Í túninu heima 20 ára

Kvenfélagskonur undirbúa árlegar skreytingar í miðbænum.   Mynd: RaggiÓla

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin 28. til 31. ágúst og fagnar hátíðin 20 ára afmæli í ár. Dagskráin er fjölbreytt og glæsileg að vanda.
Hátíðin verður formlega sett á hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Þá fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar verða umhverfisviðurkenningar.

Allir taka þátt
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki leggja sitt af mörkum til hátíðarinnar og dagskráin er þannig úr garði gerð að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar prýða hús og garða í litum hverfanna fjögurra og skapa þannig sérstakt svipmót í bænum. Líkt og undanfarin ár verður hægt að njóta fjölda góðra tónleika í görðum bæjarins, en „Mosfellingar bjóða heim“ er eitt af sérkennum hátíðarinnar. Listamenn bæjarins taka einnig þátt með því að opna vinnustofur sínar og bjóða gesti velkomna.
Í garðinum við Hlégarð verður glatt á hjalla á föstudag og kjörið að staldra þar við áður en skrúðgangan leggur af stað frá Miðbæjartorgi með hestamannafélagið Hörð í fararbroddi. Leiðin liggur í Ullarpartý í Álafosskvos, þar sem Mosfellingar sameinast í brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir á blysum og baðar kvosina í bleikum lit.
Eftir að hafa notið fjölbreyttrar dagskrár vítt og breitt um bæinn á laugardag safnast íbúar Mosfellsbæjar í götugrill í skreyttum götum bæjarins. Í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar styrkir Mosfellsbær skipuleggjendur götugrilla með pylsum og pylsubrauðum, auk þess sem trúbadorar munu sjá um að skapa stemningu. Þegar fer að dimma geta bæjarbúar séð Helgafell uppljómað í hátíðarbúning.

Breytingar á fjölskyldutónleikunum
Einn af hápunktum hátíðarinnar hefur verið sá að Mosfellingum og gestum þeirra er boðið á fjölskyldutónleika á bæjartorginu. Í ár var ákveðið að flytja fjölskyldutónleikana frá laugardagskvöldi til seinni parts á sunnudegi og halda þá á Hlégarðstúninu. Tilgangur þess er að leitast við að brjóta upp það mynstur sem sést hefur síðastliðin tvö til þrjú ár. Frá árinu 2022 hefur fjöldi gesta undir lögaldri sem voru einir á ferð í Mosfellsbæ aukist verulega. Sú þróun náði hápunkti í fyrra sem kallaði á aukna löggæslu, kaup á öryggisgæslu, aukna viðveru barnaverndarstarfsmanna og athvarf fyrir þá unglinga sem þurftu aðstoð.
Þessi breyting hefur vakið upp ólík viðbrögð meðal bæjarbúa, en markmiðið er að tryggja jákvæða og fjölskylduvæna stemningu á hátíðinni.

Heilsueflandi hátíð að vanda
Að vanda eiga íþróttir sinn mikilvæga sess á dagskrá hátíðarinnar.
Tindahlaup Mosfellsbæjar er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Tindahlaupið er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Björgunarsveitarinnar Kyndils og blakdeildar Aftureldingar.
Fellahringurinn verður haldinn í sjöunda sinn, en í honum er hjólað um stíga og slóða umhverfis fellin í Mosfellsbæ.
Hundahlaupið fer fram í annað sinn í Mosfellsbæ, en markmið þess er að kynna öðruvísi nálgun á útivist með hundum.
Ný fjölskyldufjallahjólabraut verður opnuð í Ævintýragarðinum og þá verður haldið skákmót í Varmárskóla en opnar skákæfingar hefjast þar nú í haust. Fótboltamót Aftureldingar og Gæðabaksturs fyrir 7. og 8. flokk karla og kvenna verður haldið á Tungubökkum.
Þá verður síðasta umferðin í Íslandsmótinu í motocross haldin í hinni stórkostlegu braut MotoMos í Leirvogstungu.

Fyrir börn og ungmenni
Margt verður um að vera fyrir börnin á bæjarhátíðinni.
Sirkus Ananas stýrir skemmtilegri sirkussmiðju á uppskeruhátíð sumarlesturs bókasafnsins á miðvikudag, og á laugardag verður ÞYKJÓ með skemmtilega smiðju í bókasafninu þar sem ungir sem aldnir geta föndrað náttúrukórónur.
Brúðubíllinn sýnir í Álafosskvos, teymt undir börnum og hoppukastalar á Stekkjarflöt.
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis og gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal.
Ýmislegt er á dagskrá sem er ætlað ungmennum. Í Hlégarði verður slegið upp tveimur böllum, fyrir miðstig og efsta stig grunnskóla. Félagsmiðstöðin Ból stendur fyrir sápubolta á túninu við Hlégarð en sá viðburður sló í gegn í fyrra. Ungum hljómsveitum gefst kostur á að flytja tónlist sína á sviði í Álafosskvos á laugardag.

Buslandi bæjarhátíð
Í Lágafellslaug verða fjórir spennandi viðburðir. Sundlaugarkvöldið býður upp á skemmtun fyrir alla aldurshópa með Blaðraranum, Lalla töframanni og DJ Baldri. Í anddyri laugarinnar opnar samsýning Bonís og BrummBrumm. Stórtónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða sýndir í beinni útsendingu í innilaug Lágafellslaugar á föstudagskvöld og boðið verður í sundlaugarbíó á laugardagskvöld.
Mosfellsbær og Mosfellsbakarí bjóða upp á ljúffenga afmælisköku í tilefni 20 ára afmælis bæjarhátíðarinnar fyrir utan Mosfellsbakarí á laugardag.

 

Hér má sjá dagsrá hátíðarinnar í heild sinni. 

Samstaða um það mikilvægasta

Ég var að lesa Líf á jörðinni okkar. Bókin kom út fyrr á þessu ári, höfundurinn, David Attenborough, er ekki nema 99 ára, kýrskýr og hvetjandi. Bókin sem ég las á undan henni, Lífið í skóginum (Walden), eftir Henry David Thoreau, kom fyrst út árið 1854 – fyrir tveimur góðum mannsöldrum. Báðar fjalla í grunninn um það sama. Mikilvægi óspilltrar náttúru fyrir allt líf á jörðinni, þar á meðal okkar mannfólksins. Og þau lífsgæði sem felast í einfaldleikanum. Við hvorki þurfum né getum haldið endalaust áfram að hlaupa hraðar og hoppa hraðar – jörðin okkar þolir ekki endalausan vöxt. Það er löngu ljóst og vel útskýrt af Attenborough. En hann er líka maður lausna og leiða og útskýrir í seinni hluta bókarinnar hvað við getum, eða öllu heldur, verðum að gera til þess að byggja aftur upp jafnvægi á jörðinni.

Við þurfum að horfa á stóru myndina og vera samstíga í að gera það sem skiptir mestu máli. Við verðum að vera tilbúin til þess að gera breytingar. Breytingar eru fyrir mörgum það versta í heimi. Hlutirnir hafa alltaf verið svona og þess vegna verða þeir að vera svona áfram. Af því bara. Flugeldar eru eitt lítið dæmi – og ég veit að ég er á hálum ís hér. Framleiðsla þeirra krefst málma, efnasalta og annarra hráefna sem eru unnin með jarðefnavinnslu sem hefur sín umhverfisáhrif. Við sprengingarnar losna svifryk, málmagnir og gastegundir út í andrúmsloftið. Við bætist ruslið sem fylgir flugeldunum, pappír, plast og málmar. Ég elska sjónarspilið og hljóðin sem fylgja flugeldum, en er tilbúinn að breyta til, finna aðra leið til að fagna tímamótum og vinna þannig með óspilltri náttúrunni, ekki á móti henni. Ég styð líka þá ákvörðun að breyta bæjarhátíð til þess að gera hana fjölskylduvænni og vinalegri, þannig bætum við samfélagið. Fögnum breytingum til hins betra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. ágúst 2025

Hef alla tíð verið tengd náttúrunni

Jóhanna B. Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur lét draum sinn rætast árið 2011 þegar hún stofnaði Ræktunar- og fræðslusetur að Dalsá í Mosfellsdal. Þar eru kjöraðstæður bæði til ræktunar og námskeiðahalds, í jaðri höfuðborgarsvæðisins, upp í sveit en þó nærri þéttbýlinu.
Markmiðið með starfsemi setursins er að aðstoða fólk við að tengjast náttúrunni, efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu.

Jóhanna Borghildur er fædd í Reykjavík 31. ágúst 1946. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Jóhannsdóttir húsmóðir og Magnús Björgvin Sveinsson bílstjóri og bóndi. Systkini Jóhönnu eru Júlíana f. 1945, Sveinn f. 1948, Kristján Már f. 1951 og Ingibjörg f. 1958.

Góðar minningar frá Snæfellsnesi
„Fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Laugateigi í Reykjavík en ég var einnig mikið hjá afa mínum og ömmu á Syðra Lágafelli á Snæfellsnesi. Mínar allra sterkustu æskuminningar eru þaðan, við að gefa hænunum og haninn dálítið fúllyndur, leika mér við heimalninginn eða taka þátt í heyskapnum á túninu og út á engjum.
Ég var oft send með kaffið út á engjar, þá kíkti maður ofan í mógrafirnar þó ég hafði verið vöruð við og horfði á brunnklukkurnar dýfa sér ofan í vatnið. Ég fékk svo að sitja á hestunum á leiðinni heim, milli heybagganna.
Minningin um sólmyrkvann 1954 fellur mér seint úr minni, afi hafði sett sót á gler sem við notuðum til að horfa á sólina hverfa smám saman, þetta fannst mér spennandi.”

Við systkinin tókum öll þátt
„Foreldrar mínir stofnuðu nýbýlið Norðurbrún í Reykholti í Biskupstungum. Fljótlega reistu þau tvö gróðurhús þannig að ég er því að hluta til alin upp í gróðurhúsi,” segir Jóhanna og brosir. Í kringum íbúðarhúsið byggði mamma upp glæsilegan heimilisgarð sem við systkinin tókum þátt í að vinna við.
Ég var átta ára þegar ég byrjaði í barnaskólanum í Reykholti, ég naut mín vel þar, góð kennsla og frábær félagsskapur. Við krakkarnir lékum okkur úti í frímínútum þangað til Óli Möller skólastjóri blés í flautuna sína sem merki um að nú skyldi kennsla hefjast á ný.
Lítil sundlaug var í Reykholti á þessum tíma og það leið varla sá dagur að við færum ekki að synda og leika okkur þar.
Lífið á sumrin gekk út á að sinna búskapnum á Norðurbrún, sækja kýrnar, snúa heyinu, naglhreinsa timbur og sækja mjólkurbrúsana. Ég fór síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni og eftir útskrift hóf ég störf hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi.”

Farsæl ár í Tungunum
Jóhanna kynntist eiginmanni sínum, Birni Halblaub, árið 1963. Þau eiga þrjá syni, Magnús f. 1964, Ágúst f. 1968 og Torfa f. 1972. Barnabörnin eru níu.
„Fyrstu árin bjuggum við í Reykjavík og líf mitt snerist þá mest um það að sinna börnum og heimilinu en ég starfaði einnig á leikskólanum Drafnarborg. Við færðum okkur svo um set og fluttum austur í Biskupstungur. Þar rak maðurinn minn vélaverkstæði og ég sinnti gróðurhúsunum, ræktaði þar tómata, gúrkur og kálplöntur og einnig sumarblóm til framhaldsræktunar.
Eftir farsæl sjö ár í Tungunum fluttum við í Mosfellssveitina, það var árið 1976. Þegar drengirnir okkar voru komnir á unglingsaldur þá skildu leiðir okkar Björns.”

Hefur gert margt á lífsins leið
Jóhönnu hafði alltaf dreymt um að fara í nám og lét verða af því að fara í öldungadeild Hamrahlíðarskóla og útskrifaðist sem stúdent 1990. Sama ár útskrifaðist hún af umhverfisbraut frá Garðyrkjuskóla ríkisins en hún hefur allt tíð verið mikið tengd náttúrunni.
Jóhanna hefur gert margt á lífsins leið og hefur haft mikla ánægju af að vinna með fólki. Áhugasvið hennar er fyrst og fremst á sviði umhverfismála og ræktunar í víðum skilningi og að fræða fólk um náttúruna.
Hún var ráðin sem fyrsti umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs og gegndi því til ársins 1993. Hún hefur verið ötul í baráttu fyrir náttúruvernd og stofnaði ásamt félögum sínum Sjálf­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­boðaliðasamtök um náttúruvernd. Einnig starfaði hún hjá Náttúruverndarráði, Landvernd, Tilraunastöð Háskólans á Keldum og sem ferðamálafulltrúi fyrir Skaftárhrepp. Árið 2003 réðst Jóhanna til starfa hjá Garðyrkjufélagi Íslands sem framkvæmdarstjóri. Hún hefur einnig starfað við móttöku ferðamanna til landsins.
Jóhanna hefur ferðast mikið um hálendið bæði akandi og gangandi og tengst því sterkum böndum. Síðastliðna áratugi hefur hún verið að hjálpa fólki við að efla tengsl sín við náttúruna, vernda ósnortna náttúru og rækta grænmeti.

Félagsskapurinn mikils virði
„Þegar ég fór að leita að stað til að búa á í sveit, en þó nærri þéttbýlinu, þá var ég svo heppin að Dalsá í Mosfellsdal var til sölu. Núna í vor eru 32 ár síðan ég flutti á þennan draumastað.
Fyrstu árin starfaði ég annars staðar en ákvað svo að starfa eingöngu við framleiðslu grænmetis og fræðslu um matjurtarækt. Það var góð ákvörðun á sínum tíma en svo fyrir nokkrum árum hugsaði ég hvort ekki væri kominn tími á að hætta að rækta eitthvað annað en garðinn minn. Ég hef reyndar alltaf ræktað garðinn minn, sama hvar ég hef búið,” segir Jóhanna og brosir.
Niðurstaðan var að ræktun grænmetis og alls kyns jurta væri óaðskiljanlegur partur af lífi mínu. Ég ákvað því að bjóða vinkonum mínum að rækta í hluta af matjurtagarðinum mínum. Við værum þá saman að ala upp plöntur frá fræi til uppskeru og ræktum þá um leið félagsskapinn sem er mér mikils virði.”

Hefur mikla ánægju af að syngja
Það hefur alla tíð verið hluti af lífi Jóhönnu að sinna félagsstörfum. Hún hefur setið í stjórn FaMos, félags aldraðra í Mosfellsbæ, síðan 2019 og í febrúar sl. tók hún við sem formaður félagsins. Hún hefur einnig mikla ánægju af að syngja, var í Reykjalundarkórnum um tíma en er núna í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og hefur verið formaður kórsins frá 2020. Hún hefur einnig starfað sem verkefnastjóri á vegum bæjarins.
Ég spyr Jóhönnu að lokum um önnur áhugamál en sönginn? „Hannyrðir og hvers kyns sköpun er einnig stórt áhugamál hjá mér. Ég er með vefstól í stofunni og hef verið að jurtalita garn til vefnaðar. Bókagerð hefur líka alltaf heillað mig og nú á síðustu árum hefur gerð vatnslita úr íslensku grjóti gripið mig og í framhaldi af því fór ég að læra vatnslitun.
Hversdagurinn minn snýst nú orðið um félagsstörf hér í Mosfellsbænum og að rækta garðinn minn hér á Dalsá, það er alltaf nóg um að vera,” segir Jóhanna og brosir er við kveðjumst.

Nýtt sam­komulag fel­ur í sér þreföld­un hjúkr­un­ar­rýma

Samkomulag sem undirritað var þriðjudaginn 1. júlí felur í sér þreföldun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ.
Reisa á nýtt hjúkrunarheimili í bænum með 66 hjúkrunarrýmum en þar eru í dag 33 rými. Alls verða því 99 hjúkrunarrými í Mosfellsbæ.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu samkomulagið í sól og blíðu utan við hjúkrunarheimilið Hamra við Langatanga. Áætlað er að nýja heimilið verði reist sem tengibygging við Hamra.

Stefnt að opnun árið 2028
„Ég er mjög ánægð með þessa miklu fjölgun hjúkrunarrýma og þann samning sem við vorum að undirrita,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Viðbyggingin er staðsett á einstaklega fallegri lóð og hér vonum við að framtíðaríbúar fái notið gæðaþjónustu.“
Mosfellsbær útvegar ríkinu lóðina og á næstunni verður auglýst eftir uppbyggingaraðila sem mun sjá um eignarhald og framkvæmdir gegn langtímaleigusamningi við ríkið. Miðað er við að framkvæmdir hefjist árið 2026 þannig að taka megi hjúkrunarrýmin í notkun árið 2028. Öll herbergin verða einbýli með baðherbergi.

Nýr samningur markar tímamót
Að sögn Regínu þá markar nýr samningur tímamót þar sem 15% þátttaka sveitarfélagsins við uppbygginguna fellur niður en ríkið sér alfarið um uppbyginguna og jafnframt að sveitarfélögum verði heimilt að innheimta gatnagerðargjöld af lóðum fyrir hjúkrunarheimili.
Að lokinni undirritun gróðursettu ráðherra og bæjarstjóri broddhlyn sem mun vaxa samhliða uppbyggingunni við Hamra.

Ávísun á fleiri ævintýri

Styrktarmótið Palla Open var haldið fimmta árið í röð í byrjun júní.
Mótið fer stækkandi ár hvert og er orðið stærsta golfmót sinnar tegundar hér á landi. Að þessu sinni voru það 244 kylfingar sem tók þátt og ríkti mikil gleði á Hlíðarvelli þennan dag í blíðskaparveðri.
Framlag Golfklúbbs Mosfellsbæjar er til fyrirmyndar en allt þátttökugjald rennur beint til málefnisins og jafnframt gefur klúbburinn alla sína vinnu í tengslum við mótið.

Draumurinn að byggja nýtt hús
Á síðustu fimm árum hefur Palla Open safnað um 16 milljónum til styrktar góðum málefnum. Stærstur hluti af þessum fjármunum hefur runnið til Reykjadals. Palla Open hefur keypt fjóra útivistarhjólastóla sem hafa heldur betur nýst vel.
Þá hafa fjölmargir styrktaraðilar gefið glæsilega vinninga í gegnum árin.
Framlag Palla Open styrkir starfsemi, uppbyggingu og aðstöðu í Reykjadal, þar sem vinátta, ævintýri og þátttaka eru í forgrunni. „Draumurinn er að byggja nýtt hús í Reykjadal,“ segir Palli Líndal sem er stórhuga.

Á myndinni eru þau Ágúst, Andrea, Bergljót, Kári, Palli og Hlín með afrakstur síðustu þriggja ára.

Nýr leikskóli í Helgafellshverfi

Berg­lind Grét­ars­dótt­ir, leik­skóla­stjóri Sum­ar­húsa, Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri, Magnús Þór Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Al­efl­is, Aldís Stef­áns­dótt­ir bæj­ar­full­trúi og formað­ur fræðslu- og frí­stunda­ráðs og Svein­björg Dav­íðs­dótt­ir, leik­skóla­stjóri Hlað­hamra.

Mos­fells­bær fagnaði opn­un nýs og glæsi­legs leik­skóla í Helga­fellshverfi þann 30. júní en hann hefur fengið nafnið Sum­ar­hús.
Opn­un leik­skól­ans er stór og mik­il­væg­ur áfangi í bættri þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur í sveit­ar­fé­lag­inu. Leik­skól­inn er sér­stak­lega hann­að­ur og byggð­ur með þarf­ir barna og starfs­fólks að leið­ar­ljósi.

Efla þjónustu við yngstu íbúa bæjarins
„Þessi dag­ur mark­ar mik­il­væg tíma­mót fyr­ir Mos­fells­bæ, af­hend­ing og vígsla nýs og glæsi­legs leik­skóla,“ seg­ir Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri. „Við erum ein­stak­lega ánægð með sam­vinnu við verk­taka­fyr­ir­tæk­ið Al­efli sem hef­ur stað­ið við all­ar tíma­setn­ing­ar og skil­ar af sér glæsi­legu verki.
Með opn­un Sum­ar­húsa er stig­ið stórt og mik­il­vægt skref í að fjölga leik­skóla­rým­um og efla þjón­ustu við yngstu íbúa bæj­ar­ins og halda þann­ig áfram að gefa börn­um allt frá 12 mán­aða aldri kost á leik­skóla­plássi.“

150 leik­skóla­pláss í Sum­ar­hús­um
Leik­skól­inn Sum­ar­hús er fyr­ir börn á aldr­in­um 1–5 ára og rúm­ar 150 börn. Frá hausti munu um 60 börn ásamt starfs­fólki frá leik­skól­an­um Hlað­hömr­um dvelja þar tíma­bund­ið á með­an unn­ið er að fram­tíð­ar­lausn fyr­ir Hlað­hamra sem varð að loka í vet­ur vegna skemmda á hús­næði.
Leik­skóla­stjóri Sum­ar­húsa er Berg­lind Grét­ars­dótt­ir. Starfs­menn verða um 45 tals­ins í 40 stöðu­gild­um og vel hef­ur geng­ið að ráða í helstu lyk­il­stöð­ur í leik­skól­an­um.

Heilsu­stefn­an að leið­ar­ljósi
Starf Sum­ar­húsa bygg­ir á Heilsu­stefn­unni, þar sem áhersla er lögð á nær­ingu, hreyf­ingu og sköp­un í leik.
„Við hlökk­um mik­ið til að taka á móti þeim börn­um sem hefja skóla­göngu sína í Sum­ar­hús­um að loknu sum­ar­leyfi,“ seg­ir Berg­lind Grét­ars­dótt­ir, leik­skóla­stjóri í Sum­ar­hús­um. Jafn­framt verð­ur spenn­andi að sjá starf­ið þró­ast og dafna og leik­skól­ann verða einn af mátt­ar­stólp­un­um í skóla­sam­fé­lagi Mos­fells­bæj­ar.“

Bjart, nútímalegt og vistvænt
Sum­ar­hús er í nýju og sér­hönn­uðu hús­næði í Helga­fellshverfi sem er í senn bjart, nú­tíma­legt og vist­vænt.
Hug­mynda­fræð­in að baki hönn­un hús­næð­is­ins er að leik­skól­inn verði hag­kvæm­ur í rekstri, að hljóð­vist, lýs­ing og loft­gæði verði sem best og bygg­ing­in í heild sinni falli þann­ig að um­hverfi sínu að auð­velt sé að tengja sam­an skólast­arf, nátt­úru, um­hverfi og sam­fé­lag.

Alefli skilaði fyrir áætluð verklok
Kanon arki­tekt­ar sáu um hönn­un húss­ins og var vinn­an leidd af arki­tekt­un­um Hall­dóru Krist­ínu Braga­dótt­ur og Mos­fell­ingn­um Þor­keli Magnús­syni. Verk­fræði­hönn­un var í hönd­um Tekn­ik ehf. og VSÓ ráð­gjöf sá um bygg­inga­stjórn­un.
Mos­fellska verk­taka­fyr­ir­tæk­ið Al­efli ehf. sá um bygg­ingu leik­skól­ans og gekk vinn­an það vel að verktak­inn skil­aði hús­næð­inu af sér fyr­ir áætluð verklok.

Okkar stelpur á EM

Við Mosfellingar eigum frábæra fulltrúa í landsliði Íslands á lokakeppni EM í fótbolta í Sviss. Cecilía Rán Rúnarsdóttir, flutti 7 ára í Mosfellsbæ og lék með Aftureldingu upp yngri flokkana og í meistaraflokki áður hún færði sig yfir í Fylki og þaðan í atvinnumennsku erlendis. Cecilía hefur átt frábært tímabil í marki Inter Milan á Ítalíu og var eftir tímabilið valin besti markvörður deildarinnar. Hafrún Rakel Halldórsdóttir ólst upp í Mosfellsbænum og lék lengi með Aftureldingu þangað til hún skipti yfir í Breiðablik og þaðan í Bröndby í Danmörku, eitt af allra bestu liðum Danmerkur. Hafrún spilar á miðjunni og er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins sem hrósa henni fyrir sterkt hugarfar og sigurvilja. Það verður gaman að fylgjast með þeim Cecilíu og Hafrúnu í Sviss. Þær eru frábærar fyrirmyndir fyrir ungar fótboltastelpur í Mosfellsbæ og hafa sýnt að með metnaði, dugnaði og þrautseigju er hægt að láta fótboltadrauma rætast.

Jákvæð sálfræði er aðferðafræði sem ég er persónulega mjög hrifinn af. Það að vinna með styrkleika sína, rækta þá og byggja á þeim er alveg örugglega eitthvað sem bæði Hafrún og Cecilía gera reglulega. Birna Kristín Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Aftureldingar, sem nýlega lauk námi í jákvæðri sálfræði hefur verið að vinna með fótboltastelpum og –strákum undanfarið í því að efla andlegan styrk þeirra og styrkja jákvæða menningu í liðum þeirra. Hún bendir á að rannsóknir sýna að einstaklingar sem þekkja styrkleika sína og nýta þá daglega eru mun líklegri til þess að vera virkir í starfi og daglegu lífi og eru framtakssamari, hamingjusamari og heilbrigðari. Ég hlakka líka til að fylgjast með Birnu í framtíðinni, það er ótrúlega verðmætt fyrir okkur sem samfélag að öflugt fólk vinni í andlega þættinum með íþróttafólkinu okkar – það eflir bæði þau sem einstaklinga og alla þá hópa sem þau tilheyra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. júlí 2025

Pílus fagnar 40 ára afmæli

Ragnhildur Bergþórsdóttir eigandi Pílus.

Þann 1. maí 1985 var Pílus hársnyrtistofa stofnuð í Mosfellsbæ og á því 40 ára afmæli um þessar mundir.
Ingibjörg Jónsdóttir tók við stofu sem hét Rakarastofa Mosfellsbæjar og breytti nafninu í Pílus. Ingibjörg rak stofuna til 1. maí 2007 en þá tók núverandi eigandi Ragnhildur Bergþórsdóttir við og rekur stofuna enn. Stofan hefur verið staðsett í Kjarnanum síðan hann opnaði 1997 og er elsta hársnyrtistofan í Mosfellbæ.

Dugleg að taka við nemum
„Ég byrjaði hér rétt eftir að ég var búin að læra árið 2000 og tók svo við rekstrinum sjö árum seinna. Á starfstíma stofunnar hafa starfað á bilinu 5-8 hársnyrtisveinar og hársnyrtimeistarar í einu.
Við höfum alla tíð verið dugleg að taka við nemum og margir þeirra hafa ílengst og starfað á stofunni í mörg ár,“ segir Ragnhildur og bætir við að mikið af hársnyrtimeisturum séu starfandi um allt land sem hafi verið nemar á Pílus.

Öll almenn hársnyrtiþjónusta
„Við bjóðum upp á alla þjónustu, barna-, herra- og dömuklippingar, permanent, litun og skeggsnyrtingar. Við erum með rosalega breiðan viðskiptamannahóp og ég myndi segja að sérstaða okkar hér á Pílus væri að við hentum öllum, að hver sem er getur gengið hér inn og fengið það sem hann óskar eftir. Við erum með skemmtilega blöndu af fagfólki starfandi hér.
Pílus hélt upp á afmælisdaginn og bauð meðal annars viðskiptavinum upp á köku í tilefni 40 ára afmælisins. Einnig hefur stofan boðið upp á afmælisafslátt af öllum vörum í maí. Viðskiptavinir okkar hafa notið góðs af afmælinu, en við erum með mikið úrval af gæða hárvörum.“

Skemmtileg stemmning
„Hér myndast oft skemmilega stemning, hingað koma margir Mosfellingar bæði þeir sem búa í bænum og þeir sem hafa flutt burt. Mikið af fólki sem þekkist og því skapast oft skemmtilegar stundir og ýmislegt rætt.
Margir Mosfellingar eiga einhverjar tengingu við Pílus og með stækkandi bæjarfélagi og fleiri íbúum þá vonumst við til að sjá sem flesta hér á Pílus,“ segir Ragnhildur að lokum og tekur fram að starfsfólk Pílus taki vel á móti viðskiptavinum með fagmennsku og góðri þjónustulund.

Dóri DNA bakar kryddbrauð fyrir gesti á Blikastöðum

Laugardaginn 14. júní bjóða Blikastaðir gestum í heimsókn. Hægt verður að kynna sér fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu og njóta veitinga og skemmtunar.
Mosfellingurinn Dóri DNA hefur að undanförnu verið fenginn sem ráðgjafi í málefnum Gamla bæjarins á Blikastöðum sem hann segir eiga eftir að vaxa sem skæsleg miðstöð þjónustu.

Horfa inn í framtíðina
„Ég hef verið með Blikastaðalandið á heilanum síðan ég heyrði af fyrirhugaðri uppbyggingu,“ segir Dóri. „Síðan um jólin hef ég verið í samtali við bæjarbúa um hvað þeim finnst að ætti að koma þarna og það segja allir það sama, einhvers konar kaffihús, eitthvað fyrir börnin og svo eru Mosfellingar auðvitað mjög uppteknir af kryddbrauðinu.
Þess vegna er planið að bjóða í heimsókn og að fá Baunir og ber til að hella upp á latté, Leikhópinn Lottu og sjálfur ætla ég að taka að mér pizzubaksturinn. Þetta er líka kannski viðleitni til að horfa inn í framtíðina á Blikastöðum.“

Áhugasamir geti upplifað svæðið
„Mér fannst bara kjörið að gera eitthvað sumarlegt og eitthvað mjög mosfellskt, sem minnir samt á eitthvað mjög töff í Kaupmannahöfn.
Svo það sé á hreinu, þá er kryddbrauðið ekki eitthvað sem maður lærði í heimilisfræði og er borðað með feitum bita af smjöri. Þetta er í raun kross-afbrigði pizzu og brauðstanga með mjög spes-umami-kryddblöndu. Þetta gerir alla gjörsamlega brjálaða sem smakka þetta. Vonandi sér maður sem flesta – gamla kryddbrauðs-unnendur sem og nýliða.
Kannski að stóra atriðið sé að nú gefst bæjarbúum og öllum sem áhuga hafa tækifæri á að labba um svæðið með hönnuðum og soldið upplifa þetta.“
Dagskráin er frá kl. 12:30 til 17:00.

Gaman að sjá börnin taka framförum

Ítalinn Fabio La Marca stofnaði Ungbarnasund hjá Fabio vorið 2018. Áhugi hans á ungbarnasundi kviknaði þegar hann fékk að fylgjast með í tímum, þjálfun í vatni, í námi sínu í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands.
Í dag kennir Fabio ungbarnasund á Reykjalundi, hann segir dýrmætt að finna fyrir þeirri tengingu sem myndast við börn og foreldra á meðan á námskeiðunum stendur og að sjá börnin taka framförum við að öðlast öryggi í vatni.

Fabio er fæddur í Savona á Ítalíu 1978. Foreldrar hans eru þau Andreina Illarcio La Marca líffræðingur og húsmóðir og Giovanni La Marca, skólastjóri og kennari.
Bróðir Fabio er Riccardo La Marca f. 1982.

Þetta hefur mótað mig mikið
„Ég ólst upp í Genova í Liguria héraði á norður Ítalíu, hverfið sem ég bjó í heitir Multedo en þar búa um 4.500 manns. Þetta er rólegt hafnarhverfi með þúsund metra há fjöll í bakgarðinum. Því miður var ekki hægt að fara í sjóinn vegna olíuvinnslunnar en í staðinn æfði ég kappróður í 10 ár.
Það var auðvelt að fara út í náttúruna þar sem ég bjó og ég fór oft í göngutúra með afa út í skóg þegar hann kom í heimsókn til okkar. Það var alltaf mikil samvera með fjölskyldunni við eldhúsborðið heima, mikið spjallað og skrafað og þar lærði maður að rökræða. Mörg börn voru í hverfinu og við vorum dugleg að leika okkur saman um helgar og á sumrin.
Einu sinni á ári fórum við fjölskyldan suður í Cusano Mutri til að hitta fjölskyldu pabba. Þau áttu hús í sveitinni og þar var gamaldags og hæglátur lífsstíll en algjör sveitaparadís fyrir börn. Mörg frændsystkin að leik, dýralíf, bændalíf og setið saman við kamínuna. Ég tel mig vera heppinn að hafa fengið að kynnast þarna öðruvísi menningu frábrugðinni minni, þetta hefur mótað mig miklu meira en mig hefði grunað.“

Leið alltaf vel í skólanum
Fabio fór gangandi í skólann eða tók strætó á sínum yngri árum en fór síðan í lest eða á mótorhjóli þegar menntaskóla- og háskólaárin tóku við. Hann gekk í leik- og grunnskólann Villa Maria í Sestri Ponente, gagnfræðaskólann Scuola Media Luigi Rizzo í Pegli, menntaskólann Liceo Classico Giuseppe Mazzini í Sampierdarena og Háskólann Universitá degli Studi di Genova en þar nam hann bókmenntir og heimspeki.
„Skólagangan var mér létt og mér leið alltaf vel í skólanum. Þegar ég hugsa til baka þá var heimavinnan samt mikil og á menntaskólaárunum var líka skóli á laugardögum. Ég var mjög fjörugur og uppátækjasamur á mínum yngri árum skal ég segja þér en ég hef nú róast töluvert,“ segir Fabio og brosir.
„Á Ítalíu tíðkast ekki að vinna með námi fyrr en maður er kominn í háskóla, þá fór ég í að þjóna, dreifa auglýsingabæklingum á mótorhjóli, passa hunda, kenna og þjálfa róður.“

Keypti miða aðra leiðina
Fabio kom fyrst til Íslands vorið 2003 til að vera svaramaður í brúðkaupi besta vinar síns, Michele Rebora. Hann kom svo aftur í janúar 2004 þá búinn að klára háskólanám sitt á Ítalíu. Fabio var búinn að fá boð um að fara í herskyldu í heimalandi sínu sem hann segir að sé alls ekki fyrir sig. Til að sleppa við hana löglega þarf að búa erlendis í sjö mánuði, hann ákvað því að flytja til Íslands og keypti sér miða aðra leiðina. Þessir sjö mánuðir hafa lengst töluvert því hann býr hér enn, á fjölskyldu og er hæstánægður með lífið.

Mismunandi menningarheimar
Eiginkona Fabio er Karen Emilía Woodrow reiðkennari og framhaldsskólakennari, þau eiga þrjár dætur. Anney Saga er fædd 2017, Andrea Þórey fædd 2019 og Anika Marey er fædd 2024.
„Við fjölskyldan reynum að ferðast eins mikið og við getum, engir flugeldar samt ekki misskilja mig en við sköpum minningar og kynnumst mismunandi menningarheimum. Við förum reglulega til foreldra minna á Ítalíu og til Bretlands en konan mín er hálf bresk. Okkur finnst líka gaman að fara í berja- og sveppamó og líka að eiga eins margar samverustundir með vinafólki og við getum en þær stundir snúast oftast nær í kringum eldamennsku.“

Þetta voru mótandi ár
Á Ítalíu starfaði Fabio sem róðrarþjálfari fyrir byrjendur og unga ræðara, sem þjónn og eins sinnti hann liðveislu en þar byrjaði áhugi hans á sér- og stoðkennslu. Honum fannst gott að fá tækifæri til að hjálpa þeim sem þurftu mest á stuðningi að halda.
Eftir að hann flutti til Íslands hóf hann störf hjá málarameistara, fór þaðan á kaffihús og svo á Ölstofu K&S þar sem hann starfaði sem barþjónn og rekstrarstjóri.
„Þetta voru mótandi ár fyrir ungan Ítala til að komast inn í íslenskt samfélag skal ég segja þér en þarna kynntist ég einum af mínum bestu vinum í dag,“ segir Fabio og brosir.
Fabio starfar í dag sem deildarstjóri stoðþjónustu í Melaskóla, hans sérhæfing er að aðstoða börn með hegðunarvandamál. Hann er einnig til staðar fyrir nemendur sem eru ekki með fast skipulag og fer með þeim í frímínútur, matartíma og sundferðir. Eins þjálfar hann stuðningsfulltrúa og starfar með þeim og er tengiliður þjónustumiðstöðvar.

Fékk þann heiður að taka við
Ungbarnasund er einstök upplifun fyrir foreldra og börn. Markmið sundsins er ekki einungis að kynna börnin fyrir vatninu heldur hjálpar það einnig til við að þroska jafnvægi, vöðvastyrk og samhæfingu.
Fabio stofnaði Ungbarnasund hjá Fabio vorið 2018 en hann kennir í dag á Reykjalundi og í Borgarnesi. Áhugi hans á ungbarnasundi kviknaði þegar hann fékk að fylgjast með í tímum, þjálfun í vatni, í námi sínu í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands en hann var í verknámi hjá Ólafi Gíslasyni á Reykjalundi.
„Ég byrjaði að kenna ungbarnasund í Borgarnesi og var líka með námskeið í nokkur ár á Akranesi og í Klettaskóla. Ég fékk svo þann heiður að taka við af Ólafi þegar hann lét af störfum eftir að hafa kennt ungbarnasund í Mosfellsbæ í yfir tvo áratugi. Það eru mikil forréttindi að starfa í sínum heimabæ, ég er þakklátur Reykjalundi og starfsfólkinu sem er svo yndislegt og hefur tekið mér vel. Sundlaugin hefur líka allt til alls, svo maður tali nú ekki um umhverfið.
Það er svo gaman að fylgjast með börnunum í tíma og sjá þau taka framförum við að öðlast öryggi í vatni. Þetta er mikil núvitund, engin truflun, bara ég, börnin, aðstandendur og vatnið, bara dásamlegt. Ég er ríkari maður eftir hverja kennslustund, það kemur svo mikil orka og gleði frá börnunum,“ segir Fabio með bros á vör er við kveðjumst.

Matvöruverslunin Delí opnar í Kjarna

Á dögunum opnaði verslunin Delí í Kjarnanum, Þverholti 2.
Það eru þau Przemyslaw Kosiorowski, Mateusz Kubas og Izabela Grajewska sem reka verslunina, en þau koma öll frá Póllandi þó að Izabela hafi búið lengur á Íslandi en í Póllandi.
„Hugmyndin kom frá manninum mínum og besta vini hans, við tókum höndum saman og fórum í þetta verkefni. Við fundum húsnæði, fengum öll leyfi, svo var farið í að panta inn vörur og svoleiðis og að finna góða birgja með þær vörur sem okkur langaði að bjóða upp á. Þetta gekk allt saman vel og á endanum náðum við að opna,“ segir Izabela Grajewska.

Fjölbreytt og öðruvísi vöruval
„Okkar sérstaða er kannski að við erum með öðruvísi vöruúrval en í öðrum verslunum, við flytjum inn mikið af vörum beint frá Póllandi, Úkraínu, Litháen og eitthvað frá Þýskalandi.
Við erum með góðan birgja erlendis með gæðavörur. Við erum einnig með úrval af ferskvöru frá Íslandi og svo erum við alltaf með nýbakað brauð og bollur á hverjum degi. Við ætlum okkur svo að vera með heitan kjúkling, tilbúnar samlokur og í framtíðinni heimilismat sem verður lagaður hér á staðnum. Það er verið að vinna í því að klára öll leyfi og svoleiðis í sambandi við það,“ segir Izabela sem vonast til að geta boðið upp á þessa þjónustu sem fyrst.

Skemmtilegt app í Delí
Þau í Delí hafa nýverið látið hanna fyrir sig skemmtilegt app, viðskiptavinirnir geta tekið mynd af vörum í búðinni og fengið þar upplýsingar um vöruna, næringargildi og jafnvel hugmyndir að notkun og uppskriftir.
„Já, appið okkar hefur fengið góðar viðtökur og er þetta skemmtileg viðbót hjá okkur og fólk er að byrja að nota þetta. Ég er dugleg að afla mér upplýsinga frá viðskiptavinum hvað við getum gert betur og hvað við getum bætt. Ég er dugleg að pósta á facebook en við heitum Deli matvöruverslun, endilega líkið við síðuna okkar og fylgist með.“

Góðar viðtökur
Deli er opin alla daga vikunnar, mánudaga til laugardaga kl. 7:00-22:00 og sunnudaga kl. 11:00-22:00.
„Við erum ánægð með viðtökurnar og mér finnst alveg æðislegt að fá fólk í búðina og upplifa að fólk er tilbúið að prófa eitthvað nýtt. Hugsunin hjá okkur var að auka aðgengi að vörum sem við þekkjum frá okkar heimalandi, við vissum að það væri engin búð með þessum vörum í Mosfellsbæ og því varð þessi staðsetning fyrir valinu.
Við hvetjum Mosfellinga til að kíkja á okkur, kynna sér vörurnar sem við erum með og kynnast nýjungum og nýju bragði,“ segir Izabela að lokum.

Álafosshlaupið fer fram 12. júní

Álafosshlaup Scarpa fer fram fimmtudaginn 12. júní og verður ræst kl. 18:00 við Varmárvöll. Hlaupið á sér langa sögu en það var fyrst haldið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi. Í dag er það orðið fastur liður í bæjarlífinu og hefur hlaupurum fjölgað vel á síðustu árum. Frjálsíþróttadeild Aftureldingar sér um skipulagningu hlaupsins. Boðið verður upp á tvær vegalengdir, 5,6 km og 10 km, sem báðar liggja um fallegt og fjölbreytt svæði austanmegin í bænum.

Öllum þátttakendum er boðið í sund í Varmárlaug að hlaupi loknu og drykkir og orka verður í boði í markinu fyrir hlaupara. Vegleg verðlaun verða í boði en sigurvegarar fá Scarpa hlaupaskó frá Fjallakofanum, snillingarnir í Ásgarði smíða viðarmedalíur fyrir fyrstu þrjú sætin og einnig verður fjöldi frábærra útdráttarverðlauna. Þá eru glæsilegir farandbikarar í boði. Nánari upplýsingar eru á netskraning.is

Krakkarnir kusu þrautabraut á vatni, aparólu og snúningsrólu

Kosningu í lýðræðis- og þátttökuverkefninu Krakka Mosó 2025 er lokið og voru 1.179 krakkar á mið- og unglingastigi í Mosfellsbæ á kjörskrá. Alls greiddu 997 krakkar atkvæði og reyndist kjörsókn því um 85%.
Það að útfæra Okkar Mosó sem Krakka Mosó 2025 er mikilvægt skref í því að efla börn sem virka þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi.
Verkefnið byggir á 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur annars vegar á réttinum til að tjá skoðanir sínar og hins vegar réttinum til þess að skoðanir barna hafi vægi. Mosfellsbær vinnur nú að innleiðingu verkefnisins Barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF á Íslandi og endurspeglar Krakka Mosó þær áherslur.

Hugmyndir fyrir þrjú opin svæði
Verkefnið fór af stað með kynningum fyrir nemendur í skólum dagana 22.–23. apríl, þar sem fræðsla var veitt um lýðræði og þátttöku. Eftir það fór fram hugmyndasöfnun í bekkjum skólanna dagana 28.–29. apríl, þar sem nemendur fengu tækifæri til að leggja fram þær hugmyndir sem þeir töldu mikilvægar fyrir þrjú opin svæði í bænum. Alls bárust rúmlega 400 tillögur.
Svæðin eru Ævintýragarðurinn, Stekkjarflöt og svæði við Rituhöfða. Hugmyndirnar gátu tengst því að gera svæðin betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja og skemmtunar.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025 var 20 milljónum króna úthlutað til að framkvæma þau verkefni sem krakkar og ungmenni í Mosfellsbæ kjósa.

Eftirlit frá yfirkjörstórn Mosfellsbæjar
Eftir úrvinnslu hugmyndanna sem fór fram 2.–13. maí var farið í kynningu meðal nemenda á þeim tillögum sem fóru til atkvæðagreiðslu. Þær voru sex: stór aparóla, þrautabraut á vatni, pumpan, parkour þrautir, snúningsróla og að lokum blak-, padel- og tennisvöllur.
Kjördagur var 20. maí síðastliðinn og lauk kosningu á hádegi. Krakkar úr hverjum skóla fylgdust með framkvæmd og fulltrúar þeirra tóku þátt í sjálfri talningunni með stuðningi meðal annars frá fulltrúa yfirkjörstjórnar Mosfellsbæjar. Kjörkassar voru notaðir og hófst talning atkvæða kl. 13.00 og lauk 14.30.
Niðurstöður kosninganna voru tilkynntar og afhentar bæjarstjóra til framkvæmdar kl.16:00 í Helgafellsskóla sama dag.

Þrjú verkefni kosin til framkvæmda
Þrjú verkefni voru kosin til framkvæmda og var bæjarstjóra afhent niðurstaðan í Helgafellsskóla þar sem talning atkvæða fór fram. Fyrir valinu urðu:
Þrautabraut á vatni
Þrautabraut úr ýmiss konar trjábolum yfir vatn. Fyrirmyndin er vatnsþrautabrautin í Kjarnaskógi fyrir utan Akureyri. Hentar bæði börnum og unglingum.
Stór aparóla
Há og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli. Hugsuð fyrir eldri börn og unglinga. Staðsett í brekku þannig að hægt sé að ná ágætis hraða. Nógu há til þess að fæturnir rekist ekki í jörðina.
Snúningsróla
Snúningsróla með fjórum örmum og sætum. Rólan fer í hringi og upp og niður á sama tíma. Hugsuð fyrir börn frá sex ára aldri.

Verkefnin framkvæmd í sumar
Mosfellsbær vill hrósa og þakka öllu því efnilega, áhugasama og flotta unga fólki sem kom að kosningunum í Krakka Mosó og þeim sem tóku þátt. Framtíðin er aldeilis björt í Mosfellsbæ með svona flottan hóp krakka.

Stofutónleikar í allt sumar

Stofutónleikar Gljúfrasteins hefjast sunnudaginn 8. júní en blásið verður til tónleika alla sunnudaga kl. 16 í sumar.
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi. Einvalalið tónlistarfólks mun stíga á stokk.
Tónleikarnir hafa verið fastur liður á safninu frá árinu 2006, en í tíð Halldórs og Auðar voru reglulega haldnir tónleikar í stofunni þar sem innlent og erlent tónlistarfólk lék listir sínar.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins en tilgangur félagsins er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness og mikilvægi hans.
Meðal listamanna sem koma fram á tónleikum í sumar eru GDRN, Elín Hall, Sigurður Guðmundsson, Svavar Knútur, Valdimar Guðmundsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Dagskrá sumarsins má finna á www.gljufrasteinn.is.
Á fyrstu tónleikunum, 8. júní, munu Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og Kristinn Örn píanóleikari flytja lög eftir íslensk og erlend tónskáld á klassískum nótum.

Fljótandi veitingar

Það er mikið í umræðunni núna hvort það sé rétt að selja bjór á íþróttaleikjum. Tvö sjónarmið takast á – annars vegar forvarnarsjónarmiðið sem segir að íþróttir og áfengi fari aldrei saman og hins vegar viðburðasjónarmiðið sem setur íþróttaleiki á hæsta stigi í sama flokk og aðra viðburði sem fjöldi fólks velur að mæta á. Viðburði eins og leiksýningar og tónleika. Eins og oft þegar ólík sjónarmið eru í umræðunni vantar oft það sjónarmið sem tekur tillit til beggja póla og til þess hvað fólk almennt vill.

Það er staðreynd að íþróttaviðburðir á afreksstigi eru í samkeppni við aðra viðburði í samfélaginu. Það er margt í boði í dag og á flestum stöðum er það frekar fámennur kjarni sem mætir á alla leiki síns liðs. Aðrir koma ef liðinu gengur vel, ef veðrið er gott, ef vinir og kunningjar ætla að mæta og, hugsanlega, ef það er boðið upp á veitingar sem fólk á að venjast frá annars konar viðburðum. Þetta skiptir afreksliðin miklu máli – bæði að fólk mæti og að það kaupi veitingar. Veitingar, fljótandi, eru stór tekjulind margra félaga í dag. Mjög stór, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er líka staðreynd að mörg börn og unglingar mæta á íþróttaviðburði. Og það getur ekki verið mikil forvörn í því að þau fylgist meðvitað eða ómeðvitað með sér eldri sturta í sig bjórum í stúkunni við hliðina á þeim. Jafnvel fyrirmyndum sínum – leikmönnum og þjálfurum.

Hvernig tæklum við þetta sem samfélag? Hvernig getum við fundið lausn sem tekur bæði sjónarmið til hliðsjónar? Getum við lært af öðrum? Skoðað hvernig önnur samfélög með svipuð gildi og við hafa nálgast þetta viðfangsefni? Sums staðar geta áhorfendur keypt sér fljótandi veitingar fyrir leik í afmörkuðu rými – en mega ekki taka þær með sér á áhorfendabekkina. Væri það leið?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 5. júní 2025