Er Mosfellsbær að stuðla að betri heilsu bæjarbúa?

Halla Karen Kristjánsdóttir

Góð heilsa er eitt af því dýrmætasta sem við eigum eða eins og spakmælið segir „Góð heilsa er gulli betri“.
Við berum mikla ábyrgð á eigin heilsu en það er ýmislegt í umhverfinu okkar sem getur ýtt undir að við verðum duglegri að leggja inn í heilsubankann. Það sem skiptir sköpum í því eru foreldrar, vinir, skólasamfélagið allt, íþrótta- og tómstundafélög og aðrir sem bjóða upp á almenna heilsurækt hvort sem hún er andleg, líkamleg eða félagsleg. Sveitarfélagið sjálft hefur líka mikil áhrif með því að hafa gott aðgengi að íþróttamannvirkjum, útivistarsvæðum, sundlaugum, göngu- og hjólreiðastígum, bjóða upp á fræðslu, hvatningu og leggja áherslu á það sem eykur heilsu og vellíðan íbúa.
Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag. Það þýðir að við leitumst við að allar ákvarðanir séu teknar með lýðheilsusjónarmið í huga.

Ákvarðanir sem stuðla að aukinni lýðheilsu
Í kjölfar stjórnsýsluúttektar hjá Mosfellsbæ sem var framkvæmd á síðasta ári var ákveðið að leggja enn meiri áherslu á menningu, íþróttir og lýðheilsu með því að búa til nýtt svið sem vinnur sérstaklega að þessum mikilvægu málum.
Við erum íþrótta- og lýðheilsubær. Við erum með þrjár íþróttamiðstöðvar sem iða af lífi alla daga vikunnar. Við rekum tvær sundlaugar sem eru opnar frá morgni til kvölds. Opnunartíminn hefur verið lengdur um 30 mín alla virka daga og það er ókeypis fyrir börn undir 15 ára og 67 ára og eldri.
Mosfellsbær býður upp á frístundaávísanir fyrir börn og eldra fólk. Fjárhæðir hafa verið hækkaðar og reglum breytt þannig að hægt er að nota ávísanirnar í styttri námskeið eða yfir sumartímann.
Nýlega var gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem hafa notið mikilla vinsælda. Þetta framtak stuðlar að útiveru og hreysti fyrir alla aldurshópa.

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn. Þess vegna hefur stýrihópur sem á að endurskoða framtíðarsýn fyrir svæðið hafið störf. Hlutverk hópsins er að kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulagslegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára.
Fyrsti áfanginn, sem ljúka á 1. apríl, er endurskoðun þarfagreiningar vegna þjónustubyggingar og hópurinn mun að sjálfsögðu nýta þau gögn sem þegar hafa verið unnin. Seinni áfanginn er þá framtíðarsýn fyrir uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ og heildarsýn yfir uppbyggingu á Varmársvæðinu. Ég vænti mikils af starfi þessa hóps enda um mjög mikilvægt lýðheilsuverkefni að ræða sem skiptir fólk á öllum aldri hér í Mosfellsbæ máli.
Félag eldri borgara býður upp á mjög fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem ýtir heldur betur undir að fólki líði betur líkamlega sem og andlega. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.
Bærinn hefur tekið alfarið yfir rekstur félagsheimilisins okkar, Hlégarðs, og þannig stuðlum við að auknu menningarlífi fyrir íbúa en menning er mikilvægur hluti af lýðheilsu.

Við berum öll ábyrgð
Hér er aðeins stiklað á stóru en það eru fjölmörg verkefni og fjölmargir aðilar í Mosfellsbæ sem stuðla að aukinni lýðheilsu. Íþrótta- og tómstundafélög sem er stýrt af sjálfboðaliðum eru sérstaklega mikilvæg og þar eigum við Mosfellingar mikinn mannauð.
Það er nauðsynlegt að allir finni sér einhverja íþrótt eða tómstund sem ýtir undir að rækta líkama og sál en það sem skiptir líka miklu máli er hvað maður tileinkar sér og gerir dagsdaglega. Eins og að njóta útiveru, ganga í búðina, vera virkur heima við, fá nægan svefn, borða hollan mat, rækta garðinn sinn, moka snjó og ekki má gleyma að hugsa jákvætt.
Við lifum aðeins einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.

Halla Karen Kristjánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Tökum fagnandi á móti nýju ári

Regína Ásvaldsdóttir

Kæru íbúar og starfsfólk Mosfellsbæjar.
Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári.
Árið 2023 var fyrsta heila árið mitt í starfi bæjarstjóra og er óhætt að segja að það hafi verið viðburðaríkt.

Það var til dæmis ótrúlega gefandi að fylgjast með okkar flotta íþróttafólki vinna hvern sigurinn á fætur öðrum og ýmist sækja bikara heim eða komast í undanúrslit.
Þá var ekki laust við að hjartað tæki hopp af stolti þegar nafnið Afturelding rúllaði á sjónvarpsskjánum mörg sunnudagskvöld í fyrravetur. Afar vel gerðir og leiknir þættir sem vekja athygli á bænum okkar langt út fyrir landssteinana.
Bæjarhátíðin Í túninu heima heppnaðist afar vel og metþátttaka var á flestum viðburðum, þrátt fyrir að veðrið væri aðeins að stríða okkur.
Eitt af því sem ég upplifi að hafi haft mikið gildi fyrir Mosfellinga á síðasta ári er ákvörðun bæjarstjórnar að yfirtaka rekstur Hlégarðs og ráðning viðburðastjóra fyrir húsið. Það má með sanni segja að Hlégarður hafi fljótt náð fyrri sess sem eins konar hjarta Mosfellsbæjar og nýir dagskrárliðir hafi slegið í gegn.
Annar mikilvægur áfangi á árinu var samningurinn við innviðaráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið og IOGT um yfirtöku Mosfellsbæjar á þjónustu við íbúa á Skálatúni og sérstakt framlag til þess verkefnis frá Jöfnunarsjóði. Jafnframt var skrifað undir samning um stofnun nýs félags um uppbyggingu á þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur á lóð Skálatúns.
Meðal stofnana sem flytjast á svæðið eru Barna- og fjölskyldustofa, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafa- og greiningarstöð ríkisins. Það er skýrt í öllum samningum að núverandi íbúar Skálatúns njóti forgangs og þurfi ekki að flytja, kjósi þeir það ekki. Svæðið er það stórt að það er pláss fyrir uppbyggingu samhliða búsetu þeirra á svæðinu.
Á árinu var einnig gerð rekstrar- og stjórnsýsluúttekt sem leiddi til stjórnkerfisbreytinga sem tóku gildi 1. september.
Það væri ekki rétt að segja að árið hafi liðið án nokkurra áskorana. Verkfall aðildarfélaga BSRB hafði til dæmis mikil áhrif á starfið í leikskólunum í vor og í sumar og á árinu var nýtt sorphirðukerfi tekið í notkun í samræmi við ný lög um hringrásarhagkerfið. Þær breytingar kröfðust útsjónarsemi í tengslum við nýtt flokkunarkerfi, ekki síst hjá íbúum.
Það er við hæfi að þakka bæjarbúum sérstaklega fyrir þolinmæðina og samstarfsviljann við innleiðinguna sem hefur gengið mjög vel.

Þjónusta við börn og fjölskyldur
Þjónusta við börn og fjölskyldur er í forgangi í Mosfellsbæ með öflugum leik- og grunnskólum, listaskóla, félagsmiðstöðvum og frístundastarfi. Þá er ótalið það góða starf sem íþróttafélög og önnur frjáls félagasamtök halda úti fyrir börn og unglinga. Það verður áfram haldið á þeirri braut að bjóða börnum sem verða eins árs 1. ágúst eða fyrr leikskólapláss en á árinu 2023 var plássum við einkarekna leikskólann LFA í Grafarvogi fjölgað um fjörutíu. Þá er uppbygging hafin á leikskólanum í Helgafellshverfi sem á að vera tilbúinn haustið 2025.
Á síðastliðnum 10 árum hefur orðið 40% fjölgun barna í leikskólum í bænum á móti 18% fjölgun grunnskólabarna. Á sama tíma hefur kostnaðarhlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lækkað úr 32% í 10%.
Áfram verður unnið að innleiðingu menntastefnu Mosfellsbæjar og nýrra farsældarlaga. Þá hefur skólaþjónustan verið efld en á síðasta ári fengu 386 börn aðstoð sérfræðinga á vegum hennar.

Þjónusta við eldri borgara
Á nýju ári munum við taka þátt í verkefninu „það er gott að eldast“ sem er samþætting heimahjúkrunar og heimastuðnings.
Markmið þróunarverkefnisins er að flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin þegar kemur að öldrunarþjónustu. Í Mosfellsbæ erum við með þjónustu á heimilum hjá rúmlega 200 eldri borgurum. Um þessar mundir er verið að gera könnun á upplifun þeirra á þjónustunni sem verður gagnleg inn í áframhaldandi vinnu við samþættinguna.

Þjónusta við fatlaða einstaklinga
Það var töluverð áskorun að taka við þjónustu við íbúa á Skálatúni sem eru 32 í dag og yfir 100 starfsmenn sem skiptu um vinnustað. Verkefnið hefur gengið vel og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá þjónustuþegum og starfsmönnum. Haustið 2024 munum við opna nýjan búsetukjarna við Úugötu og velferðarsvið er að leggja drög að frekari uppbyggingu í málaflokknum. Þá höfum við bætt aðgengi fyrir fatlað fólk víða í bæjarfélaginu í samstarfi við verkefnið Römpum upp Ísland.

Fjárfestingar
Það eru stór fjárfestingarverkefni fram undan á árinu 2024. Leikskólinn í Helgafellshverfi er stærsta einstaka verkefnið á árinu. Búið er að bjóða út gerð undirlags við Varmárvelli en skipt verður um gervigras á aðalvellinum á árinu 2024 og í framhaldinu verður nýr frjáls­íþróttavöllur lagður. Lóðin við Varmárskóla verður tekin í gegn og framkvæmdum utanhúss lokið við Kvíslarskóla. Þá er fram ­undan endur­skoðun á þarfagreiningu vegna þjónustubyggingar og mótun framtíðarsýnar fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ. Áfram verður unnið að uppbyggingu atvinnusvæðis við Blikastaði, unnið að gerð rammaskipulags fyrir miðbæinn og nýtt aðalskipulag klárað.

Horfum fram á veginn
Frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri hef ég skrifað vikulega pistla sem hafa birst á heimasíðu bæjarins. Þeir eru 53 talsins en ég hef tekið frí frá skrifum þegar bæjarstjórn hefur farið í leyfi. Markmiðið var að gefa innsýn í störf bæjarstjórans. Ég mun halda áfram á þessari braut en gera þær breytingar að birta mánaðarlega pistla og fjalla þá meira um einstök mál í stað yfirferðar um þá fundi og viðburði sem ég hef sótt.
Jarðhræringar hafa einkennt seinni hluta ársins 2023 með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir Grindvíkinga og hugur þjóðarinnar hefur verið hjá þeim. Þá eru blikur á lofti í heimsmálunum, bæði vegna ástandsins í Úkra­ínu og nú síðast á Gasa-svæðinu þar sem við horfum á hræðilegar afleiðingar stríðsins nánast í beinni útsendingu á hverju kvöldi. Á þriðja tug þúsunda íbúa hafa látist, aðallega konur og börn.
Við þessar aðstæður er svo auðvelt að verða vanmáttugur og upplifa að það sé ekkert hægt að gera í þessari stöðu. En það er ýmislegt hægt að gera og það minnsta er að taka utan um þá sem hafa flúið stríðsátökin og veita þeim skjól til að vaxa og dafna.
Mín heitasta ósk fyrir árið 2024 er að við förum inn í nýtt ár með mannúð og kærleik að leiðarljósi. Í því samhengi skiptir hvert og eitt okkar máli, því við höfum öll rödd.
Tökum því fagnandi á móti nýju ári og horfum bjartsýn fram á veginn.

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri

Þorum að horfa til framtíðar

Lovísa Jónsdóttir

Í desember var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Áætlunin er í senn metnaðarfull og ábyrg í því efnhagslega umhverfi sem nú ríkir.
Það er að mati meirihlutans skynsamlegra þegar kemur að framtíðaruppbygginu að taka sér tíma til að rýna hlutina og endurmeta þarfir sveitarfélagsins reglulega. Þannig að þær fjárfestingar sem ráðist er í séu hugsaðar til næstu 20-30 ára en ekki bara til að leysa bráðavanda. Sem dæmi má nefna að þarfagreining fyrir Varmársvæðið sem var unnin á árunum 2019-2021 gerði ekki ráð fyrir uppbyggingu á Blikastaðalandinu og tilheyrandi fjölgun íbúa.
Meirihluti B, S og C lista í bæjarstjórn vinnur samhentur að því að fylgja þeim markmiðum sem sett voru í málefnasamningi. Í því felst að horfa til framtíðar og gera raunhæfar áætlanir út frá greiningu. Við viljum meta þarfir bæjarbúa, áætla kostnað og fjárfestingargetu, vinna að fjármögnun og svo hefjast handa. Vinnulag sem flest öll fyrirtæki og heimili í landinu viðhafa.

Gjaldskrár og fasteignagjöld
Eins og áður er komið til móts við hækkun fasteignamats með því að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts. Notuð er nákvæmlega sama aðferð og mörg undanfarin ár. Þetta hefur starfsfólk fjármálasviðs ítrekað staðfest.
Milli umræðna í bæjarstjórn lagði meirihlutinn til að hækkun annarra gjalda yrði að meðaltali ekki hærri en 7,5% til að koma til móts við sameiginlega baráttu gegn verðbólgu. Jafnframt lýsti meirihlutinn því skýrt yfir að Mosfellsbær sé reiðubúinn til frekari lækkana ef þjóðarsátt allra aðila vinnumarkaðarins næst. Þessu til staðfestingar var samþykkt yfirlýsing þess efnis í bæjarstjórn í gær.
Sorphirðugjöld skera sig frá í þessum efnum þar sem nýsett lög kalla á breytingar í framkvæmd og krefjast þess að sveitarfélög rukki raunkostnað fyrir sorphirðu.

Breyttir stjórnarhættir
Ítrekað reynir Sjálfstæðisflokkurinn að slá ryki í augu bæjarbúa vegna breytinga á skipuriti. Því hefur meðal annars verið haldið fram að búið sé að stórauka starfsmannafjölda, sérstaklega í yfirstjórn. Hið sanna er hinsvegar að einungis hefur verið fjölgað um eitt stöðugildi í yfirstjórn.
Önnur aukning kemur í kjölfar yfirtöku bæjarins á rekstri Skálatúns og eðlilegrar fjölgunar starfsfólks í fræðslumálum og velferðarþjónustu í takti við aukinn íbúafjölda.
Í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt sem unnin var fyrir bæinn kom margt í ljós sem þurfti að lagfæra í rekstri bæjarins og hefur frekari vinna sýnt þá ríku þörf sem var á að bæta verkferla og ákvarðanatöku.
Mörg gömul þrætuefni hafa verið til lykta leidd og vegur þar þyngst að fundin var lausn á málefnum Skálatúns.

Framtíðarsýn
Það þarf vissulega þor til að breyta vinnuháttum og að hugsa stærra, horfa lengra fram í framtíðina, en við höldum áfram ótrauð, óhrædd og samheldin. Já, við þorum getum og viljum, enda erum við að vinna fyrir bæjarbúa alla.
Með bestu óskum til allra bæjarbúa um farsælt ár og ósk um góða samvinnu og samveru á árinu.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Hlégarður kominn heim

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hlégarður á sérstakan stað í hjörtum Mosfellinga á öllum aldri. Hlégarður skipar stóran sess í hugum allra íbúa sem unna menningu og félagslífi ýmiss konar.
Því er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með öllu því lífi og allri þeirri gleði sem sívaxandi starfsemi í húsinu veitir út í samfélagið. Má í því sambandi nefna sögukvöld sem Menningar- og lýðræðisnefnd hefur staðið fyrir og mjög góður rómur var gerður að.
Félagsstarfið í Mosfellsbæ hefur staðið fyrir opnu húsi alla þriðjudaga þar sem alls kyns afþreying hefur staðið til boða fyrir eldri íbúa bæjarins. Þá hefur Félag aldraðra staðið fyrir reglubundnum menningaratburðum í húsinu. Fjölmennt ungmennaþing í tengslum við innleiðingu verkefnisins barnvænt sveitarfélag var haldið í húsinu og tókst frábærlega.
Við viljum líka nefna tónleika Barnajazz í Mosfellsbæ þar sem mosfellskir jazzkrakkar spiluðu með öðrum innlendum og erlendum jazzgeggjurum á sínu reki. Síðast en ekki síst var haldinn vel heppnaður íbúafundur um sköpun rýmis fyrir menningarstarfsemi í Mosfellsbæ.
Fyrir utan þessa viðburði hafa fjölmargir af svipuðum toga verið haldnir í húsinu sem og fjölbreyttir tónleikar. Er þar skemmst að minnast tónleika Gretu Salóme á aðventunni og vel heppnaðrar tónleikaraðar Gildrunnar síðastliðið haust. Þessi upptalning sýnir dæmi um þann fjölbreytileika sem ríkir í viðburðum í Hlégarði.

Hrafnhildur Gísladóttir

Reksturinn
Eitt þeirra áhersluatriða sem meirihluti B, S og C lista settu á oddinn í sínu meirihlutasamstarfi var að efla Hlégarð. Við vildum taka Hlégarð aftur heim en eins og kunnugt er hafði rekstri hússins verið útvistað til einkaaðila um langt árabil.
Nokkurn tíma tók að undirbúa þá ákvörðun enda þurfti að vanda vel til verka. Starfsfólk stjórnsýslu bæjarins skoðaði hvernig rekstri slíkra félagsheimila eða samfélagshúsa væri háttað og best fyrir komið. Niðurstaðan varð að setja rekstur Hlégarðs inn í svokallaðan B-hluta rekstur. Innan B-hluta rekstrar er starfsemi sem ekki er rekin beint af bæjarsjóði heldur innan sérstaks dótturfélags með skilgreint hlutverk og ábyrgð.
Það er alveg ljóst að hér í bænum er þörf fyrir og eftirspurn eftir aðstöðu eins þeirri sem Hlégarður býður. Þess þarf að gæta séstaklega vel að því að sú starfsemi sem einkaaðilar standa fyrir í húsinu, s.s. veislur eða tónleikar, sé ekki niðurgreidd af almannafé.
Einnig þarf að gæta að því að gjaldtakan undirbjóði ekki útleigustarfsemi af svipuðum toga í bænum enda um samkeppnismarkað að ræða. Gjaldskráin þarf því að taka mið af raunkostnaði við rekstur hússins að viðbættum virðisaukaskatti.

Framtíðin
Áfram þarf að halda með endurbætur á Hlégarði og móta þarf stefnu um hvers konar starfsemi eigi að vera á efri hæð hússins. Það stendur upp á kjörna fulltrúa. Sú stefna er nauðsynleg til að endurbætur þjóni væntanlegri starfsemi. Starfsemin í Hlégarði er þróunarverkefni sem tekur breytingum með aukinni reynslu og þekkingu þeirra sem þar koma að.
Við teljum okkur lánsöm að hafa ráðið öflugan og áhugasaman verkefnastjóra fyrir Hlégarð, Hilmar Gunnarsson, sem er öllum hnútum kunnugur í félags- og menningarlífi Mosfellsbæjar og nýtur samstarfs við fleira öflugt fólk innan stjórnsýslu bæjarins. Hlégarður er kominn heim og spennandi þróun fram undan.

Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi S lista
Hrafnhildur Gísladóttir, formaður menningar- og lýðræðisnefndar, B lista

Gildistími frístundaávísana og fjárhagsáætlun

Dagný Kristinsdóttir

Þann 6. desember síðastliðinn var fjárhagsáætlun ársins 2024 samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar lagði fram tvær breytingartillögur við fjárhagsáætlun. Fyrri tillagan sneri að því að ráða inn fjármálaráðgjafa fyrir skólastjórnendur og sú seinni laut að frístundaávísunum og gildistíma þeirra.

Frístundaávísanir gildi í 12 mánuði
Frístundaávísun er framlag sveitarfélagsins til að börn eigi þess kost að sækja sér íþrótta- eða tómstundaiðkun, óháð efnahag og aðstæðum foreldra og forráðamanna.
Tillagan um frístundaávísanir laut að því að reglum um ávísanirnir yrði breytt á þann veg að gildistími þeirra verði 12 mánuðir í stað níu eins og nú er. Kostnaður við tillöguna er óverulegur, þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni fjárhæð í fjárhagsáætlun fyrir frístundaávísanir.
Markmið tillögunnar er að öll börn sitji við sama borð og eigi jöfn tækifæri til að sækja sér íþróttaþjálfun eða tómstundanámskeið allt árið um kring. Við erum með hóp barna, íslensk sem erlend, sem finna sig ekki í hefðbundnu íþrótta- eða tómstundastarfi að vetri til og standa oft félagslega höllum fæti. Við sem eigum börn sem hafa átt erfitt félagslega vitum hversu erfitt er að virkja börnin og fá þau til að prófa hin ýmsu námskeið.
Hversu mikill vanmáttur felst í því að eiga ekki vin eða vinkonu sem getur farið með á námskeið eða á æfingu. Á sumrin breytist úrval námskeiða. Þá koma fram námskeið sem geta vakið áhuga barna, en þá er það fjárhagur foreldra sem ræður því hvort barn geti sótt námskeiðin.
Athygli okkar hjá Vinum Mosfellsbæjar var vakin á öðru sjónarhorni á sumarstarf barna og það eru foreldrar með lítið bakland, oft af erlendum uppruna sem þurfa að púsla saman sumarfrísmánuðum skólanna. Þau eru mörg að taka lengra sumarfrí og þá launalaust til að vera með börnum sínum. Því myndi sá möguleiki að nýta frístundaávísun að sumri til vera viðleitni sveitarfélagsins til að foreldrar geti sinnt sínum störfum og börnin verið ánægð á sínum námskeiðum.
Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og er ég þakklát samstarfsfólki mínu í bæjarstjórn fyrir það að gera öllum börnum kleift að sækja sér áhugaverðar frístundir allt árið um kring.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Hvernig viljum við sjá bæinn okkar þróast?

Einar Páll Kjærnested

Á þeim 50 árum sem ég hef búið í Mosfellsbæ, þá hef ég verið sannfærðari og sannfærðari um að það sé best að búa í Mosfellsbæ.
Við höfum okkar sérkenni innan höfuðborgarsvæðisins sem erfitt er að útskýra fyrir utanbæjarmönnum, en hugtakið sveit í borg er ein leiðin til að útskýra þetta. Við erum enn pínu sveitó og ég held að flest okkar vilji bara vera það. Við eigum eitt íþróttafélag – við erum öll í Aftureldingu – vonandi breytist það aldrei. Svo eigum við félagsheimilið Hlégarð – hversu sveitó er það?

Ég var að rýna í niðurstöður úr áhugaverðri rannsókn sem Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, vann fyrir Reykjavíkurborg um „Félagslegt landslag í Reykjavík (og nágrenni)“ og kynnt var sl. föstudag.
Í skýrslunni er mjög áhugaverður samanburður á íbúasamsetningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu út frá ýmsum sjónarhornum.
Þar kemur m.a. fram að:
– meðalaldur íbúa í Mosfellsbæ er lægstur á höfuðborgarsvæðinu (35,7 ár)
– hlutfall barna undir 18 ára aldri er hæst í Mosfellsbæ (26%)
– hlutfall fólks á eftirlaunaaldri (+66 ára) er með því hæsta á höfuðborgarsvæðinu (16,5%)
– hlutfall barna sem voru með lögheimili hjá einstæðu foreldri er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu (17,9%).
Svo þegar kemur að samanburði á tekjujöfnuði á milli sveitarfélaga, þá kemur Mosfellsbær best út allra sveitarfélaganna.
Við erum með lægsta Gini-stuðul ráðstöfunartekna (0,268), hlutfall á milli meðaltals og miðgilds eiginfjárstöðu heimila var það næst besta á höfuðborgarsvæðinu og lágtekjuhlutfall (innan við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna) var það lægsta innan höfuðborgarsvæðisins (10,9%).
Þessi rannsókn sýnir okkur bara enn einn vinkilinn á því að Mosfellsbær er einstakt sveitarfélag samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Útskýringar á því af hverju Mosfellsbær kemur svona vel út úr þessari könnun eru eflaust margþættar, en ég efast ekki um að sú staðreynd að í Mosfellsbæ er áberandi önnur samsetning á íbúðabyggð en í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, er ein af skýringunum.
Í Mosfellsbæ er ca. 50% íbúða í sérbýli og 50% íbúða í fjölbýli. Stærð í íbúða í sérbýli í Mosfellsbæ er líka sérstök, þar sem við erum með hátt hlutfall af litlum sérbýlishúsum. Einnig erum við með áberandi hátt hlutfall af litlum fjölbýlum, eins og 4-8 íbúða fjölbýlum með sér inngangi. Þetta hefur þó breyst mjög hratt sl. 10 ár, þar sem allur fókus hefur verið á að byggja stór fjölbýlishús með lyftu og bílakjallara.
Við þurfum að gæta að því að uppbygging íbúðarhúsa verði ekki of einsleit á næstu árum, til að eyðileggja ekki þetta jafnvægi á milli sérbýla og fjölbýla, sem við búum við í dag
Ég vona svo sannarlega að bæjarfulltrúar okkar kynni sér þessa könnun og að þeir velti fyrir sér, hvað er það sem skilgreinir okkur sem Mosfellinga og af hverju er svona gott að búa í Mosfellsbæ? Af hverju vilja fjölskyldur ala upp börn í Mosfellsbæ, og af hverju vill eldra fólki búa áfram í Mosfellsbæ?
Af hverju er félagslegur jöfnuður meiri í Mosfellsbæ en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu?
Að lokum vona ég að bæjarfulltrúar Mosfellsbæjar falli sem fyrst frá þeim hugmyndum að byggja upp þétta borgarbyggð í landi Blikastaða, en skv. drögum að aðalskipulagi, sem kynnt voru í sumar, þá gerir sveitarfélagið ráð fyrir að byggðin á Blikastöðum verði svo til þrefalt þéttari (45,3 íb/ha) en byggðin í Holta-, Tanga og Höfðahverfi (nú 15,4 íb/ha).
Þar ráðgerir Mosfellsbær að 80% allra íbúða skuli vera í fjölbýli, en eingöngu 20% í sérbýli.
Þetta er í engu samræmi við aðra byggð í bænum okkar og ég er sannfærður að þetta muni gjörbreyta þessu viðkvæma jafnvægi sem gerir Mosfellsbæ eins góðan og hann er í dag.

Einar Páll Kjærnested

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2024

Ásgeir Sveinsson

Meirihluti Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Viðreisnar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Það vakti mikla athygli að meirihlutinn lagði fram 14 breytingartillögur um eigin fjárhagsáætlun á milli umræðna, sem er einsdæmi og lýsir það kannski best hversu ósamstíga meirihlutinn er og sérkennilegum undirbúningi áætlunarinnar.

Meirihlutinn talar um viðsnúning í rekstri bæjarins, en bent skal á að tekjuafgangur og jákvæð niðurstaða rekstrar á líðandi ári stafar eingöngu af stórhækkuðum sköttum og álögum á bæjarbúa og að auki vegna hærri tekna t.d. af byggingaréttargjöldum og lóðasölu, sem reyndar eru einskiptis tekjur.
Fulltrúum meirihlutans er tíðrætt um erfitt efnahagsástand og að fjárhagsstaða Mosfellsbæjar sé erfið, en þrátt fyrir það eru engar tillögur í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2024 um aðhald eða sparnað. Þvert á móti er stóraukning útgjalda, aukning í starfsmannafjölda og þá sérstaklega í yfirstjórn og í skrifstofukostnaði bæjarins og er sú þróun í takt við nýtt skipurit í anda Reykjavíkurborgar.

Í þeirri óvissu sem nú er í efnahagsmálum, er mikilvægt að sýna ábyrgð í fjármálastjórnun og rekstri, forgangsraða rétt og að gera raunhæfar áætlanir bæði á tekju- og útgjaldahliðum.
Fulltrúa D-lista í bæjarstjórn vildu að í fjárhagsáætlunni yrði tekjuhlið bæjarins endurskoðuð, að lágmarka hækkanir á sköttum og álögum á íbúa og lögðum við m.a. fram tillögu varðandi aukið öryggi á golfvellinum, uppbygginu á Varmársvæðinu og lagfæringar á Hlégarði.

Skattar og álögur hækka áfram
Fasteignaskattar Mosfellinga munu hækka umtalsvert annað árið í röð, sorphirðugjöld hækka mjög mikið, auk þess sem aðrar gjaldskrár hækka of mikið að okkar mati. Þessar hækkanir eru ekki góðar í baráttunni við verðbólgu og hátt vaxtastig og ekki jákvæðar fyrir komandi kjarasamningsviðræður, auk þess að vera almennt íþyngjandi fyrir bæjarbúa í núverandi efnahagsástandi.

Það gengur hægt að þoka framkvæmdum í Mosfellsbæ áfram, lóðaútlutanir hafa ítrekað dregist á langinn, bygging leikskóla í Helgafelli verður 1-2 árum á eftir áætlun, auk þess sem algjör óvissa ríkir um hvenær nauðsynlegar löngu ákveðnar framkvæmdir á íþróttasvæðinu að Varmá fari í gang.
Samstarf Aftureldingar og Mosfellsbæjar er ekki í góðum farvegi eftir að forsvarsmenn Aftureldingar sögðu sig frá samstarfi við bæinn vegna samstarfsörðugleika við meirihlutann og er sú staða óásættanleg.

Á vegum bæjarins hafa verið settir á stofn ýmsir starfshópar, ráðnir hafa verið verkefnastjórar í alls konar verkefni sem sum hver er þegar búið að vinna innan sviða Mosfellsbæjar, en það dugir ekki til því pólitískt þor er ekki fyrir hendi hjá meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar til að taka mikilvægar ákvarðanir.
Þessi vinnubrögð gera það að verkum að áætlanir raskast með tilheyrandi óþægindum og kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.
Í rekstri ört stækkandi sveitarfélags eins og Mosfellbæjar, þarf öflugan, samheldinn og ábyrgan meirihluta sem þorir að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir og standa með þeim, og láta verkin tala.

Bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munu áfram styðja góðar tillögur meirihlutans og hvetja þau áfram til góðra verka. Við munum einnig halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri og leggja þannig okkar af mörkum til að áfram verði best að búa í Mosfellbæ.
Ég sendi bæjarbúum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Ásgeir Sveinsson
bæjarfulltrúi
oddviti D-lista

Njótum í núinu

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er auðvelt í amstri hversdagsins að detta í sjálfstýringuna og sérstaklega í kringum hátíðirnar.
Mikilvægt er að við gefum sjálfum okkur þá gjöf að staldra við, draga djúpt andann og taka inn augnablikið. Upplifa og njóta líðandi stundar.

Veitum athygli
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Veitum börnunum okkar óskipta athygli, hlustum á þau, verum áhugasöm og tökum virkan þátt í lífi þeirra. Þannig veitum við þeim gott veganesti út í lífið og munið líka að við fullorðna fólkið erum þeirra helstu fyrirmyndir. Veitum sjálfum okkur athygli, leyfum okkur að njóta og slaka á. Við þurfum ekki að gera allt í einu, einbeitum okkur að því sem við erum að gera þá stundina og veitum því athygli. Finnum fyrir eigin líðan og tilfinningum án þess að dæma. Þannig getum við öðlast innri ró sem gerir okkur auðveldara að takast á við áreiti daglegs lífs.

Lifum og njótum
Gefum okkur tíma með sjálfum okkur þar sem við fjarlægjum okkur frá áreiti hvers konar. Við getum t.d. farið í göngu, fundið hvernig veðrið leikur við andlitið, andað að okkur hreina loftinu, upplifað fegurð náttúrunnar, hvernig við segjum skilið við áhyggjur og byggjum upp nýja orku innra með okkur. Hlustum á ástvini okkar og veitum þeim óskipta athygli án þess að koma með óumbeðin ráð, stundum þarf nefnilega bara einhvern til að hlusta. Skipuleggjum samverustundir með fólkinu okkar, gerum eitthvað skemmtilegt og ekki er verra að hlæja saman. Sköpum dýrmætar minningar.

Gerum góðverk
Góðverk er hægt að gera á margvíslegan hátt, allt eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Gefum af sjálfum okkur, við höfum öll ýmislegt að gefa. Ræktum sambandið við ástvini okkar og heimsækjum og/eða spjöllum við þá sem eru einmana. Við getum látið eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Aðstoðum aðra, þarf ekki að vera meira en að halda hurð opinni! Bjóðum góðan daginn og brosum – góðverk þurfa nefnilega ekki að kosta neitt en gleðja bæði þann sem nýtur og þann sem gefur.

Á þessum nótum óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og hamingju og gleði á komandi ári um leið og við þökkum hjartanlega fyrir samstarfið á liðnum árum. Lifið heil!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­­fræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Uppskera ársins

Birna Kristín Jónsdóttir

Það er komið að þessum skemmtilega tíma ársins þar sem við förum yfir uppskeruna okkar.
Árið hjá Aftureldingu er búið að vera bæði gott og erfitt. Í vor uppskárum við bikarmeistaratitil í handboltanum eftir ansi langt hlé, stelpurnar stoppuðu stutt í Grillinu og eru komnar aftur í efstu deild og strákarnir í fótboltanum náðu sínum besta árangri en fóru ekki upp um deild þó svo að þeir hafi endað í 2. sæti. En við förum betur yfir þetta allt saman á uppskeruhátíðinni 27. desember.

Þegar ég horfi til baka yfir árið þá finnst mér þetta hafa verið mitt erfiðasta ár sem formaður Aftureldingar, en ég held að því sé um að kenna að við erum með mikla vaxtarverki í félaginu. Það fylgir því þegar bæjarfélagið stækkar og iðkendum fjölgar að við erum öll að berjast um sömu krónurnar og að aðstöðumálin þurfa að fylgja með.
Betri árangur og þátttaka í efstu deildum kallar á betri aðstöðumál. Það kallar líka á fleiri hendur af okkar hálfu, hvort sem er sjálfboðaliðar á leiki eða starfsfólk á skrifstofu. Við til dæmis slógum hvert metið á fætur öðru í fjölda áhorfenda í vor og sumar bæði í handbolta og fótbolta, og umgjörðin maður minn hjá þessum ráðum var til fyrirmyndar.

Það stærsta í aðstöðumálum fram undan er að fá gervigras á gamla aðalvöllinn sem er langþráð og verður allt annað líf. Við vonum svo að björtustu vonir haldi og við verðum komin af stað með þjónustubyggingu og stúku áður en langt um líður.
Þó svo að það hljómi þannig að við í Aftureldingu séum aldrei kát og ekkert sé nógu mikið fyrir okkur þá erum við mjög þakklát fyrir allt sem er gert í aðstöðumálunum okkar, það er mjög myndugt framlag bæjarins á árinu 2024 til aðstöðumála og það að fá styrktarþjálfunaraðstöðuna aðlagaða að afreksstarfinu okkar er þvílík lyftistöng.

Aðstöðuvandinn er hins vegar uppsafnaður vandi og það verður að segjast alveg heiðarlega að það er rosalega slítandi að vera alltaf að berjast fyrir sömu hlutunum aftur og aftur og aftur.
Ég ætla rétt að vona að núna sé að koma fram tímalína framkvæmda við Varmá þannig að við í Aftureldingu getum farið að sinna okkar innri uppbyggingu af því að allt okkar púður hefur farið í aðstöðumál og að bregðast við bráðavanda undanfarin ár.

Ég er búin að vera í aðalstjórn í tæp 9 ár og formaður Aftureldingar í tæp 6 ár, ég hef lagt mig alla fram um að vinna af heiðarleika fyrir Aftureldingu og tel mig geta horft stolta til baka.
Ég veit að ég er ekki alltaf vinsæl og það getur verið sárt þegar fólk hættir tímabundið að heilsa mér út af erfiðum ákvörðunum sem snúa að heildinni, en ef ég væri í vinsældakeppni þá væri ég örugglega ekki búin að vera svona lengi. Mér þykir undurvænt um félagið mitt og ég hreinlega elska að sjá það vaxa.
Ég met það svo að það sé kominn tími á aðra rödd í forsvari félagsins og ég mun hætta sem formaður á næsta aðalfundi. Ég veit að það er alltaf erfiðara og erfiðara að fá sjálfboðaliða en ég vona svo innilega að einhver góð(ur) taki að sér að taka við keflinu.
Ég hlakka til að sjá ykkur á uppskeruhátíð félagsins milli jóla og nýárs og óska þess að þið eigið öll gleðileg jól.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar

Af vettvangi sveitarstjórnarmála

Dagný Kristinsdóttir

Nú er liðið eitt og hálft ár af kjör­tímabilinu og fyrir græningjann er gott að líta yfir farinn veg. Þessi tími hefur verið krefjandi en umfram allt áhugaverður og lærdómsríkur.
Það er ákveðin upplifun að fá brautargengi inn í bæjarstjórn og vera treyst fyrir því að taka ákvarðanir fyrir hönd fólksins í bænum. Ég hef nálgast verkefnið á þann veg að starfa í þjónustu samfélagsins, en þannig var mér seld hugmyndin að því að gefa kost á mér.

Verkefnin
Áður en aðild að sveitastjórnarmálum kom til var ég svona temmilega áhugasöm um málefni sveitarfélagsins en núna velti ég öllu fyrir mér. Við hjónin höfum tekið ófáa rúnta þar sem þessi framkvæmdin og hinn húsgrunnurinn er skoðaður.
Allt í einu er ég komin á kaf í skýrslur um urðun sorps á Álfsnesi, hvernig sé best að úthluta lóðum, hvernig lýsing eigi að vera í bænum (LED eða ekki), hvað Strategía leggur til í breytingum á skipuriti, hvort sorpið sé losað í dag eða á morgun. Að ég tali ekki um flokkun á sorpi (sem reynist mér mikill hausverkur) en maðurinn minn hefur sem betur fer tekið verkefnið fastari tökum en ég.
Svo koma aðrir hlutir eins og fjárfestingaráætlun og fjárhagsáætlun heils sveitarfélags. Þá er maður boðaður á undirbúningsfund þar sem fyrir liggja glærur í tugatali og enn fleiri blaðsíður af fjárhagsáætlun komandi árs. Svo þarf að kafa ofan í öll gögnin, skoða og ekki síst að mynda sér skoðun á þessu öllu saman. Ég viðurkenni það fúslega að mér féllust hendur á þessum fyrsta undirbúningsfundi sem fór fram fyrir ári síðan.

Reglurnar
Svo eru það reglurnar og það er nú eins gott að læra þær! Til allra funda er boðað með tilteknum hætti, með lögbundnum fyrirvara og hefðbundinni dagskrá … og það er alveg nóg af fundum. Kosturinn er sá að þeir eru haldnir innan tiltekins tímaramma og það er gengið út frá því að fólk mæti undirbúið.
Bæjarráð fundar til dæmis einu sinni í viku í 90 mínútur í senn og með góðu skipulagi er hægt að keyra mörg mál í gegn. Einu fundirnir sem eru án hefðbundins tímaramma eru fundir bæjarstjórnar. Þá er hægt að sjá í beinu streymi og eftir á á Youtube og það hef ég nýtt mér það óspart. Það er lærdómsríkt að skoða gamlar upptökur og læra formið og tungumálið.

Fyrsta árið og rúmlega það fer í að læra á umhverfið og aðlagast vinnubrögðunum, það á ekki bara við um mig heldur svotil allt nefndafólk í mínu framboði. En nú er festan komin.
Við erum búin að læra hvernig hlutirnir virka og til hvers er ætlast af okkur. Við hlökkum til nýs árs og þess að vinna að hagsmunum bæjarins.

Fyrir mína hönd og míns hóps óska ég bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ár.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Líflegt starf í hestamannafélaginu

Það hefur verið venju fremur líflegt í hesthúsahverfinun í haust, enda veður verið milt og gott.
Krakkarnir í félagshúsinu eru komin á fullt í sinni hestamennsku, námskeið fyrir þau og önnur börn í félaginu hafa farið af stað með krafti og haustið er notað vel jafnt til útreiða og þjálfunar hrossa og uppbyggingar ungu knapanna sjálfra.
Hópur í endurmenntunarnámi við LBHÍ sem heitir reiðmaðurinn hefur verið við nám hér í Herði í haust og heldur áfram í vetur, 14 kátar Harðarkonur í þeim hressa hóp hafa lífgað upp á lífið í hverfinu. Framhaldsskólinn er sem fyrr með kennslu í reiðhöllinni og alltaf gaman að sjá þá nemendur blómstra sem hafa kosið sér hestamennsku sem fag í skólanum.
Dagskráin fram undan er þétt og glæsileg, námskeið og sýnikennslur, mót og alls konar samvera halda hestamönnum á öllum aldri í Mosfellsbæ við efnið fram á vor. Í sumar er svo Landsmót hestamanna í Reykjavík og við í Herði ætlum enn fremur að halda hér Íslandsmót barna og unglinga dagana 19.-21. júlí, mikil tilhlökkun að takast á við það verkefni sem verður án efa skrautfjöður fyrir bæjarfélagið. Verið er að vinna að endurbótum á keppnisvellinum svo við verðum sem best undir það búin að halda þetta stóra mót.
Fyrir hönd hestamanna í Herði óska ég öllum Mosfellingum og nærsveitarmönnum gleði og friðar um jól og áramót. Megi nýtt ár verða gott og gjöfult.

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður Harðar

Framtíðarsýn á íþrótta­svæðinu að Varmá

Halla Karen Kristjánsdóttir

Að Varmá koma þúsundir Mosfellinga og gesta á ári hverju til að stunda ýmiss konar íþróttir. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera með skýra framtíðarsýn þegar kemur að áframhaldandi uppbyggingu, þar sem aðstaðan er komin að þolmörkum.
Nýr meirihluti fékk verkefnalista frá fyrra kjörtímabili sem er skrifaður inn í skýrslu sem Efla gerði fyrir Mosfellsbæ og gefin var út í mars 2021. Þessi skýrsla er góður grunnur og hægt er að vera sammála flestu sem þar kemur fram. Hinsvegar hefur legið fyrir að vilji er til þess að endurskoða ákveðna þætti.
Sú endurskoðun snýr aðallega að þjónustubyggingu sem átti að ráðast í á árinu 2022. Verkefnið var boðið út vorið 2022 en engin tilboð fengust. Í málefnasamningi nýs meirihluta kom fram vilji til þess að endurskoða þjónustubygginguna. Það var mat okkar sem stöndum að þeim samningi að sú hönnun sem er til staðar og er upprunalega frá árinu 2008, með viðbótum, muni ekki þjóna íþróttastarfsemi bæjarins á þessu svæði þegar til framtíðar er litið.
Við þurfum að hugsa stærra og það er alveg ljóst að til að ráðast í slíka framkvæmd þurfa markmiðin að vera skýr.

Tíminn er vel nýttur
Vinna við að skoða möguleika á uppbyggingu að Varmá og framsetningu á framtíðarsýn svæðisins hófst strax sumarið 2022.
Til þess að láta verkefnið ekki líða fyrir áherslubreytingu meirihlutans, sem liggur aðallega í að endurskoða hönnun þjónustubyggingar, var ráðist í endurnýjun gervigrasvallar og sett upp vökvunarkerfi.
Einnig hefur verið sett fram gróf hönnun á endurnýjun aðalvallar og frjálsíþróttasvæðisins. Þegar sett er gervigras á knattspyrnuvöll breytir það möguleikum á samspili frjálsra íþrótta og knattspyrnu mikið. Af öryggisástæðum er ekki hægt að bjóða upp á æfingar frjálsra íþrótta samtímis leikjum á vellinum. Það er fyrirséð út frá miklum iðkendafjölda í knattspyrnu að mikil notkun verður á aðalvellinum. Lagðar hafa verið til í fjárhagsáætlun framkvæmdir við endurnýjun aðalvallar á árinu 2024 og í beinu framhaldi verður farið í frjálsíþróttasvæðið.

Samhugur í Mosfellingum
Við höfum mikinn skilning á metnaði þeirra fjölmörgu aðila sem halda úti íþróttastarfi að Varmá og við deilum honum. Við höfum líka mikinn skilning á þeirri óvissu sem getur skapast þegar nýir aðilar koma að málum.
Til að eyða allri óvissu þá viljum við taka skýrt fram að við erum sammála þeim verkefnum sem talin eru upp í áðurnefndri skýrslu Eflu. En við viljum tryggja að fjármagninu sé vel varið og að byggt verið af metnaði og til framtíðar. Það er ljóst að til að svo geti orðið þarf að breyta forgangsröðun verkefna. Við vonumst til að geta unnið að þessum málum í sátt við þá hagaðila sem starfa á svæðinu.
Settur verður saman hópur til að stilla upp endurskoðaðri framtíðarsýn fyrir svæðið sem tekur tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og bætir við hana. Enn fremur er hópnum ætlað að leita að og koma með tillögur að tekjuöflun fyrir uppbygginguna, þar sem það er ljóst að þjónustubygging til framtíðar verður dýrari en sú sem lagt var upp með í skýrslu Eflu.
En fyrir næstu þrjú árin hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru fram undan að afla tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá. Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs

Skráningardagar á leikskólum og endurskoðun leikskólagjalda

Dagný Kristinsdóttir

Snemmsumars var samþykkt að taka upp skráningardaga í leikskólum bæjarins. Vinnulag sem átti að leysa tvær áskoranir í leikskólastarfinu; vinnutímastyttingu starfsmanna og mönnunarvanda sem meðal annars þurfti að mæta með lokun deilda.
Á fundum kom ósjaldan fram sú trú margra að þetta verklag myndi stórbæta mönnun því fólk fengist frekar til starfans. Á sama tíma gerist það að margir starfsmenn í fleiri en einum leikskóla bæjarins kusu að segja starfi sínu lausu eða fara í launalaust leyfi. Þetta gerist þrátt fyrir að vinnutímastyttingin sé formlega bundin í starfið. Það segir manni að eitthvað annað og meira í starfsumhverfinu hafi áhrif en vinnutíminn einn og sér.

Tillaga felld en önnur lögð fram
Á fundi bæjarstjórnar þann 21. júní síðastliðinn lagði undirrituð fram tillögu um stofnun starfshóps sem hefði það markmið að fara heildstætt yfir stöðu leikskólamála í bænum.
Þar segir m.a. „Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna. Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.“

Þessi tillaga var felld með þeim orðum að þessi vinna væri þegar hafin. Hún var ekki meira hafin en svo að á fundi fræðslunefndar sem fór fram í byrjun nóvember lagði meirihlutinn fram tillögu að stofnun starfshóps sem hefur það markmið að „greina stöðuna eins og hún er í dag, bæði með tilliti til velferðar barna og starfsumhverfis í leikskólum.“
Þessi nýi starfshópur á áhugavert verk fyrir höndum. Fyrir utan að skoða starfsumhverfið á hann að fara skipulega yfir gjaldskrá leikskólanna, leggja til breytingar á henni og einnig á að rýna í þær breytingar sem sveitarfélögin í kringum okkur eru að gera. Sérstaklega var bent á nokkra þætti og eru þeir t.d. almenn gjaldtaka vegna vistunartíma, opnunartími, hámarksvistunartími, vinnutímastytting og biðlistagreiðslur. Það verður áhugavert að sjá að hvaða niðurstöðu hópurinn kemst.

Leikskólaforeldrarnir
En hvernig lítur þetta allt út gagnvart foreldrum? Ég, sem leikskólaforeldri hefði fengið tölvupóst í sumar þar sem fram kom að búið væri að ákveða skráningardaga og síðar annan þar sem mér væri tjáð að búið væri að breyta vistunarsamningi barnsins míns til kl 14.00 á föstudögum, einhliða.
Vinnan mín á föstudögum tæki mið af því að ég fari úr húsi upp úr kl. 13.00 til að sækja börnin mín. Ég þyrfti að vinna lengur aðra daga eða um helgar til að ljúka vinnutímanum, tek jafnvel sumarfrísdaga, því mín vinnutímastytting er ekki á pari við leikskólann. Suma daga þarf ég, til viðbótar við föstudagana, að sækja fyrr vegna þess að deildin lokar vegna manneklu og að lokum þarf ég að muna eftir blaðinu sem hangir uppi á deildinni og skrá barnið mitt í vistun þá föstudaga sem ég er föst í vinnu. En það veit ég ekki endilega með átta daga fyrirvara.
Sem foreldri myndi ég líklegast ekki skilja af hverju þetta fyrirkomulag er best og af hverju ég mátti skrá barnið mitt nokkra föstudaga fram í tímann en svo allt í einu mátti það ekki lengur. Og ég ætti líka erfitt með að skilja af hverju enginn kannaði upplifun mína á öllum þessum breytingum.
Styrkleiki hvers stjórnanda/meirihluta er að fagna góðum hugmyndum og veita þeim brautargengi, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Það er því hálf broslegt að hafna einni tillögu og leggja svo fram aðra af sama meiði nokkrum mánuðum seinna.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Mennt er máttur og lestur er grunnurinn

Bryndís Haraldsdóttir

Íslenskt atvinnulíf og samfélag á allt undir því að börnin okkar komi heilsteypt og full sjálfstrausts út úr menntagöngu sinni. Læsi er þar lykilbreyta.
Tungumálið opnar dyr að menningu þjóða og hefur reynst lykilþáttur í inngildingu þeirra sem flytjast til Íslands.
Undanfarin ár hafa komið fram mælingar sem sýna vaxandi áskorun íslenskra barna þegar kemur að lestri og málskilningi. PISA niðurstöður sýna t.a.m. að 34,4% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og nær fimmtungur stúlkna. Á þessu ári hefur verið umfangsmikil úttekt í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og eru heildarniðurstöður væntanlegar á næstu misserum.
Samkvæmt menntamálaráðuneytinu er ein lykilniðurstaða úr þeirri vinnu að íslensk börn, sérstaklega drengir, þurfi aukinn tungumálastuðning, þá helst á fyrstu árunum á menntagöngu sinni.
Hermundur Sigmundsson hefur á síðustu misserum verið óþreytandi í umræðu um lestrarkunnáttu og breytta nálgun í kennsluháttum. Ég hef setið nokkra fundi með Hermundi og sótt ráðstefnur um hið frábæra verkefni Kveikjum neistann, verkefni sem keyrt hefur verið í Vestmannaeyjum og skilað mjög góðum árangri. Kannski ætti Mosfellsbær að innleiða það verkefni næst.
Hermundur hefur staðið fyrir komu erlendra fræðimanna hingað til lands og það var einmitt á slíkum fundi sem ég heyrði fyrst um Graphogame sem er finnskur lestrartölvuleikur. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Leikurinn hefur verið aðgengilegur finnskum börnum undanfarin ár.
Graphogame hefur verið staðfært á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Það þýðir að aðferðafræðin hefur skilað framúrskarandi mælanlegum árangri í læsi þvert á tungumál.

Íslensk útgáfa
Á undanförnum misserum hefur verið unnið að íslenskri staðfærslu á finnska lestrartölvuleiknum. Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf. standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu, sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Billboard fjármagnar verkefnið ásamt því að tryggja og viðhalda vitund almennings fyrir leiknum næstu fimm árin.
Mikið vona ég að þessi leikur komist í verkfærakistur kennara sem víðast, en Kópavogur verður fyrstur til að prófa þetta í sínum skólum, vonandi fylgir Mosfellsbær í kjölfarið.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar

Jólagjöfin í ár

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er sá árstími þar sem margir eru að brjóta heilann um hvað skuli gefa í jólagjafir.
Slíkt getur stundum verið þrautin þyngri þar sem mörg okkar eigum nóg af alls konar. Fæstir vilja hvorki gefa né fá óþarfa og þá er bara að leggja höfuðið í bleyti.

Loftslagsvænar jólagjafir
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um náttúruvernd og loftslagsmálin ber oft á góma. Fyrir nokkrum árum kom loftslagshópur Landverndar með margar snilldarhugmyndir að loftslagsvænum jólagjöfum. Það er t.d. hægt að gefa eitthvað matarkyns eins og heimagert konfekt, sultur, smákökur, uppskrift og allt sem í hana þarf o.fl. List eða handverk á alltaf við, s.s. eitthvað prjónað eða heklað, ljóð og/eða lag, teikning, málverk o.s.frv. Upplifun og samvera er að sjálfsögðu á listanum ásamt áskriftum að blöðum, menningarkortum o.fl. Þeir sem vilja kynna sér hugmyndir þessa hóps geta kíkt í á þessa slóð á heimasíðu Landverndar: www.landvernd.is/grasrot-loftslagsvaenar-jolagjafir

Samvera í jólapakkann
Því ekki að gefa samveru í jólagjöf? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að eiga í góðum félagslegum samskiptum sé einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að lifa löngu, heilbrigðu og gleðiríku lífi. Slíkt rímar sannarlega við orðatiltækið um að maður sé manns gaman! Hægt er að gefa alls kyns samveru, mis einfalda og í öllum verðflokkum. Hvernig væri t.d. að bjóða í mat, kaffi eða/og göngu, stjörnuskoðun, brydda upp á spilakvöldi, heimsækja safn, elda eða baka saman, fara í ísbíltúr eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug? Þeir sem vilja fara alla leið geta líka gefið samverudagatal sem nær til lengri tíma, jafnvel fram til næstu jóla. Hægt væri t.d. að fara í göngutúr í janúar, hafa spilakvöld í febrúar, kaffiboð í mars o.s.frv. Ég get allavega lofað ykkur því að hvers kyns samvera mun alltaf slá í gegn!

Þegar fólk hefur verið spurt hvað sé það allra besta við jólin þá eru langsamlega flestir sammála um að það sé einfaldlega samveran með fólkinu sem stendur þeim næst. Góður matur, stemmingin, kærleikurinn, gleðin og þakklætið sem einkennir þessa hátíð ljóss og friðar koma þarna einnig við sögu. Að þessu sögðu þá óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, þess að þið getið notið aðventunnar í rólegheitum með fólkinu ykkar.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ