Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023

Ásgeir Sveinsson

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 liggur nú fyrir og sitt sýnist hverjum um niðurstöðuna.

Niðurstaða rekstrarreiknings A-hluta Mosfellsbæjar er jákvæð sem nemur tæpum 230 milljónum, rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var árið 2023 tæpar 341 milljónir, sem er þó lakari útkoma en áætlað var og er það þrátt fyrir umtalsvert hærri tekjur en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu.

 

Ástæða jákvæðrar rekstrarniðurstöðu

Ekki er hægt að segja að reksturinn sé sjálfbær þar sem jákvæða rekstrarniðurstaðan er að mestu vegna hækkunar skatta, gjalda og álaga á íbúa en mestu munar þó um einskiptistekjur af sölu byggingarréttar og leiðréttingar á tekjum frá Jöfnunarsjóði m.a. vegna skólamála.

Hagnaður ársins af A-hluta er nær sá sami og hækkun fasteignaskatta á íbúa bæjarins eða um 250 milljónir. Hér er um að ræða hækkanir á fasteignaeigendur og fyrirtæki, það er ekki er um að ræða fjölgun íbúa í bænum heldur hækkanir á fasteignagjöldum.

Jana Katrín Knútsdóttir

Þetta er áhugavert þar sem fram kemur í málefnasamningi meirihlutans að ætlunin sé að lækka fasteignaskatta til að koma til móts við hækkun á fasteignamati.

Tekjur, gjöld og framkvæmdir
Framlag Jöfunarsjóðs hefur aukist síðustu árin, útsvarstekjur hækkuðu á milli áranna 2022 og 2023 um 1,2 milljarð, fasteignskattur um 250 milljónir, framlag Jöfunarsjóðs um rúmar 700 milljónir og aðrar tekjur um 1 milljarð. Er hér m.a. um að ræða hækkun tekna vegna hækkunar útsvarsprósentu og hækkunar á gjaldskrá.
Launakostnaður hækkaði um 1,3 milljarð á milli áranna 2022 og 2023 og er hluti hækkunarinnar vegna stöðugilda sem fylgja Skálatúni og kjarasamningshækkana eða um 1.1 milljarður.  Annar rekstarkostnaður hækkar um 500 milljónir milli áranna.
Áætluð útgjöld vegna varanlegra fastafjármuna voru áætluð 2,1 milljarður en á árinu fóru 1,8 milljarð í framkvæmdir og þar af 158 milljónir umfram áætlaðan kostnað í Kvíslarskóla. Hluti af öðrum áætluðum framkvæmdum var frestað á árinu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rekstrarniðurstaða félagslegra íbúða var neikvæð um 41 milljón á árinu en var jákvæð árið 2022 um 4,6 milljónir. Þá var rekstrarniðurstaða Hlégarðs neikvæð um 4,3 milljónir.

Það sem stendur upp úr í ársreikningnum er m.a. að:
• skattar og álögur á íbúa hafa stórhækkað annað árið í röð
• skuldir aukast milli ára um tvo milljarða
• kostnaður við rekstur bæjarins eykst milli ára um 20%
• launakostnaður jókst um 21% milli ára á meðan launvísitalan hækkaði um 7%
• stöðugildum fjölgar mikið
• tekjur eru mun hærri en áætlun gerði ráð fyrir

Helga Jóhannesdóttir

Rekstrarhorfur næstu ára 

Miðað við að vextir og verðbólga virðast ætla að lækka hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir, er ljóst að fara þarf í hagræðingar og lækkun á útgjöldum. Það veldur því áhyggjum að í áætlun næsta árs má sjá áframhaldandi innleiðingu á nýju skipuriti með fjölgun stöðugilda.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram og traustur rekstur undanfarinna ára og sterk fjárhagsstaða eiga að gera sveitarfélaginu kleift að veita íbúum áfram framúrskarandi þjónustu sem stöðugt hefur verið að aukast og mun vonandi gera áfram.
Það jákvæða í rekstrarhorfum bæjarins er þó að í fyrsta sinn í mjög mörg ár er Mosfellsbær eigandi að landi sem var úthlutað lóðum á síðasta ári og verður úthlutað áfram á næstu 2-3 árum og mun það tryggja hundruð milljóna í tekjur á hverju ári fyrir sveitarfélagið.
Við bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munum áfram styðja góðar tillögur og hvetja meirihlutann áfram til góðra verka. Við munum einnig  halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri svo áfram verði best að búa í Mosó.
Bæjarfulltrúar D-lista Mosfellsbæ,
Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir

Leiruvogurinn okkar

Úrsúla Jünemann

Ein af helstu gönguleiðum mínum í okkar fallega útivistarbæ er meðfram Leiruvoginum. Í dag, á síðasta degi í apríl í fallegu veðri varð stórkostleg uppákoma: Margæsir hundruðum saman flugu inn voginn með tilheyrandi kvaki og látum.
Þessir fuglar eru alltaf á vorin og haustin gestir hjá okkur, næra sig hér í leirunum í stuttan tíma áður en þeir fljúga áfram á sínni löngu leið frá kanadískum íshafseyjum til vetrardvalar á Írlandi. Án þess að stoppa hér á þessari „bensínstöð“ gætu þær ekki komist þetta. Leirur eins og margæsin þarf eru einungis á Vesturlandi og frekar sjaldgæfar á landsvísu.
Við þurfum að standa vörð um Leiruvoginn okkar. Þetta er bæði útivistarparadís sem margir nota og njóta og með bestu fuglaskoðunarstöðum á landinu. Áformin um Sundabrautina þarf að hugsa vel og vandlega.
Brú með fyllingum mun hefta út- og innstreymi sjávar í voginn þannig að jarðefni mun smám saman safnast fyrir og vogurinn mun grynnast. Lífríkið mun verða fyrir talsverðum breytingum og áhrif á fuglalífið gæti orðið mikið.
Nú munu margir hugsa þannig að fuglarnir komi þeim ekki við, þeir vilja koma stystu og fljótustu leið sína á bíl. En þetta er ekki svona einfalt. Ef við höfum neikvæð áhrif á vistkerfi og jafnvel skemmum þau, þá kemur þetta á endanum okkur sjálfum í koll. Öll vistkerfin eru samspil af mörgum þáttum sem við menn áttum okkur oft ekki á.
Við sem notum gönguleiðir um Leiruvoginn okkar til heilsubóta og ánægju værum örugglega ekki kát að fá umferðaniðinn sem myndi stafa af hábrú þegar við viljum njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar.
Sundabrautina þarf að hanna með þetta í huga þó að það kosti meira. Við Mosfellingar eigum ekki að sætta okkur við ódýrustu leiðina sem gæti skemmt okkar útivistarparadís sem Leiruvogurinn er.

Úrsúla Jünemann

Árinu skilað með rekstrarafgangi

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023 liggur nú fyrir en um er að ræða ársreikning fyrsta heila árs meirihluta B, S og C lista.
Það er verulega ánægjulegt að fyrsta heila ársreikningsári okkar sé skilað með rekstrarafgangi, það er ekki sjálfsagt í því rekstrarumhverfi sem sveitarfélög búa við um þessar mundir. Niðurstaðan sýnir styrkt aðhald í rekstrinum og að áætlanir ganga vel eftir.

Niðurstaða reikningsins er að árið skilar 341 milljón króna í rekstrarhagnað sem er viðsnúningur frá 900 milljóna rekstrartapi árið 2022. Verðbólgan hafði gríðarleg áhrif í rekstri bæjarins eins og hjá öðrum sveitarfélögum. Verðbólguspá ársins 2023 var 4,9% en niðurstaðan var 7,7%.
Niðurstaða ársins hjá Mosfellsbæ var því fjármagnskostnaður, vextir og verðbætur, upp á ríflega 1,7 milljarð króna sem var um 400 milljónum hærri kostnaður en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Tekjur ársins voru um 20,3 milljarðar en þær skiptast í útsvar og fasteignaskatt upp á tæpa 12 milljarða, greiðslur frá Jöfnunarsjóði upp á tæpa 3,5 milljarða og aðrar tekjur upp á ríflega 4,9 milljarða. Byggingarréttargjöld námu rúmlega 700 milljónum króna. Byggingarréttargjöldin vega aðeins á móti háum fjármagnskostnaði en vegna íbúafjölgunar og uppbyggingar hefur sveitarfélagið þurft að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar með lánsfé sem ber háa vexti í dag.
Allar helstu lykiltölur eru vel ásættanlegar. Sem dæmi er veltufé frá rekstri, sem sýnir hversu mikið stendur eftir til að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum, um 1,9 milljarðar eða um 9,5% af tekjum. Skuldaviðmið fer einnig lækkandi en það er nú 94,5%, hefur lækkað úr 104% í ársreikningi 2022.
Ekki er rými hér til að fara yfir ársreikninginn í smáatriðum en við bendum áhugasömum á að hann er aðgengilegur á mos.is. Við viljum þó draga sérstaklega fram eftirfarandi þrjú atriði.

Mikilvægi lækkunar verðbólgu
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að verðbólgan hefur verið erfið viðureignar. Lækkun verðbólgu skiptir rekstur sveitarfélagsins gríðarlegu máli. Þannig munu vaxtagreiðslur Mosfellsbæjar lækka um 170-180 milljónir króna við hvert prósentustig sem verðbólgan

Lovísa Jónsdóttir

lækkar. Af því má sjá að það er til mikils að vinna að ná tökum á verðbólgunni.

Starfsmannafjöldi – launakostnaður
Laun og launatengdur kostnaður eykst milli ára, eða um 1,4 milljarða. Þessi aukni kostnaður er að stærstum hluta vegna samninga um yfirtöku Skálatúns frá miðju ári 2023, hækkunar launavísitölu og kjarasamninga.
Fjöldi starfsmanna Mosfellsbæjar í árslok 2023 var 945 samanborið við 848 árið 2022. Stöðugildi voru 782 samanborið við 712 árið 2022. Stöðugildi Skálatúns voru 70 talsins og starfsmenn 110 þannig að ljóst er að fjölgun stöðugilda er að mestu tilkomin vegna Skálatúns.

Framkvæmdir
Samkvæmt ársreikningi er 84% tekna varið til fræðslumála, velferðarmála og íþrótta- og tómstundamála. Eftir standa þá 16% til annars reksturs og framkvæmda. Það er því ljóst að uppbygging í vaxandi sveitarfélagi kallar á lántöku.
Ýmis stór og kostnaðarsöm verkefni hafa verið í gangi og má þar nefna sem dæmi miklar viðgerðir og endurbætur á Kvíslarskóla, byggingu nýs leikskóla í Helgafellshverfi, nýjan gervigrasvöll að Varmá, endurbætur leikskólalóða og gatnagerð.
Uppbygging sveitarfélagsins þarf að vera í takti við íbúafjölgun en samtímis þarf að gæta ítrasta aðhalds og huga að sjálfbærni til framtíðar. Þarna þarf að finna gott jafnvægi í þeirri verðbólgu sem blasir við.

Áfram veginn
Mosfellsbær býr að öflugu og reynslumiklu starfsfólki sem er vakið og sofið yfir verkefnum sínum og skilar af sér rekstri í samræmi við áætlanir þær sem bæjarstjórn samþykkir. Fyrir það ber að þakka.
Eins og fram hefur komið þá er rekstrarumhverfi sveitarfélaga flókið þessi misserin og nauðsynlegt að gæta að hverju skrefi. Fjárfestingaráætlanir þarf að yfirfara og gæta að því að sveitarfélagið reisi sér ekki hurðarás um öxl. Það er hlutverk bæjarfulltrúa að horfa til framtíðar, taka skynsamlegar ákvarðanir í dag sem hafa heillavænleg áhrif á samfélag okkar til framtíðar.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Blómlegt samfélag

Dagný Kristinsdóttir

Þegar líður að sumri eru flestir tilbúnir í hækkandi sól, hita og gott veður. Þolið fyrir umræðum um pólitísk mál minnkar. Og það á ekki bara við um íbúa, við pólítískt kjörnir fulltrúar viljum líka horfa inn í sumarið og á það fallega og bjarta.
Í göngutúr um hverfið mitt í síðustu viku velti ég fyrir mér um hvað ég ætti að skrifa og ákvað að horfa á það sem við höfum fram að færa. Þegar sú ákvörðun var tekin urðu á vegi mínum einstaklingar sem leggja sig fram um að rækta sitt nærumhverfi án þess að láta mikið á því bera.

Góðgerðarvika Helgafellsskóla
Í síðustu viku kom frétt á Facebook síðu Helgafellsskóla þar sem sagt var frá góðverkaviku Helgafellsskóla sem verður haldin síðustu vikuna í maí. Eitt af því sem nemendur skólans hafa gert í vor er að sá alls kyns fræjum af sumarblómum, kryddplöntum og kirsuberjatómötum.
Þessi afrakstur er til sölu á góðu verði og rennur ágóðinn til góðra málefna. Hægt er að koma við í gróðurhúsinu virka daga frá klukkan 12-14.

Verslum í heimabyggð
Sumarblómin fylgja óneitanlega sumrinu og við erum svo heppin að geta keypt þau hér í okkar bæ. Áður var minnst á sumarblómin, kryddjurtirnar og tómatana í Helgafellsskóla. Dalsgarður er með mikla sumarblómarækt ásamt rósum og jarðarberjaplöntum.
Og ekki má gleyma snillingunum á Skálatúni sem hafa opna vinnustofu frá klukkan 8.30-15.30 á virkum dögum. Þessa dagana standa þau fyrir myndlistarsýningu í Lágafellslaug sem er gaman að sjá.

Hlúum að nærumhverfinu
Í göngutúr í liðinni viku gekk ég fram á eldri hjón sem höfðu upp á sitt einsdæmi tekið að sér part af beði fyrir neðan Einiteig. Þar eru þau búin að reita og snyrta beð, setja niður tré og trjákurl yfir. Trjábeðið er með eindæmum snyrtilegt og vel um gengið. Fyrir þetta framtak má svo sannarlega hrósa.
Svo er það plokkarinn í Reykjahverfi sem dundar sér við það að taka göngutúr og snyrta nærumhverfið allt árið um kring, ekki bara á stóra plokkdaginn. Um daginn fór hann Hafravatnsveg frá Reykjahverfi upp að Hafravatni. Næst þegar við eigum leið þar um má hugsa til þessa göngugarps og þakka honum fyrir að hugsa um sitt nærumhverfi.
Samfélag myndast af þeim sem búa á svæðinu, lifa saman og nýta auðlindirnar sem eru í umhverfinu. Þess vegna skiptir máli að við sem búum í okkar góða bæ lítum til þess sem er í boði og stöndum með því sem boðið er upp á.
Gleðilegt sumar!

Dagný Kristinsdóttir
oddviti Vina Mosfellsbæjar

Viltu ekki bara spila á þetta?

Þegar ég var 6 ára fóru ég, mamma og móðursystir mín á fund Birgis skólastjóra til að finna hljóðfæri fyrir mig að spila á. Ég átti þegar að baki heils árs feril í blokkflautuleik og það var kominn tími á að glíma við nýtt hljóðfæri.
Mamma hafði heyrt svo vel látið af lúðrasveitinni að hún vildi endilega skrá mig í hana. Við spjölluðum saman og svo fórum við niður í kjallara að skoða hljóðfærin. Eftir dágóða stund við að prófa öll hljóðfærin og ræða um þau spurði Birgir mig hvaða hljóðfæri ég vildi velja. Spurningin kom flatt upp á mig og ég var ekki tilbúin með neitt svar. Svo ég horfði á móðursystur mína sem er fiðluleikari og sagði „bara fiðlu“ (ég gæti þá alla vega gert henni til geðs því ekki hafði ég hugmynd um hvað mig langaði til að læra á).
Svarið vakti væntanlega upp blendin viðbrögð þótt ég geti ekki sagt að ég muni eftir þeim. En í dag get ég alla vega sett mig í spor móður minnar og ímyndað mér að þetta hafi verið mátulega vandræðalegt.

Birgir vissi hvað hann var að gera
Ég stundaði fiðlunám, kannski ekki af miklu kappi en mætti þó í tíma reglulega.
Þegar ég var 10 ára gömul stakk mamma upp á því að ég bætti við mig hljóðfæri og fari aftur niður í lúðrasveit og athugi hvort ég geti ekki fengið að læra á klarinett eða þverflautu (takið eftir því að hún stakk upp á ákveðnum hljóðfærum svo við lentum ekki aftur í sama fíaskói og síðast!).
Ég fór sjálf á fund Birgis inni á skólastjóraskrifstofunni hans. Það var nú ekki oft sem ég kom inn á þessa skrifstofu og maður bar ómælda virðingu fyrir skrifstofunni og skólastjóranum. Birgir sagði að því miður væri ekki laust á þverflautu eða klarinett en spurði svo hvort ég vilji ekki bara spila á þetta, dró upp risastóran kassa og ofan í honum var risastórt málmblásturshljóðfæri sem ég lærði þá að heitir básúna.
Nú var þetta kannski ekki beint það sem ég hafði í huga. Hinar stelpurnar spiluðu nú flestar á settlegri hljóðfæri, klarinett og þverflautu t.d. og kannski trompet. En sitjandi inni á skrifstofu skólastjórans, með hinn háheilaga skólastjóra fyrir framan mig, þá var kannski ekki mikið annað í stöðunni en að jánka og taka við ferlíkinu. Mamma fékk nett áfall að sjá mig koma skjögrandi heim með dýrgripinn.
En ég hef ekki séð eftir þessu í eina mínútu. Birgir vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Mér leið ýmist sem prinsessu eða Öskubusku þarna í öftustu röðinni með strákunum (það vantaði kannski örlítið upp á samviskusemina hjá sessunautum mínum svo utanumhald nótna hvíldi ögn meira á mér en þeim).
Ég spilaði nánast óslitið í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar þar til ég varð 23 ára gömul og útskrifuð með B.Mus gráðu í básúnuleik úr Listaháskóla Íslands.

Skólahljómsveitin mikil uppeldisstöð
Það er nefnilega ekkert betra en að spila í lúðrasveit. Ég áttaði mig ekki á því til fulls fyrr en ég var sjálf orðin fullorðin hversu góður skólahljómsveitarstjóri Birgir D. Sveinsson var. Þá er ég ekki að tala um þann part sem felst í að sveifla sprotanum (þótt hann hafi líka staðið sig vel í því).
Hann hafði náttúrulega mikið forskot á aðra skólahljómsveitarstjóra að vera einnig skólastjóri grunnskólans. Hljómsveitin var mikil uppeldisstöð og ég á Birgi að þakka margt þegar kemur að félagslegri færni og samspili. En í hljómsveitinni voru alls konar krakkar. Sum börn voru send af foreldrum sínum (í tvígang!) í hljómsveitina því þeir vissu að þar væri unnið gott starf.
Önnur voru reglulegir gestir á skrifstofu skólastjóra og Birgir vissi að reglulegir spilatímar og hljómsveitaræfingar myndu hafa góð áhrif á þau. Enn önnur áttu erfitt með að fóta sig í skólaumhverfinu og þurftu griðastað.
Öll unnum við saman í hljómsveitinni sem skapaði skemmtilega og litríka heild. Það krefst mikillar vinnu, útsjónarsemi og innsæis að skapa jafn stóra og samheldna sveit ólíkra barna og Birgi tókst að gera.
Það er gaman að líta til baka á það magnaða starf sem Birgir hefur unnið núna þegar 60 ár eru liðin frá því hann stofnaði Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og hann sjálfur nýorðinn 85 ára gamall. Megi hugsjónir Birgis lifa önnur 60 ár hið minnsta hér í Mosfellsbæ.

Barnadjasshátíð í sumar
Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri tónlistarhátíðinnar Barnadjass í Mosó, sem haldin verður í annað sinn nú í sumar, hef ég haft ár mín í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar í huga.
Í ár munum við halda opið tveggja daga námskeið ætlað börnum á aldrinum 8-15 ára sem hafa áhuga á að prófa að spila djass eftir eyranu og spinna. Endilega fylgist með á www.facebook.com/Barnadjass þar sem allar upplýsingar munu verða birtar.

Guðrún Rútsdóttir

Múlalundur, minning eða möguleiki?

Vilborg Eiríksdóttir

Það blása harðir vindar um vinnustaðinn minn Múlalund þessa dagana.
Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að upplifa þessa stöðu og ekki síst verklagið við að „loka Múlalundi“ í núverandi mynd. Hópur frábærra einstaklinga með mismunandi fatlanir fengu að vita fyrir stuttu að þeir muni missa vinnuna sína og verði að fara út á almennan vinnumarkað. Að mínu mati er þetta fjöldauppsögn í spari­fötunum.
Það eru hörð skilaboð „að ofan“ að allir öryrkjar (30 manns) sem nú eru fastráðnir á Múlalundi eigi að hætta og helst sem fyrst. Þetta er gert með aðstoð ráðgjafa Vinnumálastofnunar (VMST) sem eru að útvega störf á almennum markaði fyrir þennan hóp þrátt fyrir þá staðreynd að aðrir fatlaðir séu fastir á fjölmennum biðlista eftir vinnutilboðum. Það eru blendnar tilfinningar sem fara um hugann þegar samstarfsfólk mitt, eitt af öðru hverfur á braut með loforð um bættan hag, en jafnframt með kvíðahnút yfir næstu skrefum. Enginn veit enn sem komið er hvort restin af starfsfólkinu fái að halda sínum störfum. Hvað gerir t.d. þroskaþjálfi þegar allir fatlaðir samstarfsmenn eru farnir af staðnum?
Múlalundur á sér 65 ára sögu, sem er ákaflega merkileg að mörgu leyti. Ótrúleg fjölbreytni hefur verið í framleiðsluvörum allt frá upphafi og verkefni koma og fara eftir tíðaranda og aðstæðum í þjóðfélaginu. Fjöldi fólks með skerta starfsgetu hefur notið góðs af öll þessi ár og nýtur enn. Við vitum ekki betur en Múlalundur eigi mikilli velvild að fagna úti í samfélaginu og þeir sem þekkja til þykir vænt um staðinn og það sem hann stendur fyrir. Það var dapurlegt að heyra í fréttum forstjóra VMST tala á niðrandi hátt um úreltar framleiðsluvörur okkar sem færu beint í ruslið. Múlalundur framleiðir fjölbreyttar vörur en þær eru allar framleiddar eftir pöntunum fyrirtækja sem velja að versla við íslenskt framleiðslufyrirtæki og í leiðinni skapa vinnu fyrir starfsfólk Múlalundar. Með þessu samstarfi vinna allir!
Við á Múlalundi erum þakklát fyrir það að mörg íslensk fyrirtæki hafa leitað til okkar með allskonar skemmtileg og frábær verkefni og þannig gefið fólkinu okkar tækifæri til að mæta til alvöruvinnu og finna að þau séu virkir samfélagsþegnar sem leggja sitt af mörkum.
Vinnustaðurinn Múlalundur snýst reyndar ekki bara um verkefnin heldur er hann samfélag fólks á öllum skala fjölbreytileikans hvort sem um er að ræða fatlaða eða ófatlaða einstaklinga. Í öruggu umhverfi myndast ómetanleg félagsleg tengsl og það hefur sýnt sig í reynd að starfsfólk Múlalundar hefur fengið að blómstra og njóta sín á eigin forsendum.
Núna er hins vegar kominn brestur í undirstöðurnar. Við höfum reynt að fá svör frá ýmsum sem gætu haft með þetta mál að gera en lítið gengið og hver vísar á annan. Hvað hefur t.d. SÍBS (eigandi Múlalundar) í huga varðandi framhaldið? Við höfðum samband við Eflingu stéttarfélag og vildum vita hvort þetta væri löglegt verklag! Við reyndum að fá ÖBÍ með í málið en engar undirtektir, VMST segir okkur barn síns tíma og hættir að ausa peningum í Múlalund og ekki næst í ráðherra sem allir vísa þó á. Er það kannski þannig að starfsfólk Múlalundar séu „óhreinu börnin hennar Evu“ sem enginn vill kannast við?
Fyrir hönd minna frábæru vinnufélaga á Múlalundi

Vilborg Eiríksdóttir, þroskaþjálfi/verkstjóri

Menningin blómstrar í Mosfellsbæ

Hrafnhildur Gísladóttir

Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að gera bæinn okkar blómlegri með menningarviðburðum.
Nú er mars, mánuður Menningar í Mosó, nýliðinn og það var nóg um að vera. Þar má nefna tónleika sem kvennakórarnir Stöllurnar úr Mosfellsbæ og Sóldís úr Skagafirði héldu saman í Hlégarði, en þar voru flutt lög Magnús­ar Ei­ríks­son­ar. Á degi Listaskólans var öllum velkomið að kíkja við þar sem ljúfir tónar hljómuðu úr öllum rýmum. Þvílíkir hæfileikar hjá unga tónlistarfólkinu okkar.
Í leikhúsinu okkar var einnig opið hús þar sem nú er verið að sýna Línu Langsokk. Enn og aftur toppar Leikfélag Mosfellssveitar sig með frábærri sýningu. Í Álafosskvosinni var myndlistakonan Ólöf með opið hús alla sunnudaga í mars, gaman var að heimsækja hana og Kvosina. Þetta eru bara nokkrir viðburðir af mörgum þetta árið og verður gaman að fylgjast með þessu verkefni þróast og stækka á næstu árum.

Menning auðgar mannlífið og gefur okkur tækifæri til að hittast og njóta saman. Það er mikilvægt að lyfta upp á yfirborðið því fjölbreytta menningarstarfi sem fram fer í Mosfellsbæ, gera mosfellska menningu sýnilega og aðgengilega og þar hefur mikilvægi Hlégarðs komið vel í ljós.

Hlégarður spilaði stórt hlutverk í Menningu í mars og var um margt að velja. Það er dásamlegt að fylgjast með hvernig félagsheimili okkar Mosfellinga hefur lifnað við og blómstrað undanfarin misseri.
Einn af þeim viðburðum sem hefur fengið hvað bestar viðtökur í dagskrá Menningar í mars eru sögukvöldin í Hlégarði. Í fyrra var fullt hús og í ár fylltist húsið á fimm mínútum af söguþyrstum Mosfellingum. Það eru margir sem koma að því að láta svona viðburð ganga upp og vil ég þakka öllum þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg. Það er magnað hvað hægt er að gera þegar áhugasamt fólk tekur sig saman.

Að lokum vil ég segja frá því að nú er hafin vinna við nýtt verkefni þar sem kortlögð hafa verið rými í Mosfellsbæ þar sem hægt verður að halda litlar sýningar í óformlegum sýningarrýmum. Í framhaldinu verður bæjarbúum boðið upp á að sækja um að halda sýningar í hinum ýmsu rýmum eins og til dæmis Hlégarði, Kjarnanum og Lágafellslaug svo eitthvað sé nefnt.
Þetta verkefni var sett af stað til að gefa þeim sem eru að vinna að listsköpun í Mosfellsbæ fjölbreyttari tækifæri til að sýna verk sín. Þegar þeirri vinnu er lokið verður verkefnið kynnt nánar ásamt upplýsingum um hvar og hvernig skráningar beiðna um sýningarrými verða mótteknar og afgreiddar.

Hrafnhildur Gísladóttir
formaður menningar- og lýðræðisnefndar

Gott að eldast

Guðleif Birna Leifsdóttir

Undirrituð hóf nýlega störf hjá Mosfellsbæ í þróunarverkefni sem er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda sem ber nafnið „Gott að eldast“.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu eftir sveitarfélögum og stofnunum sl. sumar til að taka þátt í þróunarverkefninu og voru Mosfellsbær og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins eitt af þeim sex svæðum sem valin voru til þátttöku en Eir hjúkrunarheimili verður framkvæmdaraðili þjónustunnar á svæðinu.
Markmið verkefnisins er að finna góðar leiðir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Auk þess verður ráðist í aðgerðir sem stuðla að heilbrigðri öldrun og bættum aðgangi að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.
Í þessu þróunarverkefni felast tækifæri og bætt þjónusta fyrir eldra fólk í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós, en það er svæðið sem verkefnið nær til. Áhersla verður á að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun eldra fólks og finna leiðir til að auka virkni og vellíðan íbúa. Með samþættri þjónustu er áherslan á að eldra fólk geti lifað innihaldsríku og sjálfstæðu lífi þrátt fyrir miklar og flóknar þarfir.
Í Mosfellsbæ er boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir eldra fólk, öflugt félagsstarf og stuðning við að búa á eigin heimili þegar heilsu hrakar. Aðgangur er að öldrunarráðgjafa hjá velferðarsviði Mosfellsbæjar og heilsuvernd eldra fólks hjá Heilsugæslunni í Mosfellsbæ.
Í starfi mínu mun ég leitast við að byggja upp tengingar á milli mismunandi þjónustustofnana og skoða hvernig hægt er að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa, auka virkni og leitast við að eldra fólk fái viðeigandi þjónustu sem gerir því kleift að lifa innihaldsríku lífi á eigin heimili.
Velkomið er að hafa samband við undirritaða sem veitir frekari upplýsingar varðandi þróunarverkefnið.

Guðleif Birna Leifsdóttir
tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar
gudleifl@mos.is – s. 525-6700

Fjölgun stöðugilda á bæjarskrifstofunum

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hún er lífseig umræðan um fjölgun starfsmanna á bæjarskrifstofunum í kjölfar stjórnkerfisbreytinga og auglýsingar sjö stöðugilda stjórnenda sumarið 2023.
Einhverjir virðast telja sig hafa af því hagsmuni að þvæla þá umræðu. Þess vegna er ástæða til að fara aftur yfir þær breytingar, ráðningarnar umtöluðu og forsendur þeirra.

Forsendur breytinga
Forsendur stjórnkerfisbreytinganna voru annars vegar málefnasamningur meirihlutans en í honum kemur eftirfarandi fram: „Stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda.“
Hins vegar tók bæjarstjórn ákvörðun um að láta gera stjórnsýslu- og rekstrarúttekt enda langt um liðið frá því starfsemin var síðast tekin út og skoðuð og bæjarbúum fjölgað margfalt.

Eftir stjórnkerfisbreytingar
Við stjórnkerfisbreytingarnar sumarið 2023 var bætt við einu sviði í stjórnkerfi bæjarins, sviði menningar, íþrótta og lýðheilsu. Ástæðan var m.a. áhersla meirihluta B, S og C lista á lýðheilsumál og vilji til að efla menningarlíf í bæjarfélaginu. Með þessari breytingu fjölgaði sviðsstjórum um einn.
Sumarið 2023 var ráðið í störf skrifstofustjóra umbóta og þróunar, sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis, leiðtoga leikskóla og grunnskóla, umhverfis, Mosfellsveitna og leiðtoga fötlunarmála. Samtímis var starf sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs lagt niður sem og stöðugildi framkvæmdastjóra Skálatúns.
Fyrrum stjórnendur Mosfellsveitna, grunnskóla-, leikskóla-, umhverfis- og mannauðsmála ásamt sviðsstjóra fræðslu-og frístundasviðs höfðu ýmist horfið til annarra starfa eða hætt vegna aldurs. Í stað þess að ráða einstaka stjórnendur þegar stöður losnuðu var tekin ákvörðun um að fresta ráðningum þar til eftir stjórnsýsluúttekt og stjórnkerfisbreytingar.

Aukin verkefni
Starfsmönnum á velferðarsviði hefur hins vegar fjölgað frá því að núverandi meirihluti tók við vegna samninga við ríkið um verkefni eins og innleiðingu farsældar, samning um samræmda móttöku og nú síðast verkefnið Gott að eldast. Þau stöðugildi eru að fullu fjármögnuð með samningum við ríkið.
Ráðið var í nýtt stöðugildi viðburða­stjóra Hlégarðs og á fræðslu- og frístundasviði var bætt við stöðugildi vegna barna með sértækar þarfir í grunnskólum. Einnig var ákveðið að ráða skólasálfræðing og talmeinafræðing inn í skólaþjónustuna sem áður höfðu starfað sem verktakar og því ekki um útgjaldaaukningu að ræða.
Haustið 2022 var samþykkt í fjárhags­áætlun að styrkja skipulagssviðið sérstaklega enda sögulega stór verkefni í gangi. Fékk skipulagsfulltrúi til liðs við sig verkefnisstjóra auk þess sem lögfræðiþjónustan var styrkt. Hvort tveggja löngu tímabært með auknum umsvifum.
Síðan var samþykkt í fjárhagsáætlun að ráða sérstakan mannauðsráðgjafa fyrir leik- og grunnskóla og er sú auglýsing í gangi núna. Viðkomandi mun að mestu leyti starfa úti í skólunum.
Mosfellsbær tók nýlega að sér það umfangsmikla verkefni á sviði fötlunarmála að reka Skálatún. Þeirri breytingu fylgdu rúmlega 100 starfsmenn í 70 stöðugildum. Í öllum samanburði um fjölgun starfsmanna bæjarins þarf að hafa þessa breytu í huga.

Áfram gakk
Það er hollt að fara með reglubundnum hætti í gegnum skipulag og stjórnkerfi bæjarfélags eins og Mosfellsbæjar og ef ekki næst árangur með núverandi skipulagi, þá hikar meirihlutinn ekki við að endurskoða það enn frekar.
Mosfellsbær býr að miklum mannauði á öllum sviðum sinnar starfsemi. Þar starfar gamalreynt starfsfólk ásamt öflugum nýliðum sem saman efla og auðga starfsemi sveitarfélagsins og munu, undir forystu okkar frábæra bæjarstjóra, halda áfram að þjónusta bæjarbúa með fyllstu hagkvæmni að leiðarljósi.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Halla Karen Kristjánsdóttir

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu

Mosfellsk menning

Franklín Ernir

Menningarlíf Mosfellsbæjar hefur svo sannarlega verið á hraðri uppleið undanfarna mánuði. Það eru margir þættir sem eiga þar hlut að máli. Óhætt er þó að segja að hugsjón og áhugi Mosfellinga ber þar hæst.
Með tilkomu nýs fyrirkomulags á rekstri Hlégarðs hefur komið í ljós hvað tækifærin til að efla menningu í Mosfellsbæ eru mikil og fjölþætt. Á núverandi kjörtímabili hefur mikil vinna farið í það að skapa fjölbreyttan vettvang til menningariðkunar og er þeirri vinnu aldeilis ekki lokið.

Menning í mars
En nú er marsmánuður genginn í garð og verkefnið okkar „Menning í mars“ þar með hafið.
Það er einlæg von okkar að þetta frábæra framtak muni ýta undir og styrkja menningarlíf Mosfellsbæjar til komandi framtíðar sem og veita listiðkendum tækifæri á því að kynnast öðru áhugafólki um listir og styrkja þar með menningarsamfélagið okkar enn frekar.

Helga Möller

Framtíð mosfellskrar menningar
Þá er mikil vinna fram undan hjá okkur í menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar sem snýr að því að efla menningarlíf bæjarins og verður spennandi að sjá hvernig fram vindur.
Eitt þeirra verkefna er að móta framtíð Hlégarðs. Sú vinna felur í sér áframhaldandi samræður við bæjarbúa þar sem þeim gefst kostur á því að viðra sínar hugmyndir og sýn á starfið í Hlégarði. Þannig mótum við framtíð mosfellskrar menningar saman.

Franklín Ernir Kristjánsson, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd
Helga Möller, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd

Brúarland, félags- og tómstundahús

Ásgeir Sveinsson

Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína.
Tillögunni var vísað á fundi bækjarráðs til velferðarsviðs og á fundi bæjarráðs þann 29. febrúar var tillagan samþykkt og mun félagsstarf eldri borgara flytja í Brúarland þegar framkvæmdum við húsnæðið verður lokið.

Félags- og tómstundstarf eldri borgara
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri eru um 1.400. Félagsstarf eldri borgar í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og er fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ um 2.400. Þátttakendum í félagsstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina.
Með flutningi félagsstarfsins í Brúarland opnast tækifæri til að efla enn frekar starfið og auka fjölbreytni, auk þess sem hægt verður að þjóna betur ört stækkandi hóp eldri borgara sem vilja taka þátt í starfinu.

Svala Árnadóttir

Hentugt og vel staðsett húsnæði fyrir félags- og tómstunda­starfsemi
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Sú breyting hefur tekist mjög vel og mun vonandi halda áfram því félagsstarf í Brúarlandi og í Hlégarði mun styðja hvort við annað.
Staðsetning Brúarlands er afar heppileg fyrir þessa starfsemi, húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skorunum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Það kom einnig fram í okkar tillögum um nýtingu Brúarlands að mikilvægt væri að horfa til þess að nýta húsnæðið í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi. Það er kjörið tækifæri í að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega félags- og tómstundastarfsemi, á þeim tímum sem félagsstarf eldri borgara er ekki í gangi.
Það er einnig mikilvægt að huga vel að þjónustu við þá eldri íbúa sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra, að félagsstarf væri áfram í boði fyrir þann hóp á Eirhömrum.

Áhersla á málefni eldri borgara
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á það mikilvægi sem lýðheilsa og aðgangur að öflugu félagsstarfi sé í boði í Mosfellsbæ og við munum halda áfram þeirri vinnu okkar í nefndum og í bæjarstjórn.
Við áttum frumkvæði og stóðum að því á síðasta kjörtímabili í samstarfi við VG að stórefla framboð og fjölbreytni í skipulögðum leikfimitímum fyrir eldri borgara sem hafa heldur betur notið vinsælda og við stóðum fyrir stofnun Karla í skúrum sem er mikilvægur og stækkandi félagsskapur.
Einnig komum við í framkvæmd könnun um þarfir og líðan eldri borgara þar sem fram hafa komið góðar ábendingar um hvað mætti betur fara í málefnum eldri borgara og unnið hefur verið í þeim málum undanfarin misseri.
Það er sérstaklega ánægjulegt að tillaga okkar um færslu félagsstarfsins í Brúarland skuli hafa verið samþykkt og hvetjum við eldri borgara sem nú þegar eru ekki að taka þátt í starfinu að skoða vel hvað er í boði, því allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Við hlökkum til að sjá Brúarland sem tómstundahús allra Mosfellinga.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi, oddviti D-lista
Svala Árnadóttir fulltrúi D-lista í Öldungaráði

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og samstarf við Grænland

Við erum tveir kennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og undir lok síðasta mánaðar héldum við í nokkurra daga ferðalag til Nuuk á Grænlandi.
Tilgangur ferðalagsins var að kanna möguleikann á samstarfi við grænlenskan framhaldsskóla með þau markmið að leiðarljósi að skapa vettvang fyrir bæði okkar nemendur og grænlenska nemendur til að kynnast sögu landanna, menningu þeirra og náttúru og að sjálfsögðu hvert öðru í gegnum samstarf á netinu og vettvangsferðir. Þetta ferðalag okkar var styrkt af Nordplus Junior sem veitir styrki til þróunarverkefna skóla.
Íslendingar og Grænlendingar eru nágrannaþjóðir og aukinn áhugi er á nánara samstarfi þeirra á milli eins og viljayfirlýsing forsætisráðherra Íslands, Katrínar Jakobsdóttur, og formanns landsstjórnar Grænlands, Múte B. Egede, frá desember 2022 ber með sér. Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem sérstök áhersla verður lögð á og eru menntun og menningarsamstarf þar á meðal. Við í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ höfum mikinn áhuga á að leggja okkar af mörkum í þessu aukna samstarfi enda mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að kynnast og mynda dýrmæt tengst.
Í heimsókn okkar til Nuuk hittum við meðal annars kennara og stjórnendur í tveimur menntastofnunum, ræðismann Íslands á Grænlandi, skoðuðum Þjóðminjasafn Grænlands og undirbjuggum næstu skref í samstarfsverkefninu.
Heimsóknin til Nuuk var afar lærdómsrík og það var sönn ánægja að hitta grænlensku nágranna okkar og finna gestrisni þeirra og hvað við eigum margt sameiginlegt. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs sem mun vonandi gera okkur kleift að bjóða upp á Grænlands- og Íslandsáfanga styrktan af Nordplus Junior þar sem nemendur fá að fræðast um og ferðast til Grænlands með okkur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Dóra Þorleifsdóttir, dönskukennari og Halldór Björgvin Emmuson Ívarsson, sögukennari

Fasteignagjöld í Mosfellsbæ hækka um 38%

Hákon Björnsson

Hér að ofan birti ég yfirlit yfir fasteignagjaldaálagningu Mosfellsbæjar á heimili mitt að Akurholti 1 í Mosfellsbæ fyrir árin 2022–2024.
Taflan sýnir að á síðustu tveimur árum hafa fasteignagjöldin hækkað um 37,9%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 17,3% og launavísitalan um 15,7%. Hækkun fasteignagjalda í Mosfellsbæ á umræddu tímabili er því langt umfram hækkun almenns verðlags og hækkun launa.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar rituðu grein í Mosfelling í nóvember 2023 þar sem þeir segja að í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sé „kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans“.
Eftir yfirferð á álagningu fasteignagjalda á heimili mitt síðustu tvö árin á ég erfitt með að skilja hvernig bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar telja sig hafa lækkað álögur á heimilin í Mosfellsbæ, en í millifyrirsögn í umræddri grein þeirra í Mosfellspóstinum stendur: „Lækkum álögur á heimilin“.

Hákon Björnsson

Blikastaðaland – samráð við íbúa mikilvægt

Valdimar Birgisson

Áform um íbúðabyggð á Blikastaðalandi hafa verið á aðalskipulagi í Mosfellsbæ í áratugi. Samhliða kynningu á drögum að nýju aðalskipulagi sl. vor voru frumdrög að rammahluta aðalskipulags fyrir Blikastaðaland kynnt.
Gert er ráð fyrir að Blikastaðir verði eitt þéttbýlasta íbúðarsvæði Mosfellsbæjar til samræmis við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og samgöngusáttmála sveitarfélaganna. Áhersla deiliskipulagsins verður á:
• Samspil byggðar og náttúru.
• Blágrænar ofanvatnslausnir.
• Samfélagsleg gæði.
• Gæði byggðar.
• Aukinn líffræðilegan fjölbreytileika grænna svæða
• Fjölbreytt íbúðarhúsnæði.

Skipulagsnefnd samþykkti 1. desember sl. að auglýsa skipulagslýsingu deiliskipulags. Tilgangur skipulagslýsingar er „að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess”.
Athugasemdir sem bárust voru lagðar fyrir skipulagsnefnd 19. janúar sl.

Tímalína verkefnisins er eftirfarandi:
• Desember 2023. Skipulagslýsing auglýst.
• Nóvember 2023 – ágúst 2024. Skipulagstillögur unnar og samráð haft við umsagnar- og hagsmunaaðila.
• September 2024. Skipulagstillögur kynntar á forkynningarstigi, móttaka og úrvinnsla ábendinga. Almennur kynningarfundur.
• Október 2024 – maí 2025. Skipulagstillögur unnar áfram, frekara samráð við hagsmunaaðila, m.a. vegna mögulegra ábendinga.
• Vor 2025. Skipulagstillögur auglýstar og kynningarfundur haldinn. Móttaka og úrvinnsla athugasemda og ábendinga.
• Sumar 2025. Samþykktarferli og gildistaka. KYNNING, SAMRÁÐ OG SKIPULAGSFERLIÐ.

Þær athugasemdir sem bárust við skipulagslýsinguna voru mest ábendingar, m.a. á mikilvægi þess að fráveitumál væru vel skipulögð. Einnig kom ábending frá Umhverfisstofnun um að samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er heit uppspretta á skipulagssvæðinu. Náttúrufræðistofnun vekur athygli á því að ekki er ólíklegt að fuglalíf sé töluvert á svæðinu og eðlilegt að leggja mat á þá breytingu sem verður. Þá bárust jafnframt athugasemdir frá nýstofnuðum Hagsmunasamtökum íbúa í Mosfellsbæ.
Helstu athugasemdir þeirra eru að þau telja að skipulagsnefnd þurfi að útskýra fyrir almenningi hver sé ástæða þess að nefndin telji mikilvægt að hefja deiliskipulagsvinnu sem ekki er í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Rétt er að benda á að í lögum er heimild til að vinna deiliskipulag á sama tíma og aðalskipulag er endurskoðað.
Önnur athugasemd samtakanna lýtur að því að þau telja nauðsynlegt að skipulagsnefnd útskýri fyrir almenningi af hverju nefndin telur tímabært að skipuleggja svona þétta byggð þegar augljóst er að uppbygging vegna Borgarlínu er ekki komin á það stig að hún sé tímabær.
Í þessu samhengi má benda á að pólitískur einhugur ríkir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að hágæða samgöngur séu nauðsynlegar ætlum við að þróa bæinn okkar.
Þriðja athugasemd hagsmunasamtakanna lýtur að því að ekki hafi verið haft samráð við íbúa.
Hvað þetta varðar vil ég árétta að í gegnum þetta ferli hafa rammahlutinn, drög að aðalskipulagi og skipulagslýsingin verið auglýst og hafa íbúar geta kynnt sér þessar tillögur á vef Mosfellsbæjar eða Skipulagsstofnunar. Eins og fram kemur hér að ofan þá eru fyrirhugaðir að minnsta kosti tveir kynningarfundir og ekki verður hikað við að hafa þá fleiri ef þurfa þykir.
Hvað varðar þéttleika byggðarinnar er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þéttleika byggðar, innviðauppbyggingar og mannlífs, og mun það verða leiðarljós í þeirri vinnu sem fram undan er. Þrátt fyrir meiri þéttleika en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar, má benda á að þéttleiki verður samt sem áður minni en víða í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þéttari byggð skapar möguleika á fjölbreyttari íbúðargerðum og við þurfum sannarlega húsnæði fyrir alla. Það er ekki valkostur fyrir fyrstu kaupendur að kaupa fyrstu eign í sérbýli, eða stórar, dýrar íbúðir í fjölbýli. Betri nýting á landi skapar meiri þjónustu og styttra er fyrir íbúa að sækja þjónustu.

Valdimar Birgisson,
formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ