar ég skora á sveitarstjórn að fella inn í komandi framkvæmdir góðan líkamsræktarsal með viðveru a.m.k. eins starfsmanns sem er vel sjóaður í því sem þar fer fram, hvort sem reksturinn er boðinn út eða ekki.
Þar með væri stoðin enn sterkari undir heilsueflandi samfélaginu sem allir eru sammála um að sé af hinu góða. Fleiri mættu láta í sér heyra varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir.

Ari Trausti Guðmundsson

Uppfærsla samgöngusáttmála – nei takk

Dagný Kristinsdóttir

Mál málanna hjá bæjarstjórn í september var uppfærður samgöngusáttmáli en markmiðið með honum er að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og bjóða upp á fjölbreyttari valkosti til ferða á milli svæða.
Það er margt gott í sáttmálanum en það eru líka margir þættir sem eru óljósir og þarfnast umræðu.

Hvað er í þessu fyrir okkur?
Einhverjir vilja að við horfum til þess hvað sáttmálinn færir höfuðborgarsvæðinu í heild sinni en við getum ekki annað en skoðað hvað þessi uppfærsla færir okkur, íbúum í Mosfellsbæ. Stutta svarið er í raun einfalt. Á komandi ári er lagt til að ferðir á leið 15 verði tíðari.
En sú breyting ein og sér gerir ekki mikið. Aðrar samgöngubætur fyrir okkur eru annars vegar Borgarlína sem á, samkvæmt uppfærslunni, að fara í keyrslu upp úr 2032. Það er eftir átta ár.
Og hins vegar Sundabraut sem á að vera tekin í gagnið á svipuðum tíma. En líkurnar á að það gerist myndi ég telja harla litlar. Á sama tíma mun ferðatími okkar lengjast ár frá ári samhliða gríðarlegri uppbyggingu í bæjarfélaginu, t.d. á Blikastöðum og á Korputúni.

Af hverju segi ég nei?
Eftir að hafa kynnt mér málin og rætt við fólk sem hefur meiri þekkingu á þessu sviði ákvað ég að segja nei við uppfærslunni. Ástæðan er ekki það fjármagn sem við leggjum til verkefnisins, heldur aðrir þættir málsins.
Það er margt í sáttmálanum sem er óljóst, sem dæmi má nefna gríðarlegar fjárhæðir sem geta tengst hinum ýmsu verkefnum og framkvæmdum, en ekki hefur verið ákveðið hvar kostnaðarhliðin leggst.
Við, oddvitarnir í minnihlutanum, bentum á þetta við umræðu málsins og ekki að ástæðulausu. Í dag er staðan sú að ríkisstjórnin er fallin og verkefnin í sáttmálanum eru ófrágengin af ríkisins hálfu.

Önnur ástæða fyrir því að ég var ekki tilbúin að segja já við þessari uppfærslu er sú að á sama tíma og uppbygging samgönguinnviða fer fram, verðum við í framkvæmdum á Blikastöðum sem eiga eftir að kosta bæinn gríðarlega fjármuni.
Ég hefði viljað spyrja að því, fyrir undirritun, hvað ætlum við að gera ef samgönguframkvæmdir sigla í strand eða kostnaður eykst, á sama tíma og fjárfrekar framkvæmdir eru í gangi hjá okkur. Það er okkar ábyrgð að hugsa út í það.
Svo er það annað veigamikið atriði. Kjörnir fulltrúar eru fulltrúar íbúa. Ég er ekki tilbúin að koma fram sem kjörinn fulltrúi og segja við mína kjósendur að ég hafi samþykkt sáttmála sem gefi okkur einhverjar umferðarbætur eftir átta ár, hið fyrsta. Hagsmunir bæjarfélagsins eru gríðarlegir, góðar samgöngur til og frá bænum eru ein forsenda þess að fólk vilji flytja í bæinn og það er okkar hlutverk að standa vörð um þann málstað.
Hver og einn bæjarfulltrúi kaus eftir sinni sannfæringu. Mín sannfæring var þessi. Ég er ekki tilbúin að samþykkja svo stórt verkefni án þess að hafa allar staðreyndir á pappír fyrir framan mig. Þarna vantaði samráð og samtal, kjörnir fulltrúar fengu vitneskju um sáttmálann tveimur dögum fyrir undirritun. Svoleiðis vinnubrögð finnast mér ekki góð.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Samgöngusáttmáli

Ásgeir Sveinsson

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 25. september sl. var samþykkt uppfærsla á Samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið sem fyrst var samþykktur árið 2019.

Það er margt jákvætt í uppfærðum samgöngusáttmála sem er nauðsynlegur til að komast úr þeirri kyrrstöðu sem ríkt hefur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er einnig jákvætt að ríkið komi með aukið fjármagn í verkefnið og taki þátt í stofnun og rekstri félags um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Kostir og gallar í uppfærðum samningi
Bæjarfulltrúar D-lista gerðu athugasemdir og fyrirvara varðandi uppfærðan samgöngusáttmála, einkum hvað varðar forgangsröðun verkefna, skipulagsmál og kostnaðaráætlun.
Frestun verkefna samgöngusáttmálans síðustu árin, ásamt skipulagsbreytingum meirihlutans í Reykjavík varðandi skerðingu á umferð einkabíla eru forsendubrestur við markmið sáttmálans. Þessar breytingar kalla á annars konar framkvæmdaröðun en þá sem kveðið er á um í uppfærðum samgöngusáttmála.

Jana Katrín Knútsdóttir

Má til dæmis nefna mislæg gatnamót við Bústaðarveg, legu, skipulag og hönnun Sundabrautar. Í kostnaðaráætlun virðist vanta áætlaðan kostnað m.a fyrir vagnakaup og  uppkaup lands vegna fyrirhugaðrar legu Borgarlínu.

Samgöngusáttmálinn er langtímaverkefni og líklegt að þetta mikilvæga verkefni eigi eftir að fara í gegnum fleiri uppfærslur á komandi árum og taka breytingum í tíma, skipulagi og kostnaði.
Það er margt sem þarf að ganga upp svo að tímalína sáttmálans standist. Það sem snýr að okkur Mosfellingum er m.a. uppbygging í Keldnalandi, uppbygging í Blikastaðalandi og bygging Sundabrautar en sú framkvæmd er ekki hluti af sáttmálanum sem eru viss vonbrigði út af fyrir sig. Fjármögnun sáttmálans frá hendi ríkisins hefur ekki verið samþykkt og það verður áskorun að fá bæði verktaka og fjármagn til að vinna að þessari miklu uppbyggingu innan þeirra tímamarka sem áætluð eru í uppfærðum sáttmála.
Bráðabirgðaframkvæmdir strax
Það er ljóst að með áframhaldandi fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að umferðarþungi aukist mikið á næstu árum. Það er nauðsynlegt að bregðast við strax með viðbótaraðgerðum til að auka flæði strætó og almennrar bílaumferðar þar til stærri verkefni sáttmálans s.s. Borgarlínan, stokkar og göng verða tilbúin og munum við bera fram tillögur í þeim efnum á næstu misserum.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í sáttmálanum kemur fram að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp árið 2030 og gert er ráð fyrir að þessi gjaldtaka hafi áhrif á ferðavenjur íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ef markmiðið er að auka notkun almenningssamgangna meðal íbúa er nauðsynlegt að hefja sem fyrst vinnu við að bæta gæði þjónustunnar og ímynd almenningssamgangna í samfélaginu, sem og að hafa áhrif á ferðavenjur fólks.

Hlutverk okkar bæjarfulltrúa er að standa vörð um hagsmuni íbúa Mosfellsbæjar í öllum málum og athugasemdir okkar við uppfærslu samgöngusáttmálans eru í samræmi við það. Áhyggjur okkar beinast að óljósum heildarkostnaði sáttmálans, tímalínu framkvæmda og forgangsröðun verkefna auk tímasetningar á uppbyggingu Sundabrautar. Í ljósi reynslunnar má teljast ólíklegt að sú tímalína sem sett er upp í uppfærðum sáttmála muni standast og því leiða til aukins umferðavanda á höfuðborgarsvæðinu þ.m.t. til og frá Mosfellsbæ.
Áfram skal haldið
Þrátt fyrir ákveðna ágalla í uppfærðum samgöngusáttmála teljum við nauðsynlegt að halda áfram með þetta stóra samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Helga Jóhannesdóttir

Við munum áfram styðja við framgang sáttmálans en um leið horfa gagnrýnum augum á þær tillögur til breytinga sem eiga eftir að koma fram á áætluðum framkvæmdatíma með hagsmuni Mosfellinga að leiðarljósi.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi  D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Við erum komin til að vera – Viltu vera með?

Hanna Símonardóttir

Á 50 ára afmæli knattspyrnudeildar Aftureldingar tókst loks að ná langþráðu markmiði.
Karlalið deildarinnar tryggði sér sæti í BESTU deildinni í hreinum úrslitaleik um sætið fyrir framan tæplega 3.000 áhorfendur á Laugardalsvelli.

Þessi árangur er enginn tilviljun. Um árabil hefur uppbygging verið stigvaxandi, bæði innan liðsins og ekki síður í umgjörðinni. Sjálfboðaliðar hafa unnið þrekvirki í að efla allt sem snýr að umgjörð fyrir liðið og framkvæmd leikja, án þess að ég taki nokkuð af frábærum árangri þjálfarateymisins eða liðinu sjálfu.
Ekki má heldur gleyma hlut styrktaraðilanna í þessum árangri. Með stækkandi hóp öflugra styrktaraðila hefur verið hægt að auka fagmennskuna og bæta í á ýmsum stöðum.

Nú byrjar hins vegar næsti kafli, að halda liðinu uppi, því við erum komin til að vera!!

Um aðstöðuna þarf ekki að fjölyrða, en þar treystum við algjörlega á að Mosfellsbær sé í liði með okkur til að það gangi upp að fá undanþágur frá leyfiskerfinu á meðan varanleg aðstaða rís vonandi sem allra fyrst.
Þjálfarar og leikmenn munu leggja enn harðar að sér en áður, það vitum við. En það þurfum við sjálfboðaliðar líka að gera. Það vantar ekkert upp á að þetta er súper gaman, það vitnar fjöldinn um, sjálfboðaliðahópurinn telur tugi manna og kvenna.
En lengi getur gott batnað, það er pláss fyrir mikið fleiri og þörf á ef við ætlum að bæta í. Þeir sem sitja heima og hugsa um að það gæti verið gaman að ganga til liðs við sjálfboðaliða íþróttastarfsins eru hvattir til að láta verða af því, við tökum öllum fagnandi. Ekki síður ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja starfið, þar er heldur betur hægt að taka við og fara vel með.

Endilega setjið ykkur í samband við okkur ef þið hafið áhuga á að vera með okkur í þessari skemmtilegu vegferð, í gegnum netfangið: aftureldingmflkk@gmail.com

Hanna Sím.
sjálfboðaliði

Brúarland gengur í endurnýjun lífdaga

Ólafur Ingi Óskarsson

Brúarland er samofið sögu Mosfellssveitar og síðar Mosfellsbæjar í nærfellt 100 ár. Bygging þess hófst árið 1922 og lauk árið 1929. Brúarland er byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.
Byggingin hefur hýst margs konar starfsemi í gegnum áratugina. Þar var starfrækt símstöð og pósthús og þar hafa félagasamtök og kórar haft aðstöðu á ýmsum tímum. Brúarland var menningarhús og þingstaður sveitarinnar þar til hvoru tveggja var flutt í Hlégarð árið 1951.
Og ekki má gleyma því að í Brúarlandi voru höfuðstöðvar breska setuliðsins í upphafi fyrri heimsstyrjaldar. En hlutverk hússins sem skólahús er líklega það sem fyrst kemur upp í hugann þegar Brúarland ber á góma. Síðustu árin hefur það staðið autt en unnið að ýmsum endurbótum og viðhaldi.

Félagsstarf eldri borgara
Það mun hafa verið fyrir 15 árum síðan að Félag aldraðra í Mosfellsbæ falaðist fyrst eftir því að fá Brúarland til afnota undir félagsstarf. Af því varð ekki þá og húsið nýtt undir nýstofnaðan Framhaldsskóla í Mosfellsbæ og síðan nýstofnaðan Helgafellsskóla. En hugmyndin um félagsstarf í Brúarlandi var komin á flot.
Mosfellsbær er hratt stækkandi sveitarfélag og fólki á öllum aldri fjölgar, líka eldri borgurum. Hressum og kátum. Við vitum að maður er manns gaman og mikilvægt er að vinna gegn félagslegri einangrun fólks og efla það til þátttöku.
Sumarið 2023 ákvað bæjarstjórn að opna Hlégarð á þriðjudögum undir félagsstarf aldraðra. Skemmst er frá því að segja að sú ákvörðun sló í gegn. Þátttakendur steymdu að og mjög margt fólk mætti sem ekki hafði áður nýtt sér tilboð félagsstarfsins á Eirhömrum.
Sumarið 2023 var farið að skoða hvernig félagsstarfi aldraðra væri best fyrir komið og hvaða þarfir væru fyrir hendi sem þyrfti að uppfylla. Velferðarnefnd ákvað þann 31. október 2023 að fela Velferðarsviði að vinna að tillögum um hvernig aðstöðu til félagsstarfs aldraðra yrði best fyrir komið. Undir árslok það ár var orðið ljóst að sú lausn sem unnið hafði verið með að stækka aðstöðu undir félagsstarfið í samstarfi við EIR myndi ekki ganga eftir.
Fljótlega kom sú hugmynd fram að kanna fýsileika þess að taka Brúarland undir starfsemi félagsstarfsins. Hafist var handa við að skoða hversu vel Brúarland hentaði fyrir félagsstarfið ásamt því að rætt var við forsvarsfólk félagsstarfsins um vilja félagsstarfsins til þess að flytja meginhluta sinnar starfsemi í Brúarland. Félag aldraðra var einnig inni í þessu samtali.
Í stuttu máli hefur þessi vegferð sem hrundið var af stað með samþykkt Velferðarnefndar haustið 2023 leitt til þess að þann 28. ágúst síðastliðinn var þetta sögufræga og merka hús afhent Félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ til afnota. Félagsstarfið er þá til húsa á þremur stöðum, í Eirhömrum, Hlégarði og núna líka í Brúarlandi. Það er verulegt tilhlökkunarefni að fylgjast með starfseminni blómstra á öllum þessum stöðum.

Ólafur Ingi Óskarsson
formaður Velferðarnefndar og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Samgöngusáttmálinn

Anna Sigríður Guðnadóttir

Það voru tímamót haustið 2019 þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið gerðu með sér samning um sameiginlega framtíðarsýn fyrir þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu hefur farið sívaxandi og áhrifin dyljast engum. Frá því Samgöngusáttmálinn var undirritaður hefur bílum fjölgað um 16.000 og íbúum um 21.000 á höfuðborgarsvæðinu.

Endurskoðun sáttmálans
Margt hefur breyst frá því sáttmálinn var undirritaður í þverpólitískri sátt árið 2019.
Tímabært var að endurskoða samkomulagið og til að tryggja raunhæfan tímaramma og fjármögnun hefur það verið lengt til 2040. Kostnaðartölur hafa hækkað umtalsvert enda um aukið umfang að ræða sem og vegna mikilla almennra kostnaðarhækkana.
Allar kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar og áætlaðar framkvæmdir sem nú eru nær í tíma eru háðar minni óvissu en áður. Framkvæmdir sem lengra er í eru eðli máls samkvæmt háðar meiri óvissu og fara í ítarlegra greiningarferli. Verkefnin eru umfangsmikil og munu þau verða endurskoðuð reglulega og gætt að fjármögnunar- og fjárfestingargetu

Hvað hefur þegar verið gert?
Rétt er að halda því til haga að unnið hefur verið að framgangi samgöngusáttmálans frá undirritun hans árið 2019.
Stofnvegir: Framkvæmt hefur verið á fjórum stöðum. Fyrst skal nefna breikkun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Hafra­vatnsvegi hér í Mosfellsbæ. Þá hafa verið gerðar úrbætur á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegi innan Reykjavíkur. Framkvæmdir við Arnarnesveg eru hafnar.
Göngu- og hjólastígar: Lagðir hafa verið um 20 km af stígum frá 2019. Þá hafa þrenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi verið byggð.
Umferðarstýring, flæði og öryggi: Þegar hefur verið fjárfest fyrir 1,6 ma króna í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun ljósastýringar, bætts umferðarflæðis og öryggis.

Borgarlína
Ítarlegt undirbúningsferli fyrir framkvæmdir er langt komið. Heildstætt leiðanet Borgarlínu og stórbættrar almenningsvagnaþjónustu er tilbúið.
Framkvæmdir við lotu eitt hefjast á árinu. Sérstaklega ánægjulegt er að lotan sem liggja mun til okkar í Mosfellsbæ hefur verið flutt framar í tímaröðina og er nú önnur í röðinni. Það kemur til af mikilvægi Keldnalands til fjármögnunar verkefnisins sem og væntanlegrar uppbyggingar á Blikastaðalandi. Borgarlínuvagnar munu aka að mestu í sérrými á 7-10 mínútna fresti í góðri tengingu við endurbætt leiðarkerfi almenningsvagna.
Þegar nýtt leiðarkerfi Borgarlínu og almenningsvagna verður komið í rekstur verða 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins í göngufjarlægð frá stoppistöð.

Verkefnin fram undan
Flest verkefnin í uppfærðum sáttmála eru þau sömu en tvö stór hafa bæst við. Annað er Sæbrautarstokkur en hann er lykilatriði vegna tengingar Sundabrautar sem er mikilvæg framkvæmd fyrir okkur Mosfellinga.
Hin framkvæmdin er jarðgöng undir Miklubraut í stað stokks. Truflun á umferð vegna jarðgangnagerðar verður mun minni á framkvæmdatíma en ef um stokk yrði að ræða og skiptir það miklu máli fyrir allt umferðarflæðið.

2040
Mosfellingar munu eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu njóta mjög góðs af þessum framkvæmdum, hvort sem um er að ræða vegaframkvæmdir, stígagerð eða stórbættar almenningssamgöngur. Enda er höfuðborgarsvæðið eitt atvinnusvæði og Mosfellingar sækja vinnu og þjónustu víða um höfuðborgarsvæðið.
Íbúar munu hafa raunverulegt frelsi til að velja þann samgöngumáta sem þeim hentar.
Samgöngusáttmálinn er í raun ekki fyrir okkur sem um hann ræðum núna árið 2024 eða förum með atkvæðisrétt um þetta samkomulag. Samgöngusáttmálinn er fyrir framtíðina, framtíðar Mosfellinga. Hann er fyrir börn og barnabörn Mosfellinga dagsins í dag.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Skólasamfélag barnanna okkar

Dagný Kristinsdóttir

Eitt það mikilvægasta í okkar lífi eru börnin okkar og þeirra velferð.
Við viljum öll að vegur þeirra verði sem greiðastur. Því miður er það nú ekki raunin hjá okkur flestum. Lífið færir okkur ýmis verkefni og áskoranir, í bland við góðu dagana. En þá skiptir máli hvernig við stígum inn í þau mál sem upp koma, hvernig við styðjum við barnið okkar og tölum máli þess, því við erum mikilvægustu bandamennirnir í lífi barnanna okkar.
Þegar eitthvað kemur upp á er eðlilegt að það hreyfi við okkur. Ég hef reynslu af því. Fyrir tæpum 10 árum síðan var ég erfiðasta foreldrið í skóla barnanna minna. Ástæðan var sú að eitt barnið mitt átti erfitt uppdráttar félagslega, það varð undir í félagslegum samskiptum og skólinn greip það heldur seint að mínu mati. Ég breyttist í manneskju sem ég vissi ekki að ég gæti orðið. Ég þorði ekki að segja suma hluti, sagði hluti sem mig langaði að segja og sagði hluti sem ég hefði betur látið ósagða.

En hvað lærði ég?
Ég lærði að það er allt í lagi að vera ósáttur og gera athugasemdir. En maður þarf að gera það á réttum stöðum. Samfélagsmiðlar og opinber umræða er ekki staðurinn. Allt sem við setjum á samfélagsmiðla verður þar um ókomin ár, áminning þess hvernig okkur leið á tilteknum tíma.
Ef við veljum þá leið að ræða persónuleg mál barna okkar á opinberum vettvangi þarf að vanda sig, því barnið kemur til með að lesa orð okkar þegar það fær aldur og þroska til. Við þurfum líka að vanda okkur hvernig við tölum um annarra manna börn. Við vitum ekki hver staða þeirra er. Ég hef lært að það er ástæða fyrir allri hegðun. Ég hef líka lært það að það vaknar enginn að morgni og ákveður að vera vondur við alla í dag. Aftur, fyrir allri hegðun er ástæða. Barnið getur verið svefnlaust, svangt, illt í maganum eða sálinni eða hvoru tveggja.
Ég lærði líka að ég sem foreldri er mikilvægur hlekkur í keðjunni. Ég þarf að anda djúpt, hlusta, meðtaka og vera tilbúin í samtalið. Ég stend ávallt með barninu mínu en þarf líka að vanda mig við að standa með þeirri lausn sem er verið að vinna með hverju sinni. Ég lærði líka að það er allt í lagi að fá hjálp, til dæmis með því að fá þriðja aðila að borðinu.
Einn mikilvægasti lærdómurinn af okkar máli var sá að allir starfsmenn skólans vildu allt fyrir mitt barn og okkur foreldrana gera. Við sáum það ekki endilega í auga stormsins en vitum af því í dag. Þið eigið ævarandi þakkir skilið. Þið vitið hver þið eruð.

Verum partur af lausninni
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar erum við foreldrarnir mikilvægustu bandamennirnir. Við verðum að vera hluti af samtalinu. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að vinna með mál barna okkar. Við þurfum að vera tilbúin að hlusta á mismunandi sjónarmið með opnum huga.
Við megum líka vera meðvituð um það að við erum ekki ráðin sem skemmtikraftar í foreldrahlutverkinu. Stundum er það okkar hlutverk að segja nei og veita leiðbeiningar, sem misvel er tekið í.

Dagný Kristinsdóttir
móðir og bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Við getum gert betur

Aldís Stefánsdóttir

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Til minnis -­ ekki gleyma að gefa af þér

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fátt hefur betri áhrif á okkar líðan og andlega og félagslega heilsu en að umgangast fjölskyldu og vini sem hafa góð áhrif á okkur. Fólk sem er styðjandi, hvetjandi, jákvætt og sýnir okkur skilning og hefur trú á okkur.
Það er merkilegt að á okkar tímum þegar tækifærin og tæknin er mikil að þá sé á sama tíma mjög mikil félagsleg einangrun. Oft er talað um að hún sé algengari hjá eldra fólki en það er svo sannarlega ekki einungis þar, heldur á öllum aldursstigum, og sorglegt að heyra að félagsleg einangrun sé að færast niður aldursstigann allt niður í ung börn. Þess vegna er mikilvægt að allir minni sig á það að huga vel að náunganum, hvetja aðra áfram, brosa og vera vingjarnlegur.

Samvera skiptir máli
Gefum okkur tíma til þess að eiga margar og góðar samverustundir og hafa það gaman saman. Í Mosfellsbæ erum við með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og nefni ég öflugt starf Aftureldingar, geggjaðan golfvöll og frábært starf þar, hestamannafélagið Hörð sem er til fyrirmyndar, frábært skátastarf og mjög öfluga björgunarsveit, Kyndil.
Já, bæjarfélagið okkar Mosfellsbær býður upp á mikið úrval af fjölbreyttri og skemmtilegri afþreyingu, svo sem sundlaugaferðir í góðu sundlaugarnar okkar, hér er fullt af góðum stikuðum gönguleiðum á fellin okkar og nágrenni.
Það eru hjólastígar sem og góðir samgöngustígar, skemmtilegir leikvellir og skólalóðir sem er verið að bæta í samvinnu við nemendur og starfsfólk. Það eru battavellir, körfuboltavellir, Stekkjarflötin góða og svo Ævintýragarðurinn með allan sinn sjarma. Í vetur var líka gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem voru mikið notaðar enda ekki leiðinlegt að hafa skíðabraut í bakgarðinum sínum.
Félag eldri borgara er líka með mjög fjölbreytt íþrótta- og tómsundastarf. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.

Það sem er alveg glænýtt og var að bætast við er fjallahjólabrautin sem kölluð er „Flækjan“. Hún var formlega opnuð á bæjarhátíðinni Í túninu heima og hefur heldur betur slegið í gegn. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ. Þessi skemmtilega tæknibraut er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum. Þessi vinna er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og stökkpallana smíðaði Sindri Hauksson en ungir iðkendur í hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Einnig var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.

Forvarnir, lýðheilsa og farsæld
Meirihlutinn í bæjarstjórn leggur afar mikla áherslu á hvers kyns forvarnir og lýðheilsu og teljum við að fjölbreytt afþreying í bænum okkar skili ánægju, gleði og enn betri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Samvera og góð samskipti eru lykillinn að farsæld auk þess sem bros og dillandi hlátur gerir svo mikið fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri manneskjan er. Gleðin skipar nefnilega óneitanlega stóran sess í vellíðan okkar.
Það er þó mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa samfélag sem byggir á góðum gildum og fallegum bæjarbrag. Látum gott af okkur leiða til barnanna okkar, fjölskyldu, nágranna og vina og búum saman til félagslega töfra.

Halla Karen Kristjánsdóttir,
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Ekki vera píslarvottur

Dögg Harðardóttir Fossberg

Þeir sem hafa verið í leiðtogastöðu eða stjórnunarstarfi um árabil vita að stundum koma erfið mál inn á borð leiðtogans sem honum ber að taka á.
Það getur verið erfitt að taka á málum og taka óvinsælar ákvarðanir en það er engu að síður eitt af því sem leiðtogi er ráðinn til. Leiðtogar verða að þola að það sé talað um þá og að það sé ekki alltaf talað vel um þá. Leiðtogar geta líka þurft að hlusta á gagnrýni, stundum óverðskuldaða eða reiðilestur starfsmanna sem illa liggur á.
Þegar leiðtoginn er vel upp lagður gengur oftast vel að tækla þannig mál. En þar sem leiðtoginn er manneskja þá getur hann verið illa sofinn eða illa fyrir kallaður af öðrum ástæðum og umburðarlyndið og þolinmæðin af skornum skammti. Stundum er auðvelt að leiða særandi hluti hjá sér og stundum ekki.
En það sem skiptir öllu máli er að leiðtoginn fari ekki í hlutverk píslarvotts. Þó svo að starfsfólk eða samferðafólk geti komið illa fram þá skilar það engum árangri að erfa hlutina fyrir lífstíð og rifja endalaust upp hvað aðrir gerðu manni. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að ákveða að leggja hlutina að baki sér og halda áfram. Stundum er sagt að það að fyrirgefa ekki sé eins og að drekka eitur og reikna með að einhver annar deyi. Eða að leyfa fólki að búa leigulaust í kollinum á sér.
Það þekkja það sennilega flestir hvernig hægt er að tala við sjálfan sig og rifja upp hversu illa hefur verið komið fram við mann, hversu rætið fólk getur verið og hversu bágt maður eigi. Þetta er mannlegt og kannski í lagi í örfáa daga ef það hjálpar, á meðan maður er að komast yfir óþægindin. En séu liðnir margir mánuðir eða ár frá óþægilegu atviki og leiðtoginn er fastur í því sem aðrir gerðu honum þá er skynsamlegt að taka meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera píslarvottur.
Það getur vel verið að fólk hafi komið illa fram við mann. Það getur vel verið að maður hafi verið særður og fengið óverðskuldaða eða verðskuldaða en óvægna og særandi gagnrýni en það er banvænt að hafa hugann endalaust við fortíðina. Taktu þér taki þegar þessar hugsanir skjóta upp kollinum og taktu ákvörðun um að láta þetta vera hluta af fortíðinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert, en hindrar þig ekki í að halda áfram.
Stundum er fólk að rifja upp löngu liðna, óþægilega atburði sem varða fólk sem það er löngu hætt að hitta og ávöxturinn er fyrst og fremst sorg og vanlíðan. Það er til fólk sem hefur aldrei fyrirgefið áratugagömul atvik og valið að vera píslarvottar allt lífið af því að einhver hafði einhvern tímann gert þeim eitthvað. Ekki vera þannig manneskja. Veldu að fyrirgefa. Veldu að vera ekki píslarvottur. Veldu að gera óþægilegu minningarnar að fortíð en ekki samferðamanni og haltu áfram með bros á vör!

Dögg Harðardóttir Fossberg
Markþjálfi hjá sigur.is

Af atvinnumálum í Mosó

Sævar Birgisson

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi