Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?

Hugi Sævarsson

Ég vil byrja á því að óska íþróttafólki í Mosfellsbæ til hamingju með frábært keppnistímabil sem nú er að baki.
Flestar greinar luku sínu tímabili í byrjun sumars, aðrar í haust. Eins og gengur þá náðu sumir sínum markmiðum, aðrir ekki. Sama hver niðurstaðan var þá vonar maður að fólk haldi áfram að rækta líkama og sál enda margsannað að íþrótta- og tómstundastarf er gulls ígildi. Út frá öllum hliðum, beinni þátttöku sem og óbeinni.
Á bak við afraksturinn liggur fjöldinn allur af æfinga- og keppnisstundum. Ekki skal gleyma starfsliði og fórnfúsum sjálfboðaliðum sem í raun gera þetta allt saman mögulegt. Já og auðvitað frábærum stuðningsmönnum. Án þeirra væri þetta ekki jafn skemmtilegt, langt því frá.
Í þessari grein beini ég spjótunum að aðstöðumálum á knattspyrnuvöllum bæjarins. Vinsælustu íþróttagreinarinnar á landinu og reyndar í heiminum öllum. Við skulum bara segja það strax, ástandið er dapurlegt í Mosfellsbæ og hefur verið þannig um árabil. Það væri reyndar hægt að skrifa mun lengri pistil en þennan um nauðsynlegar úrbætur á ýmsum tengdum þáttum, eins og þörf á stærra æfinga- og keppnissvæði eða boðlegri félagsaðstöðu (sem er í raun engin).

Bærinn okkar dafnar á ýmsum sviðum og vex ört, en nú eru tæplega 14 þúsund íbúar í Mosfellsbæ. Mikill áhugi er á íþróttastarfi en í bænum stunda rétt tæplega 1.000 manns æfingar í knattspyrnu hjá Aftureldingu og venslafélögum. Hlutfallið um 7,5% sem ætti að gefa þessum málaflokki mikið vægi og forgang en svo er ekki. Frá því að ég flutti í bæinn fyrir um aldafjórðungi hefur aðstaðan verið nánast eins fyrir knattspyrnuna. Bæjarfélagið hefur dregist gríðarlega aftur úr. Meira að segja mun smærri bæjarfélög sinna íþróttinni af meiri myndarskap og metnaði.
Já, og hvað með aðstöðumál fyrir áhorfendur? Í Fellinu eru engin sæti fyrir áhorfendur og eins þröngt rými og hugsast getur. Á keppnisvellinum sjálfum þar sem meistaraflokkarnir og yngri flokkarnir spila er einvörðungu boðið upp á sæti fyrir 300 manns. Í sumar var algeng aðsókn vel yfir 500 manns á leikjum meistaraflokks karla en dæmi um allt að 1.000 manna áhorfendafjölda. Ég vil benda á að félagið býður ekki upp á stúku eins og tíðkast hjá mörgum íþróttafélögum. Það er að segja yfirbyggða áhorfendapalla. Aukinheldur eru sætin neðarlega og veita ekki þá yfirsýn yfir vallarsvæðið eins og algengt er. Salernis- og snyrtiaðstaða er fábrotin og svæðið ekki boðlegt hreyfihömluðum. Vallarstarfsmenn og fjölmiðlamenn sitja í þröngum „reddingagámi“. Tossalistinn er lengri, en læt þetta duga.

Samkvæmt upplýsingum af vef KSÍ var keppnisvöllur UMFA í knattspyrnu með fæst áhorfendasæti á meðal þeirra liða sem tóku þátt í Lengjudeildinni síðastliðið sumar. Sláandi og segir í raun allt sem segja þarf um stöðu mála.
Eins og sjá má á töflunni þá eru áhorfendasætin meira að segja talsvert fleiri hjá Ægi í Þorlákshöfn en í Mosfellsbænum. Sveitarfélagið Ölfus telur um 2.500 íbúa, tæplega 20% af fjölda íbúa Mosfellsbæjar. Því er rétt að velta fyrir sér og spyrja: Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?
Brettum nú upp ermarnar og setjum strax á dagskrá úrbætur á þessum málum í okkar fallega heilsueflandi bæjarfélagi sem hefur á að skipa frábæru íþrótta- og stuðningsfólki sem á mun betra skilið.

Hugi Sævarsson
Viðskiptafræðingur og íþróttaáhugamaður

 

Umhverfið okkar

Guðjón Jensson

Að lifa í góðu, fögru og hollu umhverfi á að vera kappsmál okkar allra. Við sjáum margt sem gleður okkur en því miður margt sem okkur þykir miður og jafnvel særir okkur.
Slæm umgengni um sitt nánasta umhverfi lýsir hverjum manni og ber vitni um hver tengsl viðkomandi eru við umhverfið.
Mjög margir garðar eru til mikillar prýði og til fyrirmyndar. Til eru garðar þar sem kæruleysið virðist vera allsráðandi og þá kannski best hreinlega að malbika. Sem betur fer heyrir slíkt til undantekninga.

Mig langaði til að vekja athygli allra Mosfellinga á hvað við erum að sjá í nánasta umhverfi okkar. Miklar umræður hafa verið í samfélaginu um loftslagsbreytingar og hækkun sjávarmáls sem fylgifisk þeirra breytinga.
Þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld lásum við í jarðfræði eftir Þorleif Einarsson. Talið er að land á höfuðborgarsvæðinu hafi lækkað um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum og er til vitnis um það mýraleifar í fjöruborðinu yst á Seltjarnarnesi skammt frá Gróttuvita. Merki um sjávarrof getum við séð víða við Leirvoginn og er miður hve sjórinn virðist ná árangri að eyða ströndinni.

Árið 1980 birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags grein eftir Kristján Eldjárn sem þá var að ljúka sínum embættistíma sem forsetinn okkar. Í greininni fjallar hann um rústirnar í Blikastaðanesi og við Þerneyjarsund en talið er fullvíst að á miðöldum hafi verið þar mikilvæg hafnar- og verslunaraðstaða. Slóðina á grein Kristjáns má lesa: www.timarit.is/files/68889713

Við Mosfellingar ættum að skoða þessa grein gaumgæfilega og eiga gott samtal um hana. Fyrir nokkrum áratugum lagði hestamannafélagið reiðstíg um Blikastaðanesið en ekki tókst betur til en svo að hann var upphaflega lagður um rústirnar. Líklega var ókunnugleika að kenna að svo færi en ólíklegt er að ætlað hafi verið að valda tjóni. Átti ég þátt í því að vekja athygli á þessu og skrifaði eitthvað um það í mosfellsku blöðin. Varð það tilefni fyrir Kristinn Magnússon fornleifafræðing sem er búsettur í Mosfellsbæ að kanna aðstæður og rannsaka aftur rústirnar. Varð það til að reiðstígurinn var færður nokkuð ofar í landið sem vel hefur tekist. Á síðustu árum hefur hafið skolað meiru af ströndinni og verður ef fram horfir og ekkert aðhafst að rústirnar hverfi innan nokkurra ára. Verður eftirsjá að þessum gömlu fornu minjum. Mér skilst að þetta sé víða á Íslandi að gamlar verbúðir og aðrar strandminjar séu í mikillri hættu.

Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir nokkrum vikum og má augljóslega sjá hversu sjávarrofið er smám saman að færa sig upp á skaftið. Bakkinn rétt vestan við fuglaskoðunarhúsið við Langatanga er að eyðast og ef ekkert er að gert verður að flytja húsið.
Spurning er hvort Mosfellsbær þurfi ekki að skoða betur þessi mál og reyna að sporna við frekari landeyðingu. Auðvitað kostar það sitt en þá er spurning hvort ekki megi draga úr kostnaði annars staðar. Mér þykir sem mörgum Mosfellingum nokkuð djarflega farið með opinbert fé til að slá fífilbrekkur og blómaengi bæjarins sem eru bæði fuglum himinsins sem og okkur mannfólkinu og sérstaklega ungviðinu til gleði og ánægju.
Við verðum að huga betur að umhverfi okkar og forða að spilla því. Um áramót eru þessar skelfilegar sem minna mig alltaf á stríðsátök. Mætti ekki biðja fremur um rótarskotin en rakettuskotin ef hugur er að styrkja starf björgunarsveitanna.
Góðar stundir.

Guðjón Jensson

Félagsstarf eldri borgara í Brúarland

Ásgeir Sveinsson

Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína sem og önnur félags- og tómsstundastörf.

Aukin þátttaka og fjölgun íbúa kallar á nýtt húsnæði
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri voru 1. janúar 2023 samtals 1.359. Félagsstarf eldri borgara í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og var fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ 1. janúar 2023 samtals 2.387. Þátttakendum í félagstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina. Ætla má að plássleysið muni aukast á allra næstu vikum, þegar fjölgun dagdvalarrýma að Eirhömrum sem var nýlega samþykkt tekur gildi. Framtíðaráform kveða svo á um fjölgun öryggisíbúða við Eirhamra en þar mun koma til með að að rísa jafnframt nauðsynleg stækkun (400m2 salur) ætluð félagsstarfinu. Tafir hafa hins vegar orðið á þeirri uppbyggingu og óvíst hvenær félagsstarfið fær þetta mikilvæga pláss fyrir starfsemi sína. Það er því nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir í millitíðinni.

Jana Katrín Knútsdóttir

Brúarland hentugt og vel staðsett húsnæði
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Það hefur sýnt sig að þangað sækir annar hópur en jafnan hefur gert að Eirhömrum. Það er mikilvægt að taka tillit til þess og koma til móts við þarfir og ákall notendanna. Brúarland er sögufrægt hús sem er í eigu Mosfellsbæjar og myndi henta vel fyrir þessa starfsemi. Húsið var gert upp fyrir stuttu síðan og þar standa nú yfir frekari lagfæringar og framkvæmdir sem taka brátt enda. Húsið hefur staðið ónotað eftir að kennslu Varmárskóla var þar hætt en ekki eru uppi áform um áframhaldandi notkun þess. Þess má geta að staðsetning Brúarlands ein og sér er afar heppileg. Húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skornum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Hugsanlega mætti einnig nýta húsnæðið að Brúarlandi í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Jafnvel felast tækifæri í því að skoða möguleika þess að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega tómstundastarfsemi.
Í þessu samhengi er þó mikilvægt að tryggja að við þessa tilfærslu yrði ekki skerðing á þjónustu við þá einstaklinga sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra. Því þyrfti alltaf að koma til móts við þarfir þess hóps með hliðstæðri starfsemi að Eirhömrum. Jafnframt gæti sérhæft starf, eins og leirgerð og fleira, áfram verið í húsinu.
Húsnæðið sem félagsstarf eldri borgara er starfrækt í dag að Eirhömrum, leigir Mosfellsbær af Eir. Þannig mætti því spara kostnað með því að nýta ónotað húsnæði í eigu bæjarins undir starfsemina.

Látum verkin tala
Tillögu okkar fulltrúa D-lista var vísað til Velferðarsviðs Mosfellsbæjar til rýningar og skoðunar. Það er

Helga Jóhannesdóttir

okkar mat að ekki þurfi starfshópa eða margra mánaða vinnu við að skoða þessa tillögu. Þörfin er brýn og húsnæðið ónotað. Við vonumst til að þetta verði unnið hratt og vel og að við munum sjá blómlegt félagsstarf í Brúarlandi á næstunni.

Ásgeir Sveinsson oddviti D-lista og bæjarfulltrúi
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Skráningardagar í leikskólum

Aldís Stefánsdóttir

Á vordögum samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar, að tillögu fræðslunefndar, að innleiða skráningardaga í leikskólum.
Í haust hefur því farið fram kynning og prófun á þessu fyrirkomulagi og leikskólstjórnendur eru að innleiða það hver í sínum skóla.
Skráningardagar þýða að ef foreldrar hyggjast nýta sér þjónustu leikskólanna á fyrirfram ákveðnum skráningardögum og skráningartímum þurfa þau að láta leikskólann vita. Markmiðið með þessu er að innleiða styttingu vinnuvikunnar í leikskólunum með því að vera með lágmarksstarfsemi á ákveðnum tímum. Við það má bæta að markmiðið með að bjóða upp á fulla styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk leikskóla er meðal annars að mæta þeim mönnunarvanda sem hefur verið í leikskólum í Mosfellsbæ og á höfuðborgarsvæðinu öllu á síðustu árum. Við væntum þess að fyrirsjáanleiki í rekstri skólanna muni aukast og lokun deilda heyri sögunni til.

Hvernig leysum við mönnunarvanda á leikskólum?
Stutta svarið við þessari spurningu er; með því að bæta starfsumhverfið og gera það aðlaðandi og samkeppnishæft.
Breytingar í ytra umhverfi leikskólanna hafa ekki verið þeim í hag undanfarið. Eitt leyfisbréf fyrir kennara og óútskýrður launamunur ófaglærðra í leik- og grunnskólum hefur valdið því að erfiðara er að ráða fólk í leikskóla.
Erfiðlega hefur gengið að innleiða styttingu vinnuvikunnar þar sem sú kjarabót fyrir launafólk átti ekki að hafa í för með sér skerðingu á þjónustu. Samið hefur verið um 30 orlofsdaga fyrir allt starfsfólk og starfsemin glímir við háa veikindatíðni bæði í lengri og skemmri tíma.
Við þessar aðstæður eru góð ráð bókstaflega dýr. Eftir mikla yfirlegu og samráð við fræðsluyfirvöld í Mosfellsbæ og stjórnendur leikskólanna lagði fræðslunefnd til skráningardaga eins og áður sagði. Helsti kostur þeirra er að þau sem þurfa á þjónustunni að halda munu fá hana.
Þessi leið krefst þess hinsvegar að foreldrar taki þátt í því að gera þetta að farsælli lausn á erfiðu viðfangsefni og við tryggjum þannig stöðuleika og fyrirsjáanleika þjónustunnar. Innleiðing á styttingu vinnuvikunnar í atvinnulífinu ætti að gera mörgum kleift að stytta vikuna einnig hjá leikskólabörnunum sínum. Skráningardagar í vetrarfríum, jóla- og páskafríum hafa þegar gefið góða raun og eru ekki alveg nýir af nálinni.
Að sjálfsögðu sitja ekki öll við sama borð þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar og þess vegna er ekki farin sú leið að loka skólunum heldur hafa þá opna fyrir þau sem þurfa á því að halda.

Takk foreldrar!
Á síðustu vikum hefur raunin verið sú að um 70% barna hafa ekki þurft á vistun að halda á skráningartímum á föstudögum. Það er afskaplega góð byrjun og vil ég þakka foreldrum í Mosfellsbæ fyrir góð viðbrögð og samvinnu í þessu verkefni. Ég ætla ekki hafa mörg orð um mikilvægi þjónustu leikskólanna hér í þessari grein enda er hún flestum ljós. En ég vil frekar leggja áherslu á að við erum í þessu saman og að reka þessa skóla er samfélagslegt verkefni sem við höfum orðið sammála um að er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir heimilin og það er mikilvægt fyrir samfélagið allt.
Stöndum því saman vörð um leikskólana í Mosfellsbæ og þá góðu starfsemi sem fer þar fram og er veganesti barnanna okkar út í lífið.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður fræðslunefndar

Framfarir í úrgangsmálum

Aldís Stefánsdóttir

Hvernig við komum frá okkur sorpi snertir hvert einasta heimili og er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Það verða því flestir varir við það þegar verða breytingar í málaflokknum.
Á síðustu mánuðum hafa verið innleiddar mestu breytingar í úrgangsmálum sem orðið hafa um langa hríð á höfuðborgarsvæðinu. Aukin flokkun sorps frá heimilum er stórt verkefni sem hefur, þegar á heildina er litið, gengið mjög vel og er strax farið að skila miklum árangri.
Það má þó ekki gleyma því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru vanir að flokka en 60% af þeim úrgangi sem kemur frá heimilum er skilað á endurvinnslustöðvar Sorpu og 40% er sótt í tunnur við heimili.

Áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi – raunhæf markmið um lokun
En hvað verður svo um sorpið? Það er kannski viðfangsefni sem Mosfellingar hafa haft meiri áhyggjur af á síðustu árum og sú staðreynd að urðunarstaðurinn í Álfsnesi er kominn ansi nálægt byggðinni okkar. Síðasta áratuginn hefur verið í gildi samkomulag milli eigenda Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um að hætta urðun í Álfsnesi.
Á þessum tíma hefur ýmislegt verið gert. Það verður þó að viðurkennast að framfarirnar hafa ekki verið nægar til að raunhæft sé að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Leit að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið er umfangsmikið verkefni á meðan við urðum ennþá eins mikið magn og raun ber vitni.

Annar viðauki hefur því verið gerður við þetta samkomulag og teljum við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar raunhæft að við náum árangri í því að loka urðunarstaðnum innan næstu fimm ára eins og markmið samkomulagsins er.
Samkomulagið kveður þó ekki á um óbreytt ástand. Í fyrsta lagi tökum við stórt skref með aukinni flokkun. Sorpa hefur gert samninga við önnur sorpsamlög og fyrirtæki um móttöku á lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum enda verður bannað að urða lífrænt í Álfsnesi frá og með næstu áramótum. Þar verður eingöngu leyfilegt að urða óvirkan úrgang sem gefur ekki frá sér lykt.
Annar stór áfangi er að hefja útflutning á blönduðum brennanlegum úrgangi. Útflutningur hefur verið boðinn út og hefst núna á allra næstu vikum. Bara þetta tvennt breytir starfseminni í Álfsnesi gríðarlega.

Gætum hagsmuna Mosfellinga
Samþykkt annars viðauka varðandi lokun urðunarstaðarins og enn frekari frestun á því er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ eru sátt við eða ánægð með. Við komumst hins vegar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri óábyrgt að ganga ekki til samninga um framhaldið en að öðrum kosti hefði skapast ófremdarástand í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu.
Við gerðum okkar allra besta til að tryggja hagsmuni Mosfellinga í samkomulaginu og meðal annars með því að fá eigendur Sorpu og landeiganda Álfsness, sem er Reykjavíkurborg, til að samþykkja að ekki verði byggð sorpbrennsla í Álfsnesi. Auk þess sem farið verður í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að ná tökum á lyktarmengun frá þeim úrgangi sem þegar hefur verið urðaður þarna. Lykilatriði er að fylgja þessum ákvæðum eftir og það munum við gera.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi og stjórnarkona í Sorpu BS

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Sævar Birgisson

Nú á dögunum staðfesti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið, þótti starfandi meirihluta tímabært að mörkuð yrði skýr stefna í þeim málaflokki.
Mikil samstaða var um að farið yrði af stað í stefnumótunarvinnu í kjölfar síðustu kosninga og greinilegt að þörf var á skerpingu í atvinnumálum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar leiddi stefnumótunarvinnuna sem hófst í byrjun árs og lauk nú á sumarmánuðum, fékk nefndin utanaðkomandi ráðgjafa til að halda utan um verkefnið frá byrjun.
Það var mikið lagt upp úr því að stefnan yrði hnitmiðuð og auðlesin, markmiðin raunhæf og hægt að ýta sem flestum aðgerðum úr vör á næstu 1-3 árum. Ásamt því að árangur aðgerða yrði mælanlegur til að gera alla eftirfylgni skilvirkari og markvissari.

Vel heppnaður íbúafundur
Það komu fjölmargir að stefnumótunarvinnunni en mikilvægur partur af ferlinu var að opna umræðuna með íbúum og var vel heppnaður íbúafundur haldinn í Fmos á vormánuðum. Mætingin var mjög góð og umræður gagnlegar í meira lagi. Það bar þess greinilega merki að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þótti þörf á því að bærinn kæmi markvisst að því að efla enn frekar atvinnulíf í sveitarfélaginu.
Öflugu atvinnulífi fylgir aukin þjónusta fyrir íbúa og frekari tækifæri, íbúafjöldinn í Mosfellsbæ er farinn að nálgast 14 þúsund og það væri kærkomið að sjá jafn kröftugan vöxt í atvinnuuppbyggingu samhliða hröðum íbúavexti. Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé skilgreint sem eitt atvinnusvæði þá skapar sérstaða Mosfellsbæjar fjöldamörg sóknarfæri sem í enn frekara mæli ber að nýta. Hér eru vissulega fjöldi öflugra fyrirtækja starfandi sem má ekki gleyma í þessu samhengi, en að sama skapi á sveitarfélagið mikið inni í atvinnumálum.

Öflug upplýsingamiðlun og markaðssetning
Megininntak atvinnustefnunnar er annars vegar hvernig sveitarfélagið geti stutt sem best við atvinnuuppbyggingu og hins vegar helstu áherslu atvinnugreinar. Það kemur fram að mikilvægt sé að huga vel að upplýsingamiðlun og þá helst varðandi framboð atvinnulóða og móttöku fyrirspurna, nauðsynlegt að ferlið sé sem einfaldast og að allar helstu upplýsingar séu aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.
Hin hliðin á peningnum er öflug markaðssetning, í stefnunni er fjallað um frumkvæði sveitarfélagsins, t.d. með gerð markaðsáætlunar og skilgreiningu á ábyrgðaraðilum vegna þeirra verkefna sem bíða við innleiðingu á stefnunni.

Næstu skref
Nú tekur við innleiðingarferli á atvinnustefnunni þar sem hægt verður að hrinda fyrstu aðgerðum í framkvæmd og undirbúa jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu. Stefnan hefur ekki verið birt, en það má búast við að hún verði birt á vef Mosfellsbæjar á næstunni. Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér innihaldið þegar að því kemur.
Að lokum vill undirritaður þakka öllum þeim sem komu að vinnunni við stefnumótunina fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarnefndar, þar er okkar trú að þetta verði farsælt skref fyrir Mosfellsbæ sem blæs frekara lífi í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Sævar Birgisson
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður Atvinnu- og nýsköpunarnefndar

 

Látum verkin tala

Anna Sigríður Guðnadóttir

Verkefni bæjarstjórnar eru af ýmsum toga. Úrlausnarefnin misstór og mikilvægi þeirra að sjálfsögðu mismunandi í augum einstakra bæjarbúa.
Öll verkefni sem upp koma þarf að skoða og meta frá öllum hliðum, í samhengi við fjárhagslega hagsmuni bæjarsjóðs, með tilliti til lagaumhverfis sveitarfélaga og út frá pólitískri sýn meirihlutans, þ.e. hverju við viljum áorka í okkar starfi.
Markmið okkar koma fram í málefnasamningi sem aðgengilegur er á mos.is. Leiðarljósið er alltaf að gæta almannahagsmuna og viðhafa gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð varðandi allar ákvarðanir. Vönduð vinnubrögð taka sinn tíma og við tökum okkur þann tíma sem þarf.

Hér á eftir eru listuð upp nokkur viðfangsefni sem hefur verið siglt í höfn á fyrstu 16 mánuðum okkar starfs.
• Skálatún. Rekstur heimilisins kominn til Mosfellsbæjar og unnið að samþættingu.
• Kvíslarskóli. Verður sem nýr eftir gagngerar og löngu tímabærar endurbætur.

Halla Karen Kristjánsdóttir

• Stjórnsýsluúttekt. Löngu tímabær úttekt og skipulagsbreytingar sem miða að skilvirkari og betri þjónustu við bæjarbúa.
• Stafræn vegferð. Umbætur á sviði stafrænnar þróunar komnar vel af stað.
• Lengdur opnunartími sundlauga á virkum dögum.
• Opnunartími félagsmiðstöðva lengdur allt árið.
• Nýr gervigrasvöllur með vökvunargræjum.
• Afturelding hefur fengið styrktaraðstöðu.
• Hlégarður kominn heim. Starfsemin lofar sannarlega góðu um framhaldið.
• Aðgengisfulltrúi.
• Samningur við Samtökin78 um hinsegin fræðslu til starfsfólks og ungmenna.
• Efling talmeinaþjónustu og ráðgjafar til barna.
• Vinna hafin við leikskóla í Helgafellslandi.
• Samningar um 22 rýma stækkun hjúkrunarheimilis til viðbótar við þau 44 rými sem áður var samið um.

Lovísa Jónsdóttir

• Fjölgun rýma í dagdvöl aldraðra um sex. Rýmin verða þá 15 talsins.
• Skóflustunga að nýjum búsetukjarna fyrir fatlaða, sem Þroskahjálp byggir með stofnframlagi frá Mosfellsbæ og bærinn mun reka.
• Samningar um 60 minni íbúðir fyrir fyrstu kaupendur sem uppfylla skilyrði HMS um hlutdeildarlán.
• Næturstrætó um helgar, sem við álítum vera öryggismál.
• Samningur við Hopp til að auka fjölbreytni í ferðakostum innanbæjar.
• Stefna í atvinnumálum, löngu tímabær.
• Samningur um markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.
• Tekið hefur verið á móti um 40 flóttamönnum sem flestir eru komnir með vinnu.
• Gott að eldast. Þátttaka í þróunarverkefni um samþættingu félags-og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum.

Þessi listi er ekki tæmandi heldur sýnir hann stór og lítil verkefni sem öll eru mikilvæg, hvert á sinn hátt.

Á bæjarfulltrúum hvílir sú skylda samkvæmt sveitarstjórnarlögum að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi. Sveitarstjórnarmönnum ber í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum. Þessi grein laganna er okkar leiðarljós í allri okkar vinnu innan bæjarstjórnar.
Ábyrgðin er gríðarleg, enda hefur bæjarstjórn ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins.
Þá hvílir sú ábyrgð á bæjarstjórn að sjá til þess að lögbundnar skyldur séu ræktar og enn fremur hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags.
Við tökum þessa ábyrgð alvarlega og leggjum mikinn metnað í að sinna okkar störfum af kostgæfni og heiðarleika. Við höldum ótrauð áfram að vinna að verkefnum úr málefnasamkomulagi okkar flokka og að taka á þeim verkefnum sem upp koma á hverjum tíma af ábyrgð, festu og heiðarleika í sem bestu samstarfi við minnihlutann og ætíð með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Anna Sigríður Guðnadóttir oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar

Mosó 2041 – Smásaga

Guðmundur Hreinsson

Árið er 2041 og Palli er ný orðinn 18 ára en hann fæddist á því herrans ári 2023. Þá var Mosó allt öðruvísi en hún er í dag og margt tekið miklum breytingum frá því að hann fæddist.
Núna býr hann í fallegri blokk í Blikastaðahverfi sem er nálægt stoppistöð borgarlínu sem nær niður að Keldum þar sem er líka flott hverfi. Frá Keldum getur Palli tekið neðanjarðarlest alla leið niður á Lækjatorg en það var hætt við að fara með borgarlínuna alla leið niður í miðbæ þar sem að neðanjarðarlestarkerfi var ódýrara í framkvæmd þegar upp var staðið.
Borgarlínan hefur endastöð rétt hjá heimili Palla en gengur ekki inn í eldri hverfi Mosfellsbæjar þar sem að það þótti ekki viðeigandi að fara með svo stóra vagna í gegnum þessi gömlu grónu hverfi bæjarins.
Í stað þess getur Palli tekið innanbæjarvagna sem eru litlir rafmagnsvagnar og eru þeir allra nýjustu sjálfkeyrandi „Smá söknuður af bílstjórunum,“ hugsar Palli.
Hverfið sem Palli býr í er vistvænt á öllum sviðum og sem betur fer þá var ákveðið að fylgja ströngustu kröfum um dagsbirtu inn í allar íbúðir auk þess sem gerð var mjög rík krafa um græn svæði inn á milli húsa sem hefur þann kost að fólk geti sest niður og notið nærumhverfisins.
Einnig var ákveðið að öll húsin á Blikastöðum yrðu byggð samkvæmt Breeam- og Svansvottun sem gerði það að verkum að öll byggingarefni sem notuð voru sem mest umhverfisvæn. Þetta allt þýddi kannski ekki eins marga íbúa í hverfið eins og til stóð í upphafi en fólk í bæjarstjórn vildi umfram allt meiri gæði fram yfir gróða fjársýslumanna.
Þetta á við um öll hverfi sem hafa byggst upp frá því Palli fæddist. Núna er nýtt hverfi sem nánast umvefur Lágafellið með lágreistri byggð og húsum sem eru mikið til hugsuð út frá sömu forsendum og Blikastaðahverfið þ.e. umhverfisvottuð. Enda fengu þeir sem byggðu slík hús afslátt á fasteignagjöldum í einhver ár ef þeir uppfylltu umhverfisvottun.
Jafnframt var ákveðið að byggja upp með Álfosskvosinni meðfram Varmánni, byggð sem hafði svipaða ásýnd og Kvosin sjálf eða mikið til hús byggð í gömlum stíl en ásamt því þá voru nokkur gömul hús flutt á staðinn. Þarna má finna verslanir og veitingarhús á fyrstu hæð og íbúðir fyrir ofan, þetta hverfi hefur laðað að sér mikið að ungu fólki sem vill hafa líf í kringum sig.
Nú kalla margir þetta miðbæ Mosfellsbæjar sem er að mörgu leiti rétt því að þarna er hugguleg göngugata sem er jafnan fallega skreytt um jól og laðar að sér Íslenska og erlenda ferðamenn á öllum árstímum.
——-
Palli situr við eldhúsgluggann og horfir dreymandi upp í Úlfarsfellið og veltir fyrir sér hvað hann ætti að kjósa í komandi bæjar­stjórnarkosningum. Það er kannski best að kjósa áfram þetta góða fólk sem ákvað að hafa bæinn minn eins og hann er í dag.
Við það stendur Palli upp og töltir af stað út í Lágafellsskóla til að kjósa rétt.

Guðmundur Hreinsson
varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Af bæjarstjórnarmálum er þetta helst

Ásgeir Sveinsson

Útboð leikskóla í Helgafellshverfi
Eftir árstafir hefur loksins verið ákveðið að bjóða út byggingu leikskólans í Helgafelli. Það stóð til að gera það fyrir ári síðan en þá ákvað meirihlutinn að fresta því og setja á fót starfshóp. Bæjarfulltrúar D-lista lögðu ítrekað fram tillögu um að bjóða bygginguna út strax því annars myndi kostnaður hækka verulega. Niðurstaða starfshópsins var svo sú að bjóða út byggingu leikskólans og var þar lægsta boð um 30% yfir uppfærðri og hækkaðri kostnaðaráætlun og hefur því kostnaðurinn hækkað um hundruð milljóna króna. Inni í þeirri upphæð er þó ekki kostnaður við útboð á stoðveggjum á lóðinni sem var hluti af verkinu en meirihlutinn tók þá sérstöku ákvörðun að bjóða það sérstaklega út 2 vikum fyrir útboð á byggingu hússins.
Þessi niðurstaða er ekki góð fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.

Rekstur Hlégarðs

Jana Katrín Knútsdóttir

Starfsemi í Hlégarði er nú komin vel af stað eftir bæði heimsfaraldur og gagngerar endurbætur innanhúss undanfarin ár. Meirihlutinn ákvað í síðustu viku eftir margra mánaða tafir að stofnað yrði B hlutafélag í eigu Mosfellsbæjar um reksturinn. Búið var að ráða öflugan viðburðarstjóra sem mun sjá um að fjölbreytt menning muni blómstra í húsinu.
Það sem vekur furðu í málinu er að meirihlutinn ákvað að Mosfellsbær myndi sjá um vínveitingasölu í Hlégarði í stað þess að bjóða þann þátt út eins og gert er nánast undantekningarlaust með sambærilega starfsemi. Lýðheilsubærinn Mosfellsbær er þar með kominn í samkeppni við einkaaðila í veitingarekstri í bænum, þar með talið í sölu á áfengi.
Bæjarstjórinn er þannig orðinn ábyrgur ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi vínveitingasölu á viðburðum í Hlégarði. Það verður athyglisvert að sjá hvað G&T eða bjór muni kosta á barnum. Ætli það verði happy hour? … svo tala oddvitar meirihlutans fallega um að styðja við atvinnulíf í Mosfellsbæ. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla. Fulltrúar D-lista lögðu fram tillögu um að útvista veitingarekstri til einkaðila en sú tillaga var felld.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjárhags- og tekjuáætlun
Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar bentu fulltrúar D-lista ítrekað á að tekjuhlið áætlunarinnar væri vanáætluð og þá sérstaklega þegar kæmi að tekjum varðandi lóðasölu og byggingarréttargjöld.
Í nýrri uppfærðri tekjuspá til loka árs 2023 sem var birt nú um miðjan júní, kom svo á daginn að tekjur bæjarins verða mun hærri en reiknað var með, í samræmi við það sem bent hafði verið á. Það er auðvitað mjög jákvætt.
Það sem vakti mesta athygli er að tekjur af lóðasölu sem voru áætlaðar 500 milljónir verða a.m.k. 1.700 milljónir þannig að þar munar 1.200 milljónum. Þetta var nokkuð ljóst við gerð fjárhagsáætlunar en það má velta fyrir sér hvort ástæða þessara vanáætlana gæti verið sú að það hafi verið þægilegra fyrir meirihlutann að afsaka sögulegar skattahækkanir á húsnæði o.fl. með því að hafa tekjuáætlunina lága.
Áætlanir hjá Mosfellsbæ hafa staðist með ótrúlegri nákvæmni undanfarin ár en það virðist nú vera úr sögunni.

Helga Jóhannesdóttir

Svið fyrir viðburði í Álafosskvos
Á síðasta fundi bæjarráðs lögðu fulltrúar D-lista fram tillögu um að Handverkshúsið Ásgarður og Mosfellsbær tækju höndum saman um byggingu viðburðasviðs við áhorfendabrekku í Álafosskvos.
Tillagan gerir ráð fyrir að sviðið verði úr eins umhverfisvænum hráefnum og kostur er og yrði sviðið í anda verka Ásgarðsmanna sem hafa komið að ýmsum verkefnum í Mosfellsbæ og víðar undanfarin ár.
Með tilkomu sviðs í Álafosskvos gefst enn betra tækifæri fyrir fjölbreytta viðburði og menningu í Kvosinni.
Tillögunni var vísað til áframhaldandi vinnslu innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar og mun þá umhverfissvið Mosfellsbæjar væntanlega koma að málinu. Vonandi getur orðið af þessu samstarfi og að reist verði svið við Álafosskvos sem fyrst.

Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúar D-lista

Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2022-2040

Valdimar Birgisson

Undanfarin ár hefur verið unnið að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem gilda á til ársins 2040.
Skipu­lags­nefnd og bæj­ar­stjórn Mos­fells­bæj­ar samþykktu að kynna frumdrög og vinnslu­til­lögu að nýju aðalskipulagi í vor og er hægt að nálgast þau gögn á skipulagsgátt (www.skipulagsgatt.is/issues/214). Þar er einnig hægt er að koma að umsögnum og athugasemdum til 12. ágúst.
Hér er ekki um að ræða end­an­lega til­lögu og munu gef­ast frek­ari tæki­færi til kynn­ingar og at­huga­semda á síð­ari stig­um.

Aðalskipulag Mosfellsbæjar er eitt meginstjórntæki sveitarfélagsins og sýnir framtíðarsýn og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Aðalskipulagið er því leiðarvísir um alla uppbyggingu innan marka Mosfellsbæjar. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ber ábyrgð á gerð aðalskipulagsins en skipulagsnefnd vinnur það í umboði bæjarstjórnar í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð. Arkís arkitektar unnu að gerð þessara tillagna með starfsmönnum Mosfellsbæjar.

Núverandi aðalskipulag var samþykkt 2013 og gildir til 2030. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að fara í þessa endurskoðun aðeins fimm árum eftir samþykkt núverandi skipulags er m.a. hraðari fjölgun íbúa en núverandi skipulag gerir ráð fyrir, þá liggur líka fyrir endurskoðað og breytt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og fleira mætti tína til t.d. samgöngusáttmálinn.

Á síðustu tuttugu árum hefur íbúafjöldi í Mosfellsbæ tvöfaldast og búast má við áframhaldandi fjölgun íbúa og gera má ráð fyrir að íbúar Mosfellsbæjar verði um 20 þúsund árið 2040.

Í þessum drögum er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á þéttbýlismörkum Mosfellsbæjar fyrir utan það að bætt er við íbúðasvæði í Teigslandi. Einnig er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustukjarna við gatnamót Þingvallavegar og Vesturlandsvegar. Talsvert er um óbyggð íbúðasvæði innan núverandi þéttbýlismarka og er gert ráð fyrir því að byggð vaxi innan þeirra.

Eins er haldið í þá stefnu að fjölga ekki frístundasvæðum í sveitarfélaginu en leyfa byggingu frístundahúsa á núverandi frístundasvæðum.

Þá er gert ráð fyrir meiri þéttleika byggðar við áhrifasvæði Borgarlínu í Blikastaða­landi og á miðbæjarsvæðinu. Í skipulagsgátt, sem finna má á vef Mosfellsbæjar, er rammahluti aðalskipulags Blikastaða eitt af þeim gögnum sem liggja frammi og ágætt að skoða til þess að glöggva sig á þeirri uppbyggingu sem gert er ráð fyrir að muni eiga sér stað þar. Þar verður þéttleikinn meiri en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar.

Í drögunum er enn fremur lögð aukin áhersla á vistvænar samgöngur t.d. með Borgarlínu og uppbyggingu göngu- og hjólastíga í Mosfellsbæ. Þannig eru skapaðar aðstæður til þess að byggja upp þjónustu í göngufæri og styðja þannig við lýðheilsu og stuðla að loftslagsvænni byggð.

Friðlýstum svæðum hefur fjölgað og einnig eru hverfisverndarákvæði bætt og hverfisvernd sett á toppa fella við bæjarstæðið til þess að vernda ásýnd og yfirbragð þeirra. Þar verður þó heimilt að vinna að stígagerð og aðgengi fyrir almenning. Þá er gert ráð fyrir loftlagsskógi á Mosfellsheiði.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til þess að skoða þessi gögn og koma með athugasemdir eða umsagnir ef einhverjar eru og taka þannig þátt í að móta framtíðarskipulag sveitarfélagsins okkar.

Valdimar Birgisson
Formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar

 

Betri vinnutími á leikskólum

Dagný Kristinsdóttir

Upp úr áramótum 2020 fóru fyrstu kjarasamningar sem fólu í sér styttri vinnutíma að líta dagsins ljós. Í hönd hófst heljarinnar ferli stjórnenda allra stofnana við að finna út úr því hvernig ætti að leysa þetta nýja verkefni. Í fyrstu umferð var þetta mjög skrítið verkefni þar sem ekkert skapalón fylgdi en eitt var alveg ljóst – enginn kostnaður átti að felast í innleiðingunni. Á mörgum stöðum varð ferlið auðveldara eftir því sem samtalið átti sér stað oftar en mjög fljótt varð þó ljóst að meðal ákveðinna starfsstétta yrði þetta erfitt samtal vegna eðli starfanna og er leikskólastéttin ein þeirra.

En af hverju?

Starfsfólk leikskólanna ver 7-7.5 tímum á dag með sínum nemendum. Þegar viðveran er svo mikil er vinnuhagræðið sem felst í innleiðingarferlinu mjög snúið, því allur vinnutíminn er nú þegar undir. Ef það á að stytta vinnutíma starfsmanna á leikskólum segir það sig sjálft að einhver annar þarf að stíga inn og leysa starfsmanninn af. En þá er innleiðingin og verkefnið farið að kosta og það mátti ekki.

Þetta var verkefni leikskóla bæjarins fyrstu tvö árin af innleiðingunni en í vetur bættist við mönnunarvandi. Þá vantaði fólk bæði í daglega starfið og eins til að leysa af. Ef það vantar í hópinn að þá getur fólk ekki farið í burtu, það er bara svo einfalt.

Tillaga til fræðslunefndar

Miðvikudaginn 3. maí kom fyrir fræðslunefnd tillaga að útfærslu á betri vinnutíma á leikskólum bæjarins. Í henni fólst að teknir yrðu upp svokallaðir skráningardagar í leikskólum bæjarins eftir kl. 14 á föstudögum og í skólafríum, alls 15 dagar yfir skólaárið. Í fyrri umferð umræðunnar þennan dag komu ekki fram mörg sjónarmið önnur en frá fulltrúa meirihlutans, undirritaðri og fulltrúa foreldra sem báðar lýstu efasemdum um þetta fyrirkomulag. Ákveðið var að senda hugmyndina til umræðu inn í leikskólastarfið og eins til foreldraráða á leikskólum og þann 6. júní kom tillagan aftur inn til fræðslunefndar og þá með umsögnum foreldraráða og skólastjórnenda.  Öll foreldraráð sýndu tillögunni skilning en bentu á mikilvægi góðrar upplýsingagjafar og góðs undirbúnings. Sérstaklega má hrósa foreldraráði Krikaskóla sem sendi frá sér ítarlega ályktun, í henni voru margar hugmyndir og útfærslur að leiðum. Stjórnendur fögnuðu tillögunni og skil ég það vel, því þeir eru búnir að prófa og hugsa allar mögulegar leiðir. Á þessum seinni fundi fræðslunefndar voru heldur meiri efasemdir ef eitthvað er.

Ég hef sagt það á öllum stigum að ég hef skilning á því að þessi tillaga sé komin fram, verkefnið er flókið og erfitt í þeim aðstæðum sem ríkja á vinnustöðunum. En til að maður geti sýnt fullan stuðning þurfa að liggja fyrir ákveðin gögn og rökstuðningur sem hafa ekki verið til staðar. Ég er því ekki viss um að þessi pólitíska afstaða sem tekin var sé rétt og ætla að færa rök fyrir því.

Heimild eða skylda?

Þetta finnst mér einn stærsti punkturinn í öllu málinu og í raun hafa ekki fengist skýr svör frá meirihlutanum. Í fræðslunefnd og bæjarráði var ítrekað rætt um að þessi tillaga yrði heimild fyrir leikskólastjóra en í öllum upplýsingapóstum til foreldra og í frétt á facebook síðu bæjarins var þetta lagt upp sem verkefni sem verið væri að fara í. Það er munur á því að hafa heimild til einhvers eða að vera skyldaður til að gera eitthvað.

Því hafa nokkrar spurningar vaknað:

  • Hvort er rétt, má þetta ef þarf eða á að fara í verkefnið. Þetta skiptir máli, ekki einvörðungu fyrir foreldra heldur líka okkur sem sátu fundina – fengum við ekki réttar upplýsingar?
  • Ef leikskólastjórar hafa heimild til að setja inn skráningardaga, þá þarf að svara þeirri spurningu hvort ekki eigi að ríkja jafnræði í þjónustunni. Getur einn leikskóli haft opið á meðan annar skerðir þjónustu? Við vitum af einum leikskóla sem hefur náð að lenda þessu verkefni svo vel sé. Á sá leikskólastjóri að taka upp verkefnið og sátt innanhúss til að fara aðra leið?
  • Hvað á að gera með vistun mosfellskra barna sem fara í leikskólann í Grafarvogi? Eiga þau að fylgja skráningardögum barna sem fá vistun heima fyrir?
  • Eins hefur verið spurst fyrir um vistunargjaldið á skráningardögum.

Við þessum spurningum hafa ekki fengist skýr svör og er það miður.

Í öðru lagi fékk fræðslunefnd eina tillögu frá Fræðslu- og frístundasviði. Til að nefndin og kjörnir fulltrúar geti tekið upplýsta og góða ákvörðun hefði ég viljað sjá minnisblað með 3-4 tillögum, útfærðum og kostnaðargreindum. Þessi vinna hefði ekki bara verið fyrir okkur heldur fyrir alla sem að málinu koma, starfsfólk og ekki síst þjónustuþega, þ.e. foreldra. Það hefði einnig verið mjög sterkt að taka saman minnisblað um þær hugmyndir og aðferðir sem voru prófaðar og gengu ekki upp. Og þær hugmyndir sem komu fram en voru ekki unnar lengra.

Til dæmis hefði verið gagnlegt að sjá útfærslur eins og þessar:

  • Hvaða leiðir vill starfsfólkið fara í styttingu? Það skiptir máli hvernig styttingin er, því styttingarmöguleikar eru nokkrir og
  • Hvað kosta skráningardagar yfir árið?
  • Hvað kostar að greiða fyrir stöðugildi starfsmanna sem kæmu inn þegar starfsfólk færi í styttingu.
  • Hvað kostar að kaupa styttinguna af þeim sem það kjósa?
  • Hvað kostar að fara aðrar leiðir í styttingu Þá er verið að hugsa um t.d. að taka heila daga, föstudaga og/eða mánudaga, klemmudaga og hafa lokað v. styttingar en þessar lokanir gætu róterað á milli leikskóla þannig að alltaf sé aðgangur að plássi, ef fólk þarf. Þetta er í anda þeirra hugmynda sem foreldraráð Krikaskóla kom með og Kópavogursbær sömuleiðis. Við erum vön þessu vinnulagi úr sumarleikskólanum.
  • Hefði bærinn verið tilbúinn að stíga inn í og greiða ákveðinn hluta styttingar? Eins og Akureyrarbær er að gera.
  • Hvaða leiðir getur verið samræmdar, það er hvað getur sveitarfélagið lagt fram og á móti foreldrum. Auðveldlega mál líta til Kópavogsbæjar í þeim efnum.

Á fundi fræðslunefndar kom fram að þessi tillaga væri ekki fullmótuð og úthugsuð.

Ekki fengust svör við því hvað yrði gert ef foreldrar myndu láta börnin sín klára skóladaginn. Það fengust heldur ekki svör við því hvert plan B væri – svörin voru á þá leið að tillagan væri þá fallin og yrði að hugsa um annað.

Þegar maður er að leiða starf, hvort sem það er á okkar vettvangi, stjórnsýslu, sem íþróttaþjálfari eða úti í skólunum að þá verðum við að hugsa 2-3 leiki fram í tímann. Þessi tillaga hefði aldrei átt að fara út úr Kjarna fyrr en hún var að fullu skipulögð og allir þræðir tilbúnir. Ég er því hjartanlega sammála bókun Sjálfstæðismanna frá seinni fundi fræðslunefndar þar sem athugasemd var gerð við málsmeðferðina.

Kostnaðarliður verkefnisins var á reiki. Á fundi fræðslunefndar var sagt að þetta kostaði 10 milljónir, en á fundi bæjarráðs var talan 25 milljónir nefnd sem kostnaður á ársbasis. Ef að við erum tilbúin að setja fjármagn í verkefni sem á ekki að innifela kostnað, þurfum við að skoða allar aðrar færar leiðir, til samanburðar.

Bæjarstjórn er æðsta ákvörðunarvald sveitarfélagsins og þangað fara allar ákvarðanir til staðfestingar. Þessi tillaga sem hér er til umræðu er þar ekki undanskilin. Tillagan kemst því ekki til framkvæmda fyrr en bæjastjórn hefur samþykkt hana.  Að morgni þess dags sem bæjarstjórnarfundur fór fram birtist frétt á facebooksíðu Mosfellsbæjar um þá ákvörðun bæjarráðs að taka upp skráningardaga á leikskólum, að auki fengu foreldrar tölvupósta frá leikskólastjórum barna sinna um sama efni og þar kom hvergi fram að leikskólastjórar hefðu val um að fara þessa leið. Þetta gerist áður en tillagan er endanlega samþykkt í bæjarstjórn.

Akureyrarbær

Á fundi fræðslunefndar var ítrekað bent á að Akureyrarbær væri að fara sömu leið, án þess þó að það væri útskýrt nánar og því fór ég í smá rannsóknarvinnu. Þegar skóladagatöl leikskóla Akureyrarbæjar eru skoðuð kemur í ljós að á komandi skólaári eru 25 heilir skráningardagar fyrirhugaðir. Akureyrarbær tók jafnframt þá miðlægu ákvörðun að allir starfsmenn fengju fulla styttingu, en það var gert, að mér skilst, til að mæta mismunandi stéttarfélögum og einfalda vinnuna á leikskólum. Sveitarfélagið greiðir jafnframt hlut í 65 mínútna styttingu sem er í kjarasamningum, sem væri hægt að nýta til að fá inn afleysinga fólk, svo dæmi sé tekið.

Hvað viljum við?

Þegar okkar verkefni er skoðað með hliðsjón af leið Akureyrarbæjar vakna enn fleiri spurningar. Skráningardagar á komandi vetri verða 15. Það eru þrjár vikur sem foreldrar taka að sér til viðbótar við 4 vikna sumarfrí. Við þurfum að taka mönnunarvanda með í reikninginn. Mjög auðveldlega geta 2 vikur bæst við þar. Þá erum við að tala um 9 vikur yfir árið  sem foreldar þyrftu að bakka upp starfið á leikskólunum.

Einnig þarf að ræða það hvort eðlilegt og rétt sé að foreldrar standi einir að allri skerðingu á þjónustu við leikskólabörn. Hér eru dæmi um það sem foreldrar sögðu þegar þeir fréttu af þessu nýja verkefni:

  • eiga foreldrar að taka einir á móti styttingu vinnuvikunnar á leikskólum?
  • hvernig á ég að geta stundað fulla vinnu með börn á leikskóla ef þetta er niðurstaðan?
  • Það eiga ekki allir gott bakland.
  • Ég næ ekki að uppfylla mína vinnuskyldu.

Á þessi sjónarmið þarf að hlusta.

Við þurfum að hafa í huga að foreldrar leikskólabarna er yfirleitt ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu með tilheyrandi stressi og álagi. Að auki verður að taka það með í reikninginn að ekki eiga allir foreldrar sama rétt til styttri vinnutíma og getur stytting foreldra verið með allt öðrum hætti en sú tillaga sem hér er til umræðu. Og í þriðja lagi er bakland foreldra misjafnt.

Vandi leikskólanna

Einnig þarf að ræða þann vanda og þá erfiðu stöðu sem leikskólarnir okkar eru komnir í. Þar er einkum þrennt sem er mest aðkallandi –  styttri vinnutími, mönnunarvandi og lengra sumarfrí starfsmanna. Sumarfrí starfsmanna hefur alltaf verið lengra en sumarlokun, en með nýlegum kjarasamningum eiga flestir starfsmenn 30 daga orlofsrétt. Það er 10 daga umfram sumarlokun og það hefur flækt málin. Hinir tveir þræðirnir, styttri vinnutími og mönnunarvandi eru nýrri verkefni.   Þessir þrír þræðir haldast í hendur og ég tel ekki skynsamt að kippa í einn þráðinn, því þá þenjast hinir. Við erum ekki að leysa mönnunarvanda með þessari tillögu.

Stöldrum við

Nú verðum við að staldra við. Við erum með frábært fólk í vinnu, við viljum bjóða börnunum upp á faglegt og gott skólastarf og við viljum bjóða upp á eftirsóknarverða vinnustaði. En aðstæðurnar sem ríkja í þessum málaflokki í dag krefjast þess að við setjumst niður og endurhugsum starfið. Það gerum við með samtali fagfólksins, fulltrúa stjórnsýslunnar, kjörinna fulltrúa og foreldra.

 

Tillaga Vina Mosfellsbæjar

Á fundi bæjarstjórnar 21.júní sl. lagði undirrituð fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar leggur til að farið verið heildstætt yfir stöðu leikskóla í bænum. Verkefni leikskólastigins eru mörg og krefjandi og í lausninni felst að endurhugsa þarf starfið og skipulagið. Yfir þessi verkefni þarf að leggjast og koma með tillögur að heildrænni lausn og er lagt til að það sé gert með myndun starfshóps.

Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna.  Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.

Ég tel að breytingar sem þessar þurfi að ræða vel og ítarlega innan stjórnsýslunnar, meðal kjörinna fulltrúa, starfsfólks og ekki síst við foreldra því þetta er mikil breyting frá því sem fólk þekkir í starfi leikskóla.

Að mínu mati væri eðlilegt að sveitarfélagið komi til móts við þessi nýju verkefni, eins og mögulegt er.

Skemmst er frá því að segja að meirihlutinn felldi tillöguna með þeim orðum að þetta starf væri þegar hafið. Miðvikudaginn 28.júní samþykkti bæjarstjórn Kópavogs tillögu starfshóps sem hafði gert nákvæmlega það sama og ég lagði til að yrði gert. En helstu markmið þessa starfshópsins voru að skapa meiri stöðugleika og vellíðan í leikskólum, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta. Mér þykir afgreiðsla meirihlutans í Mosfellsbæ miður, því þetta samtal er algerlega nauðsynlegt.

 

Að lokum

Við verðum að hafa það í huga að leikskólaforeldrar hafa allt síðastliðið ár verið í þeirri stöðu að sækja börnin sína vegna manneklu, þau hafa staðið af sér fjögurra vikna verkfall sem er fylgt eftir af fjögurra vikna sumarfríi og eiga svo að taka við skerðingu á þjónustu eftir kl 14 alla föstudag og í jóla og páskafríum á komandi vetri. Að auki má gera ráð fyrir manneklu og þá mun sú staða koma upp að loka þarf deildum og þá þarf að sækja börnin fyrr.

Starfsfólk leikskólanna á það skilið frá okkur að þeirra starfsumhverfi sé tekið til alvarlegrar endurskoðunar og að allt sé gert til að endurhugsa það. Við getum ekki boðið þeim upp á annan vetur sem einkennist af misvel mönnuðum starfsmannahópum og miklu álagi.

Þessir hópar eiga það skilið frá okkur sem störfum í umboði kjósenda að við vöndum okkur meira en gert er í þessu máli.

Þó vinnutímastyttingin sé leyst með þessum hætti eru enn aðrar áskoranir óræddar og allt helst þetta í hendur. Við verðum að endurhugsa og endurskapa leikskólastarf sem er faglegt, gott og eftirsóknarvert að vinna við.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

 

 

 

 

 

Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu. Sumir eru nú þegar komnir í frí og enn aðrir farnir að telja niður dagana af tilhlökkun.

Samvera mikilvæg
Lífsmynstur margra breytist á sumrin og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Hreyfing og útivist
Sumarið er svo sannarlega tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar, förum út að ganga með fjölskyldunni, hjólum, hlaupum, förum í golf, á línuskauta og/eða hjólabretti, búum til hreyfibingó – hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir. Þarna spilar félagsskapurinn að sjálfsögðu mikilvægt hlutverk auk hreyfingar og útivistar.

Munum eftir hollustunni
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, drekkum vatn, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæðahráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Sofum nóg
Þó að það verði gaman í sumar þá þurfum við að muna að svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Hann veitir okkur hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur og er því nauðsynlegur þáttur heilbrigðra lífshátta. Svefn styrkir jafnframt ónæmiskerfið og hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti okkar við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.
Tökum höndum saman kæru Mosfellingar og höldum áfram að byggja upp fyrirmyndar Heilsueflandi samfélag í bænum okkar með vellíðan allra íbúa að leiðarljósi. Þegar við leggjumst öll á árarnar getum við nefnilega gert alveg stórkostlega hluti. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hlégarður og menning í Mosó

Helga Jóhannesdóttir

Um síðustu áramót tók Mosfellsbær við rekstri Hlégarðs.
Hlégarður hefur verið lokaður undanfarin misseri vegna mikilla endurbóta innahúss og vegna takmarkana er tengdust Covid. Það er því ánægjulegt að framboð menningarviðburða hafi aukist í Hlégarði og víðar í Mosfellsbæ, jafnt og þétt undanfarin misseri.
Tillaga okkar um nýjan menningarviðburð, Menning í mars, var samþykkt og fór dagskrá tengd þeim viðburðum fram í mars síðastliðnum. Frumraunin tókst vel og gaman var að sjá hversu margir tóku þátt. Menning í mars er komin til að vera.
Nú styttist í 17. júní og þar á eftir bæjarhátíðina Í túninu heima en auk þessara viðburða er mikilvægt að vera einnig með smærri viðburði því áhugi Mosfellinga er svo sannarlega til staðar og tilefnin eru næg.
Fulltrúar D-listans vilja styðja við listsköpun og auka framboð menningar- og listviðburða í Mosfellsbæ og fagna því að ráðinn hafi verið viðburðastjóri Hlégarðs. Það er jákvætt og mun sú staða eflaust efla og auka framboð og fjölbreytni menningar- og listviðburða.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Nauðsynlegt er að halda áfram að hlúa að endurnýjun Hlégarðs og eru tækjakaup, hljóðkerfi, lýsing o.fl. hlutir sem þarf að klára sem fyrst svo húsið nýtist sem best og sem flestum.
Áform eru uppi hjá nýjum meirihluta að Mosfellsbær sjái um allan veitingarekstur og áfengissölu í Hlégarði í stað þess að fela rekstrar­aðila/viðburðastjóra þann rekstur eins og annan rekstur í húsinu. Með þeim fyrir­ætlunum má segja að bærinn sé kominn í samkeppni um veitinga- og áfengissölu. Það er mat fulltrúa D-listans í bæjarstjórn að lýðheilsubærinn Mosfellsbær eigi ekki sjálfur að standa í sölu á áfengi á viðburðum í Hlégarði.
Margt er fram undan í menningu og listum í Mosfellsbæ og mun Hlégarður gegna lykilhlutverki í mörgum af þeim viðburðum.
Við munum áfram styðja við endurnýjun og þróun Menningarhússins Hlégarðs á þessu kjörtímabili, Mosfellingum öllum til heilla.

Helga Jóhannesdóttir og Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúar D-lista

Niðurstaða stjórnsýslu- og rekstrarúttektar

Lovísa Jónsdóttir

Í árslok 2022 var ákveðið að gerð yrði stjórnsýslu- og rekstrarúttekt hjá Mosfellsbæ og voru allir bæjarfulltrúar sammála um að tímabært væri að fara í slíka úttekt. Það var ráðgjafafyrirtækið Strategía sem ráðið var til verksins og niðurstaðan lá fyrir í byrjun maí.
Í stuttu máli var niðurstaða úttektarinnar sú að mikil tækifæri eru til úrbóta í stjórnsýslu bæjarins svo unnt sé að þjónusta bæjarbúa enn betur og tryggja að vel sé farið með almannafé.
Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að nauðsynlegt er að fara í umbætur á fjármála- og áhættuferlum, þá þarf að gera umbætur í stefnumörkun, skipulagi og stjórnarháttum auk þess sem mælt er með umbótum til að ná markmiðum í stafrænni þjónustu.

Nýtt skipurit
Alls eru lagðar fram 74 umbótatillögur í skýrslunni og hvetjum við alla bæjarbúa til að kynna sér efni skýrslunnar en hana má nálgast í fundargerð bæjarráðs frá 17. maí og fundargerð bæjarstjórnar frá 24. maí.
Fyrsta tillagan sem unnin er á grundvelli þessarar úttektar hefur nú þegar verið lögð fram og samþykkt, þ.e. tillaga að nýju skipuriti.
Engum starfsmanni er sagt upp störfum í kjölfarið breytinganna en ljóst er að kostnaður vegna innleiðingar á breytingunum verður 27 milljónir króna á árinu 2023. Fyrst og fremst vegna ráðningar verkefnisstjóra í upplýsingatækni og vegna aukinna verkefna á fjármála- og áhættustýringarsviði. Á ársgrundvelli er gert ráð fyrir að um tvö stöðugildi sé að ræða og kostnaðurinn verði 35 milljónir kr.

Það er mat ráðgjafa Strategíu að talsverð tækifæri séu til sparnaðar á aðkeyptri þjónustu sem vegur þá upp á móti þeim kostnaðarauka sem liggur fyrir að felist í breytingunum.
Í fyrsta sinn í Mosfellsbæ er innri endurskoðun nú tilgreind sérstaklega í skipuriti og er það til bóta og í samræmi við nútímalegan rekstur sístækkandi sveitarfélags að þessu eftirliti sé tryggt skýrt hlutverk í skipuriti bæjarins.
Einnig er rétt að minnast á breytingu á fjármálasviði sem nú mun heita fjármál og áhættustýring. Í skýrslu Strategíu er fjallað um mikilvægi þess að bæjarfélagið setji sér skýra stefnu um fjármagnsskipan og áhættustefnu en hvorug er til staðar í dag.
Það er rauður þráður í gegnum skýrsluna að skýra þurfi hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnareininga og stjórnenda og er nýja skipuritið fyrsta skrefið í átt að þessu takmarki.
Eins og fram hefur komið þá eru margar umbótatillögur í skýrslunni og nú bíður það verkefni bæjarstjórnar og bæjarstjóra að meta og ákveða hvað af þessum umbótaverkefnum verður ráðist í til að bæta þjónustu bæjarins við íbúa.

Lovísa Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi Viðreisnar

Stjórnsýsla Mosfellsbæjar

Ásgeir Sveinsson

Í lok síðasta árs var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar að fara í stjórnsýsluútekt í Mosfellsbæ. Bæjarfulltrúar D-lista samþykktu tillöguna, en síðast var farið í úttekt á stjórnsýslu bæjarins árið 2014.
Þó svo að stjórnsýslan hafi þróast og tekið jákvæðum breytingum í gegnum árin þá er alltaf gott að fá utanaðkomandi aðila til þess að skoða hlutina, rýna til gagns og koma með nýjar hugmyndir með það að markmiði að bæta þjónustu og starfsemi bæjarins enn frekar.

Ráðgjafafyrirtækið Strategía var fengið til þess að vinna úttektina og í framhaldinu lagði bæjarstjóri fram viðamiklar breytingar á stjórnsýslu og skipuriti Mosfellsbæjar sem byggðar voru á skýrslu Strategíu. Bæjarfulltrúar D-lista komu ekki að gerð tillagna um skipulagsbreytingarnar og sátu hjá við afgreiðslu málsins meðal annars fyrir þær sakir. Breytingarnar eru sumar eðlilegar og margt jákvætt sem kemur fram, bæði í skýrslunni og tillögunum, en þar eru jafnframt ágallar sem við setjum fyrirvara við.
Það vekur einna helst athygli í samþykktum tillögum að það virðist eins og verið sé að innleiða skipurit Reykjavíkurborgar og færa skipulagseiningar í sama búning og gerist þar. Það er spurning hversu jákvætt það er fyrir Mosfellsbæ að færa stjórnsýsluna í átt til þess sem gert er í Reykjavík sérstaklega þegar kemur að fjármálum, stjórnun, skipulags- og starfsmannamálum.

Jana Katrín Knútsdóttir

Vonandi horfir nýr bæjarstjóri og meirihluti í Mosfellsbæ ekki of mikið til félaga sinna í Reykjavík þegar kemur að skipulagi og stjórnun í Mosfellsbæ.

Miklar og dýrar breytingar
Breytingatillögurnar sem lagðar voru fram af bæjarstjóra og meirihlutinn samþykkti eru viðamiklar og útgjöld vegna þeirra óljós, en öruggt er að kostnaðurinn verður hár.
Í tillögunum er t.d. gert ráð fyrir mikilli fjölgun starfsfólks og það skýtur skökku við í því efnahagsástandi sem nú ríkir að ætla að ráða þennan fjölda af nýju starfsfólki. Staðreyndin er sú að fram undan er niðurskurður á útgjöldum bæjarins sem felur jafnvel í sér frestun framkvæmda. Við þær aðstæður er stórfelld fjölgun starfsfólks ekki ákjósanleg.
Það hvort þær breytingar sem nú hafa verið innleiddar séu til þess fallnar að bæta þjónustuna, verklag, samhæfingu og starfsumhverfi starfsfólks Mosfellsbæjar mun tíminn einn svo leiða í ljós.

Hver er tilgangur með breyt­­­­i­ngum?
Samkvæmt skýrslunni er breytingatillögunum ætlað að endurspegla áherslur sem koma fram í málefnasamningi meirihlutans. Þetta er tiltekið á a.m.k. fjórum stöðum í skýrslu Stategíu sem og í kynningum og tillögunum byggðum á henni.
Við bæjarfulltrúar D-lista teljum að breytingar í stjórnsýslu og á skipuriti bæjarins eigi fyrst og fremst að snúast um að hámarka gæði, hagkvæmni og skilvirkni þjónustu fyrir alla bæjarbúa, en eigi ekki að snúast um málefnasamning meirihlutans, því meirihlutar koma og fara.
Markmið síðasta meirihluta D- og V-lista í Mosfellsbæ var að sýna ábyrgð í rekstri bæjarins, fara vel með skattfé og halda álögum á íbúa eins lágum og kostur var. Það eru leiðarljós sem nýr meirihluti virðist ekki ætla að viðhalda á sinni vakt, eins og bæjarbúar hafa nú þegar fengið að finna fyrir í gríðarlegum hækkunum fasteignagjalda og hækkun á útsvari.
Áhersla okkar bæjarfulltrúa D-lista í bæjarstjórn er að íbúar Mosfellsbæjar fái áfram eins góða þjónustu og hægt er þannig að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ.
Við þurfum að muna eftir að halda í gildi Mosfellsbæjar sem hér hafa verið höfð að leiðarljósi; virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.

Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúar D-lista.