12 ár

Sæll Sir, ég ætla að byrja að skrifa reglulega pistla um heilsu/hreyfingu/æfingar. Hefurðu áhuga á að fóstra þessa pistla í Mosfellingi? Að ég væri með fastan dálk þar.“
Þetta sendi ég Hilmari ritstjóra 1. ágúst 2013. Fékk til baka. „Já, er það ekki bara snilld?“ Hann var strax til í þetta, setti mér einn ramma, 300 orð, en gaf mér annars 100% frelsi.

Ég man ekki almennilega af hverju ég fékk þessa hugmynd en veit að pistlarnir hafa gefið mér mikið. Ég hef þörf fyrir að skrifa og á einhvern hátt líka þörf fyrir að koma því góða sem ég læri á framfæri þannig að aðrir geti nýtt sér vitneskjuna líka. 300 orða ramminn er frelsandi, þetta er rýmið, nýttu það eins vel og þú getur. Þú færð ekki meira pláss. Ég svindlaði reyndar í fyrsta pistlinum, um æfingu guðanna, upphífingar. Hann var 400 orð. En síðan hef ég haldið mig við 300 orð og skrifað um það sem hefur verið mér efst í huga á hverjum tíma. Flest, vonandi, heilsutengt.
Í covid stakk ég aðeins af til Danmerkur til þess að vinna með pistlana – las þá alla og flokkaði með það fyrir augum að gefa þá út. Einhvers konar samantekt. Ég á þessa samantekt en hef ekkert gert meira með útgáfu. Vinnan sjálf var nóg. Að pæla í því sem ég hafði skrifað, hvort það meikaði enn sens.

Nú, rúmum tólf árum síðar, ætla ég að segja stopp. Ekki af því að þörfin fyrir að skrifa hafi minnkað, það er alls ekki þannig. En allt hefur sinn tíma og það er vel tímabært að hleypa nýjum pistlahöfundum að. Þó fyrr hefði verið, hugsa örugglega margir, en ég vona nú samt og ætla að trúa að þessir pistlar hafi orðið einhverjum heilsueflandi hvatning.

Takk kærlega fyrir mig. Stay alive!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. nóvember 2025

Nanna Björt gefur kost á sér í 5. sæti

Nanna Björt Ívarsdóttir gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri sjálfstæðis­manna sem fram fer þann 31. janúar 2026. Nanna Björt er tvítug og stundar nám við lagadeild Háskóla Íslands.

„Ég hef mikinn áhuga á því hvernig samfélagið okkar þróast og hef alltaf haft gaman af því að taka þátt, hlusta og láta rödd mína heyrast þegar kemur að málefnum sem skipta fólk máli. Ég er tilbúin að stíga skrefinu lengra. Ég vil vinna af heilindum með góðu og jákvæðu fólki að því að styrkja Mosfellsbæ enn frekar, hvort sem um er að ræða málefni ungs fólks, tómstundir, félagsmál eða önnur verkefni sem snerta daglegt líf okkar allra. Mosfellsbær er heimilið mitt og framtíð bæjarins er mér hjartans mál.”

Elísabet gefur kost á sér í 3. sæti

Elísabet S. Ólafsdóttir gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 31. janúar.

Elísabet hefur búið í Mosfellsbæ frá árinu 1979 og starfaði sem skrifstofustjóri og sáttasemjari hjá Ríkissáttasemjara í rúmlega 40 ár. Elísabet hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðis­flokksins bæði í Mosfellsbæ og á landsvísu. Hún hefur verið í stjórnum bæði Sjálfstæðisfélagsins og Fulltrúaráðsins, lengst af sem formaður Fulltrúaráðs. Sat einnig í fræðslunefnd eitt kjörtímabil.

„Mér hefur þótt dásamlegt að búa í Mosfellsbæ öll þessi ár og vil nú nýta reynslu mína og þekkingu til þess að taka þátt í að gera bæinn okkar að enn betra samfélagi,“ segir Elísabet.

Ragnar Bjarni býður sig fram í 4. sæti

Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson, hef ákveðið að bjóða mig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer þann 31. janúar 2026.

„Ég geri það af því að ég trúi á bæinn okkar, á samfélagið sem við höfum byggt upp og á að við getum gert það enn betur saman. Á þessu kjörtímabili hef ég tekið virkan þátt í bæjarmálum, starfað sem aðalmaður í umhverfisnefnd, einnig hef ég setið sem varamaður í fræðslunefnd og skipulagsnefnd. Ég hef einnig tekið virkan þátt í starfi ungra kjósenda og var formaður Ungra Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.

Ég tel það afar mikilvægt að ungt fólk hafi skýra rödd í mótun framtíðar Mosfellsbæjar. Við stöndum frammi fyrir stórum og spennandi verkefnum: Uppbyggingu hverfa, bættri þjónustu, auknum tækifærum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur og ekki síst því að halda áfram að byggja upp öflugt og ábyrgt samfélag þar sem öllum líður vel. Saman gerum við góðan bæ enn betri!“

Jana gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri

Jana Katrín Knútsdóttir gefur áfram kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer 31. janúar. Jana er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Jana hefur starfað innan heilbrigðiskerfisins í um 16 ár og starfar í dag sem deildarstjóri á smitsjúkdómadeild Landspítala. Samhliða hefur hún sinnt hlutverki sínu sem bæjarfulltrúi, bæjarráðsmaður og fulltrúi í velferðarnefnd sl. kjörtímabil og verið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu tveimur Alþingiskosningum.

Jana er gift Magnúsi Pálssyni, aðalvarðstjóra hjá Ríkislögreglustjóra og eiga þau saman tvö börn, Anítu 15 ára og Loga Pál 9 ára. „Mig langar að nýta þá reynslu sem ég hef öðlast á kjörtímabilinu til að halda áfram að leggja mitt af mörkum í uppbyggingu og framþróun í bæjarfélaginu. Ég er full af krafti og vilja til góðra verka í þágu bæjarbúa.“

Magnús Ingi sækist eftir 6. sæti

Magnús Ingi Ingvarsson gefur kost á sér í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram 31. janúar 2026.

Magnús er 32 ára og starfar í dag sem framkvæmdastjóri hjá Þitt öryggi og er einnig formaður Glímufélags Reykjavíkur. Hann er trúlofaður Thelmu Rut Hermannsdóttur og eiga þau saman tvö börn á leik- og grunnskólaaldri.

„Ég hef starfað með fjölbreyttum sviðum innan sveitarfélaga í verkefnum tengdu öryggi, fyrirbyggjandi áætlunum og forvörnum. Ég brenn fyrir málefnum barna og ungmenna og tel ég að kraftar mínir muni nýtast vel í þeim verkefnum sem að framundan eru í okkar frábæra sveitarfélagi.“

Hilmar býður sig fram í 1. sæti

Mosfellingurinn Hilmar Gunnarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista sjálfstæðismanna í komandi sveitarstjórnar­kosningum. Hilmar er flestum kunnugur en hann hefur gegnt stöðu ritstjóra bæjarblaðsins Mosfellings síðastliðin 20 ár. Þá hefur hann m.a. haldið utan um bæjarhátíðina Í túninu heima og félagsheimilið Hlégarð síðustu ár.

Hilmar er giftur Oddnýju Þóru Logadóttur og saman eiga þau synina Kristófer, Loga og Kára. Fjölskyldan hefur alla sína tíð búið í Mosfellsbæ og tekið þátt í samfélaginu af lífi og sál. „Mitt helsta áhugamál er bæjarfélagið Mosfellsbær og því langar mig að taka næsta skref og vinna að framtíð þess.

Ég hlakka til að takast á við nýjar og krefjandi áskoranir – fyrir heimabæinn minn.“

Málar steina á fellin

Það er óhætt að segja að Mosfellsbær sé umkringdur dásamlegri náttúruparadís, fellin okkar og fjöllin, fossarnir og heiðarnar. Mosfellingar eru duglegir að nýta þessa auðlind hvort sem er gangandi, hlaupandi, hjólandi eða ríðandi út.
Farsælt samstarf hefur verið á milli Mosfellsbæjar og Skátafélagsins Mosverja undanfarin ár um að auðvelda Mosfellingum að nýta sér útivistarsvæði í kringum bæinn til útivistar og gönguferða. Stikaðar hafa verið yfir 90 km af gönguleiðum í kringum Mosfellsbæ.
Á svæðinu eru fjölmargir vegprestar og upplýsinga- og fræðsluskilti. Á þessum skiltum eru staðarheiti, vegalengdir og ýmsar fróðlegar upplýsingar, bæði landfræðilegar og sögulegar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Göngukortið má nálgast á vef Mosfellsbæjar, á bókasafninu og í sundlaugunum.

Glaðlegir steinar með spakmælum
Margir göngugarpar hafa orðið varir við skemmtilega nýjung á nokkrum af fellunum okkar. Það eru málaðir steinar í glaðlegum litum með skemmtilegum tilvitnunum. Þessir steinar gleðja og hvetja útivistarfólk. Mosfellingur fór á stúfana í leit að þeim sem væri að koma þessum steinum fyrir. Sú leit skilaði því að það er kona hér í bæ sem er að dunda sér við þetta skemmtilega verkefni, steinakonan kýs að vera nafnlaus og halda áfram að gleðja aðra sem ganga sömu leiðir og hún.
Mosfellingur hvetur alla til að skella sér í fellagöngu til að skoða þessa skemmtilegu steina og þakkar um leið nafnlausu steinakonunni fyrir sitt skemmtilega framlag.

Vildi leggja mitt af mörkum

Hilda Allansdóttir er mikil útivistarkona og eina markmiðið sem hún setur sér er að stunda útiveru á hverjum degi. Hilda sem starfar sem hárgreiðslukona er dugleg að deila með fylgjendum sínum því sem hún er að bralla.
„Ég talaði um það á story hjá mér þann 1. janúar að ég ætlaði að stunda útiveru á hverjum degi og hvatti aðra til að stunda útiveru. Ég byrjaði að stunda fjallahlaup árið 2012 og hef verið að síðan ásamt annarri hreyfingu. Ég byrjaði svo á því fyrir svona þremur árum að skrifa niður þau fjöll og fell sem ég fer á,“ segir Hilda sem meðal annars endaði á að fara 136 ferðir á Esjuna árið sem hún varð 50 ára.

Efndi til söfnunar vegna stríðsins í Palestínu
„Það eru margir sem setja sér markmið um ákveðið margar ferðir á einhver fjöll, ég hef ekki gert þetta en þegar ég kláraði ferð númer 100 á Úlfarsfellið í mars þá fór ég að velta fyrir mér tilganginum með þessum ferðum. Svo verða ferðarnar 150 og svo 200. Þegar ég var komin með 250 ferðir þá kviknaði sú hugmynd að stofna til einhvers konar söfnunar vegna stríðsins í Palestínu.
Ég ákvað að gefa ákveðið framlag á hverja ferð frá 250-300 og talaði um það á mínum miðlum og hvatti þá sem vildu leggja málefninu lið að vera með.“

Gaf máltíð fyrir hverja ferð frá 250-300
Hilda hefur mikla persónulega tengingu til Palestínu, pabbi hennar er þaðan en kom til Íslands þegar hann var 22 ára gamall, hann upplifði það árið 1948 að vera barn í flóttamannabúðum. Hér kynnist hann mömmu Hildu og saman stofnuðu þau fjölskyldu. Hilda ferðaðist mikið til Palestínu sem barn og fjölskyldan bjó þar í tvígang, annars vegar í eitt ár og tvisvar sinnum í sjö mánuði.

Safnaði 388.000 kr. sem runnu til Vonarbrúar
„Ég kynnti mér vel hvað og hvernig ég vildi leggja mitt af mörkum, ég ákvað að ég vildi gefa eina máltíð fyrir hverja ferð frá 250-300 fyrir sveltandi börn og fjölskyldur á Gaza.
Ég ákvað svo að halda smá athöfn á toppnum í ferð 300 sem var 28. ágúst og hvetja vini og vandamenn til að koma. Það endaði þannig að um 50 manns fögnuðu með mér, ég bauð upp á palestínskar veitingar og Ölgerðin og Bætiefnabúllan styrktu drykki og fleira.
Ágóði söfnunarinnar fór til Vonarbrúar sem eru samtök sem eru í beinu sambandi við fjölskyldur á Gaza-svæðinu. Söfnuninn fór fram úr björtustu vonum og endaði í 388.000 kr.,“ segir Hilda að lokum og þakkar öllum sem hjálpuð henni með þetta verkefni.

Það þurfa allir að kunna að bregðast við

Fyrirtækið Þitt öryggi hefur verið starfandi frá árinu 2020. Eigandi þess og framkvæmdastjóri Magnús Ingi Ingvarsson og starfsfólk hans sérhæfa sig í uppsetningu á öryggisferlum, kennslu í líkamlegum inngripum og bjóða upp á sjálfsvarnarnámskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir.
Markmiðið er að veita almenningi þekkingu og færni til að takast á við krefjandi aðstæður sem kunna að koma upp.

Magnús fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1993. Foreldrar hans eru Bryndís Björk Karlsdóttir bókari og Ingvar Magnússon húsasmíðameistari og slökkviliðsmaður.
Magnús á fjóra bræður, Garðar Inga f. 1982, Bjarka Þór f. 1986, Arnór Inga f. 1990 og Karl Stefán f. 2000.

Með tóman poka fyrir aflann
„Ég ólst upp í Grafarvogi og það var gott að alast upp þar, ég líki því gjarnan við Mosfellsbæ. Mikið af ungu fólki með börn og nóg um að vera, maður var því sjaldnast heima við.
Mínar uppáhaldsæskuminningar eru þegar við fjölskyldan vorum að ferðast um landið, fara í útilegur og að veiða. Nú geri ég mitt allra besta til þess að gera það sama fyrir börnin mín. En sú minning sem situr kannski sem fastast eru ferðirnar okkar að Djúpavatni í Selvogi. Þar hélt föðurfjölskylda mín ættarmót árlega, alltaf um hvítasunnuhelgina. Þá lagði maður af stað upp að vatni vopnaður veiðistöng og með tóman poka fyrir aflann. Honum var svo skilað fullum þegar maður kom til baka, þá varð ég stoltur,“ segir Magnús Ingi og brosir.

Jaðaríþróttirnar komu sterkar inn
„Ég gekk í Foldaskóla og hafði gaman af því að vera í skólanum en hafði samt takmarkaðan áhuga á náminu. Ég átti alltaf erfitt með einbeitingu í þeim fögum sem fönguðu ekki áhugasvið mitt en skaraði fram úr þeim sem ég hafði áhuga á.
Fyrir mér þá snerist skólinn fyrst og fremst um félagslífið, mér fannst ég aldrei passa í þennan ramma sem allir áttu að vera í.
Ég átti auðvelt með að halda mér uppteknum á sumrin, var mestmegnis eitthvað utandyra að vesenast. Var í jarðvinnu hjá afa og handlangari hjá pabba í smíðinni. Ég lagði samt alltaf mikið kapp á íþróttir, aðallega knattspyrnu en jaðaríþróttirnar komu líka sterkar inn.
Unglingsárin snerust mestmegnis um að hitta misgóðan vinskap og eltast við stelpur.“

Uppskar sigur í öllum sínum bardögum
Eftir útskrift úr Foldaskóla lá leið Magnúsar Inga í íþróttafræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann hefur einnig komið víða við í módelstörfum, leiklist og áhættuleik og samhliða því ákvað hann að eltast við draum um atvinnumennsku í MMA, bardagaíþrótt sem sameinar tækni úr mismunandi bardagalistum. Magnús þekkti vel til enda búinn að æfa íþróttina í tvö ár en langaði að sjá hvert hann gæti farið með þetta ef hann gæfi sig allan í það.
Árið 2014 var árið sem hann uppskar sigur í öllum sínum bardögum, fjórum talsins og vann alla í fyrstu lotu. Tveimur árum síðar lenti hann í 3. sæti á Evrópumeistaramótinu og í kjölfar mótsins hóf hann feril í atvinnumennsku þar sem hann vann alla sína bardaga í fyrstu lotu. Hann varð Íslandsmeistari í brasílísku jiu jitsui og síðan heimsmeistari viðbragðsaðila í sömu íþrótt 2023 á heimsleikunum í Winnipeg en það var hans síðasta keppni.
Magnús lauk stúdentsprófi frá Keili 2020 og hóf síðan nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands.

Ef veður og vindar leyfa
Magnús Ingi er trúlofaður Thelmu Rut Hermannsdóttur tannlækni. Þau eiga tvö börn, Hektor Frey f. 2019 og Heru Líf f. 2024.
„Okkur fjölskyldunni þykir fátt skemmtilegra en að fara um landið og skoða fallega staði, eins að fara í útilegur og veiðiferðir. Við förum líka mikið í sund og leggjum kapp á að prófa sem flestar sundlaugar landsins. Eins fer mikill tími í það að fylgja syninum eftir í íþróttum sem er einstaklega gaman. Já, það má eiginlega segja að ef veður og vindar leyfa þá erum við sem minnst heima við.“

Þeir þurftu útrás og utanumhald
Þegar Magnús Ingi var ungur að árum hóf hann störf á frístundaheimili, þar hófst ferill hans að starfa með börnum og ungmennum. Hann var fljótt fenginn til að vinna með drengjum sem þurftu auka útrás og utanumhald. Síðar bættist við þjálfun einstaklinga þannig að um tíma starfaði hann sem þjálfari, stuðningsfulltrúi á virkum dögum og sem dyravörður um helgar.
„Árið 2015 hóf ég störf í Vinakoti búsetukjarna, síðar Klettabæ. Þar starfaði ég sem ráðgjafi og deildarstjóri til ársins 2022. Var síðan fenginn til að stýra námskeiðum vegna hæfni minnar í bardagaíþróttum. Þetta voru gefandi ár en gátu verið erfið á köflum.
Ég ákvað síðan að breyta til og hóf þá störf sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og starfaði við það í tvö ár.“

Búa yfir áratuga þekkingu
„Árið 2020 stofnaði ég eigið fyrirtæki, Þitt öryggi. Ég fór í að stýra námskeiðum og gera fyrirbyggjandi áætlanir fyrir búsetukjarna í sjálfsvörn og inngripum en þar var vanþekkingin gríðarleg. Ég var heppinn að hafa aðgengi að frábærum sérfræðingum sem lögðu sitt af mörkum við að aðstoða mig. Þeirra þekking nýttist vel í uppsetningu fyrirbyggjandi áætlana.
Í dag er starfsemin fjölbreytt, við bjóðum upp á hin ýmsu námskeið og fyrirlestra. Við sérhæfum okkur meðal annars í uppsetningu á öryggisferlum, kennslu í líkamlegum inngripum og sjálfsvarnarnámskeið fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir.
Öryggisferlarnir eru í fyrirlestraformi þar sem farið er yfir öryggisatriði, varúðarráðstafanir og notkun á tengslamyndandi nálgun.
Á sjálfsvarnarnámskeiðunum er farið yfir grip og fastatök sem starfsmenn gætu þurft að nýta sér í neyð eða ef til líkamlegra átaka kemur. Námskeiðin eru sérsniðin að hverjum og einum vinnustað fyrir sig. Eins sérhæfum við okkur í að útfæra öryggisferla og námskeið í sjálfsvörn á vinnustað. Umsjónarmenn námskeiðanna búa yfir áratuga þekkingu í félagsþjónustu og sjálfsvörnum.“

Virk í forvarnaverkefnum
„Ég er einnig einn eiganda hjá Reykjavík MMA og starfa þar sem formaður Glímufélags Reykjavíkur. Ég get stoltur sagt frá því að við rekum þar öflugt barna- og ungmennastarf og erum virk í að taka þátt í forvarnaverkefnum með sveitarfélögum og skólum.
Það er bara þannig í lífinu að það þurfa allir að kunna að bregðast við í erfiðum aðstæðum, sama á hvaða aldri maður er. Ef hætta steðjar að þá er betra að kunna réttu handtökin, ekki frjósa, heldur velja sér hlutverk og taka skjótar ákvarðanir,“ segir Magnús Ingi að lokum er við kveðjumst.

Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar

Starf Rótarýklúbbs Mosfellssveitar hefur verið einstaklega fjölbreytt og áhugavert í haust.
Fyrsti fundur starfsársins var haldinn í Rótarýlundinum við Skarhólabraut þar sem Rótarýklúbburinn hóf skógrækt 1991 og nú er lundurinn orðinn útivistarpardís sem er opin öllum.
Marteinn Magnússon rótarýfélagi var heiðraður með Paul Harris orðu fyrir störf sín fyrir klúbbinn og Rótarý. Orðan er veitt fyrir framúrskarandi starf og þjónustu í anda Rótarý. Óskar Örn Ágústsson forseti klúbbsins afhenti Marteini orðuna og fór yfir störf hans fyrir Rótarýhreyfinguna.

Elísabet verður umdæmisstjóri
Félagar úr Rótarýklúbbi Mosfellssveitar fjölmenntu á Umdæmisþing Rótarý í Garðabæ og tóku virkan þátt í starfi þingsins.
Umdæmisþing er í raun aðalfundur Rótarýhreyfingarinnar og um leið árshátíð þar sem félagar alls staðar af landinu koma saman og deila reynslu og þekkingu og gleðjast saman.
Elísabet S. Ólafsdóttir verðandi umdæmisstjóri 2026–2027 bauð til næsta umdæmisþings Rótarýhreyfingarinnar sem verður í Mosfellsbæ í október 2026. Þar munu Rótarýfélagar hvaðanæva af á landinu fjölmenna og eiga saman fróðlega og skemmtilega helgi.

Krakka Mosó verkefnin komin í notkun

Um miðjan október lauk vinnu við að setja upp þau leiktæki sem krakkar í Mosfellsbæ völdu í lýðræðisverkefninu Krakka Mosó.
Nokkrir hressir krakkar tóku sig til í byrjun vikunnar og tóku tækin formlega í notkun en tækin ættu ekki að hafa farið fram hjá krökkum í bænum sem hafa nýtt sér hlýindin í október til að leika sér þar.

Þrjú verkefni kosin til framkvæmda
1) Stór aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli sem er hugsuð fyrir eldri börn og unglinga og var sett upp í Ævintýragarðinum.
2) Þrautabraut á vatni við Stekkjarflötina en fyrirmynd hennar er vatnsþrautabrautin í Kjarnaskógi fyrir utan Akureyri og hentar brautin bæði börnum og unglingum.
3) Loks voru sett upp nokkur tæki á leikvelli við Rituhöfða sem eru snúningsróla, klifurgrind, minna snúningstæki og bekkur. Í því verkefni reyndist nauðsynlegt að gera breytingar frá þeirri tillögu sem kosið var um. Í ljós kom að ekki eru lengur fluttar inn til landsins fjögurra arma snúningsrólur en áður en sú breyting var gerð óskaði bæjarráð eftir umsögn ungmennaráðs um hana. Ungmennaráð samþykkti þá breytingu fyrir hönd krakka í Mosfellsbæ. Rólan er ætluð fyrir börn frá sex ára aldri og sameinar hreyfingu, jafnvægi og gleði á skemmtilegan hátt.

997 börn greiddu atkvæði
Krakka Mosó er þátttökulýðræðisverkefni þar sem nemendur á mið- og unglingastigi grunnskóla Mosfellsbæjar settu fram hugmyndir að verkefnum í opnu samráði.
Skólarnir voru með lýðræðisfræðslu og verkefninu lauk með kosningu þar sem 1.179 voru á kjörskrá. Grunnskólar með mið- og unglingastig í Mosfellsbæ eru Kvíslarskóli, Helgafellsskóli, Lágafellsskóli og Varmárskóli og höfðu nemendur þeirra allir færi á að kjósa.
Alls greiddu 997 börn atkvæði, sem er um 85% kjörsókn. Fulltrúar krakkanna stýrðu talningu atkvæða sem fór fram á kjördag þann 20. maí síðastliðinn og var sumarið notað til að framkvæma verkefnin undir styrkri stjórn garðyrkjudeildar Mosfellsbæjar.

Sundabraut aftur á kortið

Haldinn var kynningarfundur Vegagerðarinnar í síðustu viku þar sem kynntar voru niðurstöður umhverfismats vegna Sundabrautar.
Markmið Sundabrautarverkefnisins er að stytta vegalengdir og bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Það á einnig að létta umferðarþunga á núverandi leiðum, tengja Vestur- og Norðurland betur við höfuðborgarsvæðið og greiða fyrir umferð flutningabíla.

„Nauðsynlegt að af þessari framkvæmd verði sem fyrst”
„Sundabrautin er mjög mikilvæg fyrir okkur í Mosfellsbæ og nauðsynlegt að af þessari framkvæmd verði sem fyrst,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Við höfum því fagnað framkvæmdinni í okkar umsögnum en jafnframt lagt áherslu á Leiruvoginn, að það verði vandlega skoðað hvaða áhrif framkvæmdin hefur á strauma og lífríki svæðisins.“

Fjöldi ökutækja úr 36.000 niður í 20.000 bíla á dag
Reiknað er með að fjöldi ökutækja um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ fari úr 36.000 niður í 20.000 bíla á dag með tilkomu Sundabrautar, samanborið við núllkost árið 2040.
Vegagerðin vonast til að hægt verði að bjóða verkið út á næsta ári. Framkvæmdir gætu þá hafist eftir tvö ár. Verktími yrði sennilega fimm ár þannig að Sundabraut gæti öll verið tilbúin árið 2032, gangi áform stjórnvalda eftir.

Fjárfest í framtíðinni?

Ég skrapp upp á Akranes á laugardaginn. Afturelding hefði getað bjargað sér frá falli úr Bestu deildinni þann dag en fótboltaguðirnir voru ekki með okkur í liði og fall í næstefstu deild er staðreynd. Það þarf yfirleitt nokkrar tilraunir til að komast á toppinn. Víkingur, Breiðablik og Stjarnan hafa ekki alltaf verið á toppnum. Staða þeirra í íslenskum fótbolta í dag byggir á margra ára þrautseigju, vilja, samvinnu og dugnaði. Ef við í Mosfellsbæ viljum komast í þennan góða félagsskap, kvenna– og karlamegin, þurfum við að gera það sama. Halda áfram, bæta við á öllum vígstöðvum, vinna saman og þora að hugsa hátt.

Aðstaða skiptir máli, ekki bara fyrir fótboltann, heldur allar íþróttir og hreyfingu. Góð aðstaða hvetur fólk til dáða, fjallahjólabrautirnar í Ævintýragarðinum eru lítið en mikilvægt dæmi um það. Brautirnar hafa verið mikið notaðar af börnum og unglingum frá opnun og iðkendum fjölgar stöðugt í hjóladeild Aftureldingar.

Hver króna sem sett er í íþróttastarf skilar sér margfalt til baka. Mosfellingurinn Hilmar Ásgeirsson komst að því í BS ritgerð sinni í hagfræði fyrr á árinu að hver króna sem hið opinbera setur í barna- og unglingastarf skilar sér að minnsta kosti tvöfalt til baka fyrir samfélagið vegna þess að það eru minni líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum hjá þeim sem æfa reglulega. Ef félagslegi þátturinn er líka tekinn inn í myndina þá aukast margfeldisáhrifin. Sport England gaf út skýrslu árið 2024 sem metur áhrifin fjórföld. Samkvæmt skýrslunni skilar fjárfesting í aðstöðu og stuðningi við alla aldurshópa fjórfalt til baka í samfélagslegum ábata og stórminnkar álagið á heilbrigðis- og velferðarkerfið.

Skagamenn vígðu nýja íþróttahöll á laugardaginn. Glæsileg keppnishöll í fullri stærð með áhorfendaaðstöðu fyrir innanhúsíþróttir sem á daginn þjónar skólum bæjarins. Þessi fjárfesting á alveg örugglega eftir að skila sér margfalt til baka, fyrir samfélagið allt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. október 2025

Nei, ráðherra! í Bæjarleikhúsinu

Leikfélag Mosfellssveitar frumsýnir gamanleikritið Nei, ráðherra! eftir Ray Cooney þann 10. október í Bæjarleikhúsinu. Leikstjórar eru Aron Martin Ásgerðarson og Elísabet Skagfjörð.
Verkið gerist á Hótel Borg og er týpískur hurðafarsi sem byggir á misskilningi. Ráðherra Samfylkingarinnar, Örvar Gauti Scheving, finnur lík inni á herbergi sínu á Hótel Borg þar sem hann ætlaði að eyða kvöldinu með ritara Miðflokksins, Gógó. Í málið flækjast síðan Guðfinnur Maack, aðstoðarmaður ráðherra, Atli Geir, maður Gógóar, Rannveig, eiginkona Örvars ásamt starfsfólki Hótel Borgar.
Nei, ráðherra! var sýnt í Borgarleikhúsinu 2010/2011 við miklar vinsældir en sýningar verða í Bæjarleikhúsinu á fimmtudags- og laugardagskvöldum.
Miðasala fer fram á tix.is.
Á myndinni eru í aftari röð, frá vinstri: Brynja Sigurðardóttir, Örn Smári, Natalía Erla Arnórsdóttir og Laufey Pálsdóttir. Fremri röð, frá vinstri: Agnes Emma, Hugrún Ylfa Ágústsdóttir, Emil Grettir Ólafsson og Elísabet Tinna Haraldsdóttir. Á myndina vantar Aron Daða I. Jónsson og Björgu Brimrúnu.